Ferill 17. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 17  —  17. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um lýðháskóla.

Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Björt Ólafsdóttir, Páll Valur Björnsson,
Óttarr Proppé, Róbert Marshall, Guðmundur Steingrímsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Markmið löggjafarinnar verði að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntun sem njóti lagalegrar umgjarðar og stuðnings hins opinbera. Við vinnuna verði horft til þess fyrirkomulags sem gildir um starfsemi lýðháskóla annars staðar á Norðurlöndum. Ráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en á vorþingi 2016.

Greinargerð.

    Tillaga þessi til þingsályktunar var áður lögð fram á 144. löggjafarþingi (502. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt óbreytt.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að hefja vinnu við gerð almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Markmið löggjafarinnar verði að gera rekstrarumhverfi lýðháskóla sambærilegt því sem er annars staðar á Norðurlöndum. Lýðháskólar á Íslandi bjóði upp á fjölbreytta menntun og fræðslu sem almenningur eigi kost á að sækja að uppfylltum almennum skilyrðum, svo sem um aldur o.fl. Með löggjöfinni verði sköpuð fagleg umgjörð utan um rekstur lýðháskóla og reglur um fjárhagsgrundvöll þeirra. Þá er lagt til að ráðherra leggi fram á vorþingi 2016 frumvarp byggt á vinnunni.
    Lýðháskólar á Norðurlöndum eiga sér rúmlega hundrað ára sögu sem rekja má aftur til Danans N. F. S. Grundtvig sem á 19. öld setti fram hugmynd að annars konar námi og menntun en því stífa bóklega námi sem þá var í boði. Hugmyndafræðin gengur m.a. út á að búa nemendur undir lífið með því að vekja áhuga þeirra og víkka sjóndeildarhringinn. Áherslan er á hið talaða orð, umræður og rökræður og er áhersla lögð á þátttöku nemandans á öllum sviðum. Á þessum grunni hefur annars staðar á Norðurlöndum orðið til fjöldi lýðháskóla og eru þeir nú nokkur hundruð og afar mismunandi með tilliti til námsframboðs. Skólarnir eiga það flestir sameiginlegt að vera nokkurs konar heimavistarskólar þar sem nemendur búa saman á heimavist á meðan þeir stunda nám. Alla jafna eru nemendur 18 ára eða eldri og stunda nám við skólana í 4–12 mánuði í senn en þó taka sumir skólar við yngri nemendum.
    Í skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytisins „Allir stundi nám og vinnu við sitt hæfi“, sem birt var 2012, segir orðrétt: „Auka þarf fjölbreytni kennsluaðferða og nútímavæða framsetningu námsefnis í grunn- og framhaldsskóla til að mæta ólíkum þörfum og væntingum nemenda og glæða og viðhalda áhuga þeirra. Mikilvægt er að örva nemendur í verkefnabundnu og lausnamiðuðu námi og ýta undir frumkvæði, gagnrýna hugsun og skapandi starf nemenda. Nýta þarf nýja miðla sem nemendur nota utan skóla til að glæða áhuga þeirra á náminu og auka fjölþætt verkefnaskil t.d. á formi margmiðlunar.“ Hér er m.a. lýst áherslum í starfi lýðháskóla. Þeir auka fjölbreytni í menntakerfinu og geta mætt þörfum nemenda með öðrum hætti en hefbundnir skólar. Mikilvægi lýðháskóla í menntaflórunni er því óumdeilt. Þess má geta að Alþingi samþykkti 21. maí 2007 ályktun sem flutt var af fulltrúum í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins þar sem skorað var á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að beita sér fyrir því að stofnaðir yrðu norrænir lýðháskólar í þessum löndum.
    Með tillögu þessari er lagt til að hafinn verði undirbúningur að gerð almennrar löggjafar um starfsemi lýðháskóla og hvaða skilyrði og kröfur þeir þurfa að uppfylla til að fá starfsleyfi. Slík löggjöf þarf að þjóna sem grundvöllur fyrir starfsemi skólanna bæði hvað varðar það nám sem er í boði og rekstrargrundvöll þeirra. Í löggjöfinni þurfa m.a. að vera ákvæði um hvaða skilyrði skólar þurfa að uppfylla til að fá starfsleyfi sem lýðháskólar, hvaða skilyrði og kröfur verða gerðar til nemenda og kennara, hvernig eftirliti er háttað, hvernig mögulegar kæruleiðir eru og hvaða skilyrði skólarnir þurfa að uppfylla til að fá stuðning til rekstursins frá ríkinu. Mikilvægt er í þessu sambandi að líta til annarra Norðurlanda eftir fyrirmynd að löggjöf um lýðháskóla en þar gilda almenn lög þar sem vikið er að fyrrnefndum atriðum. Lýðháskólarnir eru mjög mismunandi m.a. eftir því hvaða aðilar standa að rekstri þeirra en ýmist eru skólarnir sjálfseignarstofnanir, reknir af félagasamtökum, sveitarfélögum eða öðrum til þess hæfum aðilum. Þannig getur áherslan verið mismunandi, þ.e. allt frá listum og menningu til íþrótta, lýðfræði, trúarlegrar fræðslu, umhverfisverndar og -vitundar o.s.frv. Fjölbreytni er styrkur lýðháskólanna og þar gefst ungmennum kostur á fjölbreyttu námi með aðrar áherslur og önnur markmið en í hefðbundnum bók- eða verknámsskólum. Um nánast hreina viðbót yrði að ræða við íslenska skólaflóru en hér á landi er nú starfræktur einn skóli á grundvelli hugmyndafræði lýðháskólanna, LungA á Seyðisfirði. Góð reynsla er af starfsemi skólans en hins vegar er ljóst að tryggja þarf betur grundvöll rekstursins ef hann á að geta haldið áfram á sömu braut. Með tillögu þessari vonast flutningsmenn til að svo megi verða og að möguleikar opnist á stofnun fleiri lýðháskóla með fjölbreytta starfsemi.