Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 844, 143. löggjafarþing 288. mál: samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu (breyting ýmissa laga, EES-reglur).
Lög nr. 26 4. apríl 2014.

Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku lýðveldisins Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.


I. KAFLI
Breyting á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: samning um þátttöku lýðveldisins Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. meginmál samningsins og viðauka, sem áritaður var í Brussel 20. desember 2013.

2. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     1. mgr. 2. gr. samningsins, sem vísað er til í 10. tölul. 1. gr., um aðild nýs samningsaðila að Evrópska efnahagssvæðinu, skal hafa lagagildi hér á landi.
     Þau ákvæði samningsins, sem vísað er til í 11. mgr., eru prentuð sem fylgiskjal IX með lögum þessum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993, með síðari breytingum.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 um frelsi launafólks til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins taka þó ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Króatíu fyrr en 1. júlí 2015. Hið sama gildir um aðstandendur þessara ríkisborgara skv. 1. gr. a laganna.

III. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum.

4. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði a-liðar 22. gr. tekur þó ekki gildi að því er varðar rétt ríkisborgara Króatíu til að starfa hér á landi fyrr en 1. júlí 2015, sbr. þó 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna tekur ekki gildi fyrir ríkisborgara Króatíu fyrr en 1. júlí 2015. Þá taka ákvæði 1. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES- eða EFTA-útlendings til dvalar án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er í atvinnuleit ekki gildi fyrir ríkisborgara Króatíu fyrr en 1. júlí 2015.

V. KAFLI
Gildistaka.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Fylgiskjal IX með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.
     
1. MGR. 2. GR. AÐILDARSAMNINGS EES
     
2. gr.
     
1. AÐLÖGUN MEGINMÁLS EES-SAMNINGSINS

        a)    Inngangsorð:

          i)    Eftirfarandi bætist við í skrá um samningsaðila á eftir Lýðveldinu Frakklandi:

               „LÝÐVELDIÐ KRÓATÍA,“

          ii)    Orðið „Lýðveldið“ á undan orðinu UNGVERJALAND falli niður.

        b)    2. gr.:

          i)    Brott falli f-liður.

          ii)    Eftirfarandi bætist við á eftir e-lið:

            „f)    hugtakið „aðildarlögin frá 9. desember 2011“ merkir lögin um aðildarskilmála Lýðveldisins Króatíu og aðlögun sáttmálans um Evrópusambandið, sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og stofnsáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu, sem voru undirrituð í Brussel 9. desember 2011.“

        c)    117. gr.:

             Í stað textans í 117. gr. komi eftirfarandi:

             „Ákvæði um fjármagnskerfin er að finna í bókun 38, bókun 38a, viðbót við bókun 38a, bókun 38b og viðbót við bókun 38b.“

        d)    129. gr.:

          i)    Í stað annarrar undirgreinar 1. mgr. komi eftirfarandi:

               „Vegna stækkana Evrópska efnahagssvæðisins skulu útgáfur af samningi þessum á búlgörsku, eistnesku, króatísku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, rúmensku, slóvakísku, slóvensku, tékknesku og ungversku vera jafngildar.“

          ii)    Í stað þriðju undirgreinar 1. mgr. komi eftirfarandi:

               „Textar gerða, sem vísað er til í viðaukunum, eru jafngildir á búlgörsku, dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, króatísku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, portúgölsku, rúmensku, slóvakísku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku eins og þeir birtast í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og skulu með tilliti til jafngildingar gerðir á íslensku og norsku og birtir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.“

Samþykkt á Alþingi 26. mars 2014.