Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1052  —  608. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014, frá 12. desember 2014, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014, frá 12. desember 2014, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna.
    Gerðin kveður á um reglur sem takmarka aðgengi almennings að efnum eða efnablöndum sem má nota til að framleiða ólögleg sprengiefni. Einnig er stefnt að því tryggja tilkynningu á grunsamlegum viðskiptum með tiltekin efni.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir, en þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæði beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna.
    Með reglugerðinni er komið á samræmdum reglum um aðgengi, markaðssetningu, umráð og notkun efna eða efnablandna sem nota má til að framleiða ólögleg sprengiefni í þeim tilgangi að takmarka aðgengi almennings að þeim. Einnig er með gerðinni stefnt að því að tryggja tilkynningu á grunsamlegum viðskiptum með tiltekin efni.
    Notuð er sú aðferð að gera ólöglega framleiðslu sprengiefnis erfiðari með því að mæla fyrir um leyfileg styrkleikamörk fyrir tiltekin forefni sprengiefna, og eru viðkomandi efni listuð í viðauka I við gerðina. Sjö efni eru listuð í viðkomandi viðauka ásamt styrkleikamörkum og er þannig frjáls dreifing þessara efna undir styrkleikamörkunum tryggð. Hins vegar skal takmarka aðgang almennings að þessum efnum þegar þau eru yfir styrkleikamörkunum. Ríki geta valið hvort þau gera efni yfir tilteknum styrkleika sem og tiltekin efni aðgengileg almenningi. Ákveði þau að gera það skal koma upp skráningarkerfi þar sem sala er skráð á tiltekin leyfi sem lögbært yfirvald hefur gefið út. Það þýðir að almenningur getur ekki orðið sér úti um, flutt inn, haft í vörslu sinni eða notað þessi forefni sprengiefna í styrkleika sem er yfir mörkunum, nema að fengnu sérstöku leyfi og er í gerðinni kveðið á um slíkar leyfisveitingar.
    Þá er í gerðinni listuð átta efni í viðauka II sem tilkynningarskylda gildir um ef grunsamleg viðskipti eiga sér stað með þau. Þetta á til dæmis við þegar tilvonandi viðskiptavinur er óskýr að því er varðar fyrirhugaða notkun, virðist ekki vita hver hún er eða getur ekki útskýrt það svo trúanlegt sé, hyggst kaupa efni í óvenjulegu magni, óvenjulegum styrkleika eða óvenjulegri samsetningu, er ekki viljugur til að sýna fram á hver hann er eða gefa upp búsetu eða fer fram á að greiða með óvenjulegum hætti. Rekstraraðilar skulu einnig geta áskilið sér rétt til að hafna slíkum viðskiptum. Í gerðinni er að finna ákvæði um vernd persónuupplýsinga vegna slíkra tilkynninga. Þá skulu yfirvöld útnefna landsbundinn tengilið vegna tilkynninga um grunsamleg viðskipti.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 98/2013 kallar á breytingar á vopnalögum, nr. 16/1998. Gert er ráð fyrir því að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum, en framlagning mun þó ekki nást á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Búist er við að áhrif vegna innleiðingar gerðarinnar hérlendis verði óveruleg. Alla jafna þarf almenningur ekki á þeim efnum að halda sem aðgangur er takmarkaður að. Engu að síður yrði nauðsynlegt að skrá sölu þeirra efna sem tiltekin eru í gerðinni. Því er gert ráð fyrir að nokkur kostnaður verði af því að koma upp því skráningarkerfi sem um ræðir.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 269/2014

frá 12. desember 2014

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna ( 1 ).

2)        II. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði II. viðauka við EES-samninginn breytist sem hér segir:

     1.      Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 12zzp (framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 414/2013) í XV. kafla:

             „12zzq.         32013 R 0098: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna (Stjtíð. ESB L 39, 9.2.2013, bls. 1).“

     2.      Eftirfarandi liður bætist við á eftir 5. lið (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/ EB) í XXIX. kafla:

             „6.                  32013 R 0098: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna (Stjtíð. ESB L 39, 9.2.2013, bls. 1).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti reglugerðar (ESB) nr. 98/2013, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 13. desember 2014, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 12. desember 2014.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Kurt Jäger

formaður.





Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (ESB) nr. 98/2013
frá 15. janúar 2013
um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 114. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
eftir að hafa lagt drög að lagagerð fyrir þjóðþingin,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins ( 1 ),
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tiltekin efni og blöndur eru forefni sprengiefna og hægt er að misnota þau til ólöglegrar framleiðslu sprengiefna. Í aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um að auka öryggi sprengiefna, sem ráðið samþykkti 18. apríl 2008, er framkvæmdastjórnin hvött til að skipa fastanefnd um forefni sem á að taka til athugunar ráðstafanir og undirbúa tilmæli í tengslum við reglur um forefni sprengiefna, sem eru fáanleg á markaði, með tilliti til kostnaðarhagkvæmni þeirra.
2)          Fastanefndin um forefni, sem framkvæmdastjórnin kom á fót árið 2008, auðkenndi mörg forefni sprengiefna sem hægt er að nota til að gera hryðjuverkaárásir og lagði til að gripið yrði til viðeigandi aðgerða á vettvangi Sambandsins.
3)          Sum aðildarríki hafa nú þegar samþykkt lög og stjórnsýslufyrirmæli varðandi setningu á markað, aðgengileika og vörslu tiltekinna forefna sprengiefna.
4)          Þessi lög og stjórnsýslufyrirmæli, sem eru mismunandi og líkleg til að valda viðskiptahindrunum innan Sambandsins, skulu samræmd til að bæta frjálsa dreifingu hreinna efna og blandna á innri markaðnum og, að því marki sem mögulegt er, að útrýma röskun á samkeppni á sama tíma og almenningi er tryggð víðtæk vernd með tilliti til öryggis. Mælt hefur verið fyrir um aðrar reglur á landsvísu og á vettvangi Sambandsins að því er varðar tiltekin efni, sem falla undir þessa reglugerð, sem varða öryggi starfsmanna og verndun umhverfisins. Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á þessar reglur.
5)          Reglugerð er sá lagagerningur sem best á við til að setja reglur um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna í því skyni tryggja sem best að samræmis sé gætt fyrir rekstraraðila.
6)          Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1272/2008 frá 16. desember 2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og blandna ( 3 ) er kveðið á um að efni og blöndur, sem eru flokkuð sem hættuleg, skuli vera rétt merkt áður en þau eru sett á markað. Enn fremur er þar kveðið á um að rekstraraðilar, þ.m.t. smásalar, skuli annaðhvort flokka og merkja slík efni eða treysta á flokkunina sem aðili á fyrra stigi í aðfangakeðjunni (e. upstream actor) hefur þegar gert. Því er viðeigandi að kveða á um í þessari reglugerð að allir rekstraraðilar, þ.m.t. smásalar, sem veita almennum borgurum aðgang að efnum sem sæta takmörkunum samkvæmt þessari reglugerð, tryggi að umbúðir þeirra gefi til kynna að öflun, varsla eða notkun almennra borgara á þessu efni eða þessari blöndu sé háð takmörkunum.
7)          Í því skyni að ná vernd gegn ólöglegri notkun forefna sprengiefna á landsvísu, sem er sambærileg eða betri en gert er ráð fyrir að náist á vettvangi Sambandsins með þessari reglugerð, hafa sum aðildarríki nú þegar í gildi lög og stjórnsýslufyrirmæli að því er varðar sum efni sem hægt er að nota ólöglega. Sum þessara efna eru nú þegar tilgreind í þessari reglugerð á meðan önnur gætu sætt takmörkunum á vettvangi Sambandsins í framtíðinni. Þar sem það gengur gegn markmiðum þessarar reglugerðar að ráðstafanir á vettvangi Sambandsins dragi úr verndun er viðeigandi að kveða á um kerfi þar sem slíkar landsráðstafanir geta haldið gildi sínu (verndarákvæði).
8)          Gera skal ólöglega framleiðslu sprengiefnis erfiðari með því að mæla fyrir um gildi fyrir styrkleikamörk að því er varðar tiltekin forefni sprengiefna. Frjáls dreifing forefna sprengiefna, sem eru undir þessum styrkleikamörkum, er þá tryggð, með fyrirvara um verndarráðstafanir, en takmarka skal aðgang almennings að forefnum sprengiefna, sem eru yfir þessum styrkleikamörkum.
9)          Almennir borgarar skulu því ekki geta orðið sér úti um, flutt inn, haft í vörslu sinni eða notað þessi forefni sprengiefna í styrkleika sem er yfir þessum mörkum. Þó þykir rétt að kveða á um að almennir borgarar geti orðið sér úti um, flutt inn, haft í vörslu sinni eða notað slík forefni sprengiefna í lögmætum tilgangi, aðeins ef leyfi til þess er fyrir hendi.
10)          Í ljósi þess að í sumum aðildarríkjum eru nú þegar föst í sessi skráningarkerfi, sem eru notuð til að hafa eftirlit með hvort sum eða öll efni, sem sæta takmörkunum samkvæmt þessari reglugerð og sem almennir borgarar eiga ekki að hafa aðgang að, séu gerð aðgengileg á markaði þykir enn fremur rétt að kveða í þessari reglugerð á um skráningarkerfi, sem gildir fyrir sum eða öll þessi efni.
11)          Vetnisperoxíð, nítrómetan og saltpéturssýra eru víða notuð af almennum borgurum í lögmætum tilgangi. Það ætti því að vera mögulegt fyrir aðildarríki að veita aðgang að þessum efnum, innan ákveðins styrkbils, með því að nota skráningarkerfi samkvæmt þessari reglugerð frekar en að notast við leyfisveitingakerfi.
12)          Í ljósi afar sértæks viðfangsefnis þessarar reglugerðar, er mögulegt að ná markmiðum hennar á sama tíma og aðildarríkjunum er veittur sveigjanleiki, í samræmi við nálægðarregluna og meðalhófsregluna, til að velja hvort þau vilji veita almennum borgurum takmarkaðan aðgang í samræmi við þessa reglugerð.
13)          Í því skyni að stuðla að lögmætum markmiðum almannaöryggis á sama tíma og tryggð er lágmarksröskun á eðlilegri starfsemi innri markaðarins þykir rétt að kveða á um leyfisveitingakerfi, sem gerir almenningi, sem hefur orðið sér úti um efni, sem sætir takmörkunum samkvæmt þessari reglugerð og sem almennir borgarar eiga ekki að hafa aðgang að, eða blöndu eða efni, sem inniheldur þetta efni, í styrkleika sem er yfir viðmiðunarmörkunum, kleift að flytja það inn frá öðru aðildarríki eða frá þriðja landi inn í aðildarríki, sem heimilar aðgang að efninu í samræmi við eitthvert þeirra kerfa, sem kveðið er á um í þessari reglugerð.
14)          Til þess að framkvæma með skilvirkum hætti ákvæði um innflutning á forefnum sprengiefna eru aðildarríki hvött til þess að tryggja að vakin sé athygli ferðamanna á þeim takmörkunum sem eru í gildi í tengslum við innflutning á efnum sem sæta takmörkunum samkvæmt þessari reglugerð og sem eiga almennir borgarar eiga ekki að hafa aðgang að. Af sömu ástæðu eru aðildarríki einnig hvött til að tryggja að almenningi sé gert ljóst að þessar takmarkanir gilda einnig um sendingar í litlu magni til einstaklinga og sendingar sem lokaneytendur panta í fjarsölu.
15)          Upplýsingar, sem aðildarríkin veita iðnaðinum, einkum litlum og meðalstórum fyrirtækjum, geta verið mikilvægar til að greiða fyrir því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar, með hliðsjón af mikilvægi þess að lágmarka stjórnsýslubyrðar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
16)          Þar sem það væri óhóflegt að banna notkun forefna sprengiefna í atvinnustarfsemi gilda takmarkanir, sem varða aðgengileika, innflutning, vörslu og notkun forefna sprengiefna, aðeins um almenning. Í ljósi almennra markmiða þessarar reglugerðar þykir samt sem áður rétt að kveða á um tilkynningakerfi, sem nær bæði til atvinnunotenda í allri aðfangakeðjunni og almennra borgara, sem tekur þátt í viðskiptum, sem eðli síns vegna eða umfangs, verða að teljast grunsamleg. Í því skyni skulu aðildarríkin koma á fót landsbundnum tengiliðum vegna tilkynninga um grunsamleg viðskipti.
17)          Ýmiss konar viðskipti í tengslum við forefni sprengiefna geta talist grunsamleg og ber því að tilkynna slík viðskipti. Þetta á t.d. við um þegar tilvonandi viðskiptavinur (hvort sem viðkomandi er fagaðili eða ekki) er óskýr að því er varðar fyrirhugaða notkun, virðist ekki vita hver fyrirhuguð notkun er eða getur ekki útskýrt það svo trúanlegt sé, hyggst kaupa efni í óvenjulegu magni, óvenjulegum styrkleika eða óvenjulegri samsetningu, er ekki viljugur til að sýna fram á hver hann er eða gefa upp búsetustað sinn eða fer fram á að greiða með óvenjulegum hætti, þ.m.t. háar fjárhæðir í reiðufé. Rekstraraðilar skulu geta áskilið sér rétt til að hafna slíkum viðskiptum.
18)          Í ljósi almennra markmiða þessarar reglugerðar eru lögbær yfirvöld hvött til að tilkynna viðkomandi landsbundnum tengiliði um allar synjanir umsókna um leyfi þegar synjunin er byggð á gildum ástæðum sem leiða til þess að lögmæti fyrirhugaðrar notkunar eða fyrirætlanir notandans eru dregnar í efa. Á sama hátt eru lögbær yfirvöld hvött til að tilkynna landsbundnum tengilið ef leyfi er fellt tímabundið úr gildi eða afturkallað.
19)          Til þess að koma í veg fyrir og uppljóstra hugsanlegri ólöglegri notkun forefna sprengiefna er æskilegt að landsbundnir tengiliðir haldi skrár yfir þau grunsamlegu viðskipti sem tilkynnt er um og að lögbær yfirvöld geri nauðsynlegar ráðstafanir til að rannsaka raunverulegar aðstæður, þ.m.t. hvort viðkomandi atvinnustarfsemi sem stunduð er af atvinnunotanda, sem tekur þátt í grunsamlegum viðskiptum, sé réttmæt.
20)          Þegar mögulegt er skal setja gildi fyrir styrkleikamörk, en yfir þeim er aðgangur að tilteknum forefnum sprengiefna takmarkaður, á meðan aðeins skal tilkynna um grunsamleg viðskipti að því er varðar tiltekin önnur forefni sprengiefna. Þær viðmiðanir, sem nota á til að ákvarða hvaða ráðstöfunum skuli beita á hin ýmsu forefni sprengiefna, fela m.a. í sér hættustigið sem tengist hlutaðeigandi forefni sprengiefna, umfang viðskipta með hlutaðeigandi forefni sprengiefna og möguleikann á því að ákvarða undir hvaða styrkleikamörkum er enn hugsanlegt að nota þetta forefni sprengiefna í þeim lögmæta tilgangi sem það er aðgengilegt fyrir. Þessar viðmiðanir skulu áfram vera til leiðbeiningar fyrir frekari aðgerðir sem gæti þurft að grípa til að því er varðar forefni sprengiefna, sem falla nú sem stendur ekki undir gildissvið þessarar reglugerðar.
21)          Ekki er tæknilega mögulegt að setja gildi fyrir styrkleikamörk hexamíns í eldsneytistöflum. Að auki er hægt að nota brennisteinssýru, aseton, kalíumnítrat, natríumnítrat, kalsíumnítrat og kalsíumammóníumnítrat til lögmætra nota af ýmsu tagi. Reglugerð á vettvangi Sambandsins um takmörkun á sölu þessara efna til almennings myndi leiða til óhóflega mikils stjórnsýslukostnaðar og kostnaðar við að fylgja reglum fyrir neytendur, opinber yfirvöld og fyrirtæki. Í ljósi markmiða þessarar reglugerðar, skulu ráðstafanir samt sem áður samþykktar til að auðvelda tilkynningu grunsamlegra viðskipta að því er varðar hexamíneldsneytistöflur og að því er varðar önnur forefni sprengiefna, þar sem engin heppileg og örugg staðgönguefni eru til.
22)          Þjófnaður á forefnum sprengiefna er aðferð til að ná í upphafsefni fyrir ólöglega framleiðslu sprengiefna. Því er rétt að kveða á um að þjófnaður eða hvarf efna í umtalsverðu magni, sem falla undir ráðstafanir samkvæmt þessari reglugerð, verði að tilkynna. Til þess að auðvelda það að hægt sé að rekja brotamenn og vara lögbær yfirvöld annarra aðildarríkja við mögulegum ógnum, eru landsbundnir tengiliðir hvattir, eftir því sem við á, til að nota viðvörunarkerfi Evrópsku lögregluskrifstofunnar.
23)          Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á þessari reglugerð. Þessi viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
24)          Samkvæmt XVII. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 frá 18. desember 2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (efnareglurnar (REACH))( 4 ) er bannað að útvega almennum borgurum ammóníumnítrat, sem auðveldlega er hægt að misnota sem forefni sprengiefnis. Þó er heimilt að útvega tilteknum atvinnunotendum ammóníumnítrat, einkum bændum. Slík útvegun skal því falla undir tilkynningakerfi fyrir grunsamleg viðskipti, sem komið er á fót með þessari reglugerð, þar sem engar sambærilegar kröfur eru í reglugerð (EB) nr. 1907/2006.
25)          Í þessari reglugerð er gerð krafa um vinnslu persónuupplýsinga og frekari birtingu þeirra til þriðja aðila, ef um er að ræða grunsamleg viðskipti. Sú vinnsla og birting felur í sér alvarlega skerðingu á grundvallarréttindum til einkalífs og réttinum til verndar persónuupplýsinga. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 5 ) gildir um vinnslu á persónuupplýsingum innan ramma þessarar reglugerðar. Til samræmis við það ber að tryggja að grundvallarréttindi til verndar persónuupplýsinga séu vernduð með viðeigandi hætti þegar persónuupplýsingar einstaklinga eru unnar við beitingu þessarar reglugerðar. Einkum skal vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við leyfisveitingu, skráningu viðskipta og tilkynningar um grunsamleg viðskipti fara fram í samræmi við tilskipun 95/46/EB, þ.m.t. almennar meginreglur um gagnavernd sem varða lágmörkun gagna, takmörkun vegna tilgangs, meðalhóf og nauðsyn, sem og kröfuna um að sýna skráðum aðila tilhlýðilega virðingu að því er varðar rétt hans til aðgangs, til leiðréttingar og eyðingar.
26)          Valið á efnum, sem hryðjuverkamenn og aðrir afbrotamenn nota við ólöglega framleiðslu á sprengiefnum, getur breyst mjög hratt. Því skal vera mögulegt að bæta fleiri efnum við kerfið, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, ef nauðsyn krefur, eins fljótt og auðið er.
27)          Til að koma til móts við þróun í tengslum við misnotkun efna sem forefni sprengiefna, og að því tilskildu að fram fari viðeigandi samráð við viðkomandi hagsmunaaðila til að taka tilliti til þess að þetta hefur mögulega umtalsverð áhrif á rekstraraðila, skal framkvæmdastjórninni falið umboð til að samþykkja gerðir í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins í því skyni að breyta gildum fyrir styrkleikamörk, en tiltekin efni, sem sæta takmörkunum samkvæmt þessari reglugerð og eru yfir þessum mörkum, skulu ekki gerð aðgengileg almenningi, og að skrá fleiri efni, sem tilkynningarskylda gildir um ef grunsamleg viðskipti eiga sér stað. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi samráð meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur, þ.m.t. við sérfræðinga. Við undirbúning og samningu framseldra gerða skal framkvæmdastjórnin tryggja samhliða, tímanlega og viðeigandi afhendingu viðkomandi skjala til Evrópuþingsins og ráðsins.
28)          Framkvæmdastjórnin skal stöðugt endurskoða skrána yfir efnin sem eiga ekki að vera aðgengileg almenningi ef þau eru yfir tilteknum styrkleikamörkum og skrána yfir efnin sem tilkynningarskylda gildir um ef grunsamleg viðskipti eiga sér stað. Í rökstuddum tilvikum skal framkvæmdastjórnin undirbúa tillögur að nýrri löggjöf í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð, til að bæta við eða eyða skráningum í fyrrnefndu skránni, eða til að eyða skráningum í síðarnefndu skránni, til þess að koma til móts við þróun í tengslum við misnotkun efna sem forefni sprengiefna.
29)          Taka skal upp verndarákvæði þar sem kveðið er á um fullnægjandi málsmeðferð í Sambandinu í því skyni að taka á efnum, sem sæta ekki nú þegar takmörkunum samkvæmt þessari reglugerð en sem aðildarríki hefur gildar ástæður til að ætla að hægt væri að nota til ólöglegrar framleiðslu á sprengiefnum.
30)          Með tilliti til tiltekinna áhættuþátta, sem fjalla skal um í þessari reglugerð, þykir enn fremur rétt að gera aðildarríkjum kleift að samþykkja verndarráðstafanir við tilteknar aðstæður, þ.m.t. að því er varðar efni sem falla nú þegar undir ráðstafanir samkvæmt þessari reglugerð.
31)          Í ljósi krafna samkvæmt þessari reglugerð með tilliti til upplýsinga, sem veita skal framkvæmdastjórninni og aðildarríkjum, væri ekki við hæfi að láta slíkar nýjar verndarráðstafanir falla undir kerfið, sem mælt er fyrir um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra staðla og reglugerða sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu ( 6 ), óháð því hvort þær vísi til efna, sem falla nú þegar undir ráðstafanir samkvæmt þessari reglugerð, eða efna, sem sæta ekki slíkum takmörkunum.
32)          Í ljósi markmiða þessarar reglugerðar og þeirra áhrifa sem hún getur haft á öryggi borgara og innri markaðinn skal framkvæmdastjórnin, á grundvelli áframhaldandi umræðna í fastanefndinni um forefni, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið þar sem könnuð eru öll vandamál sem koma upp vegna framkvæmdar þessarar reglugerðar sem og hvort það sé æskilegt og gerlegt að rýmka gildissvið hennar, bæði þannig að hún taki til atvinnunotenda og að undir ákvæðin um tilkynningar um grunsamleg viðskipti falli hvarf eða þjófnaður efna, sem eru skilgreind sem svo að þau hafi verið notuð í ólöglegri framleiðslu á sprengiefnum (óreglubundin forefni sprengiefna), þó svo að þau falli ekki undir ráðstafanir samkvæmt þessari reglugerð. Framkvæmdastjórnin skal enn fremur leggja fram skýrslu, að teknu tilliti til fenginnar reynslu aðildarríkjanna og að teknu tilliti til kostnaðar og ávinnings, þar sem kannað er hvort æskilegt og gerlegt sé að efla og samræma kerfið frekar með tilliti til ógnana við almannaöryggi. Sem hluti af endurskoðuninni skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið þar sem kannaðir eru möguleikarnir á því að færa ákvæðin um ammóníumnítrat úr reglugerð (EB) nr. 1907/2006 yfir í þessa reglugerð.
33)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar reglugerðar, þ.e. að takmarka aðgang almennings að forefnum sprengiefna, og því verður betur náð á vettvangi Sambandsins vegna umfangs takmörkunarinnar, er Sambandinu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við nálægðarregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans um Evrópusambandið. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná megi því markmiði.
34)          Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 45/2001 frá 18. desember 2000 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga, sem stofnanir og aðilar Bandalagsins hafa unnið, og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 7 ), hefur Evrópska persónuverndarstofnunin gefið út álit ( 8 ).
35)          Í þessari reglugerð eru grundvallarréttindi virt og meginreglum fylgt, einkum þeim sem eru viðurkennd í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, einkum um vernd persónuupplýsinga, frelsið til atvinnurekstrar, réttinn til eignar og meginregluna um bann við mismunun. Aðildarríkin skulu beita ákvæðum þessarar reglugerðar með hliðsjón af þessum réttindum og meginreglum.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Efni

Með reglugerð þessari er komið á samræmdum reglum um aðgengileika, innflutning, vörslu og notkun efna eða blandna, sem hægt er að misnota til ólöglegrar framleiðslu sprengiefna, með það í huga að takmarka aðgengi almennings að þessum efnum og tryggja viðeigandi tilkynningar um grunsamleg viðskipti í gegnum alla aðfangakeðjuna.
Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á önnur strangari ákvæði í löggjöf Sambandsins varðandi efnin sem talin eru upp í viðaukunum.

2. gr.
Gildissvið

1.     Þessi reglugerð gildir um efnin sem talin eru upp í viðaukunum og blöndur og efni sem innihalda þau.
2.     Þessi reglugerð gildir ekki um:
a)     hluti, eins og þeir eru skilgreindir í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1907/2006,
b)     flugeldavörur, eins og þær eru skilgreindar í 1. mgr. 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB um að setja á markað flugeldavörur ( 9 ), flugeldavörur, sem í samræmi við landslög eru ekki ætlaðar til notkunar í viðskiptalegum tilgangi og notaðar eru af her, löggæsluyfirvöldum eða slökkviliði, búnað fyrir flugeldavörur, sem fellur undir gildissvið tilskipunar 96/98/EB frá 20. desember 1996 um búnað um borð í skipum ( 10 ), flugeldavörur sem ætlaðar eru til notkunar í flug- og geimiðnaðinum, eða hvellhettur sem ætlaðar eru fyrir leikföng,
c)     lyf, sem eru gerð almennum borgurum aðgengileg á lögmætan hátt gegn lyfseðli í samræmi við gildandi landslög.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)     „efni“: efni í skilningi 1. liðar 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1907/2006,
2)     „blanda“: blanda í skilningi 2. liðar 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1907/2006,
3)     „hlutur“: hlutur í skilningi 3. liðar 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1907/2006,
4)     „aðgengileiki“: hvers konar afhending, hvort sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds,
5)     „innflutningur“: sú aðgerð að koma með efni inn á yfirráðasvæði aðildarríkis, hvort sem það er frá öðru aðildarríki eða frá þriðja landi,
6)     „notkun“: hvers konar vinnsla, samsetning, geymsla eða blöndun, þ.m.t. framleiðsla hlutar eða hvers konar önnur nýting,
7)     „almennur borgari“: sérhver einstaklingur sem á í viðskiptum í öðru skyni en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfsgreinar,
8)     „grunsamleg viðskipti“: hvers konar viðskipti, þ.m.t. viðskipti atvinnunotenda, með þau efni sem talin eru upp í viðaukunum eða með blöndur eða efni, sem innihalda þessi efni, ef gild ástæða þykir vera til að gruna að fyrirhugað sé að nota efnið eða blönduna til ólöglegrar framleiðslu á sprengiefnum,
9)     „rekstraraðili“: sérhver einstaklingur, lögaðili eða opinber aðili eða hópur slíkra aðila og/eða stofnana, sem afhenda vörur eða veita þjónustu á markaðinum,
10)    „forefni sprengiefna sem sætir takmörkunum“: efni, sem talið er upp í I. viðauka, í meiri styrkleika en samsvarandi viðmiðunarmörk sem sett eru fram í viðaukanum, þ.m.t. blanda eða annað efni, sem inniheldur efni í skránni í styrkleika sem er yfir samsvarandi viðmiðunarmörkum.

4. gr.
Aðgengileiki, innflutningur, varsla og notkun

1.     Almennir borgarar skulu ekki hafa aðgang að forefnum sprengiefna sem sæta takmörkunum eða flytja þau inn, hafa þau í vörslu sinni eða nota þau.
2.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðildarríki heimilt að viðhalda eða koma á leyfisveitingakerfi, sem heimilar að forefni sprengiefna sem sæta takmörkunum séu gerð aðgengileg almennum borgurum, sem og að almennir borgarar geti haft þau í vörslu sinni eða notað, að því tilskildu að almennir borgarar útvegi sér og, sé þess óskað, leggi fram leyfi sem heimilar þeim að verða sér úti um, hafa í vörslu sinni eða nota þessi efni, sem gefið er út í samræmi við 7. gr. af lögbæru yfirvaldi í því aðildarríki þar sem öflun, varsla eða notkun hlutaðeigandi forefnis sprengiefna sem sætir takmörkunum er áætluð.
3.     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., er aðildarríki heimilt að viðhalda eða koma á fót skráningarkerfi, sem heimilar að eftirfarandi forefni sprengiefna, sem sæta takmörkunum, séu gerð aðgengileg almennum borgurum, sem og að almennir borgarar geti haft þau í vörslu sinni eða notað, að því tilskildu að rekstraraðilinn, sem gerir þau aðgengileg, skrái öll viðskipti í samræmi við nánara fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í 8. gr.:
a)    vetnisperoxíð (CAS-númer 7722-84-1) í styrkleika sem er hærri en viðmiðunarmörkin, sem sett eru í I. viðauka, en ekki í styrkleika yfir 35% miðað við þyngd,
b)    nítrómetan (CAS-númer 75-52-5) í styrkleika sem er hærri en viðmiðunarmörkin, sem sett eru í I. viðauka, en ekki í styrkleika yfir 40% miðað við þyngd,
c)    saltpéturssýra (CAS-númer 7697-37-2) í styrkleika sem er hærri en viðmiðunarmörkin, sem sett eru í I. viðauka, en ekki í styrkleika yfir 10% miðað við þyngd.
4.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um allar ráðstafanir sem þau grípa til í því skyni að innleiða kerfin sem kveðið er á um í 2. og 3. mgr. Í tilkynningunni skal tilgreina þau forefni sprengiefna sem sæta takmörkunum og þar sem aðildarríkið kveður á um undanþágu.
5.     Framkvæmdastjórnin skal gera skrána yfir ráðstafanir, sem aðildarríki tilkynna um í samræmi við 4. mgr, aðgengilega öllum.
6.     Þegar almennur borgari hyggst flytja inn forefni sprengiefna, sem sætir takmörkunum, á yfirráðasvæði aðildarríkis, sem hefur veitt undanþágu frá 1. mgr. með því að nota leyfisveitingakerfi í samræmi 2. mgr. og/eða skráningarkerfi í samræmi við 3. mgr. eða í samræmi við 17. gr., skal sá aðili útvega sér og, sé þess óskað, leggja fyrir lögbært yfirvald leyfi, sem gefið er út í samræmi við reglurnar sem mælt er fyrir um í 7. gr. og sem er gilt í því aðildarríki.
7.     Rekstraraðili, sem gerir forefni sprengiefnis sem sætir takmörkunum aðgengilegt almennum borgara í samræmi við 2. mgr., skal krefjast þess að lagt sé fram leyfi fyrir sérhver viðskipti eða, ef það er gert aðgengilegt í samræmi við 3. mgr., halda skrá yfir viðskiptin í samræmi við kerfið sem komið er á fót af því aðildarríki þar sem umrætt forefni sprengiefnis sem sætir takmörkunum er gert aðgengilegt.

5. gr.
Merkingar

Rekstraraðili, sem hyggst gera forefni sprengiefna sem sæta takmörkunum aðgengilegt almennum borgara, skal tryggja að á umbúðunum komi skýrt fram að öflun, varsla eða notkun almennra borgara á þessu forefni sé háð takmörkun, eins og fram kemur í 1., 2. og 3. mgr. 4. gr., annaðhvort með því að festa sjálfur viðeigandi merkimiða eða með því að staðfesta að viðeigandi merkimiði hafi verið festur á.

6. gr.
Frjáls flutningur

Með fyrirvara um aðra málsgrein 1. gr. og 13. gr., og nema kveðið sé á um annað í þessari reglugerð eða í öðrum lagagerningum Sambandsins, skulu aðildarríki ekki banna, takmarka eða koma í veg fyrir að eftirfarandi efni séu gerð aðgengileg af ástæðum er varða forvarnir gegn ólöglegri framleiðslu sprengiefna:
a)    efnin, sem talin eru upp í I. viðauka, í styrkleika sem er ekki yfir viðmiðunarmörkunum sem mælt er fyrir um þar eða
b)    efni, sem talin eru upp í II. viðauka.

7. gr.
Leyfi

1.     Hvert aðildarríki, sem gefur út leyfi fyrir almenna borgara sem hafa lögmæta hagsmuni af því að verða sér úti um, flytja inn, hafa í vörslu sinni eða nota forefni sprengiefna sem sæta takmörkunum, skal mæla fyrir um reglur um veitingu leyfisins, sem kveðið er á um í 2. og 6. mgr. 4. gr. Þegar lögbært yfirvald í aðildarríki íhugar hvort veita eigi leyfi skal það taka tillit til allra þeirra aðstæðna sem skipta máli og einkum lögmæti fyrirhugaðrar notkunar efnisins. Leyfinu skal synja ef gildar ástæður eru fyrir því að draga í efa lögmæti fyrirhugaðrar notkunar eða fyrirætlanir notandans um að nota það í lögmætum tilgangi.
2.     Lögbæra yfirvaldið getur kosið hvernig það vill takmarka gildi leyfisins, með því að heimila notkun í eitt eða fleiri skipti en í þrjú ár hið mesta. Þar til leyfið rennur út getur lögbæra yfirvaldið skyldað leyfishafa til að sýna fram á að skilyrðin fyrir útgáfu leyfisins séu enn uppfyllt. Í leyfinu skal koma fram fyrir hvaða forefni sprengiefna sem sæta takmörkunum leyfið gildir.
3.     Lögbærum yfirvöldum er heimilt að fara fram á að umsækjendur um leyfi greiði umsóknargjald. Slíkt gjald skal ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við afgreiðslu umsóknarinnar.
4.     Lögbæra yfirvaldinu er heimilt að fella leyfið tímabundið úr gildi eða afturkalla það þegar gildar ástæður eru til að ætla að skilyrði fyrir útgáfu leyfisins séu ekki lengur uppfyllt.
5.     Kærur vegna ákvarðana lögbæra yfirvaldsins og deilumál er varða það hvort skilyrði leyfisins séu uppfyllt skulu tekin fyrir hjá viðeigandi stofnun sem ber ábyrgð samkvæmt landslögum.
6.     Öðrum aðildarríkjum er heimilt að viðurkenna leyfi sem lögbær yfirvöld aðildarríkis veita. Eigi síðar en 2. september 2014 skal framkvæmdastjórnin semja leiðbeiningar, að höfðu samráði við fastanefndina um forefni, um tæknilegar upplýsingar leyfanna til þess að greiða fyrir gagnkvæmri viðurkenningu þeirra. Í þessum leiðbeiningum skulu einnig vera upplýsingar um hvaða gögn skulu liggja að baki leyfum, sem heimila innflutning forefna sprengiefna sem sæta takmörkunum, þ.m.t. drög að sniðmáti fyrir slík leyfi.

8. gr.
Skráning viðskipta

1.     Að því er varðar skráningu skv. 3. mgr. 4. gr. skulu almennir borgarar gera grein fyrir hverjir þeir eru með því að sýna opinber auðkennisskírteini.
2.     Skráin skal innihalda a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
a)    nafn, heimilisfang og, eftir atvikum, annaðhvort auðkenninúmer almenna borgarans eða tegund og númer opinbera auðkennisskírteinisins,
b)    nafn efnisins eða blöndunnar, þ.m.t. styrkleiki þess,
c)    magn efnisins eða blöndunnar,
d)    yfirlýsing almenna borgarans um fyrirhugaða notkun efnisins eða blöndunnar,
e)    dagsetning og staður viðskiptanna,
f)    undirskrift almenna borgarans.
3.     Skráin skal geymd í fimm ár frá viðskiptadegi. Á þessu tímabili skal skráin vera aðgengileg til skoðunar að beiðni lögbærra yfirvalda.
4.     Skráin skal geymd á pappír eða með öðrum varanlegum miðli og skal aðgengileg til skoðunar hvenær sem er allt tímabilið sem kveðið er á um í 3. mgr. Öll gögn sem geymd eru rafrænt skulu:
a)    vera í samræmi við snið og innihald samsvarandi pappírsskjala og
b)    vera tiltæk hvenær sem er allt tímabilið sem kveðið er á um í 3. mgr.

9. gr.
Tilkynningar um grunsamleg viðskipti, hvarf og þjófnað

1.     Grunsamleg viðskipti með efnin sem talin eru upp í viðaukunum, eða með blöndur eða efni, sem innihalda þau, skulu tilkynnt í samræmi við þessa grein.
2.     Hvert aðildarríki skal koma á einum eða fleiri landsbundnum tengiliði með skilgreint símanúmer og tölvupóstfang, sem hægt er að senda tilkynningar um grunsamleg viðskipti í.
3.     Rekstraraðilar geta áskilið sér rétt til að hafna grunsamlegum viðskiptum og skulu tilkynna viðskiptin, eða tilraun til slíkra viðskipta, án óþarfa tafar, þ.m.t., ef mögulegt er, upplýsingar um deili á viðskiptamanninum, til landsbundins tengiliðs aðildarríkisins þar sem viðskiptin fóru fram, eða tilraun til slíkra viðskipta átti sér stað, ef þeir hafa gildar ástæður til að ætla að fyrirhuguð viðskipti með eitt eða fleiri efni, sem talin eru upp í viðaukunum, eða blöndur eða efni, sem innihalda þau, séu grunsamleg viðskipti, með hliðsjón af öllum aðstæðum og einkum þegar tilvonandi viðskiptamaður:
a)    virðist óskýr varðandi fyrirhugaða notkun efnisins eða blöndunnar,
b)    virðist ekki vita hver fyrirhuguð notkun efnisins eða blöndunnar er eða getur ekki útskýrt það þannig að trúanlegt sé,
c)    hyggst kaupa efni í magni, samsetningu eða styrkleika sem er ekki algengt til einkanota,
d)    er ekki viljugur til að sýna fram á hver hann er eða hvar hann býr eða
e)    fer fram á að greiða með óvenjulegum hætti, þ.m.t. háar fjárhæðir í reiðufé.
4.     Rekstraraðilar skulu einnig tilkynna um hvarf eða þjófnað á miklu magni af efnunum, sem talin eru upp í viðaukunum, og blöndum eða efnum, sem innihalda þau, til landsbundins tengiliðs þess aðildarríkis þar sem hvarfið eða þjófnaðurinn átti sér stað.
5.     Til að greiða fyrir samstarfi á milli lögbærra yfirvalda og rekstraraðila skal framkvæmdastjórnin, að höfðu samráði við fastanefndina um forefni, semja leiðbeiningar, eigi síðar en 2. september 2014, til að styðja við aðfangakeðju efna og, ef við á, viðkomandi lögbær yfirvöld. Leiðbeiningarnar skulu einkum innihalda:
a)    upplýsingar um hvernig á að þekkja og tilkynna um grunsamleg viðskipti, einkum að því er varðar styrkleika og/eða magn efnanna, sem talin eru upp í II. viðauka, sem er undir því sem krafist er aðgerða vegna,
b)    upplýsingar um hvernig á að þekkja og tilkynna um hvarf eða þjófnað á miklu magni efna,
c)    aðrar upplýsingar sem talið er að geti komið að gagni.
Framkvæmdastjórnin skal uppfæra leiðbeiningarnar reglulega.
6.     Lögbær yfirvöld skulu tryggja að leiðbeiningarnar, sem kveðið er á um í 5. mgr., sé reglulega dreift á þann hátt sem lögbærum yfirvöldum þykir viðeigandi í samræmi við markmið leiðbeininganna.

10. gr.
Gagnavernd

Aðildarríki skulu tryggja að vinnsla persónuupplýsinga sem unnar eru við beitingu þessarar reglugerðar sé í samræmi við tilskipun 95/46/EB. Einkum skulu aðildarríkin tryggja að vinnsla persónuupplýsinga, sem nauðsynleg er vegna leyfisveitinga skv. 2. og 6. mgr. 4. gr. og 7. gr. þessarar reglugerðar eða vegna skráningar viðskipta skv. 4. gr. (3. mgr.), 8. og 17. gr. þessarar reglugerðar, og tilkynningar um grunsamleg viðskipti skv. 9. gr. þessarar reglugerðar, sé í samræmi við tilskipun 95/46/EB.

11. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn þessari reglugerð og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin, sem kveðið er á um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.

12. gr.
Breytingar á viðaukunum

1.     Framkvæmdastjórnin skal hafa umboð til að samþykkja framseldar gerðir í samræmi við 14. gr. varðandi breytingar á viðmiðunarmörkunum í I. viðauka að því marki sem nauðsynlegt er til að koma til móts við þróun í tengslum við misnotkun efna sem forefni sprengiefna, eða á grundvelli rannsókna og tilrauna, sem og varðandi viðbót efna í II. viðauka, ef nauðsyn krefur, til að koma til móts við þróun í tengslum við misnotkun efna sem forefni sprengiefna. Framkvæmdastjórnin skal, sem hluti af undirbúningi framseldra gerða, leggja sig fram um að hafa samráð við viðkomandi hagsmunaaðila, einkum efnaiðnaðinn og smásölugeirann.
Ef skyndilegar breytingar eru gerðar á áhættumati, hvað varðar misnotkun efna til ólöglegrar framleiðslu á sprengiefnum, þegar brýna nauðsyn ber til, skal málsmeðferðin, sem kveðið er á um í 15. gr., gilda um framseldar gerðir sem eru samþykktar samkvæmt þessari grein.
2.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja sérstaka, framselda gerð að því er varðar allar breytingar á viðmiðunarmörkunum í I. viðauka og öll ný efni sem er bætt við í II. viðauka. Sérhver framseld gerð skal byggð á greiningu sem sýnir að breytingarnar séu ekki líklegar til að leiða til óhóflegra byrða fyrir rekstraraðila eða neytendur, að teknu tilhlýðilegu tilliti til markmiðanna sem stefnt er að.

13. gr.
Verndarákvæði

1.     Hafi aðildarríki gildar ástæður til að ætla að mögulegt sé að nota tiltekið efni, sem er ekki skráð í viðaukana, við ólöglega framleiðslu sprengiefna, er því heimilt að takmarka eða banna aðgengi, vörslu og notkun þessa efnis, eða hvers kyns blöndu eða efnis, sem inniheldur þetta efni, eða að kveða á um að efnið falli undir tilkynningaskylduna í tengslum við grunsamleg viðskipti í samræmi við 9. gr.
2.     Hafi aðildarríki gildar ástæður til að ætla að mögulegt sé að nota tiltekið efni, sem er skráð í I. viðauka, við ólöglega framleiðslu sprengiefna, í styrkleika sem er undir viðmiðunarmörkunum, sem mælt er fyrir um í I. viðauka, er því heimilt að takmarka frekar eða banna aðgengi, vörslu og notkun þessa efnis með því að setja lægra gildi fyrir styrkleikamörk.
3.     Hafi aðildarríki gildar ástæður fyrir því að setja gildi fyrir styrkleikamörk, sem er þannig að fari efni, sem skráð er í II. viðauka, yfir það skal það skal það sæta þeim takmörkunum sem gilda annars um forefni sprengiefna, sem sæta takmörkunum, er því heimilt að takmarka eða banna aðgengi, vörslu eða notkun efnisins með því að setja leyfðan hámarksstyrk.
4.     Aðildarríki sem takmarkar eða bannar efni í samræmi við 1., 2. eða 3. mgr. skal þegar í stað tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjum þar um og rökstyðja ákvörðun sína.
5.     Í ljósi upplýsinganna sem veittar eru skv. 4. mgr. skal framkvæmdastjórnin taka til athugunar hvort hún eigi að undirbúa breytingar á viðaukunum í samræmi við 1. mgr. 12. gr. eða undirbúa tillögu að nýrri löggjöf um breytingu á viðaukunum. Hlutaðeigandi aðildarríki skal, eftir því sem við á, breyta eða fella úr gildi landsráðstafanir sínar til að taka til greina allar slíkar breytingar á viðaukunum.
6.     Eigi síðar en 2. júní 2013 skulu aðildarríki tilkynna framkvæmdastjórninni um allar landsráðstafanir sem eru fyrir hendi sem takmarka eða banna aðgengi, vörslu og notkun efnis, eða blöndu eða efnis, sem inniheldur það, með þeim rökum að mögulegt sé að nota það við ólöglega framleiðslu sprengiefna.

14. gr.
Beiting framsals

1.     Framkvæmdastjórnin skal hafa vald til að samþykkja framseldar gerðir með fyrirvara um skilyrðin sem mælt er fyrir um í þessari grein.
2.     Framkvæmdastjórninni skal hafa vald til að samþykkja framseldar gerðir, sem um getur í 12. gr., í fimm ár á tímabili sem hefst 1. mars 2013. Framkvæmdastjórnin skal taka saman skýrslu, að því er varðar framsal valds, eigi síðar en níu mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins. Framsal valds skal framlengt með þegjandi samkomulagi um jafnlangan tíma nema Evrópuþingið eða ráðið andmæli þeirri framlengingu eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok hvers tímabils.
3.     Evrópuþinginu eða ráðinu er, hvenær sem er, heimilt að afturkalla framsal valds sem um getur í 12. gr. Með ákvörðun um afturköllun skal bundinn endir á framsal þess valds sem tilgreint er í þeirri ákvörðun. Ákvörðunin öðlast gildi daginn eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins eða síðar, eftir því sem tilgreint er í ákvörðuninni. Hún skal ekki hafa áhrif á gildi framseldra gerða sem þegar eru í gildi.
4.     Um leið og framkvæmdastjórnin samþykkir framselda gerð skal hún samtímis tilkynna það Evrópuþinginu og ráðinu.
5.     Framseld gerð, sem er samþykkt skv. 12. gr., skal því aðeins öðlast gildi að Evrópuþingið eða ráðið hafi ekki haft uppi nein andmæli innan tveggja mánaða frá tilkynningu um gerðina til Evrópuþingsins og ráðsins eða ef bæði Evrópuþingið og ráðið hafa upplýst framkvæmdastjórnina, áður en fresturinn er liðinn, um þá fyrirætlan sína að hreyfa ekki andmælum. Þetta tímabil skal framlengt um tvo mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða ráðsins.

15. gr.
Flýtimeðferð

1.     Framseldar gerðir, sem samþykktar eru samkvæmt þessari grein, skulu öðlast gildi án tafar og gilda svo lengi sem engin andmæli eru lögð fram í samræmi við 2. mgr. Í tilkynningu til Evrópuþingsins og ráðsins um gerðina skal taka fram ástæðurnar fyrir því að flýtimeðferðinni er beitt.
2.     Evrópuþingið eða ráðið getur andmælt framseldri gerð í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 5. mgr. 14. gr. Í slíku tilviki skal framkvæmdastjórnin fella gerðina tafarlaust úr gildi í kjölfar tilkynningar um ákvörðun Evrópuþingsins eða ráðsins um andmæli.

16. gr.
Umbreytingarákvæði

Almennum borgurum skal heimilt að hafa í vörslu sinni og nota forefni sprengiefna sem sæta takmörkunum til 2. mars 2016.

17. gr.
Skráningarkerfi sem fyrir eru

Aðildarríki, sem hefur 1. mars 2013 í gildi kerfi, sem skyldar rekstraraðila til að skrá viðskipti, sem gera eitt eða fleiri forefni sprengiefna sem sæta takmörkunum aðgengilegt almennum borgara, getur vikið frá 1. og 2. mgr. 4. gr. með því að nota skráningarkerfið í samræmi við 8. gr. fyrir sum eða öll efnin, sem eru talin upp í I. viðauka. Reglurnar sem mælt er fyrir um í 4.–7. mgr. 4. gr. gilda að breyttu breytanda.

18. gr.
Endurskoðun

1.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 2. september 2017, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið þar sem kannað er:
a)    hvers konar vandamál sem hafa komið upp sem afleiðing af beitingu þessarar reglugerðar,
b)    hvort æskilegt og gerlegt sé að efla og samræma kerfið frekar með tilliti til ógnana við almannaöryggi af völdum hryðjuverka og annarrar alvarlegrar afbrotastarfsemi, með tilliti til fenginnar reynslu aðildarríkjanna samkvæmt þessari reglugerð, þ.m.t. hvers kyns ágallar í tengslum við öryggi, með tilliti til kostnaðar og hagkvæmni aðildarríkjanna, rekstraraðila og annarra viðeigandi hagsmunaaðila,
c)    hvort æskilegt og gerlegt sé að rýmka gildissvið þessarar reglugerðar svo að hún taki til atvinnunotenda með tilliti til byrða sem lagðar eru á rekstraraðila og með hliðsjón af markmiði þessarar reglugerðar,
d)    hvort æskilegt og gerlegt sé að ákvæðin um tilkynningu um grunsamleg viðskipti, hvarf og þjófnað nái einnig yfir forefni sprengiefna sem eru ekki skráð.
2.     Eigi síðar en 2. mars 2015 skal framkvæmdastjórnin leggja fram skýrslu til Evrópuþingsins og ráðsins þar sem kannaðir eru möguleikarnir á því að færa ákvæðin um ammóníumnítrat úr reglugerð (EB) nr. 1907/2006 yfir í þessa reglugerð.
3.     Í ljósi tilkynninganna, sem um getur í 1. og 2. mgr., skal framkvæmdastjórnin, ef við á, leggja fram tillögu að nýrri löggjöf fyrir Evrópuþingið og ráðið með það fyrir augum að breyta þessari reglugerð til samræmis við það.

19. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Henni skal beitt frá og með 2. september 2014.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Strassborg 15. janúar 2013.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
M. SCHULZ L. CREIGHTON
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI


Efni, sem skulu ekki standa almennum borgurum til boða, hvorki ein og sér né heldur í blöndum eða efnum, sem innihalda þessi efni, nema ef styrkleikinn er jafn mikill eða lægri en viðmiðunarmörkin sem sett eru fram hér að neðan.
Nafn efnis og skráningarnúmer Upplýsingaþjónustu um íðefni
(CAS-númer)
Viðmiðunarmörk Númer fyrir aðskilið efnafræðilega skilgreint efnasamband samkvæmt sameinuðu tollnafnaskránni (SN-númer), sem uppfyllir kröfur 1. aths. við 28. eða 29. kafla sameinuðu tollnafnaskrárinnar, í þeirri röð (1) Númer fyrir blöndu án innihaldsefna (t.d. kvikasilfur, góðmálmar eða sjaldgæfir jarðmálmar eða geislavirk efni) samkvæmt sameinuðu tollnafnaskránni (SN-númer) sem leiðir til flokkunar undir öðru SN-númeri (1)
Vetnisperoxíð
(CAS-nr. 7722-84-1)
12% miðað við þyngd 2847 00 00 3824 90 97
Nítrómetan
(CAS-nr. 75-52-5)
30% miðað við þyngd 2904 20 00 3824 90 97
Saltpéturssýra
(CAS-nr. 7697-37-2)
3% miðað við þyngd 2808 00 00 3824 90 97
Kalíumklóríð
(CAS-nr. 3811-04-9)
40% miðað við þyngd 2829 19 00 3824 90 97
Kalíumperklórat
(CAS-nr. 7778-74-7)
40% miðað við þyngd. 2829 90 10 3824 90 97
Natríumklórat
(CAS-nr. 7775-09-9)
40% miðað við þyngd 2829 11 00 3824 90 97
Natríumperklórat
(CAS-nr. 7601-89-0)
40% miðað við þyngd 2829 90 10 3824 90 97
( 1)     Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 948/2009 (Stjtíð. ESB L 287, 31.10.2009, bls. 1).


II. VIÐAUKI


Efni, ein og sér eða í blöndum eða í efnum, sem tilkynningarskylda gildir um ef grunsamleg viðskipti eiga sér stað.
Nafn efnis og skráningarnúmer hjá Upplýsingaþjónustu um íðefni
(CAS-númer)
Númer fyrir aðskilið efnafræðilega skilgreint efnasamband samkvæmt sameinuðu tollnafnaskránni (SN-númer), sem uppfyllir kröfur 1. aths. við 28. kafla 1. aths. við 29. kafla eða b-lið 1. aths. við 31. kafla sameinuðu tollnafnaskrárinnar í þeirri röð ( 1 ) Númer fyrir blöndur án innihaldsefna (t.d. kvikasilfur góðmálmar eða sjaldgæfir jarðmálmar eða geislavirk efni) samkvæmt sameinuðu tollnafnaskránni (SN- númer) sem leiðir til flokkunar undir öðru SN-númeri ( 1 )
Hexamín
(CAS-nr. 100-97-0)
2921 29 00 3824 90 97
Brennisteinssýra
(CAS-nr. 7664-93-9)
2807 00 10 3824 90 97
Aseton
(CAS-nr. 67-64-1)     
2914 11 00 3824 90 97
Kalíumnítrat
(CAS-nr. 7757-79-1)
2834 21 00 3824 90 97
Natríumnítrat
(CAS-nr. 7631-99-4)
3102 50 10 (náttúrulegt) 3824 90 97
3102 50 90 (annað) 3824 90 97
Kalsíumnítrat
(CAS-nr. 10124-37-5)
2834 29 80      3824 90 97
Kalsíumammóníumnítrat
(CAS-nr. 15245-12-2)
3102 60 00 3824 90 97
Ammóníumnítrat
(CAS-nr. 6484-52-2) [í styrkleika sem er a.m.k. 16%, miðað við þyngd, af köfnunarefni úr ammóníumnítrati]
3102 30 10 (í vatnslausn) 3824 90 97
3102 30 90 (annað)
( 1)     Reglugerð (EB) nr. 948/2009.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 39, 9.2.2013, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Stjtíð. ESB C 84, 17.3.2011, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 4
(2)    Afstaða Evrópuþingsins frá 20. nóvember 2012 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum) og ákvörðun ráðsins frá 11. desember 2012.
Neðanmálsgrein: 5
(3)    Stjtíð. ESB L 353, 31.12.2008, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(4)    Stjtíð. ESB L 396, 30.12.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(5)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 8
(6)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 9
(7)    Stjtíð. EB L 8, 12.1.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(8)    Stjtíð. ESB C 101, 1.4.2011, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(9)    Stjtíð. ESB L 154, 14.6.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(10)    Stjtíð. EB L 46, 17.2.1997, bls. 25.