Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 341  —  189. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 117/2015, frá 30. apríl 2015, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 30. október 2015. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2014/52/ESB er ætlað að einfalda stjórnsýslu og auðvelda mat án þess að draga úr réttarvernd umhverfisins sem þegar er fyrir hendi auk þess að styrkja ákvarðanatöku og umhverfisvernd og samræma og einfalda regluverk. Tilskipunin breytir tilskipun 2011/92/ ESB hvað varðar skilgreiningu á umhverfismati, þá þætti sem ber að horfa til við mat á umhverfisáhrifum og skilgreiningu á hámarksafgreiðslutíma við ákvörðun um matsskyldu, auk fleiri reglna. Umhverfismat er í tilskipuninni skilgreint á þann hátt að það nái yfir veitingu leyfa. Afgreiðslutími stjórnvalds fyrir ákvörðun um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati er í tilskipuninni skilgreindur að hámarki 90 dagar. Þá skal samráð við almenning vera að lágmarki 30 dagar og niðurstaða hvers máls lögð fram innan eðlilegra tímamarka. Eins er tilgreint að niðurstaða umhverfismats þurfi að vera enn í gildi þegar leyfi eru veitt til framkvæmda sem skulu vera skýrari fyrir almenningi en áður. Aðildarríki geta einnig takmarkað gildistíma niðurstaðna og álita sem þau gefa út sem hluta af umhverfismati. Hafi verkefni veruleg neikvæð áhrif á umhverfið verður þess krafist að framkvæmdaraðilar dragi úr þeim eftir megni en eftirlit er sem fyrr í höndum aðildarríkjanna. Þá er áhersla lögð á að tryggja gæði matsskýrslu með aðkomu viðeigandi sérfræðinga og á þann hátt að sérfræðiþekking sé til staðar hjá viðkomandi stjórnvaldi. Matsskýrslur skulu vera aðgengilegri almenningi en þær hafa verið til þessa, sérstaklega hvað varðar mat á núverandi ástandi umhverfisins og valkosti aðra en þá er viðkomandi tillaga mælir fyrir um.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Ísland þarf að innleiða tilskipunina eigi síðar en 16. maí 2017. Gert er ráð fyrir því að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum haustið 2016.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Elín Hirst, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. október 2015.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Vilhjálmur Bjarnason.
Karl Garðarsson. Frosti Sigurjónsson. Björn Valur Gíslason.