Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 196  —  191. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB.
    Með tilskipun 2007/23 voru settar grunnreglur um öryggi skotelda og lagður grunnur að kerfi til að rekja þá frá framleiðanda til notanda. Með tilskipun 2014/58/ESB er komið á fót skráningarkerfi því sem rætt er um í tilskipun 2007/23 til að rekja skotelda frá framleiðanda til notanda. Rekjanleikakerfinu er ætlað að auka öryggi notenda flugeldavara og almennings með því að auðgreina framleiðendur og innflytjendur slíkra vara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES- samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB.
    Með tilskipun 2007/23/EB voru settar reglur um öryggi skotelda og grunnur lagður að kerfi til að rekja þá frá framleiðanda til notanda. Markmiðið með tilskipuninni var að koma á frjálsum flutningum skotelda, tryggja öryggi fólks sem starfar við framleiðslu skotelda sem og neytenda, og setja fram mikilvægar öryggiskröfur fyrir slíkar vörur.
    Með framkvæmdartilskipun 2014/58/ESB var, eins og áður segir, komið á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur sem mælt er fyrir um í tilskipun 2007/23/EB um markaðssetningu flugeldavara. Rekjanleikakerfinu er ætlað að auka öryggi notenda flugeldavara og almennings með því að auðgreina framleiðendur og innflytjendur slíkra vara.
    Í tilskipuninni er uppbyggingu rekjanleikakerfisins lýst og kveðið á um merkingar flugeldavöru. Hún skal merkt með skráningarnúmeri, vera á tungumáli þess ríkis þar sem hún er sett á markað og vera CE-merkt. Á vörunni sjálfri skal koma fram nafn framleiðanda, skráð vörumerki og póstfang. Ef ekki er hægt að setja upplýsingarnar á vöruna sjálfa eiga þessi atriði að vera skráð á umbúðir eða í skjal sem fylgir skoteldinum. Vara með þessum merkingum ber það með sér að hún uppfyllir þau skilyrði sem sett eru í tilskipuninni.
    Tilgreindar eru þær upplýsingar sem þurfa að vera í skránni, en þær þarf að varðveita í tíu ár að lágmarki, uppfæra reglulega og gera aðgengilegar á vefnum. Þá er framleiðendum og innflytjendum skotelda gert að halda skrá yfir skráningarnúmer skotelda sem þeir framleiða eða flytja inn, ásamt viðskiptaheiti þeirra, tegund og framleiðslustað, í a.m.k. tíu ár eftir að varan hefur verið sett á markað. Ef þeir hætta starfsemi skulu þeir flytja skrárnar til lögbærra yfirvalda. Loks er kveðið á um skyldu þeirra til að veita upplýsingar úr skrám sínum til lögbærra yfirvalda og yfirvalda á sviði markaðseftirlits, að fenginni rökstuddri beiðni.
    Framleiðendur bera af því fyrirhöfn og kostnað að halda skrár og merkja vöru. Innflytjendur taka á sig ábyrgð framleiðenda þar sem slíkt fyrirkomulag er. Á Íslandi ber innflytjendum samkvæmt núgildandi lögum að tryggja að vara sem hingað kemur frá ESB sé merkt og vottuð til samræmis við EES-reglur. Hér á landi er ekki framleiðsla á skoteldum og því engin slík áhrif hér. Vara sem kemur frá öðrum löndum, svo sem Kína, er einnig á ábyrgð innflytjenda. Hér á landi bera þeir ábyrgð á henni nú þegar samkvæmt lögum um neytendakaup, nr. 48/2003, lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991, og lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995.
    Skylda er lögð á þá sem annast vottanir að halda skrá yfir framleiðendur allra flugeldavara sem þeir hafa prófað og veitt CE-merkingu.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing framkvæmdartilskipunar 2014/58/ESB kallaði á lagabreytingar þar sem tilskipun 2007/23/EB hafði ekki verið innleidd í íslensk lög er sú fyrrnefnda var tekin upp í EES-samninginn. Með lögum nr. 77 frá 9. júlí 2015, um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum, var tilskipun 2007/23/EB innleidd og skapaðist þá jafnframt lagastoð fyrir innleiðingu á framkvæmdartilskipunar 2014/58/ESB með setningu reglugerðar. Þingsályktunartillaga þessi er engu að síður lögð fram þar sem að lög nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, kveða, eins og áður sagði, á um að stjórnskipulegum fyrirvara beri að aflétta með þingsályktun.
    Áhrif af innleiðingu gerðarinnar hér á landi eru óveruleg þar sem engir skoteldar eru framleiddir hér á landi.



Fylgiskjal I.



ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR
nr. 25/2015

frá 25. febrúar 2015

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)          Fella ber inn í EES-samninginn framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB ( 1 ).

2)          II. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir 4. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB) í XXIX. kafla II. viðauka við EES-samninginn:

„4a.          32014 L 0058: Framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB (Stjtíð. ESB L 115, 17.4.2014, bls. 28).“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti framkvæmdartilskipunar 2014/58/ESB, sem verður birtur í EES- viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 26. febrúar 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 25. febrúar 2015.
Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
Gianluca Grippa
formaður.



Fylgiskjal II.



Framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB.

www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s0196-f_II.pdf

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 115, 17.4.2014, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 2
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.