Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1057  —  515. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Steinunni Margréti Lárusdóttur og Þórunni Oddnýju Steinsdóttur frá velferðarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 153/2014, frá 11. júlí 2014, um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/24/ESB frá 9. mars 2011 um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/52/ESB frá 20. desember 2012 um ráðstafanir til að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem eru gefnir út í öðru aðildarríki. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 9. janúar 2015. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Utanríkismálanefnd hefur áður, í samræmi við reglur um þinglega meðferð EES-mála, fjallað um tilskipun 2011/24/ESB til mats á því hvort efnislegra aðlagana væri þörf, sbr. 2. gr. reglnanna. Málið var þá til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA og var utanríkismálanefnd upplýst um málið með skeyti frá utanríkisráðuneyti, dags. 2. febrúar 2012, ásamt fylgigögnum. Í því ferli hlaut gerðin efnislega umfjöllun í velferðarnefnd Alþingis.
    Markmið tilskipunar 2011/24/ESB er að greiða fyrir aðgengi að öruggri, hágæða heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og stuðla að samvinnu um heilbrigðisþjónustu á milli aðildarríkja, en í henni eru lögfest ýmis réttindi sem áður hafa verið viðurkennd í dómum Evrópudómstólsins. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að með tilskipuninni sé ekki gengið á rétt ríkjanna til að skipuleggja eigin heilbrigðisþjónustu og hvernig hún er veitt í hverju þeirra um sig. Meginregla tilskipunarinnar er að sjúklingur geti sótt heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki og fengið hana endurgreidda af heimalandinu að því marki sem hann hefði fengið ef þjónustan hefði verið veitt þar.
    Ekki fellur öll heilbrigðisþjónusta undir tilskipunina, en hún gildir ekki um heilbrigðisþjónustu fyrir sjúklinga vegna aðstoðar við daglegar athafnir, líffæraígræðslur og bólusetningar. Ef um er að ræða einfalda heilbrigðisþjónustu mun sjúklingur geta sótt hana yfir landamæri án fyrirframsamþykkis og á þá rétt á endurgreiðslu í framhaldinu. Tilskipunin heimilar ríkjum að krefjast fyrirframsamþykkis í ákveðnum tilvikum til að stýra streymi sjúklinga í þágu almannahagsmuna.
    Tilskipun 2011/24/ESB hefur í för með sér að gagnkvæm viðurkenning lyfseðla verður meginregla á EES-svæðinu. Því fjallar framkvæmdartilskipun 2012/52/ESB um ráðstafanir sem auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem eru gefnir út í öðru aðildarríki.
    Innleiðing tilskipunar 2011/24/ESB hér á landi kallar á breytingar á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og er gert ráð fyrir að frumvarp þess efnis verði lagt fram á yfirstandandi þingi. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að íslensk stjórnvöld hyggist nýta svigrúm til að krefjast fyrirframsamþykkis að fullu og verði nánar kveðið á um þau tilvik í reglugerð. Miðað er við að þörf á fyrirframsamþykki fyrir heilbrigðisþjónustu verði við dvöl á sjúkrahúsi í a.m.k. eina nótt, notkun sérhæfðs og kostnaðarsams búnaðar, meðferð sem hefur í för með sér sérstaka áhættu fyrir sjúkling eða almenning eða að tilefni sé til að efast um gæði eða öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Við umfjöllunina kom einnig fram að réttindi samkvæmt tilskipuninni lúta einungis að þjónustu sem þegar er veitt í heimalandinu og að því marki sem ríkið tekur þátt í slíkum kostnaði. Auk þess liggur fyrir að heimilt verður að synja beiðni um að sækja slíka þjónustu annað ef hægt er að veita hana hér á landi innan tímamarka sem réttlæta má læknisfræðilega þegar tekið er mið af aðstæðum hverju sinni. Við umfjöllun nefndarinnar var horft til þess möguleika að stjórnvöld geta gripið til ráðstafana á grundvelli brýnna almannahagsmuna til að tryggja næga og viðvarandi þjónustu komi til mikillar ásóknar erlendis frá. Í dag er fátítt að einstaklingar ferðist milli landa til að sækja sér heilbrigðisþjónustu, en slíkt getur þó m.a. hentað á svæðum sem eru nálægt landamærum og jafnvel styttra að sækja þjónustuna annað. Eðli málsins samkvæmt á það ekki við hér á landi og því ólíklegt að tilskipunin hafi hér mikil áhrif.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Ásmundur Einar Daðason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. mars 2015.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Vilhjálmur Bjarnason.


Elín Hirst.



Frosti Sigurjónsson.


Katrín Jakobsdóttir,


með fyrirvara.


Óttarr Proppé.



Silja Dögg Gunnarsdóttir.


Össur Skarphéðinsson,


með fyrirvara.