Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1176  —  702. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum
(endurskoðun höfundalaga, einkaréttindi höfunda og samningskvaðir).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Með þeim takmörkunum sem í lögum þessum greinir hefur höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að gera það aðgengilegt almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu eða annarri aðlögun, í annarri tegund bókmennta eða lista eða með annarri tækni.
    Eintakagerð telst sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er. Það telst m.a. eintakagerð ef verk er flutt yfir á miðil sem nota má til endurmiðlunar.
    Verk telst gert aðgengilegt almenningi þegar:
     1.      eintök af því eru boðin til sölu, leigu eða láns eða er dreift til almennings með öðrum hætti,
     2.      eintök af því eru sýnd opinberlega,
     3.      verkið er flutt opinberlega.
    Það telst vera opinber flutningur í skilningi 3. tölul. 3. mgr. þegar:
     1.      verki er miðlað til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal þegar það er sent út í útvarpi eða gert aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn getur fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem hann sjálfur kýs,
     2.      verk er flutt á atvinnustöðvum fyrir stóran hóp manna sem endranær er talinn vera lokaður hópur,
     3.      útvarpsflutningur á tónlist eða bókmenntaverki er gerður aðgengilegur almenningi á þann hátt að honum er endurvarpað með hátalara eða á annan sambærilegan hátt í rými sem er opið almenningi.
    Flutningur verks í útvarpi nær bæði til hljóðvarps og sjónvarps nema annars sé getið.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Verk telst birt þegar það hefur verið gert aðgengilegt almenningi með lögmætum hætti.
    Verk telst gefið út þegar eintök af því hafa með réttri heimild verið boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu eða þeim dreift til almennings með öðrum hætti.

3. gr.     

    3. og 4. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Nú er verk sem lög þessi taka til, eða hlutar þess, skráð sem hönnun samkvæmt lögum nr. 46/2001 og útilokar það ekki samhliða höfundavernd.

5. gr.

    Á eftir 12. gr. a laganna kemur ný grein, 12. gr. b, svohljóðandi:
    Söfn sem falla undir 1. mgr. 12. gr. hafa heimild til að gera eintök af birtum verkum í safni sínu og gera þau aðgengileg almenningi að fullnægðum skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a.

6. gr.

    3. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að endurbirta listaverk í almennu fræðsluefni, í sambandi við gagnrýni og við vísindalega umfjöllun, þótt í fjárhagslegum tilgangi sé, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þetta gildir þó ekki ef höfundur hefur bannað samningsaðila slíka notkun verks.

7. gr.

    15. gr. a laganna fellur brott.

8. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er opinberum eða einkareknum stofnunum, samtökum og atvinnufyrirtækjum að gera eða láta gera til notkunar innan starfsemi sinnar eintök af útgefnum verkum, sem og með upptöku að gera eintök af verkum sem send eru út í hljóðvarpi eða sjónvarpi eða gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þetta gildir þó ekki ef höfundur hefur bannað samningsaðila slíka notkun verks.
    Ákvæði 1. mgr. gildir hvorki um kvikmyndaverk sem gerð eru til sýninga í kvikmyndahúsum, þó að þau hafi verið send út í sjónvarpi, nema því aðeins að um sé að ræða stutt brot úr verkinu, né um forrit á stafrænu formi.
    Eintök sem gerð eru með heimild í 1. mgr. má einungis nota til eigin starfsemi innan þeirrar stofnunar, samtaka eða fyrirtækis sem samningur skv. 26. gr. a tekur til.

9. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er stofnunum á vegum ríkis og ­sveitarfélaga og öðrum stofnunum sem starfa í almannaþágu og ekki í fjárhagslegum tilgangi að gera með mynd- eða hljóðupptöku eintök af verkum, sem hljóðvarpað er eða sjónvarpað eða gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, til nota fyrir blinda, sjónskerta og heyrnarlausa, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þess háttar upptökur má aðeins nota innan stofnunar sem samningur tekur til, sbr. 26. gr. a.

10. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Útvarpsstöðvum er heimilt að senda út útgefin verk, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Sama á við um opinberan flutning annarra aðila á útgefnum verkum, enda feli slíkur flutningur ekki í sér miðlun efnis í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. Þetta á þó ekki við um leiksviðsverk, kvikmyndir eða verk sem höfundur hefur lagt bann við að séu flutt í útvarpi eða annars staðar.
    Ákvæði 1. mgr. tekur ekki til sendinga útvarps um gervihnött nema sendingin fari samtímis fram um sendi á jörðu niðri.
    Þegar útvarpsstöð er heimilt að útvarpa verki er henni frjáls upptaka þess á hljóðrit eða myndrit til eigin nota í sinni innri starfsemi. Nánari reglur um upptöku verka, varðveislu þeirra og not útvarpsstöðva má setja í reglugerð.

11. gr.

    23. gr. a laganna orðast svo:
    Verki sem er löglega útvarpað beint eða um gervihnött má endurvarpa til almennings um kapalkerfi óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a.

12. gr.

    Á eftir 23. gr. a laganna kemur ný grein, 23. gr. b, svohljóðandi:
    Útvarpsstöðvum er heimilt, ef fullnægt er skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a, að nota verk úr safni sínu til endurútsendingar og gera þau aðgengileg þannig að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, sem og til þess að gera eintök af verkunum sem nauðsynleg eru í því skyni að senda þau út eða gera þau aðgengileg. Ákvæði þessarar greinar gildir einungis um verk sem send hafa verið út fyrir gildistöku laga þessara og teljast til eigin framleiðslu viðkomandi útvarpsstöðvar.
    Höfundur getur bannað útvarpsstöð að hagnýta verk sitt með þeim hætti sem heimilað er í 1. mgr.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      2.–8. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „samkvæmt 3. gr.“ í 5. mgr. kemur: skv. 2. gr.

14. gr.

    Á eftir 26. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 26. gr. a – 26. gr. c, svohljóðandi:

    a.     (26. gr. a.)
    Nú hafa samtök rétthafa, sbr. 4. mgr., gert samning við notanda um þar tilgreinda hagnýtingu verka á grundvelli heimilda í 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. 18. gr., 4. mgr. 19. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a og 1. mgr. 23. gr. b og fær þá sá notandi rétt til þess að hagnýta önnur verk sömu tegundar þó að samtökin komi ekki fram fyrir höfunda þeirra verka, á sama hátt og með sömu skilmálum og felast í samningnum við samtökin og hinum tilvitnuðu ákvæðum. Réttur notanda samkvæmt framangreindu nefnist samningskvaðaleyfi.
    Samningskvaðaleyfi geta notendur einnig fengið sem samið hafa um slíkt við samtök rétthafa, sbr. 4. mgr., að því tilskildu að:
     a.      samningurinn um slíkt samningskvaðaleyfi taki til afmarkaðs og vel skilgreinds sviðs,
     b.      samningskvaðaleyfi sé forsenda þess að nýting sé möguleg,
     c.      samningurinn sé skriflegur og í honum tekið fram að hann veiti samningskvaðaleyfi.
    Ákvæði 2. mgr. gildir þó ekki um verk ef höfundur þess hefur bannað samningsaðila slíka notkun.
    Samtök rétthafa sem stofna til samninga sem veita samningskvaðaheimild, sbr. 1. og 2. mgr., skulu hafa viðurkenningu ráðherra. Viðurkenning er háð því að samtök séu í forsvari fyrir verulegan hluta höfunda tiltekinna verka sem notuð eru hér á landi. Ráðherra getur ákveðið að samtök sem viðurkenningu hljóta á nánar tilteknum sviðum skuli vera sam­eigin­leg samtök tveggja eða fleiri félagssamtaka sem uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. Ráðherra setur nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar, þ.m.t. endurskoðun viðurkenningar, þeirra samtaka sem nefnd eru í 1. og 2. mgr. auk samtaka sem 2. mgr. 47. gr. tekur til.

    b. (26. gr. b.)
    Þóknun fyrir notkun sem fer fram á grundvelli samnings um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a skal ákvörðuð með sama hætti gagnvart öllum þeim höfundum sem samningskvaðaleyfið tekur til hvort sem þeir eru innan eða utan þeirra rétthafasamtaka sem eru aðilar að samningnum.
    Þeir höfundar sem rétthafasamtök koma ekki fram fyrir geta gert kröfu til þess að fá einstaklingsbundna þóknun fyrir not á grundvelli samningskvaðaleyfisins þó að slíkur réttur komi hvorki fram í samningi samtakanna um samningskvaðaleyfi við notanda né í reglum samtakanna um þóknun. Ákveða má fjárhæð einstaklingsbundinnar þóknunar samkvæmt ákvæðum 57. gr. Kröfu um slíka þóknun verður einungis beint að samtökunum og skal hún vera skrifleg.
    Rétthafasamtök sem eru aðilar að samningi sem veitir samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a skulu birta upplýsingar á viðeigandi hátt um að slíkur samningur hafi verið gerður ásamt upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að rétthafar sem ekki eru í samtökunum geti gert kröfur um þóknun.
    Kröfur um þóknun, sem samtök sem hafa hlotið viðurkenningu skv. 4. mgr. 26. gr. a kunna að gera á hendur notendum vegna hagnýtingar verka skv. 23. gr. a, skulu allar gerðar á sama tíma og vera skriflegar.
    Kröfur um þóknun fyrir hagnýtingu verka samkvæmt samningskvaðaleyfi fyrnast á fjórum árum frá því að hagnýtingin átti sér stað. Skrifleg krafa, sbr. 2. og 4. mgr., rýfur fyrningarfrestinn.

    c. (26. gr. c.)
    Nú nást ekki samningar sem samningskvaðaleyfi skv. 1. mgr. 26. gr. a verður byggt á og getur þá aðili að samningsumleitunum farið fram á sáttameðferð.
    Krafa um sáttameðferð skal send ráðherra. Slíka kröfu má bera fram þegar einn af aðilunum hefur slitið samningsumleitunum eða hafnað ósk um samningsumleitun eða þegar ekki verður séð að samningsumleitanir muni leiða til lausnar.
    Sérstakur sáttasemjari, tilnefndur af ráðherra, skal annast sáttameðferð. Hann skal vera óháður samningsaðilum og ekki hafa persónulegan ávinning af niðurstöðunni. Við sáttaumleitanir skal stuðst við þær tillögur til lausnar sem aðilarnir kunna að hafa lagt fram. Sáttasemjari getur lagt til við aðilana að gert verði út um deilumál með gerðardómi og getur aðstoðað þá við val á gerðarmönnum.
    Sáttasemjari getur borið fram tillögu um lausn deilumáls og getur krafist þess að tillagan verði innan nánar tiltekins frests borin undir ákvörðunarbærar stofnanir samningsaðila til samþykktar eða synjunar. Ef deilan varðar endurvarp um kapalkerfi skv. 23. gr. a verður litið svo á að tillagan sé samþykkt ef enginn mótmælir henni innan þriggja mánaða. Sáttasemjari tilkynnir ráðherra um niðurstöðu sáttameðferðar.
    Sáttasemjari getur ákveðið að eldri samningar skuli gilda áfram þó að samningstímabili sé lokið eða því muni ljúka meðan á sáttameðferð stendur. Ekki er þó heimilt að framlengja gildistíma eldri samnings lengur en í tvær vikur eftir að aðilarnir hafa tekið afstöðu til sáttatillögu skv. 4. mgr. eða tillögu um gerð eða eftir að sáttasemjari hefur tilkynnt að þýðingarlaust sé að bera fram þess háttar tillögur.
    Í reglugerð sem ráðherra gefur út samkvæmt þessari grein er heimilt að setja nánari reglur um starf sáttasemjara og kostnað vegna starfa hans.

15. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verður svohljóðandi: Takmarkanir á höfundarétti og umsýsla höfundaréttar á grundvelli samningskvaða.

16. gr.

    3. mgr. 45. gr. laganna orðast svo:
    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–5. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr., 53. gr. og 57. gr.

17. gr.

    45. gr. a laganna fellur brott.

18. gr.

    2. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
    Eftir því sem við á skal beita ákvæðum 2.–5. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 23. gr. b, 24. gr., 3. mgr. 26. gr., 26. gr. a – 26. gr. c og 57. gr.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjendafélaga“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: samtökum framleiðenda og listflytjenda.
     b.      3. og 4. mgr. orðast svo:
                      Þegar framleiðandi hljóðrits eða listflytjandi á rétt til þóknunar skv. 1. málsl. 1. mgr. skal hún fara eftir heildarsamningi milli samtaka skv. 2. mgr. og notanda eða samtaka hans. Þeim samtökum skal heimilt að setja gjaldskrár um flutning af hljóðritum utan útvarps, enda feli slíkur flutningur ekki í sér miðlun efnis í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. Ágreiningi um þóknun geta aðilar skotið til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. Nefndin getur gert notanda að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu þóknunar þar til hún hefur verið ákveðin, en ella mælt fyrir um stöðvun á notkun verndaðra hljóðrita uns trygging hefur verið sett.
                      Ákvæði þessi gilda ekki um myndrit.

20. gr.

    3. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
    Eftir því sem við á skal beita ákvæðum 2.–4. mgr. 2. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 24. gr. og 3. mgr. 26. gr.

21. gr.

    Í stað orðanna „5. mgr. 23. gr.“ í 1. mgr. 50. gr. c laganna kemur: 3. mgr. 23. gr.

22. gr.

    53. gr. a laganna fellur brott.

23. gr.

    Í stað orðanna „samkvæmt 3. gr.“ í 1. tölul. 2. mgr. 54. gr. laganna kemur: skv. 2. gr.

24. gr.

    57. gr. laganna orðast svo:
    Takist ekki samningur um fjárhæð þóknunar skv. 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 16.–18. gr., 4. mgr. 19. gr., 20. og 21. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 26. gr. b og 47. gr., eða önnur ágreiningsefni vegna samningskvaðaheimilda, getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð þriggja manna nefndar sem ráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd skv. 58. gr. tilnefnir.
    Úrskurður nefndarinnar felur í sér fullnaðarúrlausn um ágreiningsefnið á stjórnsýslustigi. Ráðherra er heimilt að setja reglur um starfshætti nefndarinnar sem og um greiðslu málskostnaðar.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „löggildingu“ og „löggildingin“ og orðanna „skv. 23. gr. og 23. gr. a“ í 1. mgr. kemur: viðurkenningu; viðurkenningin; og: skv. 4. mgr. 26. gr. a vegna ákvæða 23. gr. og 23. gr. a.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar sett er fram krafa um lögbann samkvæmt þessari heimild skal þjónustuþega tryggð sambærileg réttarstaða og gerðarþola til hagsmunagæslu við fyrirtöku lögbannsgerðar eftir því sem við verður komið, auk tilkynningar um lögbannsgerð að henni lokinni, skv. 14. og 18. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990.

26. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr. 2. gr.“ í 4. tölul. 1. mgr. 60. gr. laganna kemur: 2. mgr. 3. gr.

27. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samráði við höfundaréttarnefnd. Höfundaréttarnefnd er mennta- og menningarmálaráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál skv. 58. gr. höfundalaga, nr. 73/1972.
    Nefndina skipa sjö sérfróðir aðilar á sviði höfundaréttar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn auk tveggja varamanna. Í núverandi stjórn sitja Rán Tryggvadóttir, formaður nefndarinnar, Guðrún Björk Bjarnadóttir hrl., Erla S. Árnadóttir hrl., Gunnar Guðmundsson hdl., Knútur Bruun hrl., Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl. og Tómas Þorvaldsson hrl. Varamenn eru Hjördís Halldórsdóttir hrl. og Margrét Sigurðardóttir lögfræðingur.
    Á þingmálaskrá ríkisstjórnar fyrir 144. löggjafarþing Alþingis eru fjögur frumvörp um breytingar á höfundalögum. Tvö frumvarpanna varða innleiðingu tilskipana á sviði höfundaréttar sem hafa þegar verið teknar upp í EES-samninginn, þ.e. tilskipun 2011/77/ESB um breytingu á tilskipun 2006/116/EB (lenging verndartíma hljóðrita) og tilskipun 2012/28/ESB (tiltekin leyfileg afnot munaðarlausra verka). Þriðja frumvarpið felur í sér tilteknar breytingar á 11. gr. höfundalaga um eintakagerð til einkanota að ósk samtaka rétthafa sem fara með innheimtu höfundaréttargjalds skv. 6. mgr. 11. gr. laganna. Fjórða frumvarpið er þetta frumvarp sem felur í sér afrakstur 2. og 3. áfanga heildarendurskoðunar höfundalaga sem hófst 29. október 2009. Fyrsta áfanga lauk með undirbúningi frumvarps sem varð að lögum nr. 93/2010. Leiðarljós fyrir endurskoðun höfundalaga hafa verið skilgreind í eftirfarandi áherslupunktum:
     1.      Höfundalög þurfa að vera skýr og auðskiljanleg.
     2.      Áhersla er lögð á að haldið sé lagasamræmi við önnur norræn höfundalög.
     3.      Efla þarf virðingu fyrir höfundarétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið.
     4.      Réttarúrræði fyrir rétthafa þurfa að vera skilvirk og hafa forvarnargildi.
     5.      Stuðla ber að því að notendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega eintakagerð.
     6.      Höfundalög eiga að stuðla að jafnvægi á milli rétthafa og notenda.
     7.      Leggja ber áherslu á leiðbeiningar og fræðslu um höfundarétt fyrir rétthafa sem og notendur.
     8.      Áhersla er lögð á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði höfundaréttar.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilgangur með þessu frumvarpi er tvenns konar. Annars vegar er tilgangurinn að færa I. kafla höfundalaga, sem fjallar um réttindi höfunda og fleira, til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (hér eftir kölluð tilskipun um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu eða tilskipunin (e. InfoSoc Directive)). Tilskipun um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu hefur þegar verið innleidd að efni til með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 9/2006. Í því innleiðingarferli var ákveðið að hrófla ekki við hugtakanotkun í I. kafla laganna heldur láta slíkt bíða heildarendurskoðunar höfundalaga. Í fyrsta kafla laganna er kveðið á um grundvallarinntak höfundaréttar, þ.e. einkarétt höfunda til að gera og birta eintök af verkum sínum. Tilgangur tilskipunarinnar var að aðlaga þann einkarétt að upplýsingasamfélaginu sem byggist á stafrænni tækni. Einkaréttur höfunda á fjárhagslegri nýtingu verka sinna á að vera óháður tækniþróun. Hugtök höfundaréttar um eintakagerð og birtingu verka eins og þau eru skilgreind í núgildandi lögum ná til nýtingar verka á stafrænum vettvangi. Hins vegar er talið nauðsynlegt og til skýringarauka að uppfæra orðalag og hugtakaskilgreiningar i I. kafla til að betra samræmis gæti við tilskipunina eins og gert hefur verið í öðrum norrænum ríkjum.
    Hins vegar er tilgangurinn með endurskoðun laganna að lögfesta breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum eins og nánar er gerð grein fyrir í næsta kafla. Um árabil hefur verið að finna í norrænum höfundalögum ákvæði um samningskvaðaleyfi (d. avtalelicens, s. aftalslicens, n. avtalelisens, e. extended collective licenses). Með samningskvöð er átt við það að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru af höfundarétti, sem gert hafa samning við höfundaréttarsamtök um notkun á verkum aðildarfélaga/félagsmanna þeirra (t.d. með ljósritun), skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins. Þetta fyrirkomulag auðveldar notkun verka, til hagsbóta fyrir rétthafa og notendur, í þeim tilvikum sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða. Sem dæmi um slíkt má nefna ljósritun fyrir kennslu eða flutning tónlistar í útvarpi þegar erfitt eða ómögulegt er fyrir notendur að fá leyfi hvers og eins rétthafa fyrir viðkomandi afnotum. Með því að samningur með samningskvaðaáhrifum bindur rétthafa sem standa utan rétthafasamtaka er réttarvissa tryggð fyrir notandann. Þá er nauðsynlegt að hafa jafnframt ákvæði sem tryggja hagsmuni ófélagsbundinna rétthafa.
    Ákvæði í löggjöf annars staðar á Norðurlöndum um samningskvaðir byggjast á að hagsmunir þeirra höfunda sem standa utan rétthafasamtaka séu tryggðir með tilteknum hætti. Í fyrsta lagi með því að samningur skuli vera fyrir hendi á milli notanda og rétthafasamtaka sem séu í forsvari fyrir verulegan hluta höfunda tiltekinna tegunda af verkum. Talið er að slík rétthafasamtök séu í betri aðstöðu til að semja um endurgjald en einstakir rétthafar og því sé fyrirkomulagið til hagsbóta fyrir alla rétthafa, hvort sem þeir standa innan og utan samtaka. Í öðru lagi með því að tryggja að rétthafar sem standa utan samtaka hafi sama rétt til endurgjalds og félagsbundnir rétthafar. Í þriðja lagi með því að tryggja rétt rétthafa sem standa utan samtaka til að krefjast einstaklingsbundinnar greiðslu þó svo að ekki sé kveðið á um slíkt í samningnum og að lokum með því að rétthafar sem standa utan samtaka hafi rétt til að banna notkun verka sinna á grundvelli samningskvaðar. Hvað síðastgreint atriði varðar er rétt að nefna að ekki er algilt að slíkur réttur sé til staðar í ákvæðum um samningskvaðir í löggjöf annars staðar á Norðurlöndum.
    Ákvæði um samningskvaðir voru fyrst sett í norræn höfundalög í kringum 1960 en þó ekki í íslensk höfundalög. Á Íslandi var fyrst lögfest ákvæði um samningskvaðir með lögum nr. 57/1992 sem vörðuðu útsendingar í útvarpi, sbr. 1. og 2. mgr. 23. gr. höfundalaga, og ákveðin not myndlistarverka í sjónvarpi, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. sömu laga. Í gildandi höfundalögum er að finna fimm ákvæði sem fela í sér samningskvöð. Þau varða:
     1.      Heimild til ljósritunar, sbr. 15. gr. a, sem getur einnig tekið til stafrænnar eintakagerðar, sbr. 4. mgr. 15. gr. a.
     2.      Heimild útvarpsstöðva til flutnings á smærri verkum á sviðum bókmennta og lista, sbr. 23. gr.
     3.      Heimild til að endurvarpa verki um kapalkerfi, óbreyttu og samtímis útvarps- eða gervihnattasendingu þess, sbr. 23. gr. a.
     4.      Sýning myndlistarverka í sjónvarpi, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr.
     5.      Heimild til að endurvarpa listflutningi um kapalkerfi samtímis óbreyttum útvarps- eða gervihnattasendingum hans, sbr. 45. gr. a.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Eins og fram hefur komið lýtur meginefni frumvarpsins aðallega að tvennu, að samræma I. kafla gildandi höfundalaga betur efni tilskipunarinnar og að endurskoða ákvæði um samningskvaðaleyfi í höfundalögum. Því er lagt til að tekið verði upp breytt orðalag á hugtakinu eintakagerð og jafnframt lagt til að notað verði orðasambandið að gera verk aðgengileg í stað hugtaksins birting, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Ákvæði 2. gr. frumvarpsins varðar skilgreiningar á birtingu og útgáfu verka. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins leggur til endurskipulagningu á ákvæðum um vernd gagnagrunna og 4. gr. frumvarpsins varðar breytta hugtakanotkun vegna samspils hönnunarverndar og höfundaverndar. Breytingar sem lagðar eru til í 1.–4. gr. frumvarpsins fela ekki í sér breyttan efnisrétt.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði fjögur ný samningskvaðaákvæði. Þá er lagt til að tekið verði upp hugtakið samningskvaðaleyfi um þá heimild sem notendur fá til nota á verkum á grundvelli samningskvaðar en slíkt leyfi yrði þá talið vera fyrir hendi á grundvelli samningsins sem lýst er að framan.
    Nýju samningskvaðirnar sem lagt er til að lögfestar verði eru eftirfarandi:
     1.      Söfn sem talin eru upp í 1. mgr. 12. gr. laganna geti samið um leyfi til eintakagerðar umfram heimildir í gildandi 12. gr. og til að gera slík eintök aðgengileg, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
     2.      Stofnanir geti samið um leyfi til að gera eintök af upptökum útsendinga hljóðvarps og sjónvarps til nota fyrir blinda, sjónskerta og heyrnarlausa, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
     3.      Útvarpsstöðvar geti samið um leyfi til endurnýtingar á verkum úr safni sínu, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
     4.      Almenn heimild til samninga um leyfi til nota á verkum í afmörkuðum, vel skilgreindum tilvikum, sbr. 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins.
    Þá er lögð til breyting á uppsetningu og orðalagi gildandi samningskvaðaákvæða og í sumum tilvikum útvíkkun á gildissviði þeirra.
    Verði frumvarpið að lögum verður unnt að gera samninga sem fela í sér samningskvaðaleyfi í eftirfarandi tilvikum:
     1.      Vegna eintakagerðar safna umfram heimildir í 12. gr. laganna, sbr. 5. gr. frumvarpsins sem er nýmæli eins og að framan greinir. Í ákvæðinu felst jafnframt heimild fyrir söfn til að gera slík eintök aðgengileg með rafrænum hætti.
     2.      Til að endurbirta listaverk í almennu fræðsluefni, gagnrýni og vísindalegri umfjöllun, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Hér er um töluverða breytingu og útvíkkun samningskvaðar um myndlistarverk að ræða frá því sem nú gildir skv. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna jafnframt því sem hún kemur í stað þrengri afnotakvaðar í 3. mgr. 14. gr. laganna.
     3.      Vegna eintakagerðar af útgefnum verkum til notkunar innan stofnana, samtaka og fyrirtækja vegna eigin starfsemi þeirra, þ.m.t. upptökur úr hljóðvarpi og sjónvarpi, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Þessu ákvæði er ætlað að koma í stað samningskvaðaákvæðis um ljósritun sem er að finna í 15. gr. a í lögunum en með víðtækara gildissviði.
     4.      Fyrir stofnanir til að gera eintök af upptökum útsendinga hljóðvarps og sjónvarps til nota fyrir blinda, sjónskerta og heyrnarlausa, sbr. 9. gr. frumvarpsins, sem er nýmæli.
     5.      Vegna útsendinga á útgefnum verkum í útvarpi og vegna annars opinbers flutnings sem ekki felur í sér miðlun efnis í skilningi 4. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Ákvæði frumvarpsins er sambærilegt gildandi ákvæði 1. og 2. mgr. 23. gr. laganna en að auki er lagt til að í stað 3. mgr. 23. gr. gildandi laga um innheimtuumboð verði lögleitt ákvæði um samningskvöð.
     6.      Fyrir endurvarp um kapalkerfi, sbr. 11. gr. frumvarpsins sem er sambærileg gildandi ákvæði 23. gr. a í lögunum.
     7.      Til að heimila útvarpsstöðvum að endurútsenda og gera aðgengileg á annan hátt áður útsend verk úr safni þess, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
     8.      Í afmörkuðum, vel skilgreindum tilvikum, sbr. 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins.
    Höfundalög annarra Norðurlandaþjóða hafa að geyma sérstök ákvæði um hvernig staðið skuli að samningum á grundvelli samningskvaða sem m.a. eiga að tryggja rétt utanfélagsmanna sem bundnir eru af slíkum samningum. Gildandi samningskvaðaákvæði í íslensku höfundalögunum tiltaka hvert um sig ráðstafanir til að tryggja rétt utanfélagsmanna en ekki er samræmi milli þessara ákvæða. Öll gildandi samningskvaðaákvæðin kveða í fyrsta lagi á um að rétthafasamtök sem hafa samningsheimild á grundvelli samningskvaðaákvæðis skuli annast hagsmunagæslu fyrir „verulegan“ hluta „íslenskra“ rétthafa á viðkomandi sviði og vera viðurkennd af mennta- og menningarmálaráðuneyti. Í 23. gr. gildandi laga er tilgreint að aðeins ein samtök á hverju sviði skuli fá viðurkenningu til að semja um flutning verka á grundvelli samningskvaða. Í framkvæmd hefur það verið láta gilda um aðrar samningskvaðaheimildir höfundalaganna þótt ekki sé kveðið á um það í viðkomandi lagagreinum.
    Í öðru lagi segja ákvæðin fyrir um að rétthafar sem standa utan viðkomandi samtaka skuli hafa sama rétt og félagsmenn við úthlutun endurgjalds sem innheimt er samkvæmt samningi sem veitir samningskvaðaleyfi. Ólíkar reglur gilda á hinn bóginn um rétt utanfélagsmanna til einstaklingsgreiðslna og hvernig skuli fara með ágreining um slíkar kröfur sem og um fyrningu slíkra krafna. Þá gilda ekki samræmdar reglur um hvernig með skuli farið ef ekki næst samkomulag á grundvelli samningskvaða. Mikilvægt er að um þessi atriði gildi samræmdar reglur og það er því lagt til í frumvarpinu, sbr. c-lið 14., 19. og 24. gr. frumvarpsins.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta hefur ekki gefið tilefni til sérstaks mats á samræmi við stjórnarskrá.
    Með 1.–3. gr. frumvarpsins er leitast við að færa I. kafla laganna til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum og þá sérstaklega með tilliti til tilskipunar um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu (e. InfoSoc Directive). Þriðji áfangi heildarendurskoðunar höfundalaga lýtur að samningskvaðaleyfi en ákvæði um slíkt hafa verið um árabil í norrænum höfundalögum. Með þeirri breytingu sem nú er lögð til er leitast við að færa íslenskan rétt til samræmis við norrænan rétt.

V. Samráð.
    Frumvarpið er samið í samráði við höfundaréttarnefnd sem er mennta- og menningarmálaráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál skv. 58. gr. höfundalaga. Fjallað hefur verið um efni frumvarpsins á fundum höfundaréttarráðs. Frumvarpið var kynnt í opnu samráðsferli á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis og athygli helstu hagsmunaaðila vakin á efni þess. Af hálfu Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) komu fram tvær athugasemdir við efni frumvarpsins. Fyrri athugasemdin snýr að því að STEF telur að með 25. gr. frumvarpsins sé verið að breyta 59. gr. a í höfundalögum á þann hátt að lögbannsaðgerð vegna brota á höfundaréttarbrotum á netinu verði gerð þyngri í vöfum á sama tíma og ekki sé gerð nauðsynleg breyting á 2. mgr. þessarar sömu greinar vegna dóma Hæstaréttar í málunum 239/2014 og 240/2014 þar sem verulega hafi verið takmarkaðir möguleikar rétthafasamtaka á að sækja rétt félagsmanna sinna vegna brota á höfundarétti á netinu. Í þessum dómum hafi fern rétthafasamtök krafist þess að lagt yrði lögbann við því að fjarskiptafyrirtæki veitti viðskiptamönnum sínum aðgang að nánar tilgreindum vefsíðum. Með ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík hafi lögbannskröfunni verið hafnað, en rétthafasamtökin hafi borið ágreining um ákvörðunina undir héraðsdóm sem hafi vísað málinu frá. Hæstiréttur hafi staðfest hinn kærða úrskurð að því er varðaði þrenn af fernum samtökum sökum þess að Hæstiréttur hafi talið að túlka bæri 2. mgr. 59. gr. höfundalaga á þann hátt að einungis þau samtök sem hefðu löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytis skv. 23. gr. og 23. gr. a höfundalaga gætu fengið lagt lögbann á fjarskiptafyrirtæki samkvæmt ákvæðinu. STEF hafi verið eini sóknaraðili málsins sem hafi hlotið slíka löggildingu. Í fram­haldinu hafi STEF því staðið eitt að málarekstrinum. Enga slíka takmörkun sé þó að finna í orðalagi 2. mgr. 59. gr. a þar sem segi að ... einstakir rétthafar eða samtök þeirra [geti] fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet ... Ákvæðið hafi verið sett í lög til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB, en aðildarríki hafi frjálsar hendur um hvernig þau geri það. Ekki væri minnst á löggildingu í þessari málsgrein, né í greinargerð með því frumvarpi sem hafi orðið að lögum nr. 93/2010 eða öðrum lögskýringagögnum. Í ljósi túlkunar Hæstaréttar á þessu ákvæði höfundalaga verði ekki annað séð en að ákvæðið hafi ekki verið innleitt á réttan hátt í íslensk lög og því sé nauðsynlegt að taka af allan vafa og lagfæra orðalag eða uppsetningu lagagreinarinnar að þessu leyti. Að mati STEFs takmarkar núverandi réttarástand verulega möguleika rétthafa til að leita aðstoðar hjá samtökum sínum vegna brota á höfundarétti á netinu, en samtök eins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, svo og Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, séu með þessari túlkun útilokuð frá aðild að lögbannsmálum vegna brota er varða félagsmenn þeirra.
    Í b-lið 25. gr. frumvarpsins er lögð til breyting sem er að mati ráðuneytisins til þess fallin að bæta réttaröryggi í þágu þeirra aðila sem reka vefþjónustu sem lögbannskrafa beinist að og vísast um rökin fyrir þeirri breytingu til athugasemda við 25. gr. í frumvarpinu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að meginefni 59. gr. a í höfundalögum sé óbreytt, sbr. 25. gr. frumvarpsins. Af hálfu ráðuneytisins er í tilefni af athugasemd STEFs bent á að 1. mgr. 59. gr. a felur í sér réttarfarslegt hagræði fyrir þau samtök rétthafa sem hafa hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytis skv. 23. gr. og 23. gr. a í höfundalögum til að fá lagt lögbann við byrjuðum eða yfirvofandi flutningi eða öðrum notum allra þeirra verka sem löggilding þeirra nær til án þess að sýslumenn eða dómstólar geti krafið samtökin um umboð til hagsmunagæslu fyrir þá rétthafa sem fara með rétt til þeirra verka sem notuð eru með óheimilum hætti samkvæmt ákvæðinu. Hagræðið felst í því að umrædd samtök rétthafa þurfa ekki að hafa aflað sér umboða til hagsmunagæslu frá rétthöfum þess efnis sem flutt er eða miðlað án heimildar rétthafanna. Af þessu fyrirkomulagi verður hins vegar ekki gagnályktað á þann veg sem fram kemur í athugasemdum STEFs að öðrum samtökum rétthafa sem ekki hafa hlotið löggildingu samkvæmt höfundalögum sé þar með meinað að gæta hagsmuna sinna í samræmi við 1. mgr. 59. gr. a í höfundalögum. Slíkum samtökum er eftir sem áður frjálst að gæta réttar félagsmanna sinna með lögbannskröfu að því tilskildu að samþykktir þeirra kveði á um slíka hagsmunagæslu, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, eða með því að afla umboðs til hagsmunagæslu frá félagsmönnum sínum. Ekki hefur verið leitt í ljós að samtökum rétthafa sé ókleift að afla slíkra umboða frá rétthöfum þeirra verka sem flutt eru án heimildar. Í athugasemdum STEFs kemur fram að Hæstiréttur Íslands hafi túlkað 2. mgr. 59. gr. a í höfundalögum á þann hátt að heimild til að fá lagt lögbann á miðlun fjarskiptafyrirtækis að tiltekinni vefþjónustu sé bundin við þau samtök rétthafa sem tilgreind eru í 1. mgr. 59. gr. a án þess að séð verði að slíkt skilyrði hafi verið ætlun löggjafans. Að mati STEFs er slík takmörkun andstæð þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands skv. 3. mgr. 8. gr. tilskipunar 2001/29/EB sem kveður á um að aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins skuli sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan virðist 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 ekki standa því í vegi að samtök rétthafa sem ekki hafa hlotið löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytis standi að lögbanni í samræmi við 3. mgr. 8. gr. tilskipunar 2001/29/EB. Rétt er að benda á að skilyrði 1. mgr. 59. gr. a í höfundalögum tryggir að um sé að ræða samtök rétthafa sem lúta ákveðnu eftirliti ráðuneytisins skv. 23. gr. og 23. gr. a a í gildandi höfundalögum, sbr. a-lið 14. gr. frumvarpsins.
    Síðari athugasemd STEFs lýtur að því að samtökin telja að í frumvarpinu hafi átt að felast endurskoðun á 11. gr. höfundalaga til samræmis við lög annarra norrænna ríkja og kveða skýrt á um að heimild laganna til eintakagerðar til einkanota sé bundin við að um sé að ræða eftirgerð af löglegu upprunaeintaki. Þá beri einnig að breyta 3.–5. mgr. 11. gr. laganna um álagningu höfundaréttargjalds á miðla og tæki sem notuð eru til upptöku hljóðs og hljóðs og myndar til samræmis við nýja miðla og tæki. STEF bendir á að á meðan slíkir miðlar og tæki beri ekki höfundaréttargjald sé ekki hægt að tryggja rétthöfum sanngjarnar og fullnægjandi bætur vegna afnota af vernduðum verkum þeirra eins og tilskipun 2001/29/EB kveður á um.
    Af hálfu ráðuneytisins er bent á að í þingmálaskrá ríkisstjórnar fyrir 144. löggjafarþing er tilgreint sem þriðja þingmál mennta- og menningarmálaráðherra sérstakt frumvarp um breytingar á 11. gr. höfundalaga sem tekur til stafrænna geymslumiðla og miðar að því settar verði skýrar reglur um heimild einstaklinga til eintakagerðar eftir birtum verkum til einkanota ein­göngu. Drög að slíku frumvarpi hafa verið kynnt fyrir stjórn Innheimtumiðstöðvar gjalda (IHM) sem fer með innheimtuumboð fyrir rétthafa skv. 6. mgr. 11. gr. höfundalaga þar sem STEF á fulltrúa. Ráðuneytið lítur svo á að í framangreindri athugasemd STEFs felist stuðningur við áform mennta- og menningarmálaráðherra um framlagningu frumvarps til laga um breytingar á 11. gr. höfundalaga samkvæmt framansögðu.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum verður viðhaldið því lagasamræmi á sviði höfundaréttar við önnur norræn ríki sem einkennt hefur norrænt samstarf á þessu réttarsviði um ríflega hálfrar aldar skeið. Slíkt samræmi er talið auka skilvirkni á þessu réttarsviði.
    Þá er talið rétt og eðlilegt að breyta orðalagi laganna sem taka til einkaréttar höfunda til eintakagerðar og birtingar verka þeirra með sérstöku tilliti til tilskipunar 2001/29/EB til að tryggja að orðalagið sé í skýru samræmi við efni hennar. Nauðsynlegt er að orðalag og hugtök séu í samræmi við inntak réttarins.
    Með samræmingu ákvæða um samningskvaðir verða lögin skýrari hvað varðar rétt utanfélagsmanna og jafnframt eiga uppfærð ákvæði að tryggja skilvirkari not samningskvaða í þeim tilvikum þar sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða til hagsbóta fyrir notendur og rétthafa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að efni 2. gr. og 3. gr. gildandi laga verði sameinað í eina og sömu grein, svo úr verði ný 2. gr. Hin nýja grein kveður á um einkarétt höfundar til þess að gera eintök af verki sínu og gera það aðgengilegt almenningi, sbr. 1. mgr.
    Í 2. mgr. er skilgreint hvað felst í hugtakinu „eintakagerð“ og í 3. mgr. er inntak þess „að gera verk aðgengilegt almenningi“ útlistað.
    Í 3. gr. gildandi laga er kveðið á um einkarétt höfundar til að gera eintök af verki sínu. Í 2. gr. laganna eru svo hugtök sem máli skipta í því samhengi skilgreind. Það þykir horfa til aukins skýrleika að fella ákvæðin saman í eina lagagrein. Þá er hugtakanotkun breytt og notað orðasambandið „að gera verk aðgengilegt“ í stað hugtaksins „birting“ en hið nýja orðalag þykir gagnsærra í þessu samhengi.
    Við innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt, með lögum nr. 9/2006, var sú leið valin að hrófla sem minnst við orðalagi þágildandi höfundalaga. Þess í stað var áhersla lögð á að þrátt fyrir að orðalag laganna væri þrengra en skilgreiningar tilskipunarinnar þá yrðu lögin túlkuð á sama hátt og tilskipunin segði til um, sbr. fylgiskjal II með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 9/2006. Þá var jafnframt vísað til þess að við fyrirhugaða heildarendurskoðun laganna yrði þessi afstaða endurmetin.
    Við endurskoðun á I. kafla laganna þykir rétt að endurraða inntaki 2. og 3. gr. gildandi laga í eina grein og breyta þannig orðalagi ákvæðanna að þau séu í skýru samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Með tilvísunum í 45., 46., 48., 49. og 50. gr. gildandi laga til 2. gr. laganna er þeim rétthöfum sem tilgreindir eru í þessum ákvæðum veitt sömu réttindi og höfundum verndaðra verka.
    Með 1. mgr. er lagt til að efnisinntak 3. gr. gildandi laga verði flutt í 1. mgr. 2. gr. laganna. Sú breyting sem hér er lögð til er í samræmi við 2. gr. dönsku höfundalaganna. Orðalag ákvæðisins er lítillega breytt auk þess sem undirstrikað er að einkaréttur höfunda takmarkist af öðrum ákvæðum laganna, sbr. ákvæði II. kafla. Ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 2. gr. dönsku höfundalaganna.
    Með 2. mgr. er hugtakið „eintakagerð“ skilgreint. Gildandi ákvæði höfundalaga skilgreina eintakagerð þannig að hugverk (bókmenntaverk eða listaverk) er tengt hlutum, einum eða fleiri, sbr. 1. mgr. 2. gr. gildandi laga. Ákvæðið er túlkað á sama hátt og ákvæði tilskipunarinnar þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins sé þrengra en í tilskipuninni, sbr. fylgiskjal II með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 9/2006. Af því leiðir að talið er rétt að orðalag laganna sé í sem mestu samræmi við orðalag tilskipunarinnar og önnur norræn höfundalög. Því er lagt til að skýrt verði kveðið á um að eintakagerð teljist sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er. Undir þessa skilgreiningu fellur til dæmis gerð stafrænna afrita sem er tæknilega óhjákvæmileg ef miðla á verkum í tölvum, netkerfum og gagnasamskiptum um netið, en slík afrit falla í mörgum tilvikum undir ákvæði 10. gr. a gildandi laga sem takmarka einkarétt höfunda til slíkrar eintakagerðar.
    Í seinni málslið 2. mgr. er þess getið til skýringar að það teljist m.a. eintakagerð þegar verk er tekið upp á miðil sem nota má til endurmiðlunar. Í þessu felst að til eintakagerðar telst ekki einungis eftirgerð, sem er sýnileg berum augum eins og t.d. prentun bóka og ljósritun þeirra, heldur einnig eftirgerðir á hljóðböndum, myndböndum og þess háttar hljóð- og myndmiðlum. Í slíkum tilvikum skynjar notandi ekki verkið fyrr en hljóð- eða myndrit er flutt í tæki til endurmiðlunar. Sama á við eintök sem hlaðið er niður á tölvu eða gerð aðgengileg gegnum netið. Hugtakið endurmiðlun er notað um eintakagerð af framangreindu tagi og er það þýðing á hugtakinu „gengivelse“, sem notað er um sams konar eftirgerð í öðrum norrænum höfundalögum. Hugtakið var valið samkvæmt tillögu íslenskrar málstöðvar. Ekki er um nýmæli að ræða heldur er breytingunni ætlað að skýra betur gildandi rétt og stuðla þannig að auknu gagnsæi laganna.
    Í 3. mgr. er skilgreint hvað felst í að gera verk aðgengilegt almenningi. Eins og að framan greinir er hér lagt til að nota orðalagið að gera verk aðgengilegt almenningi í stað hugtaksins birting án þess að ætlunin sé að breyta inntaki réttarins. Samkvæmt norrænum rétti hefur birtingarréttur höfunda verið talinn fela í sér þrennt, þ.e. rétt til opinbers flutnings, rétt til opinberrar sýningar eintaks og rétt til dreifingar eintaks, sbr. 3. mgr. 2. gr. gildandi laga. Þessari þrískiptingu er viðhaldið í 3. mgr.
    Þá er í 1. tölul. 4. mgr. sérstaklega tekið fram að miðlun verka til almennings (e. „communication to the public“) og þ.m.t. að gera verk aðgengilegt með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og þeirri stundu er viðkomandi kýs falli undir flutningsréttinn. Um miðlunarréttinn skv. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar segir í almennum athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 9/2006:
        „Í einkarétti höfunda til miðlunar verka sinna til almennings felst skv. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar réttur höfunda „til að heimila eða banna hvers konar miðlun verka sinna til almennings, um þráð eða þráðlaust, þar með talið að gera verk sín aðgengileg almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stund sem hann sjálfur kýs“. Í tilskipuninni (23. skýringargrein) er rétturinn til miðlunar til almennings skilgreindur nánar, en þar segir að þennan rétt beri að skilja á almennan hátt þannig að hann taki til allrar miðlunar til almennings sem er ekki staddur á þeim stað þar sem miðlunin fer fram. Þá segir að þessi réttur skuli ná yfir hvers kyns útsendingar eða endurvarp á verkum til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal útvarp (hljóðvarp og sjónvarp). Loks segir að þessi réttur skuli ekki ná yfir neinar aðrar aðgerðir. Ekki er fyllilega ljóst hversu víðtækur einkarétturinn til miðlunar til almennings er. Þó er skýrt að í ákvæðinu er gert ráð fyrir einhverri fjarlægð milli þess staðar þar sem miðlunin fer fram og þeirra sem á móti miðluninni taka („almennings, sem er ekki staddur á þeim stað, þar sem miðlunin fer fram“). Þannig nær ákvæðið til dæmis ekki til milliliðalauss flutnings á verkum höfunda frammi fyrir áhorfendum eða áheyrendum. Að því leyti nær einkaréttur höfunda til miðlunar verka til almennings skemmra en einkaréttur höfunda til birtingar verka sinna samkvæmt íslensku höfundalögunum, en verk telst meðal annars birt þegar það er með réttri heimild flutt eða sýnt opinberlega ...“
    Tilgangur ákvæðis 3. gr. tilskipunarinnar var að taka af öll tvímæli um einkarétt höfunda til miðlunar verka sinna gegnum netið. Við innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk lög var komist að þeirri niðurstöðu að hugtakið birting í íslenskum höfundarétti væri það víðtækt að það tæki einnig til miðlunarréttarins skv. 3. gr. tilskipunarinnar og því var ekki gerð breyting á 3. mgr. 2. gr. laganna en ákveðið að taka þessa afstöðu til athugunar við heildarendurskoðun laganna. Nú þykir hins vegar rétt að leggja til þá breytingu að orðalag ákvæðisins verði lagað að orðalagi tilskipunarinnar eins og gert hefur verið í öðrum norrænum höfundalögum á undanförnum árum. Ekki er um breytingu á inntaki réttarins að ræða heldur er ein­göngu lagt til að kveðið verði skýrt á um það í 4. mgr. að miðlunarrétturinn falli undir réttinn til opinbers flutnings. Rétthöfum skyldra réttinda skv. V. kafla höfundalaga er tryggður einkaréttur til að heimila eða banna að andlag skyldra réttinda sé gert aðgengilegt á netinu með tilvísunum til viðeigandi ákvæða í I. kafla laganna eins og áður hefur verið getið.
    Einkaréttur rétthafa til að gera verk sín aðgengileg almenningi (birta þau) felur í sér að verk er gert almenningi aðgengilegt með dreifingu eintaka, opinberri sýningu eintaka eða flutningi. Það felur þá jafnframt í sér að dreifing, sýning eða flutningur verks innan þröngs persónulegs hóps, t.d. uppsetning leikrits innan veggja heimilisins eða lán höfundaréttarvarins verks til fjölskyldu eða náins vinar, fellur ekki þar undir í skilningi höfundalaga. Þegar meta skal hvort flutningur verks er aðgengilegur almenningi eða ekki er það staða þess sem stuðlar að flutningnum sem skiptir máli og tengsl hans við þá er hafa tök á að njóta flutningsins en ekki staða móttakanda. Ef verk er flutt þar sem almenningur hefur tök á að njóta þess skiptir ekki máli hvort hlustendur eru fáir eða margir. Þannig getur einkaréttur höfunda til miðlunar talist brotinn við það eitt að verk sé gert aðgengilegt almenningi óháð því hvort einstök eintök af verkinu hafa verið send frá einum aðila til annars. Dæmi um slíka miðlun til almennings væri t.d. að gera verk aðgengilegt með því að hlaða verki inn á vefsíðu (e. upload), gera efni aðgengilegt til niðurhals eða streyma efni í gegnum jafningjanet (e. Peer- to-Peer network). Í 1. tölul. 4. mgr. er sérstaklega tilgreint að miðlun verka til almennings telst vera opinber flutningur, þar á meðal útsending þeirra í útvarpi og þegar verk er gert aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn getur fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem hann sjálfur kýs. Miðlunarrétturinn er því ein tegund opinbers flutnings sem tekur til þess að verk er gert aðgengilegt fyrir fjölda manna sem eru ekki á sama stað og verkinu er miðlað frá ólíkt því þegar verk er flutt milliliðalaust í tónleikasal eða leikhúsi fyrir áhorfendur. Ekki skiptir máli hvort viðtakendur eru í einum hópi eða dreifðir um víðan völl. Í árdaga útvarpssendinga og svo aftur með tilkomu netsins var umræða um hvort það gæti talist opinber flutningur þegar fólk hlustaði á útvarp eða skoðaði efni á netinu, hver á sínum stað, þ.e. ekki í hóp manna. Með tilkomu netsins og miðlunar verka þar reis einnig sú spurning hvort um opinberan flutning væri að ræða ef viðtakendur nytu aðgangs að verkinu á mismunandi tíma. Hér er undirstrikað að svo sé. Eins og að framan greinir ræður úrslitum að ótilgreindur fjöldi manna geti notið verksins þótt hver sé í sínu horni og á mismunandi tímapunkti. Jafnframt er tilgreint að það að rétturinn til að gera verk aðgengilegt á þeim stað og á þeirri stundu sem einstaklingur kýs sé óháð búnaði, þ.e. ekki skiptir máli hvort viðkomandi noti hefðbundna tölvu eða snjallsíma eða annan búnað til að fá aðgang að verki í þessu samhengi.
    Í 2. tölul. 4. mgr. er tilgreint að það teljist vera opinber flutningur verks í skilningi laganna – og það þar með gert almenningi aðgengilegt – þegar verk er flutt á atvinnustöðvum fyrir stóran hóp manna sem endranær er talinn vera lokaður hópur. Hér er um að ræða orðalagsbreytingu frá ákvæði 5. mgr. 2. gr. gildandi höfundalaga, en þar er sérstaklega tiltekið að um sé að ræða opinbera birtingu þegar verk er flutt eða sýnt á atvinnustöðvum þar sem 10 menn vinna eða fleiri. Með breytingunni er ekki ætlunin að breyta þessari framkvæmd heldur er talið rétt að geta ekki um tiltekinn fjölda manna í ákvæðinu heldur láta það fara eftir aðstæðum hverju sinni hvort um opinberan flutning telst vera að ræða eða ekki.
    Í 3. tölul. 4. mgr. er undirstrikað að þegar útvarpsflutningur á tónlist eða bókmenntaverki er gerður aðgengilegur almenningi á þann hátt að honum er dreift með hátalara til almennings, t.d. í verslunum eða á öðrum stöðum sem aðgengilegir eru almenningi, er um að ræða sjálfstæðan opinberan flutning verksins. Þetta er samsvarandi ákvæði og nú er að finna í 4. mgr. 2. gr. gildandi laga.
    5. mgr. er efnislega samhljóða ákvæði 6. mgr. 2. gr. gildandi laga.

Um 2. gr.

    Í greininni er að finna skilgreiningu á hvenær verk telst löglega birt og hvað telst útgáfa verka. Þessar skilgreiningar hafa m.a. þýðingu fyrir ákvæði II. kafla laganna um takmarkanir sem miðast ýmist við löglega birt eða útgefin verk.
    Í 1. mgr. er skilgreint hvenær birting í skilningi höfundalaga telst hafa átt sér stað. Verkið telst hafa verið birt og gert almenningi aðgengilegt ef eintökum af því hefur verið dreift opinberlega, eintök af því hafa verið sýnd opinberlega eða verkið flutt opinberlega, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna, allt með réttri heimild. Skilyrðið um rétta heimild telst uppfyllt ef samþykki höfundar eða annars rétthafa liggur fyrir við birtingu verksins eða ef ákvæði II. kafla laganna heimila birtingu án samþykkis höfundar. Geymsla áður óbirtra höfundaverka í skjalasöfnum hefur t.d. ekki sjálfkrafa í för með sér að verkið teljist birt í skilningi höfundalaga, jafnvel þótt einhver aðgangur sé að verkinu. Birtingarhugtakið er því hér tengt því þegar verk er gert aðgengilegt í fyrsta sinn með lögmætum hætti. Ef verk telst ekki birt samkvæmt þessu ákvæði hefur það í för með sér að ákvæði II. kafla höfundalaga um takmarkanir á höfundarétti sem taka til birtra verka eiga ekki við, t.d. rétturinn til að gera eintak til einkanota, sbr. 11. gr. laganna, og réttur til tilvitnunar, sbr. 14. gr. laganna. Í tilteknum tilvikum ræður birtingartími verks því hvenær gildistíma verndar lýkur, sbr. 44. og 44. gr. a í lögunum.
    Í 2. mgr. er að finna skilgreiningu á hvenær verk telst útgefið. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna, að því undanskildu að fellt er niður skilyrðið „og í álitsverðum fjölda“. Er það í samræmi við ákvæði 3. mgr. 3. gr. Bernarsáttmálans sem setur það ekki sem skilyrði fyrir að verk teljist útgefið að það sé í ákveðnum fjölda eintaka heldur ein­göngu að framboð útgefinna verka fullnægi „sanngjörnum kröfum almennings, þegar hliðsjón er höfð af tegund verksins“. Því er ljóst að þrátt fyrir að fellt verði niður skilyrðið „og í álitsverðum fjölda“, sem fram kemur í 2. mgr. 2. gr. gildandi laga, ber ekki að líta svo á að fallið sé frá skilyrðinu um dreifingu á tilteknum fjölda eintaka. Um hvað telst vera lágmarksfjöldi útgefinna eintaka fer eftir tegund verks og aðstæðum að öðru leyti. Réttaráhrif útgáfu teljast frá þeim tíma þegar fyrsta eintaki er dreift til almennings.
    Hugtökin birting og útgáfa eru nátengd og tengjast oft sama atburði en þó er sá munur á að verk kann að vera birt án þess að um útgáfu þess sé að ræða. Um útgáfu er ekki ræða nema eintök verks séu boðin opinberlega til sölu, þau lánuð, leigð eða þeim komið í hendur almennings með öðrum hætti með samþykki höfundar eða á annan hátt með réttri heimild. Samþykki höfundar getur verið óbeint. Verk getur verið birt án þess að samþykki höfundar liggi fyrir, t.d. samkvæmt undanþáguákvæði 4. mgr. 25. gr. laganna, og það telst þá ekki útgáfa í skilningi þessa ákvæðis. Hins vegar telst lögleg útgáfa verks alltaf birting þess. Í þessu sambandi telst það þó ekki útgáfa þótt eintök verks séu komin í vöruhús hjá framleiðanda, innflytjanda, útgefanda eða endursöluaðila. Verk getur einnig talist útgefið þó að það fyrirfinnist ein­göngu á stafrænu formi, t.d. ef það er gert aðgengilegt almenningi á netinu með samþykki höfundar og hægt er að gera eintök af því. Sama getur gilt um verk í gagnagrunnum þar sem notendum er heimilt að prenta út eintök af verkum. Í því sambandi geta þó risið flókin álitamál varðandi hvert sé upprunaland útgáfu sem hefur áhrif undir Bernarsáttmálanum, sbr. 5. gr. sáttmálans, og því nauðsynlegt að meta hvert tilvik fyrir sig.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að 3. og 4. mgr. 6. gr. gildandi laga verði felldar brott. Þessum málsgreinum var bætt við 6. gr. laganna með 1. gr. laga nr. 60/2000 þegar innleidd var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB um lögverndun gagnagrunna, þ.e. um sérstaka vernd gagnagrunna sem ekki uppfylla ákvæði höfundalaga. Ákvæðunum var ætlað að skýra að gagnagrunnar geti notið tvenns konar verndar. Annars vegar er um að ræða höfundavernd, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, ef skilyrðum um frumleika væri fullnægt varðandi niðurröðun og samsetningu gagnagrunnsins en kveðið er á um þessa vernd í 3. gr. tilskipunarinnar. Hins vegar er um að ræða sinnar tegundar rétt ( sui generis) er tekur til öflunar, staðfestingar og framsetningar efnis í gagnagrunnum, sbr. 7. gr. tilskipunarinnar og 50. gr. höfundalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 60/2000. Með skipun ákvæðis um gagnagrunna í 6. gr., sem fjallar um safnverk, er hætt við þeim misskilningi að gagnagrunnar falli ætíð að skilgreiningu um safnverk. Í hugtakinu gagnagrunnur eins og það er sett fram í 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar um lögverndun gagnagrunna felst hins vegar ekki að gögnin sem varðveitt eru í grunninum séu ætíð vernduð verk heldur er gagnagrunnur safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða annars efnis sem uppfyllir tiltekin skilyrði. Í öðrum norrænum höfundalögum hafa ekki verið sett sérstök ákvæði um gagnagrunna sem njóta höfundaverndar, en þeir falla undir 1. gr. laganna eins og önnur verk. Tilgangur þess að fella niður 3. og 4. mgr. 6. gr. laganna er ekki sá að breyta efnislegum reglum um vernd gagnagrunna að höfundarétti eða falla frá skilgreiningu gagnagrunna eins og hún er sett fram í 4. mgr. 6. gr. heldur að koma í veg fyrir þann misskilning að gagnagrunnar þurfi að uppfylla skilyrði þess að vera safnverk.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að orðalagi 10. gr. laganna verði breytt vegna breytts lagaum­hverfis og hugtakanotkunar. Gildandi ákvæði undirstrikar að nytjalist njóti höfundaverndar þrátt fyrir að hún geti notið verndar samkvæmt öðrum lögum. Þegar 10. gr. var lögfest með lögum nr. 73/1972 var hægt í mörgum ríkjum með svokölluðum mynsturlögum að öðlast vernd er tók til útlits nytjamuna eða nytjalistar. Ákvæði um slíka vernd voru fyrst lögfest hér á landi með lögum nr. 48/1993, um hönnunarvernd, en gildandi lög um það efni eru nr. 46/2001. Því er lagt til að orðalagi greinarinnar verði breytt til að endurspegla þann veruleika. Jafnframt þykir rétt að ákvæðið sé ekki einskorðað við nytjalist enda geta fleiri höfundarverk, svo sem myndlistarverk, uppfyllt skilyrði laga nr. 46/2001 um skráningu sem hönnun.

Um 5. gr.

    Hér er um að ræða nýtt ákvæði sem heimilar samingskvaðaleyfi í þeim tilgangi að greiða fyrir yfirfærslu réttinda vegna stafrænnar eintakagerðar og miðlunar slíkra eintaka vegna starfsemi safna í ríkari mæli en gert er ráð fyrir í 12. gr. gildandi laga. Samsvarandi heimild og hér er lagt til að tekin verði upp er að finna í öðrum norrænum höfundalögum en ákvæði þeirra eru misvíðtæk. Hér er lagt til að fylgt verði finnskri, norskri og sænskri fyrirmynd sem hefur það að leiðarljósi að samningsaðilar hafi svigrúm til að semja um not verka með stafrænni tækni án takmarkana á því til hvaða verka eða nota slíkt samningskvaðaleyfi taki, þ.e. utan þeirra takmarka sem leiða má af ákvæðinu að um verk sé að ræða sem er að finna í viðkomandi safni og þeirri óorðuðu grunnforsendu að notin tengist starfsemi þess.
    Nútímatækni hefur í för með sér að stafræn eintakagerð og miðlun stafrænna verka telst eðlilegur hluti af starfsemi safna. Rétthafar verndaðra verka hafa einkarétt til að heimila slíka eintakagerð og miðlun verka og undanþágna frá því væri í ósamræmi við tilgang verndar. Hins vegar er eðlilegt að reynt sé að auðvelda söfnum sem falla undir 1. mgr. 12. gr. höfundalaga að afla sér réttra heimilda fyrir notkun sem fellur utan undanþáguheimilda 12. gr. laganna með því að semja við rétthafasamtök og láta slíka samninga ná til hagnýtingar verka sömu tegundar, jafnvel þótt höfundar þeirra standi utan samtakanna. Tilskipun um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu kveður á um að ekki sé heimilt að gera eða afhenda stafræn eintök á grundvelli ákvæðis um eintakagerð til einkanota án greiðslu sanngjarnra bóta til rétthafa, sbr. b-lið 2. mgr. 5. gr. og 4. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Þetta hefur t.d. í för með sér að bókasöfn geta einungis afhent lánþegum pappírseintök af tímaritsgreinum sem þau útvega með aðstoð millisafnalána. Því er m.a. ætlunin með ákvæðinu að gera bókasöfnum kleift að gera samning sem veitir samningskvaðaleyfi sem taki til þess að afhenda lánþegum stafræn eintök á grundvelli ákvæðis um eintakagerð til einkanota, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Það væri óvinnandi ­vegur fyrir söfn að afla sér heimildar til slíks frá hverjum og einum rétthafa og því er eðlilegt að heimila slíkt með samningskvaðasamningum. Þeir höfundar sem standa utan samtakanna sem samningskvaðaleyfið tekur til hafa sama rétt til þóknunar og þeir sem hafa veitt samtökunum samningsumboð til að koma fram fyrir þeirra hönd og geta jafnframt gert kröfu á samtökin um að fá þóknun greidda beint til sín, sbr. 11. gr. frumvarpsins.
    Heimildin tekur til birtra verka sem eru í viðkomandi safni. Skilgreiningu á því hvenær verk teljast birt er að finna í 3. mgr. 2. gr. gildandi laga og ekki er ætlunin að breyta þeirri skilgreiningu efnislega með þessu frumvarpi, sbr. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Þau verk sem söfnum áskotnast en eru óbirt, t.d. skjalasöfn úr einkaeigu, eru yfirleitt afhent söfnum með samningi milli gefanda og safns þar sem unnt er að kveða á um nýtingarheimildir. Sjá einnig í þessu sambandi skýringar við 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að hægt verði að semja um sérstakt, afmarkað samningskvaðaleyfi sem getur náð til óbirts efnis. Til þess að heimildin nýtist á tilætlaðan hátt, t.d. að lánþegar geti fengið afhent stafræn eintök af tímaritsgreinum, er mikilvægt að heimildin taki einnig til verka sem safnið hefur tímabundið til umráða á grundvelli millisafnalána.
    Ákvæðið bindur ekki hendur samningsaðila að öðru leyti en því að um eintakagerð og miðlun verka viðkomandi safns þarf að vera að ræða og vegna starfsemi þess. Þannig geta aðilar t.d. samið um að samningurinn taki einungis til verka frá ákveðnu tímabili eða verka af ákveðinni tegund sem er að finna á safninu eða að rétthafar geti lagt bann við að verk þeirra verði notuð samkvæmt slíkum samningi. Ef aðilar ná ekki samkomulagi um samningskvaðaleyfi á grundvelli ákvæðisins geta þeir leitað eftir sáttameðferð, sbr. 14. gr. frumvarpsins, eða lagt ágreining undir úrskurðarnefnd 57. gr. laganna, sbr. 24. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Með 4. gr. laga nr. 9/2006 var ákvæði 2. mgr. 14. gr. breytt á þann veg að heimilt er að vitna í listaverk með því að birta myndir eða teikningar af listaverkum ef birtingin er ekki í fjárhagslegum tilgangi. Var breytingin í samræmi við ákvæði a-liðar 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar. Með ákvæði 6. gr. frumvarpsins er lagt til að birting mynda af listaverkum í tengslum við almenna fræðslu, gagnrýni og vísindalega umfjöllun verði heimil þrátt fyrir að hún sé í fjárhagslegum tilgangi ef fyrir hendi er samningur sem veitir samningskvaðaleyfi. Þessari samningskvaðaheimild er ætlað að koma í stað afnotakvaðar sem nú er að finna í 3. mgr. 14. gr. Það ákvæði veitir takmarkaðri heimild til að nota myndlistarverk í almennri kynningu sem fram fer í fjárhagslegum tilgangi. Ákvæðið, eins og lagt er til að því verði breytt, er í samræmi við ákvæði 24. gr. a í dönsku höfundalögunum. Um hvað teldist vera fjárhagslegur tilgangur í þessu sambandi er vísað til umfjöllunar um það efni í athugasemdum við 4. gr. í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 9/2006.
    Með ákvæðinu er stuðlað að því að einfalda réttindauppgjör vegna endurbirtingar listaverka í almennu fræðsluefni, í sambandi við gagnrýni og við vísindalega umfjöllun sem fram fer í fjárhagslegum tilgangi en innleiðing a-liðar 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar, sbr. 4. gr. laga nr. 9/2006, hafði það í för með sér að endurbirting framangreindra verka í hagnaðarskyni er í öllum tilvikum háð greiðslu endurgjalds.
    Tilskipunin um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu stendur ekki í vegi fyrir að framangreind notkun í hagnaðarskyni verði heimiluð með samningskvöð, sbr. 18. skýringargrein tilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæðinu er t.d. heimilt að endurbirta listaverk í almennu kennsluefni þegar fullnægt er almennu skilyrði 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins (sem verður 2. mgr. 26. gr. a í lögunum). Með því að gera samning er veitir samningskvaðaleyfi er notanda auðveldað að afla heimildar t.d. þegar um endurbirtingu margra verka í einu lagi er að ræða, svo sem við útgáfu alfræðirita. Skilyrði er að notandi í þessu samhengi, t.d. útgefandi alfræðirits, hafi gert samning í samræmi við 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins við þau rétthafasamtök sem teljast hafa samningsumboð fyrir höfunda þess konar verka sem notin snúa að, þ.e. í þessu tilviki Myndhöfundasjóður Íslands – Myndstef.
    Endurbirting samkvæmt þessu ákvæði er ekki bundin við ákveðna tækni og getur því bæði verið hliðræn og stafræn.
    Í 2. málsl. er gerður sá fyrirvari að endurbirting verks á grundvelli samningskvaðaleyfis er óheimil ef höfundur, eða annar rétthafi samkvæmt framsali eða fyrir erfðir, viðkomandi verks hefur sett bann við slíkri notkun þess gagnvart samningsaðila. Þessi fyrirvari tekur til þeirra rétthafa sem ekki eru félagsmenn í viðkomandi samtökum. Félagsmenn eru bundnir af samningum rétthafasamtakanna ef þeir hafa framselt rétt sinn að því leyti. Annað mál er að í samningi geta aðilar samið um að rétthafar almennt, bæði félagsbundnir og ófélagsbundnir, geti lagt bann við notkun verka sinna samkvæmt samningnum.
    Banninu getur verið beint gegn hvorum samningsaðila sem er, annaðhvort notanda samkvæmt samningskvaðaleyfi eða almennt gegn rétthafasamtökum sem eru bær til að semja um not sem samningskvaðaleyfi taka til. Ef banninu er beint gegn rétthafasamtökum ber þeim skylda til að tilkynna notendum samningskvaðaleyfisins um slíkt almennt bann þar sem það er grundvöllur þess að bannið verði virkt. Einnig er að sjálfsögðu hægt að kveða á um í samningnum sem er grundvöllur samningskvaðaleyfisins að ef rétthafi tilkynnir notanda um bannið beri viðkomandi notanda að tilkynna rétthafasamtökunum um slíkt.
    Það er skilyrði notkunarbanns að rétthafinn leggi bannið á í eigin persónu gegn notanda eða rétthafasamtökum þar sem tilgreind eru með skýrum hætti þau verk sem falla undir bannið. Í skilyrðinu um að höfundur leggi bannið á í eigin persónu felst m.a. að notkunarbann sem félög og stofnanir kynnu að leggja á gagnvart leyfishafa eða rétthafasamtökum hefur ekki gildi nema þau hafi til þess sérstakt umboð eða framsal frá höfundi. Um gildi þess háttar umboðsmennsku gilda almennar reglur samningaréttar. Almennar yfirlýsingar eða ummæli höfunda um að þeir óski þess að verk þeirra verði ekki notuð í ákveðnu samhengi eða af ákveðnum aðilum, eða prentaðir fyrirvarar í bókum með sama efni, hafa ekki réttaráhrif sem bann samkvæmt þessum málslið.
    Vert er að geta þess að ákvæði 26. gr. höfundalaga um sæmdarrétt, sbr. 4. gr. laganna, á að sjálfsögðu einnig við um birtingu listaverka samkvæmt þessu ákvæði.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til að 15. gr. a falli brott þar sem með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um eftirgerð verka sem nú fellur undir 15. gr. a verði framvegis að finna í 18. gr., 26. gr. a og 26. gr. b í lögunum, sbr. 8. gr. og a- og b-lið 14. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að takmörkunarákvæði 18. gr. höfundalaga um upptöku birtra verka á hljóðrit í „opinberum skólum“ verði fellt brott og þess í stað sett samningskvaðaákvæði. Lagt er til að ákvæðið taki til gerðar eintaka til notkunar í atvinnustarfsemi, hvort sem það er við kennslu eða aðra starfsemi, að uppfylltum skilyrðum um slíka samninga sem er að finna í 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins. Ákvæðið kemur í stað 15. gr. a í gildandi lögum en er jafnframt víðtækara þar sem ákvæðið heimilar samninga um eintakagerð útgefins efnis sem og upptöku á útsendingum hljóðvarps og sjónvarps, hvort sem er á stafrænu eða hliðrænu formi.
    Skilyrði fyrir nýtingu þessarar heimildar er að fyrir liggi samningur sem gerður hefur verið af þar til bærum samtökum rétthafa verka sem hafa verið gefin út eða send eru út í hljóðvarpi eða sjónvarpi eða gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs. Um er að ræða tvenns konar samningskvaðaleyfi, annars vegar vegna ljósritunar eða stafrænnar eintakagerðar útgefinna verka og hins vegar vegna upptöku verka sem send eru út í hljóðvarpi eða sjónvarpi eða gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs. Notendur verða að leita samninga við þau rétthafasamtök sem uppfylla skilyrði 3. mgr. a- liðar 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 3. mgr. 26. gr. a í lögunum) um að vera í forsvari fyrir verulegan hluta höfunda þeirra tegunda af verkum sem um ræðir hverju sinni. Ekki er skilyrði að samið verði um öll möguleg not þeirra verka sem falla undir ákvæðið hverju sinni. Búast má við að einstakir notendur semji við einstök rétthafasamtök á hverju sviði um þau not sem þörf er á hverju sinni.
    Ákvæði 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins er náskylt 11. gr. gildandi laga sem felur í sér takmörkun á einkarétti höfunda vegna eintakagerðar til einkanota einstaklinga. Ákvæði 8. gr. frumvarpsins færir lögaðilum hliðstæð réttindi að uppfylltu skilyrði um samningskvaðaleyfi. Viðkomandi lögaðili verður þannig að gera samning um ljósritun við þar til bær samtök rétthafa, svo dæmi sé tekið, og verður t.d. heimild til ljósritunar ekki leidd sjálfstætt af ákvæðinu. Án samnings stendur ekki heimild til ljósritunar. Ákvæðið tekur einungis til eintakagerðar útgefinna verka, sbr. skilgreiningu í 2. mgr. 2. gr. gildandi laga, og þannig er óheimilt er að gera eintök af óútgefnum verkum án sérstaks leyfis höfundar þrátt fyrir að fyrir liggi samningur sem heimilar samningskvaðaleyfi. Með heimild til upptöku verka er átt við verk sem send hafa verið út í hljóðvarpi, sjónvarpi eða hvort tveggja, að því gefnu að fyrir liggi samningur notanda við þar til bær rétthafasamtök. Sú heimild til eintakagerðar sem veitt er á grundvelli 1. mgr. getur bæði verið hliðræn og stafræn, allt eftir þeirri heimild sem veitt er í samningnum. Samningur samkvæmt ákvæðinu getur m.a. tekið til eintakagerðar sem felst í innslætti prentaðs efnis, skönnunar prentaðra verka og eintakagerðar með því að verk er sótt rafrænt í gagnagrunn eða á vef, auk stafrænnar eintakagerðar verka sem gefin eru út á stafrænu formi. Eins og orðalag 1. mgr. bendir til er þeim lögaðilum sem greinin tekur til heimilt að gera slík eintök sjálfir eða fá aðra til að gera þau fyrir sig, t.d. fyrirtæki sem sérhæfa sig í slíku. Samningskvaðaleyfi samkvæmt þessu ákvæði getur tekið til alls hljóð- og myndefnis í útvarpi, þ.e. hljóðvarpi eða sjónvarpi, með þeirri takmörkun sem tilgreind er í 2. mgr. ákvæðisins. Auk heimildar til samninga sem veita samningskvaðaleyfi til eintakagerðar felst í ákvæðinu heimild til að samningskvaðaleyfi taki til dreifingar eftirgerða innan hverrar stofnunar eða fyrirtækis fyrir sig eða meðal stofnana eða fyrirtækja sem eru aðilar að sama samningi við þar til bær rétthafasamtök. Frekari dreifing eftirgerða sem þannig eru tilkomnar er óheimil, nema að fenginni sérstakri heimild rétthafa þar að lútandi. Í 2. málsl. er gerður sá fyrirvari að notkun verks á grundvelli samningskvaðaleyfis er óheimil ef ófélagsbundinn höfundur, eða annar rétthafi, viðkomandi verks hefur sett bann við slíkri notkun þess gagnvart samningsaðila. Um slíkt bann er nánar fjallað í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins og vísast til þeirrar umfjöllunar.
    Í 2. mgr. felst sú takmörkun á heimild 1. mgr. að samningskvaðaleyfi á grundvelli 1. mgr. getur ekki tekið til þess að taka upp úr sjónvarpi kvikmyndaverk sem ætlað er til sýningar í kvikmyndahúsum, nema útsending hafi aðeins falið í sér stuttan útdrátt eða brot úr kvikmyndaverki. Í því tilviki getur samningur náð til slíks útdráttar eða brots. Ekki skiptir hér máli hvort búið er að sýna verkið í kvikmyndahúsum eða ekki. Takmörkunin gildir um allar kvikmyndir og er rökstudd með því að heimild til upptöku á kvikmyndum úr sjónvarpi mundi raska verulega núverandi dreifingarkerfi fyrir kvikmyndir og kæmi hugsanlega í veg fyrir að sjónvarpsstöðvar næðu samningi um að sýna kvikmyndir. Hins vegar væri heimilt að taka upp kvikmyndir sem ekki eru gagngert ætlaðar til sýninga í kvikmyndahúsum, t.d. heimildarmyndir og stuttmyndir. Í 2. mgr. felst einnig sú takmörkun að forrit á stafrænu formi geta ekki fallið undir samninga um samningskvaðaleyfi. Vegna ákvæða 42. gr. b í gildandi höfundalögum er réttur til forrita yfirleitt á einni hendi sem auðveldar samninga um notkun og því ekki sama þörf á samningskvaðaheimild í tengslum við not á forritum og við notkun annarra tegunda verka.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að eintök sem gerð eru með heimild í 1. mgr. megi einungis nota í eigin starfsemi og innan þeirrar stofnunar, samtaka eða fyrirtækis sem samningskvaðaleyfissamningurinn tekur til. Til eigin starfsemi fyrirtækja og stofnana telst t.d. notkun í starfsstöðvum og útibúum, óháð staðsetningu þeirra. Sala og dreifing eintaka gerðra á grundvelli samnings um samningskvaðaleyfi til þriðja aðila eins og viðskiptavina falla að sjálfsögðu ekki þar undir. Ákvæðið tekur ein­göngu til notkunar á eintökum sem gerð eru með heimild í þessari grein og hefur því ekki áhrif á þær heimildir til flutnings verka sem kveðið er á um í 21. gr. höfundalaga.

Um 9. gr.

    Í þessu ákvæði felst almenn heimild til samninga er veita samningskvaðaleyfi í þágu fatlaðs fólks. Sambærilegt ákvæði er að finna í norskum og dönskum höfundalögum. Með ákvæðinu er heimiluð upptaka verka sem send eru út í hljóðvarpi og sjónvarpi ef til staðar er samningur sem uppfyllir skilyrði a-liðar 14. gr. frumvarpsins. Slíkar upptökur má aðeins nýta í þágu blindra, sjónskertra og heyrnarlausra. Sú heimild sem ákvæðið veitir gildir fyrir stofnanir á vegum ríkis og ­sveitarfélaga og aðrar stofnanir sem starfa í almannaþágu, til nota innan viðkomandi stofnana. Ekki er áskilið að um opinbera stofnun sé að ræða en stofnanir sem reknar eru í hagnaðarskyni falla þó utan ákvæðisins. Jafnframt heimild til upptöku felur ákvæðið í sér heimild til dreifingar eintaka til einstaklinga er falla undir ákvæðið.

Um 10. gr.

    Hér eru aðallega lagðar til breytingar á 23. gr. laganna vegna breytinga á ákvæðum um samningsákvæði, sbr. 10.–12. gr. frumvarpsins. Einnig er lagt til að fellt verði niður hið lögbundna innheimtuumboð sem er að finna í gildandi 3. mgr. 23. gr. laganna og þess í stað tekin upp samningskvöð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Í 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins er lögð til takmörkun á gildissviði samningskvaðaákvæðisins vegna sendinga um gervihnött. Í 3. mgr. er fjallað um rétt útvarpsstöðva til eintakagerðar á útsendu efni sínu sem áður var að finna í 5. mgr. gildandi 23. gr. höfundalaga.
    Þá er lagt til að fellt verði niður ákvæði um gjaldskrár sem nú er að finna í 4. mgr. 23. gr. höfundalaga. Þau afnot sem rétthafasamtök innheimta fyrir eru annaðhvort á grundvelli samninga sem þau hafa umboð til að semja um endurgjald fyrir eða samkvæmt samningskvaðaákvæðum eða afnotakvaðaákvæðum, sbr. 16. gr., 17. gr., 3. mgr. 19. gr. og 20. og 21. gr. gildandi laga. Ef ekki næst samkomulag um endurgjald vegna samningskvaðaleyfa á ný grein við, þ.e. c-liður 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 26. gr. c í lögunum), en einnig má leita til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga, sbr. 14. og 24. gr. frumvarpsins. Sömuleiðis á ágreiningur um endurgjald vegna afnotakvaða við undir úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna.
    Ekki er talin þörf á að hafa sérstakt ákvæði um heimild ráðherra til að setja reglugerð um efni nýrrar 23. gr. umfram það sem kemur fram í 3. mgr. greinarinnar.
     Um 1. mgr.
    Með 1. mgr. er sú breyting lögð til að efni 1. mgr. 23. gr. gildandi laga um hvernig staðið skuli að samningum um samningskvaðaleyfi og réttaráhrif þeirra færist í nýja almenna grein um samningskvaðir, 26. gr. a, sbr. a-lið 14. gr. frumvarpsins. Í stað orðalags núverandi 1. mgr. 23. gr. verði ein­göngu í ákvæðinu að finna samningskvöð sem heimili útvarpsstöðvum að senda út verk á grundvelli samninga um samningskvaðaleyfi. Bæði er átt við útsendingu hljóðvarps og sjónvarps, sbr. 6. mgr. 2. gr. gildandi laga. Jafnframt er lagt til í 1. mgr. að framvegis verði á sama hátt heimilt að semja um annan opinberan flutning verka sem ekki felur í sér miðlun efnis í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem verður 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. laganna, með samningskvaðaáhrifum, t.d. við skemmtistaði eða verslunareigendur eða aðra. Rök þess eru að um mikla notkun sé að ræða og ótilgreind þannig að illmögulegt er að semja við hvern og einn rétthafa til að fá leyfi til slíks flutnings. Kemur þessi viðbót í stað lögbundins innheimtuumboðs sem nú er að finna í 3. mgr. gildandi 23. gr. Lagt er til að ákvæði 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins taki aðeins til útgefinna verka en í núverandi ákvæði 1. mgr. 23. gr. er ekki að finna slíka afmörkun. Varðandi útgefin verk vísast til skilgreiningar í 2. mgr. 2. gr. höfundalaga og 2. gr. þessa frumvarps. Að öðru leyti er lagt til að ákvæðið taki til allra tegunda höfundaréttarvarinna verka en ekki bara bókmennta- eða tónverka eins og er samkvæmt gildandi ákvæði. Samningskvöðin mun þó eins og áður ekki taka til leiksviðsverka eða kvikmynda, sbr. 3. málsl. 1. mgr. Venjan er að samið er við rétthafa leiksviðsverka og kvikmynda sérstaklega og er ekki ætlunin að breyta því. Þá er ekki talin ástæða til að viðhalda takmörkunum á umfangi þess efnis sem sent verður út á grundvelli samningskvaðar í 1. mgr. 23. gr. eins og gert er í 2. mgr. 23. gr. gildandi laga, að öðru leyti en því sem kveðið er á um í 3. málsl. 1. mgr., heldur geta rétthafasamtökin samið við útvarpsstöðvar eða aðra notendur um slíka takmörkun ef þörf er á. Þetta er í samræmi við höfundalög annarra Norðurlandaríkja. Höfundar, eða aðrir rétthafar, sem ekki eru félagsmenn í rétthafasamtökunum geta lagt bann við að útvarpsstöðvar eða aðrir sem ákvæðið tekur til sendi út eða flytji verk þeirra. Um slíkt bann er nánar fjallað í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins og vísast til þeirrar umfjöllunar.
    Með 2. mgr. er bætt við þeirri takmörkun að ekki megi semja um samningskvaðaleyfi um útvarpssendingar um gervihnött nema sendingin fari samtímis fram um sendi á jörðu niðri. Er sú takmörkun í samræmi við 2. mgr. 3. gr. tilskipunar ráðsins 93/83/EBE frá 27. september 1993 um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og endurvarps um kapal, en sú tilskipun fellur undir EES-samninginn.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem er að meginstefnu til að finna í núverandi 5. mgr. 23. gr. með breyttu og einfölduðu orðalagi. Ekki þykir ástæða til að binda heimild útvarpsstöðva til að gera eintök af útsendum verkum við bráðabirgðaeintök ef þær hafa á annað borð heimild til að senda verkin út. Hins vegar er kveðið á um að slík eintök séu einungis til eigin nota útvarpsstöðvarinnar í sinni innri starfsemi en ekki til að gera þau aðgengileg almenningi. Önnur not útvarpsstöðva af slíkum eintökum þurfa að fara eftir ákvæðum höfundalaga. Ef ráðherra nýtir heimild til að setja nánari reglugerð um efni þessa ákvæðis er eðlilegt að við gerð slíkrar reglugerðar verði höfð hliðsjón af gildandi samningum og venjum um þessi atriði, eins og kveðið er á um í gildandi 5. mgr. 23. gr. laganna.

Um 11. gr.

    Hér er ekki um efnislega breytingu að ræða frá gildandi lögum heldur er lagt til að ákvæði 23. gr. a sem varðar skilyrði fyrir samningskvaðaleyfi falli brott en í stað þess taki við tilvísun til almenns ákvæðis sem verður 26. gr. a í lögunum, sbr. a-lið 14. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að afnotakvöð um endurvarp um kapalkerfi sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25 í fjöleignarhúsi eða nærliggjandi húsum verði afnumin. Slíkrar heimildar er ekki lengur þörf vegna tæknibreytinga. Einnig er tekið fram, í samræmi við ákvæði 10. gr. tilskipunar ráðsins 93/83/EBE um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og endurvarps um kapal, að samningskvöðin taki ekki til réttinda útvarpsstöðva vegna eigin útsendinga.
    Ekki er lagt til að hafa sérstakt ákvæði hér um hvernig farið skuli með ágreiningsmál um leyfi­sveitingar samkvæmt þessari grein. Þess í stað er lagt til í 14. gr. frumvarpsins að samningsaðilar samkvæmt þessu ákvæði geti farið fram á sáttameðferð. Í 4. mgr. c-liðar 14. gr. frumvarpsins er að finna sérákvæði um að ef deila varðar endurvarp um kapalkerfi samkvæmt þessu ákvæði verði litið svo á að tillaga sáttasemjara um lausn sé samþykkt ef enginn mótmælir henni innan þriggja mánaða. Er það í samræmi við 3. mgr. 11. gr. tilskipunar um gervihnatta- og kapalsendingar. Þá er jafnframt lagt til í 19. gr. frumvarpsins að ágreining um samninga á grundvelli þessa ákvæðis megi leggja fyrir úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna.
    Rétt þykir að benda á að utan gildissviðs ákvæðisins fellur endurvarp þar sem hljóðvarps- eða sjónvarpsmerkis er aflað beint frá upphaflegum útsendingaraðila í gegnum dulritað fjarskiptasamband. Í slíkum tilvikum eiga rétthafar ekki kröfu til endurgjalds vegna endurvarpsins.

Um 12. gr.

    Tilgangur ákvæðisins er að auðvelda útvarpsstöðvum uppgjör við rétthafa þegar veittur er aðgangur að áður útsendu efni úr safni þeirra, t.d. eftir pöntun (e. on-demand), með því að það er gert aðgengilegt á netinu, eða þegar um endurútsendingu er að ræða. Miðað er við útvarpsstöðvar, sbr. 6. mgr. 2. gr. gildandi laga, sem heimild hafa til hljóð- og myndmiðlunar skv. 16. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Í einhverjum tilvikum hafa rétthafasamtök samið við útvarps- og sjónvarpsstöðvar um að gera efni aðgengilegt á veraldarvefnum en í fæstum tilvikum virðist sem þeir samningar feli í sér heimild til notkunar á eldra efni, hvort sem er á vefnum eða með hefðbundnum útsendingum. Rökin að baki þessu ákvæði eru þau að fyrir tilkomu netsins gátu útvarpsstöðvar ekki séð fyrir möguleg síðari not áður útsendrar dagskrár með þeim hætti að efnið yrði gert aðgengilegt á netinu eða með ólínulegri hljóð- og myndmiðlun (hljóð- og myndmiðlaþjónustu eftir pöntun, e. video on demand, VOD) og því hafa þær ekki gætt þess að afla sér réttinda til slíkrar endurnýtingar. Útvarpsstöðvar hafa svo verið misjafnlega vakandi fyrir því að gera ráð fyrir þessum möguleika í samningum. Þótt algengara sé orðið að samið sé um birtingu efnis á veraldarvefnum virðist enn ekki vera samið um endurnot eldra efnis með endurútsendingum og á netinu. Af þessum sökum er nauðsynlegt að endursemja sérstaklega við rétthafa sem áttu hlut að máli í hverju tilviki ef útvarpsstöð vill endurútsenda eða gera eldra efni aðgengilegt á netinu. Það er hins vegar íþyngjandi og tímafrekt verkefni vegna fjölda rétthafa og sökum þess að réttindi hafa í mörgum tilvikum gengið til erfingja. Norrænu útvarpsstöðvarnar lögðu því til, þegar um síðustu aldamót, að komið væri á fyrirkomulagi með samningskvöðum sem heimiluðu aðgengi með pöntunarþjónustu á netinu og endurútsendingu áður útsends efnis sem tæki til allra viðkomandi rétthafa, þ.m.t. listflytjenda og framleiðenda hljóðs og mynda. Þetta hefur þegar verið gert í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
    Fyrirkomulag sem byggist á samningum um samningskvaðaleyfi, þ.e. samningum á milli útvarpsstöðva og þar til bærra rétthafasamtaka, sem nær jafnframt til rétthafa utan rétthafasamtakanna verður að teljast vænleg leið til að einfalda uppgjör réttindamála varðandi endurnýtingu útsends efnis útvarpsstofnana. Mikilvægt er út frá menningarlegum hagsmunum að hægt sé að endurnýta eldra efni útvarpsstofnana, bæði Ríkisútvarpsins og einkarekinna útvarpsstöðva. Með hliðsjón af framanrituðu er hér lagt til að með nýju ákvæði, sem verður 23. gr. b, verði innleitt nýtt samningskvaðaákvæði fyrir endurútsendingu og rafræna miðlun verka úr safni útvarpsstöðva með heimild til útvarpsreksturs skv. 16. gr. fjölmiðlalaga sem send hafa verið út fyrir gildistöku laganna og teljast til eigin framleiðslu þeirra.
    Rétt þykir að miða heimild ákvæðisins við verk sem send eru út fyrir gildistöku laga þessara, sbr. 27. gr. frumvarpsins, því þó að einhverjir samningar séu nú fyrir hendi þá er það enn ekki aðalreglan og því ljóst að réttur útvarpsstöðva til endurnýtingar efnis er óljós. Telja verður að frá og með gildistöku laganna eigi öllum aðilum að vera ljós nauðsyn þess að semja um endurnot og heimild til að gera efni aðgengilegt á veraldarvefnum og því ekki þörf á sérstöku samningskvaðaákvæði í því skyni fyrir framtíðarnotkun. Um endurútsendingar og aðra notkun efnis sem sent er út eftir gildistöku laganna verður því að semja á einstaklingsgrundvelli við þá rétthafa sem ekki hafa gefið rétthafasamtökum eða öðrum rétt til að semja um réttindi sín að þessu leyti. Til að tryggja víðtækt gildissvið samningskvaðaleyfa í framangreindum tilvikum er lagt til að uppgjör réttinda taki ekki aðeins til höfunda, heldur taki ákvæðið einnig til annarra rétthafa, svo sem listflytjenda, hljóð- og myndframleiðenda, framleiðenda ljósmynda og framleiðenda safnverka og gagnagrunna, sbr. tilvísunarákvæði í 16. og 18. gr. frumvarpsins og almenna tilvísun í II. kafla í 49. og 50. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. felst að útvarpsstöðvum verður heimilt, að fullnægðum skilyrðum a-liðar 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 26. gr. a í lögunum) um samningskvaðaleyfi, að nota verk úr safni sínu til endurútsendingar og að gera þau aðgengileg með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, sbr. síðari hluta 1. tölul. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. í lögunum), t.d. með rafrænni miðlun eftir pöntun. Jafnframt felst í ákvæðinu heimild til nauðsynlegrar eintakagerðar sem af þessu leiðir, þ.e. vegna útsendingar og rafrænnar miðlunar. Í a-lið 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 26. gr. a í lögunum) felst að útvarpsstöð þarf að gera samning um framangreind afnot við þar til bær samtök rétthafa sem koma fram fyrir hönd verulegs hluta höfunda tiltekinna tegunda verka sem notuð eru hér á landi. Með samningskvaðaleyfinu fæst heimild til að nýta önnur verk sömu tegundar eftir höfunda sem ekki eru félagsmenn í viðkomandi rétthafasamtökum, með sömu skilmálum og heimilt er að nýta verk félagsmanna. Framangreind nýtingarheimild samkvæmt samningum um samningskvaðaleyfi kann að vera háð takmörkunum í samræmi við ákvæði einstakra eldri samninga sem útvarpsstöðvar hafa gert við rétthafa vegna framleiðslu til útsendingar um síðari birtingarrétt og endursýningarrétt áður útsends efnis. Nýtingarheimild ákvæðisins er bundin við endurnýtingu útsendra verka með endurútsendingum og með því að gera efni aðgengilegt eftir pöntun, t.d. með miðlun um netið. Önnur not falla ekki undir ákvæðið, t.d. útgáfa mynddiska með áður útsendu efni eða kynningarefni vegna útsendinga. Um slík not verður eftir sem áður að semja sérstaklega. Ákvæðið tekur til allra birtra verka, þ.m.t. sviðsuppfærslna og kvikmynda, svo framarlega sem þau teljast eigin framleiðsla útvarpsstöðvarinnar. Áskilið er að efni úr safni útvarpsstöðvar sem notað er samkvæmt heimildinni hafi áður verið sent út af viðkomandi útvarpsstöð. Utan heimildar samkvæmt ákvæðinu er hins vegar efni sem undirbúið hefur verið til útsendingar hjá útvarpsstöð en aldrei sent út. Með „eigin framleiðslu“ í 2. málsl. 1. mgr. er ekki aðeins átt við framleiðslu sem útvarpsstöð hefur sjálf staðið að heldur jafnframt framleiðslu sem unnin hefur verið fyrir viðkomandi útvarpsstöð til útsendingar dagskrár en ávallt að því tilskildu að útvarpsstöðin beri fjárhagslega ábyrgð af framleiðslunni og eigi allan rétt að viðkomandi verki gagnvart framleiðanda þeim sem unnið hefur verkið fyrir viðkomandi útvarpsstöð. Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. veitir jafnframt heimild til eintakagerðar að uppfylltum greindum skilyrðum vegna þeirra eintaka sem nauðsynleg eru til þess að gera verk úr safni útvarpsstöðva aðgengileg í gegnum pöntunarþjónustu, t.d. í gegnum netið. Ákvæðið tekur ekki til eintakagerðar samkvæmt gildandi 5. mgr. 23. gr. höfundalaga, sbr. 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Eins og áður greinir tekur heimild ákvæðisins ein­göngu til eigin framleiðslu útvarpsstöðva sem send hefur verið út fyrir gildistöku laganna. Fyrir efni sem sent er út eftir þann tíma verða útvarpsstöðvar að semja sérstaklega um þau afnot sem ákvæðið tekur til og munu slíkir samningar ein­göngu binda þá sem að slíkum samningum standa en ekki hafa samningskvaðaáhrif.
    Ákvæði 2. mgr. veitir einstökum höfundum, sem eru utan viðkomandi rétthafasamtaka, rétt til að banna notkun verka sinna með þeim hætti er greinir í 1. mgr. Um slíkt bann er nánar fjallað í athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins og vísast til þeirrar umfjöllunar.

Um 13. gr.

    Hér er lagt til að sjö af átta málsliðum 2. mgr. 25. gr. laganna falli brott til samræmis við breytingar sem lagðar eru til á 3. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 23. gr. laganna í 6. og 10. gr. frumvarpsins, sbr. athugasemdir við þær greinar.

Um 14. gr.

     Um a-lið (26. gr. a).
    Ákvæðið felur aðallega í sér breytingu á framsetningu og vísast til almennra athugasemda við frumvarpið um tilgang þess. Lagt er til í 1. mgr. að almennt ákvæði um hvernig samningskvaðaleyfi á grundvelli samningskvaða verði veitt komi í stað afmarkaðra ákvæða gildandi laga um beitingu slíkra heimilda í einstökum tilvikum. Í 2. mgr. er svo lagt til að auk sérstakra samningskvaðaheimilda í II. kafla sé heimild til að gera sambærilegan samning í ótilgreindum en afmörkuðum tilvikum, nokkurs konar almenn samningskvaðaheimild. Skilyrði fyrir beitingu slíkrar almennrar samningskvaðar er að finna í 2. og 3. mgr. Að lokum er að finna í 4. mgr. ákvæði um viðurkenningu og skilyrði fyrir slíkri viðurkenningu til rétthafasamtaka sem samið geta um að nota verk með samningskvaðaáhrifum.
    Í 1. mgr. er skilgreint hvað felst í hugtakinu samningskvaðaleyfi. Það er heimild sem notendur fá á grundvelli samnings við rétthafasamtök, sem uppfylla skilyrði 4. mgr. sömu greinar, til að nota verk utanfélagsmanna á sama hátt og verk félagsmanna samtakanna á grundvelli samningsins. Í 1. mgr. ákvæðisins er vísað til einstakra ákvæða um samningskvaðir. Þannig er vísað til 12. gr. b um bókasöfn, 3. mgr. 14. gr. vegna endurbirtingar listaverka í almennu fræðsluefni, gagnrýni eða vegna vísindalegrar umfjöllunar, 1. mgr. 18. gr. varðandi eintakagerð stofnana, samtaka og fyrirtækja, 4. mgr. 19. gr. varðandi heimild fyrir stofnanir til að gera eintök af upptökum útsendinga hljóðvarps og sjónvarps til nota fyrir blinda, sjónskerta og heyrnarlausa, 1. mgr. 23. gr. varðandi útsendingar útvarpsstöðva og opinberan flutning utan útvarps, annan en þann sem felur í sér miðlun efnis í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 2. gr., 1. mgr. 23. gr. a varðandi endurvarp um kapalkerfi og 1. mgr. 23. gr. b varðandi heimild útvarpsstöðva til að endurnýta áður útsent efni. Þá er í 1. mgr. mælt fyrir um hvaða verk utanfélagsmanna notendur mega nýta á grundvelli samningskvaðaleyfis og í hvaða mæli. Að uppfylltum þeim skilyrðum sem greinir í ákvæðinu er þeim sem byggja á samningskvaðaleyfi heimilt að nota sambærileg verk utanfélagsmanna á sama hátt og í sama mæli og kveðið er á í samningnum um afnot af verkum félagsmanna. Við mat á því hvaða verk séu sambærileg verður fyrst og fremst að líta til efnis samningsins sem hefur samningskvaðaáhrif. Ef samningurinn kveður t.d. á um afnot menntastofnunar af kennslubókum þá nær samningskvaðaheimildin einungis til bóka sem sérstaklega eru gefnar út sem slíkar en ekki til allra bóka.
    Með 2. mgr. er lagt til að einnig verði heimilt að gera samninga sem veita samningskvaðaleyfi sem taka til afmarkaðs og vel skilgreinds sviðs sem fellur utan þeirra tilvika sem tilgreind eru í 1. mgr. Ástæða þess að lagt er til að tekið verði upp slíkt almennt samningskvaðaákvæði er að með tilkomu netsins og þeim nýju miðlunarmöguleikum sem það býður upp á er ljóst að um fleiri og fleiri tilvik getur verið að ræða þar sem nauðsyn er á einföldum leiðum til að semja um víðtæka notkun, t.d. innan safna vegna varðveislu og miðlunar menningararfsins, án þess að til lagasetningar þurfi að koma í hvert sinn. Ákvæðið getur einnig verið grundvöllur samningskvaðaleyfa umfram þær sérstöku heimildir til samninga með samningskvaðaáhrifum sem er að finna í II. kafla gildandi laga með þeim breytingum sem á þeim verða ef frumvarpið verður lögfest. Ekki þykir rétt að binda þessa almennu heimild við útgefið efni. Varðveisla og miðlun menningararfsins tekur til að mynda oft til efnis innan safna sem erfitt er að sannreyna hvort hafi verið gefið út, svo sem ljósmynda. Ekki er heldur gerð krafa um að verk hafi verið birt, sbr. 3. gr. gildandi laga. Skjöl úr einkaskjalasöfnum sem afhent eru söfnum til varðveislu eru oft hvorki birt né útgefin. Oft er kveðið á um meðferð óbirtra skjala í afhendingarsamningi með einkaskjalasöfnum og ganga þá slík skilyrði framar samningskvaðaleyfi. Almennt gildir að eldri samningar sem rétthafar kunna að hafa gert áður en þeir hafa gert samning um samningskvaðaleyfi ganga framar samningskvöðinni. Hins vegar er jafnframt rétt að hafa í huga að almenna samningskvaðaheimildin getur verið til fyllingar eldri samningum, t.d. sem útgefendur hafa gert við höfunda og sem taka ekki til nýrra notkunarmöguleika vegna breytts tæknistigs. Fyrsta skilyrðið til að hægt sé að semja um samningskvaðaleyfi á grundvelli þessarar almennu heimildar er að andlagið, þ.e. þau verk sem samningskvaðaleyfið tekur til, sé vel afmarkað og skilgreint. Annað skilyrðið er að illmögulegt sé að semja um ætlaða notkun á einstaklingsgrundvelli, t.d. þegar um er að ræða mikla notkun fjölda verka margra rétthafa í öðrum tilvikum en þeim sem hinar sérstöku samningskvaðaheimildir í II. kafla taka til. Ekki er þó ætlast til að viðsemjendur þurfi að sanna að reynt hafi verið að semja á einstaklingsgrundvelli en mistekist, heldur er nóg að ljóst sé að um svið sé að ræða þar sem illgerlegt er vegna umfangs og kostnaðar að ná til allra rétthafa í þeim tilgangi að semja við þá hvern um sig. Að lokum er það skilyrði að samningur um samningskvaðaleyfi á grundvelli þessa ákvæðis sé ávallt skriflegur og í honum sé skýrt tekið fram að honum sé ætlað að veita samningskvaðaleyfi, þ.e. að hann sé bindandi bæði fyrir félagsmenn rétthafasamtakanna og höfunda verka á sama afmarkaða og tilgreinda sviðinu sem eru utan samtakanna.
    Tekið er fram í 3. mgr. að hafi höfundur sem ekki er félagsmaður í rétthafasamtökum lagt bann við því að verk hans séu notuð á grundvelli samningskvaðaleyfis nái samningskvaðaleyfið ekki til verka hans. Um slíkt bann er nánar fjallað í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins og vísast til þeirrar umfjöllunar.
    Í 4. mgr. er fjallað um viðurkenningu höfundaréttarsamtaka sem koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna vegna samninga sem samningskvaðaleyfi byggist á. Viðurkenning vegna almenna samningskvaðaákvæðisins í 2. mgr. tekur til afmarkaðs sviðs, þ.e. hún er veitt fyrir það afmarkaða og skilgreinda svið. Þau skilyrði sem rétthafasamtök þurfa að uppfylla til að geta samið um hagnýtingu verka með samningskvaðaáhrifum eru að þau hafi umboð til að semja um nýtingu verka á tilteknu sviði frá verulegum hluta höfunda og annarra rétthafa á því sviði. Við mat á því hvað sé verulegur hluti höfunda ber ekki ein­göngu að líta til fjölda félagsmanna heldur einnig t.d. til þess að hve miklu leyti samtökin eru með umboð frá rétthöfum þeirra verka sem mest eru notuð hér á landi. Mikilvægt atriði í ákvæðinu, vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, er að ekki er vísað til íslenskra höfunda eða rétthafa, eins og nú er gert t.d. í 1. mgr. 23. gr. laganna, heldur vísað til höfunda almennt án tillits til þjóðernis. Gert er ráð fyrir í lokamálslið 4. mgr. að ráðherra setji nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar þeirra samtaka sem nefnd eru í 1. og 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins auk 2. mgr. 47. gr. gildandi laga sem er afnotakvaðaákvæði en ekki samningskvaðaákvæði. Árétta ber að hluti af málsmeðferðarreglunum er ákvæði um mögulega endurskoðun viðurkenningar. Kemur það ákvæði í stað sambærilegs ákvæðis í 53. gr. a í gildandi lögum um þau rétthafasamtök sem heimild hafa til samninga á grundvelli gildandi samningskvaðaákvæða. Vísast til nánari umfjöllunar um ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 93/2010, sbr. umfjöllun um 9. gr. þeirra laga.
     Um b-lið (26. gr. b).
    Hér er að finna sam­eigin­leg ákvæði um hvernig staðið skuli að þóknun fyrir utanfélagsmenn sem samningskvaðaleyfi skv. a-lið 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 26. gr. a í lögunum) taka til, hvernig staðið skuli að kröfum rétthafasamtaka gagnvart notendum vegna samningskvaðaleyfis á grundvelli 23. gr. a, sbr. 11. gr. frumvarpsins, og að lokum ákvæði um fyrningarfresti fyrir þær kröfur og þá aðila sem greinin tekur til. Ákvæðið á ekki við um félagsmenn rétthafasamtaka þar sem þeir eru samkvæmt veittu umboði bundnir af ákvæðum rétthafasamtakanna um úthlutunarreglur.
    Með 1. mgr. er mælt fyrir um ákvörðun þóknunar til utanfélagsmanna vegna hagnýtingar verka þeirra á grundvelli samninga um samningskvaðaleyfi við þar til bær rétthafasamtök. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan að höfundar utan samtakanna skuli sæta meðferð eftir reglum samtakanna eins og um félagsmenn væri að ræða varðandi skiptingu þóknunar. Regla þessi á að tryggja það að utanfélagsmönnum verði ekki mismunað gagnvart félagsmönnum. Er þá gengið út frá því að reglur samtakanna kveði á um skiptingu þóknunar eftir notkun verka þannig að úthlutun fari fram á einstaklingsgrundvelli. Ekki er þó girt fyrir að um heildarúthlutun geti verið að ræða, t.d. í formi styrkja til félagsmanna á grundvelli umsókna. Er þá gert ráð fyrir því að hlutaðeigandi utanfélagsmenn eigi þess kost að sækja sinn hluta þóknunar í formi styrkja á grundvelli umsókna, sbr. einnig athugasemdir við 2. mgr.
    Með 2. mgr. er mælt fyrir um að höfundar sem eru utanfélagsmenn geti krafist einstaklingsbundinnar þóknunar, án tillits til samninga rétthafasamtakanna um samningskvaðaleyfi eða samþykkta þeirra. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. og tryggir að utanfélagsmenn geti ætíð fengið einstaklingsbundna greiðslu fyrir notkun verka sinna á grundvelli samningskvaðaleyfis, einnig þegar samningur eða úthlutunarreglur rétthafasamtaka miðast við heildarúthlutun í formi styrkja til höfunda eða annars konar heildarráðstöfun endurgjalds frá notanda. Kröfu utanfélagsmanns um einstaklingsbundna greiðslu skal beint til rétthafasamtakanna. Rökin fyrir þessu eru að hagræði notenda af samningskvaðaleyfi felst einkum í því að semja við og greiða þóknun til eins aðila fyrir alla notkun. Gera verður þá kröfu til rétthafasamtaka að þau reyni eftir megni að finna þá höfunda sem rétt eiga á einstaklingsbundinni þóknun til að greiða þeim. Ef reglur samtakanna kveða hins vegar á um heildarúthlutun þóknana er ekki ætlast til að mögulegum einstaklingsbundnum þóknunum til utanfélagsmanna sé að frumkvæði samtakanna haldið aðskildum, heldur er gert ráð fyrir að utanfélagsmenn hafi sjálfir frumkvæði að því að krefjast einstaklingsbundinnar úthlutunar og færi sönnur á notkun verka sinna. Hvað slík sönnun felur í sér verður að meta eftir efni og aðstæðum hverju sinni.
    Með 3. mgr. er sett fram krafa um að samningar sem veita samningskvaðaleyfi skuli birtir á þann hátt að utanfélagsmenn hafi tök á að koma fram með kröfu um þóknun, hvort sem er einstaklingsbundna úthlutun skv. 2. mgr. eða almenna þóknun skv. 1. mgr. Slík birting gæti t.d. verið á heimasíðu rétthafasamtakanna.
    Með 4. mgr. er kveðið á um að kröfur samtaka rétthafa um þóknun úr hendi notenda á grundvelli samningskvaðaleyfis sem samið er um samkvæmt heimild í 11. gr. frumvarpsins (23. gr. a í lögunum verði frumvarpið að lögum) skuli gerðar allar á sama tíma. Felur það í sér að krafa um þóknun sé gerð í einu lagi, t.d. eftir notkun miðað við ákveðið tímabil. Þetta helgast af því að samningar um endurvarp í gegnum kapalkerfi eru yfirleitt við fleiri en ein rétthafasamtök eða sam­eigin­leg samtök tveggja eða fleiri rétthafasamtaka, sbr. 4. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 4. mgr. 26. gr. a í lögunum), og er þetta ákvæði því til hagræðingar fyrir notendur, þ.e. fyrirsvarsaðila kapalkerfa.
    5. mgr. felur í sér sérreglu um fyrningu krafna sem stofnast á grundvelli samninga um samningskvaðaleyfi. Fyrningarfrestur er fjögur ár frá því að hagnýting átti sér stað og tekur bæði til krafna rétthafasamtaka á hendur notendum samkvæmt samningi um samningskvaðaleyfi og til krafna utanfélagsmanna rétthafasamtaka vegna greiðslna á grundvelli samningskvaðaleyfa sem binda þá. Fyrningarfrestur er sá sami og almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda, sbr. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007. Til að fyrningarfresturinn samkvæmt þessu ákvæði rofni er nægilegt að fram komi skrifleg krafa um greiðslu og hefst þá nýr fjögurra ára fyrningarfrestur. Ekki er því þörf á málshöfðun til að fyrningarfrestur rofni.
    Um kröfur félagsmanna rétthafasamtakanna á hendur samtökunum gilda almennar reglur um fyrningu nema annað sé ákveðið í samþykktum rétthafasamtakanna sem þeir tilheyra.
     Um c-lið (26. gr. c).
    Hér er mælt fyrir um sáttameðferð þegar samningar með heimild í ákvæðum sem vísað er til í 1. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 1. mgr. 26. gr. a í lögunum) takast ekki á milli notenda og þar til bærra rétthafasamtaka. Hvor aðili um sig getur farið fram á sáttameðferð eftir ákvæðinu. Heimildin á við um öll þau tilvik sem tiltekin eru í frumvarpinu að undanskilinni almennu samningskvöðinni sem lagt er til að verði lögfest í 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 2. mgr. 26. gr. a í lögunum). Í því tilviki hefur löggjafinn ekki á sama hátt og varðandi hin sérstöku samningskvaðaákvæði tekið afstöðu til þess að nauðsynlegt sé að samningskvaðaleyfi sé til staðar á viðkomandi sviði og því þykir ekki rétt að skylda aðila til sáttaumleitana á sama hátt og vegna hinna sérstöku samningskvaðaákvæða. Heimild til sáttameðferðar er hér tekin upp að fyrirmynd 52. gr. dönsku höfundalaganna. Komi fram krafa um sáttameðferð er gagnaðilanum skylt að hlíta henni. Vald sáttasemjara er þó aðeins bundið við heimild til að bera sáttatillögu undir ákvörðunarbærar stofnanir samningsaðila, auk heimildar til að framlengja tímabundið gildistíma fyrri samnings á milli aðila meðan á sáttaumleitunum stendur.
    Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins er að samningar takist ekki. Í því felst ekki áskilnaður um að samningaumleitunum hafi verið slitið af hálfu annars hvors eða beggja samningsaðila. Nægilegt telst t.d. að annar hvor samningsaðila færi rök fyrir því að ekki sé nægilegur framgangur í samningaumleitunum. Gert er ráð fyrir að sáttasemjari leggi til grundvallar lausnir beggja aðila við mótun tillagna sinna til lausnar á deilu aðila. Ef deilumálið varðar endurvarp um kapalkerfi skv. 23. gr. a í lögunum er lagt til að litið verði svo á að tillaga sáttasemjara sé samþykkt ef enginn mótmælir henni innan þriggja mánaða. Er þetta ákvæði í samræmi við 3. mgr. 11. gr. tilskipunar ráðsins 93/83/EBE um samræmingu á tilteknum reglum varðandi höfundarétt og réttindi tengd höfundarétti vegna útsendingar um gervihnött og endurvarps um kapal.
    Í 6. mgr. er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja reglugerð um störf sáttasemjara og kostnað vegna starfa hans. Ákvæðið kemur ekki í stað 57. gr. í gildandi höfundalögum sem kveður á um að þriggja manna úrskurðarnefnd geti kveðið á um fjárhæð þóknunar, m.a. vegna sérstöku samningskvaðaákvæðanna sem talin eru upp í 1. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 1. mgr. 26. gr. a í lögunum), heldur geta aðilar ákveðið hvora leiðina þeir velja ef upp kemur ágreiningur um fjárhæð þóknunar. Ef frumvarpið verður að lögum verður einnig heimilt að leggja önnur ágreiningsatriði en fjárhæð þóknunar vegna samningskvaðaákvæða undir úrskurðarnefnd skv. 57. gr. í lögunum, sbr. 24. gr. frumvarpsins. Aðilum er einnig heimilt að fara báðar leiðir, fyrst sáttaleið og síðan leita til úrskurðarnefndar sem þarf þá ekki að leita sátta á milli aðila. Helsti munur á milli þessara tveggja leiða er í fyrsta lagi að úrskurðarnefndin kveður ein­göngu á um fjárhæð endurgjalds, samkvæmt gildandi lögum, á meðan sáttameðferð samkvæmt þessari grein getur tekið til allra atriða samnings. Ef frumvarpið verður að lögum mun úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna hins vegar einnig geta tekið til allra atriða samnings með samningskvaðaáhrifum. Í öðru lagi getur úrskurðarnefndin komist að niðurstöðu sem er bindandi fyrir aðila.

Um 15. gr.

    Rétt þykir að breyta kaflaheiti II. kafla til að skýra hvað fellur undir kafla­nn, þ.e. bæði takmarkanir á höfundarétti og ákvæði um umsýslu höfundaréttar á grundvelli samningskvaða. Almennt er ekki talið að samningskvaðaákvæði sem heimila samingskvaðaleyfi sé takmörkun á höfundarétti, sbr. formálsgrein 18 í tilskipun 2001/29/EB, heldur leið til að einfalda notkun verka sem vernduð eru að höfundarétti þegar ekki er grundvöllur til samninga um afnotin á einstaklingsgrundvelli.

Um 16. gr.

    Hér er lagt til að í tilvísunarákvæði 3. mgr. 45. gr. í höfundalögum um hvaða ákvæði gilda um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings verði bætt tilvísunum, ýmist vegna breytinga sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eða vegna eldri breytinga þar sem farist hefur fyrir að breyta tilvísunum.
    Tilvísun í 2. gr. laganna er lítillega breytt vegna orðalagsbreytinga á greininni sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti er tilvísun í önnur ákvæði I. kafla laganna óbreytt, þ.e. vísað er í 4. gr. laganna um sæmdarrétt, 7. gr. laganna um samhöfunda og löglíkindareglu 8. gr. laganna eins og áður.
    Lagt er til að ákvæði 10. gr. a í lögunum um skammtíma eða tilfallandi eintakagerð taki til listflutnings. Einnig er lagt til að til viðbótar við tilvísun í 1. mgr. 11. gr. í lögunum verði vísað í 3. tölul. 2. mgr. sömu lagagreinar um að eftirgerð verndaðra tónverka og bókmenntaverka til einkanota sé ekki heimil ef hún er gerð með aðstoð aðila sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni þannig að hún taki líka til réttinda listflytjenda.
    Vegna tillögu í 5. gr. frumvarpsins um samningskvöð til handa söfnum sem falla undir 1. mgr. 12. gr. í lögunum til að semja um samningskvaðaleyfi vegna útgefinna verka er hér lagt til að vísað verði til þess ákvæðis, þ.e. 12. gr. b, þannig að það taki einnig til listflutnings. Áfram verður vísað í 12. gr. og 12. gr. a.
    Þá er áfram vísað í tilvitnunarákvæði 1. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 15. gr. í lögunum um takmörkun á einkarétti höfundar vegna þar til greindra heimilda til tilvitnana og kynningar. Til viðbótar er lagt til að vísað verði til 3. mgr. 14. gr. í lögunum um samningskvöð vegna endurbirtingar listaverka, sbr. 6. gr. frumvarpsins, og 4. mgr. 15. gr. í lögunum um stutt myndskeið sem varða almenning sem útvarpsstöðvum er heimilt að senda út á grundvelli 4. mgr. 48. gr. í lögunum.
    Rétt þykir að í 3. mgr. 45. gr. höfundalaga sé vísað til 17. gr. um heimild til að birta í safnverkum bókmenntaverk, tónverk, myndverk eða verk sem njóta verndar skv. 3. mgr. 1. gr. gildandi laga sem nota á við kennslu eða guðsþjónustu.
    Þá er lagt til að vísað verði til nýrrar 18. gr. í lögunum, sbr. 8. gr. frumvarpsins, um heimild stofnana, fyrirtækja og samtaka til að gera eintök af útgefnum verkum til notkunar innan starfsemi sinnar á grundvelli heildarleyfis.
    Einnig er lagt til að vísað verði í 1., 2. og 4. mgr. 19. gr. laganna um heimild til eintakagerðar fyrir fatlaða einstaklinga til að ljóst sé að sú takmörkun eigi einnig við um listflytjendur. Ákvæði 4. mgr. 19. gr. í lögunum, sbr. 9. gr. frumvarpsins, tekur til samningskvaðaleyfis til mynd- eða hljóðupptöku af útvarpsefni.
    Lagt er til að áfram verði í 3. mgr. 45. gr. í lögunum vísað til 21. gr. um takmörkun vegna opinbers flutnings í fræðslustarfsemi, á góðgerðarsamkomum, á almennum mannfagnaði, við kynningar á menntun og menningu eða annarri starfsemi til almannaheilla sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi, svo og vegna opinbers flutnings verka við guðsþjónustu eða aðrar kirkjulegar embættisathafnir. Því til viðbótar er lagt til að vísað verði í 22. gr. og 22. gr. a í lögunum um takmarkanir á höfundarétti vegna opinberrar umræðu og opinberrar upplýsingaskyldu.
    Lagt er til að vísað verði í samningskvaðaákvæði 1. mgr. 23. gr., 2. mgr. 23. gr. í lögunum um nánari afmörkun samningskvaðaákvæðis 1. og 3. mgr. 23. gr. í lögunum um upptökur útvarpsstöðva á eigin útsendingum, sbr. 10. gr. frumvarpsins og 23. gr. a í lögunum um takmarkanir vegna endurvarps um kapalkerfi, sbr. 11. gr. frumvarpsins, sem og 12. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 23. gr. b í lögunum) um heimild útvarpsstöðva til endurútsendinga eigin verka á grundvelli samningskvaðaleyfis.
    Þá er líkt og í gildandi ákvæði lagt til að vísað verði í 24. gr. laganna um tæmingu réttinda og 26. gr. laganna um að gæta skuli sæmdarréttar skv. 4. gr. laganna vegna nota sem byggjast á takmörkunum í II. kafla. Þá tekur tilvísunin einnig til nýrra ákvæða í 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 26. gr. a – 26. gr. c) um samningskvaðaleyfi, sbr. 5.–13. gr. frumvarpsins, og almennra ákvæða um aðilaskipti að höfundarétti sem er að finna í 27.–31. gr. laganna.
    Áfram er lagt til að vísað verði í 3. mgr. 41. gr. laganna um rétt höfundar til þóknunar vegna útleigu kvikmyndaverks og 53. gr. laganna um sæmdarrétt vegna verka sem ekki njóta höfundaverndar.
    Þá er að lokum lagt til að vísað verði í 57. gr. laganna um úrskurðarnefnd vegna ágreinings um þóknun í þar tilgreindum tilvikum.

Um 17. gr.

    Hér er lagt til að sérstakt ákvæði um endurvarp listflutnings um kapalkerfi falli brott en í þess stað komi tilvísun í 3. mgr. 45. gr. laganna til 23. gr. a eins og lagt er til að henni verði breytt með 11. gr. frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir því að leyfi­sveitingar vegna endurvarps listflutnings fari fram á grundvelli samninga um samningskvaðaleyfi, sbr. 26. gr. a.

Um 18. gr.

    Hér er lagt til að í tilvísunarákvæði 2. mgr. 46. gr. í lögunum um hvaða ákvæði gilda um eftirgerð og dreifingu á myndritum og hljóðritum verði bætt tilvísunum, ýmist vegna breytinga sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eða vegna eldri breytinga þar sem farist hefur fyrir að breyta tilvísunum.
    Tilvísun í 2. gr. laganna er lítillega breytt vegna orðalagsbreytinga á greininni sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti er tilvísun í önnur ákvæði I. kafla laganna óbreytt, þ.e. vísað er í 7. gr. laganna um samhöfunda og löglíkindareglu 8. gr. laganna eins og áður.
    Lagt er til að ákvæði 10. gr. a í lögunum um skammtíma eða tilfallandi eintakagerð taki til réttar framleiðanda skv. 46. gr. Einnig er lagt til að til viðbótar við tilvísun í 1. mgr. 11. gr. verði vísað í 3. tölul. 2. mgr. 11. gr. laganna um að eftirgerð verndaðra tónverka og bókmenntaverka til einkanota sé ekki heimil ef hún er gerð með aðstoð aðila sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni þannig að hún taki líka til réttar framleiðanda.
    Vegna tillögu í 5. gr. frumvarpsins um samningskvöð til handa söfnum sem falla undir 1. mgr. 12. gr. til að semja um samningskvaðaleyfi vegna útgefinna verka er hér lagt til að vísað verði til þess ákvæðis, þ.e. 12. gr. b, þannig að það taki einnig til réttar framleiðanda skv. 46. gr. laganna. Áfram verður vísað í 12. gr. og 12. gr. a í lögunum.
    Þá er áfram vísað í tilvitnunarákvæði 1. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 15. gr. í lögunum um takmörkun á einkarétti höfundar vegna þar tilgreindra heimilda til tilvitnana og kynningar. Til viðbótar er lagt til að vísað verði til 3. mgr. 14. gr. í lögunum um samningskvöð vegna endurbirtingar listaverka, sbr. 6. gr. frumvarpsins, og 4. mgr. 15. gr. í lögunum um stutt myndskeið sem varða almenning sem útvarpsstöðvum er heimilt að senda út á grundvelli 4. mgr. 48. gr.
    Rétt þykir að í 2. mgr. 46. gr. sé vísað til 17. gr. laganna um heimild til að birta í safnverkum bókmenntaverk, tónverk, myndverk eða verk sem njóta verndar skv. 3. mgr. 1. gr. gildandi laga sem nota á við kennslu eða guðsþjónustu.
    Þá er lagt til að vísað verði til nýrrar 18. gr., sbr. 8. gr. frumvarpsins, um heimild stofnana, fyrirtækja og samtaka til að gera eintök af útgefnum verkum til notkunar innan starfsemi sinnar á grundvelli samningskvaðaleyfis.
    Einnig er lagt til að vísað verði í 1., 2. og 4. mgr. 19. gr. laganna um heimild til eintakagerðar fyrir fatlaða einstaklinga til að ljóst sé að sú takmörkun eigi einnig við gagnvart framleiðendum. Ákvæði 4. mgr. 19. gr. laganna, sbr. 9. gr. frumvarpsins, tekur til samningskvaðaleyfis til mynd- eða hljóðupptöku af útvarpsefni.
    Lagt er til að í 2. mgr. 46. gr. laganna verði vísað til 21. gr. um takmörkun vegna opinbers flutnings við fræðslustarfsemi, á góðgerðarsamkomum, til almenns mannfagnaðar, fyrir kynningu á menntun og menningu eða til almannaheilla sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi og svo vegna opinbers flutnings verka við guðsþjónustu eða aðrar kirkjulegar embættisathafnir. Því til viðbótar er lagt til að vísað verði í 22. gr. og 22. gr. a í lögunum um takmarkanir á höfundarétti vegna opinberrar umræðu og opinberrar upplýsingaskyldu.
    Lagt er til að vísað verði í samningskvaðaákvæði 23. gr. b um heimild útvarpsstöðva til endurútsendinga eigin verka á grundvelli samningskvaðaleyfis, sbr. 12. gr. frumvarpsins.
    Þá er eins og er í gildandi ákvæði lagt til að vísað verði í 24. gr. í lögunum um tæmingu réttinda en einnig að vísað verði í 3. mgr. 26. gr. í lögunum um að ekki megi gera breytingar umfram það sem nauðsynlegt er vegna afnota sem byggjast á takmörkunum í II. kafla. Þá tekur tilvísunin einnig til nýrra ákvæða í 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 26. gr. a – 26. gr. c) um samningskvaðaleyfi, sbr. 10.–12. gr. frumvarpsins. Þá er að lokum lagt til að vísað verði í 57. gr. laganna um úrskurðarnefnd vegna ágreinings um þóknun í þar tilgreindum tilvikum.

Um 19. gr.

    Lagt er til að orðalagi 2. mgr. verði breytt til samræmis við orðanotkun á öðrum stöðum varðandi samtök rétthafa. Samtök rétthafa voru oft áður nefnd innheimtusamtök en þar sem eðli þeirra er víðtækara en það sem snýr að innheimtu þykir réttara að nefna þau samtök rétthafa sem í þessu tilviki eru samtök framleiðenda og listflytjenda.
    Tillagðar breytingar á 3. mgr. 47. gr. í lögunum lúta í fyrsta lagi að því að færa orðalag um flutning utan útvarps til samræmis við ákvæði gildandi 1. mgr. um afnotakvöð sem þar er að finna um flutning hljóðrita. Skv. 2. málsl. 1. mgr. tekur sú afnotakvöð ekki til miðlunar hljóðrita sem í því felst að hljóðrit er gert aðgengilegt með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs. Þessi afnotakvöð er endurspegluð í orðalagi 3. mgr. varðandi heimild rétthafasamtaka til að setja gjaldskrá um flutning utan útvarps. Hér er lagt til að undirstrikað verði að heimildin til að setja gjaldskrá nái ekki til flutnings sem feli í sér miðlun í skilningi 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. laganna, sbr. tillagðar breytingar á 2. gr. gildandi laga í 1. gr. frumvarpsins. Þá er lagt til að fella niður ákvæði um að gjaldskrár rétthafasamtaka samkvæmt þessari málsgrein skuli háðar samþykki ráðuneytisins, enda geta aðilar skotið ágreiningi um fjárhæð þóknunar til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. í lögunum.
    Lagt er til að fella niður tilvísanir sem nú eru í 4. mgr. 47. gr. í lögunum til annarra ákvæða höfundalaga þar sem þær er að finna í 45. og 46. gr. höfundalaga, sbr. 16. og 18. gr. frumvarpsins, og því ekki þörf á þeim í þessu ákvæði. Eftir sem áður er tekið fram í málsgreininni að ákvæði greinarinnar taki ekki til myndrita, þ.e. kvikmynda, myndbanda og annarra hreyfimynda.

Um 20. gr.

    Hér er lagt til að við tilvísunarákvæði 3. mgr. 48. gr. í lögunum um hvaða ákvæði gilda um rétt útvarpsstofnana verði bætt tilvísunum, ýmist vegna breytinga sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eða vegna eldri breytinga þar sem farist hefur fyrir að breyta tilvísunum.
    Tilvísun í 2. gr. laganna og löglíkindareglu 8. gr. laganna er ný en eðlilegt þykir að þeim ákvæðum sé beitt eftir því sem við á.
    Lagt er til að ákvæði 10. gr. a í lögunum um skammtíma eða tilfallandi eintakagerð taki til réttar útvarpsstofnana skv. 48. gr. Einnig er lagt til að til viðbótar við tilvísun í 1. mgr. 11. gr. verði vísað í 3. tölul. 2. mgr. 11. gr. í lögunum þess efnis að eftirgerð verndaðra tónverka og bókmenntaverka til einkanota sé ekki heimil ef hún er gerð með aðstoð aðila sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni þannig að hún taki líka til réttar útvarpsstofnana.
    Vegna tillögu í 5. gr. frumvarpsins um samningskvöð til handa söfnum sem falla undir 1. mgr. 12. gr. laganna til að semja um samningskvaðaleyfi vegna útgefinna verka er hér lagt til að vísað verði til þess ákvæðis, þ.e. 12. gr. b, þannig að það taki einnig til réttar útvarpsstofnana skv. 48. gr. Áfram verður vísað í 12. gr. og 12. gr. a í lögunum.
    Þá er áfram vísað í tilvitnunarákvæði 1. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 15. gr. laganna um takmörkun á einkarétti höfundar vegna þar tilgreindra heimilda til tilvitnana og kynningar. Til viðbótar er lagt til að vísað verði til 3. mgr. 14. gr. laganna um samningskvöð vegna endurbirtingar listaverka, sbr. 6. gr. frumvarpsins, og 4. mgr. 15. gr. laganna, um stutt myndskeið sem varða almenning sem útvarpsstöðvum er heimilt að senda út á grundvelli 4. mgr. 48. gr.
    Rétt þykir að í 3. mgr. 48. gr. laganna sé vísað til 17. gr. um heimild til að birta í safnverkum bókmenntaverk, tónverk, myndverk eða verk sem njóta verndar skv. 3. mgr. 1. gr. gildandi laga sem nota á við kennslu eða guðsþjónustu.
    Þá er lagt til að vísað verði til nýrrar 18. gr., sbr. 8. gr. frumvarpsins, um heimild stofnana, fyrirtækja og samtaka til að gera eintök af útgefnum verkum til notkunar innan starfsemi sinnar á grundvelli samningskvaðaleyfis.
    Einnig er lagt til að vísað verði í 1., 2. og 4. mgr. 19. gr. laganna um heimild til eintakagerðar fyrir fatlaða einstaklinga til að ljóst sé að sú takmörkun eigi einnig við um rétt útvarpsstofnana.
    Lagt er til að í 3. mgr. 48. gr. sé vísað til 21. gr. laganna um takmörkun vegna opinbers flutnings í fræðslustarfsemi, á góðgerðarsamkomum, á almennum mannfagnaði, við kynningu á menntun og menningu eða í annarri starfsemi til almannaheilla sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi og svo vegna opinbers flutnings verka við guðsþjónustu eða aðrar kirkjulegar embættisathafnir. Því til viðbótar er lagt til að vísað verði í 22. gr. og 22. gr. a í lögunum um takmarkanir á höfundarétti vegna opinberrar umræðu og opinberrar upplýsingaskyldu.
    Að lokum er lagt til að vísað verði í 24. gr. laganna um tæmingu réttinda og einnig að vísað verði í 3. mgr. 26. gr. um að ekki megi gera breytingar umfram það sem nauðsynlegt er vegna nota sem byggjast á takmörkunum í II. kafla.

Um 21. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 22. gr.

    Hér er lagt til að 53. gr. a í lögunum verði felld brott þar sem frumvarpið felur í sér tillögu um að efni hennar, að breyttu breytanda, verði framvegis í 4. mgr. 26. gr. a, sbr. 4. mgr. a- liðar 14. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 24. gr.

    Hér er lagt til að ákvæði 1. málsl. 57. gr. laganna verði breytt til samræmis við aðrar breytingar frumvarpsins og verði jafnframt 1. mgr. 57. gr. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði um sáttameðferð þegar samningar um samningskvaðaleyfi á grundvelli ákvæða 1. mgr. nýrrar greinar, 26. gr. a, nást ekki, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Þrátt fyrir þessa nýju sáttaleið þykir rétt að úrskurðarnefnd geti áfram úrskurðað um fjárhæð endurgjalds vegna hinna sérstöku samningskvaða sem vísað er til í 1. mgr. nýrrar greinar, 26. gr. a, sbr. a-lið 14. gr. frumvarpsins. Helgast það af því að sáttasemjari getur ekki tekið bindandi ákvörðun ef sáttaumleitun ber ekki árangur á meðan niðurstaða úrskurðarnefndar er bindandi. Hins vegar er ekki talið rétt að úrskurðarvald nefndarinnar taki til almennu samningskvaðarinnar í 2. mgr. 26. gr. a, sbr. 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins, þar sem löggjafinn hefur ekki í því tilviki á sama hátt og varðandi hin sérstöku samningskvaðaákvæði tekið afstöðu til þess að nauðsynlegt sé að samningskvaðaheimild sé til staðar á viðkomandi sviði. Rétt þykir hins vegar að nefndin geti úrskurðað um fjárhæð einstaklingsbundinnar þóknunar sem reynir á eftir að samningar hafa tekist, sbr. b-lið 14. gr. frumvarpsins (sem lagt er til að verði 26. gr. b í lögunum), og því er tilvísun í þá grein bætt við þá upptalningu sem er að finna í 1. mgr. 57. gr. laganna.
    Þá er einnig lagt til að úrskurðarnefndin geti kveðið á um önnur ágreiningsatriði er varða samningskvaðir, aðrar en almennu samningskvöðina, á sömu forsendum og að framan greinir.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrlausn um ágreiningsefnið á stjórnsýslustigi. Þess vegna er ekki hægt að bera þá undir æðra stjórnvald heldur verður að fara með niðurstöðuna fyrir dómstóla ef aðilar eru ekki sáttir við hana.

Um 25. gr.

    Í a-lið er ein­göngu um orðalagsbreytingu að ræða vegna ákvæðis 4. mgr. a-liðar 15. gr. frumvarpsins sem lagt er til að komi í stað ákvæða um löggildingu rétthafasamtaka sem nú er kveðið á um í 23. gr. og 23. gr. a í gildandi lögum. Þótt hér sé mælt fyrir um heimild samtaka rétthafa sem hlotið hafa viðurkenningu á grundvelli 23. gr. og 23. gr. a, sbr. 10. og 11. gr. frumvarpsins, til að óska eftir lögbanni án þess að hafa til þess umboð frá rétthöfum þeirra verka sem um ræðir geta önnur samtök rétthafa á sama hátt staðið að lögbannsbeiðni vegna verka sem njóta verndar samkvæmt höfundalögum, að uppfylltum skilyrðum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um málflutningsumboð frá rétthöfum þeirra verka sem um ræðir.
    Ákvæði 2. mgr. 59. gr. a um lögbann gegn athöfnum milliliða var lögfest með lögum nr. 93/2010. Tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verði beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar og hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga, sbr. nánar í athugasemdum við lagafrumvarp sem varð að lögum nr. 93/2010. Eftir gildistöku laga nr. 93/2010 hafa komið fram ábendingar um að hagsmuna þjónustuþega sé ekki nægilega gætt við málsmeðferð kröfu um lögbann við því að fjarskiptafyrirtæki miðli gögnum frá tiltekinni vefsíðu. Með ákvæði b-liðar 25. gr. í þessu frumvarpi er leitast við að veita fyrirsvarsmanni vefsíðu sem lögbannskrafa beinist að aðild að lögbannsmálinu í því skyni að gæta hagsmuna sinna, eins og heimilt er almennt í lögbannsmálum skv. 14. gr. laga nr. 31/1990, eftir því sem við verður komið. Frumforsenda fyrir því að slíkur þriðji aðili geti gætt hagsmuna sinna í lögbannsmáli er að honum berist vitneskja um fyrirtöku þess og niðurstöðu. Fái hann í hendur tilkynningu um fyrirtöku lögbannsmáls sem beinist að þjónustu sem hann veitir getur hann tekið upplýsta ákvörðun um að neyta réttar síns skv. 14. gr. laga nr. 31/1990 eða með því að óska eftir meðal­göngu í staðfestingarmáli á lögbannsgerð sem höfðað er fyrir dómstólum, sbr. 20. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þess ber þó að gæta að oft liggur ekki fyrir hver er fyrirsvarsmaður vefsíðu eða hvar hann sé að finna og því ekki unnt að uppfylla kröfu um tilkynningarskyldu til viðkomandi. Af þeim sökum er fyrirvari settur um aðgerðir samkvæmt ákvæðinu eftir því sem við verður komið.

Um 26. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (endurskoðun höfundalaga, einkaréttindi höfunda og samningskvaðir).

    Megintilgangur lagafrumvarpsins er annars vegar að samræma I. kafla gildandi höfundalaga, sem fjallar um réttindi höfunda og fleira, við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu. Hins vegar er tilgangur frumvarpsins breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum. Frumvarpið er eitt af fjórum frumvörpum sem gert er ráð fyrir að leggja fram samhliða um breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, á þessu vorþingi og er fjallað um málavexti og fjárhagsáhrif þeirra í umsögn með hverju frumvarpi fyrir sig.
    Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til þess að réttarástand á Íslandi á sviði höfundaréttar verður fært nær því réttarástandi sem er við lýði í nágrannalöndunum. Telja verður rétt og eðlilegt að breyta ákvæðum laganna með sérstöku tilliti til tilskipunarinnar, sérstaklega í ljósi þeirrar víðtæku túlkunar laganna sem hefur viðgengist undanfarin ár. Með samræmingu ákvæða um samningskvaðir verða lögin skýrari og betur hægt að tryggja skilvirkari not samningskvaða í þeim tilvikum þar sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða til hagsbóta fyrir notendur og rétthafa. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.