Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 658  —  132. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999,
með síðari breytingum (lífsskoðunarfélög, aðild barna að skráðum
trúfélögum og lífsskoðunarfélögum o.fl.).


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Svanhildi Þorbjörnsdóttur, Elínu Vigdísi Hallvarðsdóttur og Hermann Sæmundsson frá innanríkisráðuneyti, Snorra Óskarsson frá Betelsöfnuðinum, Henry Alexander Henrysson frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Elísabetu Gísladóttur og Elísabetu Aagot Árnadóttur frá umboðsmanni barna, Steinunni Rögnvaldsdóttur og Odd Sigurðsson frá Femínistafélaginu, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Kristján Val Ingólfsson og Þorvald Víðisson frá Biskupsstofu og Bjarna Jónsson frá Siðmennt. Umsagnir bárust frá Öldu Björgu Lárusdóttur, Betelsöfnuðinum, Dögg Harðardóttur, Femínistafélagi Íslands, félaginu Vantrú, Háskóla Íslands – Siðfræðistofnun, Hvítasunnukirkjunni á Íslandi, Íslensku Kristskirkjunni, KFUM og KFUK, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ólafi Jóni Jónssyni, Sálarrannsóknarfélagi Íslands, Siðmennt og umboðsmanni barna. Nefndin kynnti sér einnig þau erindi sem bárust um frumvarpið á 140. löggjafarþingi.
    Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi (590. mál) og er nú endurflutt nánast óbreytt en gerðar hafa verið breytingar á 4. gr. frumvarpsins, um skilgreiningu á trúfélagi og lífsskoðunarfélagi, með hliðsjón af þeim umsögnum sem bárust nefndinni. Markmið frumvarpsins er tvenns konar, annars vegar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög og stuðla að meiri jöfnuði meðal íbúa landsins gagnvart lögum, óháð trúar- eða lífsskoðunum, hins vegar að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli tilheyra en samkvæmt gildandi lögum skal barn við fæðingu heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.

Aðild að skráðu trúfélagi.
    Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. gildandi laga skal barn frá fæðingu tilheyra sama skráða trúfélagi og móðir þess. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðinu þess efnis að séu foreldrar barns við fæðingu þess í hjúskap eða skráðri sambúð skal það heyra til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en vera ella utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana. Ef foreldrar, sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess, heyra ekki til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli tilheyra. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal barn heyra til sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en ella vera utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið.
    Nokkuð hefur verið gagnrýnt á undanförnum árum það fyrirkomulag sem er í gildandi lögum að barn skuli frá fæðingu tilheyra sama skráða trúfélagi og móðir þess. Fram kom í yfirlýsingu frá Jafnréttisstofu 1. desember 2008 að það væri tæpast í samræmi við jafnréttislög og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn, þ.e. móðerni, ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. Einnig taldi Jafnréttisstofa að ekki væri að sjá að það fælust í því neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður. Nefndin ræddi þessi álitamál en sambærileg sjónarmið komu fram hjá nokkrum umsagnaraðilum. Jafnframt töldu einstakir umsagnaraðilar að betur færi á því að upplýst samþykki barnsins lægi fyrir við skráningu í trúfélag eða lífsskoðunarfélag því að annars væri verið að grafa undan getu barnsins til að taka sjálfstæða ákvörðun. Meiri hlutinn hefur fullan skilning á slíkum sjónarmiðum og telur rétt að haldið sé áfram að skoða þessi álitaefni. Meiri hlutinn telur hins vegar öðru fremur mikilvægt að tiltöluleg sátt sé um þau viðkvæmu mál sem hér um ræðir og leggur því ekki til breytingar í þessa veru að svo stöddu. Ef breytingar eiga í reynd og í framkvæmd að leiða til góðs skiptir máli að engu sé kollvarpað í einni hendingu heldur tekin örugg skref í rétta átt með tilliti til ólíkra sjónarmiða, eins og gert er með fyrirliggjandi frumvarpi. Meiri hlutinn áréttar að með þeim breytingum á aðild að skráðu trúfélagi sem hér eru lagðar til er fyrst og fremst verið að jafna stöðu þeirra sem fara með forsjá barns við fæðingu þess og tryggja jafnræði þeirra. Trúfélagsleg staða barna mun því taka mið af stöðu beggja foreldra innan eða utan trúfélaga.

Trúfélög og lífsskoðunarfélög.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 3. gr. gildandi laga um skilyrði fyrir skráningu trúfélags. Lagt er til að skilyrði skráningar trúfélags verði að um sé að ræða félag sem leggi stund á átrúnað eða trú. Þá er lagt til að skilyrði skráningar lífsskoðunarfélags verði að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miði starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og fjalli um siðfræði eða þekkingarfræði með skilgreindum hætti. Þar að auki er lagt til að félagið hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug, tilgangur þess stríði ekki gegn lögum, góðu siðferði eða allsherjarreglu, að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem taki þátt í starfsemi þess og styðji lífsgildi félagsins. Jafnframt eru sett þau skilyrði að félagið sjái um tilteknar athafnir.
    Í stjórnarskrá lýðveldisins er ekki að finna ákvæði sem vernda iðkun annarrar sannfæringar en trúarlegar. Ákvæði 63. og 64. gr. stjórnarskrárinnar veita eiginlegum trúfélögum, trúarskoðunum og trúariðkun sértæka og ríkari vernd en öðrum trúfélögum eða annars konar sannfæringu en trúarlegri og iðkun hennar. Slík vernd er þó veitt með skýrum hætti í ákvæði 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi. Ákvæði 1.–3. mgr. 18. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eru efnislega sambærileg við 9. gr. mannréttindasáttmálans. Vernd íslensku stjórnarskrárinnar er því lakari en vernd mannréttindasáttmálanna og að mati fræðimanna stangast hún á við 9. gr. mannréttindasáttmálans og 18. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Meiri hlutinn bendir á að upp hafa komið efasemdir um að 63. gr. stjórnarskrárinnar um trúfrelsi uppfylli viðmið 65. gr. um jafnrétti, þ.e. um að ekki megi mismuna sannfæringu eftir því hvort hún er trúarleg eða ekki.
    Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt almenna umsögn um skýringar á ákvæðum 18. gr. samningsins. Þar er lögð áhersla á að hugsana- og samviskufrelsi sé verndað til jafns við trúfrelsi og að verndin sé hvorki takmörkuð við hefðbundin trúarbrögð né sannfæringu eða hefðir sem styðjist við hefðbundin trúarbrögð. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur einnig samþykkt ályktun um afnám trúarlegs óumburðarlyndis en þar eru ríki hvött til að tryggja að stjórnskipun þeirra og lög veiti virka vernd fyrir hugsana-, samvisku- og sannfæringarfrelsi. Sambærileg sjónarmið eru einnig rakin í greinargerð Hjalta Hugasonar, prófessors í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, til stjórnlagaráðs. Meiri hlutinn telur mikilvægt að taka þau mannréttindasjónarmið sem liggja að baki frumvarpinu alvarlega og því sé brýnt að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga til að reyna að tryggja að ekki eigi sér stað mismunun í garð fólks eða hópa vegna trúar þeirra eða lífsskoðunar.

Breytingar á öðrum lögum.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á öðrum lögum til þess að tryggja jafnræði lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög á öllum sviðum samfélagsins. Með þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum um sóknargjöld er gert ráð fyrir að skráð lífsskoðunarfélög öðlist rétt á ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt, sbr. 1. gr. laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987. Fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu að ekki sé hægt að segja fyrir um hversu mikil fjölgun gæti orðið á einstaklingum sem framlag vegna sóknargjalda miðast við þar sem lífsskoðunarfélög muni við skráningu fá greidd framlög úr ríkissjóði vegna sóknargjalda í stað þess að fjármagna sig af sjálfsaflafé. Það er mat hennar að líkur séu á að einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með fjölgi um fleiri hundruð og hugsanlega þúsundir til lengri tíma litið og gera megi ráð fyrir því að þessi fjölgun hafi í för með sér lækkun á einingaverðsviðsmiðun framlaga vegna sóknargjalda. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni lýstu nokkrir umsagnaraðilar yfir sambærilegum áhyggjum. Meiri hlutinn bendir á að með lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, voru gerðar breytingar á reglum um álagningu og innheimtu sóknargjalda. Þessar breytingar miðuðu að því að hlutdeild sókna og kirkjugarða yrði sú sama og verið hafði samkvæmt þágildandi lögum um sóknargjöld. Stuðst var við þau meginsjónarmið við gerð frumvarpsins að kirkjan héldi sínum tekjustofnum óskertum og mikilvægt væri að reglur sem settar yrðu mundu tryggja stöðugleika á tekjustofnum sókna. Jafnframt segir í greinargerð með frumvarpinu að kostir þeirrar leiðar sem valin var við að reikna og skipta umræddum gjöldum séu einkum þeir að hún sé einföld í framkvæmd, tryggi til frambúðar stöðugleika á umræddum tekjustofnum kirkjunnar og fylgi tekjubreytingum. Með hliðsjón af þessu og lögum um sóknargjöld er það mat meiri hlutans að sóknargjöld séu félagsgjöld sem íslenska ríkið hefur tekið að sér að innheimta en ekki framlög úr ríkissjóði með einstaklingum sem ríkissjóður greiði sóknargjöld með. Af þeim sökum tekur meiri hlutinn ekki undir umsögn fjárlagaskrifstofu.
    Árið 2011 skipaði innanríkisráðherra starfshóp til að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi þjóðkirkjunnar. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu til ráðherra í nóvember á síðasta ári og lokaskýrslu 4. maí sl. Meiri hlutinn hefur kynnt sér þessar skýrslur. Þar kemur m.a. fram að með breyttu innheimtufyrirkomulagi hafi það ekki verið ásetningur ríkisvaldsins að skerða tekjustofna sókna þjóðkirkjunnar eða annarra trúfélaga heldur gera innheimtu gjaldanna einfaldari fyrir ríkissjóð. Um þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á lögum um sóknargjöld vill meiri hlutinn árétta að um er að ræða réttarbót sem á ekki að fela í sér skerðingu á sóknargjöldum til annarra trúfélaga heldur eiga breytingarnar að tryggja jafnan rétt ólíkra lífsskoðana.
    Að lokum áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að íslensk lög uppfylli ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Líkt og þegar hefur verið greint frá er eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins að viðhalda jafnrétti og jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, svo og foreldra við ákvörðun um hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barn skuli tilheyra. Meiri hlutinn telur þessi réttindi mikilvæg og breytingarnar sem frumvarpið felur í sér markvisst skref til úrbóta og réttarbót í þessum efnum.
    Með vísan til alls framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Tryggvi Þór Herbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. nóvember 2012.

Björgvin G. Sigurðsson,
form.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
frsm.
Skúli Helgason.

Björn Valur Gíslason.
Lúðvík Geirsson.
Birgitta Jónsdóttir.