Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 135  —  80. mál.




Skýrsla


forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis 2016 auk yfirlits yfir framkvæmd ályktana frá árunum 2013–2015.


    Skýrsla þessi er lögð fram í samræmi við fyrirmæli 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Markmið hennar er að veita Alþingi yfirsýn yfir eftirfylgni framkvæmdarvaldsins með ályktunum þingsins. Til umfjöllunar er framkvæmd þeirra ályktana Alþingis frá árinu 2016 sem kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar og meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra. Þá er hér einnig að finna yfirlit yfir framkvæmd ályktana þrjú ár aftur í tímann, þ.e. frá árunum 2015, 2014 og 2013. Undanskilin eru þau málefni þar sem lög kveða á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar, sbr. fyrrnefnt ákvæði laga um þingsköp Alþingis.
    Forsætisráðuneytið aflaði upplýsinga um framangreind efni frá viðkomandi ráðuneytum og tók saman eftirfarandi yfirlit.

Ár Staða ályktana/efnisatriða – eftir ráðuneytum
2016 Lokið: 30 (þar af 12 v/staðfestingar) – ANR 3, FJR 2, IRR (DMR/SRN) 2, MRN 2, UAR 1, UTN 19, VEL 1
Hafið: 32 – FOR 2, ANR 1, FJR 2, IRR 4, MRN 4, UAR 3, UTN 9, VEL 7
Ekki hafið: 5 – FJR 1, IRR (DMR/SRN) 2, UAR 1, VEL 1
Fjöldi þingmála: 59 (4 vörðuðu fleiri en eitt ráðuneyti, svar hvers ráðuneytis er talið sérstaklega hér fyrir ofan)
2015 Lokið: 22 (þar af 13 v/staðfestingar) – FOR 1, ANR 2, FJR 1, UAR 3, UTN 15
Hafið: 5 – IRR 1, UTN 2, VEL 2
Fjöldi þingmála: 27
2014 Lokið: 28 (þar af 6 v/staðfestingar) – FOR 1, ANR 3, FJR 1, IRR (DMR/SRN) 2, MRN 3, UAR 1, UTN 12, VEL 5
Hafið: 19 – ANR 3, IRR (DMR/SRN) 3, MRN 2, UAR 2, UTN 4, VEL 5
Fjöldi þingmála: 45 (1 varðaði fleiri en eitt ráðuneyti, svar hvers ráðuneytis er talið sérstaklega hér fyrir ofan)
2013 Lokið: 14 (þar af 9 v/staðfestingar) – FOR 1, IRR (DMR/SRN) 1, MRN 1, UTN 10, VEL 1
Hafið: 6 – FOR 1, MRN 2, UAR 1, UTN 2
Fjöldi þingmála: 20

    Umræddar þingsályktanir á árunum 2013–2016 voru samtals 142 (en efnisatriði í nokkrum þeirra vörðuðu fleiri en eitt ráðuneyti). Auk þess vísuðu þingnefndir níu málum til ríkisstjórnarinnar (eitt þeirra unnu tvö ráðuneyti í sameiningu). Af framangreindum 142 þingsályktunum voru 40 vegna staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar. Slíkar ályktanir eru reglubundinn þáttur í þinglegri meðferð EES-mála og fela í sér afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sem kallar á lagabreytingar á Íslandi. Þær hafa því nokkra sérstöðu miðað við aðrar ályktanir, af margvíslegri tilefnum.
    Svör ráðuneytanna fara hér á eftir, skipt eftir árum, og miðast almennt við stöðu viðkomandi máls í ágúst–september 2017.

Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2016.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 52/145 um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma, 2. júní 2016 – þskj. 1500.
– Framkvæmd hafin.
    Vinna við gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma, sbr. þingsályktun nr. 52/145, verður unnin með og samhliða langtímaáætlanagerð á grundvelli laga um opinber fjármál, sbr. nánar svar forsætisráðherra við fyrirspurn um málið á 146. löggjafarþingi, þingskjal 306 89. mál.

Þingsályktun 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands, 13. október 2016 – þskj. 1828 (sameiginleg með mennta- og menningarmálaráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun þessi var samþykkt í tilefni þess að árið 2018 er öld liðin frá því er íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918. Ályktunin felur í sér að ráðast skuli í eftirfarandi verkefni í tilefni af fullveldisafmælinu og er staðan á framkvæmd þeirra sem hér segir:
     a.      Kjósa nefnd með fulltrúum allra þingflokka er undirbúi hátíðahöld árið 2018 í samræmi við ályktunina; nefndin ráði framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir þörfum og eins og fjárveitingar leyfa og starfi árin 2017 og 2018.
                 Sjö manna undirbúningsnefnd var kjörin af Alþingi 22. desember 2016 og hóf störf í janúar 2017. Nefndin réð framkvæmdastjóra vegna undirbúnings hátíðahaldanna sem hóf störf 1. júní sl.
     b.      Halda hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí 2018 en þann dag fyrir einni öld var samningum um fullveldi Íslands lokið.
                 Undirbúningur hátíðarfundar er hafinn og er í höndum Alþingis.
     c.      Fela ríkisstjórninni að efna til hátíðahalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi; jafnframt efni ríkisstjórnin af því tilefni til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit.
                 Undirbúningur hátíðahaldanna 1. desember 2018 er hafinn og er í höndum forsætisráðuneytisins. Ráðuneytið hefur jafnframt hafið undirbúning að samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags Stjórnarráðsreits í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Framkvæmdasýslu ríkisins. Verkefnið felur annars vegar í sér stefnumörkun varðandi uppbyggingu á Stjórnarráðsreit í samráði við Reykjavíkurborg og í framhaldi af því samkeppni um skipulag reitsins, og hins vegar samkeppni um viðbyggingu austan við gamla Stjórnarráðshúsið fyrir forsætisráðuneytið. Búið er að skipa í dómnefndir og vinna er hafin við gerð samkeppnislýsingar. Stefnt er að því að auglýsa samkeppnirnar í febrúar 2018 og að dómnefndir ljúki störfum í nóvember sama ár. Standa vonir til þess að hægt verði að kynna niðurstöður 1. desember 2018.
     d.      Fela undirbúningsnefnd að:
                  1.      láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918;

                      Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur vinnur nú að ritun bókar um aðdraganda sambandslaganna, efni þeirra og framkvæmd. Þá mun rit um inntak fullveldisréttar innihalda 8–10 fræðigreinar um það efni. Sögufélag annast umsýslu og útgáfu bókanna samkvæmt samningi þar um og í samræmi við greinargerð með ályktuninni. Áætlaður útgáfudagur er 1. nóvember 2018.
                  2.      stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar;
                      Undirbúningur er hafinn í samstarfi við Árnastofnun, Listasafn Íslands og Þjóðskjalasafn.
                  3.      stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi;
                      Samið hefur verið við Sögu forlag um heildarútgáfu Íslendingasagna. Áætlaður útgáfudagur er 1. júní 2018.
                  4.      hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.
                      Undirbúningsnefnd hefur átt í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, mennta- og menningarmálaráðuneytið o.fl. í því skyni að hvetja skóla til að beina sjónum sínum að tímamótunum. Nefndin heldur úti vefsíðunni www.fullveldi1918.is þar sem heildardagskrá afmælisársins verður birt. Á síðunni má einnig finna margs konar fræðsluefni. Undir yfirskriftinni „Námsefni fyrir börn og ungt fólk“ á vefsíðunni getur að líta námsefni fyrir grunnskóla sem samið var af Helga Grímssyni, kennsluleiðbeiningar o.fl. Undir flokknum „Fræðsluefni og greinar“ verður safnað saman ýmsum fróðleik sem snýr að fullveldinu og árinu 1918. Það efni mun m.a. gagnast elsta skólastigi og framhaldsskólum, bæði í kennslu og við verkefnavinnu, og er unnið í samstarfi við Vísindavefinn, Landsbókasafn o.fl. Þá er unnið að gerð verkefnabanka fyrir öll skólastig í samvinnu við Menntamálastofnun og mennta- og menningarmálaráðuneytið, auk þess sem kortlögð verða landsverkefni fyrir ungt fólk og þau hvött til þess að líta til tímamótanna. Loks er stefnt að því að gera efni fyrirlestra og ráðstefna, sem tekið verður upp á afmælisárinu, aðgengilegt á vefsíðunni og unnið verður að gerð fræðslumyndbands um sambandslögin og aðdraganda þeirra. Myndbandið verður birt á vefsíðunni og mun m.a. nýtast í skólum, sendiráðum Íslands, svo og hjá samstarfsaðilum.
     e.      Fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.
                 Ráðgert er að í endurskoðaðri fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2022 verði gert ráð fyrir fjármunum vegna uppbyggingar safnsins. Í frumvarpi til fjárlaga 2018 er gert ráð fyrir 290 m.kr. framlagi vegna sýningarhalds Náttúruminjasafns Íslands.
     f.      Fela ríkisstjórninni að undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni.
                 Um þetta atriði er fjallað annars staðar í skýrslunni, undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     g.      Fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.
                 Endurskoðun á stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum er á lokastigi. Þingvallanefnd mun von bráðar taka hana formlega til umfjöllunar og kynna hana með auglýsingu. Þá hefur verið samið, í kjölfar útboðs, við tiltekinn verkefnahóp um gerð sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar. Er stefnt að því að sýningin verði opnuð næsta sumar í nýrri og stækkaðri gestastofu á Hakinu.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 22/145 um að styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál, 16. mars 2015 – þskj. 1030.
– Framkvæmd lokið.
    Veruleg samskipti og samstarf eru við Grænland og Færeyjar á sviði sjávarútvegsmála, m.a. funda sjávarútvegsráðherrar landanna árlega. Ekki hefur annað komið fram en að allar þjóðirnar vilji auka og efla þetta samstarf í framtíðinni.

Þingsályktun 24/145 um stefnu um nýfjárfestingar, 16. maí 2016 – þskj. 1032. – Framkvæmd lokið.
    Í ályktuninni kemur fram að efla skuli nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestinga. Í því skyni verði lögð áhersla á nýfjárfestingarverkefni:
     1.      sem byggjast á styrkleikum Íslands og sérstöðu,
     2.      sem stuðla að aukinni fjölbreytni og afleiddri innlendri starfsemi,
     3.      sem ýta undir vöxt alþjóðlega samkeppnishæfs þekkingariðnaðar,
     4.      sem styðjast við nýjustu og bestu fáanlegu tækni og umhverfisviðmið, m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015,
     5.      sem skapa innlendan virðisauka og hafa margföldunaráhrif, t.d. með samstarfi við starfandi íslensk fyrirtæki og með fjárfestingum í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum,
     6.      sem skila sem mestum virðisauka og innleiða nýja þekkingu.
    Íslandsstofa fer með markaðs- og kynningarstarf á Íslandi sem fjárfestingarkosti þegar kemur að nýfjárfestingum og hefur stofunni verið falið að vinna í samræmi við þær áherslur sem koma fram í þingsályktuninni. Þingsályktunin er því komin til framkvæmda.

Þingsályktun 38/145 um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, 2. júní 2016 – þskj. 1459. – Framkvæmd lokið.
    Framkvæmd hefur verið í samræmi við þingsályktun að teknu tilliti til aukningar í aflamarki.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Veruleg samskipti og samstarf eru við Grænland á sviði sjávarútvegsmála þar sem þessi mál hafa verið rædd.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er í samstarfi við Grænland um málefni ferðaþjónustu m.a. á vettvangi Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA) og undir merkjum vestnorræna ferðamálasamstarfsins NATA.
    Íslensk fyrirtæki hafa mörg hver komið að vatnsaflsverkefnum á Grænlandi, m.a. með ráðgjöf. Í undirbúningi er að kanna, m.a. hjá Orkustofnun, hvernig unnt er að efla samstarf og ráðgjöf á sviði slíkra verkefna.
    Til skoðunar er samkomulag um þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu. Að svo stöddu liggja ekki fyrir drög að slíku samkomulagi.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti).
– Framkvæmd vegna a-liðar ekki hafin.
    
Með þingsályktuninni lýsti Alþingi stuðningi við söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefði á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og fól ríkisstjórninni að leita leiða til að efla tengsl og samvinnu við Grænland með áherslu á m.a. vinnu við gerð samkomulags sem tryggði fullt tollfrelsi varðandi sölu varnings og þjónustu og jafnhliða yrði unnið að því að ryðja öðrum hindrunum úr vegi greiðra viðskipta og þátttöku í atvinnulífi. Málið hefur ekki verið tekið til sérstakrar skoðunar.

Þingsályktun 54/145 um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021, 18. ágúst 2016 – þskj. 1557. – Framkvæmd lokið.
    
Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, sem kveða á um að ríkisstjórn skuli, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu sem ráðherra leggi fram sem tillögu til þingsályktunar svo fljótt sem auðið er. Þingsályktunin var lögð fram á Alþingi 29. apríl 2016 og samþykkt 18. ágúst sama ár. Þingsályktun 55/145 um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021, sem lögð var fram samhliða fjármálastefnunni og var samþykkt 18. ágúst 2016, og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017, sem lagt var fram 6. desember 2016 og varð að lögum 22. desember sama ár, byggjast í meginatriðum á þingsályktuninni um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021.
    Segja má að í fjárlögum fyrir árið 2017 og þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sé að finna yfirlit yfir meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig þær athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

Þingsályktun 55/145 um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021, 18. ágúst 2016 – þskj. 1558. – Framkvæmd lokið.
    
Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli 5. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, sem kveður á um að ráðherra skuli eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Þingsályktunin var lögð fram á Alþingi 29. apríl 2016 og samþykkt 18. ágúst sama ár og nær yfir tímabilið 2017–2021 og var í samræmi við þingsályktun 54/145 um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2021. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017, sem lagt var fram 6. desember 2016 og varð að lögum 22. desember sama ár, byggist í meginatriðum á þeirri fjármálaáætlun sem þingsályktunin fjallar um.
    Segja má að í fjárlögum fyrir árið 2017 og þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sé að finna yfirlit yfir meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig þær athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

Nefndarálit velferðarnefndar, 31. ágúst 2016, um frumvarp til laga um byggingarsjóð Landspítala – þskj. 1612 á 145. löggjafarþingi (sameiginlegt með velferðarráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    
Í nefndarálitinu sem samþykkt var með atkvæðagreiðslu 7. september 2016 var frumvarpinu vísað til ríkisstjórnarinnar og því beint til hennar að hún ynni að frekari úrbótum á húsakosti Landspítala bæði með því að ljúka byggingu nýs spítala sem og með úrbótum á núverandi húsakosti sem unnt er að nýta áfram. Af hálfu ríkisstjórnarinnar er unnið að því að ljúka byggingu nýs Landspítala 2023 eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar, 12. október 2016, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum – þskj. 1812 á 145. löggjafarþingi.
– Framkvæmd hafin.
    Með frumvarpinu var lagt til að þjónusta og vörusala íþrótta- og æskulýðsfélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi þeirra yrði undanþegin virðisaukaskatti. Einnig var lagt til að íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélög fengju endurgreiddan virðisaukaskatt vegna tilgreinds kostnaðar við íþróttamannvirki á árinu 2016. Markmið frumvarpsins voru að styðja við starfsemi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga, einkum sjálfboðaliðastarf og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Mál svipaðs efnis voru lögð fram á 143. og 144. löggjafarþingi (487. og 411. mál).
    Efnahags- og viðskiptanefnd lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem fjármála- og efnahagsráðherra hafði skipað stýrihóp sem vinna skyldi að endurskoðun á reglum um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins. Lagði nefndin jafnframt til að tillögurnar yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum ásamt öðrum atriðum sem verið hefðu til umræðu hjá nefndinni, t.d. hvað varðar virðisaukaskatt af bókum, tónlist og starfsemi efnisveitna. Stýrihópurinn hefur enn ekki lokið starfi sínu og bíður þetta mál því endanlegrar afgreiðslu af hans hálfu.

INNANRÍKISRÁÐUNEYTI (DÓMSMÁLARÁÐUNEYTI OG SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTI FRÁ 1. MAÍ 2017)
Nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar, 23. febrúar 2016, um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (samfélagsþjónusta ungra brotamanna) – þskj. 885 á 145. löggjafarþingi.
– Framkvæmd hafin.
    Samkvæmt umræddu nefndaráliti var frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum vísað til ríkisstjórnarinnar. Refsiréttarnefnd hefur til skoðunar hvort sú samfélagsþjónusta sem verið hefur á verksviði fangelsismálastofnunar verði ákveðin með því að dómstólar dæmi viðkomandi til samfélagsþjónustu.

Þingsályktun 18/145 um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna, 15. mars 2016 – þskj. 1015 (sameiginleg með mennta- og menningarmálaráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Hinn 15. mars 2016 var samþykkt þingsályktunartillaga þar sem Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember, dagurinn sem barnasáttmálinn var samþykktur, yrði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Í nefndaráliti með tillögunni kemur fram að nefndin telji nauðsynlegt að leggja áherslu á kynningu og fræðslu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og vert að nefna að slíkir fræðadagar séu nú þegar viðhafðir, m.a. til fræðslu um íslenska tungu og íslenska náttúru. Mikilvægt sé að auka þekkingu barna á réttindum og skyldum sínum með því að leggja áherslu á kynningu og fræðslu almennt um mannréttindi í samfélaginu og sér í lagi í skólum landsins. Slík fræðsla hljóti að eiga að vera þáttur í almennu skólastarfi og samtvinnuð því með ýmsum hætti. Fyrir árin 2016 og 2017 var leitað til Barnaheilla – Save the Children á Íslandi til sjá um framkvæmdina á deginum í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Þingsályktun 21/145 um greiningu á möguleikum þess að móta sameiginlega langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum, 16. mars 2016 – þskj. 1029. – Framkvæmd ekki hafin.
    Samgöngur eru grunnstoð í vestnorrænu samstarfi. Þær gera löndin búsetuhæf og eru forsenda samkeppnishæfni landanna þriggja. Ekki er neitt formlegt samstarf um stefnu í uppbyggingu innviða eða samgöngum milli landanna. Engu að síður er vaxandi samstarf og gerðir hafa verið samningar um sameiginlega hagsmuni í flugi, flugumsjón og flugleiðsögu sem og vísir að vaxandi samstarfi um siglingar og vöruflutninga. Ljóst er að samstarf landanna á þessu sviði mun aukast með vaxandi flutningum, og með opnun nýrra siglingaleiða um norðurslóðir sem og aukins pólflugs mun samþætting í stefnu og samstarf verða sífellt mikilvægara.

Nefndarálit umhverfis- og samgöngunefndar, 2. júní 2016, um tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi – þskj. 1474 á 145. löggjafarþingi. – Framkvæmd lokið.
    Vegagerðin hefur farið yfir málið m.a. með aðstoð verkfræðistofu. Fram kom að úrbætur væru kostnaðarsamar en mismunandi eftir því hve mikið yrði lagt í hvern áningarstað. Síðan bætist við rekstrarkostnaður. Ekki eru fjárveitingar þessu tengdar á fjárlögum til Vegagerðarinnar eða til að standa straum af uppbyggingu og rekstri áfangastaða.

Þingsályktun 49/145 um áhættumat vegna ferðamennsku, 2. júní 2016 – þskj. 1497. – Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var innanríkisráðherra falið að koma því til leiðar að ríkislögreglustjóri gerði áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku, eftir atvikum í samstarfi við Ferðamálastofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umhverfisstofnun og aðra aðila á vettvangi ferðamála, öryggis- og björgunarmála og náttúruverndar. Í framhaldi af því yrði kannað og metið hvort ástæða þætti til að setja sérstakar reglur um ferðir á þeim svæðum sem falla í efsta áhættuflokkinn. Innanríkisráðuneytið óskaði eftir við ríkislögreglustjóra að umrætt áhættumat yrði gert. Ríkislögreglustjóri hefur þegar hafið frumgreiningu vegna slíks mats. Ítarlegt hættumat getur hins vegar tekið tvö til fjögur ár. Mikilvægt er að það sé gert í samvinnu við almannavarnanefndir og mun ríkislögreglustjóri beina því til almannavarnanefnda að gera slíkt mat. Þá er mikilvægt að áfram verði gerð úttekt á ferðamannastöðum á vegum Stjórnstöðvar ferðamála.

Þingsályktun 57/145 um endurskoðun laga um lögheimili, 7. september 2016 – þskj. 1641. – Framkvæmd hafin.
    Hinn 26. júní 2017 var skipuð þriggja manna nefnd til að endurskoða lög um lögheimili, m.a. í samræmi við þingsályktun 57/145. Gert er ráð fyrir að vinnu nefndarinnar ljúki í árslok.

Þingsályktun 65/145 um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018, 12. október 2016 – þskj. 1801. – Framkvæmd hafin.
    Miðað er við að sérstakri skýrslu verði skilað til Alþingis um framkvæmd samgönguáætlunar fyrir árið 2016 með svipuðu sniði og undanfarin ár.

Þingsályktun 67/145 um framkvæmd fýsileikakönnunar á stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna, 13. október 2016 – þskj. 1825. – Framkvæmd ekki hafin.
    Umrædd fýsileikakönnun hefur ekki verið framkvæmd.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 18/145 um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna, 15. mars 2016 – þskj. 1015 (sameiginleg með innanríkisráðuneyti, nú dómsmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti).
– Framkvæmd lokið.
    Barnasáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013. Hinn 15. mars 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skyldi helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en þá er afmælisdagur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Barnaheillum – Save the Children á Íslandi var falið af innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að sjá um að skipuleggja daginn. Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um réttindi sem öll börn eiga að njóta, án mismununar. Til þess að réttindin nýtist öllum börnum er mjög mikilvægt að þau þekki réttindi sín og samfélagið allt þekki í hverju þau felast og hvaða skyldur sáttmálinn leggur á samfélagið. Þannig eiga lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla, aðalnámskrár skólastiganna og grunnþættir menntunar að tryggja mannréttindi barna og endurspegla barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Í fyrsta sinn sem Dagur mannréttinda barna var haldinn árið 2016 var áhersla lögð á kynningu í skólum landsins. Barnaheill opnuðu þá nýja vefsíðu, www.barnaheill.is/dagurmannrettindabarna, með fræðsluefni um mannréttindi barna fyrir þrjú skólastig; leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Öllum skólum landsins var sent kynningarbréf þar sem þeir voru hvattir til að halda upp á daginn og nýta sér efnið á vefsíðunni.
    Samtökin stóðu jafnframt fyrir gerð fjögurra myndbanda sem send voru skólunum til sýninga. Það efni sem nú þegar er á síðunni mun nýtast um ókomin ár á degi mannréttinda barna.
    Myllumerkið #dagurmannrettindabarna var stofnað og hvatt til notkunar þess. Mennta- og menningarmálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti sömdu við Barnaheill um að sjá um fræðslu í tengslum við daginn árið 2017 og gert er ráð fyrir að ráðuneytin muni semja við Barnaheill um að sjá árlega um daginn með fjölbreyttum hætti í samráði við ráðuneytin í ljósi þess fjármagns sem er til ráðstöfunar.

Þingsályktun 41/145 um lýðháskóla, 2. júní 2016 – þskj. 1482. – Framkvæmd hafin.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur unnið að upplýsingaöflun um rekstur lýðháskóla á Norðurlöndum sem meðal annars hefur falist í að kynna sér starfsemi Lýðháskóla í Danmörku með heimsókn til Samtaka danskra lýðháskóla og þriggja lýðháskóla með áherslu á íþróttir og heilsueflingu.
    Einnig hefur verið fundað með stjórn lýðháskóla á Norðurlöndum þar sem rætt var um faglegt og fjárhagslegt innihald laga um lýðháskóla á Norðurlöndum og þann mun sem er á lagaumhverfi lýðháskóla landanna og endurspeglast í framkvæmd þeirra. Jafnhliða þessu hafa lög um lýðháskóla á Norðurlöndum verið rýnd. Nú er unnið að undirbúningi frumvarpsgerðar í ráðuneytinu.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Verið er að leggja lokahönd á endurnýjaðan samning milli Færeyja, Grænlands og Íslands um samstarf á sviði menningar, mennta og vísinda sem á að gilda fyrir árin 2017–2020.
    Ný lög um Grænlandssjóð hafa tekið gildi, nr. 108/2016. Skipun stjórnar samkvæmt ákvæðum 2. gr. er í undirbúningi.

Þingsályktun 44/145 um eflingu náms í mjólkurfræði, 2. júní 2016 – þskj. 1485. – Framkvæmd lokið.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur leitað leiða til þess að ná markmiðum þingsályktunarinnar um eflingu náms í mjólkurfræði. Áfram er miðað við að íslenskir mjólkurfræðinemar stundi nám sitt í Kold College í Danmörku. Skoðaður hefur verið sérstakur fjárstuðningur vegna námsins en huga þarf að jafnræði gagnvart öðrum fámennum iðngreinum. Ekki hefur verið farin sú leið að leita samninga við erlend ríki hvað varðar mjólkurfræðina enda eru námsleiðin opin íslenskum ríkisborgurum hafi þeir tilskilinn undirbúning og fari í heildstætt nám í mjólkurfræði. Nemendur í mjólkurfræði hafa aðgang að LÍN eins og aðrir nemendur sem stunda nám í erlendum skólum.

Þingsályktun 47/145 um Laxnesssetur að Gljúfrasteini í Mosfellsbæ, 2. júní 2016 – þskj. 1488. – Framkvæmd hafin.
    Hinn 22. desember 2016 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra vinnuhóp sem hefur það verkefni að fara yfir fyrirliggjandi gögn um hugmyndir um byggingu Laxnessseturs við Gljúfrastein og endurmeta þau með vísan til þingsályktunarinnar, og jafnframt gera tillögur um næstu skref í málinu. Vinnuhópurinn hefur lokið störfum og skilaði skýrslu sinni til ráðuneytisins í október 2017.

Þingsályktun 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands, 13. október 2016 – þskj. 1828 (sameiginleg með forsætisráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Með vísan í 3. mgr. þingsályktunartillögunnar ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni.
    Haustið 2016 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra stýrihóp til að hafa umsjón með kortlagningu á tækni fyrir máltækni, stefnumörkun og vali á tæknilegri útfærslu fyrir íslensku. Nefndinni var einnig falið að gera stöðumat á íslenskum gagnasöfnum og nákvæma fjárhags- og verkáætlun fyrir fimm ára máltækniáætlun. Stýrihópur um íslenska máltækni skilaði til ráðherra í júní 2017 skýrslunni Máltækni fyrir íslensku 2018–2022 auk skýrslu starfshóps um stöðu og framtíð menntunar á sviði máltækni og minnisblaði um brýn máltækniverkefni.
    Niðurstöður skýrslunnar eru þessar helstar:
    Verkáætlun. Í skýrslunni er lögð áhersla á þrjá meginþætti til að tryggja að íslenska verði valkostur í tækniheiminum; uppbyggingu innviða, nýsköpun í máltækni og samstarf og klasamyndun. Lagt er til að sjálfseignarstofnunin Almannarómur verði miðstöð fyrir áætlunina. Aðalmarkmið miðstöðvarinnar er að sjá til þess að verkefni áætlunarinnar verði í höndum sérfræðinga, stofnana og fyrirtækja sem verði fengin til þess að útfæra þau, sjá um samhæfingu milli verkefna og tengsl við atvinnulífið og tryggja góð samskipti aðila verkefnisins við atvinnulífið og við erlend fyrirtæki og stofnanir þannig að þeir innviðir og tækni sem þróuð eru í verkefninu komist í notkun.
    Menntun. Lagt er til að þverfaglegt meistaranám í máltækni í samvinnu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík haldi áfram og verði endurskipulagt og eflt með þátttöku fleiri deilda innan skólanna en verið hefur. Tekið verði inn í námið á hverju ári.
    Kostnaður. Áætlaður heildarkostnaður áætlunarinnar árin 2018–2022 er 2.338 millj. kr. Af því er gert ráð fyrir að framlag nýsköpunarfyrirtækja verði 500 millj. kr. en ríkissjóður verði að leggja til 1.838 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður og kostnaður við menntun á sviði máltækni og CLARIN-samstarfið verði 75 millj. kr. á ári.
    Verið er að vinna verkefnis-, framkvæmda- og kostnaðaráætlun í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 19/145 um landsskipulagsstefnu 2015–2026, 16. mars 2016 – þskj.1027.
– Framkvæmd hafin.
    Landsskipulagsstefna 2015–2026 var samþykkt á Alþingi 16. mars 2016. Með landsskipulagsstefnu er sett fram heildstæð stefna á landsvísu um skipulagsmál. Í landsskipulagsstefnu er mörkuð stefna um skipulag á miðhálendi Íslands, skipulag í dreifbýli, búsetumynstur og dreifingu byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum. Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags. Landsskipulagsstefna hefur einnig áhrif á áætlanir stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun og byggðaþróun. Að auki felur landsskipulagsstefna í sér sérstök framfylgdarverkefni til að hrinda tilteknum markmiðum stefnunnar í framkvæmd. Í landsskipulagsstefnu 2015–2026 eru tilgreind ýmis verkefni til að stuðla að framfylgd stefnunnar og styðja skipulagsgerð sveitarfélaga. Af þeim verkefnum sem tilgreind eru í landsskipulagsstefnu hefur umhverfis- og auðlindaráðherra sérstaklega beint því til Skipulagsstofnunar, í samvinnu við aðrar stofnanir og sveitarfélög, að hefja vinnu við kortlagningu víðerna og kortlagningu mannvirkja og þjónustu og mat á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja á miðhálendinu. Einnig eru verkefni um fræðslu og miðlun upplýsinga um skipulagsmál og umhverfismat vindorkunýtingar. Auk þess mun umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinna að leiðbeiningum um flokkun landbúnaðarlands fyrir skipulagsgerð. Haustið 2016 gaf Skipulagsstofnun út Landsskipulagsstefnu 2015–2026, ásamt greinargerð. Í útgáfunni er efni þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015–2026 sett fram ásamt þeim skýringum við stefnuna sem er að finna í athugasemdum með þingsályktunartillögunni sem umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fyrir Alþingi árið 2015. Stofnunin hefur einnig látið gera stutta kynningarmynd um landsskipulagsstefnu þar sem lýst er viðfangsefnum og áherslum stefnunnar í máli og myndum.
    Vinna að framfylgdarverkefnum landsskipulagsstefnu kallar á náið og gott samráð og samstarf ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og eftir atvikum annarra aðila. Í því skyni hefur Skipulagsstofnun stofnað samráðsvettvang sem er ætlað að stuðla að góðri upplýsingamiðlun og samráði við framfylgd stefnunnar. Skipulagsstofnun hefur í samstarfi við sveitarfélög og stofnanir hafið vinnu við kortlagningu mannvirkja og þjónustu á miðhálendinu. Það er eitt af framfylgdarverkefnum landsskipulagsstefnu 2015–2026 og er hluti af stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands. Kortlagningunni er ætlað að gefa heildstæða yfirsýn yfir núverandi mannvirki, húsakost og framboð þjónustu á hálendinu sem mun nýtast við næstu endurskoðun landsskipulagsstefnu. Afurðir verkefnisins nýtast einnig við vinnslu annarra framfylgdarverkefna landsskipulagsstefnu, svo sem greiningar víðerna, mats á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja og nánari stefnumótunar um vegakerfi miðhálendisins. Niðurstöður verkefnisins verða teknar saman í skýrslu þar sem dregin verður upp mynd af núverandi stöðu fyrir hálendið í heild og einstök sveitarfélög.
    Skipulagsstofnun hefur auk þess hafið undirbúning að kortlagningu víðerna á hálendinu og gerð leiðbeininga um skipulagsmál og umhverfismat vindorkunýtingar.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti). – Framkvæmd ekki hafin.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur ekki tekið upp tvíhliða samstarf við grænlenskar stofnanir, en vinnur með fulltrúum Grænlands, m.a. á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurskautsráðsins. Ráðuneytið hefur almennt ekki tekið mikinn þátt í tvíhliða samstarfi ríkja þar sem töluvert er umleikis í fjölþjóðlegu samstarfi á vettvangi alþjóðastofnana og alþjóðasamninga, sem er krefjandi verkefni fyrir litla stjórnsýslu.

Þingsályktun 46/145 um stofnun loftslagsráðs, 2. júní 2016 – þskj. 1487. – Framkvæmd hafin.
    Ráðuneytið svaraði fyrirspurn um framkvæmd þingsályktunarinnar fyrr á árinu og í skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra um loftslagsmál til Alþingis, sem rædd var á þingi í mars á þessu ári, er fjallað um loftslagsráð og möguleg verkefni þess. Loftslagsráð hefur ekki verið skipað, en stefnt er að því að það taki til starfa á næsta ári. Nú er unnið að gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og fyrirhugað er að ráðið fái hlutverk við að fylgja þeirri áætlun eftir, auk þess sem því verða falin verkefni sem miða að því að efla starf í loftslagsmálum í samræmi við ályktun Alþingis. Reynt verður að tryggja að hlutverk loftslagsráðs styðji við starf stjórnvalda og annarra í loftslagsmálum, en leiði ekki til tvítekningar verkefna.

Þingsályktun 48/145 um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum, 2. júní 2016 – þskj. 1496. – Framkvæmd hafin.
    Ekki hefur verið skipaður sérstakur starfshópur til að gera skýrslu um efldar hafrannsóknir með tilliti til súrnunar hafsins, eins og þingsályktunin kveður á um. Hins vegar hafa tvö skref verið tekin sem styðja við efni þingsályktunarinnar og eiga að leiða til eflingar starfi gegn súrnun hafsins.
    Nú er að störfum ritnefnd undir formennsku Veðurstofu Íslands sem vinnur að gerð þriðju vísindaskýrslu á vegum íslenskra stjórnvalda um væntanleg áhrif loftslagsbreytinga á Ísland. Að beiðni ráðuneytisins á nefndin að fjalla sérstaklega um súrnun hafsins í skýrslunni. Ráðuneytið taldi eðlilegt að skýrslan lægi fyrir áður en farið væri að vinna í sérstakri áætlun um rannsóknir sem tengjast súrnun hafsins, enda á skýrslan að draga fram bestu þekkingu og leiða um leið í ljós hvar gloppur kunni að vera í þeim efnum.
    Nú í september skrifaði umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir hönd Íslands undir skjal um þátttöku í bandalagi gegn súrnun hafsins (ACOA – International Alliance to Combat Ocean Acidification) þar sem fyrir eru fjögur ríki, héraðsstjórnir og samtök sem vilja efla rannsóknir og vitund um súrnun hafsins. Engar bindandi skuldbindingar fylgja þátttöku Íslands, en aðilar eiga að vinna að markmiðum bandalagsins.
    Ráðuneytið hyggst vinna á grunni þingsályktunarinnar, vísindaskýrslunnar og þátttöku í ACOA og styrkja starf tengt rannsóknum og vöktun á súrnun hafsins, auk þess að stuðla að vitundarvakningu. Ljóst er að umhverfis- og auðlindaráðuneytið getur ekki unnið eitt og sér að framgangi ályktunarinnar því að hafrannsóknir eru ekki á könnu þess en leitað verður samstarfs með öðrum ráðuneytum og viðkomandi stofnunum til að hrinda henni í framkvæmd.

Þingsályktun 50/145 um bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum, 2. júní 2016 – þskj. 1498. – Framkvæmd lokið.
    Samkvæmt ályktun Alþingis frá 2. júní 2016 um bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum var umhverfis- og auðlindaráðherra falið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, að móta áætlun sem miðaði að því að kurluðu dekkjagúmmíi yrði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það væri að finna. Vinnuhópur sem skipaður var í kjölfarið skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að áætlun í desember 2016.
    Útgefin áætlun er í samræmi við tillögur skipaðs vinnuhóps og gerir ráð fyrir því að fyrir árslok 2019 verði búið að skipta kurluðu dekkjagúmmíi út fyrir hættuminni efni á 60% allra leik- og íþróttavalla þar sem laust kurl kemst í beina snertingu við iðkendur, 80% leik- og íþróttavalla fyrir árslok 2022 og að verkinu verði lokið að fullu fyrir árslok 2026. Til að fylgjast með framvindu mála mun Umhverfisstofnun meta innleiðingu og árangur áætlunarinnar í lok hvers tímabils og upplýsa umhverfis- og auðlindaráðuneytið um stöðu mála.
    Fram kom í almennum tilmælum sem Umhverfisstofnun setti fram árið 2016, um dekkjakurl sem fylliefni á gervigrasvöllum, að kurl sem unnið væri úr hjólbörðum innihéldi hættuleg efni í litlu magni. Stofnunin benti á að ætíð væri æskilegt að draga úr notkun heilsu- og umhverfisskaðlegra efna. Þá upplýsti stofnunin að rannsóknir hefðu ekki sýnt fram á að notkun dekkjakurls ylli heilsufarslegum skaða, en beindi því þó til aðila sem bera ábyrgð á gervigrasvöllum að við endurnýjun vallanna eða við lagningu nýrra valla yrði notast við aðrar lausnir.
    Efnastofnun Evrópu (ECHA) hefur komist að sömu niðurstöðu og mælir ekki gegn notkun íþróttavalla með dekkjakurli á forsendum núverandi þekkingar. Ekki eru til reglur eða viðmið sem segja til um hvenær endurnýja eigi velli með gúmmíkurli. Aftur á móti hefur verið áætlað að eðlilegt sé að endurnýja kurl á völlum á um tíu ára fresti, en það fer einnig eftir ásigkomulagi vallanna.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 10/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 23. febrúar 2016 – þskj. 876.
– Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2016.

Þingsályktun 11/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 116/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 23. febrúar 2016 – þskj. 877. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júní 2016.

Þingsályktun 12/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 23. febrúar 2016 – þskj. 878. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2016.

Þingsályktun 13/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 23. febrúar 2016 – þskj. 879. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2016.

Þingsályktun 14/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 23. febrúar – þskj. 880. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. mars 2016 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Liechtenstein um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 15/145 um fullgildingu stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu, 23. febrúar – þskj. 881. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn öðlaðist gildi 4. mars 2016.

Þingsályktun 16/145 um fríverslunarsamning við Japan, 1. mars 2016 – þskj. 924. – Framkvæmd hafin.
    EFTA-ríkin reyndu á fyrri hluta síðasta áratugar að fá Japana til að hefja fríverslunarviðræður, en Japanar höfðu ekki áhuga á slíkum viðræðum við EFTA-ríkin í heild, m.a. vegna þess að þeir vildu ekki opna markað sinn fyrir íslenskum og norskum sjávarafurðum. Á endanum fór svo að Sviss gerði eitt og sér fríverslunarsamning við Japan á árinu 2009. Af þeim sökum hefur ekki verið möguleiki á að EFTA-ríkin geri sameiginlega fríverslunarsamning við Japan, enda hefur Sviss ekki tekið vel í þá hugmynd að samningurinn verði uppfærður með þeim hætti að Ísland og Noregur gerist aðilar að samningnum, auk þess sem sjávarafurðir eru að verulegu leyti undanþegnar tollfríðindum í samningi Japans og Sviss.
    Íslensk stjórnvöld hafa í kjölfarið ítrekað farið þess á leit við japönsk stjórnvöld að hefja fríverslunarviðræður. Japanar hafa hins vegar hingað til ekki verið tilbúnir til að fara út í slíkar viðræður.
    Í þessu sambandi má nefna heimsókn Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, til Japans í nóvember 2014. Megintilgangur þeirrar heimsóknar var að ítreka áhuga Íslands á fríverslunarviðræðum. Á fundi hans með Fumio Kishida, þáverandi utanríkisráðherra Japans, kom skýrt fram að af Japans hálfu væri ekki áhugi til að hefja slíkar viðræður. Nokkrum mánuðum fyrir heimsókn Gunnars Braga hafði þáverandi skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins einnig farið til Japans og átt þar fundi með embættismönnum og fengið sömu skilaboð.
    Áhugi Íslands á fríverslunarviðræðum hefur einnig margsinnis verið ítrekaður á fundum með fyrrverandi og núverandi sendiherrum Japans hér á landi, án þess að það hafi leitt til sérstakrar niðurstöðu. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í apríl sl. fund með sendiherra Japans hér á landi og í kjölfarið átti Stefán H. Jóhannesson ráðuneytisstjóri einnig fund með sendiherranum. Þrátt fyrir jákvæða afstöðu sendiráðsins til mögulegra fríverslunarviðræðna var skýrt tekið fram á þessum fundum að stjórnvöld í Tókýó hefðu ekki enn tekið neina ákvörðun um að hefja fríverslunarviðræður við Ísland. Loks hafa fyrrverandi og núverandi sendiherrar Íslands í Tókýó ítrekað tekið málið upp við japanska embættismenn, án árangurs.
    Fyrirhuguð er heimsókn utanríkisráðherra til Japans snemma á næsta ári og verður sú heimsókn nýtt til að þrýsta enn frekar á um að ráðist verði í gerð fríverslunarsamnings á milli landanna.
    Fulltrúar úr utanríkismálanefnd Alþingis heimsóttu Tókýó í mars í fyrra í boði japanska þingsins og áttu þar fundi með ýmsum aðilum, þ.m.t. forseta þingsins, sérstökum vináttuhópi Íslands í þinginu, utanríkismálanefnd þingsins, efnahagsráðherra Japans og þinglegum aðstoðarutanríkisráðherra Japans. Í ferðinni hélt sendinefndin á lofti nýlegri þingsályktun Alþingis um fríverslunarsamning við Japan. Bent var á að slíkur samningur mundi örva viðskipti á milli landanna, en frá sjónarhóli Íslands væri einkum mikilvægt að tryggja fríverslun með sjávarafurðir.
    Útflutningur frá Íslandi til Japans á árinu 2016 nam 12 milljörðum kr., eða sem svarar til 2,2% heildarútflutnings frá Íslandi á árinu. Helstu útflutningsvörur voru kísiljárn, frystar afurðir grálúðu, loðnu, hvals, karfa, makríls og síldar, æðardúnn, kísildíoxíð og lambakjöt. Áætla má að heildartollgreiðslur af innflutningi til Japans á árinu 2016 hafi numið um 280 millj. kr. Japansmarkaður hefur um árabil verið einn af mikilvægustu mörkuðum heims fyrir íslenskar sjávarafurðir. Að undanskildum einstökum ríkjum EES-svæðisins var Japan næsthelsta útflutningslandið fyrir íslenskar afurðir á árinu 2016, á eftir Bandaríkjunum, en Kína kemur þar á eftir með útflutning sem nemur 11 milljörðum kr.

Þingsályktun 20/145 um greiningu á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði, 16. mars 2016 – þskj. 1028. – Framkvæmd lokið.
    Utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu 22. ágúst 2016 þar sem ákveðið var að setja á stofn vinnuhóp embættismanna til að vinna að tillögum um samstarfssamning milli landanna þriggja og kanna möguleika á gerð fríverslunarsamnings milli landanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að ráðherrarnir væru að framfylgja ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2015 þar sem hvatt var til þess að ríkisstjórnir landanna þriggja kæmu á fót vinnuhópi sem í ættu sæti viðkomandi sérfræðingar og hefði það verkefni að kortleggja sameiginlegan ávinning af því að gera sameiginlegan fríverslunarsamning milli landanna þriggja.
    Vinnuhópurinn, sem skipaður var embættismönnum utanríkisráðuneyta vestnorrænu landanna þriggja, skoðaði möguleika á gerð fríverslunarsamnings milli landanna í samræmi við fyrrgreinda ályktun Vestnorræna ráðsins, með því að Grænland gengi inn í Hoyvíkursamninginn eða með sérstökum samningi. Í þessu sambandi upplýstu fulltrúar Grænlands hins vegar að frekari skoðun og samráð væri nauðsynlegt á Grænlandi áður en hægt væri að taka ákvörðun um hugsanlegan fríverslunarsamning við Ísland og/eða Færeyjar. Í samræmi við það kom fram í niðurstöðum vinnuhópsins að þörf væri á frekari skoðun í Grænlandi á möguleikum á gerð fríverslunarsamnings milli vestnorrænu landanna áður en hægt yrði að hefja viðræður um slíkan samning.
    Fyrrgreindur vinnuhópur ræddi jafnframt um mögulegan ávinning af stofnun vestnorræns viðskiptaráðs. Í því sambandi varð niðurstaða vinnuhópsins sú að stofnun og rekstur slíkra viðskiptaráða um viðskipti milli tiltekinna landa, þ.m.t. vestnorræns viðskiptaráðs, væru almennt í höndum fulltrúa atvinnulífsins og einkaaðila fremur en stjórnvalda viðkomandi landa. Af þeim sökum taldi vinnuhópurinn að eðlilegra væri að fulltrúar þeirra aðila fremur en fulltrúar stjórnvalda landanna mundu meta mögulegan ávinning af stofnun vestnorræns viðskiptaráðs. Fulltrúar vinnuhópsins samþykktu jafnframt að upplýsa núverandi fulltrúa þeirra viðskiptaráða sem eru starfandi milli landanna (Færeysk-íslenska viðskiptaráðið og Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið) um þessa niðurstöðu.

Þingsályktun 25/145 um fullgildingu bókunar um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna, 17. mars 2016 – þskj. 1044. – Framkvæmd hafin.
    Fullgildingarskjöl Íslands afhent 9. júní 2016. Samningurinn hefur ekki enn öðlast gildi.

Þingsályktun 26/145 um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, 13. apríl 2016 – þskj. 1166. Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu var samþykkt á Alþingi 13. apríl 2016, en hún byggist á tillögum þingmannanefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi fól utanríkisráðherra að setja á fót með þingsályktun nr. 45/139 frá 16. september 2011.
    Lög nr. 98, um þjóðaröryggisráð, voru samþykkt á Alþingi 1. september 2016. Hefur ráðið komið saman í tvígang, en því er meðal annars ætlað að hafa eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar.

Þingsályktun 29/145 um stuðning við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, 3. maí 2016 – þskj. 1231. – Framkvæmd lokið.
    Umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu var samþykkt á ráðherrafundi Norðurskautsríkja í Fairbanks í Alaska í maí 2017.

Þingsályktun 30/145 um fullgildingu breytinga á Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn viðvíkjandi glæpum gegn friði, 17. maí 2016 – þskj. 1292. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn öðlaðist gildi 17. júní 2017.

Þingsályktun 31/145 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2016, 17. maí 2016 – þskj. 1293. – Framkvæmd lokið.
    Samningnum, sem var einungis til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 31. desember 2015.

Þingsályktun 32/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 293/2015 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1351. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Noregi um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 33/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 252/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1352. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2016.

Þingsályktun 34/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1353. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2016.

Þingsályktun 35/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1354. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2016.

Þingsályktun 36/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 197/2015 um breytingu á I. viðauka (Heilbrigði dýra og plantna) við EES-samninginn, 25. maí 2016 – þskj. 1355. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2016.

Þingsályktun 39/145 um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró), 2. júní 2016 – þskj. 1462. – Framkvæmd lokið.
    Viðbótarsamningurinn öðlaðist gildi 5. júní 2017.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og velferðarráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu 22. ágúst 2016 þar sem ákveðið var að setja á stofn vinnuhóp embættismanna til að vinna að tillögum um samstarfssamning milli landanna þriggja og kanna möguleika á gerð fríverslunarsamnings milli landanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að ráðherrarnir væru að framfylgja ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2015 þar sem hvatt var til þess að ríkisstjórnir landanna þriggja kæmu á fót vinnuhópi sem í ættu sæti viðkomandi sérfræðingar og hefði það verkefni að kortleggja sameiginlegan ávinning af því að gera sameiginlegan fríverslunarsamning milli landanna þriggja.
    Vinnuhópurinn, sem skipaður var embættismönnum utanríkisráðuneyta vestnorrænu landanna þriggja, skoðaði möguleika á gerð fríverslunarsamnings milli landanna í samræmi við fyrrgreinda ályktun Vestnorræna ráðsins, með því að Grænland gengi inn í Hoyvíkursamninginn eða með sérstökum samningi. Í þessu sambandi upplýstu fulltrúar Grænlands hins vegar að frekari skoðun og samráð væri nauðsynlegt á Grænlandi áður en hægt væri að taka ákvörðun um hugsanlegan fríverslunarsamning við Ísland og/eða Færeyjar. Í samræmi við það kom fram í niðurstöðum vinnuhópsins að þörf væri á frekari skoðun í Grænlandi á möguleikum á gerð fríverslunarsamnings milli vestnorrænu landanna áður en hægt yrði að hefja viðræður um slíkan samning.
    Þá er einnig að störfum vinnuhópur um samstarf Íslands og Grænlands í flugmálum. Hópnum er ætlað að kortleggja möguleika á auknu samstarfi á sviði flugmála, m.a. með það að markmiði að auka ferðamannastraum og viðskipti á milli landanna tveggja. Hópurinn vinnur nú drög að skýrslu þar sem tillögur að leiðum að auknu samstarfi verða lagðar fram. Hópurinn er skipaður fulltrúum utanríkis- og samgönguráðuneyta beggja landa sem og fulltrúa Isavia og Mittarfeqarfiit.
    Utanríkisráðuneytið hefur reynt að aðstoða við eflingu Vestnorræna ráðsins, m.a. með því að stuðla að pólitísku samráði og fylgjast eins vel með fundum ráðsins og unnt er. Í sambandi við ársfund Vestnorræna ráðsins 31. ágúst 2017 skrifuðu utanríkisráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja undir samning sem meðal annars miðar að auknu samstarfi varðandi viðskipti sem og önnur sameiginleg hagsmunamál, núverandi og þau sem upp geta komið í framtíðinni.
    Í samningum kemur einnig fram að utanríkisráðherrar allra þriggja landanna muni hittast árlega á samráðsfundi um viðskipti og utanríkismál. Löndin muni skiptast á að halda fundi en stefnt er að því að þeir verði haldnir í tengslum við ársfundi Vestnorræna ráðsins. Ráðherrarnir geta stofnað vinnuhópa til að vinna að ákveðnum afmörkuðum málum.

Þingsályktun 45/145 um stuðning Íslands við að koma á alþjóðlegu banni við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla, 2. júní 2016 – þskj. 1486. – Framkvæmd hafin.
    Utanríkisráðuneytið fylgist með þessum málaflokki og hefur tekið málið upp á norrænum samráðsfundum. Á alþjóðavettvangi eru þessi mál ekki mikið til umræðu að svo stöddu.

Þingsályktun 59/145 um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, 13. september 2016 – þskj. 1664. – Framkvæmd hafin.
    Staðfestingarskjöl Íslands afhent 28. september 2017; samningurinn hefur ekki enn öðlast gildi.

Þingsályktun 60/145 um fullgildingu Parísarsamningsins, 19. september 2016 – þskj. 1682. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn öðlaðist gildi 4. nóvember 2016.

Þingsályktun 61/145 um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 20. september 2016 – þskj. 1693. – Framkvæmd hafin.
    Samningurinn öðlaðist gildi 23. október 2016. Þá hefur stýrihópur Stjórnarráðsins í mannréttindum fullgildingu valkvæðs viðauka samningsins til skoðunar en ekki er ljóst hvenær þeirri vinnu lýkur.

Þingsályktun 62/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn, 20. september 2016 – þskj. 1690. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 6. október 2016 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2017.

Þingsályktun 64/145 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (evrópskar reglur um fjármálaeftirlit), 23. september 2016 – þskj. 1699. – Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktun þessari var ríkisstjórninni heimilað fyrir fram að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn um að fella inn í samninginn gerðir um evrópskar reglur um fjármálaeftirlit, og breytingu á samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði i fjármálaeftirlits. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar tóku gildi í september 2016.
Þingsályktun 68/145 um stuðning við alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum, 13. október 2016 – þskj. 1826. – Framkvæmd hafin.
    Utanríkisþjónustan hefur beitt sér um árabil á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fyrir vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum líkt og þingsályktun 68/145 kveður á um, m.a. á vettvangi öryggisráðsins, þ.m.t. í meðflutningi á ályktunum, sbr. ályktun öryggisráðsins nr. 2286 (2016) frá maí 2016.
    Frá samþykkt ályktunarinnar hefur meðal annars verið haldin norræna ræða fyrir Íslands hönd um Sýrland þar sem þess var krafist að árásum á heilbrigðisstofnanir og -starfsfólk yrði hætt tafarlaust. Þá var af hálfu Íslands tekið undir norræna ræðu í öryggisráðinu 25. maí 2017 um öryggi almennra borgara á átakasvæðum, þ.m.t. heilbrigðisstarfsfólks, og var Ísland meðflytjandi að árlegri ályktun allsherjarþingsins um öryggi mannúðarstarfsfólks líkt og undanfarin ár. Utanríkisþjónustan mun áfram vinna í samræmi við þingsályktun 68/145.

Þingsályktun 69/145 um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu, 13. október 2016 – þskj. 1827. – Framkvæmd hafin.
    Utanríkisráðuneytið hefur verið í sambandi við Geimvísindastofnun Evrópu og átt fundi með starfsmönnum hennar, m.a. framkvæmdastjóra, í því augnamiði að safna upplýsingum um starfsemina, kostnað og þjóðréttarlegar skuldbindingar í samræmi við þingsályktunina.
    Utanríkisráðuneytið hefur enn fremur sett á laggirnar starfshóp ráðuneyta, stofnana, fyrirtækja og háskólasamfélagsins til að vinna að framgangi ályktunarinnar.

VELFERÐARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 27/145 um skrá um sykursýki og skimun fyrir sykursýki, 28. apríl 2016 – þskj. 1203.
– Framkvæmd hafin.
    Hinn 28. apríl 2016 ályktaði Alþingi að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem fengi það verkefni að móta viðbrögð við vaxandi nýgengi sykursýki. Hópurinn skyldi sérstaklega meta þörfina á skipulagðri skráningu sykursýki á Íslandi og reglulegri skimun fyrir sykursýki hjá áhættuhópum. Við matið skyldi miðað við að heilsugæslan veitti ráðgjöf samhliða skimuninni og fylgdi henni eftir þegar við á. Heilbrigðisráðherra skipaði starfshópinn 26. október 2016 og var fyrsti fundur hópsins haldinn 11. nóvember. Í starfshópnum eru fulltrúar stærstu heilbrigðisstofnana, svo sem Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri, heilsugæslunnar, Embættis landlæknis og samtaka sjúklinga og fagstétta. Starfshópurinn hefur fundað reglulega og unnið að tillögum í samræmi við hlutverk hópsins. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu á haustmánuðum og ráðherra kynni hana fyrir Alþingi í framhaldinu.

Þingsályktun 28/145 um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, 29. apríl 2016 – þskj. 1217. – Framkvæmd hafin.
    Megináherslur geðheilbrigðisáætlunar snúa að geðrækt og forvörnum, samþættri þjónustu í nærumhverfi og því að minnka fordóma gagnvart fólki sem glímir við geðraskanir. Vel gengur að fylgja áætluninni eftir. Geðheilsuteymi er starfandi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og stefnt er að fjölgun geðheilsuteyma í samræmi við áætlun. Sálfræðiþjónusta hefur verið efld innan heilsugæslu um land allt og stefnt er að því að ná markmiðum þessa áfanga árið 2019. Þjónusta Barna- og unglingageðdeildar Landspítala hefur verið styrkt og fyrirhugaðar eru áframhaldandi fjárveitingar til eflingar henni fram til ársins 2019. Embætti landlæknis hefur verið falið að skipa starfshóp um sjálfsvígsforvarnir og fyrirhugað er að ýta öðrum starfshópum úr vör á næstunni, svo sem starfshópi um fjargeðheilbrigðisþjónustu, starfshópi um geðrækt í leik-, grunn- og framhaldsskóla og starfshópum um minnkun fordóma gagnvart geðheilbrigðisvanda meðal almennings, í heilbrigðis- og félagsþjónustu og í fjölmiðlaumræðu. Í reglubundinni heilsufarsskoðun hælisleitenda hefur verið lagt á mat á geðheilsu þeirra og er því verkefni lokið. Önnur verkefni eru á mismunandi vinnslustigum en fyrirhugað er að öll verkefni verið komin af stað á næstu mánuðum.

Þingsályktun 42/145 um að efla samstarf Íslands og Grænlands, 2. júní 2016 – þskj. 1483 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningamálaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og utanríkisráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Samstarf Íslands og Grænlands á sviði heilbrigðisþjónustu á sér langa sögu, einkum um þjónustu við Grænlendinga sem hafa sótt þjónustu til Íslands. Þetta á við nýbura jafnt sem fullorðna, veika sem slasaða. Einnig hafa Grænlendingar sótt valaðgerðir til Íslands, svo sem mjaðmaskipti og augnaðgerðir.
    Árið 1997 var þetta samstarf formgert með samningi milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á Íslandi, Embættis landlæknis, Landspítala, þáverandi Sjúkrahúss Reykjavíkur og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, mótaðilinn var heilbrigðisráðuneyti Grænlands.
    Samningur milli heilbrigðisráðherra Grænlands og Íslands um aukið samstarf var undirritaður í júní 2010 og náði þá einnig yfir samstarf við mönnun heilbrigðisstétta, menntun og viðhaldsmenntun, rannsóknir o.fl. Þetta samstarf efldist enn meir þegar heilbrigðisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu samstarfssamning í júní 2014, sem m.a. kveður á um árlega fundi ráðherranna. Síðasti fundurinn var haldinn í Nuuk 29.–30. ágúst 2017 þar sem ráðherrarnir ræddu enn frekara samstarf. Íslenski heilbrigðisráðherrann bauð til næsta fundar á Íslandi síðsumars 2018.
    Sumarið 2017 undirrituðu Landspítali og Sjúkrahús Ingiríðar drottningar samstarfssamning sem gerir ráð fyrir enn frekari eflingu samskipta starfsfólks og samstarfi í þjónustu við sjúklinga.
    Telja verður að undanfarinn áratug hafi samstarf og samvinna á sviði heilbrigðisþjónustu aukist verulega milli Íslands og Grænlands.

Þingsályktun 43/145 um sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga, 2. júní 2016 – þskj. 1484. – Framkvæmd hafin.
    Í desember 2016 skipaði heilbrigðisráðherra undirbúningshóp vegna sólarhringsmeðferðar í öndunarvél á heimili sjúklinga. Hópnum var falið að móta tillögur um skipulag heimaþjónustu við þá einstaklinga sem þingsályktunin náði til, hvernig best væri að tryggja möguleika þeirra til hvíldarinnlagna, fjalla um samskiptatækni og þjálfun í notkun þeirra og hvernig best mætti tryggja með samstarfssamningum eða öðrum hætti hnökralausa aðkomu allra þeirra sem koma að þjónustu við sjúklinga sem þurfa víðtæka öndunaraðstoð. Hópnum var falið að leita úrræða til að bæta aðbúnað og tryggja fullnægjandi aðstoð við daglegt líf þess fólks sem þarf víðtæka öndunaraðstoð og skyldi tillögunum fylgja kostnaðarmat og tímasett aðgerðaáætlun. Hópurinn skilaði skýrslu til heilbrigðisráðherra í júní 2017 með niðurstöðum sínum og tillögum til úrbóta fyrir þá einstaklinga sem þurfa og velja langtímanotkun öndunarvélar á heimili sínu. Þegar hópurinn tók til starfa var heilbrigðisráðherra búinn að gera ráðstafanir til að tryggja möguleika til hvíldarinnlagna á einu hjúkrunarheimili og er sú starfsemi nú að hefjast. Aðrar tillögur hópsins hafa verið ræddar við aðila sem veita einstaklingum sem þurfa langtímanotkun öndunarvéla á heimili sínu þjónustu til að sjá möguleika á að hrinda þeim í framkvæmd.

Nefndarálit velferðarnefndar, 31. ágúst 2016, um frumvarp til laga um byggingarsjóð Landspítala – þskj. 1612 á 145. löggjafarþingi (sameiginlegt með fjármála- og efnahagsráðuneyti). – Framkvæmd ekki hafin.
    Samkvæmt nefndaráliti velferðarnefndar frá 31. ágúst 2016 felur frumvarpið í sér að stofnaður verði byggingarsjóður Landspítala í vörslu fjármála- og efnahagsráðuneytis sem starfræktur verði í því skyni að fjármagna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjun húsakosts Landspítala. Í frumvarpinu er lagt til að tekjustofn sjóðsins verði tekjur af auðlegðarskatti auk þess sem sjóðnum verði heimilt að taka við frjálsum framlögum. Ekki náðist samstaða í nefndinni um þá útfærslu á byggingarsjóði Landspítala og fjármögnun hans sem lagt er upp með í frumvarpinu. Engu að síður var einhugur í nefndinni um að leggja áherslu á að haldið yrði áfram byggingu Landspítala og henni lokið sem fyrst. Nefndin beinir því til ríkisstjórnarinnar að hún vinni að frekari úrbótum á húsakosti Landspítala, bæði með því að ljúka byggingu nýs spítala sem og með úrbótum á núverandi húsakosti sem unnt er að nýta áfram.
    Velferðarnefnd lagði til á fundi sínum 31. ágúst 2016 að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Með vísan til þingsályktunar nr. 45/143 um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala er gert ráð fyrir tugmilljarða hækkun framlags á málefnasviði 23, sjúkrahúsþjónustu, í fjármálaáætlun 2018–2022 til að byggja nýjan meðferðarkjarna og rannsóknarhús á lóð Landspítala.

Þingsályktun 56/145 um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019, 7. september 2016 – þskj. 1640. – Framkvæmd hafin.
    Skýrsla félags- og jafnréttismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála ásamt greinargerð um framkvæmd áætlunar í jafnréttismálum verður lögð fyrir jafnréttisþing, sbr. lög nr. 10/2008, í lok október 2017. Í skýrslunni verður gerð fyrir stöðu verkefna í núgildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem felur í sér sjöttu áætlun íslenskra stjórnvalda. Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og er þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að koma í framkvæmd á gildistíma hennar og með áherslu á að öll ráðuneyti hafi hlutverki að gegna við framkvæmd hennar. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála birtist með skýrum hætti.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna vinna sameiginlega að verkefni um gerð innleiðingaráætlunar um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvarðanatöku og stefnumótun í stjórnkerfinu. Á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar verður í velferðarráðuneytinu unnið að úttekt á þróun, framkvæmd og eftirfylgni íslenskrar löggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála. Kannað verður hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýsla jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi eða hvort tímabært þyki að leggja til breytingar á gildandi löggjöf. Starfshópur hefur verið skipaður og er honum ætlað að skila minnisblaði til félags- og jafnréttismálaráðherra og skýrslu til þverpólitískrar nefndar um niðurstöður sínar eigi síðar en 1. desember 2017.
    Á gildistíma áætlunarinnar verður áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna og verður árangur þeirra metinn með reglulegum rannsóknum um launamun karla og kvenna. Markvisst kynningarstarf mun fara fram á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85. Þá er í framkvæmdaáætluninni í fyrsta skipti sérstakur kafli um karla og jafnrétti. Markmið tilgreindra verkefna er að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og kanna hvernig stefnumótun í jafnréttismálum geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla.

Þingsályktun 58/145, 8. september 2016, um aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana – þskj. 1642. – Framkvæmd hafin.
    Í samræmi við þingsályktunina hafa reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða verið skoðaðar í ljósi þeirra fjárveitinga sem fyrir hendi eru. Niðurstaðan er sú að mikilvægt sé að skoða málið heildstætt og hefur heilbrigðisráðherra falið Sjúkratryggingum Íslands að skoða möguleika á samningsgerð við aðila sem hafa kunnáttu og aðstæður til að veita tæknifrjóvgunarmeðferð hér á landi. Undanfarin ár hafa ekki verið samningar milli ríkisins og þjónustuaðila sem veita tæknifrjóvgunarmeðferðir hér á landi. Því er nú að hefjast forkönnun á umfangi og kostnaði jafnhliða vinnu við gæða- og þjónustukröfur.

Þingsályktun 63/145 um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019, 20. september 2016 – þskj. 1692. – Framkvæmd hafin.
    Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda var samþykkt í september 2016. Áætlunin byggist upp af fimm stoðum: samfélaginu, fjölskyldunni, menntun, vinnumarkaði og flóttafólki. Þar eru 30 samþykktar aðgerðir sem stuðla allar að því að tryggja jöfn tækifæri allra landsmanna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum. Aðgerðirnar hafa verið á ábyrgð þriggja ráðuneyta: velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins (nú dómsmálaráðuneytis eða samgönguráðuneytis) og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
    Farið hefur verið af stað með um helming aðgerða sem eru ýmist í undirbúningsferli, vinnslu eða þeim lokið.

Nefndarálit velferðarnefndar, 12. október 2016, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum (bifreiðastyrkir) – þskj. 1813 á 145. löggjafarþingi. – Framkvæmd lokið.
    Í áliti velferðarnefndar, dags. 12. október 2016, er fjallað um frumvarp til laga þar sem lagt var til að styrki og uppbætur til bifreiðakaupa og reksturs bifreiða skyldi veita óháð því hver annaðist að jafnaði aksturinn, enda væri bifreiðin nýtt til aksturs með bótaþega. Þá var í frumvarpinu lagt til að óheimilt yrði að binda styrkveitingar því skilyrði að bótaþegi hefði sjálfur ökuréttindi eða einhver annar á heimili hans.
    Velferðarnefnd áréttar í áliti sínu að reglur um styrki og uppbætur til bifreiðakaupa og reksturs bifreiða til hreyfihamlaðra einstaklinga séu settar með reglugerð nr. 170/2009 og því sé unnt að tryggja að þau réttindi sem kveðið er á um í frumvarpinu nái fram að ganga með breytingu á reglugerðinni. Lagði nefndin því til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að tryggja að reglum yrði breytt í samræmi við efni frumvarpsins og þau skilyrði sem ráðuneytið teldi nauðsynleg samkvæmt framangreindu.
    Með reglugerð nr. 967/2016 voru gerðar breytingar á reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Með reglugerðinni var slakað á því skilyrði fyrir veitingu uppbóta og styrkja til bifreiðakaupa að hinn hreyfihamlaði hefði sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Var þannig komið til móts við álit velferðarnefndar Alþingis.

Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árunum 2013–2015.

Staðan á framkvæmd ályktana frá árinu 2015.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 21/144 um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra, 2. júlí 2015 – þskj. 1608.
– Framkvæmd lokið.
    Ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrir sitt leyti að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra eins og nánar er mælt fyrir um í ályktuninni.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 11/144 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, 28. maí 2015 – þskj. 1355.
– Framkvæmd lokið.
    Framkvæmd þingsályktunarinnar (stefnunnar) er hafin og verður hún viðvarandi verkefni við mótun uppbyggingar flutningskerfis raforku. Í kerfisáætlun Landsnets, um uppbyggingu flutningskerfis raforku, er m.a. vísað til þeirra meginreglna og viðmiða sem fram koma í þingsályktuninni. Þingsályktunin er því komin til framkvæmda. Á haustþingi 2017 stóð til að leggja fram nýja þingsályktunartillögu sama efnis, í samræmi við ákvæði raforkulaga.

Þingsályktun 15/144 um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, 1. júlí 2015 – þskj. 1574. – Framkvæmd lokið.
    Sjá útfærslu í reglugerð nr. 630/2016 um veiðar í atvinnuskyni. Reglugerðin er m.a. prentuð í árlegu riti útgefnu af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu: Stjórn fiskveiða 2016/2017. Lög og reglugerðir.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 14/144 um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019, 30. júní 2015 – þskj. 1552.
– Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun þessi var lögð fram á grundvelli 6. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis sem kveður á um að fjármála- og efnahagsráðherra skuli eigi síðar en 1. apríl ár hvert leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda fjárlaga næsta fjárlagaárs (ramma), svo og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins. Tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára þar á eftir.
    Þingsályktunin var samþykkt á Alþingi 30. júní 2015 og nær yfir tímabilið 2016–2019. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 sem lagt var fram 8. september 2015 og varð að lögum 19. desember sama ár byggist í meginatriðum á þeirri ríkisfjármálaáætlun sem þingsályktunin fjallar um.
    Í þessu samhengi er rétt að geta þess að lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, voru samþykkt á Alþingi 28. desember 2015 og tóku gildi 1. janúar 2016. Svo sem þar er gert ráð fyrir leggur ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta, fyrst 2016 og síðan árlega. Í samræmi við það var þingsályktun 55/145 um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 samþykkt á Alþingi 18. ágúst 2016, sjá þingskjal 1558, 740. mál, 145. lögþ. Segja má því að í fjárlögum fyrir árið 2016 og þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 sé að finna yfirlit yfir meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig þær athugasemdir sem umræddum skjölum fylgdu.

INNANRÍKISRÁÐUNEYTI (DÓMSMÁLARÁÐUNEYTI OG SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTI FRÁ 1. MAÍ 2017)
Þingsályktun 19/144 um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna, 1. júlí 2015 – þskj. 1581.
– Framkvæmd hafin.
    Málið hefur verið skoðað og rætt við innlendar ráðgjafarstofur. Það kostar verulega fjármuni að vinna þá vinnu sem óskað er eftir í þingsályktuninni og ljóst að erlendir aðilar þurfa að koma að þeirri vinnu, sbr. greinargerð þingsályktunartillögunnar. Fjármunir fylgdu ekki en engu að síður taka stjórnvöld þátt í vinnu á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að skoða mögulegt fyrirkomulag og hagkvæmni við slíkar samgöngur.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytisins á umræddu tímabili.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 16/144 um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141, 1. júlí 2015 – þskj. 1575.
– Framkvæmd lokið.
    Verndar- og orkunýtingaráætlun var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013. Í áætluninni eru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk, allt eftir því hvort þar er að finna virkjunarkosti sem nýta má til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þá eða kanna frekar. Í þessari þingsályktun var einn virkjunarkostur, þ.e. Hvammsvirkjun í Þjórsá, færður úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk, en í orkunýtingarflokk falla þeir virkjunarkostir sem er áætlað að ráðast megi í.

Þingsályktun 18/144 um að draga úr plastpokanotkun, 1. júlí 2015 – þskj. 1580. – Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var umhverfis- og auðlindaráðherra falið að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi og birta aðgerðaáætlun. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði starfshóp í byrjun árs 2016 til að móta tillögur að aðgerðum um hvernig draga mætti úr notkun plastpoka með árangursríkum hætti og setti starfshópurinn saman tillögu að aðgerðaáætlun. Haustið 2016 var gefin út aðgerðaáætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem inniheldur fjórtán skilgreind verkefni og gildir fyrir árin 2016–2018. Hún hefur það að markmiði að draga úr plastpokanotkun á Íslandi. Í framhaldi af setningu aðgerðaáætlunarinnar undirrituðu umhverfis- og auðlindaráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu hinn 9. september 2016 samning sem hefur það að markmiði að draga úr notkun léttra burðarplastpoka. Samningurinn felur í sér að samtökin munu hafa forgöngu um að verslanir dragi markvisst úr notkun léttra burðarplastpoka. Markmiðið er að fyrir árslok 2019 verði notkunin hér á landi ekki meiri en 90 plastpokar á einstakling á ári og að sú tala verði komin niður í 40 árið 2025. Samtök verslunar og þjónustu munu stuðla að því að umtalsverðum hluta tekna af sölu burðarplastpoka verði varið í kynningu til að draga úr notkun þeirra. Þá verður stofnaður sérstakur framkvæmdahópur verslunarinnar og Umhverfisstofnunar til að vinna að kynningu og fræðslu fyrir almenning og verða lífbrjótanlegir innkaupapokar kynntir sérstaklega.

Þingsályktun 20/144 um samstarf við Færeyjar og Grænland um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum, 2. júlí 2015 – þskj. 1607. – Framkvæmd lokið.
    Vestnorræna ráðið ályktaði um sama efni í ályktun nr. 2/2014 þar sem skorað er á stjórnvöld Íslands, Færeyja og Grænlands að eiga samstarf um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunina má rekja til notkunar svartolíu. Í ályktuninni er því beint til landanna að þróa og koma í framkvæmd áætlunum fyrir skilvirka og umhverfisvæna orkunotkun með því að krefjast þess að notað sé eldsneyti sem mengar minna og tækjabúnaður sem fjarlægir brennisteinsagnir úr eldsneyti skipa.
    Ráðuneytið hefur hvorki sérstaklega brugðist við ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2014 né þingsályktun 20/144 þó að unnið hafi verið markvisst að þessum málum í ráðuneytinu.
    Hvað varðar notkun á eldsneyti sem mengar minna þá er Ísland aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hefur á grundvelli hans tekið upp löggjöf ESB á þessu sviði. Með reglugerðum um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti voru tilskipanir ESB þar að lútandi og um að draga úr magni brennisteins í tilteknu fljótandi eldsneyti innleiddar hér á landi. Reglugerð gildir um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, skipadíselolíu, skipagasolíu, svartolíu og gasolíu hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands. Þannig gilda tilskipanir Evrópusambandsins um leyfilegt innihald brennisteins í skipaeldsneyti á Íslandi sem og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Í reglugerð nr. 46/2016 um breytingu á reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti er kveðið á um að brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, þ.m.t. svartolíu sem er notuð eða er ætluð til nota í skipum eða bátum, sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands skuli vera að hámarki 3,5% (m/m), að undanskildu eldsneyti til skipa sem nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í lokuðu kerfi. Í reglugerð nr. 124/2015 kemur fram að reglur um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti munu breytast og verða strangari frá og með 1. janúar 2020 og má þá leyfilegur brennisteinn í skipaeldsneyti ekki vera meiri en 0,5% (m/m) að hámarki innan mengunarlögsögu Íslands. Jafnframt mega farþegaskip sem sigla áætlunarferðir til og frá höfn á Evrópska efnahagssvæðinu ekki nota eldsneyti með brennisteinsinnihaldi sem er meira en 1,5% frá sama tíma. Að mati ráðuneytisins er eðlilegt að grænlensk og færeysk stjórnvöld setji sambærilegar reglur um takmörkun brennisteinsinnihalds í skipaeldsneyti.
    Hvað varðar tækjabúnað sem fjarlægir brennisteinsagnir úr eldsneyti skipa þá er ráðuneytinu kunnugt um að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi haft forgöngu um ýmis verkefni á því sviði. Eitt af verkefnum norræna lífhagkerfisins, sem var formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014, er Marina-verkefnið sem snýst um minni útblástur, orkuskipti á sjó og hvernig hægt sé að gera vistvænt eldsneyti að fýsilegum kosti. Í verkefninu eru allir sem koma að vistvænu eldsneyti tengdir saman á einn eða annan hátt, hvort sem það eru skipasmíðastöðvar, flutningafyrirtæki, opinberir aðilar eða aðrir. Ráðuneytið telur að farvegur til að þróa og koma í framkvæmd áætlunum fyrir skilvirka og umhverfisvæna orkunotkun skipa sé m.a. í gegnum norræn verkefni á sviði mengunarvarna og markviss þátttaka í vinnuhópum Norrænu ráðherranefndarinnar á umhverfissviðinu, svo sem vinnuhópum um málefni hafsins (HAV), loftslagsmál (KOL) og umhverfis- og efnahagsmál (MEG).
    Ráðuneytið er tilbúið að upplýsa Færeyjar og Grænland um aðgerðir hér á landi til að draga úr brennisteinsútblæstri og vinna að auknu samstarfi um þessi mál á norrænum vettvangi sé þess óskað og hefur komið þessum upplýsingum til samstarfsráðherra.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 3/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 173/2013 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 27. febrúar 2015 – þskj. 1006.
– Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. mars 2015 en ákvörðunin hefur ekki enn tekið gildi þar sem beðið er eftir tilkynningu frá Noregi um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða.

Þingsályktun 4/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 27. febrúar 2015 – þskj. 1007. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. mars 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. maí 2015.

Þingsályktun 5/144 um fullgildingu samnings hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar, 27. maí 2015 – þskj. 1343. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn öðlaðist gildi 16. júní 2015.

Þingsályktun 6/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn, 27. maí 2015 – þskj. 1344. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. júní 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2015.

Þingsályktun 7/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 27. maí 2015 – þskj. 1345. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. júní 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2015.

Þingsályktun 8/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 27. maí 2015 – þskj. 1346. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 9. júní 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2015.

Þingsályktun 9/144 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2015, 27. maí 2015 – þskj. 1347.Framkvæmd lokið.
    Samningnum, sem var einungis til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 20. janúar 2015.

Þingsályktun 10/144 um staðfestingu samnings milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka, 27. maí 2015 – þskj. 1348. – Framkvæmd hafin.
    Ekki hefur enn borist opinber tilkynning frá grænlenskum stjórnvöldum um móttöku nótu Íslands vegna fullgildingar.

Þingsályktun 12/144 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 28. maí 2015 – þskj. 1357. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 31. ágúst 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. október 2015.

Þingsályktun 1/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 458. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 2/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 459. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 3/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 143/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 460. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 7. desember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. febrúar 2016.

Þingsályktun 4/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 461. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 5/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 462. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 6/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 463. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 7/145 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 18. nóvember 2015 – þskj. 464. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 24. nóvember 2015 og ákvörðunin gekk í gildi 1. janúar 2016.

Þingsályktun 8/145 um fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT), 19. desember 2015 – þskj. 677. – Framkvæmd hafin.
    Undirbúningur innleiðingar og nauðsynlegar lagabreytingar til þess að hægt sé að fullgilda bókunina stendur yfir.

VELFERÐARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 13/144 um Jafnréttissjóð Íslands, 19. júní 2015 – þskj. 1456, og þingsályktun 17/145 um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, 1. mars 2016 – þskj. 926.
– Framkvæmd hafin.
    Forseti Íslands staðfesti 19. apríl 2016, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, forsetaúrskurð nr. 27/2016 um breytingu á forsetaúrskurði nr. 71/2013, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, með síðari breytingum. Samkvæmt úrskurðinum fer velferðarráðuneytið með málefni Jafnréttissjóðs Íslands.
    Jafnréttissjóður Íslands var stofnaður 19. júní 2015 með samþykki ályktunar Alþingis í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Megintilgangur sjóðsins er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Jafnréttissjóður Íslands nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 millj. kr. á ári, frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020. Úthlutað verður úr sjóðnum 19. júní ár hvert.
    Í samræmi við ályktun Alþingis og úthlutunarreglur sjóðsins leggur stjórn hans áherslu á að veita fé til verkefna sem m.a. hafa að markmiði að efla jafnrétti á vinnumarkaði, varpa ljósi á samfélags- og efnahagslegan ávinning af jafnrétti, vinna gegn kynbundnu ofbeldi, styðja þróunarverkefni í skólakerfinu, hvetja ungt fólk til aukinnar samfélagsþátttöku og stjórnmálastarfs og varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð.
    Árið 2016 bárust sjóðnum 114 umsóknir og hlutu 42 umsækjendur styrki til verkefna og rannsókna.
    Árið 2017 bárust sjóðnum 85 umsóknir um styrki til fjölbreyttra verkefna og var heildarfjárhæðin sem sótt var um 420 millj. kr. Félags- og jafnréttismálaráðherra afhenti 19. júní styrki til 26 verkefna og rannsókna úr Jafnréttissjóði Íslands en tæplega 100 millj. kr. voru til úthlutunar.

Þingsályktun 17/144 um aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu, 1. júlí 2015 – þskj. 1577. – Framkvæmd hafin.
    Haustið 2015 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem var falið að móta stefnu og aðgerðaáætlun til eflingar fjarheilbrigðisþjónustu. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í maí 2016 þar sem fram koma tillögur að stefnu í fjarheilbrigðisþjónustu á Íslandi og aðgerðaáætlun til næstu ára. Velferðarráðuneytið hefur unnið út frá tillögum nefndarinnar og hugmyndum og reynslu heilbrigðisstofnana til að ákvarða sérstök verkefni með það að markmiði að nýta vel sérþekkingu heilbrigðisstarfsmanna, forgangsraða verkefnum og bæta aðgengi sjúklinga að fjölbreyttri heilbrigðisþjónustu og auka öryggi þeirra. Sérstakur starfshópur með fulltrúum stærstu heilbrigðisstofnananna verður skipaður í september 2017 til að móta endanlega innleiðingaráætlun í öllum heilbrigðisumdæmum. Þá hefur sjónum einnig verið beint að því hvernig nýta megi fjarheilbrigðisþjónustu til að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu og eru nú hafin tvö tilraunaverkefni bæði á sviði forvarna og meðferðar við geðvanda. Til að styðja við forvinnu að innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu voru settir ákveðnir fjármunir til Embættis landlæknis í lok árs 2016.

Staðan á framkvæmd ályktana frá árinu 2014.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Framhaldsnefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, 14. maí 2014, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (notkun fánans) – þskj. 1134 á 143. löggjafarþingi.
– Framkvæmd lokið.
    Alþingi samþykkti frumvarp forsætisráðherra um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, þar sem tekið var á þeim atriðum sem fjallað var um í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sbr. lög nr. 28/2016.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 10/143 um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar, 15. janúar 2014 – þskj. 510.
– Framkvæmd lokið.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði starfshóp með fulltrúum sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu til að greina tækifæri til atvinnusköpunar í héraðinu. Greinargerð starfshópsins kom út í maí 2015. Meginniðurstaða greinargerðarinnar er að fyrirhuguð stækkun Blönduvirkjunar skapi góðar forsendur fyrir nýtingu orku frá virkjuninni í þágu atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu. Hagnýting orku í heimahéraði hefur verið viðurkennd meginregla í samskiptum heimamanna og virkjunaraðila seinasta aldarfjórðung. Því verður að telja eðlilegt að orka Blönduvirkjunar nýtist í þágu heimamanna. Austur-Húnavatnssýsla er vel í sveit sett og getur boðið fjárfestum kjöraðstæður fyrir atvinnustarfsemi í góðu umhverfi utan virka eldfjallasvæðisins í hæfilegri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og Akureyri.

Þingsályktun 21/143 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017, 12. maí 2014 – þskj. 1083 (byggðamál eru nú í höndum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis).Framkvæmd lokið af hálfu ráðuneytisins.
    Í ályktuninni eru tillögur um aðgerðir í 43 liðum til að ná fram meginmarkmiðum áætlunarinnar. Tiltekin ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og samtök bera ábyrgð á framkvæmd hverrar aðgerðar. Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál fylgist með framkvæmd verkefnanna og beitir sér eftir þörfum fyrir því að unnið sé að framgangi áætlunarinnar.

Þingsályktun 34/143 um landsnet ferðaleiða, 16. maí 2014 – þskj. 1226 (sameiginleg með innanríkisráðuneyti, nú dómsmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, og umhverfis- og auðlindaráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016, voru samþykkt á Alþingi 18. mars 2016. Í lögunum eru ferðamannaleiðir sérstaklega skilgreindar en þær geta verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir og tekur landsáætlunin einnig til slíkra leiða. Í lögunum er gert ráð fyrir að stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára sé lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar og að unnar verði styttri þriggja ára verkefnaáætlanir í kjölfarið.
    Landsáætlun er á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra en er unnin í samvinnu við ráðherra ferðamála og á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fulltrúa í verkefnastjórn.

Þingsályktun 43/143 um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku, 16. maí 2014 – þskj. 1245.Framkvæmd lokið.
    Hinn 16. maí 2014 ályktaði Alþingi að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar. Á grundvelli þessa var skipuð sex manna sérfræðinganefnd sem m.a. mat fyrirliggjandi upplýsingar um mælingar og útreikninga á fræðilegri orku og gerði tillögur um öflun viðbótarupplýsinga svo að til yrði grundvallarþekking á vegum stjórnvalda á orkuvinnslugetu hagkvæmustu framtíðarnýtingarkosta. Greinargerð sérfræðingahópsins er frá apríl 2015 og var hún lögð fram á Alþingi um leið og hún var frágengin.

Þingsályktun 47/143 um fiskveg í Efra-Sog, 16. maí 2014 – þskj. 1281. – Framkvæmd hafin.
    Unnið hefur verið að rannsókn á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar með þátttöku Háskóla Íslands og Veiðimálastofnunar auk Landsvirkjunar.

Þingsályktun 1/144 um kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og um réttindavernd netnotenda, 19. nóvember 2014 – þskj. 567. – Framkvæmd hafin.
    Í byrjun maí 2015 var skipaður starfshópur en viðfangsefni hans var að móta stefnu um kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og um réttindavernd netnotenda. Meðal viðfangsefna til skoðunar voru laga- og viðskiptaumhverfi, innviðir, fjármögnun og mannauður. Starf hópsins hefur legið niðri og ekki var skilað stefnu ásamt aðgerðaáætlun til ráðherra eins og stefnt var að fyrir 1. júní 2016. Óvíst er með framhald vinnunnar.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI
Nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar, 3. apríl 2014, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (þunn eiginfjármögnun) – þskj. 921 á 143. löggjafarþingi.
– Framkvæmd lokið.
    Með frumvarpi þessu voru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, í þeim tilgangi að lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun og að auki voru lagðar til nokkrar nauðsynlegar breytingar á tekjuskattslögunum svo að taka mætti reglurnar upp í lögin. Fram kom í frumvarpinu að reglum um þunna eiginfjármögnun væri ætlað að afstýra því að tengdir skattaðilar flyttu tekjur eða gjöld á milli fyrirtækja og landa í þeim tilgangi að skattstofn myndaðist þar sem skattlagning hans væri hagstæð. Þetta hefði oft og tíðum þær afleiðingar að önnur ríki yrðu af skatttekjum sem aftur skekktu samkeppnisstöðu fyrirtækja sem störfuðu innan landamæra þeirra. Að mati efnahags- og viðskiptanefndar var markmið frumvarpsins jákvætt en hins vegar þarfnaðist efni þess nánari skoðunar. Því lagði nefndin til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu.
    Með 3. gr. laga nr. 112/2016, um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., var lögfest ákvæði um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda (þunna eiginfjármögnun), sbr. 57. gr. b laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar á 145. löggjafarþingi (þingskjal 1774 787. mál), um frumvarp það sem varð að lögum nr. 112/2016, kemur fram að fjölþjóðlegar fyrirtækjasamstæður geti dregið úr skattgreiðslum sínum með því að fjármagna félag í einu ríki með láni frá félagi innan samstæðu sem er í öðru ríki ef skatthlutfall þar er lægra. Fyrrnefnda félagið geti dregið kostnað af láninu frá tekjum við útreikning skattskylds hagnaðar og síðarnefnda félagið kunni að greiða lítinn eða engan skatt af vöxtunum sem það fær greidda. Þetta bæði rýri skattstofna og skekki samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart fjölþjóðlegum fyrirtækjasamstæðum.
    Ákvæðið var lögfest til að bregðast við þessu og samkvæmt því er heimild til frádráttar vaxtagjalda og affalla vegna lánaviðskipta við tengda aðila takmörkuð við 30% af hagnaði skattaðila. Frá reglunni eru þrenns konar undantekningar. Í fyrsta lagi ef vaxtagjöld og afföll eru lægri en 100 millj. kr. Í öðru lagi ef eiginfjárhlutfall skattaðila er svipað eða hærra en eiginfjárhlutfall þeirrar samstæðu sem hann tilheyrir. Í þriðja lagi vegna fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga.

INNANRÍKISRÁÐUNEYTI (DÓMSMÁLARÁÐUNEYTI OG SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTI FRÁ 1. MAÍ 2017)
Þingsályktun 24/143 um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, 12. maí 2014 – þskj. 1089.
– Framkvæmd lokið.
    Hinn 12. maí 2014 var samþykkt þingsályktun þar sem Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa fimm manna starfshóp sem kannaði með hvaða leiðum mætti jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna með tilliti til réttinda, skyldna og skráningar sem fylgir lögheimili barns. Í þingsályktuninni kemur fram að markmið starfshópsins sé að útfæra leiðir til að eyða þeim aðstöðumun sem er þegar foreldrar sem búa ekki saman ákveða að ala börn sín upp á tveimur heimilum. Í því skyni skyldi hópurinn m.a. taka afstöðu til þess hvort taka skyldi upp kerfi sem heimilaði börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu hentaði betur. Skýrsla ráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum var lögð fram á Alþingi 24. september 2015 og er málinu því lokið. Unnið verður með niðurstöður skýrslunnar í ráðuneytinu.

Þingsályktun 25/143 um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra, 12. maí 2014 – þskj. 1090. – Framkvæmd hafin.
    Með ályktuninni felur Alþingi ríkisstjórninni að sjá til þess að í almannaskráningu á Íslandi verði skráðar nauðsynlegar upplýsingar um umgengnisforeldra til jafns við aðra foreldra svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 1. janúar 2016. Markmið tillögunnar er samkvæmt greinargerð að bæta almannaskráningu hér á landi þannig að í þeim opinberu skrám sem haldnar eru verði skráðar allar nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldumynstur landsmanna. Frumskoðun hefur leitt í ljós ákveðinn kostnaðarauka vegna breyttrar skráningar og er málið í nánari athugun. Rétt er að nefna í þessu sambandi að í skýrslu ráðherra um jafnt búsetuform barna, sem var lögð fram á Alþingi 24. september 2015, er fjallað um bætta almannaskráningu. Þess ber að geta að þingsályktunin er einnig til skoðunar við gerð frumvarps um þjóðskrá en vinna við frumvarpið stendur yfir. Til stendur að frumvarpið verði tilbúið til framlagningar á vorþingi 2018.

Þingsályktun 33/143 um skrásetningu kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014, 16. maí 2014 – þskj. 1225. – Framkvæmd lokið.
    Alþingi samþykkti 16. maí 2014 þingsályktun um að fela forsætisráðherra að hlutast til um að Hagstofa Íslands kallaði eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um kjörsókn eftir fæðingarári. Jafnframt fólst í tillögunni að hefja skyldi gagnasöfnun við sveitarstjórnarkosningar vorið 2014. Að fengnum tilmælum forsætisráðuneytis ákvað Hagstofan að standa að úrtaksrannsókn á kjörsókn einstaklinga til viðbótar hefðbundinni gagnasöfnun vegna kosningaskýrslna Hagstofunnar. Var úrtaksrannsókn fyrir valinu til að létta svarbyrði kjörstjórna. Hagstofan dró rúmlega 25 þúsund manna úrtak úr rafrænum stofni til kjörskrár sem Þjóðskrá Íslands lét í té. Var úrtakið lagskipt eftir stærð sveitarfélaga þannig að 100% tilheyrðu sveitarfélögum með 500 eða færri einstaklinga á kjörskrá, 20% hjá sveitarfélögum með 501–3.000, 10% hjá 3.001–5.000 og 5% hjá 5.001 og stærri. Sjá má niðurstöður á vefsíðu Hagstofu Íslands. Framkvæmd er lokið.

Þingsályktun 34/143 um landsnet ferðaleiða, 16. maí 2014 – þskj. 1226 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Samkvæmt 8. tölul. 3. gr. auglýsingar um forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 71/2013, féllu málefni ferðaþjónustunnar undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Tenging ályktunarinnar við innanríkisráðuneytið og verkefni þess snertir vegagerð og samgöngur. Við gerð samgönguáætlunar er tekið mið af þörfum ferðaþjónustunnar, sem þó er ekki sérstaklega aðgreind frá almennri þörf fyrir samgöngur. Í samgönguáætlun sem nú er unnið að í ráðuneytinu er þó í ríkari mæli en áður horft til ferðaþjónustunnar, enda leiðir það af gríðarlegum vexti greinarinnar á undanförnum árum. Verkefnin eru unnin í samræmi við veghluta samgönguáætlunar hvers árs. Sérstök skýrsla hefur verið gerð um framkvæmd samgönguáætlunar hvers árs.

Þingsályktun 35/143 um hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri, 16. maí 2014 – þskj. 1227. – Framkvæmd hafin.
    Alþingi ályktaði að innanríkisráðherra skyldi láta yfirfara viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri með það að markmiði að fækka slíkum tilvikum. Sérstaklega átti að skoða eftirfarandi leiðir: 1) Lækkun refsimarka ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill og samsvarandi mæling öndunarsýnis. 2) Námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs. 3) Hækkun sektargreiðslna vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í forvarnasjóð. 4) Ný úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri.
    Málið kallar á lagabreytingar. Það er í skoðun og fyrirhugað að fara nánar yfir það við næstu endurskoðun á umferðarlögum, nr. 50/1987.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 13/143 um samstarf við Færeyjar og Grænland um námskeið fyrir starfandi og upprennandi rithöfunda í löndunum þremur, 15. janúar 2014 – þskj. 513.
– Framkvæmd lokið.
    Í samstarfssamningi landanna er lögð áhersla á samstarf á sviði kvikmynda og er það eitt af áhersluatriðum næstu fjögurra ára. Veitt verður fjármagn til þessa, m.a. til að halda námskeið í kvikmyndahandritagerð með vísan til þingsályktunar 14/140 um vestnorrænt samstarf á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar og ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2012 um rithöfundanámskeið. Þetta samstarf er þegar byrjað að frumkvæði Kvikmyndamiðstöðvar Íslands ásamt Færeyjum og Grænlandi auk Danmerkur. Endurnýjaður samningur landanna var undirritaður á Norðurlandaráðsþingi sem fram fór í Helsinki 2017.

Þingsályktun 15/143 um samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna, starfsmannaskipti og veitingu heilbrigðisþjónustu á milli landanna, 11. febrúar 2014 – þskj. 593. – Framkvæmd hafin.
    Beðið er sameiginlegs fundar með velferðarráðuneyti sem staðið hefur til að halda en hefur þurft að fresta.

Þingsályktun 18/143 um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni, 12. maí 2014 – þskj. 1076. – Framkvæmd lokið.
    Árið 2014 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni til að skila skýrslu og aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni. Nefndin skilaði skýrslu í árslok 2014 þar sem lögð var fram aðgerðaáætlun og lagt til að stofnaður yrði samkeppnissjóður sem veitti styrki til máltækniverkefna. Árið 2015 setti ráðuneytið á laggirnar Máltæknisjóð, skipuð var stjórn, skrifaðar úthlutunarreglur og Rannís falið að hafa umsjón með sjóðnum. Fyrr á þessu ári gerðu mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samtök atvinnulífsins samning við verkefnastjóra sem hófst handa við kortlagningu á tækni fyrir máltækni með hliðsjón af fyrri skýrslum um málið. Var niðurstaða þeirrar vinnu sú að vinna þyrfti ítarlega stefnumörkun og taka ákvörðun um tæknilega útfærslu fyrir íslensku, stöðumat íslenskra gagnasafna og nákvæma fjárhags- og verkáætlun fyrir fimm ára markáætlun á sviði máltækni fyrir íslensku. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum haustið 2016 að 50 millj. kr. framlag yrði veitt á fjáraukalögum fyrir árið 2016 til verkefnisins og skipaði ráðherra stýrihóp þá í október með Samtökum atvinnulífsins til að hafa umsjón með verkefninu, en skipunartími stýrihópsins var til 1. ágúst 2017. Stýrihópurinn lauk störfum með skýrslu sem afhent var ráðherra 19. júní 2017.

Þingsályktun 36/143 um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi, 16. maí 2014 – þskj. 1228. – Framkvæmd lokið.
    Í fjárlögum ársins 2016 var ákveðin fjárveiting til að vinna það verkefni sem ráðuneytinu var falið samkvæmt þingsályktuninni. Í apríl 2016 var ráðinn verkefnastjóri til að afla upplýsinga um stöðu varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi hjá menningarstofnunum, hvað væri óunnið á því sviði og gera tillögur um kostnaðar-, framkvæmda- og tímaáætlun verkefnisins á grundvelli þeirra upplýsinga sem bærust. Leitað var upplýsinga hjá um 100 menningarstofnunum til að kortleggja stöðuna og skýrslan Varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi var gefin út af mennta- og menningarmálaráðuneyti í mars 2017. Í skýrslunni felst fyrsta skrefið í þeirri vinnu að kortleggja stöðuna hjá söfnum og menningarstofnunum í þessum málum. Næstu skref felast í að setja á stofn starfshóp til að vinna fyrir ráðherra þá tillögu að stefnu og verkáætlun sem óskað var eftir á grundvelli skýrslunnar. Ráðherra mun síðan leggja slíka stefnu og áætlun fyrir Alþingi sem ákvarðar þær fjárveitingar sem verkefnið verður talið þurfa.
    Ljóst varð við vinnu skýrslunnar að það mundi ekki takast að vinna tillögu að stefnu og verkáætlun samhliða henni þannig að hægt yrði að taka tillit til slíkrar áætlunar við undirbúning fjárlaga ársins 2018. Áætlað er að tillaga og verkáætlun verði unnin af starfshóp sem ráðherra skipi til þess verks svo að ráðherra geti lagt hana fram við undirbúning fjárlaga ársins 2019.

Þingsályktun 40/143 um ráðstafanir gegn málverkafölsunum, 16. maí 2014 – þskj. 1242. – Framkvæmd hafin.
    Bréf voru send til tilnefningaraðila 9. september 2014. Síðustu tilnefningar bárust 10. desember 2014. Starfshópur var skipaður 20. febrúar 2015. Fyrsti fundur starfshóps var haldinn 24. september 2015. Drög að skýrslu liggja fyrir og unnið er að lokafrágangi hennar.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 22/143 um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra, 12. maí 2014 – þskj. 1087.
– Framkvæmd lokið.
    Starfshópur umhverfis- og auðlindaráðherra skilaði í mars 2015 skýrslu til ráðherra um niðurstöður hópsins vegna endurskoðunar á lögum og reglum á sviði byggingarmála með tilliti til myglusvepps og þess tjóns sem hann getur valdið. Skýrsla starfshópsins var í kjölfarið birt opinberlega á vef ráðuneytisins. Greinargerð um réttarstöðu þeirra sem verða fyrir tjóni vegna myglusvepps er í fylgiskjali með skýrslu starfshópsins. Tillögur starfshópsins koma fram í sérstökum samantektarkafla skýrslunnar og eru þær í 18 liðum. Til að framfylgja skýrslunni kynnti ráðuneytið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti niðurstöður og tillögur skýrslunnar og þá sérstaklega þær tillögur sem sneru að málefnasviði viðkomandi ráðuneyta, m.a. um tilteknar lagabreytingar, að skoðuð yrðu dönsk lög um neytendavernd í fasteignakaupum og að aukin áhersla yrði lögð á nám og fræðslu í byggingareðlisfræði. Ráðuneytið óskaði einnig eftir því við Mannvirkjastofnun og Umhverfisstofnun að stofnanirnar framfylgdu tillögum starfshópsins hvað varðar fræðslu, eftirlit og samvinnu stjórnvalda. Ráðuneytið hefur enn fremur til skoðunar að endurskoða ákvæði laga nr. 160/2010, um mannvirki, hvað varðar starfsábyrgðartryggingar fagaðila við mannvirkjagerð og mögulega hagkvæmni þess að taka upp svokallaða byggingargallatryggingu að danskri fyrirmynd hér á landi. Vegna þessa bárust ráðuneytinu nýverið upplýsingar frá Mannvirkjastofnun vegna tryggingamála í tengslum við mannvirkjagerð, sem eru til skoðunar í ráðuneytinu. Ráðuneytið hefur einnig gert breytingu á reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti í samræmi við tillögur starfshópsins.

Þingsályktun 34/143 um landsnet ferðaleiða, 16. maí 2014 – þskj. 1226 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og innanríkisráðuneyti, nú dómsmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti). – Framkvæmd hafin.
    Lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, nr. 20/2016, voru samþykkt á Alþingi 18. mars 2016. Í lögunum eru sérstaklega skilgreindar ferðamannaleiðir en þær geta verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir og tekur landsáætlunin einnig til slíkra leiða. Í lögunum er gert ráð fyrir að stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára sé lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar og að unnar verði styttri þriggja ára verkefnaáætlanir í kjölfarið.

Þingsályktun 39/143 um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar og sameiningu stjórnsýslueininga á sviði skógræktar og landgræðslu, 16. maí 2014 – þskj. 1241. – Framkvæmd hafin.
    Eftirfylgni þessarar ályktunar er hafin í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Staða málsins nú er svohljóðandi:
     a.      Stórefla hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf í skógrækt með áherslu á framleiðslu viðarafurða, framleiðni og arðsama skógrækt.
                 Samhliða tillögum um auknar fjárveitingar til skógræktar, sbr. d-lið, er gert ráð fyrir að ákveðinn hluti renni til skógræktarrannsókna.
     b.      Færa Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt í eina stjórnsýslueiningu.
                 Ráðuneytið vann að greiningu á verkefnum ríkisins á sviði skógræktar með það að markmiði að skoða ávinninginn af því að sameina starf ríkisins á sviði skógræktar; að sameina landshlutaverkefni í skógrækt og Skógrækt ríkisins. Líta má á slíka sameiningu sem skref í þá átt sem ályktun þingsins leggur til. Á Alþingi 2. júní 2016 voru samþykkt lög, nr. 60/2016, þess efnis að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt í nýja stofnun, Skógræktina.
                 Oft hefur verið rætt um sameiningu landgræðslu og skógræktar áður en slíkt ekki gengið eftir vegna ýmissa sjónarmiða.
     c.      Semja frumvarp að nýjum samræmdum lögum um skógrækt og landgræðslu.
                 Undanfarið ár hefur verið unnið að gerð nýrra laga um skógrækt og laga um landgræðslu í ráðuneytinu. Á vorþingi 2017 voru lögð fram frumvörp til nýrra heildarlaga um skógrækt annars vegar og um landgræðslu hins vegar. Málin náðu ekki fram að ganga en gert er ráð fyrir að þau verði endurflutt.
     d.      Móta starfsumhverfi með rammaáætlun til þriggja ára til eflingar skógrækt með þátttöku bænda, annarra landeigenda og sérstakra skógræktarsjóða.
                 Fjárlög fyrir árið 2015 fólu í sér fjárveitingu til eflingar skógrækt og landgræðslu, alls 20 millj. kr. Markmið með þeirri fjárveitingu var að auka framkvæmdir á þessum sviðum með gróðursetningu og uppgræðslu. Í fjárlögum fyrir árið 2016 var gert ráð fyrir meira fé í þessa veru, eða alls 50 millj. kr., sem sömuleiðis átti að renna til aukinna aðgerða. Óbreytt fjárveiting er til þessara verkefna á árinu 2017 og búist er við að fjárveiting á árinu 2018 verði óbreytt.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 9/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn, 15. janúar 2014 – þskj. 509.
– Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 3. febrúar 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2014.

Þingsályktun 12/143 um að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða, 15. janúar 2014 – þskj. 512. – Framkvæmd hafin.
    Vestnorrænt samstarf er Íslandi mikilvægt, enda byggjast tengsl okkar við næstu nágranna í Færeyjum og á Grænlandi á langri sögu. Unnið hefur verið að því að styrkja þessi tengsl enn frekar og hafa íslensk stjórnvöld meðal annars lagt áherslu á tækifæri sem felast í auknum viðskiptum milli landanna, sem og samvinnu í málefnum norðurslóða. Þannig kveður mat um hagsmuni Íslands á norðurslóðum, sem kom út í september 2016, á um mikilvægi vestnorræns samstarfs á norðurslóðum og hagsmuni Íslands þar að lútandi.
    Í september 2014 áttu utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands fund í Reykjavík með Vestnorræna ráðinu þar sem fjallað var um stefnu og áherslur í norðurslóðamálum vestnorrænu ríkjanna og hvar sameiginlegir hagsmunir liggja. Forsætisráðherrar landanna þriggja hittust í Færeyjum í ágúst 2015 á 30 ára afmæli Vestnorræna ráðsins og fjölluðu sömuleiðis um aukna samstarfsmöguleika á norðurslóðum.
    Utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands funduðu í Færeyjum í ágúst 2016 og undirrituðu af því tilefni yfirlýsingu þar sem kveðið er á um stofnun vinnuhóps skipuðum fulltrúum landanna þriggja. Vinnuhópnum var ætlað að vinna tillögur að samstarfssamningi landanna þriggja, m.a. í ljósi ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2015.
    Hinn 31. ágúst 2017 undirrituðu utanríkisráðherra Íslands, utanríkisráðherra Færeyja og sveitarstjórnarráðherra Grænlands (í fjarveru utanríkisráðherrans) samstarfssamning sem byggist á tillögum ofangreinds vinnuhóps. Í samningnum er fest í sessi að utanríkisráðherrar landanna þriggja haldi árlega samráðsfundi, auk þess sem komið er á fót vinnuhópi embættismanna sem ætlað er að hafa yfirsýn yfir samstarf ríkjanna og koma með tillögur að auknu samstarfi með það að markmiði að auka viðskipti milli landanna.
    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins 31. ágúst 2017, sem haldinn var í Reykjavík, voru málefni norðurslóða sérstaklega til umræðu. Samhliða hafa aðalræðisskrifstofur Íslands á Grænlandi og í Færeyjum unnið ötullega að því að efla tengsl við landsstjórnir og viðskiptalíf landanna, sem og samvinnu á sviði norðurslóða.

Þingsályktun 14/143 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína, 29. janúar 2014 – þskj. 568. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 11. febrúar 2014 og öðlaðist gildi 1. júlí 2014.

Þingsályktun 17/143 um heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 29. apríl 2014 – þskj. 1010. – Framkvæmd lokið.
    Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 29. apríl 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 30. apríl 2014.

Þingsályktun 19/143 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2014, 12. maí 2014 – þskj. 1081. – Framkvæmd lokið.
    Samningnum, sem einungis var til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 9. apríl 2014.

Þingsályktun 20/143 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2014, 12. maí 2014 – þskj. 1082. – Framkvæmd lokið.
    Samningunum, sem einungis voru til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 28. mars 2014.

Þingsályktun 23/143 um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara, 12. maí 2014 – þskj. 1088. – Framkvæmd hafin.
    Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum fylgist náið með málefnum Vestur-Sahara í gegnum 4. nefnd allsherjarþingsins, öryggisráðið og í samvinnu við aðrar Norðurlandaþjóðir, með reglulegum upplýsingafundum með fulltrúum Pólisaríó og með fulltrúum félagasamtaka á svæðinu. Jafnframt hafa ræður á vettvangi allsherjarþingsins endurspeglað þingsályktunina og hefur afstöðu Íslands verið komið á framfæri í ræðum á þeim vettvangi, m.a. á fundum með fastafulltrúa Bandaríkjanna. Utanríkisþjónustan mun áfram vinna í samræmi við þingsályktun 23/243.

Þingsályktun 27/143 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Kólumbíu, 14. maí 2104 – þskj. 1128. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 7. júlí 2014 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. október 2014.

Þingsályktun 28/143 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama, 14. maí 2014 – þskj. 1129. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 7. júlí 2014 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 5. september 2014.

Þingsályktun 29/143 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu, 14. maí 2014 – þskj. 1130. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 7. júlí 2014 og öðluðust gildi 1. janúar 2015.

Þingsályktun 30/143 um gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum, 16. maí 2014 – þskj. 1217. – Framkvæmd hafin.
    Ráðuneytið hefur enn til skoðunar með hvaða hætti sé best að vinna að markmiði þingsályktunarinnar. Utanríkisþjónustan hefur haldið áfram að styðja við það starf sem Þýskaland og Brasilía hafa leitt á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York og mannréttindaráðsins í Genf um þetta málefni.
    Ályktanir allsherjarþingsins nr. 68/167, nr. 69/166 og nr. 71/199 árétta einnig sérstaklega að núgildandi mannréttindasáttmálar tryggja þennan rétt, m.a. samningurinn um borgaraleg og pólitísk réttindi. Sá réttur er einnig studdur í öðrum textum Sameinuðu þjóðanna, m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
    Embætti sérstaks fulltrúa ráðsins um friðhelgi einkalífs á stafrænum miðlum var sett á fót 2015 með ályktun Þýskalands og Brasilíu, sem Ísland var meðflytjandi að. Fulltrúanum var falið að vekja athygli á mikilvægi þessa réttar og skoða sérstaklega hvernig hægt væri að tryggja hann á stafrænum miðlum. Hefur fulltrúinn þegar skilað skýrslum til mannréttindaráðsins og allsherjarþingsins. Þar skoðar hann og rennir frekari stoðum undir hvernig framfylgja eigi þeim réttindum sem öllum eru þegar tryggð í gegnum núverandi samninga á stafrænum miðlum, auk þess að greina hvernig hægt sé að framfylgja þeim betur og hvar skorti á.
    Er það mat utanríkisráðuneytisins að sú vinna sem nú er í gangi á vegum fulltrúa mannréttindaráðsins sé best til þess fallin að ná markmiðum þingsályktunarinnar eins og mál standa. Mun þessi vinna einnig leiða í ljós hvar þurfi að skerpa á slíkum réttindum og hvernig væri best að standa að því, hvort sem það væri með nýjum alþjóðasamningi eða frekari vinnu innan núgildandi alþjóðasamninga.
    Utanríkisráðuneytið og fastanefndir Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og Genf munu því halda áfram að styðja við þetta starf bæði í allsherjarþinginu og mannréttindaráðinu í samræmi við markmið þingsályktunarinnar.

Þingsályktun 31/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 16. maí 2014 – þskj. 1218. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 27. maí 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 28. maí 2014.

Þingsályktun 32/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun), 16. maí 2014 – þskj. 1219. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 27. maí 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2014.

Þingsályktun 38/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 226/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 16. maí 2014 – þskj. 1240. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 27. maí 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2014.

Þingsályktun 42/143 um mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda, 16. maí 2014 – þskj. 1244.Framkvæmd hafin.
    Sendiráð Íslands í Kampala kom ítrekað á framfæri við stjórnvöld í Úganda hörðum mótmælum íslenskra stjórnvalda vegna þeirra mannréttindabrota sem staðfest lög um samkynhneigð heimiluðu. Hið sama gerði utanríkisráðherra á fundi með fjármálaráðherra Úganda í tengslum við vorfund Alþjóðabankans árið 2014. Afstaða Íslands var enn fremur kynnt í samstarfshópi þeirra ríkja sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda, þar á meðal Norðurlandanna. Þá tók sendiráðið virkan þátt í sérstökum vinnuhópi ríkja sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda þar sem umrætt mál var vaktað sérstaklega. Haustið 2014 voru umrædd lög felld úr gildi í Úganda og hafa málefni samkynhneigðra þar í landi því ekki verið mjög áberandi síðan þá. Sendiráð Íslands í Kampala heldur áfram að vakta málið með reglubundnum hætti.

Þingsályktun 48/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 16. maí 2014 – þskj. 1282. – Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 27. maí 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 28. maí 2014.

VELFERÐARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 7/143 um skipun nefndar um málefni hinsegin fólks, 15. janúar 2014 – þskj. 507.
– Framkvæmd hafin.
    Nefnd um málefni hinsegin fólks var skipuð af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra 30. apríl 2014. Fundað var reglulega til vorsins 2016 en þá var ákveðið að gera hlé á störfum nefndarinnar og ráðuneytinu falið að útbúa drög að framkvæmdaáætlun í samræmi við umræður og störf nefndarinnar. Sú vinna dróst en er nú hafin aftur og er stefnt að því að leggja fram framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks á vorþingi 2018.
    Í drögum að áætluninni er aðgerðum skipt í fjórar stoðir:
     1.      Sjálfsákvörðunarrétt í samræmi við kynvitund og kyneinkenni (legal gender recognition).
     2.      Hinseginvænt samfélag.
     3.      Heilbrigðisþjónustu.
     4.      Leiðandi á alþjóðavettvangi.
    Við vinnu að tillögum að framkvæmdaáætluninni hefur verið horft sérstaklega til ábendinga frá ILGA Europe sem eru alþjóðleg samtök hinsegin fólks í Evrópu (the European Region of the International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association), en þau birta árlega svokallað Regnbogakort og skýrslu um stöðu hinsegin fólks í löndum Evrópu.

Þingsályktun 8/143 um mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar, 15. janúar 2014 – þskj. 508. – Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára var samþykkt á Alþingi 29. apríl 2016.

Þingsályktun 11/143 um samstarf við Færeyjar og Grænland um samantekt um fækkun kvenna á Vestur-Norðurlöndum, 15. janúar 2014 – þskj. 511. – Framkvæmd lokið.
    Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar undir formennsku Dana árið 2015 var gefin út skýrslan „Sted, (u)lighet og kön – en kortlægning af udfordringer og best practices i relation til kön, uddannelse og befolkningsströmme i Nordens yderområder“ (PUB:2015:557). Á ráðstefnu í Nuuk 17. júní 2015 var skýrslan lögð fram og fjallað um samhengi menntunar, kynjajafnréttis og búferlaflutninga í dreifbýli á Norðurlöndunum. Úttektin fjallar um þróun mála og þær áskoranir sem vestnorrænu löndin standa frammi fyrir í þessu samhengi. Skýrslan svarar kalli þingsályktunarinnar og hefur verið samþykkt sem svar við ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 3/2013 varðandi greinargerð um fækkun kvenna í Færeyjum og á Grænlandi.

Þingsályktun 16/143 um aukið samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu, 11. febrúar 2014 – þskj. 594. – Framkvæmd lokið.
    Samstarf landanna hefur haldið farsællega áfram, byggt á langri hefð og formlegum samningum, síðast samningi heilbrigðisráðherra landanna frá júní 2014. Stjórnendur helstu heilbrigðisstofnana landanna hafa reglulegt samband. Heilbrigðisstarfsfólk frá Færeyjum og Grænlandi hefur heimsótt Ísland árlega og kynnt sér ýmsa þætti þjónustunnar hér á landi. Á sama hátt hafa íslenskir heilbrigðisstarfsmenn farið til Færeyja og Grænlands til að veita ráðgjöf og kynnast starfsfólki þar. Að ósk Færeyinga veitti skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu nefnd forustu á fyrri hluta ársins 2016, sem falið var að koma með tillögur um endurskipulag sjúkrahúsþjónustu í Færeyjum. Tillögum var skilað í byrjun sumars. Forstjóri Landspítalans hefur tvisvar á árinu 2016 haldið fræðsluerindi á Grænlandi um þjónustu við geðsjúka. Sjúklingar koma reglulega frá báðum löndunum til Íslands til að fá þjónustu af ýmsum toga.
    Telja verður að þingsályktuninni hafi verið hrint í framkvæmd.

Þingsályktun 26/143 um forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli, 12. maí 2014 – þskj. 1091. – Framkvæmd hafin.
    Skýrsla ráðgjafarhóps með tillögu til heilbrigðisráðherra um íslenska krabbameinsáætlun til ársins 2020 var birt á vef Stjórnarráðsins í júlí á þessu ári. Tillögur ráðgjafarhópsins taka m.a. til forvarnastarfs og miða að því að koma á víðtækri samvinnu allra sem vinna að málefnum krabbameinssjúkra. Ráðgjafarhópurinn leggur m.a. til að fylgst sé með framvindu rannsókna á möguleikum hópleitar að blöðruhálskirtilskrabbameini. Jafnframt að gert verði árlega mat á fýsileika þess að taka upp hópleitir í áhættuhópum vegna algengra krabbameina, svo sem í blöðruhálskirtli. Þrátt fyrir að ráðgjafarhópurinn mæli ekki með formlegri hópleit að krabbameinum í blöðruhálskirtli þá er í gangi hér á landi, sem og í öðrum vestrænum löndum, umfangsmikil óformleg skimun. Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir tilnefningum í verkefnisstjórn sem falið verður að móta framkvæmd og eftirfylgni þeirra tillagna sem fram koma í skýrslu fyrrgreinds ráðgjafarhóps og leggja til forgangsröðun verkefna á grundvelli fjárheimilda.

Nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar, 14. maí 2014, um tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi – þskj. 1137 á 143. löggjafarþingi. Framkvæmd hafin.
    Lög um húsnæðisbætur voru samþykkt á Alþingi 2. júní 2016 og tóku gildi 1. janúar 2017. Húsnæðisbætur taka mið af fjölda heimilismanna, óháð aldri og fjölskyldutengslum, og eru tekju- og eignatengdar en í því sambandi er miðað við heildartekjur og -eignir heimilismanna, 18 ára og eldri. Lögum um húsnæðisbætur er m.a. ætlað að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform, þ.e. leigjendur, íbúðareigendur og búseturéttarhafa. Í júní 2016 voru einnig samþykkt lög um almennar íbúðir en markmið þeirra er að koma á samfélagslegu leiguíbúðakerfi í því skyni að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir tilteknum tekju- og eignarmörkum við upphaf leigu. Í því skyni er ríki og sveitarfélögum heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda. Áfram er unnið að öðrum verkefnum sem heyra undir umrædda tillögu.

Þingsályktun 41/143 um aðgerðir í þágu lækningar við mænuskaða, 16. maí 2014 – þskj. 1243. – Framkvæmd hafin.
    Velferðarráðuneytið lagði áherslu á málefni mænuskaða á formennskuári Íslands í norrænni samvinnu árið 2014. Meðal annars var haldinn fundur norrænna og alþjóðlegra sérfræðinga í málefnum mænuskaða á Íslandi það ár og voru helstu tillögur fundarins að setja á stofn norrænt meðferðar- og rannsóknarsetur fyrir mænuskaða og flýta uppbyggingu norræna gagnagrunnsins um mænuskaða. Heilbrigðisráðherra lagði tillögur sem byggðust á niðurstöðum sérfræðingafundarins fyrir norræna heilbrigðis- og félagsmálaráðherra á fundi haustið 2015 og samþykktu ráðherrarnir að mikilvægt væri að halda áfram vinnu við málefni mænuskaða og að norrænum starfshópi um mjög sérhæfða meðferð yrði falið að fjalla um tillögurnar. Vinnu um málefni lækninga við mænuskaða hefur verið haldið áfram á vettvangi norrænu embættismannanefndarinnar um félags- og heilbrigðismál. Þá hefur utanríkisráðherra sent framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar erindi um málið og Norræna embættismannanefndin um félags- og heilbrigðismál tók málefni mænuskaða til umfjöllunar á fundi sínum í febrúar á þessu ári. Í kjölfar fundarins sendi nefndin erindi til NordForsk þar sem óskað var eftir að stofnunin legði mat á hvort hægt væri að nota nútímaupplýsingatækni og -gagnagreiningu til að flýta fyrir framförum á sviði mænuskaða. Þess er vænst að niðurstöður NordForsk verði til umfjöllunar á fundi embættismannanefndarinnar í lok september 2017.
    Vinna við gerð norræna gagnagrunnsins um mænuskaða er mjög langt komin. Noregur fjármagnar verkefnið og norska persónuverndarstofnunin hefur nú gefið leyfi til að nýta heilbrigðisupplýsingar úr grunninum þegar hann verður formlega opnaður.

Þingsályktun 44/143 um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu og hliðarverkunum, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild, 16. maí 2014 – þskj. 1246. – Framkvæmd lokið.
    Hinn 11. júlí 2014 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem falið var að undirbúa skýrslu, sem lögð yrði fyrir Alþingi, um gerð stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Starfshópurinn leitaði aðstoðar og leiðsagnar hagsmunaaðila og hjálparsamtaka, sem og innlendra og erlendra sérfræðinga, við störf sín. Starfshópurinn skilaði heilbrigðisráðherra skýrslu 21. júní 2016 og var skýrslan lögð fyrir Alþingi í ágúst 2016. Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir tilnefningum í samráðshóp um vímuefnamál á grundvelli tillögu í skýrslunni.
    Sjá nánar www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/skyrsla-um-leidir-til-ad-draga-ur-skadlegum-ahrifum-vimuefnaneyslu-i-islensku-samfelagi.

Þingsályktun 45/143 um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala, 16. maí 2014 – þskj. 1249. – Framkvæmd hafin.
    Alþingi hefur ályktað að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.
    Í fjármálaáætlun 2018–2022, sem samþykkt var í sumar, er gert ráð fyrir tugmilljarða hækkun framlags til málefnasviðs 23, sjúkrahúsþjónustu, vegna framkvæmda við byggingu nýs Landspítala fram til ársins 2022. Gert er ráð fyrir að útboð á byggingaframkvæmdum, einkum meðferðarkjarna og rannsóknarhúsi, verði árið 2018 og framkvæmdir verði komnar á fullt skrið árin 2019–2021. Áætluð verklok eru árið 2023.

Nefndarálit velferðarnefndar, 2. apríl 2014, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991 (ætlað samþykki) – þskj. 917 á 143. löggjafarþingi. – Framkvæmd lokið.
    Á 143. löggjafarþingi 2013–2014 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991, þar sem lagt var til að lögunum yrði breytt þannig að gert yrði ráð fyrir ætluðu samþykki einstaklinga fyrir líffæragjöf. Í nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarpið kemur fram að nefndin telji ekki tímabært að leggja til þá grundvallarbreytingu á löggjöfinni. Vísaði nefndin til þess að reynsla annarra þjóða hefði sýnt að lagabreyting ein og sér hefði ekki tilætluð áhrif og gæti vegið að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga. Velferðarnefnd lagði til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og að áfram yrði unnið að málinu og ákveðin atriði tekin til sérstakrar skoðunar. Í október 2014 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp til að vinna frekar að málinu og skilaði hópurinn tillögum til ráðherra í mars 2015. Á 144. löggjafarþingi 2014–2015 lagði heilbrigðisráðherra fyrir Alþingi skýrslu um hvernig fjölga mætti líffæragjöfum frá látnum einstaklingum á Íslandi þar sem þau atriði sem tilgreind voru í nefndaráliti velferðarnefndar voru tekin til sérstakrar skoðunar. Helstu niðurstöðurnar voru að bæta þyrfti íslenska löggjöf um líffæragjafir óháð því hvort tekin yrði ákvörðun um að breyta lögum þannig að gert yrði ráð fyrir ætluðu samþykki einstaklinga fyrir líffæragjöf.

Staðan á framkvæmd ályktana frá árinu 2013.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 18/141 um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis kosningarréttar íslenskra kvenna 19. júní 2015, 11. mars 2013, þskj. 1223.
– Framkvæmd hafin.
    Framkvæmd hófst 14. september 2013 með fundi forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, og kosningu nefndar. Starfsmaður var ráðinn í mars 2014. Settar voru upp sýningar í Landsbókasafni, Listasafni Íslands og Þjóðminjasafni á árinu 2015, fjöldi fyrirlestra, málþinga og tónleika voru haldnir, leikverk sett á svið, útvarps- og sjónvarpsþættir gerðir og aðrir fjölbreyttir viðburðir voru allt árið, svo sem sýningar í söfnum utan höfuðborgarinnar. Ritverk voru tekin saman, skjölum um kvennabaráttuna og úr fórum kvenna safnað og myndasöfn kvenna flokkuð. Myndasamkeppni fyrir ungmenni var haldin. Skólavefur var gerður til fræðslu um kosningarréttinn og stendur hann öllum skólum til boða án endurgjalds. Margir kvennaviðburðir voru í samstarfi við kvenfélög og kvennahreyfingar í landinu.
    Hinn 19. júní var víða gefið frí frá vinnu eftir hádegi og fjölmenn hátíðahöld fóru fram á Austurvelli í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Hátíðir voru einnig haldnar á Akureyri og í bæjum og sveitarfélögum um allt land þann dag. Í október var stór tveggja daga alþjóðleg kvennaráðstefna í Hörpu, opin öllum án endurgjalds. Nánari upplýsingar um viðburði, verkefni og dagskrár má finna á vef afmælisársins: www.kosningarettur100ara.is
    Nefndin lauk störfum í árslok 2015. Nokkur verkefni verða þó enn í gangi allt til ársins 2020. Það ár kemur út rannsóknarrit helgað 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna.

Þingsályktun 1/142 um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, 28. júní 2013, þskj. 55. – Framkvæmd lokið.
    Lokið er þeim tíu aðgerðum sem kveðið er á um í ályktuninni. Þær leiddu til setningar fimm laga frá Alþingi sem varða stöðu heimila.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á umræddu tímabili.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umræddu tímabili.

INNANRÍKISRÁÐUNEYTI (DÓMSMÁLARÁÐUNEYTI OG SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTI FRÁ 1. MAÍ 2017)
Þingsályktun 19/141 um endurbætur björgunarskipa, 11. mars 2013, þskj. 1224.
– Framkvæmd lokið.
    Samningur var gerður milli innanríkisráðuneytisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, staðfestur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu 21. apríl 2013, um greiðslur úr ríkissjóði á árunum 2014–2021 til viðhalds og endurbóta á björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 14/141 um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun, 24. janúar 2013, þskj. 931.
– Framkvæmd hafin.
    Starfshópur með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur unnið tillögu að nýju og breyttu fyrirkomulagi þjónustu við börn og ungmenni með tal- og málþroskaröskun. Tillagan var kynnt þjónustuveitendum og hagsmunaaðilum. Áfangaskýrsla með tillögum um framtíðarfyrirkomulag þjónustunnar og samstarf milli þjónustukerfa verður tilbúin fyrir lok árs 2017.

Þingsályktun 16/141 um menningarstefnu, 6. mars 2013, þskj. 1149. – Framkvæmd hafin.
    Hinn 6. mars 2013 ályktaði Alþingi að fela mennta- og menningarmálaráðherra að starfa samkvæmt stefnu um listir og menningararfsstefnu. Í stefnunni eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar: sköpun og þátttaka í menningarlífinu, gott aðgengi að listum og menningararfi, samvinna stjórnvalda við þá fjölmörgu aðila sem starfa á sviði menningar og þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu.
    Árið 2013 var skipaður starfshópur til að vinna að aðgerðaáætlun í anda markmiða samþykktrar menningarstefnu um að efla menningu barna og ungmenna. Starfshópurinn um menningu barna og ungmenna skilaði af sér tillögum sínum í lok október 2014. Niðurstöðurnar eru þríþættar: listir og menning í skólastarfi, menningarstofnanir og þeirra hlutverk í menningu barna og ungmenna og aðrar aðgerðir samkvæmt kaflaskiptingu menningarstefnu, þ.e. menningarþátttaka, lifandi menningarstofnanir, samvinna í menningarmálum, Ísland í alþjóðasamhengi, starfsumhverfi í menningarmálum og stafræn menning.
    Í fjárlögum fyrir árið 2016 voru veittar 18 millj. kr. til að gera áætlun um menningu barna og ungmenna í grunnskólum landsins og var henni hleypt af stokkunum um miðjan september 2016. Ráðherra ákvað að veita 18,5 millj. kr. í verkefnið 2017 og gert er ráð fyrir svipaðri upphæð árið 2018.
    Aðgerðir í tengslum við aðgengi að listum og menningararfi stafrænnar menningar hafa á þessu stigi fyrst og fremst snúið að íslensku og menningararfi.
    Máltæknisjóður var efldur í fjárlögum fyrir árið 2016 miðað við árið á undan og var framlag til hans 30 millj. kr. Hafist var handa við kortlagningu á tækni fyrir máltækni í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og settur á laggirnar stýrihópur til að vinna m.a. að stefnumörkun og frekari kortlagningu á stöðunni. Frekari upplýsingar um framkvæmdina er að finna í umfjöllun um þingsályktun 18/143. Unnið er að könnun og gerð skýrslu um varðveislu menningararfsins á stafrænu formi, sbr. umfjöllun um framkvæmd þingsályktunar 36/143.
    Í fjárlögum fyrir árið 2016 voru veittar 20 millj. kr. til Ríkisútvarpsins fyrir Gullkistu þess. Það verkefni felst í því að varðveita og færa í stafrænt form efni úr safni útvarpsins sem er liður í varðveislu menningararfs og miðlun hans. Ráðuneytið veitti ekki fé til verkefnisins árið 2017.
    Unnið hefur verið áfram að menningarverkefninu List fyrir alla og 13. og 14. september 2017 stóð mennta- og menningarmálaráðuneytið fyrir ráðstefnunni Menningarlandið á Dalvík þar sem barnamenning var til umfjöllunar.
    Hugað verður að innleiðingu annarra þátta menningarstefnunnar á næstu misserum.

Þingsályktun 5/143 um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, 19. desember 2013, þskj. 435. – Framkvæmd lokið.
    Starfshópur skilaði skýrslu til ráðherra og skýrslan var send til Alþingis sumarið 2015.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 13/141 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 14. janúar 2013, þskj. 892.
– Framkvæmd hafin.
    Verndar- og orkunýtingaráætlun var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013. Í áætluninni eru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk, allt eftir því hvort þar er að finna virkjunarkosti sem nýta má til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þá eða kanna frekar. Verkefnisstjórn þriðja áfanga áætlunarinnar skilaði ráðherra tillögum sínum og lagði ráðherra þær fram óbreyttar á 145. löggjafarþingi en málið náði ekki fram að ganga.
    Í samræmi við þingsályktunina er unnið að friðlýsingu þeirra svæða sem féllu í verndarflokk áætlunarinnar, en það eru svæði þar sem er að finna virkjunarkosti sem ekki er talið rétt að ráðast í og ástæða er talin að friðlýsa eigi gagnvart orkuvinnslu.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 15/141 um aukin áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs, 26. febrúar 2013, þskj. 1081.
– Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin var samþykkt á Alþingi 26. febrúar 2013. Í mars 2014 kynnti fyrri ríkisstjórn Evrópustefnu sína. Í henni er áhersla lögð á að skilgreina hagsmuni í EES-samstarfinu í samvinnu við atvinnulífið, m.a. með stofnun samráðshóps með fulltrúum atvinnulífsins og greiningu hagsmunamála á mótunarstigi löggjafarinnar innan ESB. Í september 2016 samþykkti ríkisstjórnin lista yfir helstu forgangsmál fyrir hagsmunagæslu í EES-samstarfinu þar sem skilgreind voru helstu hagsmunamál Íslands á meðal þeirra mála sem eru í lagasetningarferli innan Evrópusambandsins. Unnið er að endurskoðun forgangslistans í samvinnu allra ráðuneytanna og verður haft samráð við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila um þá endurskoðun. Stefnt er að því að endurskoðun forgangslistans verði lokið í október 2017.

Þingsályktun 20/141 um staðfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar, 15. mars 2013, þskj. 1274. – Framkvæmd lokið.
    Íslensk stjórnvöld tilkynntu dönskum stjórnvöldum um staðfestingu samningsins með orðsendingu hinn 25. nóvember 2013. Samningurinn öðlaðist gildi milli allra samningsríkjanna fimm hinn 1. maí 2014. Sjá einnig lög um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar, nr. 119/2013.

Þingsályktun 21/141 um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016, 21. mars 2013, þskj. 1311. – Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016 hefur verið framfylgt frá því að hún var samþykkt. Ályktunin markar stefnu íslenskra stjórnvalda í málaflokknum yfir fjögurra ára tímabil og var sett fram á Alþingi í samræmi við 3. gr. laga nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Utanríkisráðherra mun leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2018–2022 á 147. löggjafarþingi 2017–2018. Á sama þingi mun ráðherra gefa skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar í samræmi við 9. gr. laga nr. 121/2008. Mun skýrslan fjalla um framkvæmdina árin 2013–2016.

Þingsályktun 22/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 26. mars 2013, þskj. 1351. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 10. apríl 2013.

Þingsályktun 23/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 26. mars 2013, þskj. 1352.Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 21. maí 2013.

Þingsályktun 24/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 26. mars 2013, þskj. 1353. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 3. júní 2013.

Þingsályktun 25/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 26. mars 2013, þskj. 1354. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 3. júní 2013.

Þingsályktun 27/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 27. mars 2013, þskj. 1392. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 10. apríl 2013.

Þingsályktun 1/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 4. desember 2013, þskj. 302. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 13. desember 2013.

Þingsályktun 2/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 4. desember 2013, þskj. 303. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 13. desember 2013.

Þingsályktun 3/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 4. desember 2013, þskj. 304. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 13. desember 2013.

Þingsályktun 4/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn, 4. desember 2013, þskj. 305. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 13. desember 2013.

VELFERÐARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 17/141 um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014, 11. mars 2013, þskj. 1222.
– Framkvæmd lokið.
    Flestum verkefnum framkvæmdaáætlunarinnar er lokið en nokkur verkefni eru viðvarandi.