Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 828  —  479. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um samstarf við Færeyjar og Grænland um leiðir
til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum.

Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að efna til samstarfs við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um leiðir til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunina má rekja til notkunar svartolíu. Því verði beint til landanna að þróa og koma í framkvæmd áætlunum fyrir skilvirka og um­hverfisvæna orkunotkun með því að krefjast þess að notað sé eldsneyti sem mengar minna og tækjabúnaður sem fjarlægir brennisteinsagnir úr eldsneyti skipa sem stunda veiðar og sjósiglingar.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2014 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Vestmannaeyjum 3. september 2014.
    Efnafræðifélag Bandaríkjanna (e. American Chemical Society) mat það svo í skýrslu árið 2007 að árlega láti 60 þúsund manns lífið á heimsvísu af völdum lungna- og hjartasjúkdóma sem rekja má til brennisteinsmengunar frá skipum. Notkun svartolíu, sem inniheldur mikið af brennisteini, veldur mestu brennisteinsmenguninni.
    Íbúar á strandsvæðum eru sérstaklega varnarlausir gagnvart brennisteinsmengun frá skipaumferð. Það liggur því beinast við að strandríki eins og vestnorrænu löndin leggi sitt af mörkum til að draga úr þessari mengun. Samstarf Vestur-Norðurlanda á þessu sviði gæti falið í sér setningu reglna, gerð samninga við hagsmunaaðila, upplýsingaherferðir, niðurgreiðslur, skatta o.s.frv. til að hvetja til bættrar orkuskilvirkni, notkunar eldsneytis sem mengar minna, eða notkunar búnaðar sem fjarlægir brennisteinsagnir úr útblástursrörum skipa.
    Á vestnorræna svæðinu er sjávarút­vegur og að hluta sjóflutningar í frjálsri samkeppni á alþjóðlegum markaði. Arðsemi veiða og sjóflutninga hefur auðvitað áhrif á getu iðnaðarins til að skipta út eldri búnaði og festa kaup á nýjum. Sá þáttur meðal annars mun augljóslega hafa áhrif á hvaða leiðir ríkisstjórnir vestnorrænu landanna telja viðeigandi að fara.
    Grænland og Færeyjar þurfa einnig að taka til greina að Danmörk hefur yfirráð yfir lagasetningu í tengslum við aðgerðir til verndar um­hverfinu utan 3 mílna lögsögu landanna tveggja.
    Vestnorræna ráðið hvetur ríkisstjórnir Norðurlanda til að þróa verkefni sem draga úr losun brennisteinsagna og meðhöndla ályktun Vestnorræna ráðsins í norræna kerfinu.