Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 160  —  160. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum.


Flm.: Elín Hirst, Ásmundur Friðriksson, Birgitta Jónsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
Brynhildur Pétursdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Haraldur Einarsson,
Helgi Hrafn Gunnarsson, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller,
Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Óttarr Proppé,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um viðbrögð við súrnun sjávar á norðurslóðum. Starfshópurinn rannsaki hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á lífríki hafsins í kringum Ísland og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að sporna við þeim. Umhverfis- og auðlindaráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum starfshópsins árlega eða oftar ef þurfa þykir.

Greinargerð.

    Að mati margra vísindamanna er Ísland á versta mögulega stað þegar súrnun sjávar er annars vegar, en mjög litlar rannsóknir fara fram hérlendis á afleiðingum hennar. Súrnun sjávar er í raun falinn fylgifiskur loftslagsbreytinga og útblásturs koltvísýrings (CO 2) í andrúmsloftið. Þessi þróun hefur þegar haft áhrif á umhverfið og kemur til með að hafa alvarlegar afleiðingar á vistkerfi hafsins og gæti haft skaðleg áhrif á lífsviðurværi milljóna manna sem reiða sig á sjávarútveg.
    Súrnun sjávar er afleiðing aukins koltvísýrings í andrúmsloftinu en um þriðjungur koltvísýrings sem losaður hefur verið út í andrúmsloftið eftir iðnvæðingu hefur endað í hafinu. Þannig hafa höfin takmarkað gróðurhúsaáhrif af manna völdum en afleiðingin er breytt efnajafnvægi ólífræns kolefnis í sjónum. Einungis rúmur áratugur er síðan ljóst var að um verulegar umhverfisbreytingar væri að ræða sem gætu haft áhrif á lífríki hafsins. M.a. áttu langtímamælingar Hafrannsóknastofnunar á ólífrænu kolefni í sjó við Ísland þátt í að upplýsa um þær breytingar, en þessar mælingar eru ein af fáum mæliröðum sem ná lengra en þrjá áratugi aftur í tímann. Mælingar Hafrannsóknastofnunar norður af Íslandi sýna skýrt að sjórinn súrnar (pH-stig sjávarins lækkar) og að kalkmettun í hafinu minnkar. Kalkmettun er mikilvægur umhverfisþáttur fyrir kalkmyndandi tegundir í hafinu en til kalkmyndandi tegunda má m.a. telja kórala, snigla (t.d. beitukóng), samlokur (t.d. krækling), krabbadýr (t.d. rækju og átu) og skrápdýr (t.d. ígulker og krossfiska). Fjöldi tegunda, sem þjóna mikilvægu hlutverki í fæðukeðjum hafsins tilheyrir þessum hópum (t.d. áta) og eru þær mikilvæg fæða fyrir ýmsa nytjastofna innan efnahagslögsögu Íslands.
    Efnahagslegra áhrifa af súrnun sjávar er þegar farið að gæta við vesturströnd Bandaríkjanna þar sem ostrueldi hefur orðið fyrir miklum fjárhagslegum skaða. Ástæðan var sú að lítil kalkmettun olli því að lirfur ostranna gátu ekki myndað skel og urðu afföll mikil. Því hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna í auknum mæli stutt við rannsóknir á súrnun sjávar með stuðningi við ýmsar stofnanir (sbr: oceanacidification.noaa.gov/IWGOA.aspx).
    Sjórinn norður af Íslandi súrnar hratt miðað við hafsvæði sunnar í Atlantshafinu og skýrist það einna helst af lágu hitastigi sjávar. Erfitt er að áætla hverjar afleiðingar þessarar þróunar verða fyrir vistkerfið í hafinu, enda hafa engar rannsóknir farið fram á þeim tegundum sem þar er að finna með tilliti til súrnunar sjávar. Þannig eru efnahagsleg áhrif af súrnun sjávar við Ísland alls óþekkt.
    Setja þarf á stofn sérhæfða aðstöðu sem leyfir rannsóknir á áhrifum súrnunar sjávar á lífverur sem þjóna mikilvægu hlutverki í vistkerfi hafsins við Ísland. Slík aðstaða er forsenda þess að vísindamenn geti sótt fjármagn í samkeppnissjóði hérlendis og erlendis. Grunnur að tilraunaaðstöðu í landi er til staðar hjá Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði en þörf er á frekari uppbyggingu svo að nýta megi aðstöðuna til upplýsandi rannsókna á áhrifum súrnunar sjávar. Þá þyrfti að athuga möguleika á að nýta aðrar leiðir við að rannsaka áhrif súrnunar sjávar á lífríkið við Ísland, t.d. með því að kanna náttúruleg fyrirbrigði eins og koltvísýringsgas af sjávarbotni.
    Orsök súrnunar sjávar er fyrst og fremst að leita í útblæstri koltvísýrings, einna helst vegna nýtingar manna á jarðefnaeldsneyti. Þar sem spár benda til þess að áhrifin verði mikil hér á landi ættu Íslendingar að taka forustu um þessi mál. Íslendingum gefst einstakt tækifæri til að fara fyrir umræðunni og leggja sitt fram við að móta framtíðarstefnu í málaflokknum bæði í Norðurskautsráðinu og á alþjóðlegum vettvangi.