Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 100  —  100. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940
(samfélagsþjónusta ungra brotamanna).

Flm.: Helgi Hjörvar, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir.


1. gr.

    Á eftir 57. gr. a laganna kemur ný grein, 57. gr. b, svohljóðandi:
    Þegar sakborningur er unglingur á aldrinum 15–21 árs er heimilt að setja sérstakt skilyrði um samfélagsþjónustu fyrir frestun fullnustu refsingar skv. 57. gr. laganna. Í dómi skal tiltaka tímafjölda og á hve löngum tíma samfélagsþjónustan skuli innt af hendi.
    Forsenda þess að slík samfélagsþjónusta komi til álita er að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu á grundvelli athugunar á persónulegum högum hans og að dómþoli afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi.
    Um framkvæmd og fullnustu samfélagsþjónustu á grundvelli þessa ákvæðis fer að öðru leyti samkvæmt lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005.

2. gr.

    Á eftir orðunum „skv. 1.–6. tölul. 3. mgr. 57. gr.“ í 1. mgr. 59. gr. laganna kemur: eða 1. mgr. 57. gr. b.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta, sem áður var flutt á 144. löggjafarþingi (679. mál) án þess að komast til umræðu, er nú flutt aftur í óbreyttri mynd. Frumvarpið er lagt fram með það að markmiði að hægt verði að veita ungum brotamönnum meira aðhald og þannig mögulega koma í veg fyrir að þeir leiðist á braut frekari afbrota. Í þessu augnamiði er lagt til að dómarar fái heimild til að setja viðbótarskilyrði fyrir skilorðsbundinni frestun á fullnustu refsingar skv. 57. gr. laganna í formi samfélagsþjónustu þegar um er að ræða ungmenni á aldrinum 15–21 árs. Með því móti mætti nýta samfélagsþjónustu fyrir þennan aldursflokk, áður en gripið er til hugsanlegrar fangelsisrefsingar, þegar venjulegur skilorðsdómur hefur ekki nægt til að leiða viðkomandi inn á brautir löghlýðni.
    Samfélagsþjónusta felur í sér tímabundið ólaunað starf í þágu samfélagsins, svo sem líknar- eða félagsstarf ýmiss konar, sem er unnið utan vinnutíma dómþola, þannig að hann geti stundað atvinnu sína eða nám á meðan og verið virkur þjóðfélagsþegn. Þetta úrræði er sjaldnast nýtt hér á landi þegar kemur að ungum brotamönnum vegna þeirrar stefnu sem hefur verið mörkuð að samfélagsþjónusta teljist fullnustuúrræði sem komi einungis til skoðunar í tilviki óskilorðsbundinna dóma samkvæmt lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005. Óskilorðsbundnir dómar eru hins vegar almennt ekki kveðnir upp yfir yngstu brotamönnunum, enda þrautalending og einungis beitt í þeim málum þar sem talið er óverjandi með tilliti til almenningshagsmuna og réttaröryggis að beita skilorðsbundnum dómi. Það er ljóst að samfélagsþjónusta getur verið heppilegri en óskilorðsbundinn fangelsisdómur fyrir unga afbrotamenn ásamt því að hafa mögulega verulegt uppeldislegt gildi. Mikilvægt er að tryggja að slíkur valkostur sé til staðar fyrir dómstóla landsins í málum sem varða unga brotamenn. Slíkt væri í samræmi við þróun á Norðurlöndum þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á úrræði til að hvetja ungmenni til góðrar hegðunar og leiða unga brotamenn aftur inn á brautir löghlýðni með margs konar stuðningi og eftirfylgni.
    Samfélagsþjónusta var fyrst lögfest hér á landi með lögum nr. 55/1994, um samfélagsþjónustu. Um var að ræða tilraunatímabil og var ákveðið að samfélagsþjónusta yrði ákvörðuð af stjórnvöldum sem fullnustuúrræði. Í athugasemdum við frumvarpið kom fram að ef ákveðið yrði að samfélagsþjónusta fengi varanlegan sess síðar kæmi vel til álita að fella ákvæði um hana inn í almenn hegningarlög og tekið fram að víðast erlendis væri dómstólaleiðin farin. Samfélagsþjónusta telst enn til fullnustuúrræðis hér á landi og er ákvörðunartaka og eftirlit á forræði Fangelsismálastofnunar samkvæmt lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005. Með frumvarpi þessu er ekki ætlunin að breyta þessu almenna fyrirkomulagi heldur einungis að bæta þessu úrræði við möguleika dómara í málum er varða unga brotamenn sem þurfa meiri leiðbeiningu og aðhald en hefðbundin skilorðsbundin refsing veitir. Sú afmarkaða nálgun felur hins vegar ekki í sér að samfélagsþjónusta muni hér eftir teljast til sjálfstæðrar viðurlagategundar líkt og hjá mörgum nágrannaríkjum okkar. Slík umræða verður að bíða um sinn, en um nánari upplýsingar um það álitaefni vísast til 647. máls sem lagt var fram á 133. löggjafarþingi en hlaut ekki framgang.
    Gert er ráð fyrir að Fangelsismálastofnun sjái um framkvæmd og fullnustu samfélagsþjónustu af þessu tagi líkt og almennt gildir. Felur það í sér að Fangelsismálastofnun sér um að útvega hentuga vinnustaði með áherslu á ungan aldur brotamanns. Almennt er aðallega um að ræða líknar- og félagsstörf hjá félagasamtökum og opinberum stofnunum. Eftirlitið felst í því að fulltrúi frá Fangelsismálastofnun fer jafnan á vinnustaðinn og fylgist reglulega með framvindu mála ásamt því að kalla viðkomandi aðila til viðtals eftir atvikum. Þar sem markmið frumvarpsins er að veita aukið aðhald er mikilvægt að eftirlitið sé markvisst og gripið sé til viðeigandi úrræða eins fljótt og verða má virði hinn ungi brotamaður ekki þau skilyrði sem í dómi felast og sinni ekki samfélagsþjónustu sem skyldi. Um slík tilvik fer eftir almennum ákvæðum VIII. kafla laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, hvað varðar tilkynningar til lögreglu og ákæruvalds og þá hugsanlega vísun máls aftur til dómara skv. 59. gr. almennra hegningarlaga. Væri það þá í höndum dómara að meta hvort samfélagsþjónusta teldist fullreynd og þá eftir atvikum gera viðeigandi breytingar varðandi fullnustu refsingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að nýrri grein, 57. gr. b, verði bætt við lögin sem feli í sér að dómstólum verði gert kleift að binda skilorðsdóma ungra brotamanna á aldrinum 15–21 árs því sérstaka skilyrði að þeir inni samfélagsþjónustu af hendi. Er þetta gert í því augnamiði að veita dómurum frekari úrræði til að auka möguleika á að ungir brotamenn leiðist inn á brautir löghlýðni áður en gripið er til hugsanlegrar fangelsisrefsingar þegar mat dómara er það að hefðbundinn skilorðsdómur dugi ekki til. Má því til skýringar líta á þetta úrræði sem hugsanlegt millistig milli skilorðsbundinna dóma í upphafi brotaferils og óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar á síðari stigum haldi hinn ungi brotamaður áfram á sömu braut. Er þá hugsunin að nýta hið uppeldislega gildi samfélagsþjónustu fyrir þennan hóp brotamanna, með tilheyrandi aðhaldi og eftirliti, í þeirri von að það dragi úr þeim fjölda ungmenna sem leiðast út á braut frekari afbrota.
    Það skal áréttað að hin almennu sjónarmið um skilorðsdóma gilda einnig um tilvik þar sem samfélagsþjónusta er gerð að sérstöku skilyrði samkvæmt þessu ákvæði. Á það bæði við um almenn viðmið um skilorðstíma skv. 2. mgr. 57. gr. og hin almennu skilyrði að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á skilorðstímanum og hugsanleg önnur skilyrði, svo sem að aðili neyti ekki á skilorðstímanum áfengis né deyfilyfja, sbr. 3. mgr. 57. gr.
    Grípi dómari til þessa úrræðis skal tímafjöldi þjónustunnar tiltekinn í dómnum sem og á hve löngum tíma samfélagsþjónustan skal innt af hendi. Gera má ráð fyrir að á grundvelli jafnræðissjónarmiða muni dómstólar líta til núverandi framkvæmdar í þessum efnum á grundvelli laga um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, varðandi ákvörðun tímafjölda miðað við alvarleika brots, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna.
    Forsendur þess að samfélagsþjónusta verði dæmd samkvæmt ákvæðinu koma fram í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Er þar annars vegar um að ræða að viðkomandi dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu á grundvelli athugunar á persónulegum högum hans. Alla jafna framkvæmir Fangelsismálastofnun slíka athugun áður en ákvörðun um fullnustu í formi samfélagsþjónustu er tekin af stofnuninni. Þar sem það úrræði sem hér er lagt til verður í höndum dómstóla er rétt að slík athugun fari fram af hálfu lögreglu við rannsókn máls í samræmi við 2. mgr. 54. gr., sbr. 52. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Hins vegar er gert að skilyrði að dómþoli afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi á þeim tímapunkti sem dómur er upp kveðinn, enda gert ráð fyrir að umrætt úrræði komi til skoðunar áður en gripið væri til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar í tilfellum ungra brotamanna. Ef dómur þess eðlis lægi nú þegar fyrir mundu uppeldisleg markmið samfélagsþjónustu án efa missa marks með vísan til alvarleika afbrota viðkomandi aðila á fyrri stigum.
    Í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er áréttað að um framkvæmd og fullnustu samfélagsþjónustunnar af hálfu Fangelsismálastofnunar fer samkvæmt lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005. Þar má einna helst nefna VIII. kafla laganna sem meðal annarra atriða varðar tilhögun eftirlits og áhrif rofs á skilyrðum. Í slíkum tilvikum skal Fangelsismálastofnun gera lögreglu og ákæruvaldi viðvart, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna, sem hefja þá rannsókn sem hugsanlega leiðir til þess að málinu verði vísað aftur til dómara líkt og rakið er í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Vegna þess að almennt er gert ráð fyrir því í 59. gr. laganna að ákærandi geti vísað máli sem leiddi til skilorðsbundins dóms aftur til dómara vegna rofs á skilyrðum eru lagðar til breytingar á því ákvæði á þá leið að rof á skilyrðum samkvæmt hinni nýju 57. gr. b geti einnig leitt til slíkrar niðurstöðu.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.