Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 13  —  13. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944,
með síðari breytingum (notkun fánans).


Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Willum Þór Þórsson,
Elsa Lára Arnardóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir,
Frosti Sigurjónsson, Vigdís Hauksdóttir, Þorsteinn Sæmundsson,
Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Einarsson, Höskuldur Þórhallsson,
Jóhanna María Sigmundsdóttir, Karl Garðarsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                  Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru, enda sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Með vöru af íslenskum uppruna er átt við:
              a.      búvöru sem er ræktuð hér á landi,
              b.      vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð,
              c.      nytjastofna sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi,
              d.      vöru, aðra en matvæli skv. a–c-lið og e-lið, sem er hönnuð og framleidd hér á landi þó að hráefni komi erlendis frá,
              e.      matvæli, önnur en matvæli skv. a–c-lið, sem hafa verið framleidd hér á landi í a.m.k. 50 ár eða samkvæmt sérstakri íslenskri hefð.
        Vara telst ekki íslensk að uppruna ef hún er framleidd undir erlendu vörumerki. Óheimilt er að nota fánann í firmamerki. Ráðuneytið veitir leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki sem skal skrásetja.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.
                  Ráðherra sker úr um álitaefni sem upp kunna að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt ákvæði þessu.

2. gr.

    Í stað orðanna ,,1. mgr. 12. gr.“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 1. og 4. mgr. 12. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 12. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944. Breytingin miðar að því að rýmka ákvæði 12. gr. sem heimilar notkun á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á íslenskum vörum.
    Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið er heimilt að nota fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu enda sé sú starfsemi sem í hlut á að gæðum samkvæmt því sem forsætisráðuneyti mælir fyrir um með reglugerð og fánanum sé ekki óvirðing gerð. Gert er ráð fyrir því í ákvæðinu að leyfi sé fengið hjá ráðuneytinu fyrir notkun fánans samkvæmt framangreindu. Þessi málsgrein var lögfest með lögum nr. 67/1998 sem voru undirbúin af nefnd sem var falið að endurskoða lögin, einkum 12. gr. þeirra. Markmið breytingalaganna var að auka frjálsræði í notkun fánans. Það markmið náðist ekki því að aldrei hefur verið sett sú reglugerð sem gert er ráð fyrir í lögunum enda hefur þótt erfitt að skilgreina viðmið um gæði. Þrátt fyrir að framangreind heimild hafi verið í lögunum í um 15 ár hefur enginn fengið leyfi til að nota fánann í þessu skyni.
    Bændasamtök Íslands og Samtök iðnaðarins hafa sent þinginu erindi og ályktað um mikilvægi þess að unnt verði að nota þjóðfána Íslendinga til að auðkenna íslenska framleiðslu. Samtökin telja það styrkja íslenska framleiðslu og þar með atvinnulífið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að nota fánann við markaðssetningu vöru án þess að sérstaklega sé sótt um leyfi til þess. Undantekning frá þessu er þegar fáninn er notaður í vörumerki sem skal skrásetja hjá Einkaleyfastofunni en þá þarf leyfi ráðherra fyrir notkun fánans að liggja fyrir. Orðalagið „íslensk að uppruna“ er nýtt í lögunum og leggur þær skyldur á herðar þeim sem nota fánann að gera það ekki á röngum forsendum eða á villandi hátt. Í greininni er talið upp í nokkrum stafliðum hvað það er sem fellur undir ákvæðið. Samkvæmt a–c-lið eru það búvörur, vörur framleiddar á garðyrkjubýlum, gróðrarstöðvum eða garðyrkjustöðvum og nytjastofnar sjávar veiddir af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Þá getur það einnig talist íslensk vara sem er hönnuð og framleidd hér á landi þó svo að hráefni komi erlendis frá, sbr. d-lið, nefna má sem dæmi fatnað og húsgögn. Enn fremur er í e-lið kveðið á um að önnur matvæli en felast í a–c-lið geti talist íslensk og megi merkja íslenska þjóðfánanum. Þarna undir falla matvæli sem eru ekki ræktuð hér á landi og hráefnið er því ekki endilega íslenskt en getur þó vel verið það. Samkvæmt þessum staflið verður vara að vera framleidd eftir íslenskri hefð, svo sem flatkökur, kleinur, svið, þorramatur o.fl. eða hafa verið framleidd hér á landi í a.m.k. 50 ár þannig að hún hafi skapað sér sérstöðu hér á landi sem vara sem Íslendingar þekkja sem íslenska vöru.
    Þau sjónarmið sem búa að baki frumvarpinu lúta fyrst og fremst að því að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem heyrir undir a–c-lið, gengið að því vísu að vara sem er merkt íslenska þjóðfánanum sé í raun íslensk að uppruna. Enn fremur að þeir sem setja vöru á markað og vilja setja hana til virðingar sem vöru með íslenskan uppruna, til dæmis til að ná athygli erlendra ferðamanna, geti merkt hana þjóðfána Íslendinga sem væri þá merki um uppruna og ákveðin gæði.
    Samkvæmt 8. gr. laga um þjóðfánann og ríkisskjaldarmerkið sker forsætisráðuneytið úr um ágreining um rétta notkun fánans. Hnykkt er á þessu í 2. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins en sönnunarbyrði um að hráefni vöru sé íslenskt hvílir á þeim sem heldur því fram.
    Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að það geti varðað viðurlögum ef brotið er gegn 4. mgr. 12. gr.
    Frumvarp þetta svarar til frumvarps sem var lagt fram á 141. löggjafarþingi (39. mál) en fékkst ekki útrætt. Einnig lagði þáverandi forsætisráðherra fram lagafrumvörp sem fólu í sér sambærilega breytingu en þau fengust ekki heldur útrædd (532. mál á 138. löggjafarþingi og 532. mál á 139. löggjafarþingi).