Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 583. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1222  —  583. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um málefni Útlendingastofnunar .


     1.      Hve lengi hafa skilaboð á símsvara Útlendingastofnunar utan opnunartíma verið eingöngu á íslensku?
    Allt frá árinu 2003 hafa skilaboð á símsvara stofnunarinnar verið bæði á íslensku og ensku innan og utan opnunartíma. Í kjölfar breytinga á símkerfinu var gengið úr skugga um að skilaboð innan opnunartíma væru á íslensku og ensku en fyrir mannleg mistök láðist að kanna hvort kveðja á símsvara utan opnunartíma væri einnig virk bæði á ensku og íslensku. Þegar þau mistök uppgötvuðust var umsvifalaust gengið í að lagfæra kveðju á símsvara utan opnunartíma.

     2.      Var það meðvituð ákvörðun þegar skilaboðin voru lesin inn á símsvarann að hafa þau eingöngu á íslensku ? Ef svo var, hvaða röksemd bjó að baki þeirri ákvörðun? Ef ekki, hvers vegna var ekki tekið tillit til þess að hátt hlutfall skjólstæðinga Útlendingastofnunar skilur ekki íslensku?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvaða mat liggur að baki því hvort einstakar fréttir eða upplýsingar á vef Útlendingastofnunar eru á öðrum tungumálum en íslensku? Hvenær er fyrirhugað að þýða efni vefsins yfir á fleiri tungumál en ensku?

    Almennt reynir Útlendingastofnun að hafa allt efni á heimasíðu stofnunarinnar aðgengilegt bæði á íslensku og ensku. Útlendingastofnun hefur einnig bent einstaklingum á þann möguleika að leita upplýsinga á heimasíðu Fjölmenningarseturs ( www.mcc.is) þar sem ýmsar upplýsingar varðandi innflytjendamál er að finna, bæði varðandi starfsemi Útlendingastofnunar og annarra stjórnvalda. Á þeirri heimasíðu eru upplýsingar aðgengilegar á þó nokkrumtungumálum.
    Ráðherra telur að til lengri tíma litið sé ekki bara rétt heldur nauðsynlegt að hafa upplýsingar á vef Útlendingastofnunar, og eftir tilvikum ráðuneytisins eða annarra stofnana sem þjónusta útlendinga, á fleiri tungumálum. Samhliða þeirri vinnu sem nú fer fram við að bæta þjónustu við útlendinga er jafnframt hugað að því að hafa upplýsingar aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku og ensku.