Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1221  —  451. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Birgi Hrafn Búason frá utanríkisráðuneyti og Kristján Frey Helgason frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þá barst nefndinni umsögn frá atvinnuveganefnd samkvæmt beiðni þar að lútandi á grundvelli 4. mgr. 23. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Þingsályktunartillagan felur í sér að ríkisstjórninni verði heimilað að fullgilda fyrir Íslands hönd samning hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar sem undirritaður var í Róm 22. nóvember 2009.
    Samningurinn um hafnríkisaðgerðir er fyrsti bindandi alþjóðasamningur á sviði fiskveiða síðan úthafsveiðisamningurinn var gerður árið 1995. Við gerð samningsins var tekið mið af og litið til óbindandi leiðbeininga FAO um hafnríkisaðgerðir, sem voru helsta fyrirmynd hafnríkisreglna sem Ísland, ásamt öðrum strandríkjum við Norður-Atlantshaf, hefur innleitt, sbr. lög nr. 22/2007, um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Markmið samningsins er að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar (ólögmætar veiðar). Aðilar að samningnum eru hlutaðeigandi hafnríki en samningurinn gildir gagnvart skipum sem ekki sigla undir fána hafnríkisins. Í samningnum er mælt fyrir um skyldu ríkja til að beita ólíkum stjórntækjum í því skyni að ýta undir ábyrgar fiskveiðar, svo sem með lokun hafna gagnvart skipum sem eru „svartlistuð“ af svæðisbundnum fiskveiðistjórnarstofnunum, málsmeðferð til að knýja fánaríki til ábyrgðar í erlendum höfnum, setningu tiltekinna lágmarkskrafna um upplýsingamiðlun, eftirlitsaðgerðir, fyrirbyggjandi ráðstafanir, stuðning við þróunarríki og samvinnu. Undanþága hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um takmarkaða heimild skipa til að koma til hafnar vegna neyðaraðstæðna gildir eftir sem áður.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að hér á landi sé löng reynsla af beitingu hafnríkisaðgerða í því skyni að torvelda ólöglegar veiðar. Ísland hafi verið í fararbroddi ábyrgra strandríkja, ásamt öðrum þjóðum við Norður-Atlantshaf. Fullgilding samningsins ætti því ekki að hafa miklar breytingar né kostnað í för með sér hér á landi. Hins vegar sé hann mikilvægur til að auka alþjóðlega samvinnu um þessi málefni. Enn fremur kom fram að frumvarp til innleiðingar samningsins hér á landi sé til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, sem gerir ekki athugasemdir við fullgildingu samningsins af Íslands hálfu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Frosti Sigurjónsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. apríl 2015.

Birgir Ármannsson,
form., frsm.
Ásmundur Einar Daðason. Vilhjálmur Bjarnason.
Elín Hirst. Katrín Jakobsdóttir. Óttarr Proppé.
Össur Skarphéðinsson.

Fylgiskjal.


Umsögn

um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið einkum að því leyti að hún hefur til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, sem er lagt fram í tilefni af fullgildingu samningsins (418. mál). Markmið frumvarpsins er að styrkja eftirlit með fiskveiðum erlendra skipa í íslenskum höfnum til samræmis við þann samning sem utanríkismálanefnd hefur til umfjöllunar.
    Með fyrrnefndu frumvarpi eru einkum lagðar til breytingar á 3. og 9. gr. laga nr. 22/1998. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að gildissvið hafnríkisaðgerða verði rýmkað til samræmis við ákvæði samningsins. Einnig er lagt til að Landhelgisgæslunni verði heimilað að krefja fánaríki skips um að staðfesta að afli um borð í skipi hafi ekki verið veiddur í bága við tiltekin ákvæði.
    Nefndinni hafa borist umsagnir um frumvarpið frá Hafnasambandi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi smábátaeigenda og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Nefndinni bárust nokkrar athugasemdir við frumvarpið sem hún hyggst kanna frekar í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Nefndin gerir ekki athugasemdir við að samningurinn verði fullgiltur.
    Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. mars 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, 2. varaform.
Haraldur Benediktsson.
Björt Ólafsdóttir.
Páll Jóhann Pálsson.
Þorsteinn Sæmundsson.
Þórunn Egilsdóttir.