Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1054  —  610. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu samnings milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.

(Lögð fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka sem undirritaður var í Reykjavík 29. mars 2014.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka sem undirritaður var í Reykjavík 29. mars 2014. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Hinn 29. mars 2014 var undirritaður í Reykjavík árlegur samstarfssamningur milli Íslands og Grænlands á sviði fiskveiða. Þetta er annar samningur slíkrar gerðar og er til marks um að samvinna Íslands við næsta nágranna sinn í vestri er stöðugt að aukast.
    Við það tilefni var undirritaður samningur þjóðanna um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka en það er sameiginlegur stofn á svæðinu norður og vestur af Vestfjörðum.
    Ekki náðist samkomulag um hlutfallslega skiptingu þessa stofns á milli þjóðanna en nýjasta vísindaráðgjöf, sem gefin er út af Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnuninni (NAFO), gerir ráð fyrir 2.000 tonna heildarafla á árinu 2014. Þar til að slíkt samkomulag kemst á hefur verið ákveðið að þjóðirnar fái gagnkvæman aðgang að lögsögum hvor annarrar til veiða á takmörkuðu magni. Til að byrja með gerir samningurinn ráð fyrir því að Grænlendingar geti veitt 375 tonn af rækju Íslandsmegin við lögsögumörkin og Íslendingar að sama skapi veitt 375 Grænlandsmegin.
    Veiðar Grænlandsmegin munu lúta grænlenskum reglum en veiðar í íslenskri lögsögu lúta íslenskum reglum. Samningurinn er ótímabundinn og öðlast fyrst gildi 30 dögum eftir að báðir aðilar hafa staðfest hann. Hægt er að segja upp samningnum með sex mánaða fyrirvara.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun er talið að meiri hluti rækjustofnsins á Dohrnbanka og við Austur-Grænland haldi sig vestan samningslínu Íslands og Grænlands um skiptingu hafsvæða ríkjanna, en sú lína liggur yfir nyrstu rækjumiðin á Dohrnbanka. Heildarafli allra þjóða við Austur-Grænland var um 2.000 tonn á árunum 2012 og 2013 en meðaltalsafli áranna 1994–2003 var um 12.000 tonn. Afli íslenskra skipa hefur lengst af verið mjög breytilegur enda liggur hafís oft yfir miðunum. Mestur hefur aflinn orðið 2.900 tonn á árinu 1997 en á árunum 2006–2012 veiddu íslensk skip nánast enga rækju á Dohrnbanka. Á árinu 2013 nam aflinn 350 tonnum. Rækja á Dohrnbanka er ekki hlutdeildarsett í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.

Fylgiskjal.


II. viðauki.
Samningur milli Grænlands og Íslands um stjórnun rækjuveiða á Dohrnbanka.


Á fundi, sem haldinn var í Reykjavík dagana 25. mars og 29. mars 2014, komust Ísland og Grænland að samkomulagi um eftirfarandi fyrirkomulag gagnkvæms aðgangs að fiskimiðum í lögsögu hvors samningsaðila um sig fyrir fiskiskip sem veiða úthafsrækju ( Pandalus borealis) á Dohrnbanka.

Veiðisvæðið er skilgreint sem það hólf sem myndast þegar eftirfarandi hnit eru tengd saman:

1) 68° 00, 00´ N 026° 00, 00´ W
2) 66° 45, 00´ N 031° 30, 00´ W
3) 65° 00, 00´ N 031° 45, 00´ W
4) 65° 00, 00´ N 028° 00, 00´ W
5) 66° 00, 00´ N 027° 20, 00´ W
6) 68° 00, 00´ N 022° 00, 00´ W

Íslenskum fiskiskipum er heimilt að veiða allt að 375 tonnum af úthafsrækju á því veiðisvæði sem liggur innan efnahagslögsögu Grænlands. Aðkoma að veiðunum er háð sérstöku leyfi sem íslensk stjórnvöld gefa út og skulu fara fram samkvæmt reglum sem grænlensk stjórnvöld setja um veiðarfæri og tilkynningar.

Með sama hætti er grænlenskum fiskiskipum heimilt að veiða allt að 375 tonnum af úthafsrækju á því veiðisvæði sem liggur innan efnahagslögsögu Íslands. Aðkoma að veiðunum er háð sérstöku leyfi sem grænlensk stjórnvöld gefa út og skulu fara fram samkvæmt reglum sem íslensk stjórnvöld setja um veiðarfæri og tilkynningar.

Gildistaka.

1.     Hvor samningsaðili um sig skal tilkynna hinum skriflega um það þegar nauðsynlegri málsmeðferð er lokið samkvæmt landslögum hans til þess að samningur þessi geti öðlast gildi.
2.     Samningurinn öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að seinni tilkynningunni er veitt viðtaka og kemur til framkvæmdar að því loknu.

Uppsögn.

1.     Samningur þessi heldur gildi sínu uns annar samningsaðilinn segir honum upp.
2.     Hvor samningsaðili um sig getur sagt samningi þessum upp með því að senda hinum samningsaðilanum skriflega tilkynningu þess efnis. Uppsögnin tekur gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að 6 mánuðir eru liðnir frá þeim degi er hinn samningsaðilinn veitir tilkynningu um uppsögn viðtöku.

Reykjavík, 29. mars 2014

Fyrir hönd grænlensku nefndarinnar     Fyrir hönd íslensku nefndarinnar

Emanuel Rosing     Jóhann Guðmundsson


Annex II

Joint agreement between Greenland and Iceland on the management of the shrimp fishery in the Dohrn bank area


At a meeting in Reykjavík on 25. And 29. March 2014, Iceland and Greenland agreed on the following arrangement for mutual access to fishing grounds in their respective jurisdictions for vessels harvesting Northern Shrimp ( Pandalus borealis) on the Dohrn Bank.

The fishing area is defined as the box obtained by connecting the following coordinates:

1) 68 00 N 26 00 W
2) 66 45 N 31 30 W
3) 65 00 N 31 45 W
4) 65 00 N 28 00 W
5) 66 00 N 27 20 W
6) 68 00 N 22 00 W

Icelandic fishing vessels shall be permitted to catch up to 375 tonnes of Northern Shrimp in the fishing area within the Greenland EEZ. Participation in the fishery shall be subject to specific licence issued by the Icelandic authorities and be conducted in accordance with rules set by the Greenland authorities regarding fishing gear and notification.

Correspondingly, Greenlandic fishing vessels shall be permitted to catch up to 375 tonnes of Northern Shrimp in the fishing area within the Icelandic EEZ. Participation in the fishery shall be subject to specific licence issued by the Greenlandic authorities and be conducted in accordance with rules set by the Icelandic authorities regarding fishing gear and notification.

Entry into Force

1.     Each of the Contracting Parties shall notify to the other in writing the completion of the procedures required by its law for the bringing into force of this Agreement.
2.     The Agreement shall enter into force on the thirtieth day after the receipt of the later of these notifications and shall thereupon have effect.

Termination

1.     This Agreement shall remain in force until terminated by a Contracting Party.
2.     Either Contracting Party may terminate this Agreement by giving written notice of termination to the other Contracting Party. Such termination shall become effective on the first day of the month following the expiration of a period of six months after the date of receipt of notice of termination by the other Contracting Party.

Reykjavík, 29. March 2014

For the Greenlandic party     For the Icelandic party

Emanuel Rosing     Jóhann Guðmundsson