Ferill 749. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1464  —  749. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni
um skerðingu á bótum almannatrygginga.


     1.      Hversu oft hafa bætur skv. 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr. sömu laga, verið skertar frá því að lögin tóku gildi?
    Í 69. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um það með hvaða hætti bætur almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/ 2007, skuli breytast. Ákvæðinu var breytt með lögum nr. 130/1997, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að eðlilegt hafi þótt að fjárhæð bótanna væri ákveðin í fjárlögum enda byggðist viðmið bótanna á sömu forsendum og fjárlög um almenna þróun launa og verðlags á árinu.
    Fjárhæðir bóta almannatrygginga hafa ekki verið skertar frá því að lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, tóku gildi. Þær hafa verið hækkaðar frá gildistöku laganna en þó mismunandi mikið, líkt og fram kemur hér á eftir.
    Í janúar 2009 hækkuðu bætur almannatrygginga um 9,6% en viðmið vegna framfærsluuppbótar lífeyrisþega hækkaði um 20%. Hinn 1. júlí sama ár voru áhrif tekna á bætur almannatrygginga aukin, frítekjumörk lækkuð og lífeyrissjóðsgreiðslur tóku að hafa áhrif á svokallaðan grunnlífeyri.
    Í fjárlögum fyrir árið 2010 var ákveðið að víkja tímabundið til hliðar ákvæðum 69. gr. laga um almannatryggingar um breytingar á grunnfjárhæðum greiðslna almannatrygginga með lögum nr. 120/2009. Var viðmiðunarfjárhæðum haldið óbreyttum með þeirri undantekningu að viðmið vegna framfærsluuppbótar lífeyrisþega var hækkað um 2,3%.
    Í fjárlögum fyrir árið 2011 var gengið út frá því að engar verðbætur kæmu á viðmiðunarfjárhæðir almannatrygginga, sbr. lög nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í kjölfar kjarasamninga aðila á almennum vinnumarkaði í maí 2011 voru fjárhæðir greiðslna almannatrygginga hækkaðar um 8,1% frá 1. júní 2011 og viðmið vegna framfærsluuppbótar var hækkað um 12.000 kr. Enn fremur fengu allir lífeyrisþegar 50.000 kr. eingreiðslu sem og álag á orlofs- og desemberuppbætur.
    Hinn 1. janúar 2012 hækkuðu greiðslur almannatrygginga um 3,5% í samræmi við forsendur fjárlaga.
    Í ársbyrjun 2013 hækkuðu greiðslur almannatrygginga um 3,9%. Hinn 1. júlí 2013 voru dregnar til baka þær auknu tekjutengingar sem teknar voru upp á árinu 2009. Þá hækkaði frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar úr 480.000 kr. í 1.315.200 kr. á ári, auk þess sem hætt var að láta lífeyrissjóðstekjur hafa áhrif á útreikning grunnlífeyris elli- og örorkulífeyrisþega. Þessar breytingar leiddu til hækkunar á greiðslum til um 7.000 lífeyrisþega og var útgjaldaauki ríkissjóðs vegna þeirra um 870 millj. kr. það ár.
    Í byrjun ársins 2014 hækkuðu bætur um 3,6% og áhrif tekna á tekjutryggingu elli- og örorkulífeyrisþega voru lækkuð úr 45% í 38,5%. Útgjöld ríkisins til almannatrygginga, þ.e. lífeyristrygginga og félagslegrar aðstoðar, voru 83.778 millj. kr. það ár. Þar af var útgjaldaauki 1.731 millj. kr. vegna breytinganna sem áttu sér stað á miðju ári 2013 og 2.517 millj. kr. vegna þess að bráðabirgðaákvæði um skerðingarhlutfall tekjutryggingar féll niður í ársbyrjun 2014.
    Í ársbyrjun 2015 hækkuðu bætur almannatrygginga um 3,0%. Áætluð útgjöld ríkissjóðs til lífeyristrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2015 eru 88.679 millj. kr.

     2.      Hvað má gera ráð fyrir að ríkissjóður hafi sparað háar fjárhæðir vegna skerðinganna? Árlegur sparnaður og heildarsparnaður óskast settur fram miðað við launaþróun annars vegar og verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs hins vegar frá því að lögin tóku gildi.
    Forsenda þess að unnt sé að meta hver hugsanleg útgjöld ríkissjóðs hefðu orðið ef ekki hefði verið gripið til aðhaldsaðgerða á sviði almannatrygginga á framangreindu tímabili er að miða við að almannatryggingakerfið hefði engum breytingum tekið á tímabilinu og engar breytingar hefðu orðið á lífeyrisþegahópnum vegna samspils lífeyrisgreiðslna, tekna og ákvæða um útreikning lífeyris til hvers og eins lífeyrisþega.
    Almannatryggingakerfið er þess eðlis að vera í stöðugri þróun. Á tímabilinu hafa orðið miklar breytingar á tekjum og samsetningu tekna lífeyrisþeganna sjálfra og gætir áhrifa þessara breytinga í útgjöldum bóta almannatrygginga, auk þess sem lýðfræðileg fjölgun á sér stað sem hefur áhrif til útgjaldaauka. Því er útilokað að meta með áreiðanlegum hætti hver útgjöld ríkissjóðs hefðu orðið ef ekki hefði verið gripið til framangreindra ráðstafana í kjölfar efnahagshrunsins.
    Með framangreindum fyrirvörum um mismunandi forsendur eru hér á eftir bornar saman greiðslur í janúar 2008 og janúar 2015 frá Tryggingastofnun ríkisins vegna framfærslutengdra bótaflokka. 1 Í janúar 2008 voru greiðslurnar 3.611 millj. kr. Samsvarandi fjárhæð í janúar 2015 var 6.475 millj. kr. Útgjöld í janúar 2015 eru því 2.864 millj. kr. hærri en þau voru í janúar 2008. Í töflunni hér á eftir eru útgjöld janúarmánaðar ársins 2008 uppreiknuð, annars vegar miðað við launavísitölu (LVT) og hins vegar miðað við neysluverðsvísitölu (NVT). Framreikningurinn sýnir að greiðslur árið 2015 eru hærri en sem nemur breytingum á neysluverðs- og launavísitölu og eru þær fjárhæðir á bilinu 1.120 millj. kr. til 1.152 millj. kr. Þessi mismunur stafar m.a. af fjölgun bótaþega á tímabilinu og af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á almannatryggingakerfinu á tímabilinu.

Breytingar á fjárhæðum bóta milli janúar 2008 og janúar 2015 (millj. kr.).

Bætur framfærslutengdra bótaflokka janúar 2008 janúar 2015 Breyting
Rauntölur 3.611 6.475 2.864
Uppreiknað miðað við launavísitölu 5.355 6.475 1.120
Uppreiknað miðað við neysluverðsvísitölu 5.323 6.475 1.152
    
     3.      Hvað má gera ráð fyrir að margir lífeyrisþegar hafi sætt skerðingu árlega samkvæmt skerðingarákvæðunum?
    Almennt hafa ákvarðanir um breytingar á fjárhæðum bótagreiðslna áhrif á flesta lífeyrisþega í landinu sem njóta greiðslna frá almannatryggingum. Hið sama gildir um ákvarðanir varðandi frítekjumörk og hlutfall þeirra tekna sem hafa áhrif á útreikning greiðslna.

     4.      Hver er að mati ráðherra mismunur á ráðstöfunartekjum helstu hópa þeirra sem þiggja bætur samkvæmt framangreindu og áætluðum framfærslukostnaði viðkomandi hópa samkvæmt neysluviðmiðum Hagstofu Íslands?
    Á tímabilinu 2008 til 2015 hækkaði miðgildi ráðstöfunartekna hjá öryrkjum hlutfallslega um 32% eða úr 166.097 kr. í 218.617 kr. samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins. Miðgildi ráðstöfunartekna hjá ellilífeyrisþegum hækkaði á sama tíma um 21%, úr 182.154 kr. í 220.288 kr. Grunnneysluviðmið velferðarráðuneytisins árið 2015, fyrir einn fullorðinn á höfuð­borgar­svæðinu, er 102.665 kr. á mánuði án húsnæðiskostnaðar. Miðgildi tekna hjá öryrkjum er því 113% yfir grunnneysluviðmiði velferðarráðuneytisins og miðgildi tekna hjá ellilífeyrisþegum 115% yfir sama viðmiði. Líkt og endranær er erfitt að áætla húsnæðiskostnað hvers og eins þar sem hann er mjög mismunandi eftir stærð húsnæðis og staðsetningu þess.

     5.      Hvað telur ráðherra að lífeyrisþegar, annars vegar einstaklingar og hins vegar hjón eða sambúðaraðilar, þurfi árlega í bætur til að þeim sé kleift að framfleyta sér og lifa sjálfstæðu lífi, sbr. markmið frumvarps til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning sem lagt var fram á 142. löggjafarþingi árið 2013 (7. mál)?

    Greiðslur almannatrygginga eru mismunandi og fara eftir stöðu og tekjum hvers og eins enda er það meginhlutverk almannatrygginga að veita þeim stuðning sem á þurfa að halda og lögin taka til. Benda má á að þeim lífeyrisþegum sem hafa litlar eða engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga eru tryggðar ákveðnar lágmarksgreiðslur sem ákveðnar eru út frá framfærsluviðmiðum almannatrygginga. Þetta framfærsluviðmið lífeyrisþega hefur hækkað mikið frá árinu 2006 til 2015 eins og sjá má af töflunni hér á eftir. Bætur ellilífeyrisþega sem búa einir hækkuðu um tæp 94% á tímabilinu á meðan bætur ellilífeyrisþega sem búa með öðrum hækkuðu um tæp 109%. Bætur öryrkja hafa hækkað minna frá árinu 2006, en bætur örorkulífeyrisþega sem búa einir hafa hækkað um tæp 60% á meðan bætur örorkulífeyrisþega sem búa með öðrum hafa hækkað um 65%. Frá árinu 2006 til 2015 hækkaði vísitala neysluverðs um 64,3% og vísitala launa um 65,2%.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fjárhæðirnar í framangreindri töflu miðast við einstaklinga sem fá fullar bætur frá almannatryggingum þar sem þeir hafa engar aðrar tekjur. Annars vegar er um að ræða einstaklinga sem búa einir og hins vegar einstaklinga sem búa með öðrum. Þannig er þeim sem búa einir tryggðar 225.070 kr. á mánuði, að meðtöldum bótum almannatrygginga, en þeim sem búa með öðrum eru tryggðar 193.962 kr. á mánuði. Innan við 1% þeirra sem fá framfærsluuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð fá fullar greiðslur sem eru 185.972 kr. á mánuði þegar tekið hefur verið tillit til skatta. Ástæðan er sú að langflestir umræddra einstaklinga hafa auk bóta frá almannatryggingum aðrar tekjur og/eða ýmsar félagslegar greiðslur sem hækka ráðstöfunartekjur þeirra talsvert.
Neðanmálsgrein: 1
1     Ellilífeyrir, örorkulífeyrir, örorkustyrkur, tekjutrygging, aldurstengd örorkuuppbót, heimilisuppbót, barnalífeyrir, uppbót vegna kostnaðar og uppbót vegna framfærslu.