Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1460, 127. löggjafarþing 433. mál: útlendingar (heildarlög).
Lög nr. 96 15. maí 2002.

Lög um útlendinga.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.
     Ákvæði laga þessara gilda um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér á landi.
     Um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið gilda sérreglur, sbr. ákvæði VI. kafla.
     Íslenskir ríkisborgarar geta einnig borið skyldur samkvæmt lögunum.
     Íslensk skip í siglingum erlendis falla ekki undir gildissvið laganna.

2. gr.

Tilgangur.
     Lögin veita heimild til að hafa eftirlit með komu til landsins og för úr landi og með dvöl útlendinga hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni.
     Með lögunum er kveðið á um réttarstöðu útlendinga sem koma til landsins eða fara frá því, dveljast hér eða sækja um leyfi samkvæmt lögunum.

3. gr.

Framkvæmd laganna.
     Dómsmálaráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum og setur nánari reglur um heimild útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér á landi.
     Framkvæmd laganna að öðru leyti annast Útlendingastofnun, lögregla og önnur stjórnvöld.
     Dómsmálaráðherra skipar forstjóra Útlendingastofnunar til fimm ára í senn. Forstjórinn skal hafa embættispróf í lögfræði.
     Dómsmálaráðherra kveður á um starfssvið þeirra sem annast framkvæmd laganna að því leyti sem lögin kveða ekki á um það.

II. KAFLI
Koma og brottför.

4. gr.

Vegabréfaeftirlit.
     Hver sá sem kemur til landsins skal þegar í stað gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða næsta lögregluyfirvald. Hver sá sem fer af landi brott skal sæta brottfarareftirliti og skal við brottför gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða næsta lögregluyfirvald. Undanskilin er för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins, svo og aðrar ferðir sem eru í samræmi við reglur sem dómsmálaráðherra setur.
     Koma til landsins og för úr landi skal fara fram á stöðum og afgreiðslutímum sem dómsmálaráðherra ákveður. Lögreglustjóri getur veitt undanþágu frá þessu. För yfir innri landamæri Schengen-svæðisins er heimil utan viðurkenndra landamærastöðva. Ákvæði tollalaga gilda um för yfir innri landamæri.
     Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um komu- og brottfarareftirlit og um undantekningar frá ákvæðum 1. og 2. mgr. um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Hann setur einnig reglur um skyldu stjórnanda skips eða loftfars til að ganga úr skugga um að farþegar hafi gild ferðaskilríki.

5. gr.

Vegabréf.
     Útlendingur, sem kemur til landsins, skal, nema annað sé ákveðið í reglum sem dómsmálaráðherra setur, hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki.
     Dómsmálaráðherra setur reglur um hvaða skilyrðum vegabréf eða annað kennivottorð þarf að fullnægja til að teljast gilt til komu til landsins og dvalar.
     Útlendingastofnun getur, ef sérstaklega stendur á, undanþegið útlending þeirri skyldu að hafa vegabréf eða viðurkennt önnur skilríki en leiðir af almennum reglum.

6. gr.

Vegabréfsáritanir.
     Útlendingur þarf að hafa vegabréfsáritun til að mega koma til landsins nema annað sé ákveðið í reglum sem dómsmálaráðherra setur. Útlendingur, sem hefur dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu, er undanþeginn áritunarskyldu. Sama gildir um útlending sem hefur bráðabirgðadvalarleyfi gefið út af þátttökuríki í samstarfinu, enda hafi hann auk þess ferðaskilríki gefin út af sama ríki.
     Vegabréfsáritun gefin út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu gildir til komu og dvalar hér á landi þann tíma sem tilgreindur er ef það kemur fram í árituninni.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um skyldu til að hafa vegabréfsáritun til að fara um flugvöll.
     Vegabréfsáritun skal gilda fyrir eina eða fleiri komur til landsins og til allt að þriggja mánaða dvalar á nánar tilgreindu tímabili.
     Útlendingastofnun tekur ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar. Fela má utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Enn fremur er heimilt að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun.

7. gr.

Áhafnir skipa og loftfara.
     Útlendingur, sem lætur af starfi um borð í skipi eða loftfari, eða er laumufarþegi, má ekki ganga hér á land án leyfis lögreglunnar. Ákvæði um stjórnvald í málum vegna frávísunar og um málskot gilda eftir því sem við á.
     Dómsmálaráðherra setur reglur um landgönguleyfi útlendra sjómanna við dvöl skips í höfn og um heimild til að meina þeim landgöngu.

III. KAFLI
Dvöl og búseta.

8. gr.

Dvöl án dvalarleyfis.
     Útlendingur, sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu, má ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en þrjá mánuði frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um dvöl umfram þrjá mánuði ef það leiðir af þjóðréttarsamningi, svo og nánari reglur um hvernig reikna skuli dvalartíma.
     Dönskum, finnskum, norskum og sænskum ríkisborgurum er heimilt að dveljast hér án dvalarleyfis. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um frekari undanþágur frá kröfu um dvalarleyfi.

9. gr.

Hverjir þurfa dvalarleyfi.
     Útlendingur, sem hyggst ráða sig í vinnu, fyrir endurgjald eða án þess, eða stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi, þarf, auk atvinnuleyfis þar sem það er áskilið í lögum, að hafa dvalarleyfi, nema dvöl sé heimil án dvalarleyfis skv. 2. mgr. 8. gr.
     Útlendingur, sem hyggst dveljast hér lengur en honum er heimilt skv. 1. mgr. 8. gr., þarf að hafa dvalarleyfi.

10. gr.

Útgáfa dvalarleyfis.
     Dvalarleyfi, sem veitt er í fyrsta sinn, skal hafa verið gefið út áður en komið er til landsins. Frá þessu má þó víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með.
     Dvalarleyfi, sem veitt er í fyrsta sinn, skal að jafnaði gefið út til eins árs. Heimilt er að gefa leyfið út til skemmri tíma eða allt að tveimur árum ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum.
     Útlendingastofnun tekur ákvörðun um dvalarleyfi.

11. gr.

Skilyrði dvalarleyfis.
     Veita má útlendingi dvalarleyfi, að fenginni umsókn, ef:
 1. framfærsla hans, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt, samkvæmt nánari reglum sem dómsmálaráðherra setur,
 2. skilyrðum fyrir dvalarleyfi, sem sett eru í reglum skv. 1. mgr. 3. gr., er fullnægt og
 3. ekki liggja fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna.

     Veita má útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið.
     Útlendingastofnun getur, að beiðni útlendings sem sótt hefur um hæli, veitt honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina. Hún getur einnig, að beiðni útlendings sem hefur fengið endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi sem kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu, veitt honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til synjunin kemur til framkvæmda. Ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru, og viðeigandi ákvæði V. kafla laga þessara, gilda ekki um ákvörðun um bráðabirgðadvalarleyfi. Bráðabirgðadvalarleyfi hefur ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum.

12. gr.

Sameiginleg vernd vegna fjöldaflótta.
     Þegar um er að ræða fjöldaflótta getur dómsmálaráðherra ákveðið að beita skuli ákvæðum greinar þessarar. Ráðherra ákveður einnig hvenær heimild til að veita sameiginlega vernd skv. 2. og 3. mgr. skuli falla niður.
     Útlendingi, sem fellur undir fjöldaflótta og kemur til landsins eða er hér þegar ákvæðum greinarinnar er beitt, má, að fenginni umsókn, veita vernd á grundvelli hópmats (sameiginlega vernd). Felur það í sér að útlendingnum verður veitt dvalarleyfi skv. 2. mgr. 11. gr. Leyfið myndar ekki heimild til útgáfu búsetuleyfis.
     Leyfið má endurnýja eða framlengja í allt að þrjú ár frá þeim tíma þegar umsækjandi fékk fyrst leyfi. Síðan má veita leyfi sem getur myndað heimild til útgáfu búsetuleyfis. Að liðnu einu ári með slíkt leyfi er heimilt að gefa út búsetuleyfi, enda séu skilyrðin fyrir því að halda leyfinu enn fyrir hendi og skilyrðum að öðru leyti fullnægt, sbr. 15. gr.
     Umsókn útlendings, sem fellur undir 2. mgr., um hæli má leggja til hliðar í allt að þrjú ár frá því að umsækjandinn fékk fyrst leyfi. Þegar heimildin til að veita sameiginlega vernd er niður fallin, sbr. 1. mgr., eða þegar liðin eru þrjú ár frá því að umsækjandinn fékk fyrst leyfi skal tilkynna umsækjandanum að hælisumsóknin verði því aðeins tekin til meðferðar að hann láti í ljós ótvíræða ósk um það innan tiltekins frests.
     Útlendingastofnun tekur ákvörðun um leyfi og um að leggja umsókn til hliðar.
     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur.

13. gr.

Dvalarleyfi fyrir aðstandendur.
     Nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara sem búsettur er hér á landi eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum eða búsetuleyfi geta samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi, enda liggi ekki fyrir atvik sem greinir í c-lið 1. mgr. 11. gr. auk þess sem framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði skal vera tryggt, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr.
     Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki, samvistarmaki, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali og á þeirra framfæri.
     Dvalarleyfi aðstandanda útlendings skal að jafnaði gefið út til sama tíma og leyfi þess síðarnefnda, þó þannig að það gildi ekki lengur en leyfi hans.

14. gr.

Endurnýjun.
     Endurnýja má dvalarleyfi útlendings, að fenginni umsókn, ef fullnægt er skilyrðum 11. gr.
     Endurnýjað dvalarleyfi skal að jafnaði gefið út til eins árs en heimilt er að gefa leyfið út fyrir annað tímabil ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum. Endurnýjað dvalarleyfi skal þó ekki gefið út til lengri tíma en tveggja ára.
     Heimila má útlendingi, sem sækir um endurnýjun dvalarleyfis, áframhaldandi dvöl með sömu skilyrðum þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina og hann á rétt á því ef hann leggur umsókn fram a.m.k. mánuði áður en leyfið fellur úr gildi.

15. gr.

Búsetuleyfi.
     Veita má útlendingi, sem dvalist hefur hér á landi samfellt síðustu þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og sótt hefur námskeið í íslensku fyrir útlendinga, búsetuleyfi samkvæmt umsókn ef ekki liggja fyrir ástæður sem valdið geta því að honum verði vísað úr landi, sbr. 1. mgr. 20. gr.
     Búsetuleyfi felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar.
     Útlendingastofnun tekur ákvörðun um búsetuleyfi. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. gilda um umsóknir um búsetuleyfi eftir því sem við á.
     Búsetuleyfi fellur niður þegar leyfishafi hefur verið búsettur eða dvalist í raun erlendis samfellt lengur en 18 mánuði. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um að fella leyfi úr gildi. Að fenginni umsókn má heimila útlendingi lengri dvöl erlendis án þess að búsetuleyfið falli úr gildi.
     Dómsmálaráðherra setur reglur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga skv. 1. mgr. Þar skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Einnig er heimilt að kveða þar á um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu í íslensku og um próf því til staðfestingar. Þá er í reglugerðinni heimilt að kveða á um gjald vegna þátttöku í námskeiði eða prófi.

16. gr.

Afturköllun.
     Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi og búsetuleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis eða búsetuleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

17. gr.

Tilkynningarskylda.
     Útlendingur, sem fengið hefur dvalarleyfi áður en hann kom til landsins, skal innan viku frá komu gefa sig fram við Útlendingastofnun eða embætti sýslumanns utan Reykjavíkur. Sama á við um útlending sem hyggst sækja um eða að öðru leyti þarfnast slíks leyfis.
     Útlendingur, sem flytur heimili sitt meðan mál samkvæmt lögunum er til meðferðar, skal tilkynna lögreglunni um flutninginn.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að útlendingur sem ekki þarf dvalarleyfi skuli tilkynna lögreglunni um heimili sitt hér á landi og um vinnu sína eða starf.

IV. KAFLI
Frávísun og brottvísun.

18. gr.

Frávísun við komu til landsins.
     Heimilt er að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu ef:
 1. hann fullnægir ekki reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins,
 2. honum hefur verið vísað úr landi hér á landi eða í öðru norrænu ríki og endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins,
 3. hann hefur ekki tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu eða getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni,
 4. hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar,
 5. hann hefur hlotið refsingu eins og greinir í b- eða c-lið 1. mgr. 20. gr. eða sérstök ástæða er til af öðrum ástæðum að óttast að hann muni fremja hér á landi eða í öðru norrænu landi refsiverðan verknað sem varðað getur fangelsi lengur en þrjá mánuði,
 6. reglur 6. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins eiga við og ætla má að útlendingurinn muni fara til annars norræns ríkis og að honum muni að öllum líkindum verða vísað þar frá vegna þess að ekki er fullnægt reglum um vegabréf eða vegabréfsáritun, eða frávísun er heimil af öðrum ástæðum í viðkomandi ríki,
 7. hann samkvæmt mati læknis getur ekki ráðið persónulegum högum sínum sjálfur meðan á dvöl hans hér stendur eða hætta er á að hann muni með framkomu sinni valda sér eða öðrum tjóni eða hann er haldinn alvarlegum smitsjúkdómi,
 8. hann hefur ekki greitt kostnað hins opinbera við fyrri færslu hans úr landi, sbr. 1. mgr. 56. gr.,
 9. hann er skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði synjað um komu,
 10. það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, þjóðaröryggis eða alþjóðasamskipta ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.

     Nægjanlegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins.
     Nú ber útlendingur að hann sé flóttamaður eða veitir að öðru leyti upplýsingar sem benda til að ákvæði 1. mgr. 45. gr. eigi við, og skal þá leggja málið fyrir Útlendingastofnun til meðferðar og ákvörðunar.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. að því er varðar þann sem hefur vegabréfsáritun eða dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.

19. gr.

Frávísun eftir komu til landsins.
     Heimilt er að vísa útlendingi frá landi eftir reglum 1. mgr. 18. gr. þótt sjö sólarhringa fresturinn sé liðinn. Þó verður meðferð máls að hefjast innan þriggja mánaða frá komu hans til landsins.
     Ekki má vísa útlendingi sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi frá landi samkvæmt ákvæði þessu.

20. gr.

Brottvísun.
     Heimilt er að vísa útlendingi úr landi ef:
 1. hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið,
 2. hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi,
 3. hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar,
 4. það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.

     Brottvísun skv. a-, b- og c-lið 1. mgr. skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans. Útlendingi sem hefur dvalarleyfi eða norrænum ríkisborgara sem átt hefur heimili hér á landi lengur en þrjá mánuði má því aðeins vísa úr landi að hin refsiverða háttsemi geti varðað eins árs fangelsi eða meira.
     Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur gilt fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma, en að jafnaði ekki skemur en þrjú ár. Samkvæmt umsókn má heimila þeim sem vísað hefur verið úr landi endurkomu en að jafnaði ekki fyrr en tvö ár eru liðin frá brottför.

21. gr.

Frávísun og brottvísun útlendings sem hefur búsetuleyfi o.fl.
     Óheimilt er að vísa frá landi eða úr landi útlendingi sem fæddur er hér á landi og hefur átt hér fast heimili óslitið síðan.
     Útlendingi sem hefur búsetuleyfi má því aðeins vísa frá landi eða úr landi að:
 1. það sé nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins, sbr. d-lið 1. mgr. 20. gr.,
 2. hann hafi afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og það hafi átt sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi.

     Brottvísun skv. b-lið 2. mgr. skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans.

22. gr.

Stjórnvald og undirbúningur máls.
     Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun skv. a–i-lið 1. mgr. 18. gr. Útlendingastofnun tekur aðrar ákvarðanir samkvæmt kafla þessum.
     Lögregla undirbýr mál sem Útlendingastofnun tekur ákvörðun um. Nú telur lögregla skilyrði vera til að vísa útlendingi frá landi eða úr landi og sendir hún þá Útlendingastofnun gögn málsins til ákvörðunar.

V. KAFLI
Málsmeðferð.

23. gr.

Almennar reglur um málsmeðferð.
     Stjórnsýslulögin gilda um meðferð mála nema annað leiði af lögum þessum.

24. gr.

Andmælaréttur.
     Áður en ákvörðun er tekin í máli útlendings skal hann eiga þess kost að tjá sig um efni máls skriflega eða munnlega, enda komi ekki fram í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Réttur til að tjá sig skriflega er þó ekki fyrir hendi þegar útlendingi ber að tjá sig munnlega við vegabréfaeftirlit eða lögreglu.
     Í máli vegna umsóknar um hæli eða máli þar sem ákvæði 45. gr. eiga við, svo og í máli er varðar frávísun eða brottvísun, skal stjórnvald, eftir fremsta megni, sjá um að útlendingurinn eigi kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á tungumáli sem hann getur tjáð sig á svo að viðunandi sé.

25. gr.

Leiðbeiningarskylda.
     Í máli er varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis, svo og í máli vegna umsóknar um hæli, skal stjórnvald leiðbeina útlendingnum um að honum sé heimilt, á eigin kostnað, að leita aðstoðar lögmanns eða annars fulltrúa, um rétt hans á að fá sér skipaðan talsmann, sbr. 2. mgr. 34. gr., og um rétt hans til að hafa samband við fulltrúa heimalands síns, fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og mannúðar- eða mannréttindasamtök hér á landi.
     Að öðru leyti gildir almenn leiðbeiningarskylda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga.

26. gr.

Miðlun upplýsinga úr landi.
     Stjórnvöldum sem fara með málefni útlendinga er heimilt að láta erlendum stjórnvöldum í té upplýsingar um útlending vegna meðferðar á máli er varðar vegabréfsáritun, dvalarleyfi eða hæli að því marki sem nauðsynlegt er vegna skuldbindinga Íslands sem þátttakanda í Schengen-samstarfinu og samstarfi samkvæmt Dyflinnarsamningnum frá 15. júní 1990.
     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um hvaða upplýsingar megi veita og um skilyrði sem þarf að fullnægja til að upplýsingar verði veittar.

27. gr.

Vanhæfi.
     Opinber starfsmaður, sem tekið hefur þátt í meðferð opinbers máls á hendur viðkomandi útlendingi, má ekki taka þátt í undirbúningi að ákvörðun eða taka sjálfur ákvörðun í máli um frávísun, dvalarleyfi, búsetuleyfi eða brottvísun. Ákvæði þetta tekur ekki til mála vegna brota á ákvæðum laga þessara eða reglna sem settar eru samkvæmt þeim.

28. gr.

Öflun gagna fyrir dómi.
     Útlendingi, svo og stjórnvaldi sem fer með mál útlendings, er heimilt að krefjast þess að upplýsinga, sem ekki verður aflað á annan hátt svo að fullnægjandi sé í máli samkvæmt lögunum, verði aflað fyrir dómi eftir reglum XII. kafla laga um meðferð einkamála um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Dómari ákveður hvort skilyrði eru til að fallast á beiðni.
     Heimild skv. 1. mgr. gildir ekki þegar til meðferðar er mál gegn útlendingi um frávísun eða þegar sá sem óskað er að gefi skýrslu fyrir dómi er erlendis.

29. gr.

Rannsóknarúrræði.
     Útlendingi er skylt að veita atbeina sinn til að upplýsa hver hann er, að því marki sem stjórnvald skv. 2. mgr. 3. gr. krefst þess. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um hvað skylda má útlending til að gera til að fullnægja þessari skyldu.
     Ef vafi leikur á hver útlendingur er við komu til landsins eða síðar getur lögregla lagt hald á ferðaskilríki, farseðla og annað sem getur verið til upplýsinga um hver hann er. Sama gildir þegar vafi er um fyrri dvalarstað og það skiptir máli um rétt til dvalar hér á landi. Lögregla skal benda útlendingi á að hann geti borið réttmæti haldlagningar undir dómara samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála.
     Ef rökstuddur grunur leikur á að útlendingur, í bága við fyrirmæli sem greinir í 1. mgr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um hver hann er eða, í bága við fyrirmæli sem greinir í 53. gr., haldi eftir eða leyni upplýsingum um fyrri dvalarstað má lögregla leita á útlendingnum, á heimili hans, herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á.
     Í þágu máls má taka ljósmyndir og fingraför af útlendingi sem:
 1. ekki getur fært sönnur á hver hann er eða ef ástæða er til að ætla að útlendingurinn gefi rangt upp hver hann er,
 2. leitar hælis eða sækir um leyfi samkvæmt lögunum,
 3. hefur verið synjað um hæli eða leyfi samkvæmt lögunum eða
 4. hefur verið vísað frá landi eða úr landi eða ætla má að dveljist hér ólöglega.

     Fingraför, sem tekin eru skv. 4. mgr., má færa í tölvufærða fingrafaraskrá. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um færslu og notkun skrárinnar.
     Ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er eða rökstuddur grunur er um að útlendingur gefi rangar upplýsingar um hver hann er getur lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu svæði. Ef slíkum fyrirmælum er ekki sinnt eða þau teljast ófullnægjandi er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Gæsla má ekki standa lengur en í 12 vikur samanlagt nema sérstaklega standi á.

30. gr.

Kæruheimild.
     Ákvörðun lögreglunnar, svo og ákvörðun sendiráðs, fastanefndar eða ræðismanns skv. 5. mgr. 6. gr., má kæra til Útlendingastofnunar. Ákvörðun Útlendingastofnunar sem æðra stjórnvalds verður ekki kærð. Að öðru leyti má kæra ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins.
     Nú vill útlendingur nýta heimild til kæru og skal hann þá lýsa kæru innan 15 daga frá því að honum var kynnt ákvörðunin fyrir þeim sem það gerir. Að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga um stjórnsýslukæru.

31. gr.

Hvenær ákvörðun getur komið til framkvæmda.
     Ákvörðun um frávísun skv. 18. gr. má framkvæma þegar í stað. Synjun á umsókn um endurnýjun dvalarleyfis eða um búsetuleyfi, sem sótt er um innan frests skv. 3. mgr. 14. gr., má ekki framkvæma fyrr en ákvörðunin er endanleg. Sama gildir um ákvörðun um afturköllun skv. 16. gr. og um ákvörðun um brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi eða búsetuleyfi eða norræns ríkisborgara sem hefur dvalið hér á landi lengur en þrjá mánuði. Að öðru leyti gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga um frestun réttaráhrifa.
     Synjun á umsókn um dvalarleyfi sem sótt er um í fyrsta sinn og á umsókn um endurnýjun sem greinir í 1. mgr. og sótt er um að liðnum fresti skv. 3. mgr. 14. gr. má ekki framfylgja fyrr en útlendingurinn hefur fengið færi á að leggja fram kæru og aldrei fyrr en liðnir eru tveir sólarhringar frá því að útlendingnum var tilkynnt um ákvörðunina.

32. gr.

Hvenær ákvörðun í málum um hæli eða vernd gegn ofsóknum getur komið til framkvæmda.
     Nú ber útlendingur að aðstæður séu þannig að ákvæði 1. mgr. 45. gr. eigi við og má þá ekki framkvæma ákvörðun um að hann skuli yfirgefa landið fyrr en ákvörðunin er endanleg. Þetta gildir þó ekki í málum þar sem Útlendingastofnun telur augljóst að aðstæður séu ekki þannig og í málum þar sem útlendingurinn á umsókn um hæli til meðferðar í öðru landi eða slíkri umsókn hefur verið hafnað þar.
     Lögregla skal leggja ákvörðun um frestun á framkvæmd fyrir Útlendingastofnun ef útlendingur ber fyrir sig aðstæður sem greinir í 1. mgr. 45. gr. þegar framkvæma á ákvörðunina og ekki kemur fram að afstaða hafi þegar verið tekin til þeirra aðstæðna sem borið er við. Nú telur Útlendingastofnun augljóst að aðstæður séu ekki þannig og má hún þá ákveða að ákvörðunin komi til framkvæmda.
     Ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru gilda ekki um ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr.

33. gr.

Framkvæmd ákvörðunar.
     Ákvörðun, sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið, skal framkvæma þannig að lagt er fyrir útlendinginn að hverfa þegar á brott eða innan tiltekins frests. Ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki gera það má lögregla færa hann úr landi. Ef sérstaklega stendur á má færa útlendinginn til annars lands en þess sem hann kom frá. Ákvarðanir sem varða framkvæmd verða ekki kærðar sérstaklega. Málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið frestar ekki framkvæmd hennar. Þó getur dómsmálaráðherra tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd hennar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.
     Útlendingi, sem fellur undir ákvæði 1. mgr. og ekki hefur gild ferðaskilríki, er skylt að afla sér þeirra.
     Til að tryggja að ákvörðun skv. 1. mgr. verði framkvæmd getur lögregla lagt fyrir útlendinginn að:
 1. tilkynna sig,
 2. afhenda vegabréf eða annað kennivottorð, sbr. 5. gr., og
 3. halda sig á ákveðnu svæði.

     Fyrirmæli sem greinir í 3. mgr. má því aðeins gefa að sérstök ástæða sé til að ætla að útlendingurinn muni koma sér undan framkvæmd. Við mat á þessu má taka tillit til almennrar reynslu af undankomu. Fyrirmælin gilda ekki lengur en í tvær vikur nema útlendingurinn samþykki eða dómari ákveði samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála.
     Ef nauðsyn ber til, til að tryggja framkvæmd, er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Samsvarandi gildir ef útlendingur gerir ekki það sem nauðsynlegt er til að afla sér ferðaskilríkja, sbr. 2. mgr., og tilgangurinn er að færa útlendinginn fyrir fulltrúa lands sem við á í því skyni að fá útgefin ferðaskilríki.
     Gæsla skal ekki ákveðin lengur en í tvær vikur. Gæslutíma má því aðeins framlengja að útlendingurinn fari ekki sjálfviljugur úr landi og líkur séu á að hann muni annars koma sér undan framkvæmd ákvörðunar sem greinir í 1. mgr. Má þá framlengja frestinn í allt að tvær vikur, en þó ekki oftar en tvisvar.
     Útlending má hvorki handtaka né úrskurða í gæsluvarðhald ef það með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun, eða dómarinn telur fullnægjandi að útlendingurinn sæti þess í stað úrræðum skv. 3. mgr.
     Þvingunarúrræðum skv. 3. og 5. mgr. má beita þegar ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið er tekin og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar.

34. gr.

Réttaraðstoð.
     Dómari skal skipa útlendingi talsmann úr hópi lögmanna þegar krafist er gæslu skv. 6. mgr. 29. gr. eða 5. mgr. 33. gr. Sama gildir þegar fyrir dómi er krafist úrræða skv. 3. og 4. mgr. 33. gr. nema það hafi í för með sér sérstakt óhagræði eða töf eða dómarinn telur ekki varhugavert að láta hjá líða að skipa talsmann.
     Þegar kærð er ákvörðun sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun leyfis og í máli vegna umsóknar um hæli skal útlendingur eiga rétt á að stjórnvald skipi honum talsmann. Þetta gildir þó ekki í málum vegna brottvísunar skv. b- og c-lið 1. mgr. 20. gr., b-lið 2. mgr. 21. gr. og 2. mgr. 43. gr. þegar um er að ræða háttsemi sem greinir í 2. málsl., eða þegar útlendingur sem sótt hefur um hæli kærir að hann hafi einungis fengið dvalarleyfi skv. 2. mgr. 11. gr. Ef dómari tekur til greina beiðni um að afla upplýsinga fyrir dómi skv. 28. gr. skal kostnaður útlendingsins við lögfræðiaðstoð meðan öflun upplýsinganna fer fram greiðast úr ríkissjóði.
     Ákvæði VI. kafla laga um meðferð opinberra mála gilda, eftir því sem við á, um réttaraðstoð skv. 1. og 2. mgr. Krefja skal útlending um endurgreiðslu kostnaðar af réttaraðstoð að hluta til eða að öllu leyti ef hann hefur ráð á því.

VI. KAFLI
Útlendingar sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn).

35. gr.

Dvalarleyfi.
     Útlendingur, sem fellur undir reglur EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga (EES-útlendingur), má koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins, eða allt að sex mánuði ef hann er í atvinnuleit. Dvöl í öðru norrænu landi skal ekki draga frá dvalartímanum.
     EES-útlendingur, sem dvelst eða starfar hér á landi lengur en greinir í 1. mgr., skal hafa dvalarleyfi. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um undanþágur frá reglum um dvalarleyfi og reglur um tilkynningarskyldu.
     Dvalarleyfi, sem sótt er um í fyrsta sinn, má sækja um eftir komu til landsins.
     Útlendingastofnun tekur ákvörðun um dvalarleyfi.

36. gr.

Skilyrði dvalarleyfis.
     EES-útlendingur á rétt á dvalarleyfi samkvæmt umsókn þess efnis ef hann framvísar þeim ferðaskilríkjum sem hann komst inn í landið með og gögnum sem sýna að hann:
 1. er launþegi sem fellur undir lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 2. tölul. V. viðauka við EES-samninginn,
 2. ætlar að stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi eða veita eða njóta hér þjónustu,
 3. þiggur nægilegar fastar reglubundnar greiðslur eða á nægilegt eigið fé og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir eða
 4. er innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun.

     Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa.
     Heimilt er að synja um dvalarleyfi skv. 1. mgr. ef þær aðstæður eru fyrir hendi sem geta veitt tilefni til að meina útlendingnum komu til landsins, dvöl eða vinnu samkvæmt öðrum lagaákvæðum.

37. gr.

Dvalarleyfi fyrir aðstandendur.
     Aðstandandi útlendings sem hefur eða öðlast dvalarleyfi skv. 1. mgr. 36. gr. á rétt á dvalarleyfi samkvæmt umsókn þess efnis að uppfylltum skilyrðum í reglum sem dómsmálaráðherra setur.

38. gr.

Áframhaldandi dvöl að loknu starfi.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um rétt útlendings sem fellur undir a- og b-lið 1. mgr. 36. gr. til áframhaldandi dvalar að loknu starfi, svo og aðstandenda hans skv. 37. gr.

39. gr.

Gildistími og efni dvalarleyfis.
     Dvalarleyfi, sem gefið er út í fyrsta sinn skv. 36., 37. og 38. gr., skal að jafnaði gefið út til fimm ára.
     Ef starfi er ætlað að standa lengur en þrjá mánuði en skemur en eitt ár skal leyfi til útlendings skv. a-lið 1. mgr. 36. gr. gefið út til samsvarandi tíma.
     Leyfi til útlendings sem ætlar að veita þjónustu eða njóta þjónustu, sbr. b-lið 1. mgr. 36. gr., skal hafa sama gildistíma og þjónustan verður veitt eða hennar notið.
     Leyfi, sem gefið er út í fyrsta sinn til útlendings skv. c-lið 1. mgr. 36. gr., má takmarka við tvö ár ef umsækjandinn getur ekki sýnt fram á að skilyrði fyrir leyfinu verði uppfyllt í fimm ár.
     Leyfi til útlendings skv. d-lið 1. mgr. 36. gr. skal gefið út til tíma sem svarar til lengdar námsins, þó ekki lengur en í eitt ár.
     Dvalarleyfi veitir rétt til að dveljast og til að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt hvar sem er á landinu nema annað sé tekið fram í leyfinu eða leiði af reglum sem settar eru samkvæmt lögunum.

40. gr.

Endurnýjun dvalarleyfis.
     Dvalarleyfi skv. 36., 37. og 38. gr. skal endurnýja samkvæmt umsókn ef skilyrðum er enn fullnægt. Dvalarleyfi skal að jafnaði endurnýjað til fimm ára nema tilgangur vinnu eða dvalar eða aðrar ástæður gefi tilefni til styttri gildistíma.
     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um endurnýjun dvalarleyfis.

41. gr.

Afturköllun dvalarleyfis.
     Heimilt er að afturkalla dvalarleyfi ef svo stendur á sem greinir í 16. gr. Afturköllun er þó ekki heimil eingöngu af því að útlendingurinn er ekki lengur í starfi, hvort heldur er vegna veikinda eða slyss eða vegna þess að hann er atvinnulaus gegn vilja sínum.
     Enn fremur er heimilt að afturkalla dvalarleyfi sem gefið var út í fyrsta sinn til útlendings sem fellur undir a–c-lið 1. mgr. 36. gr. ef um er að ræða búseturof sem varað hefur lengur en sex samfellda mánuði og er ekki tilkomið vegna herþjónustu.

42. gr.

Frávísun.
     Heimilt er að vísa EES-útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef:
 1. hann fullnægir ekki reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins,
 2. honum hefur verið vísað úr landi hér á landi eða í öðru norrænu landi og endurkomubann er enn í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins,
 3. um er að ræða háttsemi sem greinir í 1. mgr. 43. gr. eða
 4. það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða krefjandi þjóðarhagsmuna.

     Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun skv. a- og b-lið 1. mgr., en Útlendingastofnun skv. c- og d-lið. Nægilegt er að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins.
     Ef meðferð máls skv. 1. mgr. hefur ekki hafist innan sjö sólarhringa má vísa EES-útlendingi, sem ekki hefur dvalarleyfi, frá landi með ákvörðun Útlendingastofnunar samkvæmt ákvæðum b-, c- og d-liðar.

43. gr.

Brottvísun.
     Heimilt er að vísa EES-útlendingi úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis.
     Brottvísun skv. 1. mgr. má framkvæma ef útlendingurinn sýnir af sér eða ætla má að um sé að ræða persónubundna háttsemi sem felur í sér raunverulega og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarþjóðfélagssjónarmiðum. Ef útlendingurinn hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar má brottvísun af þessari ástæðu að jafnaði því aðeins fara fram að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að útlendingurinn muni fremja refsivert brot á ný.
     Einnig er heimilt að vísa EES-útlendingi úr landi ef hann fullnægir ekki skilyrðum um dvöl skv. 36.–38. gr.
     Brottvísun skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans.
     Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur gilt fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma en að jafnaði ekki skemur en tvö ár. Samkvæmt umsókn má fella endurkomubannið úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því.
     Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun, svo og um heimild útlendings sem vísað hefur verið úr landi til endurkomu.

VII. KAFLI
Vernd gegn ofsóknum og flóttamenn.

44. gr.

Flóttamannahugtakið.
     Flóttamaður samkvæmt lögunum telst vera útlendingur sem fellur undir ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 (flóttamannasamningsins), sbr. viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967.
     Ákveða má að flóttamaður sem fellur undir C–F-lið 1. gr. flóttamannasamningsins skuli ekki, að öllu leyti eða að hluta til, njóta réttinda og verndar samkvæmt ákvæðum þessa kafla, annarra en málsmeðferðarreglna. Flóttamaður sem fellur undir C–E-lið 1. gr. flóttamannasamningsins skal þó njóta verndar skv. 45. gr.

45. gr.

Vernd gegn ofsóknum.
     Ekki má samkvæmt lögunum senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem geta leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.
     Ef stjórnvald í máli samkvæmt lögunum kemst að því að ákvæði 1. mgr. eigi ekki við um útlendinginn skal það að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort beita skuli ákvæðum 2. mgr. 11. gr.
     Útlendingur nýtur ekki verndar skv. 1. mgr. ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta hann hættulegan öryggi ríkisins eða hann hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu. Útlendingur nýtur ekki heldur verndarinnar þegar svo háttar sem um ræðir í F-lið 1. gr. flóttamannasamningsins.
     Vernd skv. 1. mgr. á við um hvers konar ákvarðanir samkvæmt lögum þessum.

46. gr.

Réttur til hælis.
     Flóttamaður, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli. Þetta gildir þó ekki um flóttamann sem:
 1. fellur undir undanþágur frá reglum um vernd í 2. mgr. 44. gr. og 3. mgr. 45. gr.,
 2. veitt hefur verið hæli í öðru ríki,
 3. komið hefur til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns,
 4. krefja má annað norrænt ríki um að taka við samkvæmt reglum norræna vegabréfaeftirlitssamningsins,
 5. krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við,
 6. synja má um hæli vegna krefjandi þjóðarhagsmuna.

     Ekki skal endursenda flóttamann til annars ríkis skv. c-, d- og e-lið 1. mgr. ef hann hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd.
     Maki flóttamanns, sambúðarmaki eða samvistarmaki og börn undir 18 ára aldri án maka, sambúðarmaka eða samvistarmaka eiga rétt á hæli nema sérstakar ástæður mæli því í mót.
     Með umsókn um hæli skal afhenda vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem umsækjandi hefur í fórum sínum.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að útlendingur sem sækir um hæli skuli dveljast í tilteknu sveitarfélagi og í húsnæði sem lagt er til þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir um umsóknina.

47. gr.

Réttaráhrif hælis.
     Hælisveiting hefur í för með sér að útlendingurinn hefur réttarstöðu flóttamanns og fær dvalarleyfi. Hann hefur þá réttarstöðu sem leiðir af íslenskum lögum og flóttamannasamningnum eða öðrum þjóðréttarsamningum um flóttamenn.
     Hælisveitingu má afturkalla ef flóttamaður fellur ekki lengur undir flóttamannahugtakið skv. 44. gr. eða það að öðru leyti leiðir af almennum stjórnsýslureglum. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um afturköllun.

48. gr.

Ferðaskírteini fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga.
     Flóttamanni, sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu, skal að fenginni umsókn veita ferðaskírteini fyrir flóttamenn til ferða erlendis, enda mæli sérstakar ástæður því ekki í mót. Nú hefur flóttamaður ferðaskilríki gefin út af öðru ríki og skal hann þá því aðeins fá skírteini gefið út að honum hafi verið veitt hér hæli eða búsetuleyfi eða skylt sé að gefa hér út ferðaskírteini fyrir flóttamenn í samræmi við þjóðréttarsamning.
     Útlendingur, sem hefur eða fær dvalarleyfi hér á grundvelli umsóknar um hæli, en án þess að vera veitt hæli, skal fá vegabréf fyrir útlendinga til ferða erlendis samkvæmt nánari reglum sem dómsmálaráðherra setur. Þar má og heimila útgáfu vegabréfs fyrir útlendinga í öðrum tilvikum.
     Með umsókn um ferðaskírteini fyrir flóttamenn eða vegabréf fyrir útlendinga skal afhenda vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem umsækjandi hefur í fórum sínum.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um útgáfu, gildissvið, endurnýjun og afturköllun ferðaskírteinis fyrir flóttamenn og vegabréfs fyrir útlendinga og nánari skilyrði í þessu sambandi.

49. gr.

Gildi erlendra ákvarðana um stöðu flóttamanns.
     Útlendingur, sem veitt hefur verið hæli eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn í öðru ríki, skal talinn flóttamaður með fasta búsetu í því ríki. Sæki slíkur flóttamaður um hæli eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn hér á landi skal fyrri ákvörðun um stöðu hans sem flóttamanns ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.

50. gr.

Stjórnvald og málsmeðferð.
     Útlendingastofnun tekur ákvörðun í málum um vernd gegn sendingu úr landi, réttarstöðu flóttamanns og hæli, svo og um ferðaskírteini fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga.
     Útlendingastofnun tekur einnig ákvörðun um hvort útlendingi, sem kemur til landsins á grundvelli 51. gr., skuli veitt réttarstaða flóttamanns.
     Við meðferð máls skv. 1. og 2. mgr. skal Útlendingastofnun af sjálfsdáðum afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má kynna Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna efni málsskjala. Einnig má kynna mannúðar- eða mannréttindasamtökum efni málsskjala að því leyti sem það er nauðsynlegt í tengslum við öflun upplýsinga.

51. gr.

Flóttamannahópar.
     Útlendingastofnun heimilar hópum flóttamanna komu til landsins í samræmi við ákvörðun stjórnvalda að fenginni tillögu Flóttamannaráðs Íslands. Sama gildir um hópa útlendinga sem ekki teljast flóttamenn.
     Ákvæði IV. og V. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt og um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl., og viðeigandi ákvæði V. kafla laga þessara, gilda ekki um ákvarðanir skv. 1. mgr. Ákvörðun verður einungis kærð af þeim sem bein afstaða er tekin til í máli.
     Útlendingur, sem heimiluð er koma skv. 1. mgr., skal fá dvalarleyfi. Þegar endanleg ákvörðun hefur verið tekin um að útlendingur skuli hafa réttarstöðu flóttamanns, sbr. 2. mgr. 50. gr., á hann rétt til hælis og ferðaskírteinis fyrir flóttamenn, sbr. 46.–48. gr.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

52. gr.

Sérákvæði vegna öryggis ríkisins o.fl.
     Meina má útlendingi landgöngu og synja um útgáfu dvalarleyfis og búsetuleyfis eða setja takmarkanir eða skilyrði ef nauðsynlegt þykir vegna utanríkisstefnu ríkisins, öryggis ríkisins eða mikilvægra þjóðarhagsmuna. Af sömu ástæðum má framkvæma ákvörðun fyrr en greinir í 31. og 32. gr. Útlendingastofnun tekur ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein.
     Dómsmálaráðherra getur, ef nauðsynlegt þykir vegna öryggis ríkisins, sett nánari reglur um tilkynningarskyldu en segir í 17. gr. eða reglum skv. 54. gr.

53. gr.

Upplýsinga- og tilkynningarskylda útlendinga.
     Útlendingi er skylt að kröfu lögreglunnar að sýna skilríki og, ef þörf er á, veita upplýsingar svo að ljóst sé hver hann er og að dvöl hans í landinu sé lögmæt.
     Dómsmálaráðherra getur ákveðið að útlendingar, aðrir en danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, skuli ávallt bera vegabréf eða annað kennivottorð við dvöl hér á landi. Ráðherra getur undanþegið aðra útlendinga skyldu þessari.
     Við undirbúning máls samkvæmt lögunum má leggja fyrir útlending sem málið varðar að mæta sjálfur og veita upplýsingar sem geta haft þýðingu við úrlausn þess.

54. gr.

Tilkynningarskylda annarra.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um:
 1. að sá sem rekur gististað, af hvers kyns tagi, eða heldur tjaldsvæði og þess háttar skuli halda skrá yfir þá sem þar gista og tilkynna lögreglunni um þá, svo og að aðrir skuli einnig veita Útlendingastofnun upplýsingar um útlendinga sem hjá þeim gista ef ástæða þykir til vegna öryggissjónarmiða eða sérstaks viðbúnaðar,
 2. að stjórnandi loftfars sem kemur frá útlöndum eða fer til útlanda skuli láta lögreglunni í té skrá um farþega og áhöfn,
 3. að stjórnandi skips sem siglir yfir mörk landhelginnar á leið til eða frá íslenskri höfn skuli láta lögreglunni í té skrá um farþega og áhöfn,
 4. að sá sem fær útlending í þjónustu sína eða ræður útlending í launaða atvinnu skuli tilkynna það Útlendingastofnun áður en vinnan hefst,
 5. að atvinnumiðlanir skuli tilkynna Útlendingastofnun um útlendinga sem leita eða fá atvinnu,
 6. að þjóðskráin skuli tilkynna Útlendingastofnun um útlendinga sem eru þar skráðir eða teknir af skrá,
 7. að menntastofnanir skuli samkvæmt beiðni láta Útlendingastofnun í té skrá um erlenda námsmenn,
 8. að stjórnvöld skuli samkvæmt beiðni láta Útlendingastofnun eða lögreglunni í té upplýsingar um nafn útlendings og heimili til nota í máli samkvæmt lögunum þrátt fyrir reglur um þagnarskyldu í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og barnaverndarlögum.

     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um hvaða upplýsingar skrár skv. 1. mgr. skuli hafa að geyma.
     Þeim sem tilkynna á um er skylt að láta í té þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tilkynningarskyldunni verði fullnægt.

55. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga.
     Útlendingastofnun og lögreglu er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal þeirra sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg við framkvæmd laganna. Eftir þörfum er heimilt við vinnslu persónuupplýsinga að samkeyra upplýsingar Útlendingastofnunar og lögreglu. Að öðru leyti fer um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
     Dómsmálaráðherra skal, að fenginni umsögn Persónuverndar, setja reglur um hvaða skrár skulu haldnar af Útlendingastofnun og lögreglu.

56. gr.

Ábyrgð á kostnaði.
     Útlendingur, sem færður er úr landi samkvæmt lögunum, skal greiða kostnað af brottför sinni. Útlendingurinn skal einnig greiða kostnað af gæslu þegar hennar er þörf vegna þess að útlendingurinn fer ekki úr landi af sjálfsdáðum. Krafan er aðfararhæf og hún getur auk þess verið grundvöllur frávísunar við síðari komu til landsins, sbr. h-lið 1. mgr. 18. gr. Lögreglunni er heimilt að leggja hald á farseðla sem finnast í fórum útlendingsins til notkunar við brottför.
     Nú er útlendingi, sem komið hefur með skipi eða loftfari, vísað frá landi skv. 18. eða 42. gr. og skal þá eigandi farsins eða leigutaki, og á þeirra vegum stjórnandi þess eða umboðsmaður hér á landi, annaðhvort taka útlendinginn um borð á ný eða flytja hann úr landi á annan hátt eða greiða kostnað sem hið opinbera hefur af því að færa útlendinginn úr landi. Á sama hátt er þeim skylt að taka fylgdarmenn um borð og greiða kostnað af fylgd með útlendingnum úr landi ef lögregla telur þess þörf.
     Kostnaður við að færa útlending úr landi, sem ekki fæst greiddur skv. 1. eða 2. mgr., greiðist úr ríkissjóði.
     Nú gengur útlendingur, sem þarf leyfi lögreglunnar skv. 7. gr., á land án þess að hafa fengið slíkt leyfi og fer þá eftir reglum 2. mgr. um ábyrgð á kostnaði. Sama gildir þá að jafnaði einnig um kostnað sem hið opinbera kann að hafa af dvöl útlendingsins hér í allt að þrjá mánuði.
     Ábyrgð skv. 2. og 4. mgr. gildir ekki við komu yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.

57. gr.

Refsiákvæði.
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður:
 1. af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn lögunum eða reglum, banni, boði eða skilyrðum sem sett eru samkvæmt lögunum eða
 2. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir í máli samkvæmt lögunum upplýsingar sem eru í verulegum atriðum rangar eða augljóslega villandi.

     Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður:
 1. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtir starfskrafta útlendings sem ekki hefur tilskilið leyfi lögum samkvæmt eða
 2. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hefur milligöngu um vinnu eða húsnæði fyrir útlending eða gefur út eða miðlar yfirlýsingum, umsögnum eða skjölum til notkunar í máli samkvæmt lögunum ef hann með því notfærir sér ótilhlýðilega aðstæður útlendingsins eða
 3. af ásetningi með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd, eða á annan ótilhlýðilegan hátt, tælir útlending til að koma til landsins í því skyni að setjast þar að eða
 4. lætur öðrum í té vegabréf, ferðaskírteini fyrir flóttamenn, önnur ferðaskilríki eða svipuð skilríki sem nota má sem ferðaskilríki og hlutaðeigandi veit eða má vita að útlendingur getur notað þau til að koma til landsins eða til annars ríkis eða
 5. í hagnaðarskyni aðstoðar útlending til að dveljast ólöglega hér á landi eða í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu eða
 6. í hagnaðarskyni aðstoðar útlending við að koma ólöglega til landsins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.

     Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum að reka í hagnaðarskyni skipulagða starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða til annars ríkis.
     Nú er útlendingur fluttur til landsins með skipi eða loftfari án þess að hafa fullnægjandi ferðaskilríki og stjórnandi skips eða loftfars hefur ekki gengið úr skugga um að hann beri gild ferðaskilríki, sbr. 3. mgr. 4. gr., og er þá heimilt að gera stjórnanda farartækis sekt.
     Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
     Tilraun eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

IX. KAFLI
Reglugerð og gildistaka.

58. gr.

Reglugerð.
     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd laganna.

59. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.
     Jafnframt falla úr gildi lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 19 26. mars 1991, nr. 133 31. desember 1993, nr. 90 13. júní 1996, nr. 82 16. júní 1998, nr. 23 16. mars 1999, nr. 25 9. maí 2000 og nr. 7 13. mars 2001.
     Frá sama tíma breytast eftirfarandi lagaákvæði:
 1. Í stað orðsins „Útlendingaeftirlitið“ í 2. mgr. 14. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73 25. nóvember 1952, kemur: Útlendingastofnun.
 2. Lög um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952, sbr. lög nr. 62 12. júní 1998, breytast þannig:
  1. Í stað orðsins „útlendingaeftirlits“ í 1. mgr. 5. gr. a laganna kemur: Útlendingastofnunar.
  2. Í stað orðsins „útlendingaeftirlits“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: Útlendingastofnunar.
 3. Í stað orðsins „útlendingaeftirlits“ í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54 27. apríl 1962, kemur: Útlendingastofnunar.
 4. Í stað orðanna „forstjóri Útlendingaeftirlitsins“ í 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70 11. júní 1996, sbr. lög nr. 150 27. desember 1996 og nr. 23 16. mars 1999, kemur: forstjóri Útlendingastofnunar.
 5. Lög um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998, sbr. lög nr. 23 16. mars 1999, breytast þannig:
  1. Í stað orðsins „Útlendingaeftirlitinu“ í 1. mgr. 2. gr., 1. mgr. 7. gr. og 9. gr. kemur: Útlendingastofnun.
  2. Í stað orðsins „Útlendingaeftirlitið“ í 1. mgr. 8. gr. kemur: Útlendingastofnun.
 6. Lög um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16 14. apríl 2000, breytast þannig:
  1. B-liður 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: þegar synja á útlendingi um komu til landsins vegna endurkomubanns sem enn er í gildi á grundvelli brottvísunar:
   1. skv. a-lið 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga,
   2. skv. b-, c- eða d-lið 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga og ákvörðunin er reist á því að dvöl hlutaðeigandi í landinu geti stofnað allsherjarreglu, almannaöryggi eða öryggi ríkisins í hættu.
  2. Í stað orðsins „Útlendingaeftirlitið“ í b-lið 1. mgr. 10. gr. kemur: Útlendingastofnun.
  3. Í stað orðsins „Útlendingaeftirlits“ í b-lið 19. gr. kemur: Útlendingastofnunar.


Samþykkt á Alþingi 2. maí 2002.