Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 411  —  340. mál.




Beiðni um skýrslu


frá félags- og húsnæðismálaráðherra um réttindi og skyldur eldri borgara.


Frá Birgittu Jónsdóttur, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur,
Helga Hrafni Gunnarssyni, Ástu Guðrúnu Helgadóttur, Katrínu Júlíusdóttur,
Páli Val Björnssyni, Ragnheiði Ríkharðsdóttur,
Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félags- og húsnæðismálaráðherra skili Alþingi skýrslu þar sem fram komi tæmandi yfirlit yfir réttindi eldri borgara og skyldur ásamt leiðbeiningum um það ferli að sækja rétt sinn hjá opinberri stjórnsýslu.

Greinargerð.

    Skýrslubeiðni þessi var lögð fram á 144. löggjafarþingi (741. mál) en ekki náðist að skila skýrslunni í tæka tíð og er beiðnin því lögð fram að nýju óbreytt.

Tilefni og nauðsyn skýrslunnar.
    Í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012 kemur fram að nálgun stjórnsýslunnar við afgreiðslu mála sem borgararnir kæra sé „til þess fallin að skapa borgaranum þá ímynd af stjórnsýslunni að hún sé honum mótfallin og að hann eigi að etja við andstæðing sem hefur bæði opinbert fjármagn og mannafla á bak við sig til að standa í vegi fyrir því að hann nái fram réttindum sínum. Slíkt er vitaskuld ekki markmiðið með opinberri stjórnsýslu sem á að vera í þágu borgaranna.“
    Í ljósi þessa og með tilliti til upplýsinga-, leiðbeiningar- og frumkvæðisskyldu stjórnvalda er nauðsynlegt að til sé leiðarvísir sem veitir borgurum nákvæmar, aðgengilegar, skiljanlegar og tæmandi leiðbeiningar svo að þeir fái heildstæða yfirsýn yfir réttindi sín og skyldur sem þeim fylgja, ásamt því ferli að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar.
    Almennir borgarar eru oft óvissir um réttindi sín, skyldur og hvernig þeir geti leitað réttar síns í stjórnsýslunni. Samkvæmt skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012 á stjórnsýslan það til að koma í veg fyrir að borgararnir fái skorið úr um réttindi sín. Segja má að eldri borgarar séu sá hópur borgara sem er í hvað veikastri stöðu til að standa vörð um réttindi sín. Skýrslan mun gegna hlutverki eins konar leiðarvísis fyrir eldri borgara um réttindi, skyldur og feril þess að sækja réttindi sín innan opinberrar stjórnsýslu ásamt því að öðlast skilning á réttindum og skyldum við meðferð kærumála á stjórnsýslustiginu. Skýrslan yrði ekki eingöngu gagnleg eldri borgurum heldur einnig stjórnsýslunni sjálfri sem hefur leiðbeiningar- og frumkvæðisskyldu gagnvart borgurunum. Umboðsmaður Alþingis hefur einnig vikið að nauðsyn þess að starfsfólk stjórnsýslunnar fái viðhlítandi og reglulega starfsmenntun um þær sérstöku reglur sem gilda um meðferð mála borgaranna þar (sbr. skýrslu umboðsmanns fyrir árið 2011, bls. 18–20).

Helstu atriði sem koma þurfa fram í skýrslunni.
    Mikilvægt er að fram komi í skýrslunni nákvæmar, aðgengilegar, skiljanlegar og tæmandi leiðbeiningar um réttindi og skyldur eldri borgara ásamt leiðum til úrlausnar innan opinberrar stjórnsýslu – hjá ráðuneytum, stofnunum og öðrum aðilum hjá hinu opinbera – svo að eldri borgarar fái heildstæða yfirsýn yfir réttindi sín og skyldur og ferlið við að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar.
    Meðal þess sem koma þarf fram í skýrslunni er:
          tæmandi listi yfir ákvæði í stjórnarskrá, alþjóðasamningum, lögum, reglum, reglugerðum, samþykktum og í öðrum réttarheimildum sem kveða á um réttindi og skyldur eldri borgara,
          hver veitir eldri borgurum aðstoð við að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar,
          hver úrskurðar um réttindi og skyldur eldri borgara sem sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar og innan hvaða tímaramma,
          hvenær heimilt er að kæra úrskurði til æðra stjórnvalds og, eftir atvikum, vísa til dómstóla,
          hver skuli framfylgja úrskurðum sem felldir hafa verið og hvaða úrræði séu til ef embætti stjórnsýslunnar hindra framgang úrlausnar með aðgerðum eða aðgerðaleysi.