Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 101. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 216  —  101. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Margréti Gauju Magnúsdóttur
um starfshópa og samráð um meðhöndlun úrgangs.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður störfum:
     a.      samráðsnefndar um framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs,
     b.      starfshóps um förgun úrgangs, sem á m.a. að fjalla um förgun dýraleifa, og
     c.      samráðsvettvangs um mótun stefnu í úrgangsstjórnun?


    Með bréfi, dagsettu 17. september 2003, skipaði þáverandi umhverfisráðherra samráðsnefnd umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd laga nr. 55/ 2003, um meðhöndlun úrgangs, í samræmi við ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 55/2003. Samkvæmt lögunum átti nefndin að starfa frá gildistöku laganna til ársins 2010. Hlutverk nefndarinnar var að fylgjast með þróun meðhöndlunar úrgangs hér á landi og á Evrópska efnahagssvæðinu. Sérstaklega átti nefndin að fylgjast með hvernig markmiðum laganna væri náð og meta þann kostnað sem hlytist af framkvæmd þeirra.
    Hinn 23. ágúst 2004 skilaði samráðsnefndin skýrslu sinni til umhverfisráðuneytis og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skýrslan innihélt stöðumat um útgjöld og tekjur á sviði úrgangsmála miðað við árið 2002, sem var síðasta heila árið fyrir gildistöku laganna. Þá er í skýrslunni einnig að finna upplýsingar um magntölur og meðhöndlun úrgangs á árinu 2002. Þannig var settur fram viss grunnur til að hafa til samanburðar á næstu árum. Helstu niðurstöður voru þær að kostnaður sveitarfélaganna vegna söfnunar og förgunar úrgangs á Íslandi árið 2002 nam rúmum 2 milljörðum kr., 2.159.451.000 kr. Heildartekjur voru hins vegar rúmur 1 milljarður kr., 1.162.386.000 kr., og voru sveitarfélögin því að niðurgreiða meðhöndlun úrgangs með skattfé sem nemur um 1 milljarði kr. Söfnunarkostnaður var talsvert stærra hlutfall en förgunarkostnaður, um 60% á móti 40% vegna förgunar. Á árinu 2002 var heildarkostnaður á hvern íbúa í landinu um 7.500 kr., að meðaltali, en raunkostnaður af frádregnum tekjum 3.500 kr. á hvern íbúa. Kostnaðurinn var almennt minni á höfuðborgarsvæðinu en víðast hvar meiri á landsbyggðinni. Þessar tölur voru settar fram með þeim fyrirvara að erfitt var að bera saman milli sveitarfélaga tölur um kostnað og magn þar sem mjög misjafnt var hvernig sveitarfélög héldu utan um þessar upplýsingar.
    Í framhaldi af framangreindri skýrslu tók nefndin saman upplýsingar um samþykktir sveitarfélaga, útgjöld og tekjur sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs, um úrgangsáætlanir, magn og meðhöndlun úrgangs, úrvinnslugjald og umfjöllun um þróun á meðhöndlun úrgangs á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Samráðsnefndin starfaði með hléum.
    Hvað varðar árið 2010 liggur fyrir að kostnaður sveitarfélaganna vegna söfnunar og förgunar úrgangs á Íslandi nam rúmum 3 milljörðum kr., 3.285.445.000 kr. Heildartekjur voru hins vegar tæpir 2,5 milljarðar kr., 2.441.101.000 kr., og voru sveitarfélögin því að niðurgreiða meðhöndlun úrgangs með skattfé sem nemur um 850 millj. kr. Á árinu 2010 var heildarkostnaður á hvern íbúa í landinu tæpar 10.500 kr., að meðaltali, en raunkostnaður af frádregnum tekjum rúmar 2.600 kr. á hvern íbúa.
    Starfið í samráðsnefndinni hefur sýnt fram á að auka þarf öflun upplýsinga um úrgangsmál þannig að tölfræði um úrgangsmál verði nákvæmari. Gögn eru ekki aðgengileg á einum stað og misjafnt er hvernig sveitarfélög halda utan um þessar upplýsingar. Þá hefur samráðsnefndinni reynst erfitt að fá aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til að sinna hlutverki sínu. Ráðuneytið hefur tekið óformlega upp við Samband íslenskra sveitarfélaga hvort unnt sé að finna aðrar og hentugri leiðir til að sinna hlutverki samráðsnefndarinnar enda geta þessar upplýsingar nýst við mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög við gerð tillagna að lagafrumvörpum og stjórnvaldsfyrirmælum og öðrum stefnumarkandi ákvörðunum af hálfu stjórnvalda er varða úrgangsmál. Ráðuneytið mun skoða nánar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvaða leiðir eru hentugar til að afla sem gleggstra upplýsinga um kostnaðaráhrif vegna framkvæmdar laga nr. 55/2003 og reglugerða settra samkvæmt þeim.
    Umhverfisráðherra skipaði 29. ágúst 2012 starfshóp um förgun dýraleifa sem hefur það hlutverk að taka saman yfirlit um förgun úrgangs, sérstaklega förgun dýraleifa og sóttmengaðs úrgangs, og mögulegar leiðir til þess að úrganginum verði fargað í meira mæli í brennslustöðvum. Jafnframt var starfshópnum falið að meta hvort þörf væri á að breyta löggjöf til að tryggja að framangreindum úrgangi væri fargað í brennslustöðvum í meira mæli en nú væri gert.
    Auk fulltrúa ráðuneytisins er starfshópurinn skipaður fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
    Starfshópurinn hefur komið saman á þremur fundum og unnið er að skýrslu hópsins. Ekki liggur fyrir hvenær starfshópurinn mun skila skýrslu sinni en gera má ráð fyrir að það verði á fyrri hluta næsta árs.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði 14. október sl. samráðsvettvang um mótun stefnu í úrgangsstjórnun. Vettvangnum er ætlað að efla samstarf á sviði úrgangsstjórnunar og stuðla að virku samráði við hagsmunaaðila við mótun stefnu í úrgangsstjórnun.
    Með samráðsvettvangnum gefst tækifæri til að ræða úrgangsstjórnun í víðu samhengi og velta upp hugmyndum og tillögum sem nýtast við frekari stefnumótun af hálfu ráðuneytisins á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að m.a. verði rætt um landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013–2024, sem gefin var út í apríl sl., og hvernig tillögum sem þar koma fram verði best fylgt eftir. Jafnframt er gert ráð fyrir að fjallað verði um önnur tilfallandi verkefni hvað varðar úrgangsstjórnun.
    Auk fulltrúa ráðuneytisins er samráðsvettvangurinn skipaður fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Úrvinnslusjóði, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu, Fenúr, Umhverfisstofnun og Samtökum iðnaðarins.
    Ekki hefur verið boðað til fyrsta fundar í samráðsvettvangnum en fyrir liggur að það verði gert í nóvember 2013.