Ferill 32. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 32  —  32. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun laga um lögheimili.


Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson,
Karl Garðarsson, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að setja á fót starfshóp sem undirbúi endurskoðun laga um lögheimili, nr. 21/1990, með það að markmiði að hjónum verði gert fært að eiga lögheimili hvort á sínum staðnum, hvort heldur er þegar bæði hafa bækistöð innan lands eða þegar annað hefur bækistöð erlendis. Einnig verði lagðar til breytingar á öðrum lögum sem þarf að breyta til að markmiðinu verði náð. Ráðherra leggi fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um lögheimili, byggt á tillögum starfshópsins, eigi síðar en 30. mars 2016.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 144. löggjafarþingi (33. mál).
    Gildandi lög um lögheimili tóku gildi 1. janúar 1991. Frumvarp til þeirra var samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði í maí 1985 að ósk Hagstofu Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem talin var þörf á að endurskoða þágildandi lög um lögheimili sem höfðu verið í gildi allt frá árinu 1960. Helstu ástæður þess að ráðist var í endurskoðunina voru að breyttar þjóðfélagsaðstæður, svo sem sambýlis- og búsetuhættir manna, kölluðu á að lagaumhverfinu yrði breytt til samræmis við þær. Lög um lögheimili hafa um þessar mundir haldið gildi sínu í 25 ár. Á þessum tíma hafa ekki síður átt sér stað breytingar á þjóðfélagsaðstæðum, enda hefur þjóðin gerst aðili að EES-samningnum, netvæðst og upplifað bankahrun svo fátt eitt sé nefnt. Síðustu ár hefur nokkuð borið á því að fólk hafi lent í vandræðum vegna ákvæðis 7. gr. laganna þar sem kveðið er á um að hjón eigi sama lögheimili. Vinnuveitendur sem ráða til sín starfsfólk hafa stundum krafist þess að það skrái lögheimili sitt í því sveitarfélagi þar sem starfsemi vinnuveitandans á sér stað. Þessar kröfur hafa gert það að verkum að maki starfsmanns hefur þurft að flytja lögheimili sitt í sama sveitarfélag þrátt fyrir að bækistöð hans sé í raun í öðru sveitarfélagi eða jafnvel slíta samvistum við starfsmanninn. Þessar kringumstæður letja maka starfsmannsins einnig til að ganga í hjónaband með honum.
    Í kjölfar bankahrunsins þurftu nokkuð margir að sækja sér vinnu utan landsteinanna. Oft hélt þá annað hjóna utan á meðan hitt bjó hér áfram ásamt börnum þeirra. Í sumum löndum er þess krafist að þeir sem ætla sér að sinna atvinnu innan landamæra þeirra flytji lögheimili sitt þangað. Svo háttar t.d. til í Noregi en margir Íslendingar hafa sótt atvinnu þangað. Enga heimild er hins vegar að finna í lögum um lögheimili til að skrá lögheimili hjóna í mismunandi löndum. Slíkt hefur hins vegar verið heimilað í mörgum tilvikum á grundvelli venju, óskráðrar réttarheimildar.
    Þrátt fyrir að átta sinnum hafi verið gerðar breytingar á lögum um lögheimili er óhætt að fullyrða að nú sé kominn tími til að taka þau til endurskoðunar að nýju. Líklegt er að endurskoðunin hafi í för með sér að breyta þurfi ákvæðum annarra laga, t.d. ábúðarlaga, laga um tekjuskatt og laga á sviði almannatrygginga.
    Hér er lagt til að Alþingi feli innanríkisráðherra að koma á fót starfshóp sem undirbúi endurskoðun laga um lögheimili, nr. 21/1990, með það að markmiði að hjónum verði gert fært að eiga lögheimili hvort á sínum staðnum, hvort heldur er þegar bæði hafa bækistöð innan lands eða þegar annað hefur bækistöð erlendis. Gert er ráð fyrir að einnig verði lagðar til breytingar á öðrum þeim lögum sem þarf að breyta til að markmiðinu verði náð. Þá er lagt til að ráðherra verði gert að leggja frumvarp til nýrra laga um lögheimili fram á Alþingi eigi síðar en 30. mars 2016 og að það verði byggt á tillögum starfshópsins. Til þess að tryggja að endurskoðunin verði fullnægjandi er nauðsynlegt að samsetning starfshópsins endurspegli þau stjórnvöld sem vinna helst með þau lög sem líklegt er að þurfi að breyta, svo sem ríkisskattstjóra, Þjóðskrá Íslands, Tryggingastofnun ríkisins o.fl.