Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 180. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 238  —  180. mál.
Leiðréttur texti. Undirskrift.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis
og lögum um kosningar til sveitarstjórna (aðstoð við kosningu).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Sæmundsson og Skúla Guðmundsson frá innanríkisráðuneyti, Freyju Haraldsdóttur frá NPA-miðstöðinni svf., Kristin Halldór Einarsson, Ólaf Þór Jónsson og Pál Rúnar M. Kristjánsson frá Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Karl Gauta Hjaltason úr yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis.
    Umsagnir bárust frá Akraneskaupstað, Akureyrarbæ, Bláskógabyggð, Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, Hrunamannahreppi, Jafnréttisstofu, landskjörstjórn, Mannréttindaskrifstofu Íslands, NPA-miðstöðinni svf., Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum, Reykjavíkurborg, Sveitarfélaginu Skagafirði, yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis, Landssamtökunum Þroskahjálp og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði með skýrum hætti það nýmæli að þeir kjósendur sem lagaákvæðin ná til hafi sjálfir rétt til að ákveða hver aðstoði þá við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi. Þannig verði þeir ekki bundnir við aðstoð kjörstjóra í einrúmi eða fulltrúa úr kjörstjórn til þess að geta greitt atkvæði í kjörklefa.

Leynilegar kosningar skv. 31. gr. stjórnarskrár.
    Nefndin fjallaði um hvort frumvarpið færi í bága við ákvæði 31. gr. stjórnarskrár um leynilegar kosningar. Í umsögn landskjörstjórnar er umfjöllun um hvort skilyrði laga um kosningaleynd og um frjálsar og lýðræðislegar kosningar sé raskað með frumvarpinu miðað við það fyrirkomulag sem nú er. Þar kemur fram að við mat á slíku verði að líta til þeirra frávika sem leyfð hafa verið og þeirrar tillögu sem frumvarpið felur í sér. Í fyrsta lagi sé ekki verið er að stækka þann hóp sem hefur fram til þessa notið aðstoðar kjörstjórnarmanns við atkvæðagreiðslu og í öðru lagi sé takmarkað hverjir mega auk kjörstjórnarmanna aðstoða kjósanda. Í þriðja lagi sé mælt sérstaklega fyrir um málsmeðferð sem miðar að því að tryggja sem best vilja kjósanda til þess að velja sér aðstoðarmann og fyrirmæli um skráningu í kjörbók kjörstjórnar. Nefndin tekur í þessu sambandi fram að fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti líkt og kjörstjórnarmaður og kjörstjóri við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og skal fulltrúi kjósanda staðfesta heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað. Nefndin tekur sérstaklega fram að rof á þagnarheiti er ætíð refsivert.

Málsmeðferð.
    Nefndin fjallaði einnig um þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í frumvarpinu, þ.e. að ef kjósandi sem uppfyllir ákvæði laganna óskar eftir að fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur aðstoði hann er mælt fyrir um að kjörstjóri geri hlé á atkvæðagreiðslu utan kjörfundar þar til aðrir kjósendur hafa lokið við að greiða atkvæði, sbr. 1. gr. Ef um atkvæðagreiðslu á kjörfundi er að ræða skal gert hlé þar til aðrir kjósendur sem kunna að vera í kjörfundarstofu hafa lokið við að greiða atkvæði. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að það mættu ekki vera hnökrar á framkvæmdinni og að framkvæmdin ætti ekki að vera til þess fallin að beina óþarfa athygli að þeim einstaklingi sem í hlut á. Nefndin tekur í því sambandi undir umsögn Blindrafélagsins, samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi, um að kjörstjórn skuli sjá til þess að kjörstaðir séu vel útbúnir fyrir kosningaþátttöku fatlaðs fólks og að framkvæmdin einkennist af nærgætni og virðingu. Framkvæmdin skuli auk þess fara fram með þeim hætti að hún valdi sem minnstri röskun fyrir þann einstakling sem í hlut á og vera sem líkust þeirri framkvæmd sem aðrir kjósendur taka þátt í. Nefndin tekur fram að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að kjörstjórar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar verði að gera ráð fyrir viðhlítandi aðstöðu til þess að geta verið í einrúmi með kjósanda til að ganga úr skugga um að hann geti tjáð vilja sinn óþvingað um að hafa fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur. Þegar um atkvæðagreiðslu á kjörfundi er að ræða, þar sem er fleiri en ein kjördeild, mun hverfiskjörstjórn ætíð sjá um framkvæmd þessa ákvæðis og því ekki gert hlé á kjörfundi vegna þess.

Fulltrúi kjósanda.
    Nefndin fjallaði um ýmis álitaefni varðandi fulltrúa kjósanda en samkvæmt frumvarpinu er lagt upp með það grundvallarmarkmið að fatlað fólk geti valið þann sem það treystir til að aðstoða sig við þann lýðræðislega rétt sem þátttaka í kosningum er.
    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að kjörstjóri skuli heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandinn sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúa sem hann hefur sjálfur valið. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að vegna margbreytileika fötlunar gæti þessi tilhögun um að tjá þurfi með skýrum hætti vilja sinn, verið of þröng. Nefndin tekur í því sambandi fram að með þeim áskilnaði að vilji kjósandans þurfi að vera skýr sé verið að vísa til þess að hann sé ljós, þ.e. að ekki fari milli mála hver vilji kjósanda er að þessu leyti.
    Nefndin tekur einnig fram að skv. 3. mgr. 63. gr. gildandi kosningalaga skal aðstoð við að árita kjörseðil einungis veitt ef kjósandi getur sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Með frumvarpinu er m.a. verið að mæta gagnrýni sem komið hefur fram á þetta ákvæði laganna og verið að rýmka réttindi fatlaðs fólks í þá veru að vilji þess sé skýr.
    Nefndin tekur auk þess fram að samkvæmt frumvarpinu er í reynd gert ráð fyrir margbreytileika fötlunar með ákvæði um að geti kjósandi ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra þennan vilja sinn skuli hann heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandi fram vottorð réttindagæslumanns.
    Nefndin fjallaði nokkuð um ákvæði frumvarpsins um að kjósandi þurfi að geta tjáð kjörstjóra eða kjörstjórn vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúa. Í 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir m.a. að vernda skuli rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslu án þvingana með hótunum og til þess að bjóða sig fram í kosningum. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að þátttaka kjósanda sem undir ákvæðin falla sé óþvinguð þar sem unnt er fyrir þann sem er í hlutverki fulltrúa kjósanda að færa sér aðstöðu sína í nyt. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið í tengslum við þetta um að rétt væri að takmarka fjölda kjósenda sem einn fulltrúi gæti aðstoðað við kosningar þannig að einn fulltrúi gæti ekki aðstoðað fleiri en einn kjósanda, t.d. á stofnun. Nefndin telur eðlilegt að miða við að fulltrúi geti einungis aðstoðað einn kjósanda við kosningar en tekur fram að ef um samhliða kosningar er að ræða, alþingiskosningar og þjóðaratkvæðagreiðslu sem dæmi, þá geti fulltrúinn aðstoðað sama kjósanda við þær. Nefndin leggur því til breytingar á frumvarpinu í þessa veru og enn fremur að það varði refsingu að aðstoða fleiri en einn kjósanda. Þá tekur nefndin einnig fram að vitaskuld þurfi fulltrúinn að uppfylla skilyrði kosningalaga um kosningarrétt, þ.e. 1. gr. laga um kosningar til Alþingis eða 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við á.

Kynning og eftirfylgni.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að í tengslum við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs o.fl. hefur farið fram kynning á fyrirhuguðum breytingum, sem lagðar eru til í frumvarpinu, fyrir formönnum yfirkjörstjórna sem munu kynna þær fyrir öðrum kjörstjórnum. Nefndin telur það grundvallaratriði að breytingarnar séu kynntar ítarlega fyrir þeim og þá sérstaklega fyrir hverfiskjörstjórnum sem munu sinna þessu verkefni þar sem kjördeildir eru fleiri en ein. Nefndin telur auk þess nauðsynlegt að breytingin verði kynnt fyrir þeim sem eiga að njóta þessara réttinda og telur eðlilegt og gengur út frá því að hagsmunafélög fatlaðs fólks, sem hafa kallað eftir þessari réttarbót, kynni breytingarnar fyrir félagsmönnum sínum. Nefndin telur enn fremur nauðsynlegt að Hagstofa Íslands kalli eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um fjölda þeirra sem nýta sér þessi ákvæði ásamt þeim sem nýta það ákvæði sem fyrir er í lögum, þ.e. um aðstoð kjörstjóra og kjörstjórnarmanns á kjörfundi, auk hefðbundinnar tölfræði. Hagstofa Íslands geri samantekt um reynsluna og hvernig ákvæðin eru nýtt sem nýtist fyrir aðrar kosningar og við mat á breytingum á kosningalöggjöf til lengri tíma. Nefndin telur eðlilegt að velferðarráðuneyti leiti til viðkomandi félagasamtaka um hvernig félagsmenn þeirra líta á reynsluna af ákvæðunum en ráðuneytið fer með þennan málaflokk.

    Nefndin leggur auk framangreindra breytinga til að við upptalningu 2. gr. frumvarpsins bætist 79. gr. og við upptalningu í 4. gr. bætist 55. gr. þannig að fulltrúi kjósandans verði að gera grein fyrir sér á kjörstað eins og kjósandinn sjálfur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við fyrri efnismálsgrein 1. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar er fulltrúa kjósandans óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Við fyrri efnismálsgrein bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi er fulltrúa kjósandans óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.
                  b.      Á eftir orðunum „eiga ákvæði“ í síðari efnismálsgrein komi: 79. gr.
     3.      Við 3. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við 126. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef fulltrúi kjósanda skv. 63. eða 86. gr. gerist fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.
     4.      Við 4. gr.
                  a.      Við fyrri efnismálsgrein bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi er fulltrúa kjósandans óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.
                  b.      Á eftir orðunum „eiga ákvæði“ í síðari efnismálsgrein komi: 55. gr.
     5.      Við 5. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við 103. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef fulltrúi kjósanda skv. 63. gr. gerist fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.

Alþingi, 10. október 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Margrét Tryggvadóttir,


frsm.


Álfheiður Ingadóttir.



Björgvin G. Sigurðsson.


Lúðvík Geirsson.


Magnús Orri Schram.



Pétur H. Blöndal.


Unnur Brá Konráðsdóttir.


Vigdís Hauksdóttir.