Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 812  —  348. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um framlög til rannsókna í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar.


     1.      Hve há framlög veitti ríkissjóður árlega á árunum 2010–2013 til rannsókna í þágu sjávarútvegs annars vegar og landbúnaðar hins vegar, skipt eftir fjárlagaliðum?
    Í eftirfarandi töflum eru talin upp framlög til rannsókna og þróunar (grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna) eftir fjárlagaliðum sem falla undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þær stofnanir sem undir hann heyra. Hér er ótalinn kostn­aður við almennan rekstur stofnana, svo sem launakostn­aður, kostn­aður vegna húsnæðis, skrifstofubúnaðar o.s.frv., þar sem sumar stofnanir nánast ein­göngu sinna og/eða veita rannsóknum brautargengi en hjá öðrum stofnunum er það hluti af öðrum verkefnum. Hafa ber í huga að rannsóknir geta verið misfjárfrekar eftir eðli þeirra. Þar getur verið um að ræða kostnað við vél- og tækjabúnað til notkunar við rannsóknir, kostnað vegna staðsetningar rannsókna o.s.frv. Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar eru dæmi um þetta en þær krefjast oft mjög kostnaðarsams skipareksturs.

Rannsóknir í þágu sjávarútvegs í milljónum króna (verðlag hvers árs).

Ráðuneyti og stofnanir Fjárlagaliðir* 2010 2011 2012 2013
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Eldi sjávardýra 04-190-13400 16,7 15,5 17,9 15,3
Ýmis verkefni
(stuðningur við áhugahópa og faglegt starf)
04-190-19000 13,4 12,0 2,0 0,0
Ýmis samningsbundin verkefni 04-190-19400 0,0 0,0 59,4 61,7
Ýmis framlög 04-190-19800 64,0 41,4 0,5 1,0
Fiskræktarsjóður 04-843-10101 25,8 18,2 10,4 17,3
AVS (Rannsóknarsjóður til að auka
verðmæti sjávarfangs)
04-417-11000 293,8 253,8 209,8 235,9
Stofnanir
Hafrannsóknastofnun 04-401 2.063,0 2.334,5 2.681,8 2.348,2
Matís 04-413/411 235,0 216,4 235,5 226,7
Framlög úr ríkissjóði 2.711,7 2.891,8 3.217,3 2.906,1
*11 Iðnaðarráðuneytið/04 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
         

Rannsóknir í þágu landbúnaðar í milljónum króna (verðlag hvers árs).

Ráðuneyti og stofnanir Fjárlagaliðir* 2010 2011 2012 2013
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Ýmis verkefni
(stuðningur við áhugahópa og faglegt starf)
04-190-19000 5,1 8,7 3,3 0,0
Ýmis samningsbundin verkefni (framleiðsla lífrænna afurða, þyngd knapa o.fl.) 04-190-19400 0,0 0,0 9,5 6,2
Lífræn ræktun 04-190-12100 4,5 4,5 3,7 0,0
Ýmis framlög, lífrænn landbúnaður 04-190-19800 0,0 0,0 0,0 3,5
Matvæla­rannsóknir 04-411-10100 461,5 419,5 406,2 400,3
Rannsóknir háskóla í þágu landbúnaðar 04-481-10100 158,7 155,2 156,1 160,1
Bændur græða landið 04-483-11100 35,0 0,0 0,0 0,0
Rannsóknir í skógrækt í þágu landbúnaðar 04-483-11500 23,8 22,0 23,0 23,6
Kynbóta- og þróunarstarfsemi 04-801-10500 139,0 146,0 154,0 158,0
Nýliðunar- og átaksverkefni 04-805-11500 99,0 104,0 109,0 112,0
Rannsóknir, þróun
og endurmenntunarverkefni í ylrækt
04-807-10800 29,2 31,0 32,0 33,0
Stofnanir
Matís 04-413/411 52,3 39,1 30,4 25,0
Framlög úr ríkissjóði 1.008,1 930,0 927,2 921,7
*11 Iðnaðarráðuneytið/04 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.     

Rannsóknir í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar
í milljónum króna (verðlag hvers árs).

Fjárlagaliðir* 2010 2011 2012 2013
Matís, sjávarút­vegur og landbúnaður, sameiginl. 04-413/411 103,9 85,0 79,6 84,8

     2.      Hvert er áætlað að hafi verið árlegt framlag hvorrar atvinnugreinar fyrir sig til þjóðarframleiðslunnar sömu ár?
    Tölurnar eru sóttar af heimasíðu Hagstofu Íslands. Athygli er vakin á því að þær sýna bein framlög til hvorrar atvinnugreinar en taka ekki til óbeinna áhrifa í tengslum við aðrar atvinnugreinar.

Hlutfall af landsframleiðslu 2010 2011 2012 2013
Sjávarút­vegur (veiðar og vinnsla) 9,6% 10,4% 10,6% 10,2%
Landbúnaður 1,0% 1,1% 1,1% 1,2%

     3.      Hvað telur ráðherra eðlilegt að framlög ríkissjóðs til rannsókna vegna fyrrgreindra atvinnugreina séu há sem hlutfall af framlagi atvinnugreinanna til þjóðarframleiðslunnar eða telur ráðherra réttara að miða við eitthvað annað í þessu sambandi og ef svo er, þá hvað?
    Eðlilegra er að framlög ríkissjóðs til rannsókna í atvinnulífinu taki mið af raunverulegri þörf á hverjum tíma í stað þess að binda hlutfallið tilteknu hlutfalli af landsframleiðslu.

     4.      Hvað hafa verið veitt hlutfallslega há framlög til rannsókna í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar sl. tvö ár í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi?
    Ráðuneytið leitaði upplýsinga við þessum lið fyrirspurnarinnar hjá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), bresku hagstofunni (Office for National Statistics), norsku fiskveiða- og fiskeldisrannsóknasjóðnum FHF (Fiskeri- og havbruksnæringens forskningsfond) og Hafrannsóknastofnuninni í Noregi. Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá stofnununum eru framlög ríkis til rannsókna og þróunar í sjávarútvegi ekki aðgreind sérstaklega við gagnaöflun. Til að geta svarað þessum lið um sjávarútveginn þyrfti að fara í mun ítarlegri og tímafrekari greiningu í samvinnu við erlendar stofnanir. Taflan hér að aftan sýnir því ein­göngu framlög sem tilgreind lönd veittu til rannsókna og þróunar í þágu landbúnaðar, annars vegar sem hlutfall af landsframleiðslu og hins vegar sem hlutfall af heildarframlögum til rannsókna og þróunar.

Framlög til rannsókna og þróunar í þágu landbúnaðar í Danmörku,
Bretlandi, Noregi og Svíþjóð 2012 og 2013.

2012 2013
Hlutfall af landsframleiðslu Hlutfall af heildarframlögum Hlutfall af landsframleiðslu Hlutfall af heildarframlögum
Bretland 0,02% 4,2% 0,02% 4,2%
Danmörk 0,03% 2,7% 0,03% 3,0%
Noregur 0,06% 7,0% 0,06% 7,6%
Svíþjóð 0,01% 1,6% 0,01% 1,5%

     5.      Hvað telur ráðherra einkum að rannsaka þurfi í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar á næstu árum fyrir framlög úr ríkissjóði?
    Á Íslandi eru ákvarðanir um heildarafla byggðar á vísindalegri þekkingu og rannsóknum
Hafrannsóknastofnunar. Þetta er hornsteinn hinnar ábyrgu fiskveiðistefnu Íslands sem skilað hefur þeim árangri að gott ástand fiskstofna hér hefur vakið athygli víða. Óumdeilt er að frá 2007 hefur fjármagn til rannsókna Hafrannsóknastofnunar dregist saman. Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2015 er þetta staðfest en þar er lögð til aukning á framlagi til stofnunarinnar. Almennt skortir fjármagn til hafrannsókna og því, eins og sakir standa, mest um vert að styðja við bakið á þeim stóru vöktunarrannsóknum sem hafa verið í gangi um árabil. Þar má telja vorrall, vorleiðangra vegna uppsjávarfisks, makrílleiðangra, loðnu­rannsóknir, um­hverfis­rannsóknir og haustrall svo að eitthvað sé nefnt.
    Með innleiðingu matvælalöggjafar Evrópusambandsins þarf Ísland að framkvæma eftirlit og rannsóknir með aðskotaefnum í matvælum. Vöktun aðskotaefna, svo sem varnarefna (skordýraeiturs) og lyfjaleifa, er liður í að tryggja matvælaöryggi neytenda, en jafnframt er vöktunin nauðsynlegur liður í að tryggja útflutningshagsmuni, bæði hvað varðar sjávar- og landbúnaðarafurðir. Hagsmunaaðilar greiða fyrir stærstan hluta af aðskotaefnarannsóknum en Matvælastofnun annast lögbundna vöktun á matvælamarkaðinum vegna hættulegra örvera sem gætu borist í fólk. Matvælastofnun annast einnig vöktun á smitefnum sem gætu valdið dýrasjúkdómum, bæði þeim sem þekktir eru hér á landi, svo sem riðuveiki, en einnig þeim sem ekki hafa fundist hér en gætu valdið miklu tjóni ef þeir bærust til landsins og næðu að valda faröldrum í dýrum. Slíku mundi fylgja mikill kostn­aður fyrir ríkissjóð. Matvælastofnun annast einnig heilnæmis­rannsóknir á sjó á strandsvæðum þar sem skeldýr eru ræktuð.
    Það eru tækifæri til frekari fullvinnslu afurða og frekari verðmætasköpunar bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Sú þróun verður helst drifin áfram með öflugum rannsóknum og nýsköpun. Það er mikilvægt að stjórnvöld í sem mestu samstarfi við einkaaðila stuðli að fjármögnun þessara rannsókna þannig að fjölbreytt störf í nálægð við frumframleiðslu atvinnugreinanna verði til og sem mest verðmæti fáist út úr nýtingu auðlindanna.