Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1248  —  244. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun
um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141.


Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.



    Markmið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, er m.a. að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta.
    Annar minni hluti telur mikilvægt að farið sé að ákvæðum laganna svo tryggt sé að undir­búningur að verndar- og orkunýtingaráætlun sé faglegur og gegnsær og að tryggður sé réttur almennings til að koma sjónarmiðum sínum að eins og lögin gera ráð fyrir. Í þeim er mælt fyrir um ákveðinn feril sem 2. minni hluti ítrekar að brýnt sé að fylgja til að tryggja samfellu í því hvernig ákvarðanir eru teknar um tilteknar virkjunarframkvæmdir.
    Í einróma nefndaráliti iðnaðarnefndar þegar frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna fallvatna og háhitasvæða var til umfjöllunar á 139. löggjafarþingi var vísað til þess að markmið laganna væri m.a. að stuðla að vandaðri og markvissri stefnumörkun og sátt um hvaða svæði væri hugsanlega hægt að nýta til orkuvinnslu og hvaða svæði ætti að vernda gagnvart slíkum framkvæmdum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
    Ljóst er að málsmeðferð meiri hluta atvinnuveganefndar er eins langt frá því að stuðla að sátt um hvaða svæði skuli nýta og vernda og hugsast getur. Meiri hlutinn hefur nú lagt fram breytingartillögu sem felur í sér að fjórir nýir virkjunarkostir færist í nýtingarflokk, þar af einn sem hefur ekki undirgengist faglega meðferð verkefnisstjórnar.
    Í fréttum sjónvarps að kvöldi 22. janúar sl. kom fram hjá Sigrúnu Magnúsdóttur um­hverfis- og auðlindaráðherra að hin eðlilega málsmeðferð væri að verkefnisstjórn um rammaáætlun fengi virkjunarkostina til umfjöllunar og mikilvægt væri að hafa marga kosti undir því að þá væri betra að flokka þá í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk.
    Annar minni hluti leggur til að málinu verði vísað til um­hverfis- og auðlindaráðherra sem feli verkefnisstjórn skv. 8. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun að fjalla um þann kost sem tillagan felur í sér og flokki hann ásamt þeim virkjunarkostum sem Orkustofnun hefur sent verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar, sbr. tilkynningu þar að lútandi frá 20. janúar 2015. Með því er fyrirmælum laganna fylgt nákvæmlega en í þeim er ekki gert ráð fyrir að kostir séu teknir út og settir í sérstaka flýtimeðferð eins og gert var með Hvammsvirkjun sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að færa einhliða í nýtingarflokk.
    Annar minni hluti bendir að lokum á að fram kom hjá mörgum umsagnaraðilum og gestum nefndarinnar að yrði breytingartillaga meiri hlutans afgreidd væri ferli rammaáætlunar haft að engu. Einnig var lýst stuðningi við frávísunartillögu 2. minni hluta. 2. minni hluti telur brýnt að unnið verði samkvæmt ferli laganna, tryggt verði fjármagn til að skipa faghópa og að Um­hverfisstofnun fái nægt fjármagn til að undirbúa friðlýsingu svæða í verndarflokki.

Alþingi, 21. apríl 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
frsm.
Björt Ólafsdóttir.