Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 883  —  510. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2014.


1. Inngangur.
    Helstu málefni til umfjöllunar í Norðurlandaráði 2014 voru sjálfbær nýting náttúruauðlinda og utanríkis-, varnar- og öryggismál. Svíar fóru með formennsku á árinu og forseti ráðsins var Karin Åström frá janúar til september og Hans Wallmark frá október til desember. Hans Wallmark var varaforseti frá janúar til september og Phia Andersson frá október til desember.
    Sjálfbær nýting náttúruauðlinda var í brennidepli á vorþingfundi Norðurlandaráðs á Akureyri í apríl. Sérstök umræða var um málefnið og kynnt greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu mála í deilum um veiðar á síld og makríl.
    Utanríkis-, varnar- og öryggismál og samfélagsöryggi voru til umfjöllunar á vorþingfundi Norðurlandaráðs í apríl þar sem samþykkt var yfirlýsing um Úkraínu og á aðalþingfundi ráðsins í október í Stokkhólmi þar sem helstu áhersluþættir voru Úkraína, Miðausturlönd og norðurslóðir. Þá var Thorvald Stoltenberg, höfundur Stoltenberg-skýrslunnar, gestur við sérstaka umræðu um öryggismál á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þeir þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands 18 fulltrúa, Danmerkur 16 fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Forseti Norðurlandaráðs er kjörinn til eins árs og skiptast Norðurlöndin fimm á að eiga forseta þingsins. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er sérstök áhersla á ákveðið málefni. Árið 2014 var það sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, vinstrisósíalistar og grænir, og norrænt frelsi. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í byrjun árs 2014 skipuðu Íslandsdeild Höskuldur Þórhallsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Elín Hirst, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Róbert Marshall, þingflokki Bjartrar framtíðar, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Brynhildur Pétursdóttir, þingflokki Bjartrar framtíðar, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigrún Magnúsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Breyting varð á Íslandsdeild 15. október 2014. Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar, varð aðalmaður í stað Helga Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, og Helgi Hjörvar varð varamaður í stað Guðbjartar Hannessonar.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2014 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2014 á 65. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Helsinki 28.–31. október 2013. Nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs varð með þeim hætti að Höskuldur Þórhallsson og Helgi Hjörvar sátu í forsætisnefnd, Valgerður Gunnarsdóttir í menningar- og menntamálanefnd og eftirlitsnefnd, Elín Hirst í borgara- og neytendanefnd, Róbert Marshall í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Steingrímur J. Sigfússon í efnahags- og viðskiptanefnd og kjörnefnd og Jóhanna María Sigmundsdóttir í velferðarnefnd. Þegar Guðbjartur Hannesson varð aðalmaður í stað Helga Hjörvar tók hann sæti hans í forsætisnefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Helgi Hjörvar og Siv Friðleifsdóttir, aðalmaður og varamaður í stjórn Norræna menningarsjóðsins tóku þátt í störfum stjórnar sjóðsins, og Höskuldur Þórhallsson átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði ellefu sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingfundum Norðurlandaráðs og fjallað um einstök mál til meðferðar í nefndum og starfshópum ráðsins. Einnig var fjallað um önnur mál á verksviði nefndarinnar.
    Eftirfylgni tilmæla Norðurlandaráðs voru á dagskrá í janúar og mars. Íslandsdeildin lagði í framhaldi af því tillögu til þingsályktunar um samstarf við Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð um fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum. Tillaga var lögð fram á grundvelli tilmæla Norðurlandaráðs nr. 4/2012 sem samþykkt voru á vorþingfundi ráðsins 23. mars 2012 á Alþingi.
    Blaðamannastyrkir Norðurlandaráðs 2014 voru á dagskrá í febrúar og mars. Ákveðið var að úthluta styrkjum til Önnu Lilju Þórisdóttur, til verkefnis um búferlaflutninga Íslendinga til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar frá árinu 2008, Gunnars Smára Egilssonar, til verkefnis um vestnorræna menningu á norður- og vesturströnd Noregs, á Íslandi, í Færeyjum, á Grænlandi, í Kanada og á eyjunum við Skotland, Ingveldar Geirsdóttur, til verkefnis um búferlaflutninga Íslendinga til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar frá árinu 2008, Magnúsar Halldórssonar, til verkefnis um húsnæðislánafyrirkomulag á Norðurlöndum, Sveins H. Guðmarssonar, til verkefnis um Norðurlöndin sem fyrirmynd sjálfstæðissinna í Skotlandi og samleið mögulegs nýs skosks ríkis með Norðurlöndum, Þóru Tómasdóttur, til verkefnis um samstarf Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur í kvikmyndageiranum, og Ægis Þórs Eysteinssonar, til verkefnis um barátta lögregluyfirvalda í Svíþjóð gegn skipulagðri glæpastarfsemi og samstarf lögregluyfirvalda á Norðurlöndum í þessum efnum.
         Eygló Harðardóttir, ráðherra norrænna samstarfsmála, var gestur á fundum Íslandsdeildar í apríl og október í aðdraganda þingfunda Norðurlandaráðs á árinu.
    Umbætur í Norðurlandaráði og túlkun Helsingforssamningsins voru á dagskrá Íslandsdeildar í maí.
    Í september var tilnefning til forseta og varaforseta Norðurlandaráðs á dagskrá. Tillögur voru gerðar um að tilnefna Höskuld Þórhallsson annars vegar og Steingrím J. Sigfússon hins vegar til forseta Norðurlandaráðs 2015. Greidd voru atkvæði. Höskuldur hlaut 5 atkvæði og Steingrímur 2 atkvæði. Gerð var tillaga um að tilnefna Guðbjart Hannesson til varaforseta Norðurlandaráðs 2015. Greidd voru atkvæði. Guðbjartur hlaut 5 atkvæði og 2 sátu hjá.
    Þá var formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2015 og undirbúningur hennar á dagskrá Íslandsdeildar í nóvember.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd er skipuð forseta, varaforseta og allt að ellefu fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahópinn sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.
    Höskuldur Þórhallsson og Helgi Hjörvar sátu í forsætisnefnd frá janúar til október og Höskuldur og Guðbjartur Hannesson frá október til desember. Nefndin fundaði sex sinnum á árinu.
    Sumarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs var haldinn í Kungälv 4. júní. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Höskuldur Þórhallsson, formaður, og Helgi Hjörvar, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru Norðurlönd sem áfangastaður ferðamanna, Norræni sáttmálinn um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu, tíska og markaðssetning Norðurlanda sem vörumerkis, Norræn lýðheilsuverðlaun, Norðurlandaráðsþing 2014, vorþingfundur Norðurlandaráðs 2015 og umbætur í Norðurlandaráði.
    Forsætisnefnd, sem æðsta ákvörðunarvald Norðurlandaráðs milli þingfunda, samþykkti þrenn tilmæli ráðsins. Í fyrsta lagi samþykkti forsætisnefnd tilmæli um Norðurlönd sem áfangastað ferðamanna á grundvelli tillögu sem afgreidd var úr efnahags- og viðskiptanefnd 8. apríl á Akureyri. Samþykkt var að beina tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að gera norræna áætlun um markaðssetningu ferðamennsku á Norðurlöndum; að fjármagna markaðssetningu og markaðsaðlögun Norðurlanda á nokkrum afmörkuðum markaðssvæðum; og að stuðla að myndun norræns tengslanets um ferðamennsku með því að leiða saman viðeigandi aðila í ferðaþjónustu og hvetja þá til að eiga samstarf um að markaðssetja Norðurlönd og norræna upplifun. Einnig var samþykkt að beina tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda um að aðlaga reglugerðir um hlutverk ferðamálaráða landanna þannig að það feli í sér aukið samstarf í ferðaþjónustu á Norðurlöndum og sameiginlega markaðssetningu ferðamennsku á Norðurlöndum sem vöru, bæði út á við og inn á við; og að þróa samanburðarhæfa tölfræði sem sýni hvernig ferðamenn ferðast og verja peningum á Norðurlöndum.
    Í öðru lagi samþykkti forsætisnefnd tilmæli um Norræna sáttmálann um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu í samofnari Evrópu á grundvelli tillögu sem afgreidd var úr borgara- og neytendanefnd 8. apríl á Akureyri. Samþykkt var að beina tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að gera úttekt á áhrifum sem nýjar ESB-gerðir hafa á túlkun og framkvæmd Norræna sáttmálans frá 14. júní 1994 um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu; að yfirfara og endurbæta Norræna sáttmálann frá 14. júní 1994 um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu í þá veru að sáttmálinn verði í samræmi við reglur ESB og að samkvæmt honum verði ekki hægt að vísa úr landi norrænum ríkisborgurum sem þurfa félagslega aðstoð; að skeyta inn réttindum barna í Norræna sáttmálann frá 14. júní 1994 um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu og tryggja að sáttmálinn sé í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989; og að gera munnlega grein fyrir framvindu og árangri starfsins á Norðurlandaráðsþingi 2014 í Stokkhólmi.
    Í þriðja lagi samþykkti forsætisnefnd tilmæli um tísku og markaðssetningu á Norðurlöndum sem vörumerki á grundvelli tillögu sem afgreidd var frá efnahags- og viðskiptanefnd með skriflegri ákvörðun 20. maí. Samþykkt var að beina tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að móta í samstarfi við aðila í tísku- og fataiðnaði nokkurs konar stefnuyfirlýingu, sem gefur til kynna ákveðna afstöðu til umhverfis, endingar, efna, endurvinnslu, hönnunar, siðferðis og félagslegrar ábyrgðar sem hvetja má aðila tísku- og fataiðnaðarins til að styðja og fylgja; að móta hvata sem geri eftirsóknarvert fyrir aðila tísku- og fataiðnaðarins að fylgja markmiðum stefnuyfirlýsingarinnar; og að gera sjálfbæra norræna tísku hluta af markaðssetningu Norðurlanda sem vörumerkis.
    Tekin var fyrir fyrirspurn frá Norrænu ráðherranefndinni um hvort hægt væri að færa Norrænu lýðheilsuverðlaunin undir hatt Norðurlandaráðs og setja þau á stall með öðrum verðlaunum ráðsins. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2006 af Norrænu ráðherranefndinni og Norræna lýðheilsuháskólanum og tilgangur þeirra hefur verið að beina athygli að mikilsverðu átaki tengdu heilbrigði og vellíðan. Einn Íslendingur hefur hlotið verðlaunin, Haraldur Briem sóttvarnalæknir, árið 2012 fyrir alþjóðlega viðurkenndar rannsóknir á aðgerðum gegn smitsjúkdómum og baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi. Ástæða fyrirspurnar ráðherranefndarinnar eru þær skipulagsbreytingar að Norræni lýðheilsuháskólinn verður lagður niður 1. janúar 2015 og mörg verkefna hans munu færast til Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar í Stokkhólmi. Forsætisnefnd ákvað að hafna því að gera norrænu lýðheilsuverðlaunin að verðlaunum Norðurlandaráðs.
    Forsætisnefnd samþykkti drög að dagskrá Norðurlandaráðsþings 2014 í Stokkhólmi. Nokkrar breytingar verða á dagskrá þingsins frá síðasta ári, m.a. að forsætisnefndar- og fagnefndafundir verða haldnir síðdegis á mánudegi í staðinn fyrir á þriðjudagsmorgni, að nýjar þingmannatillögur og ráðherranefndartillögur verða kynntar á þingfundi með eftirfarandi umræðu forustumanna flokkanna og að nefndarálit sem samþykkt hafa verið einróma í nefndum má annaðhvort afgreiða endanlega í forsætisnefnd eða ljúka má málinu á þingfundi án umræðu.
    Forsætisnefnd ákvað einnig að fara þess á leit við Evrópuþingið að vorþingfundur Norðurlandaráðs árið 2015 verði haldinn í Evrópuþinginu í Brussel þar sem sérstök umræða verður um Evrópusambandið og Norðurlönd. Ekki var full samstaða um ákvörðunina.
    Þá var fjallað um tillögur starfshóps forsætisnefndar um umbætur í Norðurlandaráði. Starfshópurinn, sem í sitja fulltrúar flokkahópa Norðurlandaráðs, hefur fundað tvívegis, 8. apríl á Akureyri og 3. júní í Kungälv. Varðandi innihald starfsemi Norðurlandaráðs ákvað forsætisnefnd að nýjar tillögur verði kynntar á þingfundum og að þær verði teknar til fyrstu umræðu þar áður en þær fara til nefnda og að Norðurlandaráð ákveði áhersluþætti til þriggja ára sem birtist í samofnum formennskuáætlunum með svokölluðu trojka-fyrirkomulagi. Varðandi form starfsemi Norðurlandaráðs ákvað forsætisnefnd að fastsetja fjóra skilafresti árlega fyrir framlagningu tillagna. Varðandi þingfundi Norðurlandaráðs ákvað forsætisnefnd að aðalþingfundur ráðsins verði áfram á haustin og til skiptis í norrænu löndunum og að aðskildum fundum forsætisnefndar og fagnefnda að sumarlagi verði haldið áfram. Nokkur umræða skapaðist um hvort halda ætti ávallt samhliða fundi forsætisnefndar og fagnefnda Norðurlandaráðs í janúar, apríl og september á sama stað, í Kaupmannahöfn, og hvort ljúka ætti öllum samhliða fundum með stuttum þingfundi. Höskuldur Þórhallsson sagðist við umræðuna vera þeirrar skoðunar að gott væri að halda áfram að halda samhliða fundi ráðsins í apríl og vorþingfundi þess á mismunandi stöðum eins og verið hefur. Starfshópur forsætisnefndar um umbætur mun halda áfram störfum og skila tillögum til forsætisnefndar jafnóðum.
    Desemberfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs var haldinn í Lysebu í Ósló dagana 1.–2. desember. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Höskuldur Þórhallsson og Guðbjartur Hannesson, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru barna- og ungmennastefna í norrænu samstarfi, samstarfsáætlun um löggjafarmál, norrænt útivistarár 2015, túlkun 47. og 48. gr. Helsingforssamningsins, norrænt samstarf um þróunaraðstoð og leiðtogafundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins.
    Forsætisnefnd samþykkti samkvæmt umboði tilmæli Norðurlandaráðs um eflingu barna- og ungmennastefnu í norrænu samstarfi á grundvelli tillögu sem afgreidd var úr borgara- og neytendanefnd í október. Í tilmælunum beinir Norðurlandaráð tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar í fjórum liðum. Í fyrsta lagi að tilnefndur verði ráðherra úr Norrænu ráðherranefndinni til að fara með mál sem snerta börn og ungmenni. Verkefni hans verði að fylgja eftir stefnu í málefnum barna og ungmenna og að tryggja að sérþekking á málefnum barna og ungmenna verði fyrir hendi á öllum stigum norræns samstarfs. Í öðru lagi að efla umboð Norrænu barna- og ungmennanefndarinnar (Nordisk Børne- og Ungdomskomité – NORDBUK) í því skyni að tryggja sérfræðiþekkingu á málefnum barna og ungmenna í norrænu samstarfi, og m.a. sjá til þess að reglulegt samráð verði milli NORDBUK og fyrrnefnds ráðherra sem fer með málefni barna og ungmenna. Í þriðja lagi að efla og tryggja kunnáttu um málefni barna og ungmenna með aðgerðum til að byggja upp þekkingu í þessum efnum á samstarfssviðunum og skapa forsendur fyrir myndun norræns vettvangs þeirra aðila sem starfa að málefnum barna og ungmenna á Norðurlöndum. Í fjórða lagi að tilnefndur ráðherra hafi árlegt samráð við Norðurlandaráð og Norðurlandaráð æskunnar um framkvæmd stefnu í málefnum barna og ungmenna á Norðurlöndum.
    Forsætisnefnd samþykkti einnig samkvæmt umboði tilmæli Norðurlandaráðs um viðburð í tilefni norræns útivistarárs 2015 á grundvelli tillögu sem afgreidd var úr menningar- og menntamálanefnd í október. Í tilmælunum beinir Norðurlandaráð því til Norrænu ráðherranefndarinnar að halda upp á norrænt útivistarár 2015 með því að halda norræna ráðstefnu um útivist í þéttbýli árið 2015 með sérstaka áherslu á börn og ungmenni, náttúru, hreyfingu og heilbrigði. Markmið ráðstefnunnar á að vera mótun sjálfbærrar norrænnar stefnu um útivist og börn og ungmenni á öllum Norðurlöndunum. Í nefndaráliti menningar- og menntamálanefndar er bent á að þrátt fyrir að sjálfboðasamtök og frjáls félagasamtök vinni gott starf á þessu sviði þá sé mikilvægt að ríkisstjórnir Norðurlanda séu í fararbroddi við að efla þennan málaflokk. Útivistarmálin bjóði upp á fjölbreytta möguleika fyrir bæði andlega og líkamlega lýðheilsu, líkamsrækt, hreyfingu, náttúrufræði og þróun félagsfærni barna. Því sé mikilvægt að ríkisstjórnir Norðurlandanna fari fremstar í flokki til að stuðla að þessari þróun.
    Þá samþykkti forsætisnefnd samkvæmt umboði tilmæli Norðurlandaráðs um samstarfsáætlun um löggjafarmál á grundvelli tillögu sem afgreidd var úr borgara- og neytendanefnd í nóvember sl. Í tilmælunum beinir Norðurlandaráð því til Norrænu ráðherranefndarinnar að hrinda í framkvæmd tillögu ráðherranefndarinnar um samstarfsáætlun um löggjafarmál 2015– 2019, en í norrænu ráðherranefndinni um löggjafarsamstarf (MR-LOV) eiga sæti norrænir dómsmálaráðherrar. Í samstarfsáætluninni kemur fram að í samstarfinu felist að meta afleiðingar ESB-/EES-gerða eins snemma og unnt sé í ákvörðunarferli ESB. Norrænu embættismannanefndinni um löggjafarsamstarf (EK-LOV), sem undirbýr og fylgir eftir fundum norrænu dómsmálaráðherranna, er falið samkvæmt áætluninni að fara yfir mikilvægustu tillögur til ESB-/EES-gerða eftir þörfum til að athuga hvort tilefni sé til að ráðfæra sig á norrænum vettvangi í tengslum við undirbúning eða innleiðingu ESB-/EES-gerða í löggjöf norrænu landanna.
    Forsætisnefnd tók stefnumarkandi ákvörðun um túlkun Norðurlandaráðs á 47. og 48. gr. Helsingforssamningsins varðandi aðal- og varamenn í ráðinu. Forsaga málsins er sú að í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Ósló 2013 reis ágreiningur milli skrifstofu Norðurlandaráðs og deilda Finnlands og Álandseyja í ráðinu um hvort varamönnum frá þinginu á Álandseyjum væri heimilt að taka sæti aðalmanna frá þinginu í Finnlandi á þingfundi Norðurlandaráðs. Ágreiningurinn snerist um hvort túlka ætti Helsingforssamninginn út frá 47. gr. samningsins sem segir að varamenn aðalmanna komi frá sama þjóðþingi eða út frá 48. gr. samningsins sem segir að deild danska ríkisins samanstandi af þingmönnum deilda frá danska, færeyska og grænlenska þinginu, auk fulltrúa stjórna Danmerkur, Færeyja og Grænlands, og deild Finnlands samanstandi af þingmönnum deilda frá finnska og álenska þinginu, auk fulltrúa stjórna Finnlands og Álandseyja. Í Danmörku er litið svo á að aðeins varamenn frá danska þinginu geti tekið sæti aðalmanna frá danska þinginu á þingfundum Norðurlandaráðs og það sama gildir fyrir varamenn og aðalmenn á færeyska og grænlenska þinginu. Í Finnlandi er litið svo á að varamenn frá álenska þinginu geti tekið sæti aðalmanna frá finnska þinginu. Forsætisnefnd ákvað að heimila ósamræmi í túlkun Helsingforssamningsins á þann veg að bæði deild Finnlands og deild danska ríkisins væri heimilt að túlka samninginn samkvæmt sínum sjónarmiðum.
    Forsætisnefnd afgreiddi úr nefnd tillögu Steingríms J. Sigfússonar um að efla norrænt samstarf um þróunaraðstoð. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um að taka virkan þátt í viðleitni til að efla norrænt samstarf um þróunaraðstoð. Í upphaflegu tillögunni segir: „Efling Norræns samstarfs á sviði þróunarsamvinnu fellur vel að þeim aukna áhuga sem verið hefur á því að efla samstarf Norðurlandanna á sviði utanríkis- og alþjóðamála og má minna á Stoltenberg-skýrsluna í því sambandi. Meiri samvinna hvað varðar rekstur sendiráða eða sendiskrifstofa félli einnig vel að slíkum hugmyndum. Mikilvægt er í þessu sambandi, eins og yfirleitt alltaf á við um norræna samvinnu, að hafa í huga að hún á sér stað eða getur átt sér stað á fleiri sviðum en milli embættismanna og æðstu stjórnsýslu einnar saman. Áhugamannasamtök og grasrótarhreyfingar hafa hér hlutverki að gegna, enda rennur einhver hluti framlaga allra ríkjanna til slíkra samtaka og verkefni eru unnin í samstarfi við fjölmarga slíka aðila. Að lokum er afar mikilvægt að þjóðþingin, þingmenn og samstarf þeirra á norrænum vettvangi, ekki síst í Norðurlandaráði sjálfu, láti sig þessi mál varða.“ Tillagan fer nú til umræðu á þingfundi Norðurlandaráðs.
    Á undan fundi forsætisnefndar fór fram árlegur leiðtogafundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins. Íslensku fulltrúarnir í forsætisnefnd gátu ekki tekið þátt í fundinum sökum óveðurs á Íslandi. Af hálfu Eystrasaltsþingsins tóku þátt í fundinum Laine Randjärv, forseti, frá Eistlandi, Jãnis Vucãns, varaforseti, frá Lettlandi, og Romualds Razuks, fulltrúi í forsætisnefnd, frá Lettlandi. Helstu mál á dagskrá voru Úkraína og samstarf Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins árið 2015. Gestur fundarins var Ingerid Opdahl, prófessor hjá norsku varnarmálarannsóknarstofnuninni (Institutt for forsvarsstudier – IFS). Laine Randjärv, forseti Eystrasaltsþingsins, fjallaði um upplýsingar og falsupplýsingar í tengslum við atburði í Úkraínu, Moldavíu og öðrum hlutum Austur-Evrópu. Hún sagði að hættulegasti óvinurinn væri sá áróður sem nú er dreift á sjónvarpsrásum og samfélagsmiðlum, bæði í Rússlandi og nágrannalöndum þess sem og í Evrópu allri. Rússar verji milljörðum í áróðursvél sem smjúgi sér inn í þá miðla sem fólki sé tamt að nota og erfitt sé að koma staðreyndum á framfæri. Bertel Haarder, fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, vakti máls á því að hægri öfgamenn í Vestur-Evrópu virðast nú styðja Pútín.

Menningar- og menntamálanefnd.
    Menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs fer með málefni menningar, kennslu og menntunar. Nefndin fjallar um eftirfarandi svið: almenna menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg og fjölþjóðleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, norrænu félögin og frjáls félagasamtök, barna- og unglingamenningu, grunn- og framhaldsskóla, menntunarframboð á Norðurlöndum, almenningsfræðslu og fullorðinsfræðslu, og símenntun.
    Valgerður Gunnarsdóttir sat í menningar- og menntamálanefnd á starfsárinu 2014. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs fjallar um efnahagsumhverfi, framleiðslu og verslun, þar með talið frelsi á markaði og atvinnumarkaði á Norðurlöndum. Hún fjallar m.a. um atvinnulíf/iðnað, innri markað, frjálsa för fólks, afnám stjórnsýsluhindrana, viðskipti, svæði og byggðaþróunarstyrki, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuumhverfi, innviði/samgöngur, fjarskipti og upplýsingatækni.
    Steingrímur J. Sigfússon sat í efnahags- og viðskiptanefnd á starfsárinu 2014. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs vinnur að umhverfis- og náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda innan landbúnaðar, fiskveiða og skógræktar og -nýtingar. Enn fremur vinnur nefndin að orku- og samgöngustefnu í samstarfi við atvinnumálanefndina. Nefndin vinnur jafnt að norrænum og alþjóðlegum úrlausnarefnum. Enn fremur tekur nefndin upp mál við ESB á framangreindum sviðum, sem mikilvæg eru fyrir Norðurlönd. Nefndin fjallar um efni á borð við endurnýjanlega orku og norrænan raforkumarkað, loftslagsbreytingar og aðgerðir til að minnka losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda, kjarnorkuöryggi, fiskveiðistjórnun, landbúnaðarstefnu ESB, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi, stjórnun stórra rándýrastofna á Norðurlöndum, verndun líffræðilegs fjölbreytileika, siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum.
    Róbert Marshall sat í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd á starfsárinu 2014. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Velferðarnefnd.
    Velferðarnefnd Norðurlandaráðs vinnur með norræna velferðarlíkanið, velferð, heilbrigðis- og félagsmálastefnu. Hún fjallar um velferðar- og tryggingamál, félagsþjónustu og heilbrigðismál, málefni fatlaðra, byggingar- og húsnæðismál, fjölskyldumál, börn og unglinga, fíkniefni, áfengi og annan ofneysluvanda.
    Jóhanna María Sigmundsdóttir sat í velferðarnefnd á starfsárinu 2014. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Borgara- og neytendanefnd.
    Borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs fjallar um málefni sem snerta réttindi borgara og neytenda auk meginþátta sem snerta lýðræði, mannréttindi, jafnrétti o.fl. og tengjast starfsvettvangi hennar. Nefndin fjallar um lýðræði, mannréttindi, réttindi borgaranna, jafnrétti, neytendamál, matvælaöryggi, baráttu gegn glæpum, þar á meðal alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi, löggjöf, innflytjendur og flóttafólk, og samstarf gegn kynþáttafordómum.
    Elín Hirst sat í borgara- og neytendanefnd á starfsárinu 2014. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.
    Valgerður Gunnarsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd á starfsárinu 2014. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd.
    Steingrímur J. Sigfússon sat í kjörnefnd á starfsárinu 2014. Nefndin fundaði tvisvar á árinu.

5. Fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda fjórum sinnum árið 2014, í janúar og september og í apríl og október í tengslum við þingfundi ráðsins. Á fundunum var fjallað um og afgreidd þau mál sem lögð voru til samþykktar fyrir þingfundi Norðurlandaráðs í apríl og október eða fyrir forsætisnefnd milli þingfunda.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Kaupmannahöfn dagana 21.–22. janúar. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Höskuldur Þórhallsson, formaður, Valgerður Gunnarsdóttir, Elín Hirst, Helgi Hjörvar, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Róbert Marshall og Steingrímur J. Sigfússon. Helstu mál á dagskrá voru leiðtogafundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins, tengsl Norðurlandaráðs við Evrópusambandið, fiskeldi í hringrásarkerfum, snjalldreifikerfi fyrir raforku, endurskoðun norræna tvísköttunarsamningsins og gæðamerki fyrir jafnræði og jafnrétti í leikskólum og grunnskólum.
    Árlegur leiðtogafundur forsætisnefndar með forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins var haldinn í tengslum við janúarfundina. Helsta mál á dagskrá var samstarfsáætlun Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins 2014–15, sem samþykkt var á fundinum. Af áhersluþáttum áætlunarinnar var sérstaklega fjallað um samræmingu aðgerða gagnvart Evrópusambandinu, NB8 Wise Men Report eftir Valdis Birkavs og Søren Gade, norðurslóðir, mansal, málefni Hvíta-Rússlands og málefni Úkraínu. Forseti Norðurlandaráðs, Karin Åström, og forseti Eystrasaltsþingsins, Laine Randjärv, fordæmdu á fundinum valdbeitingu og ofbeldi í Kænugarði til að dreifa mótmælendum sem að undanförnu hafa lýst yfir stuðningi við aðlögun Úkraínu að Evrópusambandinu.
    Tengsl Norðurlandaráðs við Evrópusambandið voru til umfjöllunar í forsætisnefnd og fagnefndum, þar sem lögð var fram skýrsla Andreu Karlsson með 28 tillögum um mögulegar aðgerðir til að efla tengslanet milli Norðurlandaráðs og Evrópuþingsins, einkum við norræna ESB-þingmenn. Tillögunum í skýrslunni er skipt í þrjá flokka; kynningu og upplýsingar fyrir Norðurlandaráð, ESB í daglegu starfi ráðsins og ESB í starfi nefnda ráðsins. Í kjölfar kynningarinnar munu fagnefndir ráðsins gefa umsögn um skýrsluna og forsætisnefnd fjalla áfram um hana á næsta fundi nefndarinnar á Akureyri í apríl.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd fjölluðu sameiginlega um tvær þingmannatillögur. Annars vegar um fiskeldi í hringrásarkerfum, þar sem gestir fundarins voru Per Bovbjerg frá danska tækniháskólanum, Danmarks Tekniske Universitet – DTU, og Jesper Heldbo, sem er í forsvari fyrir samstarfsvettvang hringrásariðnaðarins Aquacircle. Hins vegar um snjalldreifikerfi fyrir raforku, þar sem markmið tillögunnar er að Norðurlönd nái saman um grunnreglur, staðla og tæknikröfur til að tryggja innri markað fyrir neytendur og framleiðendur á Norðurlöndum og að samnorrænar reglur og staðlar á þessu sviði verði á síðari stigum tekin upp í Evrópu.
    Borgara- og neytendanefnd afgreiddi úr nefnd þingmannatillögu frá flokkahópi jafnaðarmanna um endurskoðun norræna tvísköttunarsamningsins. Í nefndaráliti segir að nefndin leggi til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að hefja endurskoðun á „Samningi milli Norðurlanda til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir“ í því skyni að skýra orðalag í reglunum, og að kannað verði hvernig hægt er að tryggja að skattstjóraembætti og önnur yfirvöld sem málið varðar túlki tvísköttunarsamninginn á sama hátt og veiti almenningi réttar og ótvíræðar upplýsingar um reglurnar. Anne Wirén, fjármálastjóri hjá sænskum skattyfirvöldum, Skatteverket, var gestur fundarins.
    Forsaga málsins er sú að 1. janúar 2009 kom til framkvæmda breyting á tvísköttunarsamningi Norðurlandanna um að lífeyrisþegar sem áður áttu einungis að greiða skatt til landsins sem greiddi þeim lífeyri eiga nú einnig að greiða skatt í búsetulandinu. Þetta hefur valdið vandræðum fyrir norska lífeyrisþega í Svíþjóð þar sem skattlagning á lífeyri er hærri en í Noregi. Norsku lífeyrisþegarnir leituðu til Skatteverket þegar þeir hugðust flytja eða voru þegar fluttir til Svíþjóðar en munnlegar upplýsingar sem þeir fengu um skattlagningu lífeyris reyndust ófullnægjandi þar sem skattyfirvöld í Svíþjóð tjáðu lífeyrisþegunum að þeir þyrftu ekki að greiða skatt af lífeyrinum í Svíþjóð fyrir árið sem þeir fluttu eða næstu þrjú ár þar á eftir. Öðrum var sagt að fimm eða jafnvel fleiri ár mundu líða áður en þeim yrði gert að greiða umrædda skatta. Sú upplýsingagjöf hefur gert það að verkum að umræddir lífeyrisþegar hafa ekki greitt hinn hærri skatt í Svíþjóð fyrir árin 2009, 2010 og 2011 enda var þeim ekki kunnugt um að þeir skulduðu sænska ríkinu skatt. Nú er þeim ætlað að greiða skatt í báðum löndunum en til að komast hjá tvísköttun draga sænsk yfirvöld í útreikningum sínum frá þá upphæð sem þegar hefur verið greidd í Noregi. Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, hefur ekki viljað taka á málinu þar sem umboðsmaður sænska þingsins, Justitieombudsmannen, hefur ekki talið ástæðu til að gagnrýna afgreiðslu málsins hjá Skatteverket.
    Borgara- og neytendanefnd afgreiddi einnig úr nefnd tillögu um gæðamerki fyrir jafnræði og jafnrétti í leikskólum og grunnskólum. Í nefndaráliti segir m.a. að nefndin leggi til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að leikskólar og skólar verði kortlagðir út frá kynjasjónarmiðum og hentugar aðferðir greindar á Norðurlöndum til að efla jafnræði í leikskólum og skólum, og um að skrásetja norrænt gæðamerki, vottun, eða svipað norrænt fyrirkomulag sem veitt verði leikskólum og grunnskólum sem vinna markvisst að jafnræði og jafnrétti. Eitt minnihlutaálit var í nefndinni þar sem lagst var gegn því að skrásetja norrænt gæðamerki, vottun, eða svipað norrænt fyrirkomulag.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs átti í aðdraganda janúarfundanna fund með nýjum framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs, Britt Bohlin, og ráðgjöfum skrifstofu Norðurlandaráðs, Tinu Bostrup, ritara forsætisnefndar, og Tryggva Felixsyni, ritara umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Einnig fundaði Íslandsdeild með fulltrúum skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar, Kenneth Broman skrifstofustjóra og Emelie Barbou des Places ráðgjafa, sem og framkvæmdastjóra Norræna menningarsjóðsins, Karen Bue.

Aprílfundir og vorþingfundur Norðurlandaráðs á Akureyri.
    Vorþingfundur Norðurlandaráðs með sérstakri áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda var haldinn á Akureyri 8. apríl. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingfundinn Höskuldur Þórhallsson, formaður, Valgerður Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Elín Hirst, Helgi Hjörvar, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Helstu mál á dagskrá voru stjórnmálaástandið í Úkraínu, greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu mála í deilum um veiðar á síld og makríl, og réttindi launafólks.
    Karin Åström, forseti Norðurlandaráðs, gerði grein fyrir viðbrögðum Norðurlandaráðs við atburðum í Úkraínu. Hún rakti að 22. janúar hefði hún og forseti Eystrasaltsþingsins, Laine Randjärv, fordæmt valdbeitingu og ofbeldi í Kænugarði og að hún og varaforseti Norðurlandaráðs, Hans Wallmark, hefðu sent frá sér yfirlýsingu 12. mars. þar sem skorað var á rússnesk yfirvöld að gera ráðstafanir til að draga úr spennu í Úkraínu jafnframt því að fyrirhugaðri heimsókn þingmanna á vegum Norðurlandaráðs til Murmansk var frestað um óákveðinn tíma og að hún og varaforsetinn hefðu fundað með fulltrúum þjóðþinga Eystrasaltslandanna og Póllands, sem og fulltrúum Eystrasaltsþingsins, 20.–24. mars til að sýna stuðning vegna ríkjandi spennuástands í Úkraínu. Åström lagði áherslu á að við núverandi aðstæður, sem væru einstakar og sögulegar, þá væri Norðurlandaráð málsvari lýðræðis, opinna samfélaga og gagnsæis.
    Talsmenn flokkahópa Norðurlandaráðs tóku í sama streng. Henrik Dam Kristensen, talsmaður flokkahóps jafnaðarmanna, lýsti yfir stuðningi við viðbrögð forsetateymisins og sagði að Norðurlandaráð mætti ekki gefa Pútín tækifæri til að nota ráðið í áróðurskenndum tilgangi. Bertel Haarder, talsmaður flokkahóps miðjumanna, sagði að samhliða því að þörf væri á að halda boðleiðum opnum fyrir samskipti við Rússa þá yrðu Norðurlönd að sýna með afgerandi hætti að þau líti málið ekki einfeldnislegum augum né láti þau sér lynda þrýsting og skerðingu á landamærum frjálsra landa á svig við þjóðarétt. Hans Wallmark, talsmaður flokkahóps hægrimanna, sagði að atburðirnir í Úkraínu brytu í bága við þjóðarétt sem væri Norðurlöndum mikilvægur. Hann sagði enn fremur að bein tenging væri milli viðbragða Norðurlanda við atburðum í Eystrasaltslöndunum fyrir um 25 árum og viðbragða við atburðunum í Úkraínu nú. Steen Gade, talsmaður flokkahóps vinstrisósíalista og grænna, hrósaði Norðurlandaráði fyrir að taka afstöðu og vera sýnilegt í málinu en sagði einnig að samskiptaboðleiðirnar til Rússlands mættu aldrei lokast alveg.
    Þingfundurinn samþykkti yfirlýsingu um Úkraínu. Í henni kom fram að innlimun Krímskaga í Rússland væri óásættanleg og bryti í bága við stjórnarskrá Úkraínu, að mikil þörf yrði á stuðningi við lýðræðisþróun í Úkraínu og að móta þyrfti fyrirkomulag nýs lýðræðissamstarfs. Norðurlandaráð gæti fyrst og fremst stutt þingmannasamstarf og halda þyrfti fast í þjóðarétt, lýðræði og mannréttindi. Þá sagði í yfirlýsingunni: „Ástæðan fyrir stuðningnum við Úkraínu í þessum málum er sú að í Norðurlandaráði er löng hefð fyrir því að leggja áherslu á sjónarmið lýðræðis og réttarríkisins. Á sama hátt og Norðurlönd studdu nýju lýðræðisríkin við Eystrasalt fyrir rúmum tuttugu árum vilja Norðurlönd nú styðja lýðræði í Úkraínu.“
    Elín Hirst tók þátt í umræðunni um Úkraínu. Hún sagði atburðina þar og framferði Rússa sannarlega koma Norðurlöndum við vegna vilja Norðurlanda til að stuðla að útbreiðslu lýðræðis. Elín taldi að Norðurlöndin ættu að standa þétt saman og nota hvert tækifæri sem gæfist til að koma mótmælum sínum á framfæri vegna innlimunar Krímskaga í Rússland og sagðist gjarnan vilja taka enn sterkar til orða en gert væri í yfirlýsingunni.
    Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði grein fyrir vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar til að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Hann kvað þá vinnu vera mikilvæga, bæði í sjávarútvegi og fiskeldi sem og í landbúnaði og skógnýtingu, auk þess sem unnið væri að því að innleiða sjálfbærni innan allra málaflokka hjá ráðherranefndinni. Ráðherra gerði enn fremur grein fyrir stefnuviðmiðum og ráðstefnum ráðherranefndarinnar varðandi sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og áherslum á hana í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, þar á meðal í verkefninu Norræna lífhagkerfið. Sigurður Ingi fjallaði að lokum um ferðamannaiðnað og sagði að gjaldeyristekjur Íslendinga af ferðamennsku væru nú orðnar meiri en af sjávarútvegi og að það væri sameiginleg áskorun Norðurlanda að ferðamannaiðnaðurinn færi ekki yfir þolmörk náttúru og samfélags.
    Valgerður Gunnarsdóttir var talsmaður flokkahóps hægrimanna í Norðurlandaráði í umræðunni um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Hún sagði sjálfbærni mjög mikilvæga í tengslum við auðlindir og uppsprettu þeirra og nauðsynlegt væri að þjóðir heims kæmu sér saman um að nýta náttúruna á þann hátt að það verði öllum til gagns og ánægju og hægt verði að skila náttúrunni og hennar auðlindum til afkomenda þannig að þeir njóti hins sama og núlifandi fólk. Valgerður sagði að flokkahópur hægrimanna teldi að það yrði best gert með samvinnu ríkisins og samfélagsins og einstaklinga og að hagvöxtur og sjálfbærni gæti haldist í hendur ef að tækni og vit yrði nýtt á þann hátt að ekki yrði gengið á auðlindir þannig að skaði verði af.
    Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði einnig fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar grein fyrir stöðu mála í deilum um veiðar á síld og makríl. Sigurður Ingi rakti breytingar á staðsetningu fiskstofna samfara loftslagsbreytingum og atburðarásina í samningaviðræðum á síðustu árum og sagði það óheppilegt út frá norrænu sjónarmiði að deilurnar standi milli norrænna landa. Hann benti á að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna skuldbyndi aðildarlönd hans til að vinna saman að sjálfbærum fiskveiðum en að sáttmálinn innihéldi takmörkuð stefnumið um hvernig löndin skuli skipta veiðikvótum af fisktegundum í sameiginlegri eigu. Þá kynnti ráðherra þrjú verkefni sem Ísland hefði beitt sér fyrir á formennskuári sínu 2014 í ráðherranefndinni til að koma til móts við vilja Norðurlandaráðs til þess að leggja sitt af mörkum til lausnar deilunum. Í fyrsta lagi kynnti hann verkefni um að boða sérfræðinga um uppsjávartegundir til ráðstefnu til að fjalla um landfræðilegar breytingar á útbreiðslu fiskstofna, í öðru lagi verkefni um norræna hugveitu um skiptingu veiðiheimilda í Norður-Atlantshafi til lengri tíma litið og í þriðja lagi þátttöku Norrænu ráðherranefndarinnar í ráðstefnu um áskoranir framtíðar varðandi umsjón fiskstofna í Norður- Atlantshafi.
    Steingrímur J. Sigfússon tók þátt í umræðunni um fiskveiðideilurnar og sagði þríhliða samning ESB, Noregs og Færeyja frá því í mars sl. byggjast á ofveiði og að meiri upplýsinga væri þörf til að takast betur á við núverandi stöðu, meiri rannsókna og meiri vísindalegra gagna.
    Nokkur umræða skapaðist um tillögu flokkahóps jafnaðarmanna og flokkahóps vinstri sósíalista og grænna um aukna áherslu á réttindi launafólks, um að Norðurlandaráð beindi tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að halda ráðstefnu til að varpa ljósi á forsendur og reynslu á Norðurlöndum af málefnum tengdum réttindum launafólks og félagslegu undirboði. Tillagan hafði verið afgreidd úr efnahags- og viðskiptanefnd með meirihlutaáliti um að Norðurlandaráð aðhefðist ekki í málinu og minnihlutaáliti um að ráðið samþykkti tillöguna. Greidd voru atkvæði um nefndarálit meiri hlutans og var það samþykkt með 35 atkvæðum gegn 32, en einn sat hjá.
    Í aðdraganda vorþingfundarins fóru þátttakendur í kynnisferð til að kynna sér náttúruauðlindir Norðausturlands. Farið var í Mývatnssveit og kynnisfundur haldinn um nýtingu náttúruauðlinda svæðisins, sem og loftslagsbreytingar. Frummælendur á fundinum voru Höskuldur Þórhallsson, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, dr. Árni Einarsson frá Rannsóknarstofnun Mývatns og dr. Joan Nymand Larsen frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Tampere.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Tampere í Finnlandi dagana 22.–23. september. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í fundunum Höskuldur Þórhallsson, formaður, Elín Hirst, Helgi Hjörvar, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Gunnarsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru samskipti Norðurlandaráðs við rússneska þingmenn, norrænir vefnaðarvöruframleiðendur í láglaunalöndum og réttindi barna í tengslum við 25 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Forsætisnefnd fjallaði um samskipti og samstarf Norðurlandaráðs við rússneska þingmenn í kjölfar yfirlýsingar Norðurlandaráðs á vorþingfundi ráðsins í apríl á Akureyri þar sem fram kom að innlimun Krímskaga í Rússland væri óásættanleg, sem og að árlegum hringborðsumræðum þingmanna Norðurlandaráðs með rússneskum þingmönnum, aðallega frá Ríkisdúmunni og Sambandsráðinu, sem halda átti í maí, var frestað. Forsætisnefnd ákvað að aflýsa hringborðsumræðunum en bjóða rússneskum þingmönnum til árlegs fundar með forsætisnefnd í tengslum við þing Norðurlandaráðs í október í Stokkhólmi þar sem þingmenn Norðurlandaráðs hefðu tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi aflýsingu hringborðsumræðnanna og stöðu mála í Úkraínu.
    Forsætisnefnd samþykkti tilmæli Norðurlandaráðs, samkvæmt umboði milli þingfunda, um norræna vefnaðarvöruframleiðendur í láglaunalöndum, á grundvelli nefndarálits borgara- og neytendanefndar. Þar er tilmælum beint til Norrænu ráðherranefndarinnar að vinna skriflega skýrslu um hvernig Norðurlönd geti beitt sér fyrir því að norrænir vefnaðarvöruframleiðendur í láglaunalöndum stuðli að bættum mannréttindum og réttindum starfsfólks. Auk þess eru tilmæli um að halda áfram stuðningi við stofnun Nordic Ethical Trading Framework. Þá er jafnframt beint tilmælum til ríkisstjórna landanna um að þær beiti sér fyrir því að norræn vörumerki og fyrirtæki sem standa að framleiðslu í Bangladess undirriti samninginn „Accord on Fire and Building Safety in Bangladesh“ um öryggismál, og minni norræna vefnaðarvöruframleiðendur á samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 138 og 182 um barnavinnu, nr. 29 og 105 um bann við nauðungar- og refsivinnu, nr. 100 og 111 um mismunun og nr. 87 og 98 um félagafrelsi og réttinn til að stofna félög og tryggi að samþykktirnar verði samþættar stefnu, gildismati og áætlunum fyrirtækjanna.
    Borgara- og neytendanefnd, menningar- og menntamálanefnd og velferðarnefnd funduðu sameiginlega um réttindi barna þar sem Tuomas Kurttila, umboðsmaður barna í Finnlandi, var gestur fundarins, en 20. nóvember eru 25 ár liðin frá undirritun barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fjallað var um tillögu um eflingu samstarfsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni barna og ungmenna þar sem m.a. er lagt til að velja ráðherra í Norrænu ráðherranefndinni sem sendiherra barna og ungmenna til að fylgja eftir samstarfsáætluninni og tryggja að sérfræðiþekking á málefnum barna og ungmenna sé fyrir hendi á öllum stigum norræns samstarfs.
         
66. þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    66. þing Norðurlandaráðs var haldið í Stokkhólmi 28.–30. október. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í þinginu Höskuldur Þórhallsson, formaður, Elín Hirst, Guðbjartur Hannesson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Gunnarsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru leiðtogafundur norrænna forsætisráðherra og stjórnarleiðtoga, utanríkis-, öryggis- og varnarmál, stjórnsýsluhindranir, loftslags- og umhverfismál og samfélags- og heilbrigðismál.
    Leiðtogafundur norrænna forsætisráðherra og stjórnarleiðtoga um norrænt samstarf fjallaði að þessu sinni um Norðurlönd framtíðarinnar með hliðsjón af menntun, aðlögun og vinnumarkaði. Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði við umræðuna að norrænt samstarf væri ekki síður mikilvægt nú í byrjun 21. aldarinnar en þegar til þess var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Það þyrfti þó að nýta betur í framtíðinni til þess að ná sameiginlegum markmiðum í alþjóðlegri samkeppni með því að kynna Norðurlönd sem aðlaðandi markaðssvæði og þá sameiginlegu og jákvæðu ímynd sem hugtakið ,,Norden“ kallar fram í hugum fólks. Forsætisráðherra fjallaði um þau verkefni sem farið hefur verið af stað með á þessu ári undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Eitt þeirra verkefna var að boða til fundar norrænna ungmenna þar sem saman komu um eitt hundrað ungmenni á aldrinum 16–20 ára til þess að ræða þróun norræns samstarfs og framtíð þess. Þar kom fram að aukið samstarf og jafnvel sameiginlegt menntakerfi, skattkerfi og heilbrigðiskerfi voru unga fólkinu hugleikin, sem er skýrt ákall um kraftmikið norrænt samstarf í framtíðinni.
    Í kjölfar leiðtogafundarins kynnti Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, formennskuáætlun Danmerkur í Norrænu ráðherranefndinni árið 2015 sem leggur áherslu á vöxt, velferð, gildi og norðurslóðir. Höskuldur Þórhallsson veitti andsvar við formennskuáætluninni fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Hann tók áætluninni vel og sagði hana grundvöll fyrir áframhaldandi góðu starfi ráðherranefndarinnar. Höskuldur sagði einnig að sameiginleg gildi Norðurlandabúa, svo sem lýðræði, tillit til umhverfisins, jafnrétti, nýsköpun og lítil spilling væru mikilvægir styrkleikar og einkenni á alþjóðavettvangi. Gildin væru dýrmæt, bæði til að koma Norðurlöndum á framfæri og líka sem traustur grundvöllur til að vinna að stöðugleika í okkar heimshluta.
    Utanríkis-, öryggis- og varnarmál voru mest áberandi málaflokkurinn á Norðurlandaráðsþinginu. Helstu áhersluþættir voru Úkraína, Miðausturlönd og norðurslóðir. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti skýrslu norrænna utanríkisráðherra í umræðu um alþjóðastjórnmál. Utanríkisráðherra sagði að norrænu ríkin hefðu á grundvelli þjóðaréttar fordæmt innlimun Rússlands á Krímskaga þar sem sjálfstæði og friðhelgi landamæra Úkraínu yrði að virða ófrávíkjanlega. Norðurlöndin styddu Úkraínu pólitískt, efnahagslega og félagslega sameiginlega og hvert í sínu lagi og í alþjóðastofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Hann sagði að Úkraína þarfnaðist stuðnings Norðurlanda við að koma á nauðsynlegum pólitískum og efnahagslegum umbótum og að þau hefðu lagt áherslu á að virða skuli lýðræðisleg réttindi og meginreglur í samskiptum sínum við úkraínsk stjórnvöld. Gunnar Bragi sagði enn fremur að öll norrænu ríkin hefðu stutt þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi með hliðsjón af grundvallarsjónarmiðum í utanríkis- og varnarmálum, þrátt fyrir mismunandi pólitíska og efnahagslega hagsmuni, og að Norðurlöndin vildu eiga víðtækt og uppbyggilegt samstarf við Rússland, bæði innan Evrópu og í alþjóðasamstarfi, en það væri erfitt við núverandi aðstæður.
    Varðandi Miðausturlönd sagði utanríkisráðherra að hryðjuverkasamtökin ISIS væru ógn, ekki aðeins í Sýrlandi, Írak og Miðausturlöndum, heldur um allan heim og að Norðurlöndin styddu alþjóðlegar aðgerðir gegn þeim. Norðurlöndin styddu baráttuna gegn ISIS með mismunandi hætti en af sömu grundvallarástæðum sem væru að þau gætu ekki staðið hjá þegar þjóðaréttur, mannúðarréttur og mannréttindi væru fótum troðin.
    Um norðurslóðir sagði utanríkisráðherra að komið hefði verið upp traustum lagaramma fyrir friðsamlegt og traust samstarf á þeim slóðum. Innan Norðurskautsráðsins ætti sér stað samstarf um mikilsverð málefni sem vörðuðu norrænu ríkin, ekki aðeins af sjónarhóli heimskautsins heldur einnig í alþjóðlegu samhengi, t.d. á sviði loftslagsbreytinga og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda. Þá sagði Gunnar Bragi að Norðurlöndin legðu einnig áherslu á þátttöku frumbyggja á norðurslóðum og að þarfir þeirra væru hafðar í fyrirrúmi.
    Undir umræðunni um alþjóðastjórnmál var síðan samþykkt ráðherranefndartillaga um nýja samstarfsáætlun um málefni norðurslóða á tímabilinu frá 2015 til 2017.
    Utanríkisráðherra fjallaði einnig um þá dýpkun sem átt hefði sér stað í samstarfi Norðurlandanna á vettvangi öryggis- og varnarmála undanfarin ár. Hann rifjaði upp sameiginlega yfirlýsingu norrænu utanríkisráðherrana á fundi þeirra í Reykjavík um að efla og dýpka samstarfið í utanríkis- og öryggismálum, m.a. með tilliti til áhættustjórnunar, starfsemi innan alþjóðastofnana, loftslagsmála, sjálfbærrar þróunar, heimskautsmála og netöryggismála. Fundur utanríkisráðherranna var í tengslum við að norrænu utanríkis- og varnarmálaráðherrarnir hittust í tilefni þess að Svíþjóð og Finnland tóku í fyrsta sinn þátt í æfingum í tengslum við loftrýmiseftirlit Atlantshafsbandalagsins í lofthelgi Íslands.
    Norski varnarmálaráðherrann Ine Marie Eriksen Søreide flutti skýrslu norrænna varnarmálaráðherra í umræðunni um alþjóðastjórnmál. Hún sagði að framferði Rússlands gegn Úkraínu hefði breytt stöðu öryggismála í Evrópu sem hefði áhrif á tengsl Norðurlanda við Rússland og öryggi á Eystrasaltssvæðinu og nærsvæðum. Samtímis væru efnahagsþrengingar í Evrópu sem drægju fram þörf fyrir endurbætur og nútímavæðingu ríkja í varnarmálum sem og samstarf milli ríkja í þeim málum hvað varðar aukna getu, æfingar og þjálfun, og ekki síst framlag til alþjóðlegra aðgerða.
    Søreide sagði að markmið norræna varnarmálasamstarfsins, NORDEFCO – Nordic Defence Cooperation, væri að styrkja og þróa hernaðargetu Norðurlanda og aðgerðahæfni með hagsýnu samstarfi sem einkenndist af sveigjanleika og opnum samskiptum. Síðastliðið ár hafi áhersla verið á öryggismál, bæði á að styrkja NORDEFCO sem samskipta- og samráðsvettvang um viðbragðsáætlanir innan einstakra landa sem og á öryggisáskoranir á alþjóðavettvangi.
    Norski varnarmálaráðherrann sagði einnig að með tilkomu svokallaðs Enhanced Opportunities Programme gæfist nú Svíþjóð og Finnlandi kostur á auknu samstarfi við NATO. Þá hefðu þáttaskil orðið samtímis flugeftirliti NATO yfir Íslandi í febrúar þegar Svíþjóð og Finnland hefðu stundað flugæfingar á sama svæði.
    Utanríkis- og öryggismál voru einnig til umfjöllunar við fyrstu umræðu um nýjar þingmannatillögur annars vegar og við sérstaka umræðu um öryggismál hins vegar. Tillaga flokkahóps vinstrisósíalista og grænna um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki varð tilefni til nokkurra umræðna milli fulltrúa norrænu flokkahópanna. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um í fyrsta lagi að ríkisstjórnirnar í öllum norrænu þjóðþingunum leggi fram tillögu um að þing viðkomandi lands viðurkenni Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki og í öðru lagi að Ísraelsmenn og Palestínumenn verði hvattir til – og að fullur stuðningur verði veittur af Norðurlöndum – að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningum sem byggjast á alþjóðarétti og samþykktum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal gagnkvæmri viðurkenningu á Ísraelsríki og ríki Palestínumanna. Tillagan fer nú til umfjöllunar í forsætisnefnd.
    Thorvald Stoltenberg, höfundur Stoltenberg-skýrslunnar, var gestur við sérstaka umræðu um öryggismál. Stoltenberg sagði að núverandi staða í öryggismálum kallaði eftir nánara norrænu samstarfi um öryggis- og varnarmál. Innlimun Krímskagans hefði skapað óróleika og óskýra mynd af stöðu mála og óskýra mynd af því hvað bæri að gera í stöðunni. Til þess að fá skýrari mynd af þankagangi Pútíns og fylgismanna hans væri gagnlegt að líta til aðdragandans. Staða mála væri sú, ólíkt því sem var á tímum kalda stríðsins, að mörgum Rússum fyndist upplausn Sovétríkjanna og vandkvæði í Georgíu og Úkraínu lítillækkandi og vildu draga til sín Rússa í nærliggjandi löndum. Til að greina stöðu mála þyrfti því að gera ráð fyrir að langtímamarkmið Pútíns væri að styrkja stöðu Rússlands sem stórveldis á fyrrverandi yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Framferði Rússa mætti kalla herskáa mörkunarstefnu (n. offensiv russisk markeringspolitikk), sem hefði verið greinileg nálægt norrænum flugrýmum og í sænska skerjagarðinum. Norðurlöndin þyrftu að gera ráð fyrir að í þessari herskáu mörkunarstefnu mundi Rússland sýna styrk sinn og hernaðarmátt gagnvart nágrönnum sínum. Í viðbrögðum Norðurlanda þyrfti að koma fram skýr afstaða sem sýndi að Norðurlöndin eru sjálfstæð og fullvalda ríki og mæta framandi orrustuþotum eins og áður. Staða mála væri þó sú að hvorki væri mögulegt að skapa öryggi í Evrópu án Rússlands né í mótstöðu við Rússland. Norðurlöndin þyrftu því að viðhalda tvíhliða samskiptahefð við Rússland þrátt fyrir svæðisbundnar viðskiptaþvinganir líkt og gert var á tímum kalda stríðsins.
    Varðandi norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál sagði Stoltenberg að margar af tillögum skýrslu hans hefðu verið framkvæmdar, þeirra mikilvægust um gagnkvæma samstöðuyfirlýsingu. Aðrar væru í farvatninu. Hann sagði að lokum að við núverandi aðstæður þyrftu Norðurlöndin á meiri samstarfi í öryggis- og varnarmálum að halda og lagði til að sett yrði á laggirnar norræn öryggis- og varnarmálanefnd til að leggja mat á hvenær og hvernig tillögurnar yrðu að veruleika. Í þeirri vinnu þyrfti þó alltaf að hafa hugfast að slíkt samstarf kæmi ekki í stað samstarfs í NATO og ESB heldur væri viðbót við það.
    Stjórnsýsluhindranir milli Norðurlanda voru á dagskrá þingsins, þar sem Kristina Persson, samstarfsráðherra Svíþjóðar, flutti skýrslu um vinnu gegn þeim og þar sérstaklega starf Stjórnsýsluhindranaráðsins undir formennsku Sivjar Friðleifsdóttur á þessu ári, formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.
    Stjórnsýsluhindranir voru einnig til umfjöllunar við fyrstu umræðu um þingmannatillögur, þar sem flokkahópur miðjumanna lagði fram tillögu um framkvæmd gerða Evrópusambandsins. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að innleiða þá starfshætti að formennskulandið í Norrænu ráðherranefndinni kanni væntanlega lagagerninga frá ESB og forgangsraði þeim með hliðsjón af því hversu mikil áhrif þeir eru taldir hafa á hreyfanleika á Norðurlöndum og bjóði embættismönnum í ráðuneytum sem fara með framkvæmd þeirra til norræns samráðs um túlkun, ferli og framkvæmd þessara lagagerninga ESB. Tillagan fer nú til umfjöllunar í forsætisnefnd.
    Við fyrstu umræðu um þingmannatillögur var einnig fjallað um tillögu þingmanna úr flokkahópum miðjumanna, jafnaðarmanna og vinstrisósíalista og grænna um aðgerðir til að vinna áfram með hugmyndina um norrænt sambandsríki. Tillagan skóp nokkrar umræður milli fulltrúa flokkahópanna. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að skipa sérfræðingahóp, t.d. með fulltrúum úr háskólum Norðurlanda, til að kanna og móta mismunandi hugmyndir um hvernig norrænt sambandsríki eða ríkjasamband eða mismunandi gerðir nánara svæðisbundins samstarfs gæti litið út og hvernig það gæti starfað með norrænu þjóðþingunum. Tillagan fer nú til umfjöllunar í forsætisnefnd.
    Við umræðu um loftslags- og umhverfismál spunnust miklar umræður milli fulltrúa landsdeilda Noregs, Færeyja, Danmerkur og Svíþjóðar um nefndartillögu umhverfis- og náttúruauðlindanefndar um stjórnun á nýtingu sameiginlegra fiskstofna. Fulltrúar Noregsdeildar Norðurlandaráðs voru mótfallnir því við umfjöllun málsins í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og á þingfundi að málið ætti heima á dagskrá ráðsins.
    Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að undirbúa og hrinda í framkvæmd aðgerðum í því skyni að bæta skilyrði fyrir sjálfbæra langtímastjórnun sameiginlegra fiskstofna í Norður-Atlantshafi. Í nefndaráliti umhverfis- og náttúruauðlindanefndar kom fram að Norðurlandaráð teldi mikilvægt að fundnar verði sjálfbærar langtímalausnir á fiskveiðideilum um makríl og síld, út frá lagalegu og líffræðilegu sjónarhorni, og að deiluaðilar virtust ekki vera reiðubúnir til að finna nýjar lausnir í þeim efnum. Í nefndarálitinu segir enn fremur: „Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs hefur rætt málið reglulega á fundum sínum. Nefndin byggir mat sitt meðal annars á því að samningur Sameinuðu þjóðanna um úthafsveiðar skuldbindur ríki til að vinna saman að því að tryggja sjálfbæra nýtingu og langtímaverndun fiskstofnanna. Samningurinn segir þó lítið um hvernig hlutaðeigandi lönd eiga að skipta með sér kvóta í fiskstofnum sem eru í sameiginlegri eign. Nefndin byggir mat sitt einnig á því að um er að ræða deilur milli norrænna þjóða; Dana sem veiða töluverðan hluta ESB-kvótans, Íslendinga, Færeyinga, Grænlendinga og Norðmanna. Stöðugar og endurteknar fiskveiðideilur geta veikt norrænt samstarf. Nefndin vill benda á að um mikilvægt grundvallarmál er að ræða fyrir Norðurlöndin en það er sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Frá því sjónarhorni eru stjórnlausar veiðar ekki ásættanlegar. Nefndin vill einnig geta þess að í Helsingforssamningnum er kveðið á um að samningsaðilar skuli ráðgast hver við annan um sameiginleg hagsmunamál eins og hér eru á ferðinni. Nefndin telur makríldeilurnar vera til marks um að ýmsu sé ábótavant í umgjörð fiskveiðistjórnunar í NA-Atlantshafi. Fram að þessu hafa fiskveiðisamningar ekki tekið mið af þeim stöðugu breytingum sem eiga sér stað í lífríki hafsins. Hlýnun jarðar örvar væntanlega þær breytingar enn frekar og gerir það að verkum að viðfangsefnum á eftir að fjölga. Nýrrar nálgunar er þörf þegar leitað er sjálfbærra lausna í fiskveiðistjórnun sameiginlegra fiskstofna. Nefndin hefur skilning á því að Norræna ráðherranefndin geti ekki komið að sjálfum sáttaviðræðunum. Nefndin telur þó þörf á samnorrænum aðgerðum sem geti ýtt viðræðunum í rétta átt; hlutlausum vettvangi þar sem fæðast nýjar hugmyndir sem auðveldi deiluaðilum að finna sjálfbærar langtímalausnir. Hugmyndirnar gætu einnig nýst öðrum svæðisbundnum stofnunum, sem fara með stjórnun sameiginlegra fiskistofna, þegar deilur rísa.“
    Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók þátt í umræðunum um tillöguna, sem hann sagðist telja fína, hún styrkti hinn vísindalega grunn að stjórnun fiskveiða. Hann sagðist hins vegar á því að það muni alltaf koma pólitísk ákvörðun að lokum þar sem það væri ábyrgð stjórnmálamanna að standa frammi fyrir einhverri vísindaniðurstöðu og semja síðan. Tillagan var samþykkt.
    Í umfjöllun um samfélags- og heilbrigðismál var til umræðu nefndartillaga menningar- og menntamálanefnd um símenntun. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að láta gera norræna samanburðarkönnun á því hvort hægt sé að marka norræna stefnu í alhliða endur- og framhaldsmenntunaráætlun, helst í anda alþjóðlegra verkefna á við Individual Learning Accounts (ILA) frá Skotlandi.
    Valgerður Gunnarsdóttir var framsögumaður tillögunnar fyrir hönd nefndarinnar. Valgerður sagði í ræðu sinni að mennta- og menningarmálanefnd legði áherslu á að jafnvel þótt ungt fólk hætti í námi eða félli brott úr skóla væri ekki lokað fyrir möguleika þeirra til að koma aftur inn og mennta sig og sérhæfa til mismunandi starfa. Hver einstaklingur væri mikilvægur í atvinnulífinu og samfélaginu og að við hefðum ekki efni á að glata hæfileikum þeirra til að byggja gott samfélag. Valgerður sagði enn fremur að það skipti líka máli fyrir heilbrigði og vellíðan að eiga kost á símenntun því geðræn vandamál og vonleysi fyllti oft fólk sem hætti námi eða félli brott úr skóla og hæfileikar þess glötuðust. Nýjar lausnir væru því mikilvægar, raunhæfar lausnir sem þjónuðu bæði einstaklingum og samfélaginu. Mennta- og menningarmálanefndin liti til Skotlands í þessu tilliti en Skotar hafa þróað með sér símenntunarkerfi sem gerir ráð fyrir að einstaklingar eigi rétt á að afla sér menntunar alla ævi, að sú menntun geti átt sér stað innan atvinnulífsins og að starfsreynsla sé metin til jafns á við nám í skóla. Tillagan var samþykkt.
    Í tengslum við þing Norðurlandaráðs voru árleg verðlaun Norðurlandaráðs veitt við hátíðlega athöfn í ráðhúsinu í Stokkhólmi. Verðlaunin eru fimm; bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Svo bar við að Ísland hreppti tvenn verðlaun í þetta skiptið. Benedikt Erlingsson, leikstjóri og handritshöfundur, og Friðrik Þór Friðriksson framleiðandi hlutu kvikmyndaverðlaunin fyrir myndina Hross í oss og Reykjavíkurborg hlaut náttúru- og umhverfisverðlaunin fyrir umhverfisstarf og umhverfisvæna nýtingu neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með aðstoð jarðhita. Þá hlaut finnlandssænski rithöfundurinn Kjell Westö bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hägring 38, Håkon Øvreås og Øyvind Torseter frá Noregi barna- og unglingabókmenntaverðlaunin fyrir bókina Brune og danska tónskáldið Simon Steen-Andersen tónlistarverðlaunin fyrir verkið Black Box Music.
    Sænska ríkissjónvarpið tók upp verðlaunaafhendinguna og sýndi sérstakan þátt með viðtölum við verðlaunahafana og svipmyndum frá athöfninni tveimur dögum síðar. Þátturinn, sem fékk heitið Úrval Norðurlanda (sæ. Nordens bästa), var einnig sýndur á norrænu ríkissjónvarpsstöðvunum dagana í kjölfarið.
    Í lok Norðurlandaráðsþings var kosið í nefndir og embætti ráðsins fyrir næsta ár. Nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs verður með þeim hætti árið 2015 að Höskuldur Þórhallsson og Guðbjartur Hannesson verða í forsætisnefnd, Valgerður Gunnarsdóttir í menningar- og menntamálanefnd og eftirlitsnefnd, Elín Hirst í borgara- og neytendanefnd, Róbert Marshall í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Steingrímur J. Sigfússon í efnahags- og viðskiptanefnd og kjörnefnd og Jóhanna María Sigmundsdóttir í velferðarnefnd.
    Íslendingar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2015. Tveir sóttust eftir embætti forseta fyrir árið 2015, Höskuldur Þórhallsson og Steingrímur J. Sigfússon. Samkvæmt starfsreglum Norðurlandaráðs tilnefna landsdeildir frambjóðendur til forseta og varaforseta og hefð er fyrir því að kjörnefnd Norðurlandaráðs fylgi tilnefningu landsdeilda og geri tillögu um það til þingfundar sem kýs í embættin. Íslandsdeild Norðurlandaráðs tilnefndi samkvæmt meirihlutaákvörðun Höskuld Þórhallsson til forseta og Guðbjart Hannesson til varaforseta eftir atkvæðagreiðslu á fundi nefndarinnar þar sem tillögur voru gerðar um að tilnefna til forseta Höskuld annars vegar og Steingrím hins vegar. Höskuldur hlaut 5 atkvæði og Steingrímur 2 atkvæði. Kjörnefnd Norðurlandaráðs fylgdi tilnefningunni og gerði tillögu um Höskuld og Guðbjart til þingfundar. Þingflokkur vinstrisósíalista og grænna kallaði eftir atkvæðagreiðslu á þingfundinum milli Höskuldar og Steingríms með þeim rökum að tímabært væri að forseti ráðsins kæmi úr röðum flokkahóps vinstrisósíalista og grænna þar sem 12 ár væru liðin frá því að það hefði gerst síðast og flokkahópurinn ætti tæplega 10% fulltrúa í ráðinu. Á fundi kjörnefndar og á þingfundi var ítrekað að tilnefning til forseta væri á forræði landsdeilda. Gengið var til atkvæða á þingfundinum í fyrsta skipti um embætti forseta og fór atkvæðagreiðslan þannig að Höskuldur fékk 52 atkvæði og Steingrímur 9. Guðbjartur Hannesson var kosinn varaforseti.
    Eftir kjörið tók Höskuldur Þórhallsson til máls og þakkaði það traust sem honum og Guðbjarti Hannessyni væri sýnt. Höskuldur reifaði í megindráttum formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði á næsta ári sem hefði þrjú áherslusvið. Í fyrsta lagi alþjóðlegt samfélag sem fjallaði um utanríkis-, öryggis- og varnarmál, norðurslóðir, verslun, Vestur-Norðurlönd og granna í vestri. Í öðru lagi velferðarsamfélag sem fjallaði um eftirfylgni Könberg-skýrslunnar og lýðheilsu. Í þriðja lagi borgaralegt samfélag sem fjallaði um norræn frjáls félagasamtök og stjórnsýsluhindranir. Að lokum þakkaði Höskuldur sænsku landsdeildinni, forseta Norðurlandaráðs, Hans Wallmark, og varaforseta, Phiu Andersson, og skrifstofu sænsku landsdeildarinnar og skrifstofu Norðurlandaráðs fyrir mjög vel heppnað Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi og bauð þátttakendur velkomna að ári til Norðurlandaráðsþings í Reykjavík.

6. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins.
    Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins, Baltic Sea Parliamentary Conference – BSPC, var haldin í Olsztyn í Póllandi 24.–26. ágúst undir yfirskriftinni „Eystrasaltið: Leit að samhljómi.“ Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu ráðstefnuna Elín Hirst, Helgi Hjörvar og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Helstu mál til umfjöllunar voru samvinna á Eystrasaltssvæðinu, hefð og áskoranir í umhverfismálum, menningararfur Eystrasaltssvæðisins og sókn Eystrasaltssvæðisins til samhljóms og sjálfbærrar framtíðar.
    Næsta þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins, sú 24. í röðinni, verður í landsþingi Mecklenburg-Vorpommern í Þýskalandi 24. ágúst – 1. september 2015.

7. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þúsund danskar krónur.
    Verðlaun ráðsins 2014 voru afhent við glæsilega athöfn í ráðhúsinu í Stokkhólmi 29. október í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Afhending verðlaunanna fór fram með þeim hætti að öllum tilnefndum var boðið til athafnarinnar og tilkynnt um verðlaunahafa og verðlaun afhent samtímis. Verðlaunahafar Norðurlandaráðs frá 2013 afhentu verðlaunin, verðlaunastyttuna Norðurljós.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu Norðurlandamálanna. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk og verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Finnlandssænski rithöfundurinn Kjell Westö hlaut bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs 2014 fyrir skáldsöguna „Hägring 38“. Verðlaunahafi 2013, Kim Leine, afhenti honum verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndarinnar segir: „Finnski rithöfundurinn Kjell Westö hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna „Hägring 38“, sem skapar sterka tilfinningu fyrir andrúmslofti á örlagaríkum stundum í sögu Finnlands sem jafnframt teygja anga sína til nútímans.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Danska tónskáldið Simon Steen-Andersen hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2014 fyrir verkið „Black Box Music“. Verðlaunahafi 2013, Pekka Kuusisto, afhenti honum verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Með „Black Box Music“ hefur Simon Steen-Andersen (fæddur 1976), sem er nýskapandi tónskáld, skapað einstakt og ákaflega frumlegt verk. Simon Steen-Andersen leikur sér af snilld á mörkum tónsköpunar, innsetningar, raftækni og gjörninga. „Black Box Music“ er ögrandi framúrstefnutónlist sem eru engu öðru lík, en þó þarf enga forkunnáttu til upplifa hana. Það er sérstakt að ákaflega persónuleg tjáning Simon Steen-Andersens skuli hafa náð svo mikilli útbreiðslu alþjóðlega. Verk hans eru leikin af tónlistarmönnum og á hátíðum um allan heim, frá Sjanghæ til Suður-Ameríku og Evrópu. „Black Box Music“ heillar áheyrandann með stjórnlausri geggjun; hún er spaugsöm, þokkafull og ólgar af sköpunarkrafti. „Black Box Music“ uppfyllir þau skilyrði sem sett voru á þessu ári fyrir veitingu Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs: Þetta er verk í háum listrænum gæðaflokki sem telja má frumlegt innan sinnar tónlistargreinar. Uppbygging verksins er skýr og í þriðja þætti er ýmislegt sem skapað er við flutning verksins.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar.
    Reykjavíkurborg hlaut náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014. Verðlaunahafi 2013, Selina Juul, afhenti verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Reykjavíkurborg hlýtur verðlaunin fyrir víðtækt og markvisst starf sveitarfélagsins að umhverfismálum. Það sama má segja um ýmsa aðra af þeim sem tilnefndir voru, en Reykjavíkurborg hefur einnig gert ýmislegt sem hún er ein um og sem getur orðið öðrum innblástur. Reykjavík hefur náð góðum árangri á mörgum sviðum. Íbúafjöldinn og landfræðileg lega borgarinnar hefur hjálpað til, en mikið af því markverðasta sem gert hefur verið má rekja til aðdáunarverðra og markvissra aðgerða. Í Reykjavík hefur um langt skeið verið unnið að þróun umhverfisvænnar nýtingar neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita. Borgin hefur jafnframt framfylgt þeirri stefnu að nota svæði sem ekki eru nýtt til annars, eða þar sem á að byggja síðar, í „grænum“ tilgangi til að koma í veg fyrir að þau verði gerð að bílastæðum. Og þrátt fyrir að Reykjavík sé lítil borg ganga 87% ökutækja sveitarfélagsins fyrir rafmagni eða gasi. Við vitum ekki af neinum sveitarfélögum sem hafa nálægt því eins umhverfisvænan bílaflota. Reykjavíkurborg hefur um langt skeið átt í samstarfi um eftirlit og verndun vatnsbóla og er nú eina höfuðborg Norðurlanda þar sem öll hús hafa aðgang að ómeðhöndluðu drykkjarvatni í háum gæðaflokki. Vegna þess víðtæka umhverfisstarfs sem innt er af hendi með langtímasjónarmið að leiðarljósi, markvissrar vinnu með umhverfisvæna nýtingu neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita er Reykjavíkurborg verðugur handhafi Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2014.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi þess árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    Benedikt Erlingsson, leikstjóri, og Friðrik Þór Friðriksson, framleiðandi, hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndina „Hross í oss“. Verðlaunahafi 2013, Sisse Graum Jørgensen, afhenti verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „„Hross í oss“ er sérlega frumleg mynd með rætur í kjarnyrtum húmor Íslendingasagnanna. Hún fjallar um um þau sterku bönd sem eru á milli manna og náttúrunnar. Kjarni samtvinnaðra frásagna myndarinnar er eilíf barátta mannsins við að beisla náttúruna og hvernig það misheppnast á aumkunarverðan hátt, oft með hrikalegum afleiðingum. Leikstjórinn hefur djúpan skilning á frumkröftum hrossa og manna. Með því að nota augnaráð skepnu sem eitt helsta sjónarhornið til að endurspegla grátbroslega hegðun manna fær „Hross í oss“ sérstæðan ljóðrænan blæ en líka svartan, spaugsaman tón. Benedikt Erlingsson leikstjóri fléttar saman kraftmikið myndmál, klippingu og tónlist þannig að myndin sjálf verður eins og náttúruafl.“

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2013. Verðlaunin skulu veitt á hverju ári fyrir bókmenntaverk sem er skrifað fyrir börn og ungmenni á einu af tungumálum norrænu landanna. Bókmenntaverkin geta verið í formi ljóða, prósa eða leikrits, samspil texta og mynda eða annað verk sem uppfyllir miklar bókmenntalegar og listrænar kröfur.
    Norski rithöfundurinn Håkon Øvreås og Øyvind Torseter, myndskreytir, hlutu barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2014 fyrir bókina „Brune“. Verðlaunahafar 2013, Seita Vuorela og Jani Ikonen, afhentu verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Brune er hlý og sterk saga af vináttu og hugrekki. Hún er full af hugvitssemi og töfrum hversdagslífsins. Þetta er skemmtileg frásögn af því hvernig er að vera framtakssamur lítill strákur þegar stríðnispúkarnir sem ofsækja mann gefast ekki upp, en þetta er líka bók um söknuð og það að standa andspænis dauðanum – og því er fallega lýst án óþarfrar viðkvæmni. Samtölin eru trúverðug og skemmtileg. Setningarnar eru einfaldar en oft býr meira að baki en virðist við fyrstu sýn. Yfirnáttúrulegum þáttum er fléttað inn á snjallan og eðlilegan hátt. Myndskreytingarnar undirstrika stemmninguna og lágstemmdan húmorinn í textanum. Farið er sparlega með litina en þeir eru notaðir á áhrifaríkan hátt. Sem barnabók fyllir Brune upp í tómarúm sem er á milli bóka fyrir yngstu börnin og unglingabóka. Þetta er góð frásögn á sígildan mælikvarða, en um leið hjálpar hún til við að endurnýja norska og norræna frásagnarhefð fyrir börn.“

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2015.
    Íslendingar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2015. Höskuldur Þórhallsson var kosinn forseti ráðsins 2015 á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi 2014 og Guðbjartur Hannesson varaforseti. 67. þing Norðurlandaráðs verður haldið í Reykjavík 27.–29. október 2015 og vorþingfundur ráðsins með áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda verður 25.–26. mars 2014 í Brussel.
    Íslenska formennskuáætlunin í Norðurlandaráði árið 2015 horfir til framtíðar og vill stuðla að því að búa íbúum og fyrirtækjum Norðurlanda sem best skilyrði. Áætlunin hefur þrjú áherslusvið. Fyrsta áherslusviðið er alþjóðlegt samfélag, þar sem sjónum er beint að utanríkis-, öryggis- og varnarmálum annars vegar og norðurslóðum, Vestur-Norðurlöndum og grönnum í vestri hins vegar. Íslendingar vilja halda áfram á sömu braut sem fetuð hefur verið síðustu ár til að stuðla að stöðugleika og lýðræðisþróun á nærsvæðum Norðurlanda til framtíðar, stuðla að umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda í Norðurlandaráði og kanna samstarfsmöguleika við granna í vestri.
    Annað áherslusviðið er velferðarsamfélag, þar sem fjallað er um framtíðarsamstarf í heilbrigðismálum og lýðheilsu. Markmið íslensku formennskunnar er að fylgja Könberg-skýrslunni eftir til að efla norrænt samstarf um heilbrigðismál til framtíðar og huga að þróun lýðheilsu á Norðurlöndum til lengri tíma og kanna hvað hægt sé að gera frekar sameiginlega á norrænum vettvangi til að sporna við útbreiðslu langvinnra ósmitnæmra sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, krabbamein og sykursýki.
    Þriðja áherslusviðið er borgaralegt samfélag þar sem lögð er áhersla á norræn félagasamtök og stjórnsýsluhindranir. Íslenska formennskan vill stuðla að áframhaldandi öflugri starfsemi norrænu félaganna og annarra norrænna félagasamtaka á næstu áratugum og veita stjórnsýsluhindrunum sérstaka athygli þar sem hreyfanleiki ungs fólks vegna menntunar, starfsreynslu og vinnu er mikilvægur til að stuðla að áframhaldandi tengslum almennings og fyrirtækja á Norðurlöndum þvert á landamæri, sem er grundvöllur norræns samstarfs til framtíðar.

Alþingi, 27. janúar 2015.

Höskuldur Þórhallsson,
form.
Valgerður Gunnarsdóttir,
varaform.
Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Elín Hirst. Helgi Hjörvar. Steingrímur J. Sigfússon.
Róbert Marshall.



Fylgiskjal.


Tilmæli Norðurlandaráðs árið 2014.


Tilmæli samþykkt á þingfundi 8. apríl 2014.
          Tilmæli 1/2014: Viðmið fyrir sjálfbæran námurekstur á Norðurlöndum (A 1583/näring).
          Tilmæli 2/2014: Notkun bestu fáanlegrar tækni (BAT) í skolphreinsunarstöðvum (WWTP) í Eystrasalti (A 1609/miljø).
          Tilmæli 3/2014: Norrænt snjalldreifikerfi fyrir raforku (A 1570/näring).
          Tilmæli 4/2014: Norðurlöndin brúi bil milli iðnríkja og þróunarríkja í alþjóðlegu loftslagsviðræðunum (A 1612/miljø).
          Tilmæli 5/2014: Fiskeldi í hringrásarkerfum (A 1594/näring).
          Tilmæli 6/2014: Endurskoðun á norrænum tvísköttunarsamningi (A 1606/medborger).
          Tilmæli 7/2014: Farið yfir skattamál norskra ellilífeyrisþega (A 1606/medborger).
          Tilmæli 8/2014: Aukin áhersla á réttindi barna í norrænu samstarfi (A 1590/medborgar).
          Tilmæli 9/2014: Gæðamerki fyrir jafnræði og jafnrétti í leikskólum og grunnskólum (A 1608/medborger).
          Tilmæli 10/2014: Útivist barna og ungmenna á Norðurlöndum (A 1617/kultur).

Tilmæli samþykkt í forsætisnefnd.
          Tilmæli 11/2014: Tískuhönnun og markaðssetning Norðurlanda (A 1610/näring).
          Tilmæli 12/2014: Norðurlönd sem áfangastaður ferðamanna (A 1611/näring).
          Tilmæli 13/2014: Samstarf innan ferðaþjónustu á Norðurlöndum (A 1611/näring).
          Tilmæli 14/2014: Norræni sáttmálinn frá 14. júní 1994 um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu (A 1614/medborger).
          Tilmæli 15/2014: Bættar aðstæður til vefnaðarvöruframleiðslu í láglaunalöndum (A 1613/medborger).
          Tilmæli 16/2014: Aðild að sáttmála og samningum um vefnaðarvöruframleiðslu í láglaunalöndum (A 1613/medborger).

Tilmæli samþykkt á þingfundi 28.–30. október 2014.
          Tilmæli 17/2014: Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2015 (B 297/præsidiet).
          Tilmæli 18/2014: Ný samstarfsáætlun um málefni norðurskautssvæðisins (B 298/præsidiet).
          Tilmæli 19/2014: Beiting 8 ára-reglunnar (A 1616/KK).
          Tilmæli 20/2014: Stjórnun sameiginlegra fiskistofna (A 1625/miljø).
          Tilmæli 21/2014: Orkugeymsla sem stefnumótunartæki í loftslagsmálum (A 1620/miljø).
          Tilmæli 22/2014: Langtímaaðgerðir til að hefta útbreiðslu marðarhundsins (A 1595/ miljø).
          Tilmæli 23/2014: Taka undir viljayfirlýsingu um samstarf til að koma í veg fyrir útbreiðslu marðarhundsins (A 1595/miljø).
          Tilmæli 24/2014: Þróun og efling norræns samstarfs um ágeng rándýr í hópi spendýra á Norðurlöndum (A 1595/miljø).
          Tilmæli 25/2014: Sjálfbærnivottun ferðamannastaða (A 1621/miljö).
          Tilmæli 26/2014: Símenntun (A 1627/kultur).
          Tilmæli 27/2014: Efling norræns samstarfs um keppnis- og almenningsíþróttir (A 1628/ kultur).
          Tilmæli 28/2014: Mikilvægi tungumálaskilnings fyrir hreyfanleika á sameiginlegum vinnumarkaði (A 1632/näring).
          Tilmæli 29/2014: Ný samstarfsáætlun um samstarf í jafnréttismálum 2015–2018 (B 299/ medborger).

Tilmæli samþykkt í forsætisnefnd.
          Tilmæli 30/2014: Efling barna- og ungmennastefnu í norrænu samstarfi (A 1629/medborgar).
          Tilmæli 31/2014: Viðburður í tilefni norræns útivistarárs 2015 (A 1638/kultur).
          Tilmæli 32/2014: Samstarfsáætlun löggjafarsviðs 2015–2019 (B 300/medborgar).