Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 560  —  320. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um túlkun ákvæða í lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.


     1.      Er enn við lýði túlkun á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þar sem fjallað er um launagreiðslur í verkfalli, og birt var í dreifibréfi starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins nr. 6/2001 og var þessari túlkun beitt í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið vorið 2015?
    Meginreglan er sú að í fullu starfi felast 40 vinnuskyldustundir á viku. Sú regla er lögfest í lögum nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku, og er hún nánar útfærð í kjarasamningum, sbr. grein 1.1.2. Í grein 1.1.2 í kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og íslenska ríkisins er kveðið á um útreikning á broti úr mánaðarlaunum. Ákvæðið hljóðar svo: „Þegar unninn er 8 stunda vinnudagur reglubundið, reiknast brot úr mánaðarlaunum þannig að deilt er með 21,67 í mánaðarlaunin og margfaldað með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnudaga frá upphafi eða til loka starfstíma.“
    Framangreint ákvæði hefur verið lengi í kjarasamningi Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins. Sambærileg ákvæði um útreikninga á broti úr mánaðarlaunum er að finna í langflestum kjarasamningum sem ríkið hefur gert við önnur stéttarfélög. Nauðsynlegt þykir að hafa ákvæði sem þetta þar sem mismikil vinnuskylda er á bak við hver mánaðarlaun, enda er fjöldi vinnudaga í mánuði misjafn, en meðalfjöldi þeirra er 21,67 dagar, eins og að framan greinir. Þetta þýðir með öðrum orðum að þótt starfsmenn fái sömu krónutölu í mánaðarlaun fyrir hvern mánuð, liggja mismargir vinnudagar að baki laununum. Rétturinn til mánaðarlauna er ekki háður því á hvaða daga vinnuskyldan dreifist og með mánaðarlaunum í kjarasamningi er ekki átt við laun fyrir tiltekna mánaðardaga samkvæmt vaktaskipulagi.
    Framkvæmd sú sem ríkið hefur viðhaft á launafrádrætti í verkföllum er með hliðstæðum hætti og kveðið er á um í umræddri frádráttarreglu kjarasamninga. Reikniregla vegna frádráttar launa í verkfalli birtist því í grein 1.1.2 í kjarasamningi aðila og dreifibréf nr. 6/2001 er einungis útfærsla á þessu ákvæði, þar sem útskýrð er sú reikniregla sem fram kemur í kjarasamningnum sem báðir aðilar hafa samþykkt með undirritun sinni. Rétt er að geta þess að Ljósmæðrafélagi Íslands þótti ekki þörf á því að gera breytingu á þessari reiknireglu í síðustu kjarasamningsviðræðum enda ákvæðið óbreytt. Reiknireglan sem notuð er til að finna út vinnuskyldu í meðaltalsmánuði, 21,67 daga, er því að mati ráðuneytisins óumdeild og samþykkt af báðum aðilum og tekur bæði til dag- og vaktavinnumanna. Þá má geta þess að vaktavinnufólk fær sérstaklega greitt fyrir vinnuskyldu utan 8 tíma, sbr. grein 1.1.2 vegna óhagræðis við vinnutilhögunina.
    Sú reikniregla sem er útskýrð í dreifibréfi ráðuneytisins nr. 6/2001 var staðfest með dómi félagsdóms nr. 22/2015 í máli Ljósmæðrafélags Íslands gegn íslenska ríkinu og var beitt í verkfallsaðgerðum Ljósmæðrafélags Íslands.

     2.      Hver er texti umræddrar túlkunar á 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986 og er hann aðgengilegur hjá ráðuneytinu?
    Þess misskilnings gætir í almennri umræðu að þeir aðilar sem störfuðu á grundvelli 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986 hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu sína að fullu í verkfalli. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 er kveðið á um þau störf sem verkfallsheimild nær eigi til og í 2. mgr. 19. gr. laganna er kveðið á um gerð svonefndra undanþágulista þar sem birtur er listi yfir þau störf ríkisins sem m.a. eru talin til nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu, en þau störf þarf að vinna í verkfalli og eru undanþegin verkfallsheimild. Í 20. gr. laga nr. 94/1986 er kveðið á um heimild til að kalla tímabundið til starfa starfsmenn sem eru í verkfalli til að afstýra neyðarástandi.
    Taka skal fram að óumdeilt er að þeim ljósmæðrum, sem óheimilt var að fella niður störf skv. 19. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og þeim sem kallaðar voru til starfa á grundvelli 20. gr. sömu laga, voru greidd laun í samræmi við unnar vaktir á umræddu verkfallstímabili, án skerðingar hafi viðkomandi ljósmóðir starfað á grundvelli framangreindra ákvæða. Hér verður að gera skýran greinarmun á því og þeim aðstæðum þegar starfsmenn inna af hendi vinnu á grundvelli 19. og 20. gr. laganna, eða eru í verkfalli sbr. 18. gr. laganna. Laun þeirra starfsmanna sem vinna störf í verkfalli á grundvelli 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986 eru því ekki skert þegar viðkomandi starfsmenn inna af hendi vinnu á grundvelli þeirra ákvæða.
    Texti dreifibréfs 6/2001 er eftirfarandi:
    „Meginreglan er sú að laun falla niður í verkfalli.
    Í þeim mánuði sem verkfall hefst eða því lýkur, reiknast fastar launa- og kostnaðargreiðslur fyrir þann tíma sem unninn er þannig, að deilt er með 21,67 í mánaðarlaunin og margfaldað með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnudaga frá upphafi eða til loka starfstíma sbr. gr. 1.1.2 eða 1.1.3 í kjarasamningum ríkisstarfsmanna. Þessi regla er óháð því, hvort viðkomandi starfsmaður eigi vinnuskyldu eða ekki, það dregst jafnt af launum allra starfsmanna félagsins. Fyrirframgreidd laun skerðast með sama hætti sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 8/1984.
    Þeir sem ekki hafa heimild til verkfalls skv. 19. gr. laga nr. 94/1986 halda óskertum launum. Þá skulu ekki skertar launagreiðslur vegna biðlauna eða lausnarlauna af völdum veikinda eða andláts starfsmanns enda er ekki vinnuskylda að baki slíkum greiðslum.
    Um orlof og önnur launuð leyfi gildir, að orlofstaka og orlofslaun falla niður í verkfalli og verður að taka þá daga síðar.
    Á sama hátt falla launagreiðslur vegna veikinda eða slysa niður á meðan verkfalli stendur, svo og talning fjarvistardaga af sömu ástæðu. Ríksstarfsmaður í verkfalli nýtur ekki launagreiðslna í veikindaforföllum, hvort sem veikindin hófust fyrir eða eftir að verkfall kom til framkvæmda, sbr. dóm Héraðsdóms í máli nr. 93/1995.
    Þeir sem kallaðir eru til starfa skv. ákvæðum 20. gr. laga nr. 94/1986 skulu fá greitt skv. ákvæði um tímakaupsfólk í viðkomandi kjarasamningi.
    *Reglur þessar koma í stað vinnureglna nr. 2/1995.“
    Umrætt dreifibréf er aðgengilegt á vef 1 ráðuneytisins.

Neðanmálsgrein: 1
1     www.fjarmalaraduneyti.is/starfsmenn-rikisins/dreifibref/yfirlit/dreifibref-6-2001-verkfall