Ferill 425. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 989  —  425. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti, ásamt Kjartani Ingvarssyni og Sigríði Svönu Helgadóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Engar umsagnir hafa borist utanríkismálanefnd vegna málsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 75/2013, frá 3. maí 2013, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010, frá 20. október 2010, um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað, framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 363/2012, frá 23. febrúar 2012, um reglur um málsmeðferð við viðurkenningu og afturköllun á viðurkenningu fyrir vöktunarstofnanir eins og kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010, og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 607/2012, frá 6. júlí 2012, um ítarlegar reglur varðandi kerfi áreiðanleikakannana og varðandi tíðni og eðli eftirlits með vöktunarstofnunum sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 995/2010. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 3. nóvember 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Markmið reglugerðanna er að stemma stigu við ólöglegu skógarhöggi og tengdum viðskiptum. Kveðið er á um bann við markaðssetningu slíks timburs og timburvara innan Evrópska efnahagssvæðisins. Notast verður við sérstakt aðgátskerfi þegar vara er fyrst markaðssett á EES-svæðinu til þess að koma í veg fyrir að ólöglega höggvið timbur eða timburvörur rati á markað. Þá er aðilum sem selja timbur og timburvörur gert að tryggja rekjanleika vörunnar. Ríki skulu tilnefna lögbært yfirvald til þess að hafa eftirlit með því að ákvæðum reglugerðanna sé fylgt eftir. Þá skulu ríki jafnframt sjá til þess að viðurlög við brotum á reglugerðunum séu skilvirk.
    Stefnt er að framlagningu frumvarps á yfirstandandi löggjafarþingi sem mun veita lagastoð fyrir innleiðingu gerðanna í formi reglugerðar. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að reglurnar munu helst hafa áhrif á framleiðendur timburs og timburvara, innflytjendur, dreifendur og aðra rekstraraðila sem koma að sölu timburs og timburvara. Rekstraraðilar munu standa frammi fyrir kostnaði vegna skyldu þeirra til að viðhafa áreiðanleika og beita ákveðnum verklagsreglum við markaðssetningu timburs og timburvara. Að auki leiða gerðirnar til aukinna verkefna fyrir hið opinbera í formi eftirlits. Nákvæmt kostnaðarmat allra þátta bíður undirbúnings innleiðingarfrumvarps og tilheyrandi samráðs við hagsmunaaðila. Gerðirnar munu leiða til þess að neytendur verða betur upplýstir um uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa, en mikilvægt er að slíkt hafi ekki í för með sér ótilhlýðilega hækkun á vöruverði. Því leggur nefndin áherslu á að kostnaði verði haldið í lágmarki eins og frekast er kostur við útfærslu skuldbindinganna hér á landi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. febrúar 2015.

Birgir Ármannsson,
form., frsm.
Ásmundur Einar Daðason. Vilhjálmur Bjarnason.
Elín Hirst. Frosti Sigurjónsson. Katrín Jakobsdóttir.
Óttarr Proppé. Silja Dögg Gunnarsdóttir.