Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 539  —  300. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni
um fjölda opinberra starfa.


     1.      Hafa fjárlög fyrir árið 2014 haft áhrif á fjölda starfa sem undir ráðherra heyra í ráðuneytinu eða stofnunum þess? Ef svo er, hverjar eru breytingarnar og um hve mörg störf er að ræða?

Velferðarráðuneyti, aðalskrifstofa.
    Samkvæmt forsetaúrskurði heyrir starfsmannahald velferðarráðuneytisins undir heilbrigðisráðherra. Í svari hans kemur eftirfarandi fram: „Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að stöðugildum hjá ráðuneytinu fækkar um samtals 6,9 á árinu 2014. Um er að ræða 3,4 stöðugildi kvenna og 3,5 stöðugildi karla.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá nefndinni.

Tryggingastofnun ríkisins.
    Í fjárlögum ársins 2014 var engin almennur niðurskurður hjá Tryggingastofnun en vegna niðurskurðar undangenginna ára hefur orðið að gera breytingar í starfsmannahaldi stofnunarinnar. 1. október sl. voru lagðar niður sjö stöður en þremur af þeim starfsmönnum voru boðin önnur störf hjá stofnuninni. Alls voru það því fjórir starfsmenn sem hættu, tvær konur og tveir karlmenn.

Fjölmenningarsetur.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá stofnuninni.

Vinnueftirlit ríkisins.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að fækka hefur þurft um eitt stöðugildi hjá stofnuninni.

Ríkissáttasemjari.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá ríkissáttasemjara.

Jafnréttisstofa.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá Jafnréttisstofu.

Umboðsmaður skuldara.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að starfsmönnum umboðsmanns skuldara fækkar um sem nemur 14,5 stöðugildum á árinu 2014. Um er að ræða 8 stöðugildi sem konur hafa gegnt og 6,5 sem karlar gegndu.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að starfsmönnum hjá stofnuninni fækkar um 1 á árinu 2014 en það gerðist með starfsmannaveltu.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá stofnuninni.

Barnaverndarstofa.
    Á fjárlögum ársins 2014 var veitt fé til að stofna tvö störf sérfræðinga hjá Barnahúsi. Á móti kemur að fækkað var um eitt starf á skrifstofu Barnaverndarstofu vegna hagræðingar. Í svari Barnaverndarstofu komu ekki fram upplýsingar um kyn þessara starfsmanna.

Vinnumálastofnun.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að starfsmönnum hjá stofnuninni fækkar um samtals 21 á árinu 2014. Í Reykjavík fækkar um 7 starfsmenn, en um er að ræða 5 konur og 2 karla. Á landsbyggðinni fækkar um 14 starfsmenn, en um er að ræða 13 konur og 1 karl.     Á árinu 2013 fækkaði starfsmönnum enn þá meira eða samtals um 31 starfsmann. Af þessum starfsmönnum störfuðu 20 í Reykjavík, 16 konur og 4 karlar, og 11 á landsbyggðinni, 8 konur og 3 karlar.

Íbúðalánasjóður.
    Íbúðalánasjóður er lánastofnun í C-hluta fjárlaga. Í upphafi árs var farið í hagræðingaraðgerðir og fækkað um 10 stöðugildi. Í svari sjóðsins komu ekki fram upplýsingar um kyn þeirra starfsmanna sem misstu störf sín.

     2.      Hvaða áhrif er áætlað að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015, verði það samþykkt óbreytt, hafi á fjölda starfa sem undir ráðherra heyra í ráðuneytinu eða stofnunum þess? Hverjar eru áætlaðar breytingar og um hve mörg störf er að ræða?
    Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum, landshlutum og kyni starfsmanna sem breytingarnar snerta.


Velferðarráðuneyti, aðalskrifstofa.
    Samkvæmt forsetaúrskurði heyrir starfsmannahald velferðarráðuneytisins undir heilbrigðisráðherra. Í svari hans kemur eftirfarandi fram: „Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er gert ráð fyrir að fækka þurfi starfsmönnum um sem nemur 1,5 stöðugildum.“

Úrskurðarnefnd almannatrygginga.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá nefndinni.

Tryggingastofnun ríkisins.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015, verður samþykkt óbreytt, er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni þar sem ekki er gert ráð fyrir niðurskurði hjá henni samkvæmt frumvarpinu. Vegna beytinga á verkaskiptingu á milli Tryggingastofnunar ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands má gera ráð fyrir einhverjum breytingum á starfsmannafjölda.

Fjölmenningarsetur.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni.

Vinnueftirlit ríkisins.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt má búast við að það fækki um eitt starf hjá stofnuninni.

Ríkissáttasemjari.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá ríkissáttasemjara.

Jafnréttisstofa.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt þýðir það 1–2 stöðugildi til viðbótar hjá stofunni. Staðsetning starfanna hefur ekki verið ákveðin en það er forgangsmál að ráða fleiri karla til starfa uppfylli þeir settar kröfur. Nú starfar aðeins einn karlmaður hjá Jafnréttisstofu en starfsmenn eru alls átta.

Umboðsmaður skuldara.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt má búast við að störfum fækki um 24 frá yfirstandandi ári. Um er að ræða 17,6 stöðugildi sem konur gegna og 6,4 sem karlar gegna.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er líklegt að fækka þurfi um ½–1 ársverk.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni.

Barnaverndarstofa.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt má búast við að störfum geti fækkað um 2–3 stöðugildi frá yfirstandandi ári.

Vinnumálastofnun.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt má búast við að störfum fækki um 15 hjá stofnuninni og eru flest störfin á landsbyggðinni.

Íbúðalánasjóður.
    Nú er unnið að endurskoðun á framtíðarskipan húsnæðismála og erfitt að segja fyrir um áhrifin á stöðu Íbúðalánasjóðs.