Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 76  —  76. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um greiningu á möguleikum þess að móta sameiginlega langtímastefnu
fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands greiningu með það að markmiði að kanna möguleika þess að móta sameiginlega langtímastefnu á sviði samgangna og innviða á Vestur-Norðurlöndum til að svæðið sem heild standi betur að vígi í vaxandi alþjóðlegri samkeppni á norðurslóðum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2015 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Runavík í Færeyjum 12. ágúst 2015.
    Fyrir vestnorrænu löndin er gagnkvæmur ávinningur af því að vinna saman að málefnum norðurslóða. Með því að sameina krafta sína geta löndin styrkt samkeppnishæfni sína og aukið hagsæld á svæðinu. Markmiðið er að íbúar norðurslóða hafi sem mest áhrif á hvernig málefni svæðisins þróast og þar eru vestnorrænu löndin þrjú í lykilstöðu. Önnur lönd á norðurslóðum hafa tekið höndum saman til að styrkja stöðu sína í ljósi þess að umsvif á svæðinu hafa aukist vegna bráðnunar norðurskautsíssins af völdum loftslagsbreytinga.
    Miklar áskoranir sem og tækifæri liggja á norðurslóðum samfara aukinni skipaumferð, frekari rannsóknum á nýtingu svæðisins og auknum alþjóðlegum áhuga á svæðinu.
    Vestnorræna ráðið ákvað á ársfundi sínum í Vestmannaeyjum árið 2014 að skipa sameiginlega nefnd forsætisnefndar ráðsins og eins þingmanns til viðbótar frá hverju landi. Nefndin hittist tvisvar árið 2015 til að greina þau svið þar sem löndin þrjú eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og gætu aukið samstarf sitt. Niðurstöður nefndarinnar er hægt að lesa í skýrslu ráðsins „Strategisk vurdering af det regionale samarbejde i Arktis“ 1 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Runavík í ágúst 2015. Skýrslan getur verið innlegg í vinnu aðildarlanda ráðsins að sameiginlegri vestnorrænni norðurslóðastefnu á þeim sviðum þar sem löndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Eitt þessara sviða snýr að samgöngum og innviðum á Vestur-Norðurlöndum.
    Landfræðileg lega vestnorræna svæðisins í miðju Norður-Atlantshafi, á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku, og auknir skipaflutningar til Asíu um og yfir norðurskautið gera það að verkum að flutningar skipta sköpum fyrir efnahagslíf landanna. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji við aukin umsvif á svæðinu til að vestnorrænu löndin þrjú geti nýtt þau tækifæri sem eru fyrir hendi á ábyrgan hátt. Ísland, Grænland og Færeyjar hafa öll hag af því að móta sameiginlega framtíðarstefnu á sviði samgangna og innviða sem nær til vestnorræna svæðisins. Samstarfið þarf að taka mið af stefnumótun hvers lands fyrir sig og styðja frekar við hagsmuni þeirra. Flutningar eru undirstaða alþjóðaviðskipta og með hagkvæmara flutningskerfi innan vestnorræna svæðisins má styrkja stoðir hagkerfa landanna þriggja. Mikilvægt er fyrir hagsmunaaðila á vestnorræna svæðinu að átta sig á því að það er í alþjóðlegri samkeppni við önnur nálæg svæði um flutninga á fólki og vörum. Sama á við um undirstöðuatvinnugreinar landanna, svo sem sjávarútveg, ferðaþjónustu og orkuiðnað.
    Til að geta styrkt stöðu landanna þriggja á sviði samgöngumála þurfa innviðir að vera sterkir. Greina þyrfti núverandi innviði á svæðinu, þar á meðal burði flugvalla og hafna til að þjóna alþjóðlegri starfsemi. Loks þyrfti að skoða möguleikann á umskipunarhöfn(um), vegna aukinna flutninga um norðurskautið og strandflutninga, og alþjóðlegri leitar- og björgunarmiðstöð. Í þessu samhengi þyrfti að skoða mismunandi möguleika við fjármögnun slíkra verkefna, en ljóst er að fjármagn og þekking þyrfti að einhverju leyti að koma frá alþjóðlegum samstarfsaðilum, a.m.k. hvað varðar stærstu verkefnin.
    Margvíslegir möguleikar eru fyrir hendi til að auka hagkvæmni á sviði samgangna og innviða með samstarfi á vestnorræna svæðinu og fyrir hagsmunaaðila á svæðinu að nýta tækifæri til alþjóðlegrar verðmætasköpunar til hagsbóta fyrir alla.
Neðanmálsgrein: 1
1     Á dönsku:
     www.vestnordisk.is/wp-content/uploads/2015/09/WNC-Strategic-Assessment-_DANSK_%C3%85rsm%C3%B8de-2015-FINAL-20082015.pdf
    Á ensku:
     www.vestnordisk.is/wp-content/uploads/2015/09/WNC-Strategic-Assesment_ENGELSK_endelig_udgave-FINAL-20082015.pdf