Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1561  —  101. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nýlega var samþykkt nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið af öllum sveitarfélög­unum á höfuðborgarsvæðinu. Um metnaðarfulla áætlun er að ræða og fagnaðarefni að öll sveitarfélögin skuli sammælast um framtíðarsýn í skipulagsmálum. Í svæðisskipulaginu er gert ráð fyrir lestakerfinu sem hér er fjallað um og lagt til að það verði kannað nánar. Að mati minni hlutans er rétt að sveitarfélögin hefji könnun sjálf á sínum eigin forsendum áður en ríkissjóður leggur út í kostnað vegna verkefnisins.
    Um er að ræða fyrirkomulag samgöngumála innan sveitarfélaganna og framtíðarsýn þeirra í þeim efnum sem rétt er að sveitarfélögin sjálf veiti forustu um að rannsaka. Á það sérstak­lega við um jafn dýra framkvæmd og hér um ræðir. Má í því sambandi nefna að fyrir nefnd­inni kom fram að hluti hraðlestakerfisins kunni að verða neðan jarðar þegar lestin kemur inn í byggðina syðst í Hafnarfirði og þar til hún kemur að tengistöð við léttlestakerfið og mundi sú tenging væntanlega vera miðsvæðis í Reykjavík.
    Með hliðsjón af því sem að framan greinir telur minni hlutinn ekki tilefni til þess að taka efnislega afstöðu til málsins á þessu stigi.

Alþingi, 30. júní 2015.

Birgir Ármannsson,
frsm.
Haraldur Einarsson. Vilhjálmur Árnason.