Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 642  —  434. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015, frá 10. júlí 2015, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang (endursamin).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015, frá 10. júlí 2015, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang (endursamin).
    Tilskipun 2012/19/ESB felur í sér endurútgáfu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang. Í tilskipuninni eru nokkur nýmæli, einkum að því er varðar flokkun, söfnun, endurnýtingu og förgun á raf- og rafeindatækjum.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallaði á lagabreytingar hér á landi er hún var tekin upp í EES- samninginn var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES- samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang (endurútgefin).
    Um er að ræða endurútgáfu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang sem innleidd hefur verið hér á landi með lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Einnig eru í tilskipuninni nokkur nýmæli og eru þau helstu rakin hér á eftir.
    Í tilskipuninni er lögð fram ný flokkun á raf- og rafeindatækjum. Raf- og rafeindatæki eru flokkuð í tíu flokka og gildir það fyrirkomulag til 15. ágúst 2018. Eftir það verða tækin flokkuð í 6 flokka. Í tilskipuninni er að finna lista yfir raf- og rafeindatæki sem falla undir hvern flokk.
    Í tilskipuninni eru sett fram ný markmið um söfnun á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Frá árinu 2016 á söfnunarhlutfallið að vera að lágmarki 45%. Frá árinu 2019 á söfnunarhlutfallið að vera að lágmarki 65% eða 85% af þeim raf- og rafeindatækjaúrgangi sem fellur til í aðildarríkinu. Fram til 31. desember 2015 á að vera áfram í gildi söfnunarmarkmið um að safna eigi a.m.k. 4 kg að meðaltali af raf- og rafeindatækjaúrgangi frá heimilum á hvern íbúa á ári eða sama magn raf- og rafeindatækjaúrgangs og var safnað að meðaltali í aðildarríkinu síðustu þrjú ár, hvort sem er hærra.
    Jafnframt eru í tilskipuninni sett fram ný markmið um endurnýtingu. Frá 13. ágúst 2012 til 14. ágúst 2015 á hlutfall endurnýtingar að vera á bilinu 70–80% og hlutfall endurvinnslu á bilinu 50–80%, eftir flokkum raf- og rafeindatækja. Þar sem tímabilið er liðið gildir markmiðið frá gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar hér á landi. Önnur markmið munu gilda hér á landi svo sem hér segir: Frá 15. ágúst 2015 til 14. ágúst 2018 á hlutfall endurnýtingar að vera á bilinu 75–85% og hlutfall endurvinnslu og undirbúnings fyrir endurnotkun á bilinu 55–80%, eftir flokkum raf- og rafeindatækja. Frá 15. ágúst 2018 á hlutfall endurnýtingar að vera á bilinu 75–85% og hlutfall endurvinnslu og undirbúnings fyrir endurnotkun á bilinu 55–80%, eftir flokkum raf- og rafeindatækja.
    Aðildarríkin eiga að tryggja að allur safnaður raf- og rafeindatækjaúrgangur fái meðhöndlun við hæfi og banna förgun á söfnuðum raf- og rafeindatækjaúrgangi, sem hefur ekki fengið þá meðhöndlun.
    Aðildarríkin mega hvetja framleiðendur til að fjármagna kostnað vegna söfnunar raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum til söfnunarstöðva.
    Aðildarríkin skulu hafa sérstakt eftirlit með raf- og rafeindatækjaúrgangi sem fluttur er úr landi og tryggja að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir í samræmi við reglugerð um flutning úrgangs. Kostnaður við eftirlit, sýnatöku og geymslu má leggjast á framleiðanda, þriðja aðila á vegum framleiðanda eða flutningsaðila.
    Fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang frá heimilum eiga aðildarríkin að tryggja að dreifingaraðilar smásöluverslana, þar sem sölusvæði tengt raf- og rafeindatækjum er a.m.k. 400 m 2 eða í námunda við það, sjái fyrir söfnun mjög lítilla raf- og rafeindatækja (ekkert ytra mál lengra en 25 cm) án endurgjalds og án nokkurrar skuldbindingar til að kaupa sams konar raf- eða rafeindatæki í staðinn, nema mat sýni að núverandi söfnunarkerfi séu líklegri til að vera a.m.k. jafn áhrifarík.
    Í tilskipuninni koma fram auknar kröfur til skráningar í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda en það er Umhverfisstofnun sem heldur utan um skráningarkerfið. Framleiðandi á að leggja fram ákveðnar upplýsingar og geta skráð þessar upplýsingar í skráningarkerfið í gegnum netið.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2012/19/ESB kallar á breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og leggur umhverfis- og auðlindaráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 55/2003 samhliða framlagningu þessarar tillögu til þingsályktunar.
    Kostnaður af framkvæmd tilskipunarinnar leggst á framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja, sbr. framleiðendaábyrgð, og er það kerfi nú þegar komið á. Úrvinnslugjald er lagt á raf- og rafeindatæki samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, sem er ætlað að fjármagna og tryggja meðhöndlun á raf- og rafeindatækjaúrgangi og fjármagna upplýsingagjöf, skráningarkerfi og eftirlit.
    Vegna innleiðingar þessarar tilskipunar þarf að uppfæra tölvubúnað Umhverfisstofnunar til þess að framleiðendur og innflytjendur geti sett upplýsingar inn í skráningarkerfið í gegnum netið. Áætlað er að stofnkostnaður við þá uppfærslu á tölvukerfi stofnunarinnar sé um 20 millj. kr. en kostnaðaráhrif frumvarpsins verða metin áður en frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni verður lagt fram á Alþingi.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR
nr. 195/2015

frá 10. júlí 2015

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang (endursamin) ( 1 ).

2)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2012/19/ESB fellur úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB ( 2 ), en sú gerð hefur verið felld inn í EES-samninginn og ber því að fella hana úr EES-samningnum.

3)         XX. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Texti liðar 32fa (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB) í XX. viðauka við EES- samninginn hljóði svo:

32012 L 0019: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang (endursamin) (Stjtíð. ESB L 197, 24.7.2012, bls. 38).“

2. gr.

Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2012/19/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi 11. júlí 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 10. júlí 2015.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Atle Leikvoll

formaður.Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012
um raf- og rafeindabúnaðarúrgang (endurútgefin).


www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s0642-f_II.pdf

Neðanmálsgrein: 1
    1 Stjtíð. ESB L 197, 24.7.2012, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Stjtíð. ESB L 37, 13.2.2003, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 3
    * Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.