Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1560  —  101. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.


Frá meiri hluta um­hverfis- og sam­göngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Bjarnason frá Reykjavíkurborg, Jónas Snæbjörnsson frá Vegagerðinni og Hrafnkel Proppé frá Samtökum sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Reykjavíkurborg, Samtökum ­sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu, Vegagerðinni og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Þingsályktunartillagan er tvíþætt. Annars vegar er lagt til að innanríkisráðherra, í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög, láti kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur, og hins vegar hagkvæmni léttlestakerfis innan höfuð­borgar­svæðisins. Þá verði kannaðir kostir og gallar þessa sam­göngumáta og hugsanlegar leiðir til að koma honum á. Sjónum verði einkum beint að kostnaði og ávinningi samfélagsins og efnahagslegum, um­hverfislegum og skipulagslegum áhrifum. Niðurstöður athugunarinnar liggi fyrir um mitt ár 2015.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að á síðustu missirum hafi staðið yfir vinna við gerð nýs svæðisskipulags fyrir höfuð­borgar­svæðið en að þeirri vinnu koma öll sveitarfélögin á höfuð­borgar­svæðinu. Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir lestum sem þessum í skipulagi höfuð­borgar­svæðisins jafnvel þó að lest til Keflavíkurflugvallar kunni að verða að stórum hluta neðan jarðar. Sú lest þyrfti að tengjast léttlestakerfi borgarinnar á hentugum stað. Í svæðisskipulaginu er svokölluð Borgarlína sem er nýtt afkastamikið almennings­sam­göngukerfi sem ætlað er að verða hryggjarstykkið í þróun samgangna og uppbyggingu byggðar á höfuð­borgar­svæðinu. Ljóst er að skipulagsmál höfuð­borgar­svæðisins á næstu áratugum þurfa að taka mið af því að íbúum borgarinnar mun fjölga mjög samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar og verða nálægt 300 þúsund eftir um 25 ár. Höfuðborgarsvæðið mun ekki bera þann aukna fjölda ef ekki verða breytingar á ferðavenjum borgarbúa. Þó svo byggt verði mikið af nýjum umferðarmannvirkjum mun áfram­haldandi notkun einkabíls og samsvarandi ferðavenjur og nú tíðkast leiða til þess að umferðartafir munu margfaldast. Nauðsynlegt er því að breyta ferðavenjum borgarbúa og auka hlutdeild almennings­samgangna en slík aukning mun einnig gagnast þeim sem áfram kjósa að nota einkabíl í svipuðum mæli og nú er. Þá þarf einnig að horfa til skipulags byggðarinnar þannig að hún rúmi almennings­sam­göngur og að þær verði enn fýsilegri kostur en í dag.
    Ljóst er að uppbygging lestakerfis innan höfuð­borgar­svæðisins er langtímaverkefni enda afar dýr framkvæmd. Slíkt kerfi mundi verða byggt upp í skrefum en ekki allt í einu. Því er mikilvægt að hefjast handa við könnun þá sem tillagan felur í sér sem fyrst. Fyrir nefndinni kom fram að nýlega hafi verið skrifað undir samkomulag milli Samtaka sveitarfélaga á höfuð­borgar­svæðinu og Vegagerðarinnar um samstarf um þróun sam­göngukerfa á höfuð­borgar­svæðinu. Snýr samkomulagið m.a. að þróun almennings­samgangna og sjálfbærri sam­gönguáætlun á höfuð­borgar­svæðinu og getur tillagan skotið styrkum stoðum undir þá vinnu.
    Meiri hlutinn leggur því til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað ártalsins „2015“ komi: 2016.

Alþingi, 30. júní 2015.

Svandís Svavarsdóttir,
frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Róbert Marshall.