Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 456. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 761  —  456. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert
eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum
(álagningarstofnar eftirlitsgjalds).


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Valgerði Rún Benediktsdóttur og Helgu Óskarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Unni Gunnarsdóttur, Ingibjörgu Stefánsdóttur og Aðalstein Leifsson frá Fjármálaeftirlitinu, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Stefán Árna Auðólfsson frá Samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila.
    Á hverju ári er lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit, nr. 99/1999. Frumvarpið byggist á skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, athugun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á henni og áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila í samræmi við 2. gr. laganna. Með fyrirliggjandi frumvarpi eru því lagðar til breytingar á hundraðshlutum eftirlitsgjalda og fastagjöldum sem lögð eru á eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögunum í samræmi við framangreinda skýrslu. Þá er jafnframt lögð til lækkun á fastagjöldum fjármálafyrirtækja sem stýrt er af slitastjórn eða bráðabirgðastjórn óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi fyrirtækisins hefur verið afturkallað.
    Lögum nr. 99/1999 er ætlað að tryggja Fjármálaeftirlitinu nægilegt rekstrarfé til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að frá hruni hafi Fjármálaeftirlitinu verið falin ýmis ný verkefni og auknar skyldur varðandi eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Þá er greint frá því að samhliða því umfangsmikla hlutverki stofnunarinnar við að tryggja virka fjármálaþjónustu hafi stofnunin unnið að uppbyggingu innra skipulags stofnunarinnar að teknu tillit til niðurstaðna úttekta innlendra og erlendra ráðgjafa. Finnski bankasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri skilaði í mars 2009 úttekt þar sem lagt var mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og lagðar til nauðsynlegar úrbætur. Árið 2011 var frönskum sérfræðingi, Pierre-Yves Thoraval, falið að gera úttekt á því hvort Fjármálaeftirlitið stæðist alþjóðlega staðla um bankaeftirlit (e. Basel Core Principles for Banking Supervision, BCP). Í skýrslu sinni komst Thoraval að því að Fjármálaeftirlitið stæðist ekki 12 af 25 tilgreindum stöðlum kjarnareglnanna og gerði hann tillögur að aðgerðum svo að stofnunin gæti uppfyllt þá. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins til efnahags- og viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar árið 2013 kemur fram að gerð hafi verið yfirgripsmikil umbótaáætlun byggð á mati Pierre-Yves Thoraval sem unnið er eftir og í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að áfram verði unnið að uppbyggingu eftirlits stofnunarinnar í samræmi við þá áætlun. Með rekstraráætlun stofnunarinnar fylgir viðauki með umbótaverkefni Fjármálaeftirlitsins 2013–2015 og framtíðarsýn árið 2015. Sérfræðingahópur skipaður Gavin Bingham, Jóni Sigurðssyni og Kaarlo Jännäri skilaði skýrslu sinni í október á þessu ári og þar er rakið að Fjármálaeftirlitið hafi þegar á þessu ári gripið til aðgerða til að bæta úr þeim annmörkum sem Thoraval fann á starfsemi stofnunarinnar. Bent er á að starfsmönnum hafi verið fjölgað og að skipulagi stofnunarinnar hafi verið breytt. Frekari aðgerða væri þó þörf. Ljóst er því að mikil og markviss vinna hefur farið fram til að bæta úr annmörkum á starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Markmið fyrirliggjandi frumvarps er að fjárhagsleg staða Fjármálaeftirlitsins sé áfram tryggð þannig að hún samræmist þessum kjarnareglum og stofnunin uppfylli alþjóðlega staðla. Til að svo megi verða þarf að tryggja stofnuninni nægilegt rekstrarfé, fullnægjandi lagaheimildir til eftirlits, virk ákvæði til framfylgni ákvarðana og sjálfstæði gagnvart öðrum hagsmunum en þeim sem felast í sjálfu eftirlitinu.
    Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2013 hækkar um 1,7% frá yfirstandandi ári, úr 1.912 millj. kr. að frádregnum sértekjum í 1.944 millj. kr. Þó er gert ráð fyrir því að eftirlitsgjald lækki úr 1.859 millj. kr. í 1.743 millj. kr. og nýtt verði yfirfærsla á eigin fé frá fyrra ári að fjárhæð 201 millj. kr. Helstu kostnaðarliðir í rekstri Fjármálaeftirlitsins eru launakostnaður, húsaleiga og rekstur á húsnæði og kostnaður vegna sérfræðiþjónustu. Áætlaður húsnæðiskostnaður hækkar um 13% milli ára, skýrist þetta að hluta til af hækkunum á sameiginlegum rekstrarkostnaði, verðlagshækkunum og vanáætlun á liðnum á árinu 2012. Áætlun um almennan sérfræðikostnað hækkar um 27% milli ára og lýtur stærsti hluti hækkunar að upplýsingatækni. Gert er ráð fyrir stöðugum starfsmannafjölda en að hækkun á launakostnaði verði þó 4%. Hluta þess má rekja til kjarasamningsbundinna launahækkana en jafnframt er gert ráð fyrir hækkun vegna þess að ráðningar á yfirstandandi ári voru á mismunandi tímum ársins en nú er gert ráð fyrir að allir verði við störf frá upphafi árs 2013. Stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins hefur lagt til að laun formanns verði lækkuð úr 600 þús. kr. í 400 þús. kr. á mánuði og að gefnum þeim forsendum ætti launakostnaður vegna stjórnarmanna stofnunarinnar að lækka úr 24,2 millj. kr. í 21,1, millj kr.
    Með frumvarpinu eru lögð til breytt álagningarhlutföll á einstakar tegundir eftirlitsskyldra aðila. Kveðið er á um lækkun álagningarhlutfalls á viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, greiðslustofnanir og rafeyrisfyrirtæki. Lögð er til hækkun á álagningarhlutfalli vátryggingafélaga, vátryggingamiðlara og verðbréfamiðstöðva en álagningarhlutfall þessara aðila lækkaði lítillega fyrir árið 2012. Þá er lögð til hækkun á álagningarhlutfalli verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlara, verðbréfasjóða og kauphalla.
    Lagt er til að lífeyrissjóðir greiði 0,0114% af hreinni eign til greiðslu lífeyris í stað 0,011% líkt og nú er. Þá er lögð til hækkun á fastagjöldum eftirlitsgjalds þeirra sem er í fimm þrepum sem miðast við fjárhæð hreinnar eignar þeirra. Kveðið er á um hækkun álagningarhlutfalls Íbúðalánasjóðs en lækkun álagningarhlutfalls Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.
    Þá er lögð til talsverð lækkun fastagjalda fjármálafyrirtækja sem stýrt er af slitastjórn eða bráðabirgðastjórn. Gjaldið er lagt á fyrirtækin óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hafi starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess hefur verið afturkallað. Er lagt til að gjaldið sé lækkað úr 35 millj. kr. í 6 millj. kr. á viðskiptabanka, úr 18,5 millj. kr. í 3 millj. kr. á aðrar lánastofnanir og úr 8,5 millj. kr. í 1 millj. kr. á önnur fjármálafyrirtæki. Þessu gjaldi er ætlað að standa undir kostnaði við rannsóknarvinnu sem tengist bankahruninu og því hlutverki sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað gagnvart föllnum fjármálafyrirtækjum. Tillaga um lækkun gjaldsins er því gerð í ljósi þess að umfang rannsóknarvinnunnar mun minnka talsvert á komandi ári. Nefndin ræddi hvort ástæða væri til að lækka gjaldið minna á fjármálafyrirtæki sem stýrt er af slitastjórn eða bráðabirgðastjórn og fela Fjármálaeftirlitinu aukið eftirlit með þeim. Meiri hlutinn telur að þetta málefni þurfi frekari skoðunar við enda þurfi þá lagabreytingu á eftirlitsheimildum og eftirlitshlutverki stofnunarinnar. Slík breyting sé auk þess ekki í samræmi við efni fyrirliggjandi frumvarps.
    Álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila er fylgiskjal við fyrirliggjandi frumvarp. Þar kemur m.a. fram að samráðsnefndin telji drög að rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2013 raunhæf. Þá bendir hún á að tekið hafi verið tillit til fyrri ábendinga hennar um starfsmannafjölda og að vexti stofnunarinnar séu settar skýrari skorður. Þar kemur þó jafnframt fram að í fyrri drögum rekstraráætlunar hafi áætlaður starfsmannafjöldi ársins 2013 verið 140 en sé nú áætlaður um 120 enda hafi samráðsnefndin gert athugasemdir við þennan starfsmannafjölda. Meiri hlutinn leggur áherslu á að horft sé til þess að styrkja Fjármálaeftirlitið og tryggja að starfsemi þess sé í samræmi við alþjóðlega staðla og kjarnareglur án þess að fjölga starfsmönnum. Samkvæmt rekstraráætlun er gert ráð fyrir sama fjölda starfsmanna og bendir nefndin á að umfang fjármálakerfisins hefur minnkað síðustu ár og starfsmönnum fjármálafyrirtækja fækkað en starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins hefur á sama tíma fjölgað. Gæta þarf að því að jafnvægi sé milli stærðar Fjármálaeftirlitsins og verkefna þess.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 18. desember 2012.

Helgi Hjörvar,
form., frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Oddný G. Harðardóttir.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Skúli Helgason.
Björn Valur Gíslason.
Lilja Mósesdóttir.