Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 640  —  432. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
nr. 188/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi)
við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015, frá 10. júlí 2015, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB frá 21. október 2009 um breytingu á tilskipun 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015, frá 10. júlí 2015, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB frá 21. október 2009 um breytingu á tilskipun 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB felur í sér frekari áherslu en þegar er fyrir hendi á að gera brot gegn reglum um mengun hafs frá skipum refsiverð samkvæmt hegningar- eða sérrefsilögum.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallaði á lagabreytingar hér á landi er hún var tekin upp í EES-samninginn var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB frá 21. október 2009 um breytingu á tilskipun 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum.
    Tilskipun 2009/123/EB er breyting á tilskipun 2005/35/EB sem tekin var upp í EES-samninginn 2009. Breytingin gengur í meginatriðum út á það að leggja frekari áherslu á að gera brot gegn reglum um mengun hafs frá skipum refsiverð samkvæmt hegningar- eða sérrefsilögum. Slík refsiábyrgð á að falla á einstaklinga en einnig er til þess tekið að leggja beri ábyrgð á lögaðila sem að málinu koma og annað útiloki ekki hitt. Skilyrði refsiábyrgðar eru almenn saknæmisskilyrði, ásetningur eða stórfellt gáleysi ásamt því að verknaður rýri vatnsgæði. Ekki er gert ráð fyrir að refsað sé fyrir smáleg brot sem rýra ekki vatnsgæði en gert er ráð fyrir að ítrekuð slík brot eigi þó að leiða til refsiábyrgðar.
    Tilskipunin felur ekki í sér skilyrði um beitingu ( e. application) og lögsaga hennar er háð löggjöf hvers ríkis um sig. Tilskipunin kveður ekki á um hversu háar sektir eða hversu löng fangelsisrefsing skuli liggja við viðkomandi brotum, heldur aðeins hvers konar umhverfisbrot skuli talin refsiverð, hverjir skuli bera refsiábyrgð og hvers konar þátttaka í brotum skuli talin refsiverð.
    Auka þarf fjárveitingu til lögreglu til að unnt sé að rannsaka þau brot sem tilkynnt er um og þeim lokið þannig að markmiðum tilskipunarinnar verði náð.
    Refsilöggjöf er ekki hluti af EES-samningnum en þar sem gerðin er breyting á tilskipun 2005/35/EB sem þegar hefur verið tekin upp í EES-samninginn og markmið tilskipunarinnar er að samræma refsiákvæði við brotum gegn þeirri löggjöf var gerð aðlögun við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn þar sem m.a. er lýst yfir því að upptaka gerðarinnar hafi ekki fordæmisgildi hvað varðar aðra löggjöf sem innihaldi refsiákvæði.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2009/123 kallar á breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda. Gert er ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra muni leggja fram frumvarp til breytinga á lögunum á yfirstandandi löggjafarþingi og að frumvarpið feli einnig í sér breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem innleiði tilskipun 2009/123, um vernd umhverfisins með refsiákvæðum.
    Breyta þarf lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og kveða þarf á um og útvíkka refsiábyrgð lögaðila til að koma á hliðsettu kerfi og kveðið er á um í tilskipuninni. Í tengslum við innleiðingu tilskipunarinnar þarf að skoða hvort gera þurfi einhverjar breytingar á samstarfi umhverfisyfirvalda, lögreglu og ákæruvalds þegar um refsiverð umhverfisbrot er að ræða, þar sem um mjög sérhæfða löggjöf er að ræða.
    Kostnaður við innleiðingu tilskipunarinnar hefur ekki verið metinn með formlegum hætti en áhrif frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til innleiðingar á tilskipuninni verða kostnaðarmetin venju samkvæmt.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR
nr. 188/2015

frá 10. júlí 2015

um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)          Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB frá 21. október 2009 um breytingu á tilskipun 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum ( 1 ).

2)          XIII. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Ákvæði XIII. viðauka við EES-samninginn breytist sem hér segir:

1.         Texti aðlögunarliðar í lið 56v (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB) falli brott.

2.         Eftirfarandi bætist við í lið 56v (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB):

        „eins og henni var breytt með:

        –              32009 L 0123: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB frá 21. október 2009 (Stjtíð. ESB L 280, 27.10.2009, bls. 52).“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/123/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 11. júlí 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 10. júlí 2015.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Atle Leikvoll

formaður.



Fylgiskjal II.


Sameiginleg yfirlýsing samningsaðila


vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015 frá 10. júlí 2015 sem fellir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB inn í EES-samninginn

„Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB byggir á 80. gr. EB-sáttmálans (nú 100. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins) og miðar að því að bæta siglingaöryggi og auka vernd sjávarumhverfis. Þessu skal náð fram með beitingu lagalegra úrræða sem kveðið er á um í refsirétti. Samningsaðilar hafa komið sér saman um að tilskipun þessi skuli felld inn í EES-samninginn. Samningsaðilar eru á einu máli um að upptaka tilskipunar 2009/123/EB sé með fyrirvara um gildissvið EES-samningsins og taka mið af því að í kjölfar gildistöku sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins geti löggjafi ESB samþykkt lágmarksreglur skv. 2. mgr. 83. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins um skilgreiningu refsiverðra brota og viðurlaga í sérstökum málaflokki ESB ef „nauðsynlegt reynist […] til að tryggja skilvirka framkvæmd stefnu Sambandsins á sviði þar sem samræmingarráðstafanir hafa verið gerðar“. Framtíðarlagaákvæði sem verða samþykkt skv. 2. mgr. 83. gr. munu ekki varða EES.“


Fylgiskjal III.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/123/EB frá 21. október 2009 um breytingu á tilskipun 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín
um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum.


www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s0640-f_III.pdf


Neðanmálsgrein: 1
    1 Stjtíð. ESB L 280, 27.10.2009, bls. 52.
Neðanmálsgrein: 2
    * Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.