Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 638  —  430. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015, frá 30. apríl 2015, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2015, frá 30. apríl 2015, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004.
    Reglugerð (ESB) nr. 181/2011 hefur það að markmiði að bæta réttindi og neytendavernd farþega á landi til jafns við réttindi og neytendavernd flugfarþega og farþega á sjó.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004.
    Reglugerð (ESB) nr. 181/2011 hefur það að markmiði, eins og áður segir, að bæta réttindi og neytendavernd farþega á landi til jafns við réttindi og neytendavernd flugfarþega og farþega á sjó. Reglugerðin tekur fyrst og fremst til farþega í áætlunarferðum sem eru a.m.k. 250 km og á það bæði við ferðir innan lands og milli ríkja, en sum ákvæði gerðarinnar eiga einnig við um styttri ferðir.
    Ákvæði gerðarinnar sem eiga aðeins við farþega í hópbifreiðum á ferðum sem eru a.m.k. 250 km eiga að tryggja að farþegar fái fullnægjandi aðstoð, svo sem hressingu, mat eða gistingu, ef töf umfram 90 mínútur verður á ferðum umfram þrjár klukkustundir. Ef yfirbókað er eða seinkun verður umfram 120 mínútur er endurgreiðsla eða endurbókun ferðar tryggð og skaðabætur sem nema 50% af verði fargjalds ef töf er umfram 120 mínútur, ef ferð fellur niður eða ef endurgreiðsla eða endurbókun hefur ekki verið boðin. Farþegar öðlast rétt á upplýsingum þegar ferðum er frestað eða þær felldar niður, og aðstoð, svo sem ferðir og gistingu, ef slys ber að höndum. Þá er kveðið á um aðstoð til handa fötluðum og hreyfihömluðum þeim að kostnaðarlausu, á hópbifreiðastöðvum og um borð í hópbifreiðum og skulu ferðir aðstoðarfólks þeirra vera þeim að kostnaðarlausu.
    Samkvæmt ákvæðum gerðarinnar sem eiga við akstur hópbifreiða á styttri jafnt sem lengri leiðum er lagt bann við mismunun farþega hvað varðar fargjöld og aðgengi, t.d. vegna fötlunar, hreyfihömlunar eða þjóðernis. Lágmarksreglur eru settar um upplýsingagjöf til farþega um réttindi þeirra og ferðaupplýsingar, um kvörtunarþjónustu þeim til handa og um sjálfstæðar stofnanir í hverju ríki sem annast skulu framfylgd reglugerðarinnar.
    Í reglugerðinni er kveðið á um skyldubundna þjálfun ökumanna við flutning á hreyfihömluðum farþegum á öruggan hátt. Ísland hefur heimild til að veita frest til innleiðingar þessa ákvæðis til 1. mars 2018. Jafnframt hefur Ísland heimild til að veita tímabundna undanþágu til 1. mars 2017 frá nánar tilgreindum ákvæðum reglugerðarinnar er varða ferðir hópbifreiða innan lands.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 181/2011 kallar á lagabreytingar hér á landi. Fá þarf lagastoð í frumvarpi til nýrra laga um almenningssamgöngur, sem gert er ráð fyrir að innanríkisráðherra leggi fram á yfirstandandi þingi.
    Reglugerð (ESB) nr. 181/2011 leggur íþyngjandi kvaðir á þá sem gera út áætlunarferðir í hópbifreiðum sem falla undir gildissvið hennar, svo sem um bætur ef ferðir frestast eða falla niður og um þjálfun starfsfólks. Gerðin kann því að auka kostnað rekstraraðila. Samkvæmt ákvæðum gerðarinnar þarf Samgöngustofa að hafa kerfi til að taka á móti kvörtunum vegna ferða í hópbifreiðum, en nú þegar er til staðar kerfi til að taka á móti kvörtunum flugfarþega.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR
nr. 115/2015

frá 30. apríl 2015

um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og
XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)          Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 ( 1 ).

2)          XIII. og XIX. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 36a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/59/EB) í XIII. viðauka við EES-samninginn:

„36aa.     32011 R 0181: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 (Stjtíð. ESB L 55, 28.2.2011, bls. 1).“

2. gr.

Eftirfarandi undirliður bætist við í lið 7f (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004) í XIX. viðauka við EES-samninginn:

„–                 32011 R 0181: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 frá 16. febrúar 2011 (Stjtíð. ESB L 55, 28.2.2011, bls. 1).“

3. gr.

Íslenskur og norskur texti reglugerðar (ESB) nr. 181/2011, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

4. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 1. maí 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

5. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 30. apríl 2015.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

formaður.




Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011
frá 16. febrúar 2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum
og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004.


www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s0638-f_II.pdf


Neðanmálsgrein: 1
    1 Stjtíð. ESB L 55, 28.2.2011, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
    * Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.