Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 823  —  468. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem einkum miða að því að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við forsendur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 en einnig til að tryggja forsendur nokkurra ráðstafana á útgjaldahlið frumvarpsins og til að fylgja eftir ákvörðunum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga sem gerðir voru á árinu 2011. Breytingunum í frumvarpinu má skipta í fjóra meginflokka. Í fyrsta lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem ætlað er að skila ríkissjóði nýjum tekjum á næsta ári. Í öðru lagi eru breytingar sem viðhalda tekjum ríkissjóðs eða lækka þær frá þessu ári ásamt því að lögfesta nokkrar breytingar á útgjaldahlið fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013. Í þriðja lagi eru breytingar sem snúa að aðgerðum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga. Í fjórða lagi eru hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur frumvarpsins auk smærri breytinga af ýmsu tagi.

Auknar álögur á ferðaþjónustuna.
    Í frumvarpinu er lagðar til mjög auknar álögur á ferðaþjónustuna. Í fyrsta lagi er lagt til að skattþrep virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja og aðra gistiþjónustu verði fært úr lægra skattþrepi virðisaukaskatts, þ.e. 7%, í nýtt 14% skattþrep, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í upphafi virðisaukaskattskerfisins var þessi þjónusta undanþegin virðisaukaskatti skv. 2. gr. laga um virðisaukaskatt og frádráttur innskatts því óheimill. Með lögum nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, var þessu breytt og útleiga hótel- og gistiherbergja gerð skattskyld en sett í lægra skattþrep, þ.e. 14% á þessum tíma. Á árinu 2007 var lægra skattþrepið í virðisaukaskatti lækkað í 7% og hélst útleiga hótel- og gistiherbergja áfram í því þrepi og hefur svo verið síðan.
    Það er mat 1. minni hluta að þessi ráðstöfun sé til þess fallin að grafa undan starfsemi í hótel- og gistibransanum. Á fundum nefndarinnar kom fram mikil andstaða aðila í ferðaþjónustu sem telja hana vera of seint fram komna og til þess fallna að grafa undan þeim rekstri sem skattlagningin beinist að. Auk þess bendir 1. minni hluti á að fulltrúar atvinnulífsins hafi á fundi nefndarinnar varað sérstaklega við þeirri þróun að vera að taka upp 14% virðisaukaskattsþrep. 1. minni hluti telur þessa ráðstöfun einnig til þess fallna að auka líkur á skattundanskotum með auknu flækjustigi skattkerfisins. Ítrekaðar breytingartillögur fjármála- og efnahagsráðherra staðfesta hversu illa hefur verið staðið að þessum skattbreytingum og hversu vanhugsaðar þær eru. Fyrst stóð til að setja gistiþjónustu í 25,5%, síðan bakkað með það með nýju 14% skattþrepi sem tæki gildi 1. maí 2013 og nú síðast með því að leggja til að breytingin taki gildi 1. september 2013.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á vörugjöldum á bílaleigubifreiðar en bílaleigur hafa notið niðurfellingar vörugjalda á ökutæki frá 15. maí 2000. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 8/2000, um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, kemur fram að tillagan um sérstakan afslátt fyrir bílaleigur af vörugjaldi sé í samræmi við þá stefnu að ökutæki sem nýtt eru til atvinnustarfsemi séu án vörugjalds, þjónusta við ferðamenn sem nýti sér bílaleigubíla sé arðvænleg, hátt verð á ökutækjum hafi hamlað uppbyggingu í greininni og því væri markmið breytingarinnar að gera þessa þjónustu betur samkeppnishæfa í samanburði við sömu þjónustu í öðrum löndum. Áætlað er að breytingin skilaði ríkissjóði 500 millj. kr. í tekjur. Á árinu 2011 voru fluttir inn 2.466 bílaleigubílar sem fengu niðurfellingu vörugjalda. Í umsögnum fulltrúa ferðaþjónustunnar kom skýrt fram að með þessari breytingu væri vegið alvarlega að rekstrargrundvelli þessara fyrirtækja. 1. minni hluti telur að rökin fyrir lagabreytingunni á sínum tíma eigi enn ágætlega við, ekki hvað síst í ljósi þeirra áfalla sem riðið hafa yfir bílaleigur á undanförnum árum bæði af völdum manna og náttúrunnar. Hún sé illa undirbúin og vanhugsuð. Meiri hlutinn hefur lagt til breytingar til að reyna að koma til móts við sjónarmið hagsmunaaðila. Það er mat 1. minni hluta að þær breytingar muni þegar til lengri tíma er litið reynast bílaleigum þungur baggi þótt á öðru formi sé.
    Fyrsti minni hluti hvetur því stjórnvöld til að endurskoða þessar tillögur og leita frekari leiða til að einfalda skattkerfi ferðaþjónustunnar, auðvelda rekstur fyrirtækjanna og auka þannig skilvirkni þess og um leið tekjur ríkissjóðs.

Neikvæð áhrif á fjárhag heimilanna.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar hækkanir sem leiða munu til hækkunar verðlagsvísitölu. Má þar einna helst nefna hækkanir á vörugjöldum á bensín, olíugjaldi, kílómetragjaldi, áfengi og tóbaki o.fl. 1. minni hluti telur slíkar hækkanir rýra enn frekar kaupmátt heimilanna samhliða því að verðtryggð lán hækka. Í umsögnum um málið hefur komið fram það mat margra umsagnaraðila að verðlagsáhrif frumvarpsins séu stórlega vanmetin í athuasemdum við frumvarpið. Meiri hluti nefndarinnar hefur nú viðurkennt þetta og leggur til að fallið verði frá verðlagsuppfærslu almenns og sérstaks vörugjalds á bensín (20. og 21. gr.), olíugjalds og kílómetragjalds (29. og 31. gr.) og bifreiðagjalds (33. gr.) sem og útvarpsgjalds (35. gr.) og áfengisgjalds að því er varðar öl og léttvín. 1. minni hluti leggur mikla áherslu á að við mat á áhrifum tekjuöflunarfrumvarpa stjórnvalda verði ætíð upplýst um væntanleg verðlagsáhrif að lágmarki uns almenn verðtrygging neytendalána hefur verið afnumin.

Svikin loforð ríkisstjórnarinnar.
    Frumvarpið gengur einnig gegn þeim loforðum sem ríkisstjórnin setti fram í tengslum við kjarasamninga.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að atvinnutryggingagjald verði lækkað úr 2,45% í 2,05%. Jafnframt er lagt til að almennt tryggingagjald verði hækkað úr 4,99% í 5,29%. 1. minni hluti vekur athygli á því að hækkun almenna tryggingagjaldsins um 0,3% takmarkar möguleika atvinnulífsins til að hækka laun samkvæmt kjarasamningum 1. febrúar nk. og gengur þvert á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011. Áætlað er að þessi hækkun skili 2,9 milljörðum kr. í ríkissjóð árið 2013. Lækkun atvinnutryggingagjaldsins í takt við minnkandi atvinnuleysi var ein af forsendum þess að kjarasamningar voru samþykktir.
    Önnur ákvæði er tengjast kjarasamningum varða afdráttarskatt á vaxtagreiðslur innlendra aðila til erlendra og skattalega meðferð á hagnaði af afleiðusamningum. Meiri hluti nefndarinnar hefur nú lagt til að áfram verði hluti af vaxtagreiðslum skattlagður og að frestað verði að breyta skattalegri meðferð afleiða að sinni. Vert er að benda á að við samþykkt frumvarpsins hefðu afleiður verið meðhöndlaðar á þrjá mismunandi vegu. Mikilvægt er að mati 1. minni hluta að vandað verði til þess verks samhliða því að staðið verði við gefin loforð. Engin lagaskilgreining er til á því hvað afleiður eru. Í skýrslu starfshóps um skattlagningu afleiðuviðskipta segir: „Í stuttu máli mætti því segja að afleiðusamningur væri samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhvers þáttar, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs, verðbréfavísitölu eða hrávöruverðs og er andvirði slíks samnings háð breytingu þessara viðmiðunarþátta á tilteknu tímabili.“
    Í þessu sambandi vill 1. minni hluti benda á að verðtrygging er ákveðin tegund afleiða, svokölluð vísitöluafleiða eða innbyggð afleiða (e. embedded derivative). Réttarágreiningur er uppi um hvort verðtrygging teljist vera flókin afleiða og þar af leiðandi ætti aðeins að bjóðast fagfjárfestum samkvæmt Evrópulöggjöf og lögum um neytendavernd. Spyrja má hvort og þá hvernig eigi að fara með verðbætur sem vísitöluafleiðu skattalega.
    Fyrsti minni hluti vill að lokum taka fram að í frumvarpinu eru ákveðnir þættir sem eru jákvæðir. Má þar nefna breytingar á fyrirkomulagi stimpilgjalda, að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta haldist óbreyttar, hækkun barnabóta og framlengingu verkefnisins „Allir vinna“. Að því sögðu vill 1. minni hluti ítreka andstöðu sína við þá þætti frumvarpsins sem sérstaklega hafa verið tíundaðir í þessu áliti og eru að mati 1. minni hluta þess eðlis að óásættanlegt sé að leiða í lög slíka skattlagningu, álögur og brot á loforðum í tengslum við kjarasamninga.

Alþingi, 20. desember 2012.



Eygló Harðardóttir.