Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 339  —  186. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 122/2015, frá 30. apríl 2015, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/99/ESB frá 21. október 2014 um breytingu á tilskipun 2009/126/EB um II. áfanga endurheimtar bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum í því skyni að laga hana að tækniframförum. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 30. október 2015. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES- mála.
    Tilskipun 2014/99/ESB fjallar um nýjar staðlaðar kröfur um gufugleypibúnað á eldsneytisstöðvum sem eiga að koma í veg fyrir að aukin losun á rokgjörnum lífrænum efnum frá íblönduðu eldsneyti skaði heilsu fólks. Kröfur um lágmarksafköst II. stigs gufugleypibúnaðar eru settar fram í staðli EN 16321-1:2013 og prófunaraðferð fyrir búnaðinn í staðli 16321-2:2013. Gerðin breytir tilskipun 2009/126/EB á þann hátt að vísað er í framangreinda staðla. Um takmörkuð áhrif er að ræða hér á landi þar sem gerðin hefur áhrif á eina eldsneytisstöð á landinu.
    Innleiðing tilskipunar 2009/126/EB kallaði á breytingu á efnalögum, nr. 61/2013, þar sem setja þurfti lagastoð fyrir því að skylda rekstraraðila eldsneytisstöðva til að setja upp II. stigs gufugleypibúnað á eldsneytisdælur. Umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram frumvarp til innleiðingar á tilskipun 2009/126/EB á 144. löggjafarþingi (þskj. 1164, 690. mál) sem Alþingi samþykkti sem lög nr. 63/2015, um breytingu á efnalögum, nr. 61/2013, sem hafa nú að geyma lagastoð fyrir innleiðingu tilskipunar 2014/99/ESB. Innleiðingin kallar því ekki á lagabreytingar. Innleiðing tilskipunar 2014/99/ESB hefur ekki í för með sér breytingu á stjórnsýslu eða kostnaði umfram þann sem leiðir af tilskipun 2009/126/EB.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Elín Hirst, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. október 2015.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Vilhjálmur Bjarnason.
Karl Garðarsson. Frosti Sigurjónsson. Björn Valur Gíslason.