Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 131  —  131. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um stofnun loftslagsráðs.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á fót loftslagsráð sem hafi það meginhlutverk að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ráðið hafi m.a. eftirtalin verkefni:
     a.      að fylgjast með þróun loftslagsmála og beina að eigin frumkvæði tilmælum og ráðleggingum um markmið og leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til stjórnvalda og annarra aðila, svo sem opinberra stofnana, eftir því sem tilefni þykir til,
     b.      að fylgjast með eftirfylgni við löggjöf um losun gróðurhúsalofttegunda,
     c.      að veita ráðgjöf um rannsóknarþörf og viðbrögð á þeim sviðum sem mestu varða fyrir það verkefni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þar á meðal um mannvirkjagerð, skipulag byggðar, samgöngur, atvinnuhætti og ástand og þróun lífríkis,
     d.      að mynda og rækja alþjóðatengsl til framdráttar viðfangsefnum ráðsins,
     e.      að miðla fræðslu og veita einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum aðstoð við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og veita ráðgjöf um viðbrögð við áhrifum loftslagsbreytinga,
     f.      að birta árlega á opinberum vettvangi greinargerð um störf ráðsins, upplýsingar um magn, uppruna og þróun útblásturs gróðurhúsalofttegunda og stuðla að vitund almennings um loftslagsmál með fræðslu og miðlun.
    Í loftslagsráði eigi sæti, samkvæmt tilnefningu, fulltrúi Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands, líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Landverndar, Skipulagsstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipi formann ráðsins og veiti því nauðsynlega starfsaðstöðu. Kostnaður við störf ráðsins greiðist úr ríkissjóði.
    Á fimmta starfsári loftslagsráðs skipi umhverfis- og auðlindaráðherra nefnd sem leggi mat á skipan þess og starfshætti og geri, eftir atvikum, tillögur um breytingar.

Greinargerð.

Markmið þingsályktunartillögunnar.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að sett verði á fót loftslagsráð, skipað fulltrúum ýmissa stofnana og samtaka sem láta sig loftslagsmál sérstaklega varða, hafa starfsskyldur á vettvangi loftslagsmála, búa yfir sérþekkingu á málaflokknum og upplýsingum, þekkingu og kunnáttu sem kemur verkefnum loftslagsráðs að notum. Eins og fram kemur í texta þingsályktunartillögunnar er loftslagsráði ætlað allviðamikið hlutverk sem einkum felst í því að fylgjast með framvindu loftslagsmála og losun gróðurhúsalofttegunda sérstaklega, gera tillögur til stjórnvalda um aðgerðir til að draga úr loftslagsvá, upplýsa almenning og stjórnvöld um þróun loftslagsmála jafnframt því að stuðla að vitundarvakningu um málaflokkinn.
    Stofnun og starfsemi loftslagsráðs er ætlað að vera liður í því að snúa af þeirri óheillabraut sem lifnaðarhættir manna hafa leitt loftslagsmálin á og einnig að veita ráð og ábendingar um haldbær viðbrögð við þeim afleiðingum sem ekki verða umflúnar. Í þessu skyni mun loftslagsráð starfa jöfnum höndum fyrir stjórnvöld og almenning, hafa frumkvæðisskyldu til að benda á það sem miður fer varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, vekja athygli á leiðum til úrbóta og viðbrögðum við áhrifum loftslagsbreytinga.

Loftslagsvá.
    Fyrir um aldarfjórðungi voru komnar fram sterkar vísbendingar um að loftslagsbreytingar sem mengun af mannavöldum hefur orsakað væru svo miklar og víðtækar að þær væru líklegar til að gerbreyta skilyrðum lífs á jörðinni og þar með vitaskuld samfélögum manna og kjörum fólks hvarvetna um heimsbyggðina. Það er einkum losun svonefndra gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið sem veldur þessum brýna vanda, en gróðurhúsalofttegundirnar setjast að í lofthjúpi jarðar og valda því að hitafar á jörðinni hækkar með ýmsum uggvænlegum afleiðingum.
    Árið 1990 setti milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) fram sína fyrstu skýrslu sem sýndi fram á hættuna af gróðurhúslofttegundum og hefur síðan staðfest þá hættu í fjórum sambærilegum skýrslum. Fáir ef nokkrir vísindamenn sem mark er takandi á efast nú um að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd og hættan af þeim verði ekki umflúin nema með róttækum breytingum á lifnaðarháttum jarðarbúa sem hafi það að markmiði að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Munu þessi mál og hin alvarlega staða þeirra nú vera orðin svo vel kunn meðal almennings eftir mikla umfjöllun á undanförnum árum og áratugum að óþarft er að fjölyrða um þau og mikilvægi þeirra.

Fyrra þingmál sama efnis og fyrirliggjandi þingmál.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur tvisvar áður lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun loftslagsráðs, í fyrra skiptið á 133. löggjafarþingi (256. mál) og í seinna skiptið á 135. löggjafarþingi (62. mál) án þess að málið næði fram að ganga. Var Kolbrún Halldórsdóttir fyrsti flutningsmaður í báðum tilvikum.
    Fyrirliggjandi þingmál er mjög af sama toga og það sem flutt var á 133. og 135. löggjafarþingi og markmið þess hið sama, þ.e. að auka og efla getu íslensks samfélags til að takast á við einn mesta og brýnasta vanda samtímans. Texti tillögunnar er þó nokkuð breyttur frá upphaflegu þingmáli Kolbrúnar Halldórsdóttur og meðflytjenda hennar. Ræðst það að nokkru af því að snemmsumars árið 2012 samþykkti Alþingi lög nr. 70/2012, um loftslagsmál, þar sem tekið er á sumum þeirra verkefna sem lagt var til að yrði unnið að á vettvangi ráðsins. Mestu munar á milli fyrirliggjandi tillögu og tillögu Kolbrúnar að samkvæmt þeirri síðarnefndu ættu fulltrúar þingflokka á Alþingi sæti í loftslagsráði en í fyrirliggjandi tillögu er gert ráð fyrir því að loftslagsráð verði fyrst og fremst vettvangur sérfræðinga sem veita ráðgjöf, upplýsingar, varnaðarorð og hvatningu en hin pólitíska stefnumörkun fari fram á öðrum vettvangi. Þykja líkur til að með þessu móti geti loftslagsráð orðið sjálfstæðara í störfum sínum en ella og einbeitt sér að viðfangsefnum sínum og markmiðum.
    Þingmáli Kolbrúnar Halldórsdóttur og annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem flutt var á 133. og 135. löggjafarþingi, fylgdi vönduð og ítarleg greinargerð. Enda þótt hana þyrfti að uppfæra með tilliti til þróunar loftslagsmála, einkum hvað varðar magntölur og aðrar stærðir, er hún enn góð og gild sem rökstuðningur fyrir mikilvægi þess að koma á fót loftslagsráði og skal mælt með lestri hennar í því samhengi.