Ferill 154. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 157  —  154. mál.Frumvarp til laga

um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna,
landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)
I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Tilgangur.

    Tilgangur laga þessara er að vernda afurðarheiti sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu með það að markmiði að stuðla að neytendavernd, auka virði afurða og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um heiti matvæla, léttvíns og brenndra drykkja og annarra afurða samkvæmt reglugerð ráðherra sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.
    Ákvæði laga þessara gilda einnig um erlend afurðarheiti sem hlotið hafa vernd samkvæmt lögum þessum eða á grundvelli þjóðréttarsamninga.
    Lög þessi gilda ekki um heiti neysluvatns og ölkelduvatns.


3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Afurð er matvæli eða önnur vara sem fellur undir gildissvið laga þessara.
     2.      Afurðarheiti er nafn sem notað er til að tilgreina afurð.
     3.      Afurðarlýsing er lýsing á afurð sem stendur að baki skráðu afurðarheiti sem hlotið hefur vernd samkvæmt lögum þessum.
     4.      Almennt heiti er heiti afurðar sem orðið er að tegundarheiti fyrir afurðina enda þótt það tengist stað eða svæði þar sem afurðin var framleidd í fyrstu.
     5.      Framleiðendahópur er félag, óháð formi, sem samanstendur af framleiðendum og/eða vinnsluaðilum sem vinna að sömu afurð eða samtökum þeirra.
     6.      Hefð hefur skapast við hvers konar athöfn eða háttsemi sem viðhöfð hefur verið milli kynslóða, þó að lágmarki í 30 ár.
     7.      Matvæli eru hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið „matvæli“ tekur einnig til drykkja, tyggigúmmís og hvers kyns efna, sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við frumframleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð, svo og fæðubótarefna.
     8.      Neysluvatn er vatn í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, án tillits til uppruna þess og hvort sem það kemur úr dreifikerfi, tönkum, flöskum eða öðrum ílátum og ætlað er til neyslu eða matargerðar, einnig allt vatn sem notað er í matvælafyrirtækjum, nema unnt sé að sýna fram á að gæði þess vatns sem notað er hafi ekki áhrif á heilnæmi framleiðslunnar.
     9.      Opinbert eftirlit er eftirlit á vegum stjórnvalda sem hefur þann tilgang að tryggja að framleiðendur sem nota skráð afurðarheiti framleiði afurð í samræmi við afurðarlýsingu skv. 14. gr.
     10.      Opinberir eftirlitsaðilar eru Matvælastofnun eða heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.
     11.      Ölkelduvatn er vatn úr náttúrulegum ölkeldum með köldu, kolsýru- eða steinefnaríku vatni.

II. KAFLI
Upprunatilvísun, landfræðileg tilvísun og hefðbundin sérstaða.
4. gr.
Skilyrði verndar afurðarheitis sem vísar til uppruna.

    Heimilt er að veita afurðarheiti, sem vísar til uppruna, vernd á grundvelli skráningar samkvæmt lögum þessum ef öll eftirtalinna skilyrða eru uppfyllt:
     a.      ef afurðin er upprunnin á tilteknu svæði, stað eða landi,
     b.      ef rekja má gæði eða eiginleika afurðar, verulega eða að öllu leyti, til staðhátta, að meðtöldum náttúrulegum og mannlegum þáttum, og
     c.      ef framleiðsla, vinnsla og tilreiðsla afurðar fer fram á hinu skilgreinda landsvæði.

5. gr.
Skilyrði verndar afurðarheitis sem vísar til landsvæðis.

    Heimilt er að veita afurðarheiti, sem vísar til landsvæðis, vernd á grundvelli skráningar samkvæmt lögum þessum ef að minnsta kosti eitt eftirtalinna skilyrða er uppfyllt:
     a.      afurð er upprunnin á því svæði eða þeim sérstaka stað eða landi,
     b.      afurð býr yfir sérstökum eiginleikum, orðspori eða öðrum einkennum sem rekja má að verulegu leyti til hins landfræðilega uppruna,
     c.      að minnsta kosti eitt framleiðslustig afurðar fer fram á hinu skilgreinda landsvæði.

6. gr.
Vernd veitt skráðu afurðarheiti skv. 4. og 5. gr.

    Skráð afurðarheiti skv. 4. og 5. gr. skal njóta verndar gegn:
     a.      beinni eða óbeinni notkun í viðskiptum með afurð sem fellur ekki undir skráninguna, að svo miklu leyti sem sú afurð er sambærileg við þá afurð sem skráð er undir sama heiti eða ef notkun heitisins færir sér í nyt orðspor hins verndaða heitis, þ.m.t. þar sem afurð er notuð sem hráefni,
     b.      hvers konar misnotkun, eftirlíkingu eða villandi hugrenningatengslum, jafnvel þótt raunverulegur uppruni afurðarinnar sé gefinn til kynna, eða þar sem hið verndaða heiti hennar er þýtt eða því fylgja orð á borð við „að hætti“, „í stíl“, „gerð“, „aðferð“, „eins og framleitt í“, „eftirlíking“ eða álíka, og einnig þegar þessar afurðir eru notaðar sem hráefni,
     c.      hvers konar öðrum röngum eða villandi merkingum sem sýna tilurð, uppruna, eðli eða helstu eiginleika afurðar, á innri eða ytri umbúðum, í kynningarefni eða skjölum sem fylgja viðkomandi afurð og notkun umbúða sem geta gefið villandi mynd af uppruna hennar,
     d.      hvers konar öðru athæfi sem villt getur um fyrir almenningi hvað raunverulegan uppruna afurðar varðar.
    Ef skráð afurðarheiti samanstendur af fleiri en einu heiti og eitt þeirra heita er almennt heiti telst notkun þess almenna heitis ekki andstæð ákvæðum a- og b-liðar 1. mgr.
    Skráð afurðarheiti nýtur verndar þrátt fyrir að vera almennt heiti.

7. gr.
Afurðarheiti ótækt til skráningar.

    Óheimilt er að skrá afurðarheiti skv. 4. og 5. gr.:
     a.      sem er orðið að almennu heiti fyrir tiltekna afurð,
     b.      sem stangast á við heiti plöntuafbrigðis eða dýrakyns svo líklegt sé að það valdi hættu á ruglingi,
     c.      þegar hætta er á að skráning villi um fyrir neytendum hvað varðar raunverulegan uppruna afurðar og tengist vel þekktu vörumerki með tilliti til orðspors og þess tíma sem það hefur verið í notkun.

8. gr.
Skilyrði verndar afurðarheitis sem vísar til hefðbundinnar sérstöðu.

    Heimilt er að veita afurðarheiti vernd þar sem afurð er:
     a.      afrakstur framleiðsluaðferða, vinnslu eða samsetningar sem hefð er fyrir skv. 3. gr., eða
     b.      framleidd úr hefðbundnum hráefnum eða innihaldsefnum.
    Afurðarheiti getur einungis hlotið vernd ef sýnt er fram á að heitið hafi almennt verið notað áður fyrir afurð eða heitið vísi til hefðbundinna eiginleika eða sérkenna afurðar.
    Afurðarheiti getur ekki hlotið vernd ef heitið vísar eingöngu til almennrar lýsingar fyrir afurð eða lýsingar afurðar samkvæmt löggjöf.
    Sé sýnt fram á í andmælum skv. 15. gr. að afurðarheiti sé notað fyrir sams konar afurð í öðru landi, sem einnig uppfyllir skilyrði til verndar sem afurð sem nýtur hefðbundinnar sérstöðu, er við skráningu heimilt að skilyrða notkun heitisins við að því fylgi orðalagið „framleitt samkvæmt hefð“ á þeim stað þar sem afurð er framleidd.

9. gr.
Vernd veitt skráðu heiti skv. 8. gr.

    Skráð afurðarheiti skv. 8. gr. skal njóta verndar gegn hvers konar misnotkun, eftirlíkingu, villandi hugrenningatengslum eða gegn hvers konar öðru athæfi sem villt getur um fyrir neytendum.

10. gr.
Samhljóða afurðarheiti.

    Afurðarheiti sem er að öllu eða einhverju leyti samhljóða öðru heiti afurðar sem þegar er skráð samkvæmt lögum þessum skal skráð að teknu tilliti til staðbundinnar og hefðbundinnar notkunar og þess hvort hætta sé á ruglingi við hið skráða heiti.

III. KAFLI
Skráning afurðarheitis.
11. gr.
Umsækjandi.

    Framleiðendahópur getur sótt um skráningu á afurðarheiti skv. 4., 5. eða 8. gr.
    Einstaklingur eða lögaðili getur einungis sótt um vernd afurðarheitis ef:
     a.      aðili er eini núverandi framleiðandi á skilgreindu landsvæði,
     b.      aðili notar ákveðna og viðvarandi staðbundna aðferð sem aðeins er notuð af aðilanum, og
     c.      afurð aðila kemur frá skilgreindu svæði og hefur einkenni sem eru í meginatriðum frábrugðin einkennum nærliggjandi svæða eða eiginleikar afurðar eru frábrugðnir sambærilegum afurðum frá nærliggjandi svæðum.
    Umsækjandi getur aðeins sótt um vernd heitis afurðar sem umsækjandi framleiðir, vinnur eða tilreiðir.

12. gr.
Umsókn.

    Umsókn um skráningu afurðarheitis skal skila skriflega til Matvælastofnunar.
    Í umsókn skal eftirfarandi koma fram:
     a.      nafn og heimilisfang umsækjanda,
     b.      afurðarheiti sem sótt er um vernd fyrir,
     c.      afurðarlýsing, sbr. 14. gr.,
     d.      samantekt sem felur í sér meginefni afurðarlýsingar.
    Enda þótt gögnum og upplýsingum sé ábótavant kemur það ekki í veg fyrir að umsókn teljist lögð inn á þeim degi sem umsókn upphaflega barst sé umsókn leiðrétt innan hæfilegs frests.
    Leiðrétti umsækjandi ekki umsókn innan þess frests sem honum er veittur telst umsókn ófullnægjandi og er ótæk til meðferðar. Bregðist umsækjandi við tilkynningu innan tilskilins frests, en galli er enn á umsókn, skal umsókn ekki tekin til meðferðar nema Matvælastofnun telji að umsækjanda skuli veittur frekari frestur til úrbóta.

13. gr.
Umsóknarferli.

    Matvælastofnun fer yfir umsóknir sem berast skv. 12. gr. og skal gæta þess að með umsókn fylgi öll gögn, umsókn sé nægilega rökstudd og uppfylli skilyrði laga þessara.
    Matvælastofnun skal leita umsagnar frá Einkaleyfastofu og Samtökum atvinnulífsins um umsókn um skráningu afurðarheitis. Þá er Matvælastofnun heimilt að leita umsagnar annarra sérfræðinga um viðkomandi afurð eftir því sem við á.
    Heimilt er með reglugerð að kveða nánar á um umsóknarferli vegna skráningar afurðarheitis, þar á meðal leiðbeiningar fyrir umsagnaraðila um þau atriði sem umsögn skal lúta að og tímafresti.

14. gr.
Afurðarlýsing.

    Í afurðarlýsingu skal eftirfarandi koma fram, eftir því sem við á:
     a.      afurðarheiti,
     b.      lýsing á afurð, hráefni og helstu eðlis-, efna- og örverufræðilegu eða skynrænu einkenni afurðar,
     c.      sérstakar reglur um merkingar á viðkomandi afurð.
    Afurðarlýsingu fyrir afurðarheiti skv. 4. og 5. gr. skal fylgja:
     1.      skilgreining landsvæðis,
     2.      sönnun þess að afurð sé upprunnin á skilgreindu landsvæði,
     3.      lýsing á framleiðsluaðferð afurðar og raunverulegum og óbreytilegum staðbundnum aðferðum, upplýsingar um pökkun ef hún verður að fara fram innan hins skilgreinda landsvæðis og ástæður þess að pökkun verður að fara fram innan þess til að standa vörð um gæði eða tryggja uppruna eða eftirlit,
     4.      upplýsingar sem staðfesta tengsl milli gæða eða einkenna afurðar og umhverfisins, hvort sem við á; eða tengsl milli ákveðinna gæða, orðspors eða annarra einkenna landbúnaðarafurðar eða matvæla og umhverfisins.
    Afurðarlýsingu fyrir afurðarheiti skv. 7. gr. skal fylgja:
     1.      lýsing á hefðbundnum eiginleikum afurðar,
     2.      upplýsingar um hefðbundna framleiðsluaðferð, vinnslu eða samsetningu afurðar,
     3.      upplýsingar um hefðbundinn uppruna hráefna eða innihaldsefna sem notuð eru til framleiðslu, vinnslu eða samsetningar á afurð,
     4.      hvernig hráefnin eru nýtt samkvæmt hefð.

15. gr.
Andmæli við umsókn um skráningu afurðarheitis.

    Séu skilyrði skráningar uppfyllt skal Matvælastofnun birta opinberlega afurðarheiti og afurðarlýsingu sem óskað er skráningar á.
    Heimilt er að andmæla afurðarheiti og afurðarlýsingu sem birt hefur verið skv. 1. mgr. innan tveggja mánaða frá birtingu. Andmælum skal skila skriflega til Matvælastofnunar.
    Andmæli skulu tekin til greina og umsókn hafnað ef:
     a.      skilyrði laganna eru ekki uppfyllt,
     b.      fyrirhuguð skráning samræmist ekki að öllu leyti eða að hluta hugverkarétti sem veittur hefur verið á grundvelli laga, eða
     c.      afurðarheiti er samheiti.

16. gr.
Ákvörðun.

    Matvælastofnun skal taka ákvörðun um skráningu afurðarheitis innan þriggja mánaða frá því að andmælafrestur skv. 15. gr. er liðinn.
    Matvælastofnun skal birta ákvörðun um skráningu afurðarheitis ásamt afurðarlýsingu með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
    Ákvörðun um skráningu afurðarheitis fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Matvælastofnun heldur og birtir skrá yfir afurðarheiti sem hafa verið skráð samkvæmt lögum þessum.

17. gr.
Notkun á skráðu afurðarheiti.

    Notkun á skráðu afurðarheiti er einungis heimil þegar afurð er í samræmi við afurðarlýsingu sem birt hefur verið í B-deild Stjórnartíðinda.
    Við markaðssetningu afurðar, sem ber heiti sem nýtur verndar samkvæmt lögum þessum, er heimilt að nota hið skráða heiti á umbúðum afurðarinnar ásamt sérstöku opinberu auðkennismerki með orðunum „Upprunatilvísun“, „Landfræðileg tilvísun“ eða „Hefðbundin sérstaða“ á íslensku eða í erlendri þýðingu, eða skammstafað eftir því sem við á.
    Um erlend heiti sem njóta verndar samkvæmt lögum þessum á grundvelli milliríkjasamnings er heimilt að nota auðkenni skv. 1. og 2. mgr. enda hafi verið um það samið í viðkomandi milliríkjasamningi.
    Ráðherra setur reglugerð um gerð og notkun auðkennismerkis skv. 2. mgr.

18. gr.
Forgangsákvæði.

    Ef tvær umsóknir koma fram nær samtímis fyrir sama afurðarheiti skal sú umsókn sem fyrr barst hafa forgang.

19. gr.
Breyting á afurðarlýsingu.

    Upphaflegur umsækjandi eða framleiðendahópur sem fullnægir skilyrði 11. gr. og á lögmætra hagsmuna að gæta getur sótt um breytingu á afurðarlýsingu afurðarheitis sem skráð er samkvæmt þessum kafla.
    Um meðferð umsókna um breytingu á afurðarlýsingu fer samkvæmt þessum kafla eftir því sem við á. Komi fram andmæli annars aðila sem á lögmætra hagsmuna að gæta og löglega framleiðir eða vinnur þá afurð sem breytingin á við um skal Matvælastofnun aðeins staðfesta breytingu á afurðarlýsingu ef samkomulag liggur fyrir við þann aðila sem andmælir eða ef Matvælastofnun telur andmælin standa í vegi fyrir eðlilegri þróun afurðar að teknu tilliti til 15. gr.
    Matvælastofnun skal birta breytingu á afurðarlýsingu með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

20. gr.
Tilkynning um notkun.

    Hverjum þeim sem framleiðir afurð í samræmi við afurðarlýsingu og að uppfylltum skilyrðum laga þessara er heimilt að nota skráð afurðarheiti.
    Skriflegri tilkynningu um notkun, sem þegar er hafin á skráðu afurðarheiti, skal beint til Matvælastofnunar.

21. gr.
Umsóknargjald.

    Umsækjandi skal greiða gjald fyrir meðferð umsóknar, að fjárhæð 75.000 kr.
    Fyrir umsókn um breytingu á afurðarlýsingu skal greiða gjald, að fjárhæð 50.000 kr.

22. gr.
Afturköllun skráningar.

    Hafi afurðarheiti verið skráð andstætt ákvæðum laga þessara er unnt að fella skráninguna úr gildi með ákvörðun Matvælastofnunar.
    Skráning afurðarheitis skal enn fremur felld úr gildi með ákvörðun Matvælastofnunar ef:
     a.      afurðin er ekki framleidd í samræmi við afurðarlýsingu skv. 14. gr.,
     b.      afurðin hefur ekki verið markaðssett undir skráðu heiti í sjö ár.
    Hver sá sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta getur krafist þess að Matvælastofnun afturkalli skráningu afurðarheitis ef skilyrði laga þessara eru ekki uppfyllt. Krafan skal vera skrifleg og henni skal fylgja rökstuðningur.
    Notendum skráðs afurðarheitis skal tilkynnt um kröfu um afturköllun og þeim gefinn kostur á að tjá sig um málið innan tveggja mánaða.
    Afturkalli Matvælastofnun skráningu afurðarheitis skal stofnunin birta afturköllun á skráðu afurðarheiti með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

IV. KAFLI
Tengsl við vörumerki.
23. gr.
Tengsl við yngri vörumerki og félagamerki.

    Ekki er heimilt að skrá vörumerki eða félagamerki ef villast má á merkinu og afurðarheiti sem verndað er samkvæmt lögum þessum ef umsókn um skráningu merkisins var lögð inn á eftir umsókn um afurðarheiti í samræmi við 12. gr.

24. gr.
Tengsl við eldri vörumerki og félagamerki.

    Hafi vörumerki verið skráð eða vörumerkjaréttur stofnast með notkun fyrir umsóknardag afurðarheitis hér á landi og líklegt er að samhliða tilvist vörumerkis og afurðarheitis leiði til þess að villast megi á merkjunum er eingöngu heimilt að skrá afurðarheiti hafi vörumerkjaréttur stofnast í góðri trú og ekki er grundvöllur fyrir ógildingu eða afnámi vörumerkjaréttar.
    Heimilt er að nota áfram og endurnýja vörumerki fyrir viðkomandi vöru og/eða þjónustu samhliða notkun á skráðu afurðarheiti.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.

V. KAFLI
Vernd heita erlendra afurða.
25. gr.
Erlend heiti.

    Heimilt er að veita heiti afurðar sem upprunnin er erlendis vernd samkvæmt lögum þessum, enda njóti heitið verndar í upprunalandi sínu og sæti eftirliti þar. Sönnun þar um skal fylgja með umsókn um skráningu afurðarheitis. Umsókn skal skilað til Matvælastofnunar á íslensku og fylgigögnum á erlendu máli skal fylgja íslensk þýðing.

26. gr.
Milliríkjasamningar.

    Erlend afurðarheiti sem skráð eru í upprunalandi með upprunatilvísun eða landfræðilegri tilvísun njóta einnig verndar hér á landi á grundvelli milliríkjasamnings um gagnkvæmnisvernd.
    Áður en fallist er á vernd erlendra heita samkvæmt milliríkjasamningi skal Matvælastofnun auglýsa lista yfir þau afurðarheiti sem verndar munu njóta, ásamt upplýsingum um hvar nálgast megi afurðarlýsingu eða skjal sem jafna má til hennar. Ákvæði 15. gr. og IV. kafla gilda um meðferð erlendra heita.

VI. KAFLI
Vernd landfræðilegrar tilvísunar fyrir léttvín og brennda drykki.
27. gr.
Landfræðileg tilvísun.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja ákvæði um vernd landfræðilegrar tilvísunar fyrir léttvín og brennda drykki.
    Í reglugerðinni skal kveðið á um skilyrði verndar, vernduð afurðarheiti, hvaða afurðarheiti geta ekki hlotið vernd, í hverju vernd felst, skráningu, brottfall skráningar, nöfn sem eru samhljóða, mörk verndar gagnvart vörumerkjarétti, hvernig eftirliti skuli háttað og annað er varðar notkun merkinga.

28. gr.
Eftirlit.

    Um eftirlit með notkun landfræðilegra tilvísana fyrir léttvín og brennda drykki fer eftir VII. kafla.

VII. KAFLI
Eftirlit.
29. gr.
Eftirlit Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda.

    Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með notkun skráðra afurðarheita fyrir matvæli skv. 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna sinna jafnframt eftirliti með notkun skráðra afurðarheita fyrir aðrar afurðir en matvæli sem falla undir gildissvið laga þessara.
    Í eftirliti felst greining á því hvort framleiðandi afurðar sem notar skráð afurðarheiti uppfylli skilyrði laga þessara og afurð sé framleidd eða hennar aflað í samræmi við afurðarlýsingu. Matvælastofnun skal samræma eftirlit með skráðum afurðarheitum þannig að framkvæmd eftirlits sé með sama hætti á landinu öllu.
    Ef bæði Matvælastofnun og heilbrigðisnefnd hafa eftirlitsskyldu með sama framleiðanda afurðar úrskurðar ráðherra um hvor aðilinn fari með opinbert eftirlit.
    Matvælastofnun kemur á samvinnu þeirra er að málum þessum starfa og skal í slíkum tilvikum sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og forðast tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt. Stofnunin skal hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa og veita þá ráðgjöf og þjónustu varðandi eftirlit með skráðum afurðarheitum sem hún getur og aðstæður krefjast. Þá skal stofnunin vinna að því að samræma kröfur sem gerðar eru um starfsemi á sviði eftirlitsins og sjá til þess að slíkum kröfum sé framfylgt. Til þess að stuðla sem best að því að þessu markmiði verði náð gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmdina sem heilbrigðisnefndum sveitarfélaga ber að fylgja.

30. gr.
Framsal eftirlits.

         Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að fela hver öðrum að annast tiltekin verkefni sem eru á verksviði þeirra samkvæmt lögum þessum. Flutningur verkefna getur tekið til ákvarðana um gjaldtöku fyrir eftirlit skv. 32. gr., stjórnsýsluviðurlaga skv. 33. gr. og stjórnvaldssekta skv. 34. gr.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd framsals á eftirliti.
    Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að fela öðrum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast tiltekin verkefni við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki.
    Faggiltir aðilar skulu rækja eftirlit sitt á vegum opinbers eftirlitsaðila sem fylgist með starfi þeirra og sannreynir að þeir ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt, enda skulu þeir veita honum upplýsingar um notkun skráðra afurðarheita á þann hátt sem hann ákveður.
    Verði misbrestur á að hinir faggiltu aðilar ræki almennt skyldur sínar samkvæmt samningi sínum við opinberan eftirlitsaðila, vanræki þeir upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar veitir hann þeim áminningu eða riftir samningi við þá ef sakir eru miklar.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og störf faggiltra aðila samkvæmt lögum þessum og enn fremur um gerð samninga.

31. gr.
Upplýsingaskylda.

    Þeim sem notar skráð afurðarheiti er skylt að láta aðilum sem fara með eftirlit samkvæmt lögum þessum endurgjaldslaust í té allar þær upplýsingar og sýni sem nauðsynleg teljast við framkvæmd eftirlitsins. Jafnframt er skylt að veita óhindraðan aðgang til eftirlits að stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing afurða á sér stað.
    Eftirlitsaðilar eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd eða verslunarleyndarmál sem þeir kunna að komast að við framkvæmd eftirlits.

32. gr.
Gjaldtaka vegna eftirlits.

    Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skal aðili sem fær heimild til að nota skráð afurðarheiti greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
     c.      kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.
    Opinber eftirlitsaðili framkvæmir viðbótareftirlit, þar á meðal rannsóknir á afurðum þegar tiltekin starfsemi framleiðanda eða framleiðsla afurðar er ekki talin vera í samræmi við skráða afurðarlýsingu skv. 14. gr. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber framleiðandi.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits opinberra eftirlitsaðila og gefur hann út gjaldskrá fyrir eftirlit Matvælastofnunar að fengnum tillögum stofnunarinnar. Með sama hætti gefa sveitarfélögin út gjaldskrá fyrir eftirlitsskylda starfsemi heilbrigðisnefnda vegna eftirlitsins.
    Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi opinbers eftirlitsaðila.
    Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
    Þá gilda ákvæði þessarar greinar einnig eftir því sem við á um eftirlitsgjöld opinbers eftirlitsaðila vegna eftirlits sem hann felur faggiltum aðilum að framkvæma skv. 30. gr.

VIII. KAFLI
Viðurlög, refsiákvæði o.fl.
33. gr.
Stjórnsýsluviðurlög.

    Matvælastofnun og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga er heimilt að gefa fyrirmæli um stöðvun eða takmörkun á framleiðslu og markaðssetningu afurðar þegar rökstuddur grunur er um að afurð sé ekki framleidd í samræmi við ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.
    Þá getur Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga jafnframt, til að knýja á um aðgerðir samkvæmt lögum þessum, reglugerðum eða eigin fyrirmælum, beitt eftirfarandi aðgerðum:
     1.      veitt áminningu,
     2.      veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.
    Stöðvun framleiðslu skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekuð brot sé að ræða eða ef framleiðandi sinnir ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.

34. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga geta lagt stjórnvaldssektir á framleiðendur afurða sem brjóta gegn:
     a.      heimild til notkunar á skráðu afurðarheiti eða auðkennismerki skv. 17. gr. án þess að uppfylla afurðarlýsingu að baki skráðu heiti skv. 14. gr.,
     b.      heimild til notkunar á skráðu afurðarheiti eða auðkennismerki skv. 17. gr. án þess að hafa tilkynnt notkun þess til Matvælastofnunar skv. 20. gr.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. en sektir á lögaðila geta numið frá 20 þús. kr. til 2 millj. kr.
    Ráðherra getur í reglugerð ákveðið fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara innan þess ramma sem ákveðinn er í 2. mgr.
    Hafi fjárhæð sekta ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun sekta m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna framleiðanda. Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga hennar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga hennar. Ákvörðun Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
    Heimild Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Frestur rofnar þegar Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga tilkynna framleiðanda um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara er eftirlitsaðila heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.

35. gr.
Refsiábyrgð.

    Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:
     a.      heimild til notkunar á skráðu afurðarheiti eða auðkennismerki skv. 17. gr. án þess að uppfylla afurðarlýsingu að baki skráðu heiti skv. 14. gr.,
     b.      heimild til notkunar á skráðu afurðarheiti eða auðkennismerki skv. 17. gr. án þess að hafa tilkynnt notkun þess til Matvælastofnunar skv. 20. gr.
    Brot gegn 1. mgr. varða sektum eða fangelsi ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Gera má lögaðila sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot skv. 1. mgr. þessarar greinar.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

36. gr.
Málsmeðferð.

    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn sakamáls að undangenginni kæru Matvælastofnunar til lögreglu.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Matvælastofnun hvort málið skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot er meiri háttar ber Matvælastofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Matvælastofnun á hvaða stigi málsins sem er vísað máli, vegna brota á lögum þessum, til rannsóknar hjá lögreglu.
    Með kæru Matvælastofnunar skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot styðst við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Matvælastofnunar um að kæra mál til lögreglu.
    Matvælastofnun er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Matvælastofnun er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Matvælastofnun í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Matvælastofnunar sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Matvælastofnunar til meðferðar og ákvörðunar.

37. gr.
Lögbann.

    Unnt er að krefjast lögbanns við athöfn sem þegar er hafin eða er sannanlega yfirvofandi og brýtur eða mun brjóta gegn ákvæðum þessara laga.

38. gr.
Bótaábyrgð.

    Sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara og notar skráð afurðarheiti með ólögmætum hætti ber ábyrgð á tjóni sem af því hlýst. Um sakarmat og sönnun gilda almennar reglur skaðabótaréttar.

39. gr.
Hindrun misnotkunar á skráðu afurðarheiti.

    Í sakamálum vegna brota á ákvæðum þessara laga getur dómstóll ákveðið að gerðar skuli ráðstafanir til að hindra misnotkun á skráðu afurðarheiti samkvæmt lögum þessum. Í því skyni getur dómstóll ákveðið að skráð afurðarheiti skuli afmáð af þeim afurðum sem eru í vörslu hlutaðeigandi eða hann annars ræður yfir.
    Ef nauðsyn ber til má ákveða að ónýta afurð eða afhenda afurð þeim er misgert var við gegn bótum eða án þeirra.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.
40. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra er heimilt m.a. að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laga þessara:
     1.      Reglugerð um afurðir skv. 2. gr.
     2.      Reglugerð um umsóknarferli vegna skráningar afurðarheitis skv. 13. gr.
     3.      Reglugerð um gerð og notkun auðkennismerkis fyrir skráð afurðarheiti skv. 17. gr.
     4.      Reglugerð um tengsl eldri vörumerkja og félagamerkja við afurðarheiti skv. 24. gr.
     5.      Reglugerð um vernd landfræðilegrar tilvísunar fyrir léttvín og brennda drykki skv. 27. gr.
     6.      Reglugerð um skilyrði og störf faggiltra eftirlitsaðila skv. 30. gr.
     7.      Reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits opinberra eftirlitsaðila og gjaldskrá skv. 32. gr.

41. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

42. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um vörumerki, nr. 45/1997, með síðari breytingum: Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ef villast má á merkinu og afurðarheiti sem er verndað samkvæmt lögum um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu og umsókn um vernd afurðarheitis var lögð inn á undan umsókn um skráningu vörumerkis.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er unnið af starfshópi sem skipaður var af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra haustið 2012. Í starfshópinn voru skipaðir fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Ólafur Friðriksson, formaður hópsins, og Erna Jónsdóttir lögfræðingur, einnig sátu í nefndinni fyrir hönd ráðuneytisins Brynhildur Pálmarsdóttir lögfræðingur og Rebekka Hilmarsdóttir lögfræðingur, fulltrúi utanríkisráðuneytisins, Ingólfur Friðriksson lögfræðingur, fulltrúi Einkaleyfastofunnar, Margrét Ragnarsdóttir lögfræðingur, fulltrúi Bændasamtaka Íslands, Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, fulltrúi Neytendasamtakanna, Ólafur Klemensson, og fulltrúi frá Samtökum iðnaðarins, Ragnheiður Héðinsdóttir. Í skipunarbréfi starfshópsins var hópnum falið að meta kosti og galla þess að setja löggjöf um vernd vöruheita með uppruna- eða staðartilvísun og hafa m.a. til hliðsjónar sameiginlega greinargerð Samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja og Samtaka iðnaðarins um landfræðilegar merkingar.
    Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að æskilegt væri að setja löggjöf um þessi málefni hér á landi og samdi starfshópurinn það frumvarp til laga sem hér um ræðir. Sú vinna var einkum unnin af þeim lögfræðingum sem voru í starfshópnum.
    Við samningu frumvarpsins var m.a. tekið mið af reglugerð (ESB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1151/2012 frá 21. nóvember 2012 um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli. Þá tók starfshópurinn einnig mið af því hvernig reglurnar voru innleiddar í Noregi og Danmörku. Einnig hafði starfshópurinn hliðsjón af greinargerð Einars Karls Haraldssonar um vernd vöruheita með uppruna- eða staðarvísun og lokaritgerð Ingólfs Friðrikssonar í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri sem fjallar um regluverk Evrópusambandsins um vernd vöruheita með uppruna- eða staðarvísun (e. Protected designations of origin and geographical indications for agricultural products: conditions for registration under EU law and the protection offered).

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á grundvelli 19. gr. EES-samningsins, sem kveður á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir milli EES-ríkjanna og Evrópusambandsins, gerðu Ísland og Evrópusambandið með sér samkomulag um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur sem tók gildi 1. mars 2007. Í viðræðum um gagnkvæma tollkvóta, m.a. fyrir íslenskt skyr til ESB, kom til umræðu Evrópulöggjöf um vernd afurða með uppruna- eða staðartilvísun. Niðurstaðan varð sú að sett var inn í samkomulagið viljayfirlýsing um að aðilar mundu leitast við að efla viðskipti sérstaklega með afurðir tengdar uppruna- eða landfræðilegri tilvísun. Jafnframt var ákveðið að ræða frekara samstarf um löggjöf og skráningu á heitum afurða sem falla undir eða gætu fallið undir slíka löggjöf hjá báðum aðilum. Á árinu 2008 var efnt til sérstaks kynningarfundar um löggjöf Evrópusambandsins í utanríkisráðuneytinu með hagsmunaaðilum og starfsfólki úr stjórnsýslunni. Á kynningarfundinum var hagsmunaaðilum og starfsfólki stjórnsýslunnar kynnt efni reglnanna og tilgangur þeirra. Frá efnahagshruninu 2008 þar til 2012 fór ekki fram frekari vinna vegna framangreindrar viljayfirlýsingar til að efla viðskipti með afurðir tengdar uppruna- eða landfræðilegri tilvísun.
    Árið 2012 höfðu samtök mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins frumkvæði að því að Einar Karl Haraldsson ráðgjafi tæki saman framangreinda greinargerð um vernd vöruheita með uppruna- eða staðarvísun. Greinargerðin kom út í júní 2012 og var kynnt á opnum fundi á Grand Hótel Reykjavík 6. september 2012. Þar kom fram verulegur áhugi á málinu og jákvæðar undirtektir við að það yrði athugað frekar.
    Fyrrgreindur starfshópur var skipaður af þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra síðar um haustið. Fljótlega eftir fyrstu fundi hópsins var ljóst að hann var sammála um að leggja til að settar yrðu reglur um vernd hérlendra vöruheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Vinna hópsins eftir það snerist að mestu um að kynna sér sambærilegar erlendar reglur og útfæra þær með hliðsjón af íslenskum aðstæðum. Nánar er fjallað um einstök efnisatriði í greinargerðinni en að mati starfshópsins eru meginrökin fyrir þessari lagasetningu þau að hún felur í sér tækifæri fyrir framleiðendur að öðlast formlega viðurkenningu á sérstöðu íslenskra afurða. Með því styrkist samkeppnisstaða innlendra afurða gagnvart innfluttum afurðum og einnig geta skapast ný tækifæri á erlendum mörkuðum.
    Nauðsyn lagasetningarinnar má einnig rekja til þess að á síðustu árum hafa neytendur gert kröfu um frekari upplýsingar um uppruna afurða og sérstöðu. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að byggja upp gæðakerfi sem kemur opinberlega viðurkenndum upplýsingum á framfæri við neytendur um uppruna og sérstöðu afurðar. Það leiðir til þess að neytandinn getur tekið upplýstari ákvörðun um þær afurðir sem honum bjóðast til kaups hverju sinni.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að setja upp gæðakerfi fyrir afurðir með því að veita afurðarheiti vernd ef það vísar til uppruna (e. protected designation of origin), landsvæðis (e. protected geographical indication) eða hefðbundinnar sérstöðu (e. traditional speciality guaranteed). Vernd er veitt gegn því að aðrir aðilar geti notað heitið í markaðssetningu.
    Frumvarpinu er skipt upp í níu kafla. Í fyrsta kafla er gildissviðið afmarkað og nokkur hugtök skilgreind sem eru mikilvæg fyrir frumvarpið. Í öðrum kafla er að finna helstu efnisreglur frumvarpsins um það hvaða heiti geti notið verndar og hvað felst í verndinni. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu heiti sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu geta hlotið vernd samkvæmt lögunum. Verndin er einkaréttarlegs eðlis og verndar eiganda heitisins gegn því að annar aðili geti notað afurðarheiti í efnahagslegum tilgangi. Sá réttur sem skapast á grundvelli laganna er mjög skyldur vörumerkjarétti. Hafa verður þó í huga að öðrum aðila getur verið heimilt að nota verndað afurðarheiti að því gefnu að afurð hans uppfylli afurðarlýsingu. Þannig er ekki um algeran rétt á því að nota heiti að ræða eins og í vörumerkjalögunum, heldur þarf sá aðili að fá sérstaka heimild til að nota skráð heiti skv. 20. gr. frumvarpsins.
    Í þriðja kafla er fjallað um umsóknarferlið sem er um margt líkt og þegar sótt er um vörumerki en þó er munur á í mikilvægum atriðum. Umsóknum skal skilað til Matvælastofnunar. Matvælastofnun tekur ákvörðun um það hvort heiti á afurð skuli hljóta skráningu samkvæmt lögunum. Matvælastofnun skal afla umsagna um umsókn um skráningu á afurðarheiti frá Einkaleyfastofu og Samtökum atvinnulífsins, þá er Matvælastofnun veitt heimild til að leita umsagna annarra sérfræðinga þegar við á. Áður en Matvælastofnun tekur ákvörðun um að heimila eða hafna skráningu heitis gefst utanaðkomandi aðilum færi á að andmæla skráningu heitisins.
    Fjórði kafli fjallar um tengsl við vörumerki. Vegna skörunar við vörumerkjarétt þótti rétt að setja í frumvarpið ákvæði sem fjallaði um hvernig tengslum er háttað með skýrum hætti. Vörumerki eru skráð fyrir vöru- og þjónustuflokk en skráningu samkvæmt frumvarpinu er ekki skipt í slíka flokka. Þá er skráning samkvæmt frumvarpi þessu ekki tímabundin líkt og í vörumerkjalögum.
    Fimmti kafli fjallar um vernd erlendra heita á afurðum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu erlend afurðarheiti geta hlotið vernd, annars vegar á grundvelli beinnar skráningar og umsóknar og hins vegar samkvæmt gagnkvæmnissamningi. Ekki er gerður greinarmunur á því hvor leiðin er farin en skilyrði fyrir skráningu er að afurðarheiti uppfylli skilyrði frumvarpsins og lúti eftirliti í upprunalandi.
    Sjötti kafli fjallar um vernd landfræðilegrar tilvísunar fyrir léttvín og brennda drykki. Þar sem þær reglur eru hluti af EES-samningnum er gert ráð fyrir því að þær verði innleiddar í heild sinni eins og 7. gr. EES-samningsins kveður á um og er lögð til reglugerðarheimild til handa ráðherra í kaflanum. Um umsókn og skráningu léttvíns og brenndra drykkja gilda ákvæði frumvarpsins.
    Í sjöunda kafla er fjallað um eftirlit með framkvæmd laganna. Eins og áður hefur verið lýst taldi starfshópurinn nærtækast að koma eftirliti með notkun skráðra heita afurða fyrir hjá Matvælastofnun þar sem sú stofnun fer nú þegar með eftirlit með að matvæli uppfylli reglur um merkingar og innihaldslýsingar. Þegar kemur að öðrum afurðum en matvælum gæti verið hagstætt fyrir Matvælastofnun að framselja eftirlitið til annarra aðila, en heimild þess efnis er veitt í frumvarpinu.
    Í áttunda kafla er fjallað um refsi- og bótaábyrgð. Frumvarpið tekur bæði á atriðum sem eru opinbers og einkaréttarlegs eðlis. Kaflinn á sér fyrirmynd í ákvæðum laga um matvæli og einnig var litið til viðurlaga í Noregi og Danmörku.
    Í níunda kafla eru ýmis ákvæði, en þar er sett fram heimild til ráðherra að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna og kveðið á um gildistöku þeirra.
    Við vinnslu frumvarpsins hjá starfshópnum komu fram nokkrar hugmyndir hvaða aðili innan stjórnsýslunnar ætti að sjá um að taka við umsóknum og hafa eftirlit með notkun skráðra heita afurða. Við mat á því hvar málum þessum væri best komið var haft til hliðsjónar að um væri að ræða stjórnvald sem tæki stjórnvaldsákvörðun um að skrá afurðarheiti. Stjórnvaldið yrði að hafa burði til að meta hvort í umsókn og afurðarlýsingu væri sýnt fram á að tengsl væru á milli afurðar og uppruna eða svæðis eða að afurð væri framleidd samkvæmt hefð. Stjórnvaldið yrði að geta rannsakað hvert mál á eigin spýtur. Þá var við þetta mat gert ráð fyrir að innan við 10–15 umsóknir mundu berast fyrstu 5–10 árin ef frumvarpið yrði að lögum. Í Danmörku hafa frá árinu 1996 verið skráð fimm afurðarheiti með landfræðilegri tilvísun og í Finnlandi hafa frá árinu 1997 verið skráð fimm heiti með vísan til uppruna, eitt heiti með vísan til landsvæðis og þrjú heiti sem vísa til hefðbundinnar sérstöðu. Stjórnvaldið yrði einnig að hafa burði til að leiðbeina umsækjendum. Þá var tekið tillit til þess að umsóknirnar yrðu ólíkar, ekki reyndi á sömu þætti í hverri umsókn, t.d. þegar annars vegar er um að ræða matvæli og hins vegar aðrar vörur eins og lopa eða dún. Starfshópurinn tók einnig tillit til þess hvort synjun eða skráning heitis yrði kæranleg til æðra stjórnvalds. Stjórnvaldið yrði að geta birt ákvörðun um skráningu afurðar og geta haft eftirlit með notkun skráðra heita. Starfshópurinn lagði mat á kosti og galla fjögurra stofnana sem mögulega gætu komið til greina, þ.e. Einkaleyfastofan, Matvælastofnun, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eða sjálfstæð nefnd sem stjórnvald.
    Að mati starfshópsins voru kostir þess að fela Einkaleyfastofunni meðferð þessara mála þeir að um er að ræða undirstofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, vernd sem veitt er með skráningu heita afurða eru hugverkaréttindi á sviði iðnaðar, þekking er til staðar á hugverkaréttindum, Einkaleyfastofan hefur yfir að ráða ELS-tíðindum þar sem birta mætti ákvarðanir og verið væri að nýta fyrirliggjandi stjórnvald. Gallar þess að meðferð málanna yrði komið fyrir hjá Einkaleyfastofunni voru einna helst þeir að ekki væri fagþekking til staðar til að meta tengsl og hefð, leiðbeiningarskylda vart á færi stofnunarinnar, ekki væru fordæmi annars staðar í Evrópu að einkaleyfastofur sinntu þessu hlutverki, stofnunin er ekki umsýslustofnun og verndin samræmdist ekki tilgangi hennar.
    Kostir þess að fela Matvælastofnun meðferð þessara mála voru að um er að ræða undirstofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, nýta mætti eftirlit stofnunarinnar, fagþekkingin er til staðar vegna matvæla, merkingakerfi eins og lífræn framleiðsla og skráargatið er á forræði stofnunarinnar og fordæmi eru fyrir því að meðferð þessara mála sé á forræði sams konar stofnana í Evrópu. Í Noregi er meðferð þessara mála hjá Matvælastofnun (Mattilsynet). Gallar þess að meðferð mála yrði komið fyrir hjá Matvælastofnun voru að þekking á merkingakerfinu og hugverkarétti er ekki til staðar, meðferðin samræmist ekki hlutverki Matvælastofnunar og fagþekking er ekki til staðar til að meta tengsl og hefð.
    Kostir þess að fela atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu meðferð þessara mála voru að ráðuneytið getur hvatt til umsókna, ráðuneytið hefur ríka leiðbeiningarskyldu, fagþekking á hugverkarétti er til staðar og ráðuneytið getur birt opinberlega skráð afurðarheiti. Gallar þess að ráðuneytinu yrði falin meðferð þessara mála er að ekki er unnt að skjóta ákvörðunum ráðuneytisins til æðra stjórnvalds, fagþekking er ekki til staðar til að meta tengsl og hefð og ráðuneytið getur ekki sinnt eftirliti með notkun skráðra heita afurða.
    Kostir þess að sjálfstæð nefnd færi með meðferð málanna voru þeir að unnt væri að skipa í nefndina einstaklinga sem hefðu fagþekkingu til að meta tengsl og hefð og/eða skörun við vörumerkjarétt. Sami aðilinn hefði því þekkingu til að meta tengsl og hefð og taka ákvörðun um skráningu. Gallar þess að setja á fót sjálfstæða nefnd voru þeir að um væri að ræða nýtt stjórnvald og sjaldgæft að verkefni sem þessu væri úthýst til sjálfstæðrar nefndar.
    Niðurstaðan varð því sú að gera tillögu í frumvarpi þessu um að umsóknar- og skráningarferlið mundi liggja hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sem nyti liðsinnis sérfræðinganefndar sem mæti tengsl og hefð. Eftirlit og beiðnir þeirra framleiðenda sem óska þess að fá að nota skráð afurðarheiti yrðu í höndum Matvælastofnunar, til að nýta það eftirlitskerfi sem er þegar til staðar.
    Með hliðsjón af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið, sem samþykkt var í ríkisstjórn 24. maí 2013, var tillaga starfshópsins um umsóknar- og skráningarferli vegna afurðarheita, að mati ráðuneytisins , ekki í samræmi við framangreinda aðgerðaáætlun. Þar var gert ráð fyrir að umsókn og eftirlit væri á hendi þriggja aðila, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sérfræðinefndar og Matvælastofnunar. Í umsögn Matvælastofnunar frá 6. september 2013 kom fram að verði frumvarpið að lögum hefði það umtalsverð áhrif á starfsemi stofnunarinnar og þyrfti stofnunin að koma sér upp ákveðinni þekkingu á þessu sviði. Með vísan til þess er því í frumvarpinu gerð tillaga um að Matvælastofnun ein annist umsóknar- og skráningarferlið, enda muni stofnunin sinna eftirliti með notkun skráðra heita verði frumvarpið að lögum, þannig verði málsmeðferðin á hendi eins aðila í stað þriggja.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til sérstakrar athugunar á samræmi við stjórnarskrá.
    Helstu alþjóðasamningar sem Ísland á aðild að og hafa gildi vegna frumvarps þessa eru samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem fjallar um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS-samningurinn) og hins vegar EES-samningurinn, einkum vegna marka við vörumerkjarétt. Skv. 3. gr. TRIPS-samningsins er bannað að mismuna innlendum og erlendum aðilum með tilliti til verndar hugverkaréttinda.
    Þá segir í 22. gr. TRIPS-samningsins m.a. að hvað varðar landfræðilega tilvísun að sjá skuli til þess að þeir sem eiga hagsmuna að gæta geti á löglegan hátt komið í veg fyrir að í merkingu eða kynningu vöru sé með einhverjum hætti tilgreint eða gefið til kynna að varan sé upprunnin á öðru landsvæði en hinu rétta upprunasvæði. Með þeim hættifær almenningur villandi upplýsingar um landfræðilegan uppruna vörunnar og slík notkun telst til óréttmætrar samkeppni í skilningi 10. gr. a í Parísarsamningnum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar (1967). Jafnframt segir í TRIPS-samningnum að synja eigi um eða ógilda skráningu vörumerkis sem felur í sér eða samanstendur af landfræðilegri merkingu að því er varðar vörur sem eru ekki upprunnar á því yfirráðasvæði sem merkingin vísar til, ef þess háttar merking á vörumerki slíkra vara í landi aðila veitir almenningi villandi upplýsingar um réttan landfræðilegan uppruna vörunnar.
    Í 23. gr. TRIPS-samningsins er fjallað um viðbótarvernd vegna landfræðilegrar tilvísunar fyrir léttvín og brennda drykki. Í 25. gr. samningsins er hins vegar tiltekið að ekki sé skylt samkvæmt samningnum að vernda landfræðilegar merkingar sem njóta ekki verndar eða njóta ekki lengur verndar í upprunalandi þeirra, eða eru ekki lengur notaðar í því landi.
    Verði frumvarpið að lögum mun Ísland uppfylla skyldur sínar samkvæmt framangreindum ákvæðum TRIPS-samningsins.
    Þess skal jafnframt getið að til er samningur, Lisbon Agreement for the Protection of Appellations of Origin and their International Registration, sem Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO) hefur umsjón með. Samningur þessi var fyrst undirritaður árið 1958 og tók gildi 25. september 1966. Ísland hefur ekki gerst aðili að þessum samningi enn sem komið er.

V. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var bæði haft samráð við innlenda og erlenda aðila. Starfshópurinn kallaði til sín fulltrúa frá Slowfood, Íslandsstofu, MATÍS, sem og Einar Karl Haraldsson. Hópurinn fékk einnig upplýsingar frá tveimur sérfræðingum frá Danmörku og Finnlandi á TAIEX-námskeiði sem skipulagt var af utanríkisráðuneytinu, samningshópi um landbúnaðarmál og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Sérfræðingarnir voru Erik Andersen frá matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti Danmerkur (Ministeriet for Fødvarer, Landbrug og Fiskeri) og Maija Heinonen frá landbúnaðarráðuneyti Finnlands (Maa- ja metsätalousministeriö). Þau kynntu fyrir starfshópnum hvernig þessum málum er háttað í hvoru landi fyrir sig og hvernig skráningarferli heita afurða sem njóta skulu verndar er háttað. Sá fróðleikur nýttist starfshópnum við samningu frumvarpsins. Matvælastofnun var sérstaklega kynnt efni frumvarpsins þegar drög þess lágu fyrir, þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnunin sjái um meðferð umsókna um notkun skráðra heita afurða og eftirlit með notkun þeirra. Starfshópurinn kynnti frumvarpsdrög sín á vefsíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sumarið 2013. Þá var frumvarpið sérstaklega sent til Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga til umsagna. Umsögn barst aðeins frá Matvælastofnun sem starfshópurinn vann úr. Starfshópurinn skilaði drögum að frumvarpi til ráðuneytisins í nóvember 2013 og vann ráðuneytið áfram með frumvarp starfshópsins og gerði nokkrar breytingar á efni þess.

VI. Mat á áhrifum.
    Erfitt er í raun að meta áhrif frumvarpsins þar sem það mun fyrst og fremst ráðast af því hvernig innlendir framleiðendur nýta sér þau tækifæri sem verða til með henni. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið leit starfshópurinn einkum til reglna Evrópusambandsins og Noregs um vernd vöruheita. Innan Evrópusambandsins, þar sem sambærilegar reglur hafa verið í gildi frá 1992, var í júní 2013 búið að skrá 1.162 vöruheiti og 268 umsóknir til viðbótar voru til meðferðar. Í Noregi höfðu 25 vöruheiti fengið skráningu í september 2013, en löggjöfin í Noregi var sett 2002. Engin leið er að áætla fjölda mögulegra umsókna hérlendis en ólíklegt má telja að þær verði fleiri en í Noregi og sennilega öllu færri. Eins og fyrr segir eru meginrökin fyrir þessari lagasetningu að mati starfshópsins að veita framleiðendum tækifæri til að öðlast formlega viðurkenningu á sérstöðu íslenskra afurða. Með því styrkist samkeppnisstaða innlendra afurða gagnvart innfluttum vörum og einnig geta skapast ný tækifæri á erlendum mörkuðum. Neytendur hérlendis og erlendis hafa á síðustu árum gert auknar kröfur um frekari upplýsingar um uppruna afurða og reglusetning um uppruna eða landfræðilegar tilvísanir sem og hefðbundna sérstöðu skapar ákveðinn ramma til að koma opinberlega viðurkenndum upplýsingum á framfæri við neytendur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að vernda afurðarheiti sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Er þetta nýmæli á Íslandi en slík vernd er þekkt víða erlendis. Frumvarpið byggist á reglum Evrópusambandsins og hvernig þær hafa verið innleiddar í Noregi. Þar í landi er verndinni skipt í þrjá flokka sem lúta mismunandi skilyrðum. Ákveðið var að fylgja því fyrirkomulagi. Með því að veita afurðarheiti vernd á grundvelli framangreinds er verið að gera neytandanum ljóst að viðkomandi afurð hefur sérstöðu. Slíkt ætti að gera afurðina eftirsóttari og þar með auka virði hennar. Þá er einnig verið að treysta neytendavernd.

Um 2. gr.

    Frumvarpi þessu er ætlað að ná yfir matvæli eins og þau eru skilgreind í 3. gr., léttvíns og brenndra drykkja, sem og annarra afurða. Þar sem ekki er hægt að telja upp með tæmandi hætti hvaða aðrar vörur sótt verður um skráningu heitis fyrir og muni uppfylla skilyrði frumvarpsins til skráningar er lagt til að ráðherra geti ákveðið með reglugerð hvaða aðrar vörur en matvæli skuli falla undir frumvarpið. Sem dæmi um slíkar vörur má nefna ull, fjaðrir, skinn, fiskroð, leður, horn og bein, bómull, kork, hamp, tág, náttúrulegt gúmmí og kvoður, náttúrulegt litarefni, blóm og skrautplöntur, ilmolíur, tóbak, hey og mjölblöndur ætlaðar til dýrafóðurs. Gert er ráð fyrir að þær merkingar sem fjallað er um í frumvarpi þessu skarist ekki á við aðrar merkingar sem mælt er fyrir um í öðrum lögum og reglugerðum um merkingar einstakra afurða. Má þar nefna merkingar matvæla sem munu standa óbreyttar þrátt fyrir ákvæði þessa frumvarps.
    Þá er lagt til að heimilt verði að skrá erlend heiti afurða á sambærilegum forsendum og innlend afurðarheiti, enda njóti hin erlendu heiti verndar í upprunalandi sínu. Þetta er sambærileg leið og farin hefur verið í Noregi. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir að stjórnvöld geti gert samninga við erlend ríki um gagnkvæma vernd heita afurða. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið nái yfir heiti neysluvatns og ölkelduvatns þar sem reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn tryggir fullnægjandi vernd.

Um 3. gr.

    Lagt er til að skilgreina nokkur lykilhugtök frumvarpsins. Flest hugtökin eru ný en einnig er stuðst við hugtakaskilgreiningar annarra laga til að gæta samræmis. Má þar nefna hugtökin matvæli og opinberir eftirlitsaðilar sem skilgreind eru í lögum um matvæli.

Um 4. gr.

    Í greininni eru sett fram öll þau skilyrði sem afurðarheiti þarf að uppfylla til að geta hlotið skráningu með upprunatilvísun. Öllu jöfnu er um að ræða heiti sem að hluta eða öllu leyti er heiti á svæði, stað eða landi. Hins vegar gæti hér einnig verið um að ræða heiti á afurð sem hefur sterka vísun til tiltekins staðar, enda þótt ekki felist í því landfræðilegt heiti sem slíkt. Þekkt dæmi um þetta erlendis frá er FETA-ostur frá Grikklandi. Þegar um er að ræða landfræðilegt heiti er ekki nauðsynlegt að það sé núverandi landfræðilegt heiti, eða fylgi stjórnsýslulegri afmörkun. Hér getur t.d. verið um að ræða eldra heiti svæðis.
    Fyrsta skilyrði er sett fram í a-lið, en það er að sú afurð sem heitið ber sé upprunnin á tilteknu afmörkuðu svæði, tilteknum stað eða landi. Hér skiptir máli að hægt sé að afmarka það svæði þar sem framleiðsla fer fram með skýrum hætti, enda skal það gert í afurðarlýsingu þeirri sem er grundvöllur skráningarinnar. Hér er rétt að taka fram að ekki er nauðsynlegt að aðliggjandi svæði séu ólík því svæði sem framleiðsla fer fram á. Ekki þarf að færa sérstök rök fyrir því að aðstæður á þeim svæðum séu öðruvísi, enda mun heitið aðgreina svæðin. Fremur þarf að færa rök fyrir því að aðstæður á upprunasvæðinu séu einsleitar.
    Annað skilyrðið er sett fram í b-lið, en þar er tiltekið að rík tengsl þurfi að vera á milli gæða afurðarinnar eða eiginleika og þess landsvæðis þar sem hún er upprunnin. Hér getur verið um að ræða gæði eða eiginleika sem byggjast á því hráefni sem aflað er á svæðinu eða aðferð við vinnslu sem ber ekki sama árangur annars staðar. Ef um er að ræða kjötafurðir getur t.d. verið um að ræða fóður sem aflað er á svæðinu, eða þann gróður sem skepnurnar nærast á. Í tilviki harðfisks getur t.d. verið um að ræða þurrkun við tilteknar aðstæður sem gefa afurðinni sérstaka eiginleika eða stuðla að gæðum hennar.
    Þriðja skilyrðið er sett fram í c-lið. Þar er áskilið að öll stig framleiðslu afurðarinnar þurfi að fara fram á hinu tilgreinda landsvæði. Til framleiðslu getur talist að afla afurða, t.d. með veiðum eða tínslu. Þannig þarf hráefnisöflun, a.m.k. þeirra hráefna sem hin sérstöku gæði eða eiginleikar stafa af, að vera á svæðinu. Hið sama á við um vinnslu og aðra tilreiðslu. Í vissum tilvikum kunna þannig að standa rök til þess að skurður og pökkun fari fram á svæðinu þar sem það geti haft áhrif á eiginleika eða gæði afurðarinnar, en í slíkum tilvikum er rétt að geta þess sérstaklega í afurðarlýsingu, sbr. 14. gr.
    Þannig eru gerðar ríkar kröfur til tengsla afurðar og þess landsvæðis þar sem hún er upprunnin svo afurðarheiti fái notið verndar með vísan til uppruna.
    

Um 5. gr.

    Í greininni eru sett fram þau skilyrði sem afurðarheiti þarf að uppfylla, eitt eða fleiri, til að geta hlotið vernd sem vísar til landsvæðis. Fyrsta skilyrðið er að afurðarheiti vísi til uppruna á svæði, stað eða landi og er það samsvarandi skilyrði og fyrsta skilyrði 4. gr. Um skilyrðið er vísað til athugasemda við þá grein.
    Annað skilyrðið er sett fram í b-lið. Þar eru gerðar minni kröfur en gert er í 4. gr. til tengsla afurðarinnar og þess svæðis sem vísað er til. Þannig nægir að til staðar séu sérstakir eiginleika, orðspor eða önnur einkenni sem rekja má að verulegu leyti til hins landfræðilega uppruna. Þannig nægir orðsporið eitt, sem varðar ekki eiginleika afurðarinnar sjálfrar, enda þótt umsækjandi verði að færa sönnur á að afurðin njóti þess orðspors sem til er vísað.
    Þriðja skilyrðið er síðan sett fram í c-lið. Þar nægir að eitt af framleiðslustigum afurðarinnar, t.d. hráefnisöflun, vinnsla og/eða tilreiðsla, fari fram á hinu skilgreinda svæði. Ef skráning byggist á staðbundinni vinnsluaðferð eða aðstæðum við vinnslu getur hráefnið til að mynda komið nánast hvaðan sem er, t.d. í tilviki harðfisks.
    Af þessu er ljóst að rýmri kröfur eru gerðar til að afurðarheiti sem vísar til landsvæðis njóti verndar en þegar um er að ræða upprunatilvísun.

Um 6. gr.

    Í greininni er tiltekið hvaða vernd felst í skráðu afurðarheiti sem vísar til uppruna og landsvæðis. Um er að ræða víðtæka vernd fyrir rétthafann gegn því að aðrir aðilar noti heitið á þann hátt að orðspor hins skráða heitis sé misnotað eða neytendum séu veittar rangar eða villandi upplýsingar. Ekki er gerð krafa um að heiti sé hagnýtt með framangreint að markmiði eða að sýnt sé fram á að misnotkun heitis hafi rýrt orðspor þess, heldur nægir að hætta sé á að notkun rýri orðspor afurðar eða geti afvegaleitt neytendur, sbr. a-lið 1. mgr.
    Í b-lið 1. mgr. er sérstaklega vísað til villandi hugrenningatengsla, en þar er átt við tilvik þegar vísað er til afurðar með óbeinum hætti til að villa um fyrir neytendum eða hagnýta orðspor afurðar. Meta þarf hvert tilvik fyrir sig og skal þá horfa til skynhrifa neytenda, hvort afurðir eru sambærilegar, hvort líkindi eru með því hvernig heiti láta í eyrum eða hvort ritháttur er líkur og með hvaða hætti afurð er pakkað og hún kynnt.
    Í c-lið 1. mgr. er mælt fyrir um að með vernd á skráðu heiti sé komið í veg fyrir að unnt sé að nota merki skráðs heitis á afurð sem ekki uppfyllir skilyrði laganna og þannig sé villt um fyrir neytendum um uppruna afurðarinnar.
    Í d-lið 1. mgr. er með athæfi vísað til framsetningar afurðarinnar með tilliti til uppruna hennar.
    Oft samanstendur skráð heiti af landfræðilegu heiti eða tilvísun en jafnframt almennu heiti í kjölfarið. Sem dæmi mætti taka íslenskt lambakjöt. Bæði orðin sem tilvísunin samanstendur af eru þess eðlis að þau geta ekki leitt til þess að bannað verði að nota orðin íslenskt eða lambakjöt.
    Í greininni er tekinn af allur vafi um að ef heiti sem nýtur verndar samanstendur af einu eða fleiri almennum orðum er verndin ekki veitt einstökum orðum, heldur er hún einungis bundin við orðasamsetninguna sem slíka og veitir afurðarheiti sérkenni.
    Skráð afurðarheiti sem vísar til uppruna eða landsvæðis nýtur enn verndar verði afurðarheiti að almennu heiti.

Um 7. gr.

    Í a-lið er tiltekið að ekki sé heimilt að skrá almennt heiti. Með almennu heiti er hér átt við afurðarheiti sem orðið er að almennri tilvísun til tiltekinnar afurðar, enda þótt heitið kunni að tengjast tilteknum stað, svæði eða landi þar sem afurð var fyrst upprunnin. Þannig hefur tenging heitisins og upprunastaðarins rofnað. Í dæma skyni má t.d. vísa til ostaheitisins gouda. Enda þótt sá ostur sé upprunalega frá Hollandi er hann nú framleiddur um allan heim og telst vera almennt heiti á hörðum osti framleiddum samkvæmt tiltekinni aðferð.
    Sá sem leggur fram umsókn þarf í gögnum sínum að sýna fram á að tengsl milli svæðis og heitis séu til staðar vegna þeirrar afurðar sem um ræðir. Sá sem heldur því fram að heiti sé orðið almennt heiti ber sönnunarbyrði þar um.
    Við mat á því hvort heiti teljist vera almennt heiti í skilningi frumvarpsins þarf að framkvæma heildstætt mat í hverju tilviki fyrir sig þar sem m.a. er horft til sögu, notkunar og tengingar við landsvæðið og hvernig heitið hefur verið notað í sögulegu samhengi. Þá er rétt að horfa til framleiðslu á upprunasvæðinu í samanburði við framleiðslu annars staðar, t.d. hvað varðar magn, markaðshlutdeild, neyslu og hve lengi framleiðslan hefur átt sér stað. Enn fremur skal horfa til þess hvort neytendur í víðum skilningi þess orðs, innan lands sem utan, tengi afurð við tiltekinn stað eða hvort framleiðsla annars staðar leitist við að vísa með beinum eða óbeinum hætti til hins upprunalega framleiðslustaðar. Að auki gætu önnur gögn haft gildi, svo sem innlendar og erlendar orðabækur.
    Í vörumerkjarétti teljast merki sem eingöngu vísa til uppruna eða tegundar vöru almennt vera óskráningarhæf. Í 13. gr. vörumerkjalaga, nr. 45/1997, segir að heiti sem einungis gefa til kynna tegund vörunnar eða þjónustunnar, ástand, magn, notkun, verð, uppruna eða hvenær varan er framleidd eða þjónustan látin í té, teljist ekki nægjanleg sérkenni vörumerkis. Mat á hugtakinu almennt heiti í frumvarpi þessu ber hins vegar að túlka á víðtækari hátt en í vörumerkjarétti og ekki eru gerðar eins ríkar kröfur til sérkennis heitis.
    Í b-lið er sérstaklega tekið fram að ekki sé heimilt að skrá heiti sem vísar til uppruna ef það stangast á við heiti plöntuafbrigðis eða dýrakyns, þannig að hætta sé á ruglingi. Hér á það sama við og um almenn heiti, að tengsl upprunasvæðisins, heitisins og afurðarinnar hafa rofnað. Dæmi um þetta er Genúa-basilíka sem er afbrigði af basilíkuplöntunni. Hún er hins vegar ræktuð um allan heim og gæti t.d. afurðin „Pestó úr Genúa-basilíku“ ekki hlotið vernd sem upprunatilvísun eða landfræðileg tilvísun. Hið sama á t.d. við um Jersey-kúakynið, sem hefur breiðst út um heiminn. Þannig mundi heitið „Jersey-smjör“ ekki heldur geta fengið vernd sem afurð frá eyjunni Jersey, enda er Jersey-smjör framleitt víða, með vísun til þess að það sé úr mjólk sem samnefnt kúakyn gefur af sér. Þar með er um ruglingshættu að ræða og skráning kemur ekki til greina.
    Samkvæmt c-lið er ekki heimilt að skrá afurðarheiti sem stangast á við vel þekkt vörumerki, ef hætta er á að það valdi ruglingi milli heitis og vörumerkis. Ákvæðið byggist á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, m.a. skv. 6bis. gr. Parísarsamningsins og er í samræmi við ákvæði vörumerkjalaga, sem byggjast á fortakslausum reglum í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/95/EB frá 22. október 2008 um samræmingu á lögum aðildarríkja um vörumerki, sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn. Um túlkun þess hvað telst vera vel þekkt vörumerki er vísað til vörumerkjaréttar. Auk þess er framleiðanda mögulegt að nýta sér úrræði í vörumerkjalögum til afmáningar á vel þekktu vörumerki telji hann að viðkomandi vörumerki hafi verið skráð andstætt ákvæðum vörumerkjalaga eða viðkomandi vörumerki geti villt um fyrir mönnum, sbr. 28. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki. Hvað varðar hina meintu ruglingshættu sem um getur í greininni er rétt að horfa, eftir atvikum, til athugasemda við 6. og 8. gr.

Um 8. gr.

    Í greininni eru sett fram skilyrði þess að fá heiti verndað á grundvelli hefðbundinnar sérstöðu afurðar. Slík heiti eru nokkuð annars eðlis en heiti sem geta öðlast vernd sem vísar til uppruna og landsvæðis. Í þeim tilvikum eru tengsl afurðarinnar og staðarins höfuðatriði. Í tilviki afurða sem njóta hefðbundinnar sérstöðu er áherslan lögð á framleiðsluaðferðina eða hefðbundið hráefni óháð staðsetningu, þ.e. tengingin er á milli heitis og uppskriftar afurðar. Þannig getur hver sá sem uppfyllir afurðarlýsingu, óháð staðsetningu, framleitt umrædda afurð.
    Til að heiti geti hlotið vernd samkvæmt greininni þarf það að vísa til afurðar sem nýtur hefðbundinnar sérstöðu. Með hefð í þessum skilningi er átt við t.d. verklag sem viðhaft hefur verið milli kynslóða, þó að lágmarki í 30 ár. Færa þarf sönnur á hefð í afurðarlýsingu. Gerðar eru kröfur um að afurðarheiti hafi ákveðið sérkenni og sé ekki eingöngu lýsandi fyrir afurðina. Þannig mætti ef til vill skrá hverabrauð sem heiti yfir afurð sem nýtur hefðbundinnar sérstöðu en ekki rúgbrauð. Þess ber þó að geta að hér eru ekki gerðar eins ríkar kröfur til sérkennis og tíðkast um vörumerki og leiðir af vörumerkjarétti. Þannig getur afurðarheiti sem telst njóta hefðbundinnar sérstöðu verið skráð samkvæmt lögum þessum, en sama heiti fengist ekki skráð sem vörumerki vegna skorts á sérkenni.

Um 9. gr.

    Í greininni er heiti sem vísar til hefðbundinnar sérstöðu veitt vernd. Í greininni er vísað til þess að vernda skuli skráð afurðarheiti sem vísar til hefðbundinnar sérstöðu fyrir misnotkun, eftirlíkingu, villandi hugrenningatengslum eða hvers konar öðru athæfi sem villt getur um fyrir neytendum. Með villandi hugrenningatengslum er átt við tilvik þar sem vísað er til afurðar með óbeinum hætti eða orðspor afurðar hagnýtt til að villa um fyrir neytendum. Meta þarf hvert tilvik fyrir sig en líta þarf til skynhrifa neytandans til afurðarinnar. Þá þarf að hafa til hliðsjónar hvort afurðirnar séu sambærilegar, heiti þeirra hljómi á sama hátt, afurðirnar áþekkar á að líta eða þeim pakkað með sambærilegum hætti. Með athæfi er vísað til framsetningar afurðar og hvort framsetningin geti villt um fyrir neytendum.

Um 10. gr.

    Upp kunna að koma tilvik þar sem óskað er eftir skráningu heitis sem er að öllu eða einhverju leyti samhljóða öðru heiti þannig að ruglingi geti valdið. Hér á landi er líklega meiri hætta á að slík staða komi upp við skráningu erlendra heita. Meta þarf ruglingshættu í hverju tilviki fyrir sig, en við það mat er meðal annars unnt að horfa til þess hvort heiti stangast á við vernd skráðs heitis skv. 6. og 8. gr. Ef hætta er talin á ruglingi en bæði heitin uppfylla skilyrði skráningar er rétt að þau hljóti skráningu, þó með þeim hætti að uppruni þeirra sé skilmerkilega tilgreindur í heiti, þannig að það dragi úr ruglingshættu. Dæmi um slíkt er ef óskað er skráningar á afurðarheiti sem vísar til landsvæðis skv. 5. gr. frumvarpsins. Þá gæti verið um að ræða tvö landsvæði eða örnefni sem eru hvort á sínum stað í landinu. Við skráningu yrði að gæta þess að landsvæðin eða örnefnin væru aðgreind með tilliti til staðsetningar svo að heimilt sé að skrá bæði heitin.

Um 11. gr.

    Í greininni eru tilgreindir þeir aðilar sem sótt geta um skráningu á afurðarheiti. Það eru annars vegar framleiðendahópur og hins vegar einstaklingar eða lögaðilar að uppfylltum frekari skilyrðum sem sett eru fram í 2. mgr. Framleiðendahópur er skilgreindur í 3. gr. sem félag, óháð formi, sem samanstendur af framleiðendum og/eða vinnsluaðilum sem vinna að sömu afurð eða samtökum þeirra. Með því að heimila einstaklingum og lögaðilum einungis í undantekningartilvikum að sækja um skráningu á afurðarheiti gerir frumvarpið ráð fyrir að framleiðendur eða vinnsluaðilar taki sig saman og sæki um skráningu. Markmiðið er að standa vörð um þann hóp framleiðenda sem eiga það sameiginlegt að vera frá sama svæði og hafa tekið þátt í að þróa þá vöru sem framleidd er undir viðkomandi heiti.

Um 12. gr.

    Lagt er til að Matvælastofnun taki á móti umsókn um skráningu á afurðarheiti. Í 2. mgr. er gerð tillaga að því hvað umsókn um skráningu heitis afurðar skal innihalda. Skilyrði er að umsókn sé skrifleg. Lagt er til að ráðherra setji í reglugerð ákvæði sem kveða nánar á um hvað skuli koma fram í samantekt skv. d-lið 2. mgr. Það gæti t.d. verið: heiti og lýsing afurðar, upplýsingar um merkingar og pökkun, tengsl uppruna afurðar og tengsl afurðar við landfræðilegt umhverfi og landfræðilegan uppruna, sérstaka þætti afurðar eða framleiðslu afurðar sem rökstyðja tengsl milli afurðar við uppruna og landfræðilega tilvísun. Þegar sótt er um skráningu á afurðarheiti á grundvelli hefðbundinnar sérstöðu skal samantekt innihalda heiti og lýsingu afurðar, tengsl afurðar við hefðbundna eiginleika hennar, hefðbundna framleiðsluaðferð, vinnslu eða samsetningu sem rökstyðja tengsl milli afurðar og hefðar. Í 3. og 4. mgr. er lagt til að umsækjanda sé veitt svigrúm til að lagfæra umsókn innan hæfilegs frests sem Matvælastofnun ákveður.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að Matvælastofnun fari yfir allar umsóknir um skráningu á afurðarheiti og telji stofnunin að umsókn sé fullnægjandi er henni skylt að senda umsóknina ásamt gögnum til umsagnar til Einkaleyfastofu og Samtaka atvinnulífsins. Einkaleyfastofa veitir þá umsögn um þann þátt umsóknarinnar sem snýr að tengslum við vörumerki. Samtök atvinnulífsins veita umsögn um viðkomandi afurð, framleiðslu og svo framvegis, en afurðirnar geta verið breytilegar eftir umsóknum. Þar sem ekki er unnt að sjá fyrir hvaða afurðarheiti verður sótt um skráningu fyrir, er æskilegt að stofnuninni sé heimilt að leita umsagna annarra sérfræðinga áður en stofnunin leggur mat sitt á umsóknina.
    Þá er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um umsóknarferlið, þar sem unnt er að veita frekari leiðbeiningar um þau atriði sem veita skal umsögn um og tímafresti.

Um 14. gr.

    Lagt er til að það grundvallarskjal sem liggur að baki skráningu á afurðarheiti skuli kallast afurðarlýsing. Afurðarlýsing er samsvarandi því sem í reglugerð Evrópusambandsins er kallað „product specification“, í Noregi „produkt forskrift“ og í Danmörku „vare specifikation“. Afurðarlýsingin er það skjal sem kveður á um hvernig og hvers vegna afurðin geti fengið heiti skráð með vísan til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun afurðarlýsingunni verða gefið lögformlegt gildi með birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 16. gr. Mjög mikilvægt er að afurðarlýsingin sé vönduð, ítarleg og uppfylli kröfur greinarinnar.
    Í afurðarlýsingu skulu koma fram upplýsingar um afurðarheiti, lýsing á afurð, svæði og framleiðsluaðferð sem stendur að baki skráningu og veitir sönnur fyrir því að afurð uppfylli skilyrði laganna. Enn fremur er skjalið mikilvægt vegna eftirlits, því að afurðir sem markaðssettar eru undir skráðu heiti þurfa að vera í samræmi við afurðarlýsingu. Enn fremur skapar tilvist afurðarlýsingar grundvöll fyrir skráningu og vernd erlendis. Hægt er að breyta afurðarlýsingu, til að mynda vegna þróunar í vinnslutækni, en um það er fjallað í athugasemdum við 19. gr.
    Meginefni afurðarlýsingar er tilgreint í a–c-lið 1. mgr. Í 2. mgr. er einnig fjallað um þau gögn sem skulu fylgja afurðarlýsingu að baki afurðarheiti skv. 4. og 5. gr. sem vísar til uppruna og landsvæðis. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. skal skilgreina það landsvæði þar sem afurð er upprunnin. Skilgreiningu svæðisins geta fylgt kort eða myndir. Í lýsingu er æskilegt að fram komi hvar svæðið er staðsett, hverjir séu eiginleikar þess, t.d. hvort svæðið sé í fjalllendi eða við sjó, hvernig loftslagi þar er háttað og hvers konar gróður sé þar að finna. Dæmi um skilgreiningu á hinu landfræðilega svæði má m.a. finna í afurðarlýsingu fyrir ferskvatnsfiskinn Kitkan Viisas frá Finnlandi sem skráð er með upprunatilvísun. Fiskinn er að finna á svæði í Norður-Finnlandi við heimskautsbaug þar sem vötn eru undir ís frá október fram í maí ár hvert. Svæðið er í 240 m hæð yfir sjávarmáli. Næringargildi í vötnunum er lágt og vatn þeirra tært.
    Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. þarf að leggja fram sönnun á því að afurð sé upprunnin á hinu skilgreinda landsvæði. Það getur t.d. verið sönnun þess efnis að viðkomandi dýrategund sem afurðin er unnin úr sé aðeins að finna á hinu skilgreinda svæði. Dæmi um slíka skilgreiningu er í afurðarlýsingu vegna hreindýrakjötsins Lapin poron liha frá norðurhluta Finnlands og Lapplands sem skráð er með upprunatilvísun. Hið skráða heiti, Lapin poron liha, má aðeins nota á afurð sem er af hreindýri sem fædd eru og alin á hinu skilgreinda landsvæði. Þar lifa þau frjáls vor, sumar og haust. Þessu til stuðnings geta t.d. verið fræðigreinar, myndir eða önnur gögn.
    Samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. þarf að lýsa framleiðsluaðferð við vinnslu afurðarinnar. Lýsingin getur t.d. falið í sér hvernig, hvar og hvenær vinnsla afurðarinnar fer fram. Ef afurðin sem um ræðir er t.d. af dýri, þá getur þurft að taka fram í lýsingu hvernig slátrun er háttað, hvar slátrun fer fram og hvenær hún skal fara fram. Sem dæmi um skilgreiningu á framleiðsluaðferð í afurðarlýsingu er Lammefjord carrot (gulrætur) frá Danmörku sem skráð er með landfræðilegri tilvísun. Gulræturnar skal rækta samkvæmt dönskum gæðastaðli og með lífrænum hætti á hinu skilgreinda landsvæði. Þá er einnig í afurðarlýsingu lýsing á því hvernig gulrótunum skuli pakkað og með hvaða merkingum.
    Samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. þarf einnig að tilgreina tengslin milli gæða og einkenna afurðar og hins landfræðilega svæðis. Hér er um að ræða tengslin (e. link) milli afurðar og uppruna hennar. Í afurðarlýsingu fyrir Vadehavslam-lambakjöt frá Danmörku sem skráð er með landfræðilegri tilvísun er tengslunum milli lambakjötsins og svæðisins lýst. Lambakjötið er fengið af sauðfé sem ræktað er á svæði sem liggur meðfram Vadehavet í Danmörku. Sauðféð er stórt og kjötmikið. Þá hefur kjötið saltan keim þar sem sauðfénu er beitt á sölt engi sem fara undir sjó á hverju ári. Gæði og eiginleikar lambakjötsins, þ.e. að það sé kjötmikið og beri saltan keim, er vegna þeirra aðstæðna og þess uppruna sem sauðféð er ræktað við.
    Í 3. mgr. er fjallað um þau gögn sem skulu fylgja afurðarlýsingum að baki afurðarheiti sem vísar til hefðbundinnar sérstöðu skv. 8. gr. Samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. þarf að lýsa hefðbundnum eiginleikum afurðarinnar. Hefðbundnir eiginleikar afurðarinnar geta falist í vinnsluaðferð hennar. Má þar sem dæmi nefna Traditional Farmfresh Turkey frá Englandi, sem skráð er með vísan til hefðbundinnar sérstöðu. Kalkúnninn er ræktaður hægt sem gerir það að verkum að kjötið verður stífara en ella. Eftir slátrun eru fuglarnir látnir hanga í 7–14 daga. Með þeirri aðferð er tryggt að kjötið verði safaríkt og bragðmeira, en einkenni þess aukast eftir því sem kjötið hangir lengur. Einnig má hér nefna Hushållsost frá Svíþjóð, sem skráð er með vísan til hefðbundinnar sérstöðu. Osturinn hefur verið framleiddur af bændum allt frá árinu 1898. Framleiðsla ostsins einkennist af vinnsluaðferð sem felur í sér að hann er unninn í miklum raka og við hátt hitastig.
    Samkvæmt 2. tölul. 3. mgr. þarf að tilgreina upplýsingar um hina hefðbundnu framleiðsluaðferð, vinnslu eða samsetningu. Framangreint dæmi um Hushållsost frá Svíþjóð gefur vísbendingu um hvaða upplýsingar skuli veita um vinnslu afurðarinnar, hvernig framleiðsla, vinnsla eða samsetning afurðar fer fram, hvort tiltekin áhöld þurfi, hitastig, vinnslutíma o.s.frv.
    Samkvæmt 3. tölul. 3. mgr. skal tilgreina upplýsingar um hráefni og innihaldsefni sem notuð eru til framleiðslu. Hér getur t.d. verið um að ræða fóður sem dýr nærist á og glöggt má finna eiginleika þess í afurðinni.
    Samkvæmt 4. tölul. 3. mgr. skal tilgreina upplýsingar um hvernig hráefni í afurð eru nýtt samkvæmt hefð. Ber að tilgreina hér upplýsingar sem snúa að því að tiltekið hráefni hafi ávallt verið nýtt við framleiðslu viðkomandi afurðar. Í afurðarlýsingu Pizza Napoletana frá Ítalíu, sem skráð er með vísun til hefðbundinnar sérstöðu, kemur fram að meðal þeirra hráefna sem finna má í afurðinni eru laukur, oregano, Mozzarella di Bufala Campana AOP, basilíka og Mozzarella STG.

Um 15. gr.

    Í greininni er tilgreindur réttur til andmæla þegar umsókn um skráningu á afurðarheiti hefur borist Matvælastofnun. Lagt er til að Matvælastofnun birti heiti sem óskað er skráningar á ásamt afurðarlýsingu með opinberum hætti, t.d. á heimasíðu stofnunarinnar. Andmælafrestur er tveir mánuðir, sem er sambærilegur frestur og veittur er í Noregi, Danmörku og Finnlandi.

Um 16. gr.

    Í 1. mgr. er gerð tillaga um að Matvælastofnun taki ákvörðun um skráningu á afurðarheiti innan þriggja mánaða frá því að andmælafresti lauk. Tillaga er gerð um þriggja mánaða málsmeðferð, þar sem sá tími skal nýtast stofnuninni til að vinna úr innkomnum andmælum við skráningu.
    Þá er lagt til í 2. mgr. að Matvælastofnun birti með auglýsingu skráð afurðarheiti ásamt afurðarlýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, með sambærilegum hætti og gert er með birtingu skráðra heita og afurðarlýsingu í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins (e. Official Journal of the European Communities).
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Matvælastofnun haldi skrá yfir afurðarheiti sem hlotið hafa skráningu. Afurðarheiti verður ekki afskráð nema ósk þess efnis komi fram skv. 22. gr. Skrá þessi skal vera aðgengileg með opinberum hætti, t.d. á vef stofnunarinnar.

Um 17. gr.

    Í greininni er tiltekið að skráð afurðarheiti megi aðeins nota ef afurð er í samræmi við þá afurðarlýsingu sem birt hefur verið. Þá er í greininni gerð tillaga um það hvernig skuli auðkenna afurð sem ber skráð heiti. Framleiðanda sem hefur fengið afurðarheiti skráð er heimilt að nota auðkennismerki. Það leiðir af ákvæðum frumvarpsins að óheimilt er að nota umrædd auðkenni eða tilvísanir nema um sé að ræða afurð sem ber skráð heiti. Einnig kemur fram að framleiðendum erlendrar afurðar sé heimilt að nota auðkennin í 2. mgr. ef um slíkt hefur verið samið í milliríkjasamningi.

Um 18. gr.

    Í greininni er kveðið á um forgangsrétt þess sem varð fyrri til að skila inn umsókn um skráningu á afurðarheiti.

Um 19. gr.

    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun afurðarlýsing hljóta lögformlegt gildi með birtingu sem auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 16. gr. Í greininni er gerð tillaga þess efnis að umsækjandi geti sótt um breytingu á afurðarlýsingu. Mælt er fyrir um þessa heimild þar sem tækniframfarir í framleiðsluaðferðum afurða geta breyst og þróast, sem leiðir til þess að upphafleg afurðarlýsing er ekki í samræmi við þær framleiðsluaðferðir sem til staðar eru. Umsókn um breytingu skal sæta sömu málsmeðferð og upphafleg umsókn um skráningu á afurðarheiti, svo sem varðandi birtingu, andmæli og rannsókn, áður en Matvælastofnun tekur ákvörðun um breytingu á afurðarlýsingu. Komi fram andmæli er Matvælastofnun þá aðeins heimilt að staðfesta breytingu á afurðarlýsingu að samkomulag liggi fyrir við þann aðila sem andmælti eða ef Matvælastofnun telur andmælin standa í vegi fyrir eðlilegri þróun afurðar, sbr. 15. gr., og litið sé til markmiða löggjafarinnar og hagsmuna framleiðenda og vinnslu- og tilreiðsluaðila. Breytingin skal birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Um 20. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um heimild þeirra sem framleiða afurð í samræmi við afurðarlýsingu til að nota skráð afurðarheiti og viðurkennda auðkennismerkingu á vöru sína. Tilkynningu um notkun sem þegar er hafin skal vísa til Matvælastofnunar sem staðfestir móttöku tilkynningar. Ekki er greitt sérstaklega þegar tilkynning er lögð fram né fer fram sérstakt mat af hálfu Matvælastofnunar á þessu stigi enda gert ráð fyrir að slíkt fari fram í samræmi við eftirlit skv. 29. gr.

Um 21. gr.

    Lagt er til að umsækjandi greiði umsóknargjald vegna umsókna um skráningu á afurðarheiti. Gjaldið rennur til Matvælastofnunar til að standa undir hluta af þeim kostnaði sem hlýst af meðferð umsóknar. Greinarmunur er gerður á umsókn um skráningu og breytingu á afurðarlýsingu, en breyting á afurðarlýsingu hefur í för með sér sömu málsmeðferð og þegar um er að ræða skráningu á afurðarheiti.

Um 22. gr.

    Í 1. mgr. eru talin upp þau tilvik sem leiða til þess að unnt er að afturkalla skráningu á afurðarheiti ef það hefur verið skráð andstætt ákvæðum laganna. Með ákvörðun Matvælastofnunar er unnt að afturkalla skráningu á afurðarheiti. Samkvæmt greininni eru það aðeins skráningar sem eru andstæðar efnisreglum laganna sem unnt er að ógilda.
    Í 2. mgr. eru talin upp þau tilvik sem geta komið upp eftir skráningu á afurðarheiti og leitt geta til afturköllunar, annars vegar ef afurð er ekki framleidd í samræmi við afurðarlýsingu skv. 14. gr. og hins vegar ef afurð hefur ekki verið markaðssett undir skráðu heiti í sjö ár eða lengur.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að hver sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta geti krafist þess að Matvælastofnun afturkalli skráð afurðarheiti. Berist Matvælastofnun beiðni um afturköllun á skráðu afurðarheiti þarf stofnunin að gæta þess að framleiðandi sem notar heitið geti komið að andmælum áður en ákvörðun er tekin um að afturkalla skráningu heitisins. Frestur til andmæla er tveir mánuðir í samræmi við ákvæði 15. gr. Afturköllunina skal Matvælastofnun birta með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Um 23. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram að ekki sé heimilt að skrá vörumerki eða félagamerki ef villast má á merki og afurðarheiti sem verndað er samkvæmt lögum þessum, ef umsókn um skráningu merkis var lögð inn á eftir umsókn um skráningu á afurðarheiti skv. 12. gr. Sambærilegt ákvæði verður einnig að finna í lögum um vörumerki, sbr. 40. gr. frumvarps þessa.

Um 24. gr.

    Ákvæðið tekur á tilfellum þegar til staðar er skráð vörumerki eða félagamerki sem er eins eða líkt afurðarheiti sem óskast skráð og gæti talist villandi fyrir neytendur. Gert er ráð fyrir því að samhliða tilvist eldra vörumerkis eða félagamerkis og yngra heitis afurðar sé möguleg, að því gefnu að merkið hafi verið skráð í góðri trú. Útfæra þarf nánar í reglugerð hvernig meta skuli hvort umsækjandi hafi verið í góðri trú, en þar má hafa til hliðsjónar ákvæði 9. tölul. 14. gr. laga um vörumerki, þar sem fjallað er um það skilyrði að umsækjandi hafi vitað eða mátt vita um eldra erlent vörumerki. Eins þarf að kveða nánar á um málsmeðferð í tilvikum sem þessum svo sem ef framleiðandi telur að eldra vörumerki hafi verið skráð í vondri trú eða að eldra vörumerkið sé villandi fyrir neytendur. Þá væri mögulegt að beita úrræðum í 3. tölul. 2. mgr. 28. gr. vörumerkjalaga um afnám skráningar og því ferli sem vörumerkjalög gera ráð fyrir.

Um 25. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt sé að veita erlendum heitum vernd. Skilyrði skráningar er að afurðarheiti njóti verndar í upprunalandi sínu og að það uppfylli skilyrði frumvarpsins um skráningu. Aðili sem sækir um vernd á erlendu heiti skal færa sönnur á um að það sé skráð í upprunalandi og að afurð sé undir eftirliti þar. Þannig er það ekki Matvælastofnun sem fer með eftirlitið.

Um 26. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að heiti erlendrar afurðar geti einnig öðlast vernd hér á landi fyrir tilstilli milliríkjasamnings um gagnkvæma vernd heita. Þannig mætti sem dæmi tryggja vernd heita íslenskra afurða á öllu Evrópska efnahagssvæðinu með gagnkvæmnissamningum við Noreg, Liechtenstein og Evrópusambandið. Slíkur samningur mundi gera ráð fyrir gagnkvæmri viðurkenningu löggjafar, tiltekinni lágmarksvernd og skrá yfir afurðarheiti sem verndar skulu njóta. Sú skrá yrði uppfærð með ákvörðun sameiginlegrar nefndar. Áður en heiti eru skráð samkvæmt slíkum samningi þyrfti að gefa kost á andmælum gegn afurðarheiti á yfirráðasvæði hvers samningsaðila. Eins og á við um 25. gr. er hér gert ráð fyrir að allt eftirlit fari fram í upprunalandi afurðar.

Um 27. gr.

    Lagt er til að reglur EES-réttar, þ.e. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 110/ 2008 frá 15. ganúar 2008 um skilgreiningu, lýsingu, merkingu og vernd landfræðilegra merkinga á brenndum drykkjum verði innleidd með reglugerð sem ráðherra setur. Efnisreglur um skilyrði skráningar er að finna í áðurnefndri reglugerð en gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins gildi hvað varðar skráningu o.fl.

Um 28. gr.

    Gert er ráð fyrir að eftirlit með framleiðslu á léttvíni og brenndum drykkjum með tilliti til verndaðra heita verði á hendi Matvælastofnunar, líkt og varðandi önnur skráð heiti samkvæmt lögum þessum. Markaðseftirlit verði hins vegar hjá heilbrigðisnefndum.

Um 29. gr.

    Í greininni er fjallað um opinbert eftirlit með framleiðendum afurða sem nota skráð heiti samkvæmt ákvæðum laganna. Í greininni er gerð tillaga um að eftirlit með notkun á skráðum heitum afurða verði í samræmi við matvælaeftirlit Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum. Tilgangur þess að fela Matvælastofnun og heilbrigðisnefndum landsins eftirlit samkvæmt ákvæðum laganna er að nýta það eftirlitskerfi sem þegar er til staðar á landinu enda er gert ráð fyrir að meiri hluti þeirra afurða sem lög þessi ná til verði matvæli. Gert er ráð fyrir að meiri hluti þeirra afurða sem falla undir ákvæði frumvarpsins verði matvæli. Eftirliti samkvæmt frumvarpinu er skipt á milli Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda með sambærilegum hætti og gert er skv. 6. gr., sbr. 20. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995. Matvælastofnun er falið að hafa eftirlit með notkun skráðra afurðarheita á öðrum afurðum en matvælum, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Stofnunin getur skv. 30. gr. frumvarpsins framselt eftirlitið öðrum eftirlitsaðilum, eftir því sem við á. Matvælastofnun skal koma á samvinnu þeirra opinberu eftirlitsaðila er að málum þessum starfa og skal í slíkum tilvikum sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt. Stofnunin skal hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa og veita þá ráðgjöf og þjónustu varðandi eftirlit með skráðum heitum sem hún getur og aðstæður krefjast. Til þess að stuðla sem best að því að þessu markmiði verði náð gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmdina sem heilbrigðisnefndum ber að fylgja.

Um 30. gr.

    Samkvæmt 1. og 2. mgr. er heimilt að opinberir eftirlitsaðilar feli hver öðrum tiltekin verkefni samkvæmt greininni. Slíkt framsal á þó aðeins við um opinbera eftirlitsaðila en ekki einkaaðila.
    Í 3. og 4. mgr. er lagt til að aðrir en opinberir aðilar geti haft eftirlit með notkun skráðra heita, en eftirlit þeirra getur ekki tengst opinberu eftirliti nema um það séu settar nánari reglur. Opinberum aðila er aðeins heimilt að framselja eftirlit til aðila sem hlotið hefur faggildingu samkvæmt ákvæðum laga um faggildingu o.fl., nr. 24/2006. Greinin er í samræmi við ákvæði um framsal opinberra aðila á eftirliti til faggildra aðila. Ráðherra er heimilt samkvæmt greininni að setja nánari reglur um skilyrði og störf faggiltra aðila við eftirlit með notkun skráðra heita samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Um 31. gr.

    Með grein þessari er lagt til að verði frumvarpið að lögum sé tryggt að eftirlitsaðilar hafi fullan aðgang að eftirlitsskyldri starfsemi og þeim gögnum sem nauðsynlegt er að skoða við eftirlit með notkun skráðra heita. Jafnframt er í 2. mgr. tryggt að eftirlitsaðilar gæti trúnaðar og séu bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd sem og viðskiptaleyndarmál. Sú þagnarskylda tekur aðeins til gagna sem ekki teljast opinber eins og afurðarlýsing sem birt er í Stjórnartíðindum.

Um 32. gr.

    Í þessari grein er höfð hliðsjón af annars konar opinberu eftirliti, m.a. í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr.7/1998, og lögum um matvæli, nr. 93/1995. Markmiðið með grein þessari er að við gjaldtöku verði tekið mið af raunverulegum kostnaði vegna eftirlitsins og þess gætt að eftirlitsskyldur aðili greiði aðeins fyrir það eftirlit sem hann þarf að sæta.

Um 33. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að Matvælastofnun og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga sé heimilt að gefa tiltekin fyrirmæli um stöðvun eða takmörkun á framleiðslu og markaðssetningu afurðar þegar rökstuddur grunur er um að afurð sé ekki framleidd samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Heimild þessi getur m.a. átt við þegar framleiðandi afurðar notar skráð afurðarheiti án þess að uppfylla skilyrði afurðarlýsingu. Þá getur Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga beitt áminningu og ef brot eru alvarleg eða ítrekuð er unnt að stöðva framleiðslu á tiltekinni afurð.

Um 34. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimildir Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga til að leggja stjórnvaldssektir á framleiðendur afurða sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum laganna. Í fyrsta lagi ef framleiðandi notar skráð afurðarheiti eða auðkennismerki, sbr. 17. gr., án þess að framleiða afurð í samræmi við afurðarlýsingu skv. 14. gr. sem stendur að baki skráðu afurðarheiti. Í öðru lagi ef framleiðandi notar skráð afurðarheiti eða auðkennismerki, sbr. 17. gr., án þess að hafa tilkynnt Matvælastofnun skv. 20. gr. að hann muni nýta skráð afurðarheiti eða auðkennismerki við markaðssetningu afurðar. Við útfærslu ákvæðisins var m.a. höfð hliðsjón af 42. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, og 9. gr. g laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Um 35. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar er fjallað um þá háttsemi sem telst refsiverð. Vísað er til 17. gr. frumvarpsins þar sem tilgreint er hvenær heimilt er að nota skráð afurðarheiti og auðkennismerkingu. Einnig er refsivert að nota skráð heiti afurðar ef notkun þess hefur ekki verið tilkynnt til Matvælastofnunar skv. 20. gr. frumvarpsins. Varðar slík háttsemi sektum eða fangelsi í allt að sex mánuði. Við mat á lengd fangelsis var litið til refsiviðurlaga í dönskum og norskum lögum um skráningu afurðarheita.
    Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að brotin verða að vera framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi svo það varði sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.
    Í 3. mgr. er fjallað um að háttsemi sem telst vera tilraun til brota eða hlutdeild í brotum sé refsiverð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.

Um 36. gr.

    Í greininni er lagt til að brot gegn lögunum skuli aðeins sæta rannsókn sem sakamál að undangenginni kæru Matvælastofnunar til lögreglu. Varði meint brot á lögunum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Matvælastofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun. Þannig skal ekki beita öðrum refsiviðurlögum ef stjórnvaldssekt er beitt í tilteknu máli.
    Matvælastofnun er jafnframt heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast tilgreindum brotum. Þá er Matvælastofnun heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn brotanna. Sama á við um lögreglu og ákæruvald, en þeim er heimilt að láta Matvælastofnun í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast tilgreindum brotum. Loks er lagt til að telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum þá geti hann sent eða endursent málið til Matvælastofnunar til meðferðar og ákvörðunar.

Um 37. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um réttarúrræði sem unnt er að grípa til ef aðili telur að brotið sé á rétti sínum samkvæmt ákvæðum laganna. Framleiðandi eða framleiðendahópur getur haft hag af því að brot sé stöðvað strax. Lögbann er hægt að leggja við athöfn sem er hafin eða er yfirvofandi. Skilyrði fyrir lögbanni er að gerðarbeiðandi sanni eða leiði líkur að því að athöfnin brjóti gegn lögvörðum rétti hans. Beiðni um lögbann skal beint til sýslumanns á heimilisvarnarþingi gerðarþola eða þar sem meint ólögmæt athöfn fer fram eða líkur eru á að fari fram. Framkvæmd lögbanns fer eftir ákvæðum laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990.

Um 38. gr.

    Í greininni er kveðið á um skaðabótaábyrgð sem byggist á því að krefja má þann sem notar skráð heiti fyrir afurð með ólögmætum hætti um bætur vegna þess tjóns sem af því hlýst. Um bótagrundvöll vegna tjóns gildir sakarreglan.
    

Um 39. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um ráðstafanir sem dómstóll getur gripið til í þeim tilgangi að hindra misnotkun á skráðu heiti. Greinin er almennt orðuð og geta dómstólar kveðið á um þær ráðstafanir sem best hæfa hverju sinni vegna misnotkunar.

Um 40. og 41. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 42. gr.

    Í ákvæðinu er að finna viðbót við lög um vörumerki, nr. 45/1997, nánar tiltekið viðbótartölulið við 1. mgr. 14. gr. laganna. Er þar um að ræða tölulið sem tiltekur að ekki megi skrá vörumerki ef til staðar er skráð heiti á afurð sem verndar nýtur samkvæmt frumvarpi þessu. Gerð er krafa um að umsókn um skráð afurðarheiti hafi verið lögð inn til Matvælastofnunar á undan umsókn um vörumerki eða félagamerki. Rétt þótti að kveða á um þetta sérstaklega í vörumerkjalögunum ásamt því að fjallað er um þetta í 23. gr. frumvarpsins enda eðlilegt að umsækjendur um vörumerki geti fundið allar kröfur sem gera þarf til vörumerkja í sama lagabálki auk þess sem skýrleiki er tryggður á þennan hátt.Fylgiskjal I.

Atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneyti:


Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga
skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

    Frumvarpið felur í sér að vernda afurðarheiti matvæla, vína, sterkra vína og annarra vara, sem vísa til uppruna, landsvæðis og hefðbundinnar sérstöðu. Um er að ræða nýja heildarlöggjöf hér á landi en vernd þessi er þekkt víða erlendis. Frumvarpið er byggt á reglugerð (ESB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1151/2012 frá 21. nóvember 2012 um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli ásamt sambærilegri löggjöf í Noregi.
    Tilgangur frumvarpsins er að vernda afurðarheiti sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, með það að markmiði að stuðla að neytendavernd, auka virði afurða og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hópur framleiðenda sæki saman um skráningu á afurðarheiti en einnig er einstökum framleiðendum gert kleift að sækja um skráningu, t.d. ef hann er eini framleiðandi afurðarinnar á skilgreindu landsvæði. Meðferð umsókna verður í höndum Matvælastofnunar sem tekur ákvörðun um það hvort afurðarheiti skuli hljóta skráningu. Þá er gert ráð fyrir í frumvarpinu að Matvælastofnun ásamt heilbrigðisnefndum sveitarfélaga hafi eftirlit með notkun skráðra afurðarheita. Gert er ráð fyrir að eftirlitið verði með sambærilegum hætti og þegar er með matvælum samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1995, um matvæli. Tilgangur þess að fela Matvælastofnun og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga eftirlitið er að nýta það eftirlitskerfi sem þegar er til staðar, enda er gert ráð fyrir að meiri hluti þeirra afurða sem falla undir frumvarpið verði matvæli sem þegar er eftirlit með. Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun hafi eftirlit með frumframleiðslu afurða en heilbrigðisnefndir sinni öðru eftirliti með afurðum, m.a. við markaðssetningu og smásölu. Eftirliti er þannig skipt á milli Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga með sambærilegum hætti og er gert skv. 6. gr., sbr. 20. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995.
    Niðurstaða ráðuneytisins er sú að verði frumvarpið að lögum muni áhrif þess á heildarútgjöld sveitarfélaga verða óveruleg. Verði frumvarpið að lögum telur ráðuneytið að eftirlitið komi til með að samræmast öðru eftirliti sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sinna nú þegar og muni hafa óveruleg áhrif. Þá er gert ráð fyrir að skráð afurðarheiti verði 10–15 talsins fyrstu 5–10 árin og því muni eftirlit með notkun skráðra afurðarheita auka óverulega vinnu við eftirlit heilbrigðisnefnda. Þessi niðurstaða hefur verið borin undir Samband íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við hana en bendir hins vegar á að mögulega sé ekki þörf á aðkomu heilbrigðisnefnda að eftirliti á grundvelli frumvarpsins.


Fylgiskjal II.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna,
landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

    Markmið þessa frumvarps er að vernda afurðaheiti sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Um er að ræða nýja heildarlöggjöf hér á landi en vernd af þessum toga þekkist víða erlendis. Frumvarpið er byggt á reglugerð (ESB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1151/2012 frá 21. nóvember 2012 um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli, ásamt sambærilegri löggjöf í Noregi og Danmörku. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði upp gæðakerfi fyrir afurðir með því að veita afurðarheitum, sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, vernd gegn því að aðrir aðilar geti notað heitið í markaðssetningu.     Frumvarpið gerir ráð fyrir að annars vegar framleiðendur og hins vegar einstaklingar, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum, geti sótt um skráningu á afurðarheiti hjá Matvælastofnun sem sjái um umsýslu þessara umsókna. Lagt er til að umsækjendur greiði 75 þús. kr. skráningargjald fyrir hverja umsókn en auk þess 50 þús. kr. gjald ef sótt er um breytingu á afurðalýsingu. Gert er ráð fyrir að tekjur af gjaldtökunni renni til Matvælastofnunar til að standa að hluta til undir þeim kostnaði sem hlýst af meðferð umsókna. Samkvæmt áætlun stofnunarinnar er reiknað með að fyrstu 5–10 árin muni berast um tvær umsóknir á ári. Gengi það eftir yrðu árlegar tekjur af gjaldtökunni um 150 þús. kr. Stofnunin gerir hins vegar ráð fyrir að kostnaður hennar við umsýslu umsókna verði talsvert hærri en tekjurnar, eða um 3,3 m.kr. á fyrsta árinu, en þar af væri 1,9 m.kr. einskiptiskostnaður til að byggja upp þekkingu á málaflokknum og útbúa verkferla og leiðbeiningar. Eftir það er áætlað að kostnaður stofnunarinnar við umsýsluna verði um 1,4–1,7 m.kr. á ári.
    Þá er auk þess gert ráð fyrir því í frumvarpinu að Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafi eftirlit með notkun skráðra afurðarheita í samræmi við annað eftirlit þessara aðila með matvælum samkvæmt 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Gert er ráð fyrir að sá aðili sem fær heimild til að nota skráð afurðarheiti greiði eftirlitsgjald samkvæmt gjaldskrá sem verði ekki hærra en raunkostnaður við eftirlitið hjá annars vegar Matvælastofnun og hins vegar heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Í eftirlitinu felst m.a. greining á því hvort framleiðandi sem notar skráð afurðarheiti uppfylli skilyrði laganna og að afurð sé framleidd eða hennar aflað í samræmi við afurðarlýsingu. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er gert ráð fyrir að meiri hluti afurða sem falla undir frumvarpið verði matvæli og því muni eftirlit með notkun skráðra heita afurða samræmast öðru eftirliti sem Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga framkvæma nú hjá framleiðendum. Er því gert ráð fyrir að kostnaður Matvælastofnunar vegna eftirlitsins verði óverulegur.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að kostnaður Matvælastofnunar við að framfylgja þjónustu og eftirliti vegna verndunar á afurðarheitum framleiðenda verði einungis að litlu leyti fjármagnaður með lögbundinni gjaldtöku í mynd skráningar- og eftirlitsgjalda. Að öðru leyti verði kostnaður við umsýslu stofnunarinnar fjármagnaður með beinum framlögum úr ríkissjóði. Áætla má að sá viðbótarkostnaður geti numið um 1,2–1,5 m.kr. á ári auk 1,9 m.kr. einskiptiskostnaðar. Gera má ráð fyrir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi fjárhagslegt svigrúm eða ætti að geta forgangsraðað fyrir slíkum minni háttar kostnaðarbreytingum innan síns útgjaldaramma. Verði frumvarpið lögfest ætti það því ekki að þurfa að leiða til aukinna fjárveitinga úr ríkissjóði umfram það sem þegar hefur verið ákveðið í gildandi fjárlögum.