Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 921  —  15. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003,
með síðari breytingum (þunn eiginfjármögnun).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Jón Ásgeir Tryggvason frá ríkisskattstjóra, Alexander Eðvardsson frá KPMG ehf., Helgi Seljan Jóhannsson, Ragnar Guðmundsson frá Norðuráli ehf. og Bjarnfreður Ólafsson frá LOGOS. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra, KPMG ehf. og Viðskiptaráði Íslands.
    Reglum um þunna eiginfjármögnun er ætlað að afstýra því að tengdir skattaðilar flytji tekjur eða gjöld á milli fyrirtækja og landa í þeim tilgangi að skattstofn myndist þar sem skattlagning hans er hagstæð. Þetta hefur oft og tíðum þær afleiðingar að önnur ríki verða af skatttekjum sem aftur skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja sem starfa innan landamæra þeirra.
Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt mjög jákvæðir um markmið frumvarpsins og telja þarft að setja reglur um þunna eiginfjármögnun.
    Fyrir nefndinni voru gerðar lagatæknilegar athugasemdir við frumvarpið, t.d. varðandi skilgreiningu vaxtahugtaks, samræmingu skilgreininga og skýrleika tiltekinna ákvæða.
    Að mati nefndarinnar er markmið frumvarpsins jákvætt. Hins vegar er þörf á því að efni þess fái nánari skoðun. Því leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu. Sér nefndin þannig fyrir sér að það verði tekið til skoðunar og vinnslu í vor og sumar og verði lagt fyrir Alþingi að nýju í betrumbættri útgáfu, annaðhvort sem stjórnarfrumvarp lagt fram af ráðherra eða sem frumvarpsdrög send nefndinni á næsta haustþingi sem lýsir sig þá reiðubúna til að flytja málið.
    Í ljósi alls framangreinds leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Árni Páll Árnason og Vilhjálmur Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir nefndarálit þetta skv. 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. apríl 2014.



Frosti Sigurjónsson,


form.


Steingrímur J. Sigfússon, frsm.


Pétur H. Blöndal.



Willum Þór Þórsson.


Árni Páll Árnason.


Guðmundur Steingrímsson.



Líneik Anna Sævarsdóttir.


Vilhjálmur Bjarnason.