Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1449  —  480. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins
að senda fyrirspurnir til ráðherra.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Ingu Dóru Markussen, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, og Elínu Flygenring frá utanríkisráðuneyti. Þá hefur nefndinni borist minnisblað frá lagaskrifstofu Alþingis (sjá fylgiskjal).
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta vestnorræna samvinnu. Fyrirspurnir verði sendar á skrifstofu Vestnorræna ráðsins sem sendi þær áfram til viðeigandi ráðherra. Ráðherrann svari fyrirspurn fulltrúa í síðasta lagi átta vikum eftir að hafa fengið hana í hendur.
    Fram kemur í greinargerð með tillögunni að hún byggist á ályktun nr. 1/2014 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 3. september 2014 í Vestmannaeyjum en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands. Með tillögunni vill Vestnorræna ráðið efla samstarfið milli vestnorrænu landanna með því að veita kjörnum fulltrúum ráðsins möguleika á að leggja fram fyrirspurnir til stjórna landanna þriggja og gefa fulltrúunum þar með betri möguleika á að fylgjast með eða beina athygli að þeirri vinnu stjórnanna sem snýr að vestnorrænum málefnum eða samstarfi. Vísað er til þess að á vettvangi Norðurlandaráðs geta kjörnir fulltrúar ráðsins lagt fram fyrirspurnir til ríkisstjórna aðildarlandanna skv. 57. gr. Helsingforssamningsins og að eðlilegt sé að fulltrúar í Vestnorræna ráðinu hafi sama rétt gagnvart stjórnvöldum í vestnorrænu löndunum.
    Nefndin telur eðlilegt og æskilegt að fulltrúum Vestnorræna ráðsins gefist kostur á að senda fyrirspurnir til stjórnvalda vestnorrænu landanna. Ekki er starfandi vestnorræn ráðherranefnd eins og norræna ráðherranefndin, en engu síður væri æskilegt að formbinda fyrirkomulag þeirra fyrirspurna sem lagðar eru til í tillögunni. Í minnisblaði lagaskrifstofu Alþingis kemur fram að slíkt verði ekki gert með breytingu á stofnsamningi Vestnorræna ráðsins enda sé hann samstarfssamningur þriggja þjóðþinga um þingmannasamstarf en ekki þjóðréttarsamningur eins og Helsingforssamningurinn. Grunnur samvinnu Vestnorræna ráðsins og stjórnvalda á Vestur-Norðurlöndum er samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, landsstjórnar Færeyja, landsstjórnar Grænlands og Vestnorræna ráðsins frá 15. apríl 2002. Ef til vill væri rétt að leggja til endurskoðun á samstarfsyfirlýsingunni þar sem settur yrði grundvöllur fyrir fulltrúa Vestnorræna ráðsins til þess að senda fyrirspurnir til ráðherra aðildarríkjanna í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta vestnorræna samvinnu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 15. júní 2015.

Birgir Ármannsson,
form.
Óttarr Proppé,
frsm.
Anna María Elíasdóttir.
Elín Hirst. Frosti Sigurjónsson. Katrín Jakobsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason. Össur Skarphéðinsson.




Fylgiskjal.


Lagaskrifstofa:


Minnisblað um tillögu til þingsályktunar um að heimila fulltrúum
Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra.

(4. júní 2015.)


    Á fundi Vestnorræna ráðsins í Vestmannaeyjum, 2.–4. september 2014, samþykkti ráðið ályktun (nr. 1/2014) um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra aðildarríkjanna í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta norræna samvinnu.
    Fyrir liggur að Lögþing Færeyinga hefur samþykkt þingsályktun þess efnis að skora á ríkisstjórn að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta vestnorræna samvinnu. Jafnframt liggur fyrir að Landsþing Grænlendinga mun einnig samþykkja sambærilega þingsályktun.
    Fyrir Alþingi, 144. löggjafarþingi, liggur tillaga til þingsályktunar á þingskjali 829 um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra.
     Sú spurning hefur risið hvort réttara sé að mæla fyrir um fyrirspurnarheimildina í stofnsamningi fyrir Vestnorræna ráðið. Til samanburðar hefur verið bent á rétt kjörinna fulltrúa á þingi Norðurlandaráðs að beina fyrirspurnum til ríkisstjórna eða ráðherranefndarinnar vegna skýrslu eða greinargerðar sem send hefur verið ráðinu eða um önnur mál sem varða norræna samvinnu, sbr. 57. gr. Helsingforssamningsins. Grundvallarmunur er hins vegar á þessum tveimur samningum. Helsingforssamningurinn hefur stöðu þjóðréttarsamnings, sbr. ályktun Alþingis frá 7. október 1993, en Stofnsamningur fyrir Vestnorræna ráðið er á hinn bóginn milli þjóðþinga Íslands, Grænlands og Færeyja og bindur þau ein­göngu.
    Í ljósi samþykktar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2014, og að Lögþing Færeyinga hefur samþykkt slíka tillögu, og fyrir liggur að Landsþing Grænlendinga mun einnig samþykkja sambærilega tillögu getur Alþingi á grundvelli aðildar sinnar að samkomulaginu og 89. gr. þingskapa einnig samþykkt fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar. Slík ályktun hefði hins vegar ekki sömu réttarverkan og heimildin í 57. gr. Helsingforssamningsins og væri ekki bindandi með sama hætti fyrir ríkisstjórnir landanna.
    Þegar litið er til inngangsorða stofnsamnings fyrir Vestnorræna ráðið, I. kafla samningsins og samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórna Íslands, landsstjórnar Færeyja, landsstjórnar Grænlands og Vestnorræna ráðsins frá 15. apríl 2002 væri rétt að leggja til endurskoðun á samstarfsyfirlýsingunni þar sem settur verði grundvöllur fyrir fulltrúa Vestnorræna ráðsins til þess að senda fyrirspurnir til ráðherra aðildarríkjanna í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta norræna samvinnu.