Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1228  —  321. mál.
Viðbót.

Síðari umræða.


Fram­haldsnefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn bendir á að meiri hlutinn hefur lagt til nokkrar breytingar á frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum (305. máli) fyrir 3. umræðu en það hefur verið til umfjöllunar í nefndinni samhliða þessu máli. Hins vegar hyggst meiri hlutinn ekki leggja til frekari breytingar á tillögu þessari og telur minni hlutinn það miður.
    Minni hlutinn leggur til nokkrar breytingar á tillögunni, m.a. að meginreglan verði að metið verði í hvert sinn hvort nota eigi loftlínu eða jarðstreng í meginflutningskerfi raforku. Ekki verði því getið um ákveðna meginreglu eins og gert er ráð fyrir í tillögunni. Þá leggur minni hlutinn til breytingar á upptalningu náttúruverndarsvæða með það að markmiði að auka möguleika á að jarðstrengur verði fyrir valinu við uppbyggingu flutningskerfis raforku. Breytingarnar varða annars vegar það hvernig svæði eru skilgreind og hins vegar að einnig verði kveðið á um að horfa skuli til jaðarsvæða um­hverfis þjóðgarða og friðlýst svæði. Með þessu yrði verndargildi náttúruverndarsvæða í heild aukið og dregið úr þeirri sjónmengun sem loftlínur valda. Tillaga minni hlutans felur í sér að í stað þess að vísa til 53. gr. náttúruverndarlaga og til þjóðgarða og friðlanda verði vísað til 50. gr. náttúruverndarlaga en undir hana falla þjóðgarðar, friðlönd, náttúruvætti á landi, friðlýstar lífverur, búsvæði o.fl. og fólkvangar.
    Jafnframt gerir minni hlutinn tillögu um að við samanburð á kostnaði verði miðað við þrefalt hlutfall í stað hlutfallsins 1,5 í tillögunni, en meiri hlutinn hefur lagt til að hlutfallið verði tvöfalt. Einnig er lagt til að í sérstökum tilvikum geti hámarkskostnaðarhlutfall orðið hærra.
    Þá leggur minni hlutinn til að hnykkt verði á því að tekið verði mið af nýjum náttúruverndarlögum sem eiga að öðlast gildi 1. júlí nk.
    Minni hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


1.      Í stað tölunnar „1,5“ í kafla 1.2 og 2. mgr. kafla 1.3 komi: þrisvar.
2.      Við kafla 1.3.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                      Í meginflutningskerfi raforku skal metið í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota loftlínu eða jarðstreng á viðkomandi línuleið, eða afmörkuðum köflum hennar, og skulu eftirfarandi viðmið réttlæta dýrari kost:
                      1.      Ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis, sbr. skilgreiningu á þéttbýli í 2. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010.
                      2.      Ef línuleið er innan svæða þar sem eru friðlýstar náttúruminjar skv. 50. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd
                      3.      Ef línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi.
                  b.      Á eftir 2. málsl. 2. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Í sérstökum tilvikum er unnt að víkja frá hámarkskostnaðarhlutfalli.
                  c.      Lokamálsliður 2. mgr. falli brott.
                  d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við val á línuleið skal taka sérstaklega tillit til jaðarsvæða friðlýstra svæða, sbr. 2. tölul. 1. mgr þessa kafla.
3.      Við bætist nýr kafli, Endurskoðun stefnunnar, svohljóðandi:
         Alþingi ályktar að horft verði til endurskoðunar á náttúruverndarlögum og stefna þessi yfirfarin þegar henni verður lokið. Þannig muni skilgreiningar nýrra laga hafa áhrif á stefnuna, svo sem hvað varðar náttúruverndarsvæði og óbyggð víðerni.
    

Alþingi, 21. apríl 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.