Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1562  —  166. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun.

Frá um­hverfis- og sam­göngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Helga Lárusson frá Endurvinnslunni og Elvu Rakel Jónsdóttur og Gunnlaugu Einarsdóttur frá Um­hverfisstofnun. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Endurvinnslunni, Fljótsdalshéraði, Landvernd, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, um­hverfishópi Stykkishólms og Um­hverfisstofnun.
    Með tillögunni er lagt til að um­hverfis- og auðlindaráðherra verði falið að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi og að við val á leiðum verði litið til annarra ríkja í Evrópu þar sem markvisst hefur verið dregið úr plastpokanotkun. Notkun á plasti og plastefnum er gríðarlega mikil í nútímasamfélagi þar sem plast er notað í mörgum vörum, sem umbúðir utan um vörur og þá fer gríðarlegt magn af plasti í gerð plastpoka. Plast og plastefni hafa skaðleg áhrif á um­hverfið sem rétt er að draga úr og reyna að finna til þess hagkvæmar leiðir. Mikilvægt er þó einnig að horfa ekki á einn þátt í tómarúmi heldur á heildarum­hverfisáhrif vara, þ.e. allt frá því að vara er framleidd og þar til henni er fargað. Leita þarf leiða til að tryggja að um­hverfisáhrifin haldist í lágmarki allan lífsferil vörunnar. Þá þarf einnig að horfa til þess að plastpokar eru mismunandi á þykkt og þar með þyngd en það ræður miklu um þau um­hverfisáhrif sem koma til af flutningi. Ending plastpoka er hins vegar mjög góð og það er sú ending sem veldur mestu um um­hverfisáhrif þeirra en þeir brotna afar hægt niður í um­hverfinu. Því kann að vera mun um­hverfisvænna að nota annars konar poka og þá sérstaklega taupoka eða poka gerða úr öðrum efnum en plasti og nota þá oftar en einu sinni, en einn helsti ókostur við notkun plastpoka er hversu sjaldan þeir eru notaðir miðað við endingu þeirra.
    Fyrir nefndinni kom fram að Um­hverfisstofnun hefði haft frumkvæði að verkefni sem fellur vel að efni þessarar tillögu um að draga úr plastpokanotkun. Verkefnið var fólgið í að greina stöðuna hér á landi og draga saman helstu aðgerðir annarra ríkja og setja fram tillögur um aðgerðir. Gerð var verkefnaáætlun sem auðvelt væri að vinna eftir og áhersla var lögð á að hugsanlegar aðgerðir yrðu unnar í samvinnu við hagsmunaaðila og að um þær mundi ríkja sátt og að góð kynning yrði á verkefninu. Að mati nefndarinnar fer efni þessa verkefnis vel saman við þingsályktunartillöguna og telur nefndin að vinna eigi eitt heildstætt verkefni á grundvelli hennar í samvinnu við Um­hverfisstofnun. Þá voru nefndinni kynntar tillögur til breytinga á umbúðatilskipun Evrópusambandsins sem nú er til umræðu í Evrópuþinginu. Ljóst er því að mikil umræða er í Evrópu og víðar um að draga úr notkun plastpoka og tekur nefndin undir með Um­hverfisstofnun um að nú sé rétti tíminn fyrir stefnumótun og aðgerðir af hálfu ríkisins sem miða að því að draga stórlega úr notkun plastpoka, um­hverfinu og samfélaginu öllu til góða.
    Þar sem tillagan felur í sér að aðgerðaáætlun skyldi birt 1. mars 2015 leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað „1. mars 2015“ komi: 1. nóvember 2015.

    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. júní 2015.

Höskuldur Þórhallsson,
form.
Katrín Júlíusdóttir
frsm.
Haraldur Einarsson.
Birgir Ármannsson. Elín Hirst. Róbert Marshall.
Svandís Svavarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.