Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 578  —  402. mál.



Frumvarp til laga

um slysatryggingar almannatrygginga.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




I. KAFLI
Markmið, gildissvið og stjórnsýsla.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja slysatryggðum bætur frá almannatryggingum vegna vinnuslysa eða annarra tiltekinna slysa óháð tekjum hins slysatryggða, sbr. einnig lög um almannatryggingar, lög um sjúkratryggingar og önnur lög eftir því sem við á.
    Bæturnar eru ýmist greiddar í peningum eða veittar í formi aðstoðar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.
Gildissvið.

    Í lögum þessum er mælt fyrir um slysatryggingar almannatrygginga, hverjir eru tryggðir og bætur slysatrygginga.

3. gr.
Framkvæmd slysatrygginga.

    Sjúkratryggingastofnunin, sbr. lög um sjúkratryggingar, annast framkvæmd slysatrygginga almannatrygginga samkvæmt lögum þessum. Þó skal Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslur mánaðarlegra bóta slysatrygginga skv. 11. og 12. gr. nema ráðherra ákveði annað.

4. gr.
Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn slysatrygginga almannatrygginga samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Slysatryggingar.
5. gr.
Almenn ákvæði.

    Slysatryggingar almannatrygginga taka til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr. Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.
    Maður telst vera við vinnu:
     a.      Þegar hann er á vinnustað á þeim tíma þegar honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.
     b.      Í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem eru farnar samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.
    Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna. Tryggingin tekur þó til allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar. Enn fremur tekur tryggingin til allra slysa á friðargæsluliðum íslenska ríkisins sem verða þegar þeir eru staddir erlendis við friðargæslustörf.
    Trygging samkvæmt þessari grein gildir þó ekki ef bótaskylda er fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda.
    Til slysa teljast sjúkdómar sem stafa af skaðlegum áhrifum efna, geislaorku eða öðru hliðstæðu sem ríkjandi eru í hæsta lagi fáeina daga og rekja verður til vinnunnar.
    Ákveða skal með reglugerð að tilteknir atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir.

6. gr.
Tilkynning.

    Þegar að höndum ber slys, sem ætla má bótaskylt samkvæmt þessum lögum, skal atvinnurekandi eða hinn tryggði, ef ekki er um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið í því formi sem sjúkratryggingastofnunin skipar fyrir um til lögreglustjóra eða umboðsmanns hans (í Reykjavík til sjúkratryggingastofnunarinnar). Lögreglustjóri sendir tilkynninguna til sjúkratryggingastofnunarinnar ásamt nauðsynlegum upplýsingum. Hinum slasaða eða öðrum þeim sem vilja gera kröfu til bóta vegna slyssins ber að fylgjast með því að tilkynningarskyldunni sé fullnægt og geta þessir aðilar leitað aðstoðar lögreglustjóra ef atvinnurekandi vanrækir tilkynninguna. Ef atvik að slysinu eru óljós eða mál ekki nægilega upplýst eða ástæða er til að ætla að slysið hafi orðið af hirðuleysi eða lélegum útbúnaði, svo og ef sjúkratryggingastofnunin eða annar hvor aðila, atvinnurekandi eða hinn slasaði eða fyrirsvarsmaður hans óskar þess, skal lögreglustjóri rannsaka málið.
    Ef sá sem átti að tilkynna slys hefur vanrækt það skal það ekki vera því til fyrirstöðu að hinn slasaði eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta ef það er gert áður en ár er liðið frá því að slysið bar að höndum. Heimilt er þó að greiða bætur þótt ár sé liðið frá því að slys bar að höndum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði sem máli skipta. Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

7. gr.
Slysatryggðir.

    Slysatryggðir samkvæmt lögum þessum eru:
     a.      Launþegar sem starfa hér á landi að undanskildum erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í íslensku skipi eða íslensku loftfari, eða skipi eða loftfari sem er gert út eða rekið af íslenskum aðilum, jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið, enda séu laun greidd hér á landi.
     b.      Nemendur í iðnnámi í löggiltum iðngreinum og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum og háskólanemar þegar þeir sinna verklegu námi.
     c.      Útgerðarmenn sem sjálfir eru skipverjar.
     d.      Þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum.
     e.      Íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og er orðið 16 ára. Með reglugerðarákvæði má ákveða nánar gildissvið þessa ákvæðis.
     f.      Atvinnurekendur í landbúnaði sem vinna landbúnaðarstörf, makar þeirra og börn á aldrinum 13–17 ára.
     g.      Atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri í öðrum atvinnugreinum en um getur í f-lið.
    Heimilt er að veita undanþágu frá slysatryggingu skv. a-lið 1. mgr. ef hlutaðeigandi er sannanlega tryggður samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf.
    Launþegi telst hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi í því sambandi, hvort sem um er að ræða tímakaup, föst laun, aflahlut eða greiðslu fyrir ákvæðisvinnu.
    Maki atvinnurekanda og börn hans á aldrinum 13–17 ára, sbr. g-lið 1. mgr., teljast ekki launþegar samkvæmt þessari grein nema þau starfi við atvinnureksturinn og þiggi laun fyrir.

8. gr.
Trygging við heimilisstörf.

    Þeir sem stunda heimilisstörf geta tryggt sér rétt til slysabóta við þau störf með því að skrá ósk þar að lútandi í skattframtal í byrjun hvers árs.
    Ráðherra er með reglugerð heimilt að skilgreina nánar tryggingartímabil og hvað teljist til heimilisstarfa.

9. gr.
Bætur slysatrygginga almannatrygginga.

    Bætur slysatrygginga almannatrygginga eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur.

10. gr.
Sjúkrahjálp.

    Nú veldur bótaskylt slys sjúkleika og vinnutjóni í minnst 10 daga og skal þá greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða og tjóns á gervilimum eða hjálpartækjum svo sem hér segir:
     1.      Að fullu skal greiða:
                  a.      Læknishjálp sem samið hefur verið um samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.
                  b.      Sjúkrahúsvist, svo lengi sem afleiðingar slyssins gera hana nauðsynlega, sé hinn slasaði ekki sjúkratryggður samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.
                  c.      Lyf og umbúðir.
                  d.      Viðgerð vegna brots eða löskunar á heilbrigðum tönnum eða vel viðgerðum. Greiðslu fyrir sams konar viðgerðir á lélegri tönnum má takmarka við kostnað sem ætla má að orðið hefði ef þær hefðu verið heilbrigðar.
                  e.      Gervilimi eða svipuð hjálpartæki, svo og viðgerð á þeim eða endurnýjun ef viðgerð telst ekki fullnægjandi. Sama gildir um gervitennur.
                  f.      Sjúkraflutning með sjúkraflugvél eða sjúkrabíl fyrst eftir slys eða þegar ella verður nauðsynlegt að senda sjúkling með slíkum farartækjum til meðferðar hjá lækni eða á sjúkrahúsi, þó ekki fyrir einstakar ferðir þegar um stundun er að ræða. Sama gildir um flutning með skipi þegar öðrum farartækjum verður ekki við komið.
                  g.      Sjúkraþjálfun og orkulækningar.
     2.      Greiða skal:
                  a.      Að hálfu ferðakostnað til læknis með leigubíl, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbíl eða strætisvagni. Ekki skal þó greitt fyrir flutning með bifreið manns af sama heimili eða sama bæ né bifreið í eigu venslamanna hins slasaða.
                  b.      3/ 4 kostnað við sams konar ferðir með áætlunarbíl eða -skipi, enda sé um meira en 15 km vegalengd að ræða. Geti sjúklingur ekki ferðast með áætlunarbíl skal greiða ferð með áætlunarflugvél að 3/ 4.
     3.      Heimilt er að greiða:
                  a.      Hjúkrun í heimahúsum, veitta af vandalausum.
                  b.      Styrk upp í kostnað vegna löskunar á tönnum þegar framkvæmdar hafa verið kostnaðarsamar aðgerðir á þeim sem ónýst hafa við slysið.
                  c.      Ferðakostnað með áætlunarbíl eða strætisvagni að 3/ 4 hlutum eða samkvæmt kílómetragjaldi ef áætlunarferðir eða strætisvagnaferðir eru ekki fyrir hendi þegar sjúklingur þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni á sjúkrahúsi eða sjúkrastofnun, svo sem í endurhæfingu eða sjúkraþjálfun, með eða án innlagnar, þótt vegalengd sé skemmri en 15 km, enda séu ferðir fleiri en 30 á sex mánaða tímabili.
    Að svo miklu leyti sem samningar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar ná ekki til sjúkrahjálpar skv. 1. mgr. getur ráðherra ákveðið endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti með reglugerð.
    Nú veldur slys ekki óvinnufærni í 10 daga en hefur þó í för með sér kostnað sem um ræðir í þessari grein og má þá greiða hann að svo miklu leyti sem hann fæst ekki greiddur hjá sjúkratryggingum.
    Kostnaður vegna sjúkrahjálpar sem fellur til þegar liðin eru fimm ár eða meira frá slysdegi greiðist ekki. Þó er heimilt, ef alveg sérstaklega stendur á, að greiða kostnað sem fellur til í allt að tíu ár frá slysdegi enda séu skýr læknisfræðileg orsakatengsl milli slyssins og kostnaðarins.
    Einungis skal greiða nauðsynlegan kostnað skv. 1. mgr. sem fellur til hér á landi nema annað leiði af milliríkjasamningum. Þó skal greiða óhjákvæmilega sjúkrahjálp sem fellur til erlendis ef slasaði er tryggður samkvæmt ákvæðum 2. málsl. b-liðar 2. mgr. 5. gr. eða samkvæmt ákvæðum laga um sjúkratryggingar.

11. gr.
Dagpeningar.

    Dagpeningar greiðast frá og með 8. degi eftir að slys varð, enda hafi hinn slasaði verið óvinnufær í minnst 10 daga. Dagpeningar greiðast þangað til hinn slasaði verður vinnufær, úrskurður er felldur um varanlega örorku hans eða hann deyr, þó ekki lengur en 52 vikur.
    Sjúkratryggingastofnuninni er heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur, einkum ef ekki er lokið lækningatilraunum og óvíst er hvort um varanlega örorku verður að ræða og líkur eru til að afstýra megi eða draga úr örorku með lengri bótagreiðslu.
    Dagpeningar eru 1.677 kr. á dag fyrir hvern einstakling og 376 kr. fyrir hvert barn á framfæri, þar með talin börn utan heimilis sem hinn slasaði sannanlega greiðir með samkvæmt úrskurði stjórnvalds, staðfestu samkomulagi eða skilnaðarleyfisbréfi.
    Greiðslur samkvæmt þessari grein mega ekki fara fram úr 3/ 4 af tekjum bótaþega við þá atvinnu sem hann stundaði þegar slysið varð.
    Nú greiðir vinnuveitandi hinum slasaða laun í slysaforföllum og renna þá dagpeningagreiðslur samkvæmt þessari grein til vinnuveitandans þann tíma, þó aldrei hærri greiðsla en sem nemur 3/ 4 hlutum launanna.

12. gr.
Örorkubætur.

    Ef slys veldur varanlegri örorku skal greiða hinum slasaða mánaðarlegan slysaörorkulífeyri eftir reglum 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eða örorkubætur í einu lagi með þeirri undantekningu að réttur til örorkulífeyris reiknast frá 16 ára aldri.
    Ef örorkan er 50% eða meiri greiðist hálfur örorkulífeyrir fyrir 50% örorku og hækkar síðan um 2% fyrir hvert örorkustig sem við bætist uns örorkan nemur 75%, þá greiðist fullur lífeyrir. Tekjur slasaða skulu ekki lækka örorkulífeyri.
    Nú er örorkan metin meiri en 50% og skal þá auk örorkulífeyris greiða lífeyri vegna maka og barna yngri en 18 ára, sem voru á framfæri bótaþega þegar slys bar að höndum, eftir reglum b- og c-liðar 1. mgr. 13. gr. Ef örorkan er 75% eða meiri skal greiða fullar bætur og gildir það bæði vegna barna sem voru á framfæri bótaþega þegar slys átti sér stað, svo og þeirra sem hann framfærir síðar. Sé orkutapið minna en 75% lækka bæturnar um 4% fyrir hvert 1% sem vantar á 75% örorku.
    Ef orkutap er minna en 50% er sjúkratryggingastofnuninni heimilt að greiða í einu lagi örorkubætur sem jafngilda lífeyri hlutaðeigandi um tiltekið árabil samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Ella greiðist lífeyrir í hlutfalli við örorkuna.
    Örorkubætur greiðast ekki ef orkutap er metið minna en 10%.

13. gr.
Dánarbætur.

    Ef slys veldur dauða innan tveggja ára frá því að það bar að höndum skal greiða dánarbætur sem hér segir:
     a.      Ekkja eða ekkill, sem var samvistum við hinn látna eða á framfæri hans, hlýtur bætur, 38.938 kr. á mánuði í 8 ár frá dánardægri hins látna. Bætur samkvæmt þessum staflið falla ekki niður þótt ekkja eða ekkill stofni til hjúskapar að nýju. Nú andast ekkja eða ekkill sem hefur notið bóta samkvæmt ákvæðum þessarar greinar áður en bætur hafa verið greiddar að fullu og skulu eftirstöðvar bótanna greiddar að jöfnu börnum hinna látnu eftir sömu reglum til loka tímabilsins ef á lífi eru, ella til dánarbús hans.
     b.      Barnalífeyri, 312.972 kr. á ári fyrir hvert barn, sbr. að öðru leyti lög um almannatryggingar.
     c.      Barn eldra en 16 ára, sem var á framfæri hins látna vegna örorku þegar slysið bar að höndum, fær bætur sem séu ekki lægri en 485.999 kr. og allt að 1.458.525 kr., eftir því að hve miklu leyti það naut stuðnings hins látna við fráfall hans. Þó greiðast ekki bætur ef örorka er minni en 33%.
    Bætur skv. a- og c-lið 1. mgr. skulu ekki vera lægri en 680.690 kr. fyrir hvert slys. Nú lætur hinn látni ekki eftir sig aðstandendur sem eiga rétt til bóta samkvæmt þessum stafliðum og skal þá bæta slysið með 680.690 kr. sem skiptist að jöfnu milli barna hins látna ef á lífi eru, en ella til dánarbús hans.
    Um fósturbörn og fósturforeldra gildir sama og um börn og foreldra. Frá dánarbótum sem greiddar eru vandamönnum ber að draga þær örorkubætur sem greiddar hafa verið í einu lagi skv. 4. mgr. 12. gr. vegna sama slyss.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.
Tekjur.

    Útgjöld slysatrygginga skulu borin af tekjum ríkissjóðs af tryggingagjaldi og iðgjöldum skv. 3. mgr. Þá skal árlega ákveða í fjárlögum framlag sem standa skal undir kostnaði af bótum vegna þeirra sem um getur í e-lið 1. mgr. 7. gr.
    Sjúkratryggingastofnunin skal ár hvert gera áætlun um bótagreiðslur og rekstrarkostnað slysatrygginga næsta almanaksár.
    Iðgjöld útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna skulu vera 0,65% af samanlögðum launum og aflahlut sjómanna sem starfa hjá þeim hverju sinni. Iðgjöld þessi skulu ásamt dagpeningum skv. 6. mgr. 19. gr. standa undir greiðslu launa og/eða aflahlutar skv. 2. mgr. 19. gr. og rekstrarkostnaði slysatrygginga vegna framkvæmdar sjúkratryggingastofnunarinnar við tryggingu þessa. Iðgjöld þeirra sem stunda heimilisstörf skv. 8. gr. skulu ákveðin þannig að þau standi undir kostnaði við trygginguna og rekstrarkostnaði sjúkratryggingastofnunarinnar vegna framkvæmdarinnar.

15. gr.
Iðgjöld.

    Iðgjöld skv. 14. gr. skal ríkisskattstjóri leggja á með tekjuskatti og færa þau á skattskrá, sbr. 98. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og skulu ákvæði 99. gr. þeirra laga og ákvæði laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, gilda um iðgjöld eftir því sem við á.
    Ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, skulu eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu iðgjalds útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna. Að tekjuári liðnu skal fara fram endanleg ákvörðun iðgjaldsins í samræmi við launaframtal og skal iðgjaldið sérgreint í álagningarskrá og skattskrá. Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir gjaldskylda aðila og skal eftir atvikum leita staðfestingar á iðgjaldi útgerðaraðila þegar greiðsluskylda sjúkratryggingastofnunarinnar er ákvörðuð.
    Gjalddagar iðgjalda skulu ákveðnir í reglugerð.

16. gr.
Innheimta.

    Iðgjöld til slysatrygginga skulu innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarsjóða eða sérstökum innheimtustofnunum. Ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar á meðal um dráttarvexti og fjárnámsrétt, gilda um innheimtu iðgjalda.

17. gr.
Iðgjöld útgerðarmanna.

    Iðgjöld útgerðarmanna fiskiskipa vegna slysatrygginga sjómanna skv. 14. gr. skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipum og ganga fyrir öllum öðrum veðum en lögveðum fyrir gjöldum ríkissjóðs.

18. gr.
Frjálsar slysatryggingar.

    Heimilt er sjúkratryggingastofnuninni að taka að sér frjálsar slysatryggingar. Skal þá jafnan gefa út vátryggingarskírteini. Enn fremur getur stofnunin með samþykki ráðherra tekið að sér ábyrgðartryggingar.
    Ráðherra ákveður með reglugerð nánari tilhögun á tryggingum samkvæmt þessari grein, þar á meðal að hve miklu leyti skuli endurtryggja þá áhættu sem sjúkratryggingastofnunin tekur á sig.

19. gr.
Viðbótartrygging útgerðarmanna fiskiskipa.

    Útgerðarmenn fiskiskipa skulu tryggja áhættu vegna bótaskyldra slysa samkvæmt lögum þessum og 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga hjá sjúkratryggingastofnuninni.
    Sjúkratryggingastofnunin greiðir útgerðarmönnum fjárhæð sem svarar til fullra launa og/eða aflahlutar sjómanna í allt að tvo mánuði.
    Útgerðarmenn skulu greiða iðgjald skv. 14. gr.
    Útgerðarmenn sem þess óska geta sagt upp tryggingu, sbr. 1. mgr., fyrir 1. nóvember ár hvert vegna næsta árs á eftir. Tilkynning um uppsögn skal berast sjúkratryggingastofnuninni. Eftir að uppsögn hefur öðlast gildi eiga útgerðarmenn ekki rétt á greiðslum vegna launa eða aflahlutar í forföllum vegna slysa en njóta slysatrygginga almennra launþega.
    Halda skal tryggingum samkvæmt þessari grein reikningslega aðskildum frá annarri starfsemi sjúkratryggingastofnunarinnar.
    Dagpeningar skv. 11. gr. skulu renna til sjúkratryggingastofnunarinnar þann tíma sem greiðslur launa og aflahlutar eiga sér stað.

20. gr.
Réttindi milli landa.

    Þegar milliríkjasamningar sem Ísland er aðili að kveða á um gagnkvæm réttindi til slysatrygginga almannatrygginga skulu þeir sem eiga að falla undir íslenska löggjöf samkvæmt ákvæðum samninganna öðlast réttindi samkvæmt lögum þessum.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um einstaklinga sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar en starfa erlendis fyrir aðila sem hefur aðsetur og starfsemi á Íslandi. Þetta gildir ekki um þá sem starfa í löndum þar sem milliríkjasamningar sem Ísland er aðili að gilda.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar, m.a. um heimild til að draga frá bótum samkvæmt lögum þessum bætur samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.

21. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerðum.

22. gr.
Innleiðing.

    Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í VI. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, með síðari breytingum, og nr. 987/2009 um framkvæmd hennar. Reglugerðir Evrópusambandsins, sem teknar verða upp í samninginn og fela í sér breytingar eða viðbætur við þær reglugerðir, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama á við um almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

23. gr.
Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.
    Ákvæði laga um sjúkratryggingar gilda um slysatryggingar eftir því sem við á, m.a. um málsmeðferð, ákvarðanir og greiðslur bóta, þagnarskyldu, meðferð persónuupplýsinga, stjórnsýslukærur og hækkun bóta.
    Um greiðslur til viðbótar örorkulífeyri skv. 12. gr. fer samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

24. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ í 4. mgr. 79. gr. laganna kemur: Sjúkratryggingastofnunin.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Endurskoða skal lög þessi innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Framlagning þessa frumvarps er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem staðið hefur yfir um nokkurra ára skeið og var frumvarpið unnið í velferðarráðuneytinu samhliða frumvarpi til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Í frumvarpi þessu eru gildandi ákvæði almannatryggingalaga um slysatryggingar færð í sérlög án þess að gerðar séu efnisbreytingar á þeim. Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við sjúkratryggingastofnunina og verður höfð hliðsjón af ábendingum hennar við þá endurskoðun laganna sem lögð er til í bráðabirgðaákvæði.
    Með framlagningu frumvarpanna beggja er lagt til að slysatryggingakafli laganna verði færður í sérlög með heitinu „lög um slysatryggingar almannatrygginga“. Markmiðið er að nýju lögin standi sjálfstætt við hlið laga um sjúkratryggingar og laga um almannatryggingar og myndi þannig heildstæða lagaumgjörð um meginþætti almannatrygginga, þ.e. lífeyristryggingar, sjúkratryggingar og slysatryggingar. Árið 2008 voru sett sérstök lög um sjúkratryggingar og sá kafli almannatryggingalaga sem fjallaði um sjúkratryggingar jafnframt felldur brott. Áður höfðu m.a. ákvæði um atvinnuleysistryggingar og fæðingardagpeninga verið felld úr lögunum og sérstök lög sett um þá málaflokka. Þess skal getið að einnig eru í gildi ýmis sérlög á sviði félagslegs öryggis, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.
    Gildandi ákvæði um slysatryggingar eru í mörgum tilvikum áratuga gömul og má ljóst vera að þau þarfnast endurskoðunar. Ætla má að sú að efnislega endurskoðun sem lögð er til í ákvæði til bráðabirgða verði einfaldari þegar búið verður að koma þeim ákvæðum almannatryggingalaga sem fjalla um slysatryggingar fyrir í sérlögum. Verði frumvarp þetta að lögum ásamt framangreindu frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar mun það stuðla að því að gera uppbyggingu og framsetningu ákvæða um slysatryggingar aðgengilegri en nú er. Almannatryggingalögin þykja flókin eftir margvíslegar breytingar sem gerðar hafa verið á þeim á undanförnum árum og munu sérlög um slysatryggingar almannatrygginga stuðla að meiri skýrleika og auðvelda borgurunum að nálgast upplýsingar um réttindi sín vegna þeirra slysa sem lögin taka til.
    Lagt er til að bætur og bótafjárhæðir verði þær sömu og áður og skilyrði til öflunar bótanna verði óbreytt, en fjárhæðir bóta hafa verið uppfærðar í frumvarpinu í samræmi við gildandi reglugerð nr. 1220/2013 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2014.
    Þau nýmæli sem felast í frumvarpinu er að finna í markmiðsákvæði 1. gr., í 3. gr. um framkvæmd slysatrygginga og í 4. gr. um yfirstjórn. Þá er í 21. gr. kveðið á um reglugerðarheimild ráðherra og í 22. gr. er kveðið á um heimild hans til að birta reglugerðir Evrópusambandsins vegna EES-samningsins og almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Í 23. gr. er lagt til að kveðið verði á um að lög um sjúkratryggingar gildi um slysatryggingar eftir því sem við á, t.d. um málsmeðferð, ákvarðanir og greiðslur bóta, þagnarskyldu, meðferð persónuupplýsinga, stjórnsýslukærur og hækkun bóta og enn fremur að um greiðslur til viðbótar örorkulífeyri skv. 12. gr. fari samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.
    Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að frumvarpið hafi sérstakar afleiðingar fyrir almannahagsmuni eða helstu hagsmunaaðila. Þá verður ekki séð að frumvarpið hafi áhrif á stöðu kynjanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í gildandi lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, er ekki að finna ákvæði um markmið slysatrygginga almannatrygginga og er 1. gr. frumvarpsins ætlað að bæta úr því. Í ákvæðinu segir að markmið laganna sé að tryggja slysatryggðum bætur vegna vinnuslysa og annarra tiltekinna slysa óháð tekjum hins slysatryggða. Bæturnar geta ýmist verið greiddar í peningum (dagpeningar, örorkubætur, dánarbætur) eða veittar í formi aðstoðar til verndar heilbrigði (kostnaður vegna sjúkrahjálpar). Ákvæðið felur í sér lýsingu á grundvallarréttindum slysatryggðra sem líta ber til við framkvæmd laganna og hafa til hliðsjónar við skýringu einstakra ákvæða. Enn fremur er vísað til laga um almannatryggingar, laga um sjúkratryggingar og annarra laga eftir því sem við á.

Um 2. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, þar sem fram kemur að sjúkratryggingastofnunin annist framkvæmd slysatrygginga almannatrygginga. Fyrir tilkomu sjúkratryggingastofnunarinnar voru slysatryggingar almannatrygginga reknar með sjúkratryggingum Tryggingastofnunar ríkisins. Meginþungi framkvæmdar slysatrygginga almannatrygginga liggur nær sjúkratryggingum en lífeyristryggingum og samnýtast þar fjölmargir vinnsluþættir sjúkratryggingastofnunar. Í þeim fáu tilvikum er kemur til greiðslna mánaðarlegra bóta slysatrygginga hefur Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslurnar í gegnum greiðslukerfi lífeyristrygginga. Um er að ræða mánaðarlegar bótagreiðslur til u.þ.b. 200 einstaklinga að jafnaði. Hefur fyrirkomulagið verið þannig frá stofnun sjúkratryggingastofnunar og er lagt til að það verði óbreytt, nema ráðherra ákveði annað.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 27. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 6. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 28. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Um 7. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 29. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Um 8. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 30. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Um 9. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 31. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Um 10. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 32. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 11. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 33. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 12. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 34. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 13. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 35. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 14. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 36. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 15. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 59. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 16. gr.


    Ákvæðið er samhljóða 60. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Um 17. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 61. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 18. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 66. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 19. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 67. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/ 2007.

Um 20. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 53. gr. gildandi laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Um 21. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. málsl. 70. gr. gildandi laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, en gerðar eru nokkrar orðalagsbreytingar á ákvæðinu. Lagt er til að 1. málsl. verði breytt þannig að í stað orðalagsins „birta sem reglugerðir“ komi orðin „innleiða með reglugerð“ og er það í samræmi við framkvæmdina. Þá er gert ráð fyrir að við 1. málsl. verði bætt tilvísun í gildandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og númer grunnreglugerða Evrópuþingsins og ráðsins sem um ræðir sem þykir skýrara og gagnsærra. 3. málsl. er nýmæli þar sem gert er ráð fyrir að sama eigi við um almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Um 23. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2015, samhliða gildistöku breyttra laga um almannatryggingar.
    Lagt er til að kveðið verði á um að lög um sjúkratryggingar gildi um slysatryggingar eftir því sem við á. Á það einkum við um almenn ákvæði um málsmeðferð, ákvarðanir um bætur og greiðslur bóta, þagnarskyldu og meðferð persónuupplýsinga, stjórnsýslukærur og hækkun bóta. Enn fremur er lagt til að um greiðslur til viðbótar örorkulífeyri skv. 12. gr. frumvarpsins fari samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Er hér um að ræða aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 21. og 22. gr. laga um almannatryggingar og heimilisuppbót og aðrar uppbætur skv. 8.–10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Um 24. gr.


    Ákvæðið kveður á um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum, og er eingöngu um að ræða breytingu sem stafar af flutningi slysatryggingakafla almannatryggingalaga í sérstök lög.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta er efnisleg endurskoðun á ákvæðum gildandi laga um slysatryggingar löngu tímabær. Hér er því lagt til að lögin verði endurskoðuð innan tveggja ára frá gildistöku þeirra, en ætla má að sú endurskoðun verði aðgengilegri þegar sett hafa verið sérlög um slysatryggingar almannatrygginga.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga.

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði slysatryggingakafla gildandi laga um almannatryggingar verði flutt í sérstök lög sem standi sjálfstætt við hlið laga um sjúkratryggingar og laga um almannatryggingar. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp um viðeigandi breytingar á lögum um almannatryggingar.
    Í meginatriðum felur frumvarpið ekki í sér neinar breytingar frá því fyrirkomulagi sem nú ríkir um slysatryggingar og verða bætur og bótafjárhæðir þær sömu og áður og skilyrði til öflunar bóta verða óbreytt. Þó eru lagðar til breytingar er varða markmið slysatrygginga, yfirstjórn þeirra og framkvæmd. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hluti útgjalda slysatrygginga verði fjármagnaður með mörkuðum tekjum líkt og núverandi lög kveða á um. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur það ekki vera heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þessum hætti sjálfkrafa til útgjalda tiltekinna verkefna. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum hverju sinni.
    Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.