Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 254. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 547  —  254. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni
um Fjármálaeftirlitið og starfsemi Dróma hf.


     1.      Hvers vegna og í hvaða tilgangi var eignum SPRON ráðstafað eins og raun ber vitni sem hefur leitt til þess að viðskiptavinir SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans hafa fengið aðra afgreiðslu skuldamála hjá Dróma hf. en viðskiptavinir starfandi fjármálafyrirtækja með gildandi starfsleyfi?
    Tilgangur aðgerða Fjármálaeftirlitsins var m.a. að tryggja fjármálastöðugleika, aðgang einstaklinga og fyrirtækja að innstæðum sínum og að hindra að tjón hlytist af á fjármálamarkaði. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 um ráðstöfun eigna og skuldbindinga SPRON, með þeim hætti sem lýst er í ákvörðuninni, var tekin þegar fyrir lá að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs mundi ekki nýta heimild skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008 til að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.

     2.      Eru valdheimildir Fjármálaeftirlitsins að mati ráðherra nægar til að stemma stigu við því framferði Dróma hf. að hlíta ekki tilmælum um að standa við gerða endurútreikninga samkvæmt vaxtalögum og afléttingu veðbanda þegar krafa teldist að fullu greidd?
    Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækis sem stýrt er af slitastjórn. Í lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er fjallað um valdheimildir Fjármálaeftirlitsins gagnvart eftirlitsskyldum aðilum, þar á meðal fjármálafyrirtækjum sem stýrt er af slitastjórn, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Í lögunum er kveðið á um víðtækar heimildir Fjármálaeftirlitsins til gagnaöflunar, útgáfu leiðbeinandi tilmæla og til þess að gera úrbótakröfur ef athuganir eftirlitsins leiða í ljós að starfsemi eftirlitsskyldra aðila samræmist ekki lögum og öðrum reglum sem um starfsemina gilda. Þá er í 11. gr. laga nr. 87/1998 kveðið á um svokölluð þvingunarúrræði, þ.e. dagsektir og févíti, til þess að framfylgja ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins.
    Hinn 29. október 2013 tilkynnti Fjármálaeftirlitið að það hefði krafist þess að Drómi hf. stæði við gerða endurútreikninga samkvæmt vaxtalögum og aflétti veðböndum sem að baki þeim hvíldu. Drómi hf. kvaðst mundu höfða mál til ógildingar ákvörðun eftirlitsins en ekki hefur orðið af því. Þá hafa náðst samningar um uppgjör milli Dróma, Eignasafns Seðlabanka Íslands og Arion banka sem fela það m.a. í sér að einstaklingslán færast yfir til Arion banka. Þar af leiðandi er óljóst á þessu stigi máls hvort koma þurfi til beitingar valdheimilda eða þvingunarúrræða svo staðið sé við endurútreikninga og afléttingu veðbanda. Gerist þess þörf hefur Fjármálaeftirlitið, sem fyrr segir, víðtækar heimildir í þeim efnum.

     3.      Hverju sætir það að fram að falli SPRON-samstæðunnar hafði Frjálsi fjárfestingarbankinn um árabil veitt gjaldeyrislán og gengistryggð lán og gert slíka samninga við neytendur án þess að hafa heimild í starfsleyfi til slíkra viðskipta skv. b- og c-lið 7. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002?
    Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. hafði starfsleyfi sem lánafyrirtæki skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Náði starfsleyfi félagsins m.a. til veitingar útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Lánveiting lánafyrirtækis í erlendum gjaldeyri fellur undir heimild til útlánastarfsemi samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Að framangreindu virtu hafði Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. heimild til veitingar útlána til viðskiptavina í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli.

     4.      Hvaða heimildir hefur Fjármálaeftirlitið til þess að hafa eftirlit með eignarhaldsfélögum sem hvorki starfa eftir starfsheimildum fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum nr. 161/ 2002 né gildandi leyfum samkvæmt innheimtulögum, nr. 95/2008? Eru þær heimildir nægilegar að mati ráðherra?
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með þeim aðilum sem taldir eru upp í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en þeir aðilar sem falla þar undir eru m.a. viðskiptabankar, vátryggingafélög og rekstrarfélög verðbréfasjóða og lífeyrissjóða. Auk framangreinds hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með annarri starfsemi og öðrum verkefnum sem stofnuninni eru falin samkvæmt sérstökum lögum, sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. áðurnefndra laga.
    Á meðan félög, þar á meðal eignarhaldsfélög, stunda ekki starfsemi né sinna verkefnum sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins lögum samkvæmt heyra þau ekki undir eftirlit stofnunarinnar. Þá verður ekki séð að nauðsynlegt sé að setja eignarhaldsfélög, án tillits til þeirrar starfsemi sem þau stunda, undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins.
    Í tengslum við framangreint má benda á umfjöllun í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar um eftirlit með fjármálafyrirtækjum sem stýrt er af slitastjórn og dótturfélögum þess sem halda utan um eignir þess, sbr. 1. mgr. 101. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

     5.      Hvernig má það vera að samkvæmt gagnsæistilkynningu Fjármálaeftirlitsins 12. nóvember 2013 hefur Drómi hf. stundað leyfisskylda innheimtustarfsemi án tilskilinna starfsheimilda um árabil og að Fjármálaeftirlitið hafi þrátt fyrir það lokið málinu með sátt að fjárhæð 2.800.000 kr. með vísan til reglna nr. 1245/2007? Hefur ráðherra almennt sömu afstöðu og þá sem tilkynning Fjármálaeftirlitsins ber með sér, að einungis sé um minni háttar brot að ræða og að af þeim sökum geti hið brotlega framferði talist ásættanlegt gegn hóflegri greiðslu?
    Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að ljúka málum með sátt ef um er að ræða brot sem veita stofnuninni heimild til beitingar stjórnvaldssekta og ekki er um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við, sbr. 1. gr. reglna nr. 1245/2007 um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt. Við mat á því hvort ljúka skuli máli með sátt eða stjórnvaldssekt lítur Fjármálaeftirlitið til framangreinds auk annarra atriða, svo sem alvarleika brots, umfangs þess og hvort aðili bregst við kröfum stofnunarinnar um úrbætur.
    Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu skv. 13. gr. laga nr. 87/1998 og geta því ekki upplýst um öll atvik þess máls sem vísað er til í þessum lið fyrirspurnarinnar. Hins vegar má geta þess að umrædd háttsemi Dróma hf. braut gegn ákvæðum laga sem veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til beitingar stjórnvaldssekta en varðar ekki refsiviðurlögum og var Fjármálaeftirlitinu því heimilt að ljúka því með sátt. Fjármálaeftirlitið lítur svo á að sáttargerð við aðila, þar sem aðili gengst við því að hafa gerst brotlegur og greiðir sáttarfjárhæð, teljist viðurlög. Þá réðu ýmis önnur atriði því að framangreindu máli var lokið með sátt, m.a. það að félagið varð við kröfu stofnunarinnar um úrbætur á meðan á vinnslu málsins stóð.
    Fjármálaeftirlitið er sjálfstætt stjórnvald og verða ákvarðanir þess ekki kærðar til ráðherra eða annars stjórnvalds. Af því leiðir að ráðherra er ekki ætlað vald til að hafa áhrif á ákvarðanir stofnunarinnar eða til að endurskoða þær, þrátt fyrir að stofnunin falli stjórnskipulega undir hann. Í ljósi þessa og þess að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu um einstök mál hefur ráðherra ekki tilefni til að hafa afstöðu til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

     6.      Hverjar eru fjárhæðir og gjaldtökutímabil þeirra leyfisgjalda sem Fjármálaeftirlitið innheimtir fyrir útgáfu innheimtuleyfa og eftirlit með starfsemi leyfisskyldra innheimtuaðila?

    Eftirlitsgjald fyrir aðila með innheimtuleyfi er 700.000 kr. á ári og er því skipt í þrjá hluta með gjalddögum 1. febrúar, 1. maí og 1. september ár hvert. Þess má geta að eftirlitsgjald fyrir aðila með innheimtuleyfi var 600.000 kr. á árunum 2009 og 2010 þar til það var hækkað í 700.000 kr. á árinu 2011.