Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 645  —  436. mál.Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd stofnsamning Innviðafjárfestingabanka Asíu sem undirritaður var í Peking 29. júní 2015.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda stofnsamning Innviðafjárfestingabanka Asíu (e. Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB, hér eftir nefndur ,,innviðafjárfestingabankinn“ eða ,,bankinn“). Stofnsamningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Ríkisstjórn Íslands ákvað í mars sl., að tillögu fjármála- og efnahagsráðherra og utanríkisráðherra, að Ísland mundi sækjast eftir því að vera meðal stofnaðila að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Erindi þar að lútandi var samþykkt án athugasemda í apríl sl. af hálfu þáverandi stofnaðildarríkja. Stofnskjöl bankans voru síðan formlega undirrituð af hálfu Íslands og fleiri ríkja hinn 29. júní 2015 í Peking.
    Innviðafjárfestingabanki Asíu er fjölþjóðlegur þróunarbanki sem mun styðja við aðgerðir til að efla innviði í Asíu sem er sá hluti heimsins þar sem hagvöxtur er hvað mestur. Þessi þróun kallar m.a. á stóraukna uppbyggingu innviða í Asíu til að auðvelda flæði vöru og þjónustu innan Asíu og milli Asíu og fjarlægari svæða, svo sem Evrópu, Mið-Austurlanda og Afríku. Fyrir liggur að í álfunni verður að eiga sér stað gríðarleg uppbygging samgöngukerfa, orkukerfa, fjarskiptakerfa o.fl. Er almennt talið að uppbyggingin sé af slíkri stærðargráðu að bankar eins og Alþjóðabankinn og Þróunarbanki Asíu séu einir og sér ekki nægilega sterkir til að ráða við slík verkefni. Starfsemi bankans mun því styðja við starfsemi annarra fjölþjóðlegra þróunarbanka sem þegar sinna fjármögnun innviðauppbyggingar í þessum heimshluta.
    Flest Evrópuríki, þ.m.t. öll norrænu ríkin, hafa unnið að stofnun bankans ásamt ríkjum Asíu. Aðild Íslands að innviðafjárfestingabankanum mun styrkja enn frekar góð samskipti Íslands og Asíuríkja og styðja við nýja vaxtarbrodda á viðskiptasviðinu sem getur þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf í Asíu, auk þess að gera Ísland sýnilegra á þessu stærsta vaxtarsvæði heimsins. Stofnaðild að bankanum mun færa Íslandi ákveðið forskot þar sem hún felur í sér beina aðkomu að samningaviðræðum um allan stofnanalegan og lagalegan ramma bankans, rekstur hans og forgangssvið og tryggir þannig eins og kostur er að tekið sé tillit til íslenskra hagsmuna strax í byrjun. Einnig munu stofnaðilar njóta sterkari atkvæðastöðu innan bankans en ríki sem verða aðilar að honum síðar.
    Í stofnsamningi bankans (e. Asian Infrastructure Investment Bank Articles of Agreement), sem er fylgiskjal með tillögu þessari, kemur fram að tilgangur hans sé að stuðla að sjálfbærri efnahagsþróun, auka verðmæti og bæta innviðatengingar í Asíu með fjárfestingum í innviðum og öðrum virðisaukandi geirum. Auk þess muni bankinn stuðla að svæðisbundinni samvinnu og samstarfi til að taka á áskorunum í þróunarmálum, með því að vinna í nánu samstarfi við aðrar fjölþjóðlegar og tvíhliða þróunarsamvinnustofnanir. Bankanum er í þessu skyni ætlað að stuðla að fjárfestingu fjármagns í opinberri eigu og einkaeigu í þróunarverkefnum á svæðinu, einkum þróun innviða og annarra virðisaukandi geira. Bankinn mun einbeita sér sérstaklega að verkefnum sem stuðla að hagvexti á svæðinu í heild með sérstöku tilliti til þarfa fátækustu ríkjanna. Bankinn muni jafnframt stuðla að einkafjárfestingu í verkefnum og fyrirtækjum sem styðja við efnahagslega hagsæld svæðisins. Starfsemi bankans er ætlað að byggja á grunngildum góðrar bankastarfsemi (e. sound banking principles) og er gert ráð fyrir að verkefni sem bankinn taki þátt í að fjármagna hafi jákvæð þróunaráhrif og skili eðlilegum arði. Þróunarsamvinnunefnd OECD (DAC) mun á næstu mánuðum skera úr um hvort stofnfjárframlög til bankans muni teljast að fullu til opinberrar þróunaraðstoðar (ODA). Er talið líklegt að svo verði, en mörg Evrópuríki hafa talað fyrir málinu.
    Sambærilegt fyrirkomulag verður á stjórnun bankans og öðrum alþjóðlegum fjármálastofnunum. Æðsta stjórn bankans mun verða bankaráð (e. Board of Governors) sem verður skipað fulltrúum allra aðildarríkja. Bankaráðið mun kjósa 12 manna stjórn bankans, ásamt því að kjósa forstjóra bankans. Þá munu aðildarríki mynda svokölluð kjördæmi sem tilnefna aðalfulltrúa og tvo varafulltrúa í stjórn bankans. Kjördæmin verða 12 talsins, níu innan Asíu og þrjú utan Asíu. Af þeim þremur kjördæmum sem falla í skaut ríkja utan Asíu, munu tvö koma í hlut stofnaðildarríkja frá Evrópu. Fyrirséð er að Ísland muni tilheyra kjördæmi, þar sem önnur ríki verða öll norrænu ríkin, nema Finnland, og síðan Bretland, Pólland og Sviss. Hitt kjördæmið sem falla mun Evrópuríkjum í skaut verður skipað ríkjum sem hafa evru sem gjaldmiðil. Samningaviðræður hafa farið fram um innra skipulag kjördæmisins. Standa samningaviðræðurnar þannig að Íslandi mun bjóðast að tilnefna varafulltrúa í stjórn bankans árið 2016 og síðan aftur árin 2022–24. Stofnaðilar sem hafa ekki fullgilt stofnsamning bankans geta ekki tekið sæti í stjórn.
    Gert er ráð fyrir að bankinn verði formlega stofnsettur fyrir næstu áramót, áramótin 2015–2016, en taki formlega til starfa í janúar 2016 þegar fyrsta stjórn bankans verður kosin. Til að verða fullgildur aðili frá stofnsetningu bankans þarf Ísland að fullgilda samninginn fyrir 31. desember 2016, sbr. 58. gr. stofnsamningsins. Nauðsynlegt er einnig að fullgilda stofnsamninginn fyrir áramótin 2015–2016 ef Ísland á að geta tilnefnt varafulltrúa í stjórn bankans á fyrsta starfsárinu og með því haft áhrif frá upphafi á mótun starfseminnar til framtíðar.

2. Stofnfé og fjármögnun bankans.
    Heildarstofnfé bankans mun nema 100 milljörðum Bandaríkjadala. Miðað er við að innborgað hlutafé stofnaðila nemi fimmtungi af þeirri heildarfjárhæð og að hún greiðist inn á fimm árum. Utan þessa stofnfjár mun bankinn alfarið fjármagna sig á markaði og án sérstakra ábyrgða frá stofnaðilum.
    Heildarskuldbinding Íslands varðandi stofnfé bankans nemur um 17,6 milljónum Bandaríkjadala eða 0,0179% af stofnfé sem samsvarar um 2,3 mia.kr. Atkvæðavægi Íslands verður 0,2778% sem er ríflega fimmtánfalt miðað við stofnfjárhlut Íslands. Fimmtungur stofnfjárins verður innborgaður en fjórir fimmtu hlutar stofnfjárins er innkallanlegt stofnfé. Sá hluti stofnfjárins sem er innborgaður greiðist með fimm jöfnum greiðslum. Fyrsta greiðslan fer fram 30 dögum eftir að bankinn tekur til starfa, næsta greiðsla ári síðar og það sem eftir stendur verður greitt árlega eftir það. Í 4. gr. frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2015, lið 7.10, hefur fjármála- og efnahagsráðherra leitað eftir heimild Alþingis til að takast á hendur umrædda heildarskuldbindingu af hálfu Íslands. Þá er í fjárlögum fyrir árið 2016 sótt um heimild fyrir greiðslu á 100 m.kr. og gert er ráð fyrir að sama fjárhæð verði greidd árlega næstu fjögur ár þar á eftir í samræmi við skuldbindingu ríkisins.

3. Friðhelgi og forréttindi samkvæmt ákvæðum stofnsamningsins.
    Í stofnsamningi bankans er gert ráð fyrir ákveðnum forréttindum og friðhelgi eigna bankans og starfsmanna hans. Þessi ákvæði samsvara þeim reglum sem almennt gilda um alþjóðlegar fjármálastofnanir og alþjóðastofnanir. Litlar sem engar líkur eru taldar á því að bankinn muni hafa formlega starfsemi á Íslandi. Engu að síður fela þessi ákvæði í sér formlegar skuldbindingar Íslands gagnvart bankanum.
    Með lögum um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, nr. 98/1992, var skapaður almennur lagagrundvöllur fyrir slík réttindi alþjóðastofnana þannig að ekki þyrfti að setja sérlög um friðhelgi og forréttindi einstakra alþjóðastofnana, starfsliðs þeirra eða erindreka hverju sinni. Við fullgildingu stofnsamnings Innviðafjárfestingabanka Asíu munu umrædd lög gilda um bankann eins og aðrar sambærilegar alþjóðlegar stofnanir.

4. Einstakir kaflar stofnsamningsins.
    Aðfaraorð stofnsamningsins endurspegla ástæður þess að bankinn er stofnaður, sem eru mikilvægi svæðisbundins samstarfs og uppbyggingar innviða til að stuðla að hagvexti og efla efnahagslega og félagslega þróun í Asíu. Fram kemur að þörf sé fyrir frekari langtímafjármögnun til verksins, sem verður betur mætt í samstarfi við aðra fjölþjóðlega þróunarbanka.
    Í 1. kafla stofnsamningsins er fjallað um tilgang, hlutverk og aðild að bankanum. Áður hefur verið fjallað um tilgang og hlutverk bankans í inngangskafla og vísast til umfjöllunar þar. Starfssvæði bankans er Asía og Eyjaálfa. Aðild að bankanum geta þau ríki átt sem eiga aðild að Alþjóðabankanum (Alþjóðlega endurreisnar- og þróunarbankanum, IBRD) og Þróunarbanka Asíu (ADB) en þó er gert ráð fyrir því að hægt verði að veita öðrum ríkjum aðild samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Gerður er greinarmunur á aðildarríkjum innan og utan starfssvæðis bankans og er stofnfé og stjórnarsætum skipt á milli ríkja innan svæðis og utan svæðis.
    Í 2. kafla stofnsamningsins er fjallað um stofnfé bankans, greiðslu þess o.fl. Heildarstofnfé bankans mun nema 100 milljörðum Bandaríkjadala. Miðað er við að innborgað hlutafé stofnaðila nemi fimmtungi af þeirri heildarfjárhæð og að það greiðist inn á fimm árum. Ríki innan starfssvæðis bankans greiða 75% stofnfjár og ríki utan svæðis 25%.
    Í 3. kafla er fjallað almennt um rekstur bankans, starfssvið og helstu gildi hans. Starfsemi bankans skiptist í reglubundin verkefni sem eru fjármögnuð með eigin fjármunum bankans og sérstökum sjóðum sem geta t.d. byggst á frjálsum framlögum aðildarríkja. Sérstakir sjóðir geta falið í sér styrki til verkefna og er lögð áhersla á að slík verkefni séu aðgreind með skýrum hætti frá reglubundnum verkefnum. Bankinn getur fjármagnað verkefni innan aðildarríkja, hvort sem verkefnin eru á vegum ríkis, héraðsstjórna, sveitarfélaga eða einkaaðila. Einnig getur bankinn fjármagnað verkefni á vegum alþjóðastofnana. Bankinn getur unnið að markmiðum sínum með ólíkum aðferðum, þ.m.t. með lánveitingum, hlutafjárkaupum, ábyrgðum, nýtingu sérstakra sjóða og tæknilegri aðstoð. Lánveitingar og aðrar fjárfestingar bankans geta numið allt að 250% af stofnfé. Starfsemi bankans er ætlað byggjast á grunngildum góðrar bankastarfsemi (e. sound banking principles). Í þessu felst m.a. að lánakjör byggjast á mati á áhættu bankans.
    Í 4. kafla stofnsamningsins er frekar kveðið á um fjármögnun bankans og ábyrgðir. Bankinn aflar fjár með lántökum. Honum er heimilt að kaupa og selja verðbréf og fjárfesta þá fjármuni sem ekki eru nýttir í starfsemi bankans. Fjallað er um sérstaka sjóði sem tengjast hlutverki bankans. Bankaráð ákveður árlega ráðstöfun hagnaðar bankans. Heimilt er að ráðstafa hagnaði til að byggja upp eigið fé eða greiða arð til aðildarríkja.
    Í 5. kafla er fjallað um stjórnunarhætti bankans. Yfirstjórn bankans er í höndum bankaráðs (e. Board of Governors), stjórnar bankans, forseta og varaforseta. Hvert ríki skipar einn fulltrúa og annan til vara í bankaráð. Bankaráðið velur einn fulltrúa sem formann bankaráðsins. Bankaráðið er æðsta stjórn bankans og fer með allar valdheimildir hans. Meðal hlutverka bankaráðs er að samþykkja ný aðildarríki, taka ákvarðanir um breytingar á stofnfé, kjósa stjórn bankans, kjósa forseta bankans og taka ákvarðanir um ráðstöfun hagnaðar. Stjórn bankans er skipuð tólf stjórnarmönnum og eru níu kjörnir frá kjördæmum innan starfssvæðis bankans en þrír frá kjördæmum utan starfssvæðis bankans. Hver stjórnarmaður getur skipað einn eða tvo varamenn. Stjórnarstörf eru ólaunuð. Stjórnin er ábyrg fyrir stefnu og starfsemi bankans. Hún ákvarðar stefnuskjöl bankans og tekur ákvarðanir um mikilvæg mál í umboði bankaráðs. Hver stjórnarmaður fer með atkvæði þeirra aðildarríkja sem standa að baki kjöri hans í viðkomandi kjördæmi. Heimilt er hverju ríki að gefa fyrirmæli um sérstaka ráðstöfun atkvæða. Forseti bankans skal kjörinn í opnu ferli á grundvelli hæfni til fimm ára í senn. Forseti er jafnframt formaður stjórnar bankans.
    Í 6. kafla er að finna almenn ákvæði um starfsstöð bankans, samskipti, upplýsingagjöf o.fl. Aðalskrifstofa bankans verður í Peking og fer starfsemi hans fram á ensku.
    Í 7. kafla er að finna ákvæði um afturköllun og sviptingu aðildar einstakra aðildarríkja og í 8. kafla er að finna ákvæði um stöðvun eða slit á starfsemi bankans.
    Í 9. kafla eru ákvæði er lúta að stöðu bankans og réttindum gagnvart aðildarríkjum og friðhelgi starfsmanna og eigna. Þessi ákvæði eru samsvarandi ákvæðum sem almennt gilda um alþjóðlegar fjármálastofnanir og alþjóðastofnanir.
    Í 10. kafla er fjallað um breytingar á stofnsamningi, túlkun hans og lausn ágreiningsmála. Bankaráð getur samþykkt breytingar á stofnsamningi með auknum meiri hluta atkvæða.
    Í 11. kafla eru ákvæði um undirritun stofnsamnings, gildistöku og fullgildingu aðildarríkja. Stofnsamningurinn tekur gildi þegar a.m.k. 10 ríki sem ráða yfir a.m.k. 50% stofnfjár hafa fullgilt samninginn.


Fylgiskjal.


INNVIÐAFJÁRFESTINGABANKI ASÍU
STOFNSAMNINGUR


     Samningurinn er undirritaður fyrir hönd ríkja sem hafa komið sér saman um eftirfarandi:
    Að teknu tilliti til mikilvægis svæðisbundinnar samvinnu til að viðhalda vexti og efla efnahagslega og félagslega þróun hagkerfa í Asíu og stuðla þar með að viðnámsþrótti álfunnar gegn hugsanlegum fjármálakreppum og öðrum ytri áföllum á hnattræna vísu,
    Með gildi þróunar innviða í huga til að auka tengingar milli svæða og bæta svæðisbundna samvinnu og stuðla þar með að hagvexti og styðja félagslega þróun í Asíu ásamt því að efla áhrifamátt hnattræna hagkerfisins,
    Vitandi að umtalsverð þörf fyrir langtímafjármögnun þróunar innviða í Asíu verður betur mætt með samstarfi núverandi fjölþjóðlegra þróunarbanka og Innviðafjárfestingabanka Asíu (hér á eftir nefndur „bankinn“),
    Sannfærð um að stofnun bankans, sem marghliða fjármálastofnunar með áherslu á þróun innviða, mun stuðla að því að afla nauðsynlegra aukafjármuna innan og utan Asíu og fjarlægja flöskuhálsa í fjármögnun, sem einstök hagkerfi Asíu búa við, og aðstoða núverandi fjölþjóðlega þróunarbanka við að efla sjálfbæran og stöðugan vöxt í Asíu,
    Hafa komið sér saman um að stofna banka, sem starfar í samræmi við eftirfarandi:

I. KAFLI
TILGANGUR, HLUTVERK OG AÐILD
1. gr.
Tilgangur

1.    Tilgangur bankans er: i) að hlúa að sjálfbærri hagþróun, skapa auð og bæta tengingu innviða í Asíu með því að fjárfesta í innviðum og öðrum framleiðniaukandi geirum og ii) að stuðla að svæðisbundinni samvinnu og samstarfi til að taka á áskorunum í þróunarmálum með því að vinna í nánu samstarfi við aðrar fjölþjóðlegar og tvíhliða þróunarsamvinnustofnanir.
2.    Hvar sem orðin „Asía“ og „svæði“ eru notuð í þessum samningi skulu þau fela í sér landfræðileg svæði og uppbyggingu sem Sameinuðu þjóðirnar flokka undir Asíu og Eyjaálfu, nema annað sé tekið fram af hálfu bankaráðs.

2. gr.
Hlutverk

    Bankinn gegnir eftirfarandi hlutverkum til að ná fram tilgangi sínum:
    i.    að stuðla að fjárfestingu opinbers fjármagns og einkafjármagns á svæðinu í þróunar skyni, einkum þróun innviða og annarra framleiðniaukandi geira,
    ii.    að nýta fjármuni sem hann ræður yfir til að fjármagna slíka framþróun á svæðinu, þ.m.t. þau verkefni og áætlanir sem stuðla á hvað skilvirkastan hátt að samræmdum hagvexti á svæðinu í heild og með sérstöku tilliti til þarfa fátækustu ríkjanna á svæðinu,
    iii.    að hvetja til einkafjárfestingar í verkefnum, fyrirtækjum og starfsemi sem stuðlar að hagþróun á svæðinu, einkum í innviðum og öðrum framleiðniaukandi geirum, og að bæta við einkafjárfestingu þegar einkafjármagn er ekki fáanlegt með eðlilegum skilmálum og skilyrðum og
    iv.    að sinna annarri starfsemi og veita aðra þjónustu sem kann að koma þessum hlutverkum að gagni.

3. gr.
Aðild

1.    Aðild að bankanum er opin aðilum að Alþjóðlega endurreisnar- og þróunarbankanum eða Þróunarbanka Asíu.
    a.    Svæðisbundnir aðilar skulu vera þeir sem taldir eru upp í A-hluta fylgiskjals A og aðrir aðilar sem falla undir svæði Asíu í samræmi við 2. mgr. 1. gr. Allir aðrir aðilar skulu vera aðilar sem ekki eru svæðisbundnir.
    b.    Stofnaðilar skulu vera þeir aðilar sem taldir eru upp í fylgiskjali A sem á þeim degi sem tilgreindur er í 57. gr., eða fyrir þann dag, hafa undirritað þennan samning og skulu þeir hafa uppfyllt öll önnur skilyrði aðildar fyrir lokadagsetninguna sem tilgreind er í 1. mgr. 58. gr.
2.    Heimilt er að veita þeim aðilum Alþjóðlega endurreisnar- og þróunarbankans eða Þróunarbanka Asíu, sem verða ekki aðilar í samræmi við 58. gr. aðild að bankanum, með þeim skilmálum og skilyrðum sem hann ákveður, með atkvæði sérstaks meirihluta bankaráðs eins og kveðið er á um í 28. gr.
3.    Ef um er að ræða umsækjanda sem er ekki fullvalda eða ber ekki ábyrgð á að sinna alþjóðasamskiptum sínum skal sá aðili að bankanum sem annast þau alþjóðasamskipti kynna eða samþykkja umsókn hans um aðild að bankanum.

II. KAFLI
STOFNFÉ

4. gr.
Samþykkt stofnfé

1.    Samþykkt stofnfé bankans er eitt hundrað milljarðar bandaríkjadala ($100.000.000.000), deilt niður á eina milljón (1.000.000) hluta sem eru 100.000 dalir ($100.000) hver og geta einungis aðilar í samræmi við ákvæði 5. gr. skráð sig fyrir því.
2.    Upphaflegu samþykktu stofnfé er skipt í innborguð hlutabréf og innkallanleg hlutabréf. Hlutabréf sem að samanlögðu nafnvirði nema tuttugu milljörðum dala ($20.000.000.000) skulu vera innborguð hlutabréf og hlutabréf sem að samanlögðu nafnvirði nema áttatíu milljörðum dala ($80.000.000.000) skulu vera innkallanleg.
3.    Bankaráði er heimilt er að auka samþykkt stofnfé bankans með auknum meirihluta atkvæða eins og kveðið er á um í 28. gr., á þeim tímapunkti og með þeim skilmálum og skilyrðum sem þykja ráðleg, þ.m.t. hlutfallið á milli innborgaðra og innkallanlegra hlutabréfa.
4.    Hvar sem hugtakið „dalur“ og merkið „$“ eru notuð í þessum samningi skulu þau tákna opinberan greiðslumiðil í Bandaríkjunum.

5. gr.
Áskrift að hlutabréfum

1.    Hver aðili skráir sig fyrir hlutabréfum í bankanum. Hver skráning fyrir upphaflegu samþykktu stofnfé er í innborguðum hlutabréfum og innkallanlegum hlutabréfum í hlutfallinu tveir (2) á móti átta (8). Upphaflegur fjöldi hlutabréfa sem lönd sem gerast aðilar, í samræmi við 58. gr., geta skráð sig fyrir er settur fram í fylgiskjali A.
2.    Upphaflegur fjöldi hlutabréfa sem lönd sem hljóta aðild í samræmi við 2. mgr. 3. gr. geta skráð sig fyrir er ákvarðaður af bankaráði, en að því gefnu að engin slík skráning verði heimiluð sem hefur þau áhrif að lækka hlutfall stofnfjár á hendi svæðisbundinna aðila niður fyrir sjötíu og fimm (75) prósent af skráðu stofnfé í heild, nema bankaráð samþykki annað með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
3.    Bankaráði er heimilt, að beiðni aðila, að auka áskrift þess aðila með þeim skilmálum og skilyrðum sem ráðinu er heimilt að ákvarða með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr., en að því gefnu að engin slík aukning á skráningu nokkurs aðila verði heimiluð sem hefur þau áhrif að lækka hlutfall stofnfjár á hendi svæðisbundinna aðila niður fyrir sjötíu og fimm (75) prósent af skráðu stofnfé í heild, nema bankaráð samþykki annað með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
4.    Bankaráð endurskoðar stofnfé bankans eigi sjaldnar en á fimm (5) ára fresti. Ef samþykkt stofnfé er aukið skal hver aðili fá sanngjarnt tækifæri til að skrá sig, með þeim skilmálum og skilyrðum sem bankaráð ákvarðar, fyrir hlutfalli af aukningu hlutafjár sem jafngildir hlutfallinu sem hlutaféð, sem hann hefur þegar skráð sig fyrir, hefur á móti skráðu stofnfé í heild rétt áður en aukningin fer fram. Enginn aðili er skuldbundinn til að skrá sig fyrir nokkrum hluta stofnfjáraukingar.

6. gr.
Greiðsla áskrifta

1.    Greiðsla þeirrar fjárhæðar sem hver undirritunaraðili þessa samnings, sem gerist aðili í samræmi við 58. gr., skráir sig upphaflega fyrir og verður innborgað stofnfé bankans er gerð með fimm (5) afborgunum sem eru tuttugu (20) prósent hver af fjárhæðinni, nema eins og kveðið er á um í 5. mgr. þessarar greinar. Hver aðili skal greiða fyrstu afborgun innan þrjátíu daga (30) frá gildistöku þessa samnings, eða daginn fyrir þann dag sem skjal hans um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki er lagt fram fyrir hans hönd, í samræmi við 1. mgr. 58. gr., eftir því hver daganna er síðastur. Önnur afborgun fellur í gjalddaga einu (1) ári frá gildistöku þessa samnings. Þær þrjár (3) afborganir sem eftir eru skulu falla í gjalddaga hver af annarri einu (1) ári frá þeim degi þegar næsta afborgun á undan féll í gjalddaga.
2.    Greiða ber hverja afborgun upphaflegra áskrifta að upphaflegu innborguðu stofnfé í dölum eða öðrum auðskiptanlegum gjaldmiðli, nema eins og kveðið er á um í 5. mgr. þessarar greinar. Bankanum er heimilt að skipta slíkum slíkum greiðslum í dali hvenær sem er. Engin réttindi, þ.m.t. atkvæðisréttur, sem fylgja innborguðum hlutabréfum og tengdum innkallanlegum hlutabréfum sem eiga við slíkar greiðslur sem hafa gjaldfallið en ekki borist, skulu gilda fyrr en bankinn hefur móttekið þær að fullu.
3.    Greiðsla fjárhæðar fyrir áskrift að innkallanlegum hlutabréfum bankans skal einungis innkölluð ef og þegar bankinn fer fram á það til að uppfylla skuldbindingar sínar. Eigi slík innköllun sér stað má aðili ráða hvort hann innir greiðslu af hendi í dölum eða í þeim gjaldmiðli sem krafist er til að uppfylla þá skuldbindingu bankans sem er ástæða innköllunarinnar. Sama prósenta skal notuð á öll innkallanleg hlutabréf við innköllun ógreiddra áskrifta.
4.    Bankinn ákvarðar stað fyrir allar greiðslur samkvæmt þessari grein, að því tilskildu, fram að stofnfundi bankaráðs, að greiðsla afborgunar sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar sé gerð til ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína, sem fjárvörsluaðila bankans.
5.    Aðila, sem telst vera meðal fátækustu ríkja að því er varðar þessa málsgrein, er heimilt að greiða áskrift sína samkvæmt 1. og 2. mgr. þessarar greinar, eins og hann kýs, annað hvort:
    a.    eingöngu í dölum eða öðrum auðskiptanlegum gjaldmiðli í allt að tíu (10) afborgunum, þar sem hver afborgun jafngildir tíu (10) prósent af heildarfjárhæðinni, fyrsta og önnur afborgun falla í gjalddaga eins og kveðið er á um í 1. mgr. og þriðja til tíunda afborgun tveimur árum frá gildistöku þessa samnings og árlega þaðan í frá, eða
    b.    með hluta í dölum eða öðrum auðskiptanlegum gjaldmiðli og allt að fimmtíu (50) prósentum hverrar afborgunar í gjaldmiðli aðilans, samkvæmt afborgunaráætluninni sem kveðið er á um í 1. mgr. þessarar greinar. Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um greiðslur samkvæmt þessari undirgrein (b):
            i.    Aðili skal skýra bankanum frá því við áskrift samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar hve stór hluti greiðslunnar verður í hans eigin gjaldmiðli.
            ii.    Hver greiðsla aðila í hans eigin gjaldmiðli samkvæmt þessari 5. mgr. skal nema þeirri fjárhæð sem bankinn telur að jafngildi fullu virði þeirrar áskriftar sem er til greiðslu, í dölum talið. Upphaflega greiðslan skal nema þeirri fjárhæð sem aðilinn telur viðeigandi samkvæmt þessu en vera háð breytingum sem gerðar eru innan níutíu (90) daga frá því slík greiðsla féll í gjalddaga og bankinn telur nauðsynlegar til að slík greiðsla jafngildi að fullu virðinu í dölum talið.
            iii.    Hvenær sem bankinn telur að virði gjaldmiðils aðilans í erlendum gjaldeyri hafi rýrnað umtalsvert skal sá aðili innan hæfilegs frests greiða bankanum viðbótarfjárhæð í gjaldmiðli sínum til að viðhalda virði þess gjaldmiðils í vörslu bankans vegna áskriftar hans.
            iv.    Hvenær sem bankinn telur að virði gjaldmiðils aðilans í erlendum gjaldeyri hafi aukist umtalsvert skal bankinn greiða þeim aðila innan hæfilegs frests þá fjárhæð í gjaldmiðlinum sem þarf til að aðlaga virði þess gjaldmiðils í vörslu bankans vegna áskriftar hans.
            v.    Bankanum er heimilt að fella niður rétt sinn til greiðslu samkvæmt iii. undirgrein og aðilanum er heimilt að fella niður rétt sinn til greiðslu samkvæmt iv. undirgrein.
6.    Bankinn skal samþykja sem greiðslu frá öllum aðilum sem greiða áskrift samkvæmt b-lið 5. undirgreinar þessarar greinar, skuldabréf eða aðrar skuldbindingar útgefnar af ríkisstjórn aðilans, eða af vörslufyrirtæki sem aðilinn hefur tilnefnt, í stað fjárhæðarinnar sem aðilinn skal greiða í gjaldmiðli sínum, að því tilskildu að bankinn þurfi ekki á þeirri fjárhæð að halda til að sinna starfsemi sinni. Þess háttar skuldabréf eða skuldbindingar skulu ekki vera framsemjanlegar, ekki bera vexti og greiðast bankanum á nafnverði þegar farið er fram á það.

7. gr.
Skilmálar hlutabréfa

1.    Hlutabréf sem aðilar skrifa sig upphaflega fyrir skulu gefin út á nafnvirði. Önnur hlutabréf skulu gefin út á nafnvirði nema bankaráð ákvarði með atkvæði sérstaks meirihluta, eins og kveðið er á um í 28. gr., við sérstakar aðstæður að gefa þau út með öðrum skilmálum.
2.    Hlutabréf skulu ekki veðsett eða bera nokkrar kvaðir og einungis skal vera hægt að framselja þau bankanum.
3.    Ábyrgð aðila á hlutabréfum takmarkast við ógreiddan hluta útgáfuverðs þeirra.
4.    Enginn aðili skal vegna aðildar sinnar bera ábyrgð á skuldbindingum bankans.

8. gr.
Venjulegir fjármunir

    Hugtakið „venjulegir fjármunir“ bankans, eins og það er notað í þessum samningi, nær yfir eftirfarandi:
    i.    samþykkt stofnfé bankans, þ.m.t. bæði innborguð og innkallanleg hlutabréf, sem aðilar skrá sig fyrir samkvæmt 5. gr.,
    ii.    fé sem bankinn aflar samkvæmt valdheimildum sem honum eru faldar með 1. mgr. 16. gr., sem skuldbindingin um innköllun sem kveðið er á um í 3. mgr. 6. gr. á við um,
    iii.    fé sem tekið er við sem endurgreiðslu á lánum eða ábyrgðum sem gerð er með fjármunum sem getið er um í i. og ii. undirgrein þessarar greinar, eða sem hagnaði af hlutabréfafjárfestingum, og annars konar fjármögnun sem samþykkt er samkvæmt vi. lið 2. undirgreinar 11. gr. og gerð er með slíkum fjármunum,
    iv.    tekjur af lánum sem veitt eru með fyrrnefndu fé eða af ábyrgðum sem skuldbindingin um innköllun sem sett er fram í 3. mgr. 6. gr. á við um og
    v.    allt annað fé eða tekjur sem renna til bankans og verða ekki hluti af fjármunum sérstakra sjóða sem um getur í 17. gr. þessa samnings.

III. KAFLI
STARFSEMI BANKANS

9. gr.
Notkun fjármuna

    Fjármuni og þjónustu bankans skal einungis nota til að framfylgja þeim tilgangi og hlutverkum sem sett eru fram, eftir því sem við á í 1. og 2. gr. og í samræmi við meginreglur um trausta bankastarfsemi.

10. gr.
Reglubundin og sérstök starfsemi

1.    Starfsemi bankans samanstendur af:
    i.    reglubundinni starfsemi sem fjármögnuð er með venjulegum fjármunum bankans, sem um getur í 8. gr. og
    ii.    sérstakri starfsemi sem fjármögnuð er með fjármunum sérstakra sjóða sem um getur í 17. gr.
    Þessar tvær tegundir starfsemi geta hvor í sínu lagi fjármagnað þætti í sama verkefni eða áætlun.
2.    Venjulega fjármuni og fjármuni sérstakra sjóða bankans skal ávallt og á allan hátt halda algjörlega aðskildum hvort sem verið er að varðveita þá, nota, skuldbinda, fjárfesta eða nýta á annan hátt. Reikningsskil bankans skulu sýna reglubundna starfsemi og sérstaka starfsemi á aðskilinn máta.
3.    Ekki skal undir neinum kringumstæðum gjaldfæra á venjulega fjármuni bankans, eða nota þá til að greiða, tap eða skuldbindingar sem stafa af sérstakri starfsemi eða annarri starfsemi sem fjármunir sérstakra sjóða voru upphaflega notaðir eða skuldbundnir til.
4.    Gjöld sem heyra beint undir reglubundna starfsemi skal gjaldfæra á venjulega fjármuni bankans. Gjöld sem heyra beint undir sérstaka starfsemi skal gjaldfæra á fjármuni sérstakra sjóða bankans. Öll önnur gjöld skal gjaldfæra samkvæmt ákvörðun bankans.

11. gr.
Viðtakendur og starfshættir

1.     a.    Bankanum er heimilt að veita eða greiða fyrir fjármögnun til sérhvers aðila, eða sérhverrar stofnunar, einingar sem gegnir opinberu hlutverki eða sjálfstæðs umdæmis hans, eða sérhverrar einingar eða fyrirtækis sem starfar á svæði aðila, sem og til alþjóðlegra eða svæðisbundinna stofnana eða eininga sem taka þátt í hagþróun á svæðinu.
    b.    Bankanum er heimilt, við sérstakar aðstæður, að veita aðstoð viðtakanda sem ekki er talinn upp í undirgrein a hér að ofan einungis ef bankaráð, með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.: i) hefur ákvarðað að slíkri aðstoð sé ætlað að þjóna tilgangi bankans og falla undir hlutverk hans og þjóni hagsmunum aðildarríkja bankans, og ii) hefur tilgreint þær tegundir aðstoðar samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar sem heimilt er að veita slíkum viðtakanda.
2.    Bankanum er heimilt að sinna starfsemi sinni með einhverjum eftirfarandi hætti:
    i.    með því að veita, fjármagna ásamt öðrum eða taka þátt í beinum lánum,
    ii.    með því að fjárfesta í hlutafé stofnunar eða fyrirtækis,
    iii.    með því að ábyrgjast, annað hvort sem upphaflegur loforðsgjafi eða annar loforðsgjafi, að hluta eða öllu leyti, lán til hagþróunar,
    iv.    með því að nýta fjármuni sérstakra sjóða í samræmi við samninga sem kveða á um notkun þeirra,
    v.    með því að veita tækniaðstoð í samræmi við 15. gr., eða
    vi.    með öðrum tegundum fjármögnunar samkvæmt ákvörðun bankaráðs með atkvæði sérstaks meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.

12. gr.
Takmarkanir á reglubundinni starfsemi

1.    Aldrei skal auka heildarfjárhæð útistandandi lána, hlutabréfafjárfestinga, ábyrgða eða annarra tegunda fjármögnunar sem bankinn veitir í reglubundinni starfsemi sinni samkvæmt i., ii., iii. og vi. lið 2. undirgreinar 11. gr., ef með þess háttar aukningu yrði farið fram yfir heildarfjárhæð óskerts skráðs stofnfjár, varasjóða og óráðstafaðs eigin fjár sem fellur undir venjulega fjármuni hans. Þrátt fyrir ákvæði næstu málsgreinar hér á undan er bankaráði heimilt, með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr., að ákvarða hvenær sem er að á grundvelli efnahags og fjárhagsstöðu bankans sé heimilt að hækka mörkin samkvæmt þessari málsgrein í allt að 250% af óskertu skráðu stofnfé, varasjóðum og óráðstöfuðu eigin fé sem fellur undir venjulega fjármuni bankans.
2.    Fjárhæð greiddra hlutabréfafjárfestinga bankans skal aldrei vera hærri en nemur þeirri fjárhæð sem samsvarar óskertu innborguðu skráðu stofnfé og almennum varasjóðum hans.

13. gr.
Meginreglur starfseminnar

    Starfsemi bankans skal fara fram í samræmi við meginreglurnar sem hér fara á eftir.
1.    Bankinn skal fylgja meginreglum um trausta bankastarfsemi í starfsemi sinni.
2.    Starfsemi bankans skal aðallega snúast um fjármögnun sérstakra verkefna eða sérstakra fjárfestingaráætlana, um hlutabréfafjárfestingar og um tækniaðstoð í samræmi við 15. gr.
3.    Bankinn skal ekki fjármagna fyrirtæki á svæði aðila ef sá aðili er mótfallinn þess háttar fjármögnun.
4.    Bankinn skal tryggja að allar tegundir starfsemi hans séu í samræmi við rekstrar- og fjármálastefnur hans, þ.m.t. án takmarkana, stefnur sem fjalla um umhverfisleg og félagsleg áhrif.
5.    Þegar bankinn tekur umsókn um fjármögnun til athugunar skal hann taka tilhlýðilegt tillit til getu umsækjandans til að afla fjármögnunar eða þjónustu annars staðar, með þeim skilmálum og skilyrðum sem bankinn telur sanngjörn fyrir viðtakandann, að teknu tilliti til allra viðeigandi þátta.
6.    Þegar bankinn veitir eða ábyrgist fjármögnun skal hann taka tilhlýðilegt tillit til líkinda þess að viðtakandinn og ábyrgðaraðilinn, ef við á, verði í stöðu til að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt fjármögnunarsamningnum.
7.    Þegar bankinn veitir eða ábyrgist fjármögnun skulu fjárhagslegir skilmálar, svo sem vextir og önnur gjöld og áætlun um endurgreiðslu höfuðstóls, vera með þeim hætti sem bankinn telur viðeigandi fyrir viðkomandi fjármögnun og áhættuna sem bankinn tekur.
8.    Bankinn skal ekki leggja takmarkanir á innkaup vöru og þjónustu frá nokkru landi fyrir afrakstur fjármögnunar í reglubundinni eða sérstakri starfsemi bankans.
9.    Bankinn skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að afrakstur fjármögnunar sem bankinn veitir, ábyrgist eða tekur þátt í sé einungis notaður í þeim tilgangi sem var ástæða þess að fjármögnunin var veitt og með tilhlýðilegu tilliti til hagkvæmni og skilvirkni.
10.    Bankinn skal taka tilhlýðilegt tillit til kosta þess að forðast að of hátt hlutfall fjármuna hans sé notuð í þágu nokkurs aðila miðað við aðra.
11.    Bankinn leitast við að viðhalda hæfilegri fjölbreytni í fjárfestingum sínum í hlutafé. Í hlutabréfafjárfestingum sínum tekur bankinn ekki ábyrgð á stjórnun einingar eða fyrirtækis sem hann hefur fjárfest í og sækist ekki eftir ráðandi hlut í viðkomandi einingu eða fyrirtæki, nema þegar nauðsyn krefur til að vernda fjárfestingu bankans.

14. gr.
Skilmálar og skilyrði fjármögnunar

1.    Þegar um er að ræða lán sem bankinn veitir eða tekur þátt í, eða lán sem hann ábyrgist, skal samningurinn staðfesta, í samræmi við meginreglur starfseminnar sem settar eru fram í 13. gr. og með fyrirvara um önnur ákvæði þessa samnings, skilmála og skilyrði viðkomandi láns eða ábyrgðar. Við ákvörðun slíkra skilmála og skilyrða skal bankinn taka fullt tillit til nauðsynjar þess að vernda tekjur hans og fjárhagsstöðu.
2.    Sé viðtakandi lána eða lánsábyrgða ekki sjálfur aðili er bankanum heimilt, þegar hann telur ráðlegt, að gera kröfu um að aðili þess svæðis þar sem viðkomandi verkefni á að eiga sér stað, eða ríkisstofnun eða einhver eining þess aðila, sem gegnir opinberu hlutverki og bankinn samþykkir, ábyrgist endurgreiðslu höfuðstólsins og greiðslu vaxta og annarra gjalda af láninu í samræmi við skilmála þess.
3.    Fjárhæð einstakra hlutabréfafjárfestinga skal ekki vera hærri en sú prósenta af hlutafé viðkomandi einingar eða fyrirtækis sem stefnur samþykktar af stjórninni heimila.
4.    Bankanum er heimilt að veita fjármögnun í starfsemi sinni í gjaldmiðli viðkomandi lands, í samræmi við stefnur sem lágmarka gjaldmiðilsáhættu.

15. gr.
Tækniaðstoð

1.    Bankanum er heimilt að veita tækniráðgjöf og -aðstoð og aðra svipaða aðstoð sem þjónar tilgangi hans og fellur undir hlutverk hans.
2.    Ef útgjöld sem falla til við að veita slíka þjónustu eru ekki endurgreiðanleg skal bankinn gjaldfæra slík útgjöld á tekjur bankans.

IV. KAFLI
FJÁRMÁL BANKANS

16. gr.
Almennar valdheimildir

    Auk þeirra valdheimilda sem tilgreindar eru annars staðar í þessum samningi hefur bankinn þær valdheimildir sem fara hér á eftir.
1.    Bankanum er heimilt að afla fjár með lántöku eða öðrum hætti, í aðildarríkjum eða annars staðar, í samræmi við viðeigandi lagaákvæði.
2.    Bankanum er heimilt að kaupa og selja verðbréf sem hann hefur gefið út eða ábyrgst eða sem hann hefur fjárfest í.
3.    Bankanum er heimilt að ábyrgjast verðbréf sem hann hefur fjárfest í til að greiða fyrir sölu þeirra.
4.    Bankanum er heimilt að sölutryggja eða taka þátt í sölutryggingu verðbréfa útgefnum af einingu eða fyrirtæki í tilgangi sem samræmist tilgangi bankans.
5.    Bankanum er heimilt að fjárfesta eða leggja inn fé sem ekki er þörf fyrir í starfsemi hans.
6.    Bankinn tryggir að öll verðbréf sem hann gefur út eða ábyrgist beri á framhliðinni auðsjáanlega yfirlýsingu þess efnis að bréfið sé ekki skuldbinding nokkurrar ríkisstjórnar, nema það sé í raun skuldbinding ákveðinnar ríkisstjórnar og skal það þá koma fram í yfirlýsingunni.
7.    Bankanum er heimilt að stofna og stjórna sjóðum sem varðveittir eru fyrir aðra aðila, að því tilskyldu að slíkum vörslusjóðum sé ætlað að þjóna tilgangi bankans og falla innan hlutverka hans, samkvæmt vörslusjóðsramma sem bankaráð hefur áður samþykkt.
8.    Bankanum er einungis heimilt að stofna dóttureiningar sem ætlað er að þjóna tilgangi bankans og falla innan hlutverka hans með samþykki bankaráðs með atkvæði sérstaks meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
9.    Bankanum er heimilt að beita þeim heimildum og staðfesta þær reglur sem kunna að reynast nauðsynlegar eða viðeigandi til að efla tilgang hans og hlutverk, í samræmi við ákvæði þessa samnings.

17. gr.
Sérstakir sjóðir

1.    Bankanum er heimilt að taka við sérstökum sjóði sem ætlað er að þjóna tilgangi bankans og falla innan hlutverka hans. Þess háttar sérstakir sjóðir skulu vera fjármunir bankans. Allur kostnaður tengdur umsýslu sérstakra sjóða skal gjaldfærður á þann sérstaka sjóð.
2.    Heimilt er að nota sérstaka sjóði sem bankinn samþykkir með þeim skilmálum og skilyrðum sem samræmast tilgangi og hlutverkum bankans og samningnum sem varðar slíka sjóði.
3.    Bankinn samþykkir sérstakar reglur eftir því sem þörf er á til að stofna, stjórna og nota hvern sérstaka sjóð. Þær reglur skulu vera í samræmi við ákvæði þessa samnings, nema þau ákvæði sem beinlínis eiga aðeins við um reglubundna starfsemi bankans.
4.    Hugtakið „fjármunir sérstakra sjóða“ á við um fjármuni sérhvers sérstaks sjóðs og felur í sér:
    i.    fé sem bankinn samþykkir að renni í sérstakan sjóð,
    ii.    fé sem tekið er við að því er varðar lán eða ábyrgðir og afrakstur hlutabréfafjárfestinga sem fjármagnaðar eru með fjármunum sérstaks sjóðs sem, samkvæmt reglum bankans um viðkomandi sérstakan sjóð, slíkur sérstakur sjóður tekur við,
    iii.    tekjur af fjárfestingum með fjármunum sérstakra sjóða og
    iv.    allir aðrir fjármunir sem veittir eru sérstökum sjóði til afnota.


18. gr.
Úthlutun og dreifing hreinna tekna

1.    Bankaráð ákvarðar minnst árlega hvaða hluta hreinna tekna bankans skal úthluta, eftir að framlag er fært í varasjóði, í óráðstafað eigið fé eða til annarra nota og hvaða hluta, ef þá nokkrum, skal dreift til aðila. Allar slíkar ákvarðanir um úthlutun á hreinum tekjum bankans til annarra nota skulu teknar með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
2.    Dreifingin sem um getur í málsgreininni hér að framan skal vera í hlutfalli við fjölda hluta hvers aðila og greiðslur inntar af hendi á þann hátt og í þeim gjaldmiðli sem bankaráð ákvarðar.

19. gr.
Gjaldmiðlar

1.    Aðilar skulu ekki leggja neinar takmarkanir á gjaldmiðla, þ.m.t. móttöku, varðveislu, notkun eða millifærslu af hálfu bankans eða nokkurs viðtakanda frá bankanum, vegna greiðslna í nokkru landi.
2.    Hvenær sem það reynist nauðsynlegt, samkvæmt þessum samningi, að meta virði eins gjaldmiðils út frá öðrum eða ákvarða hvort gjaldmiðill sé auðskiptanlegur skal bankinn sjá um slíkt mat eða ákvörðun.

20. gr.
Aðferðir við að uppfylla skuldbindingar bankans

1.    Ef vanskil eða greiðslufall á sér stað á lánum sem bankinn veitir, tekur þátt í eða ábyrgist í reglubundinni starfsemi sinni og ef tap á sér stað á hlutabréfafjárfestingu eða annarri tegund fjármögnunar samkvæmt vi. lið 2. undirgreinar 11. gr., í venjulegri starfsemi bankans, skal hann grípa til þeirra aðgerða sem hann telur viðeigandi. Bankinn skal viðhalda viðeigandi varúðarniðurfærslum til að mæta hugsanlegu tapi.
2.    Tap sem stafar af reglubundinni starfsemi bankans skal gjaldfært:
    i.    í fyrsta lagi á varúðarniðurfærslur sem um getur í 1. mgr. hér að framan,
    ii.    í öðru lagi á hreinar tekjur,
    iii.    í þriðja lagi á móti varasjóðum og óráðstöfuðu eigin fé,
    iv. í fjórða lagi á móti óskertu innborguðu stofnfé og
    v.    að síðustu á móti viðeigandi fjárhæð óinnkallaðs innkallanlegs stofnfjár í áskrift, sem innkalla skal í samræmi við ákvæði 3. mgr. 6. gr.

V. KAFLI
STJÓRNARHÆTTIR

21. gr.
Skipulag

    Bankinn hefur bankaráð, stjórn, forseta, einn eða fleiri varaforseta og aðra stjórnendur og almennt starfsfólk sem kann að þykja nauðsynlegt.

22. gr.
Skipan bankaráðs

1.    Hver aðili skal eiga fulltrúa í bankaráði og skal skipa einn aðalfulltrúa og einn varafulltrúa Hver aðalfulltrúi og varafulltrúi skal starfa að vilja þess aðila sem skipar hann. Engum varafulltrúa er heimilt að greiða atkvæði nema í fjarveru aðalmanns hans.
2.    Bankaráð kýs á hverjum árlegum fundi sínum einn aðalfulltrúa í bankaráði sem formann og skal hann gegna embætti þar til næsti formaður er kjörinn.
3.    Aðalfulltrúar og varafulltrúar skulu starfa sem slíkir án launa frá bankanum, en bankanum er heimilt að greiða þeim sanngjarnan kostnað vegna fundarsóknar.

23. gr.
Valdheimildir bankaráðs

1.    Allar valdheimildir bankans skulu faldar bankaráði.
2.    Bankaráði er heimilt að fela stjórninni í hendur einhverja valdheimilda sinna, eða allar, að undanskilinni heimild til að:
    i.    samþykkja nýja aðila og ákvarða skilyrði inngöngu þeirra,
    ii.    auka eða minnka samþykkt stofnfé bankans,
    iii. svipta aðila aðild sinni tímabundið,
    iv.    úrskurða um kærur vegna túlkunar eða beitingar þessa samnings sem koma frá stjórninni,
    v.    kjósa stjórnarmenn bankans og ákvarða hvaða kostnað skuli greiða fyrir stjórnarmenn og varastjórnarmenn og laun, ef einhver eru, samkvæmt 6. mgr. 25. gr.,
    vi.    kjósa forsetann, víkja honum tímabundið eða varanlega úr embætti og ákvarða laun hans og önnur starfsskilyrði,
    vii.    samþykkja, að lokinni yfirferð á skýrslu endurskoðanda, almennan efnahagsreikning og rekstrarreikning bankans,
    viii.    ákvarða varasjóði og úthlutun og dreifingu hreins hagnaðar bankans,
    ix. breyta þessum samningi,
    x.    ákveða að binda endi á starfsemi bankans og dreifa eignum hans og
    xi.    beita öðrum heimildum sem eru beinlínis faldar bankaráði í þessum samningi.
3.    Bankaráð heldur fullri heimild til að beita yfirráðum yfir öllum málum sem stjórninni eru falin samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar.

24. gr.
Verklag bankaráðs

1.    Bankaráð heldur ársfund og aðra fundi sem ráðið kann að kveða á um eða stjórnin boðar til. Stjórnin skal boða til funda bankaráðs hvenær sem fimm (5) aðilar að bankanum fara fram á það.
2.    Meirihluti fulltrúa myndar ákvörðunarbæran meirihluta vegna funda bankaráðs, að því gefnu að slíkur meirihluti samanstandi af minnst tveimur þriðju hlutum heildaratkvæðamagns aðilanna.
3.    Bankaráð staðfestir með reglugerð starfsreglur sem heimila stjórninni að fá atkvæði fulltrúa bankaráðs um tilgreint málefni án fundar og kveða á um rafræna fundi bankaráðs við sérstakar aðstæður.
4.    Bankaráð, og stjórn að því marki sem heimilað er, mega stofna dóttureiningar og samþykkja reglur sem kunna að reynast nauðsynlegar eða viðeigandi til að sinna viðfangsefnum bankans.

25. gr.
Skipan stjórnar

1.    Stjórnin er skipuð tólf (12) meðlimum sem skulu ekki eiga sæti í bankaráði og af þeim skulu:
    i.    níu (9) skulu kosnir af aðalfulltrúum í bankaráði sem eru fulltrúar svæðisbundinna aðila og
    ii.    þrír (3) skulu kosnir af aðalfulltrúum í bankaráði sem eru fulltrúar aðila sem ekki eru svæðisbundnir.
    Stjórnarmenn skulu vera mjög hæfir einstaklingar á sviði hagfræði og fjármála og skulu kosnir í samræmi við fylgiskjal B. Stjórnarmenn skulu vera fulltrúar þeirra aðila sem fulltrúar bankaráðs sem kusu þá eru fulltrúar fyrir, sem og þeirra aðila sem fulltrúar bankaráðs sem framseldu þeim atkvæði sín eru fulltrúar fyrir.
2.    Bankaráð skal, af og til, endurskoða stærð og skipan stjórnar og er heimilt að stækka eða minnka hana eða breyta skipan hennar eins og við á, með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
3.    Hver stjórnarmaður skipar varastjórnarmann með fulla heimild til að gegna hlutverki hans þegar hann er fjarverandi. Bankaráð skal samþykkja reglur sem gera stjórnarmanni, sem kosinn er af fleirum en tilgreindum fjölda aðila, fært að skipa aukalegan varastjórnarmann.
4.    Stjórnarmenn og varastjórnarmenn skulu vera ríkisborgarar aðildarríkja. Engir tveir eða fleiri stjórnarmenn mega vera af sama þjóðerni né mega engir tveir eða fleiri varastjórnarmenn vera af sama þjóðerni. Varastjórnarmenn mega taka þátt í fundum stjórnar en mega einungis greiða atkvæði þegar þeir gegna hlutverki stjórnarmanns.
5.    Stjórnarmenn skulu gegna embætti í tvö (2) ár og heimilt er að endurkjósa þá.
    a.    Stjórnarmenn skulu gegna embætti þar til eftirmenn þeirra hafa verið kosnir og hafið störf.
    b.    Ef embætti stjórnarmanns losnar meira en eitt hundrað og áttatíu (180) dögum áður en kjörtímabili hans lýkur skulu aðalfulltrúarnir í bankaráði sem kusu stjórnarmanninn velja eftirmann, í samræmi við fylgiskjal B, til þess sem eftir lifir af kjörtímabilinu. Þess háttar kjör krefst meirihluta þeirra atkvæða sem bankaráðsmennirnir greiða. Þeir aðalfulltrúar í bankaráði sem kusu stjórnarmann mega á sama hátt velja eftirmann ef embætti stjórnarmanns losnar eitt hundrað og áttatíu (180) dögum eða minna áður en kjörtímabili hans lýkur.
    c.    Á meðan embætti stjórnarmanns er laust skal varastjórnarmaður fyrrverandi stjórnarmanns beita heimildum hans, nema þeirri að skipa varastjórnarmann.
6.    Stjórnarmenn og varastjórnarmenn skulu starfa án launa frá bankanum, nema bankaráð ákveði annað, en bankanum er heimilt að greiða þeim sanngjarnan kostnað við fundasókn.

26. gr.
Valdheimildir stjórnar

    Stjórnin ber ábyrgð á stefnu almennrar starfsemi bankans og skal í þeim tilgangi, auk þeirra heimilda sem henni eru beinlínis veittar með þessum samningi, beita öllum þeim heimildum sem bankaráð veitir henni og skal einkum:
    i.    undirbúa vinnu bankaráðs,
    ii.    móta stefnur bankans og, með meirihluta sem er ekki minni en þrír fjórðu hlutar heildaratkvæðamagns aðilanna, taka ákvarðanir um meiriháttar rekstrar- og fjármálastefnur og um að fela forsetanum vald samkvæmt stefnum bankans,
    iii.    taka ákvarðanir varðandi starfsemi bankans samkvæmt 2. mgr. 11. gr. og, með meirihluta sem er ekki minni en þrír fjórðu hlutar heildaratkvæðamangs aðilanna, taka ákvörðun um að fela forsetanum slíkt vald,
    iv.    hafa reglulegt eftirlit með stjórnun og rekstri bankans og koma á fót eftirlitsfyrirkomulagi í þeim tilgangi, í samræmi við meginreglurnar um gagnsæi, aðgengileika, sjálfstæði og ábyrgðarskyldu,
    v.    samþykkja stefnumið, árlega áætlun og fjárhagsáætlun bankans,
    vi. skipa í þær nefndir sem ráðlegt þykir að skipa í og
    vii.    leggja endurskoðaða reikninga hvers fjárhagsárs fyrir bankaráð til samþykktar

27. gr.
Verklag stjórnar

1.    Stjórnin fundar eins oft og viðfangsefni bankans útheimta, með reglulegu millibili árið um kring. Stjórnin starfar án búsetu á staðnum (non-resident basis) nema bankaráð ákveði annað með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr. Formaður getur boðað fundi, eða þrír (3) stjórnarmenn hvenær sem þeir óska eftir því.
2.    Meirihluti stjórnarmanna myndar ályktunarbæran meirihluta vegna funda stjórnar, að því gefnu að slíkur meirihluti samanstandi af minnst tveimur þriðju hlutum heildaratkvæðamagns aðilanna.
3.    Ef enginn stjórnarmaður er af þjóðerni ákveðins aðila skal bankaráð samþykkja reglur sem kveða á um að þeim aðila sé heimilt að senda fulltrúa til að sækja, án atkvæðisréttar, fundi stjórnar þegar mál sem sérstaklega varða þann aðila eru til umfjöllunar.
4.    Stjórnin staðfestir starfsreglur sem heimila stjórninni að halda rafrænan fund eða greiða atkvæði um mál án þess að halda fund.

28. gr.
Atkvæðagreiðsla

1.    Heildaratkvæðamagn hvers aðila samanstendur af summu grunnatkvæða, hlutaatkvæða og, ef um stofnaðila er að ræða, stofnaðilaatkvæða.
    i.    Grunnatkvæði hvers aðila skulu vera sá fjöldi atkvæða sem stafar af jafnri dreifingu meðal allra aðila á tólf (12) prósentum af heildarsummu grunnatkvæða, hlutaatkvæða og stofnaðilaatkvæða allra meðlima.
    ii.    Fjöldi hlutaatkvæða hvers aðila jafngildir fjölda hlutabréfa í bankanum sem sá aðili á.
    iii.    Úthluta skal hverjum stofnaðila sex hundruð (600) stofnaðilaatkvæðum.
    Ef aðili lætur hjá líða að greiða nokkurn hluta þeirrar fjárhæðar sem er til greiðslu að því er varðar skuldbindingar í tengslum við innborguð hlutabréf samkvæmt 6. gr. skal, þar til greiðslan er innt af hendi, þeim hlutaatkvæðum sem aðilinn má nýta fækkað hlutfallslega um þá prósentu sem sú fjárhæð sem er gjaldfallin og ógreidd samsvarar af heildarnafnvirði innborgaðra hluta sem sá aðili hefur skráð sig fyrir.
2.    Við atkvæðagreiðslu í bankaráði er sérhverjum fulltrúa heimilt að nýta atkvæði þeirra aðila sem hann er fulltrúi fyrir.
    i.    Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi skulu ákvarðanir um öll mál sem fjallað er um í bankaráði teknar með meirihluta greiddra atkvæða.
    ii.    Atkvæði aukins meirihluta bankaráðs krefst meðatkvæðis tveggja þriðju hluta allra fulltrúa sem fara með ekki minna en þrjá fjórðu hluta heildaratkvæðamagns aðila.
    iii.    Atkvæði aukins meirihluta bankaráðs krefst meðatkvæðis tveggja þriðju hluta allra fulltrúa sem fara með ekki minna en þrjá fjórðu hluta heildaratkvæðamagns aðila.
3.    Við atkvæðagreiðslu stjórnar hefur hver stjórnarmaður rétt til að nýta þann fjölda atkvæða sem fulltrúar bankaráðs sem kusu hann hafa rétt til að nýta og sem fulltrúar bankaráðs sem framseldu honum atkvæði sín, samkvæmt fylgiskjali B, hafa rétt til að nýta.
    i.    Stjórnarmaður sem hefur rétt til að nýta atkvæði fleiri en eins aðila er heimilt að nýta þau hver í sínu lagi.
    ii.    Ef ekki er kveðið á um annað í þessum samningi skulu ákvarðanir um öll mál sem fjallað er um í stjórn teknar með meirihluta greiddra atkvæða.

29. gr.
Forseti

1.    Bankaráð skal með ferli sem er opið, gagnsætt og byggir á verðleikum, kjósa forseta bankans með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr. Hann skal vera ríkisborgari svæðisbundins aðildarríkis. Forsetinn má ekki vera aðalfulltrúi í bankaráði, stjórnarmaður eða varamaður annars hvors á meðan hann gegnir embætti.
2.    Kjörtímabil forsetans er fimm (5) ár. Hann má endurkjósa einu sinni. Heimilt er að víkja forseta tímabundið eða varanlega úr embætti ef bankaráð ákveður það með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
    a.    Losni embætti forseta af einhverri ástæðu á kjörtímabili hans skal bankaráð skipa starfandi forseta sem starfar tímabundið eða kjósa nýjan forseta, í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar.
3.    Forsetinn er stjórnarformaður en greiðir ekki atkvæði nema þörf sé á oddaatkvæði. Honum er heimilt að taka þátt í fundum bankaráðs, en ekki greiða atkvæði.
4.    Forsetinn er lagalegur fyrirsvarsmaður bankans. Hann er yfirmaður starfsfólks bankans og sinnir daglegum störfum bankans samkvæmt stefnu stjórnar.

30. gr.
Stjórnendur og almennt starfsfólk bankans

1.    Bankaráð skipar einn eða fleiri varaforseta samkvæmt ráðleggingu forseta, með ferli sem er opið, gagnsætt og byggir á verðleikum. Varaforseti gegnir embætti í þann tíma, beitir þeim heimildum og gegnir þeim hlutverkum í stjórnun bankans sem stjórnin ákvarðar. Varaforseti beitir heimildum og gegnir hlutverkum forseta, sé sá síðarnefndi fjarverandi eða vanhæfur.
2.    Forseti ber ábyrgð á að skipuleggja starf stjórnenda og almenns starfsfólks, skipa það og segja því upp í samræmi við reglugerðir sem stjórnin samþykkir, að undanskildum varaforsetum að því marki sem kveðið er á um í 1. mgr. hér að ofan.
3.    Þegar forseti skipar stjórnendur og almennt starfsfólk og mælir með varaforsetum skal forseti, með fyrirvara um mikilvægi þess að tryggja að farið sé að ítrustu kröfum um skilvirkni og tæknilega færni, taka tilhlýðilegt tillit til ráðningar starfsliðs frá sem flestum ríkjum.

31. gr.
Alþjóðlegt eðli bankans

1.    Bankinn tekur ekki við sérstökum sjóðum, lánum eða aðstoð sem á nokkurn hátt gæti haft áhrif á, takmarkað, dregið úr eða breytt tilgangi hans eða hlutverkum á annan hátt.
2.    Bankinn, forseti hans, stjórnendur og almennt starfsfólk hafa ekki afskipti af stjórnmálum nokkurs aðila, né láta stjórnmál viðkomandi aðila hafa áhrif á ákvarðanir sínar. Einungis efnahagsleg sjónarmið skipta máli fyrir ákvarðanir þeirra. Vega skal og meta slík sjónarmið af hlutleysi til að ná fram tilgangi bankans og sinna hlutverkum hans.
3.    Forseti, stjórnendur og almennt starfsfólk bankans gengur einungis erinda bankans er það sinnir skyldustörfum sínum. Hver aðili að bankanum skal virða alþjóðlegt eðli þessarar skyldu og forðast hið ítrasta að hafa áhrif á það er það sinnir skyldustörfum sínum.

VI. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI

32. gr.
Skrifstofur bankans

1.    Aðalskrifstofa bankans er í Peking, Alþýðulýðveldinu Kína.
2.    Bankanum er heimilt að setja á fót stofnanir eða skrifstofur annars staðar.

33. gr.
Samskiptaleið: Vörsluaðilar

1.    Hver aðili tilnefnir viðeigandi opinbera einingu sem bankinn getur haft samskipti við í tengslum við mál sem upp koma samkvæmt þessum samningi.
2.    Hver aðili tilnefnir seðlabanka sinn, eða aðra slíka stofnun sem bankinn samþykkir, sem vörsluaðila þar sem bankinn getur geymt eign sína í gjaldmiðli þess aðila sem og aðrar eignir bankans.
3.    Bankinn geymir eignir sínar hjá þeim vörsluaðilum sem stjórnin ákvarðar.

34. gr.
Skýrslur og upplýsingar

1.    Vinnutungumál bankans er enska og bankinn reiðir sig á enskan texta þessa samnings að því er varðar allar ákvarðanir og túlkanir samkvæmt 54. gr.
2.    Aðilar útvega bankanum þær upplýsingar sem eðlilegt er að hann fari fram á svo hann eigi auðveldara með að sinna hlutverki sínu.
3.    Bankinn sendir aðilum sínum ársskýrslu sem inniheldur endurskoðað yfirlit yfir reikninga hans og birtir skýrsluna. Hann sendir aðilum sínum einnig ársfjórðungslega samantekinn efnahagsreikning sinn og rekstrarreikning sem sýnir niðurstöðu rekstrar hans.
4. Bankinn markar stefnu um upplýsingagjöf til að stuðla að gagnsæi í starfsemi sinni. bankanum er heimilt að birta slíkar skýrslur þegar honum þykir henta í samræmi við tilgang sinn og hlutverk.

35. gr.
Samstarf við aðila og alþjóðastofnanir

1.    Bankinn starfar í náinni samvinnu við alla aðila sína og, á þann hátt sem hann metur viðeigandi í skilningi skilmála þessa samnings, við aðrar alþjóðlegar fjármálastofnanir og alþjóðastofnanir sem tengjast hagþróun á svæðinu eða stafssvæðum bankans.
2.    Bankanum er heimilt að gera samninga við slíkar stofnanir með samþykki stjórnar, ef tilgangur þeirra samrýmist þessum samningi.

36. gr.
Tilvísanir

1.    Tilvísanir í þessum samningi til greina eða fylgiskjala vísa til greina og fylgiskjala þessa samnings, nema annað sé tilgreint.
2.    Tilvísanir í þessum samningi til ákveðins kyns skulu gilda jafnt um öll kyn.

VII. KAFLI
AFTURKÖLLUN OG TÍMABUNDIN SVIPTING AÐILDAR
37. gr.
Afturköllun aðildar

1.    Aðila er hvenær sem er heimilt að afturkalla aðild sín að bankanum með því að senda bankanum skriflega tilkynningu á aðalskrifstofu hans.
2.    Afturköllun aðila á aðild sinni tekur gildi og aðild hans lýkur á þeim degi sem tilgreindur er í tilkynningu hans en þó aldrei minna en sex (6) mánuðum frá þeim degi þegar bankinn tók við tilkynningunni. Aðila er þó heimilt, hvenær sem er áður en afturköllunin tekur endanlega gildi, að tilkynna bankanum skriflega um niðurfellingu tilkynningar sinnar um fyrirhugaða afturköllun aðildar.
3.    Aðili sem afturkallar aðild sína er áfram ábyrgur fyrir beinum og óvissum skyldum gagnvart bankanum sem giltu um hann þann dag sem tilkynning um afturköllun var afhent. Ef afturköllun tekur endanlega gildi, stofnar aðili ekki til neinnar ábyrgðar eða skuldbindinga sem stafa af starfsemi bankans eftir þann dag sem bankinn tók við tilkynningu um afturköllun.

38. gr.
Tímabundin svipting aðildar

1.    Ef aðili lætur hjá líða að uppfylla einhverja af skyldum sínum gagnvart bankanum er bankaráði heimilt að svipta þann aðila aðild með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
2.    Aðili sem sviptur er aðild tímabundið á þennan hátt hættir sjálfkrafa að vera aðili einu (1) ári frá degi sviptingarinnar, nema bankaráð ákveði með atkvæði aukins meirihluta, eins og kveðið er á um í 28. gr., að veita aðilanum fyrri stöðu að nýju.
3.    Á meðan aðili er sviptur aðild tímabundið er honum ekki heimilt að nýta nokkur réttindi samkvæmt þessum samningi, nema réttinn til afturköllunar, en er áfram háður öllum skyldum hennar.

39. gr.
Uppgjör reikninga

1.    Eftir þann dag þegar land hættir að vera aðili ber það áfram ábyrgð á beinum skyldum sínum gagnvart bankanum og á óvissum skyldum gagnvart bankanum svo lengi sem nokkur hluti þeirra lána, ábyrgða, hlutabréfafjárfestinga eða annarrar tegundar fjármögnunar samkvæmt vi. lið 2. undirgreinar 11. gr. (hér á eftir, önnur fjármögnun) sem samningur var gerður um áður en hann hætti að vera aðili, er útistandandi, en bakar sér ekki skuldbindingar að því er varðar lán, ábyrgðir, hlutabréfafjárfestingar eða aðra fjármögnun sem bankinn tekst á hendur þaðan í frá né eiga hlut í tekjum eða útgjöldum bankans.
2.    Þegar land hættir að vera aðili sér bankinn um að hann kaupi sjálfur hlutabréf þess lands og er það liður í uppgjöri reikninga við það land í samræmi við ákvæði 3. og 4. gr. þessarar greinar. Endurkaupsverð hlutabréfanna við þetta tilefni er virði þeirra samkvæmt bókum bankans á þeim degi sem land hættir að vera aðili.
3.    Greiðsla fyrir hlutabréf sem bankinn kaupir aftur samkvæmt þessari grein ræðst af eftirfarandi skilyrðum:
    i.    Fjárhæð sem greiða ber viðkomandi landi fyrir hlutabréf þess skal haldið eftir á meðan landið, seðlabanki þess eða einhver stofnana þess, eininga sem gegna opinberu hlutverki eða sjálfstæðra umdæma er ábyrgt, sem lántakandi, ábyrgðaraðili eða annar samningsaðili að því er varðar hlutabréfafjárfestingu eða aðra fjármögnun, gagnvart bankanum og er bankanum heimilt að nota hana á móti slíkri skuldbindingu þegar hún fellur í gjalddaga. Engri fjárhæð skal haldið eftir vegna óvissrar skuldar landsins að því er varðar innköllun í framtíðinni á áskrift þess að hlutabréfum í samræmi við 3 mgr. 6. gr. Aldrei skal greiða aðila neina fjárhæð fyrir hlutabréf sín fyrr en sex (6) mánuðum eftir daginn sem landið hættir að vera aðili.
    ii.    Heimilt er hverju sinni að inna greiðslu af hendi fyrir hlutabréf gegn afhendingu samsvarandi hlutabréfa af hálfu viðkomandi lands, að því marki sem gjaldfallin fjárhæð, sem endurkaupsverð í samræmi við 2. mgr. þessarar greinar, er umfram samanlagða fjárhæð skuldbindinga, vegna lána, ábyrgða, hlutabréfafjárfestinga og annarrar fjármögnunar sem um getur í i. undirgrein þessarar greinar, þar til fyrrum aðili hefur móttekið allt endurkaupsverðið.
    iii.    Greiðslur eru inntar af hendi í tiltækum gjaldmiðlum að ákvörðun bankans, með tilliti til fjárhagsstöðu hans.
    iv.    Verði bankinn fyrir tapi vegna lána, ábyrgða, hlutabréfafjárfestinga eða annarrar fjármögnunar sem var útistandandi daginn sem landið hætti að vera aðili og fari fjárhæð tapsins yfir fjárhæð varasjóða til að mæta tapi, á þeim degi, skal viðkomandi land endurgreiða, samkvæmt beiðni, þá fjárhæð sem endurkaupsverð hlutabréfa þess hefði lækkað um ef tapið hefði verið tekið með í reikninginn þegar endurkaupsverðið var ákvarðað. Að auki er fyrrum aðili áfram ábyrgur fyrir innköllun á ógreiddum áskriftum í samræmi við 3. mgr. 6. gr. að sama marki og hann hefði þurft að bregðast við ef stofnfé hefði rýrnað að virði og innköllun farið fram þegar endurkaupsverð hlutabréfa hans var ákvarðað.
4.    Bindi bankinn endi á starfsemi sína samkvæmt 41. gr. innan sex (6) mánaða frá þeim degi þegar eitthvert land hættir að vera aðili skulu öll réttindi viðkomandi lands ákvörðuð í samræmi við ákvæði 41. og 43. gr. Slíkt land telst áfram aðili að því er varðar þær greinar en hefur ekki atkvæðisrétt.

VIII. KAFLI
STÖÐVUN OG SLIT Á STARFSEMI BANKANS
40. gr.
Tímabundin stöðvun starfsemi

    Stjórn er í neyðartilvikum heimilt að stöðva starfsemi tímabundið að því er varðar ný lán, ábyrgðir, hlutabréfafjárfestingu og aðra tegund fjármögnunar samkvæmt vi. lið 2. undirgreinar 11. greinar, þar til bankaráð hefur haft tækifæri til að íhuga málið frekar og grípa til aðgerða.

41. gr.
Slit starfsemi

1.    Bankanum er heimilt að slíta starfsemi sinni með ályktun bankaráðs sem samþykkt er með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
2.    Að afloknum slíkum slitum skal bankinn strax hætta allri starfsemi nema þeirri sem fylgir skipulegri innlausn, verndun og varðveislu eigna hans og uppgjöri skuldbindinga hans.

42. gr.
Skuldbinding aðila og greiðslur krafna

1.    Sé starfsemi bankans slitið heldur skuldbinding allra aðila vegna óinnkallaðra áskrifta að stofnfé bankans og að því er varðar verðlækkun gjaldmiðils þeirra áfram þar til allar kröfur lánveitenda, þ.m.t. allar óvæntar kröfur, hafa verið greiddar.
2.    Allir lánveitendur sem eiga beinar kröfur skulu fyrst fá greitt af eignum bankans og næst af greiðslum til bankans eða ógreiddum eða innkallanlegum áskriftum. Áður en greiðslur eru inntar af hendi til lánveitenda sem eiga beinar kröfur skal stjórnin gera þær ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegar til að tryggja hlutfallslega dreifingu meðal eigenda beinna og óvæntra krafna.

43. gr.
Dreifing eigna

1.    Eignum skal ekki dreift til aðila vegna áskriftar þeirra að stofnfé bankans þar til:
    i.    allar skuldbindingar við lánveitendur hafa verið greiddar eða ráðstafanir gerðar vegna þeirra og
    ii.    bankaráð hefur ákveðið, með atkvæði aukins meirihluta eins og tilgreint er í 28. gr., að eignum skuli dreift.
2.    Eignum bankans skal dreift til aðila í hlutfalli við stofnfjáreign hvers aðila og skal eiga sér stað á þeim tíma og við þau skilyrði sem bankinn telur sanngjörn og réttlát. Hlutir dreifðra eigna þurfa ekki að vera samræmdir hvað varðar tegund eignar. Enginn aðili á rétt á að fá sinn hlut í slíkri dreifingu eigna fyrr hann hefur gert upp allar skuldbindingar sínar við bankann.
3.    Aðilar sem taka við eignum sem dreift er samkvæmt þessari grein njóta sömu réttinda að því er varðar þær eignir og bankinn naut fyrir dreifingu þeirra.

IX. KAFLI
STAÐA, FRIÐHELGI, FORRÉTTINDI OG UNDANÞÁGUR
44. gr.
Tilgangur kafla

1.    Til að gera bankanum kleift að þjóna tilgangi sínum og sinna þeim hlutverkum sem honum eru falin er honum veitt sú staða, friðhelgi, forréttindi og undanþágur sem settar eru fram í þessum kafla, á yfirráðasvæði hvers aðila.
2.    Hver aðili skal án tafar grípa til nauðsynlegra aðgerða til að framfylgja á yfirráðasvæði sínu þeim ákvæðum sem sett eru fram í þessum kafla og skal gera bankanum grein fyrir þeim aðgerðum sem hann hefur gripið til.

45. gr.
Staða bankans

    Bankinn hefur fulla réttarstöðu lögaðila og einkum fullt gerhæfi:
    i.    til að gera samninga,
    ii.    til að kaupa og selja fasteignir og lausafé,
    iii.    til að hefja og bregðast við málssókn,
    iv.    til að grípa til annarra aðgerða sem kunna að vera nauðsynlegar eða gagnlegar tilgangi hans og starfsemi.

46. gr.
Friðhelgi frá málsmeðferð fyrir dómstólum

1.    Bankinn skal njóta friðhelgi frá hvers kyns málssókn, nema í málum sem koma upp vegna eða í tengslum við beitingu valdheimilda hans til að afla fjár, með lántöku eða öðrum leiðum, til að ábyrgjast skuldbindingar, eða til að kaupa og selja eða sölutryggja sölu verðbréfa, en í þeim tilvikum er heimilt að höfða mál gegn bankanum einungis við valdbæran dómstól á yfirráðasvæði lands þar sem bankinn hefur skrifstofu eða hefur tilnefnt umboðsaðila í þeim tilgangi að taka við stefnubirtingu eða tilkynningu um stefnu, eða hefur gefið út eða ábyrgst verðbréf.
2.    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar má enginn aðili, stofnun eða eining aðila sem gegnir opinberu hlutverki, eða eining eða persóna sem beint eða óbeint kemur fram fyrir hönd eða fær kröfur frá aðila eða stofnun eða einingu aðila sem gengir opinberu hlutverki, höfða mál á hendur bankanum. Aðilar skulu nýta sér þær sérstöku málsmeðferðarreglur við lausn deilumála á milli bankans og aðila hans sem mælt kann að vera fyrir um í þessum samningi, í samþykktum og reglum bankans, eða í samningum sem gerðir eru við bankann.
3.    Eignir og fjármunir bankans njóta friðhelgi frá hvers kyns haldlagningu, kyrrsetningu eða fullnustugerð í aðdraganda endanlegs dóms gegn bankanum, hvar svo sem þær eru staðsettar og hver svo sem varðveitir þær.

47. gr.
Friðhelgi eigna og skjalasafns

1.    Eignir bankans og fjármunir skulu, hvar sem þeir eru staðsettir og hver sem varðveitir þá, vera undanþegnir leit, kröfu um afhendingu, upptöku, eignarnámi og hvers kyns annars konar töku, eða því að gengið sé að veði, með fullnustugerð eða lagasetningu.
2.    Skjalasafn bankans og almennt öll skjöl sem tilheyra honum eða hann hefur umráð yfir, skulu vera friðhelg hvar sem þau eru staðsett og hver sem varðveitir þau.

48. gr.
Eignir undanþegnar takmörkunum

    Eftir því sem þurfa þykir, til að þjóna tilgangi og sinna hlutverkum bankans á skilvirkan máta og með fyrirvara um ákvæði þessa samnings, eru allar eignir og fjármunir bankans undanþegnir hvers konar takmörkunum, reglugerðum, eftirliti og greiðslustöðvun.

49. gr.
Forréttindi samskipta

    Hver aðili skal veita opinberum orðsendingum bankans sömu meðferð og hann veitir opinberum orðsendingum sérhvers annars aðila.

50. gr.
Friðhelgi og forréttindi stjórnenda og starfsmanna

    Allir aðalfulltrúar í bankaráði, stjórnarmenn, varamenn, forseti, varaforsetar og aðrir stjórnendur og starfsmenn bankans þ.m.t. sérfræðingar og ráðgjafar sem sinna verkefnum og þjónustu fyrir bankann:
    i.    skulu undanþegnir málssókn að því er varðar framgöngu þeirra í starfi fyrir bankann, nema þegar bankinn sviptir friðhelginni, og njóta friðhelgi allra opinberra pappíra sinna, skjala og skráa,
    ii.    séu þeir ekki þegnar eða ríkisborgarar landsins sem um ræðir, njóta sömu undanþága frá takmörkunum sem gilda um útlendinga, kröfum um skráningu útlendinga og þegnskyldu og sömu aðstöðu að því er varðar reglur um gjaldeyrisviðskipti, og aðilar veita fulltrúum, stjórnendum og starfsmönnum annarra aðila í sömu stöðu og
    iii.    skulu hljóta sömu meðferð að því er varðar tilhögun ferðalaga og aðilar veita fulltrúum, stjórnendum og starfsmönnum annarra aðila í sömu stöðu.

51. gr.
Undanþága frá skattlagningu

1.    Bankinn, fjármunir hans, eignir, tekjur og starfsemi hans og viðskipti samkvæmt þessum samningi, skulu undanþegin hvers konar skattlagningu og tollum. Bankinn er einnig undanþeginn greiðsluskyldu, staðgreiðslu eða innheimtu hvers kyns skatta eða tolla.
2.    Enginn skattur af nokkru tagi er lagður á, eða að því er varðar, laun, þóknun og útgjöld, eftir því sem við á, sem bankinn greiðir stjórnarmönnum, varastjórnarmönnun, forseta, varaforsetum og öðrum stjórnendum eða starfsmönnum bankans, þ.m.t. sérfræðingum og ráðgjöfum sem sinna verkefnum og þjónustu fyrir bankann, nema aðili leggi fram, með skjölum sínum um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, yfirlýsingu um að viðkomandi aðili sjálfur og sjálfstæð umdæmi hans hafi rétt til að skattleggja laun og hagnað, eftir atvikum, sem bankinn greiðir þegnum eða ríkisborgurum þess aðila.
3.    Enginn skattur af nokkru tagi er lagður á nokkra skuldbindingu eða verðbréf sem bankinn hefur gefið út, þ.m.t. hvers konar arð eða vexti þar að lútandi, hver svo sem á það:
    i.    sem mismunar þess konar skuldbindingu eða verðbréfi eingöngu vegna þess að bankinn gaf það út eða
    ii.    ef eini grundvöllur slíkrar skattlagningar hvað varðar lögsögu er staðurinn eða gjaldmiðillinn sem það var gefið út í, greiða bar það í eða það var greitt í, eða staður skrifstofu eða starfsstöðvar á vegum bankans.
4.    Enginn skattur af nokkru tagi er lagður á nokkra skuldbindingu eða verðbréf sem bankinn ábyrgist, þ.m.t. hvers konar arð eða vexti þar að lútandi, hver svo sem á það:
    i.    sem mismunar þess konar skuldbindingu eða verðbréfi eingöngu vegna þess að bankinn ábyrgist það eða
    ii.    ef eini grundvöllur slíkrar skattlagningar hvað varðar lögsögu er staður skrifstofu eða starfsstöðvar á vegum bankans.

52. gr.
Undanþágur

1.    Bankanum er heimilt að ákveða að afsala sér forréttindum, friðhelgi og undanþágum sem veittar eru samkvæmt þessum kafla í hvaða máli eða tilviki sem er, á þann hátt og með þeim skilyrðum sem hann kann að telja viðeigandi með ítrustu hagsmuni bankans að leiðarljósi.

X. KAFLI
BREYTINGAR, TÚLKANIR OG GERÐARDÓMUR
53. gr.
Breytingar

1.    Einungis er heimilt að breyta samningi þessum með ályktun bankaráðs sem samþykkt er með atkvæði aukins meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr.
2.    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar er einróma samþykkis bankaráðs krafist fyrir samþykki allra breytinga varðandi:
    i.    réttinn til að afturkalla aðild að bankanum,
    ii.    takmarkanir á ábyrgð sem kveðið er á um í 3. og 4. mgr. 7. gr. og
    iii. réttindi að því er varðar kaup á hlutabréfum í 4. mgr. 5 gr.
3.    Allar tillögur um að breyta þessum samningi, hvort sem þær koma frá aðila eða stjórn, skulu sendar formanni bankaráðs og skal hann bera tillöguna fyrir bankaráð. Þegar breyting hefur verið samþykkt skal bankinn votta það í opinberri orðsendingu til allra aðila. Breytingar taka gildi að því er varðar alla aðila þremur (3) mánuðum eftir dagsetningu opinberu orðsendingarinnar nema bankaráð tilgreini þar annað tímabil.

54. gr.
Túlkun

1.    Álitaefni sem lúta að túlkun eða beitingu ákvæða þessa samnings, sem upp koma á milli hvaða aðila sem er og bankans, eða á milli tveggja eða fleiri aðila að bankanum, skal leggja fyrir stjórn til ákvörðunar. Sé enginn stjórnarmanna af sama þjóðerni og aðili sem álitamálið snertir sérstaklega á sá aðili rétt á beinu fyrirsvari í stjórn á meðan málið er til umfjöllunar, en fulltrúi þess aðila má þó ekki greiða atkvæði. Bankaráð setur reglur um þennan rétt til fyrirsvars.
2.    Í öllum tilvikum þegar stjórnin hefur tekið ákvörðun samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar er hvaða aðila sem er heimilt að gera kröfu um að málinu sé vísað til bankaráðs og er ákvörðun þess endanleg. Þar til ákvörðun bankaráðs liggur fyrir er bankanum heimilt, eftir því sem hann telur nauðsynlegt, að aðhafast á grundvelli ákvörðunar stjórnar.

55. gr.
Gerðardómur

    Rísi ágreiningur á milli bankans og lands sem ekki er lengur aðili, eða á milli bankans og einhvers aðila eftir samþykkt ályktunar um að slíta starfsemi bankans skal vísa slíku ágreiningsmáli til úrskurðar dómstóls þriggja gerðardómsmanna. Einn gerðardómsmannanna skal skipaður af bankanum, annar af því landi sem í hlut á og sá þriðji, nema aðilar málsins ákveði annað, af forseta Alþjóðadómstólsins eða annars yfirvalds sem reglugerðir samþykktar af bankaráði kunna að mæla fyrir um. Atkvæði meirihluta gerðardómsmanna nægir til að komast að niðurstöðu sem er endanleg og bindandi fyrir aðila málsins. Þriðji gerðardómsmaðurinn hefur vald til að útkljá öll álitamál um málsmeðferð í þeim tilvikum þegar aðila málsins greinir á um hana.

56. gr.
Samþykki talið veitt

    Hvenær sem krafa er gerð um samþykki aðila áður en bankinn framkvæmir ákveðna aðgerð, nema samkvæmt 3. mgr. 53. gr., telst samþykki hafa verið veitt nema aðili andmæli innan hæfilegs frests sem bankinn kann að hafa sett þegar hann tilkynnti aðilanum um fyrirhugaða aðgerð.

XI. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
57. gr.
Undirritun og varsla

1.    Samningur þessi, sem afhentur er ríkisstjórn Alþýðulýðveldisins Kína til vörslu (hér á eftir „vörsluaðili“), er opinn til undirritunar ríkisstjórna landa sem upp eru talin í fylgiskjali A, til 31. desember 2015.
2.    Vörsluaðili skal senda staðfest afrit af samningi þessum til allra undirritunaraðila og allra landa sem gerast aðilar að bankanum.

58. gr.
Fullgilding, staðfesting eða samþykki

1.    Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki undirritunaraðila. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skal afhenda vörsluaðila til vörslu eigi síðar en 31. desember 2016 eða, ef nauðsyn krefur, eigi síðar en þann dag sem bankaráð kann að ákvarða með atkvæði sérstaks meirihluta eins og kveðið er á um í 28. gr. Vörsluaðili skal tilkynna öðrum undirritunaraðilum á viðeigandi hátt um hverja afhendingu og dagsetningu hennar.
2.    Ef skjöl undirritunaraðila um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki eru afhent til vörslu fyrir daginn sem samningur þessi öðlast gildi verður hann aðili að bankanum á þeim degi. Hver annar undirritunaraðili sem fer að ákvæðum málsgreinarinnar hér að ofan verður aðili að bankanum daginn sem skjöl hans um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki eru afhent til vörslu.

59. gr.
Gildistaka

    Samningur þessi öðlast gildi þegar skjöl að minnsta kosti tíu (10) undirritunaraðila, um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, hafa verið afhent til vörslu, ef upphafleg áskrift þeirra, eins og fram kemur í fylgiskjali A í þessum samningi, nemur samanlagt að minnsta kosti fimmtíu (50) prósentum af slíkri áskrift.

60. gr.
Stofnfundur og upphaf starfsemi

1.    Um leið og samningur þessi öðlast gildi skal hver aðili skipa aðalfulltrúa í bankaráði og vörsluaðili boða til stofnfundar bankaráðs.
2.    Bankaráð skal á stofnfundinum:
    i.    kjósa forseta,
    ii.    kjósa stjórnarmenn bankans í samræmi við 1. mgr. 25. gr. að því gefnu að bankaráð kunni að ákveða að kjósa færri stjórnarmenn til styttra upphafstímabils en tveggja ára með tilliti til þess fjölda aðila og undirritunaraðila sem enn hafa ekki gerst aðilar.
    iii.    gera ráðstafanir vegna ákvörðunar þess hvaða dag bankinn skuli hefja starfsemi og
    iv.    gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til undirbúnings þess að bankinn hefji starfsemi sína.
3.    Bankinn skal tilkynna aðilum sínum hvaða dag hann muni hefja starfsemi.

    Gjört í Peking, Alþýðulýðveldinu Kína, hinn 29. júní 2015, í einu frumriti sem afhent er skjalageymslu vörsluaðila til varðveislu og eru enski, kínverski og franski texti þess jafngildir.

Fylgiskjal A

Upphaflegar áskriftir að samþykktu stofnfé að því er varðar lönd sem kunna að gerast aðilar í samræmi við 58. gr.


Fjöldi hluta Áskrift að stofnfé
(í milljónum dala)
A-HlUTI
SVÆÐISBUNDNIR AÐILAR
Ástralía 36.912 3.691,2
Aserbaísjan 2.541 254,1
Bangladess 6.605 660,5
Brúnei Darrússalam 524 52,4
Kambódía 623 62,3
Kína 297.804 29.780,4
Georgía 539 53,9
Indland 83.673 8.367,3
Indónesía 33.607 3.360,7
Íran 15.808 1.580,8
Ísrael 7.499 749,9
Jórdanía 1.192 119,2
Kasakstan 7.293 729,3
Suður-Kórea 37.388 3.738,8
Kúveit 5.360 536
Kirgíska lýðveldið 268 26,8
Laoska alþýðulýðveldið 430 43
Malasía 1.095 109,5
Maldívur 72 7,2
Mongólía 411 41,1
Myanmar 2.645 264,5
Nepal 809 80,9
Nýja-Sjáland 4.615 461,5
Óman 2.592 259,2
Pakistan 10.341 1.034,1
Filippseyjar 9.791 979,1
Katar 6.044 604,4
Rússland 65.362 6.536,2
Sádi-Arabía 25.446 2.544,6
Singapúr 2.500 250
Srí Lanka 2.690 269
Tadsíkistan 309 30,9
Taíland 14.275 1.427,5
Tyrkland 26.099 2.609,9
Sameinuðu arabísku furstadæmin 11.857 1.185,7
Úsbekistan 2.198 219,8
Víetnam 6.633 663,3
Óráðstafað 16.150 1.615
SAMTALS 750.000 75.000

B-HLUTI
AÐILAR SEM EKKI ERU SVÆÐISBUNDNIR
Austurríki 5.008 500,8
Brasilía 31.810 3.181,0
Danmörk 3.695 369,5
Egyptaland 6.505 650,5
Finnland 3.103 310,3
Frakkland 33.756 3.375,6
Þýskaland 44.842 4.484,2
Ísland 176 17,6
Ítalía 25.718 2.571,8
Lúxemborg 697 69,7
Malta 136 13,6
Holland 10.313 1.031,3
Noregur 5.506 550,6
Pólland 8.318 831,8
Portúgal 650 65,0
Suður-Afríka 5.905 590,5
Spánn 17.615 1.761,5
Svíþjóð 6.300 630,0
Sviss 7.064 706,4
Bretland 30.547 3.054,7
Óráðstafað 2.336 233,6
SAMTALS 250.000 25.000
HEILDARUPPHÆÐ 1000.000 100.000


Fylgiskjal B

KJÖR STJÓRNARMANNA
    Bankaráð mælir fyrir um reglur um framkvæmd sérhvers kjörs stjórnarmanna í samræmi við eftirfarandi ákvæði.
     1.      Kjördæmi. Hver stjórnarmaður er fulltrúi eins eða fleiri aðila í kjördæmi. Samanlagt heildaratkvæðamagn hvers kjördæmis samanstendur af þeim atkvæðum sem stjórnarmaðurinn hefur rétt á að nýta samkvæmt 3. mgr. 28. gr.
     2.      Atkvæðamagn kjördæma. Fyrir hvert kjör ákveður bankaráð lágmarkshlutfall fyrir atkvæðamagn kjördæmis vegna stjórnarmanna sem fulltrúar í bankaráði skulu kjósa fyrir hönd svæðisbundinna aðila (svæðisbundnir stjórnarmenn) og lágmarkshlutfall fyrir atkvæðamagn kjördæmis vegna stjórnarmanna sem fulltrúar í bankaráði skulu kjósa fyrir hönd aðila sem ekki eru svæðisbundnir (stjórnarmenn sem ekki eru svæðisbundnir).
                  a.      Lágmarkshlutfall fyrir svæðisbundna stjórnarmenn er hlutfall af heildaratkvæðafjölda sem fulltrúum í bankaráði sem eru fulltrúar svæðisbundinna aðila (svæðisbundnir fulltrúar í bankaráði) er heimilt að nýta við kosninguna. Upphaflegt lágmarkshlutfall fyrir svæðisbundna stjórnarmenn er 6%.
                  b.      Lágmarkshlutfall fyrir stjórnarmenn sem ekki eru svæðisbundnir er hlutfall af heildaratkvæðafjölda sem fulltrúum í bankaráði sem eru fulltrúar aðila sem ekki eru svæðisbundnir (fulltrúar í bankaráði sem ekki eru svæðisbundnir) er heimilt að nýta við kosninguna. Upphaflegt lágmarkshlutfall fyrir stjórnarmenn sem ekki eru svæðisbundnir er 15%.
     3.      Aðlögunarhlutfall. Til að aðlaga atkvæðamagn á milli kjördæma þegar þörf er á síðari umferðum atkvæðagreiðslu samkvæmt 7. mgr. hér að neðan setur bankaráð, fyrir hverja kosningu, aðlögunarhlutfall fyrir svæðisbundna stjórnarmenn og aðlögunarhlutfall fyrir stjórnarmenn sem ekki eru svæðisbundnir. Hvert aðlögunarhlutfall skal vera hærra en samsvarandi lágmarkshlutfall.
                  a.      Aðlögunarhlutfall fyrir svæðisbundna stjórnarmenn er hlutfall af heildaratkvæðafjölda sem svæðisbundnum fulltrúum í bankaráði er heimilt að nýta við kosninguna. Upphaflegt aðlögunarhlutfall fyrir svæðisbundna stjórnarmenn er 15%.
                  b.      Aðlögunarhlutfall fyrir stjórnarmenn sem ekki eru svæðisbundnir er hlutfall af heildaratkvæðafjölda sem fulltrúum í bankraráði sem ekki eru svæðisbundnir er heimilt að nýta við kosninguna. Upphaflegt aðlögunarhlutfall fyrir stjórnarmenn sem ekki eru svæðisbundnir er 60%.
     4.      Fjöldi frambjóðenda. Bankaráð ákvarðar, fyrir hverjar kosningar, þann fjölda svæðisbundinna stjórnarmanna og stjórnarmanna sem ekki eru svæðisbundnir sem kjósa skal, í ljósi ákvarðanna sinna um stærð og skipan stjórnar samkvæmt 2. mgr. 25. gr.
                  a.      Upphaflegur fjöldi svæðisbundinna stjórnarmanna er níu.
                  b.      Upphaflegur fjöldi stjórnarmanna sem ekki eru svæðisbundnir er þrír.
     5.      Tilnefningar. Hver fulltrúi í bankaráði má einungis tilnefna einn einstakling. Frambjóðendur til embættis svæðisbundins stjórnarmanns skulu tilnefndir af svæðisbundnum fulltrúm í bankaráði. Frambjóðendur til embættis stjórnarmanns sem ekki er svæðisbundinn skulu tilnefndir af fulltrúum í bankaráði sem ekki eru svæðisbundnir.
     6.      Atkvæðagreiðsla. Hver fulltrúi í bankaráði má kjósa einn frambjóðanda, með öllum þeim atkvæðum sem aðilinn sem skipaði hann hefur rétt á að nýta samkvæmt 1. mgr. 28. gr. Svæðisbundnir stjórnarmenn skulu kosnir með atkvæðagreiðslu svæðisbundinna fulltrúa í bankaráði. Stjórnarmenn sem ekki eru svæðisbundnir skulu kosnir með atkvæðagreiðslu fulltrúa í bankaráði sem ekki eru svæðisbundnir.
     7.      Fyrsta atkvæðagreiðsla. Við fyrstu atkvæðagreiðslu mega frambjóðendur sem fá mesta fjölda atkvæða, allt að þeim fjölda stjórnarmanna sem kjósa skal, kosnir sem stjórnarmenn, að því tilskildu, til að hljóta kosningu, að frambjóðendur hafi fengið nægan fjölda atkvæða til að ná viðeigandi lágmarkshlutfalli.
                  a.      Sé nauðsynlegur fjöldi stjórnarmanna ekki kosinn við fyrstu atkvæðagreiðslu, og hafi fjöldi frambjóðenda verið sá sami og sá fjöldi stjórnarmanna sem kjósa skal, skal bankaráð taka ákvörðun um frekari aðgerðir til að ljúka kosningu svæðisbundinna stjórnarmanna eða kosningu stjórnarmanna sem ekki eru svæðisbundnir, eftir atvikum.
     8.      Síðari atkvæðagreiðslur. Sé nauðsynlegur fjöldi stjórnarmanna ekki kosinn við fyrstu atkvæðagreiðslu, og hafi frambjóðendur verið fleiri en sá fjöldi stjórnarmanna sem kjósa skal í atkvæðagreiðslunni, skulu frekari atkvæðagreiðslur fara fram, eins og nauðsyn krefur. Fyrir síðari atkvæðagreiðslur:
                  a.      Sá frambjóðandi sem fær fæst atkvæði í fyrri atkvæðagreiðslu skal ekki vera í kjöri í þeirri næstu.
                  b.      Einungis skulu greiða atkvæði: i) fulltrúar í bankaráði sem kusu í fyrri atkvæðagreiðslu frambjóðanda sem náði ekki kjöri og ii) fulltrúar í bankaráði, ef talið er að atkvæði þeirra til frambjóðanda sem náði ekki kjöri hafi aukið fjölda atkvæða þess frambjóðanda fram yfir viðeigandi aðlögunarhlutfall samkvæmt c-lið hér fyrir neðan.
                  c.      Atkvæðum allra fulltrúa í bankaráði sem kjósa hvern frambjóðanda skal bætt við í lækkandi röð fjölda þar til komið er fram yfir þann fjölda atkvæða sem mynda viðeigandi aðlögunarhlutfall. Fulltrúar í bankaráði sem eiga atkvæði sem talin voru í þeim útreikningi skulu taldir hafa notað öll sín atkvæði til að kjósa þann stjórnarmann, þ.m.t. sá fulltrúi í bankaráði sem á atkvæðin sem komu heildarfjöldanum yfir aðlögunarhlutfallið. Þeir fulltrúar í bankaráði sem eftir eru og eiga atkvæði sem ekki voru talin í þeim útreikningi skulu teljast hafa aukið heildaratkvæðafjölda frambjóðandans fram yfir aðlögunarhlutfallið og skulu atkvæði þessara fulltrúa í bankaráði ekki talin með í kosningu þess frambjóðanda. Þessir fulltrúar í bankaráði sem eftir eru mega greiða atkvæði í næstu atkvæðagreiðslu.
                  d.      Ef einungis á eftir að kjósa einn stjórnarmann í slíkri síðari atkvæðagreiðslu er heimild að kjósa hann með einföldum meirihluta þeirra atkvæða sem eftir eru. Öll slík atkvæði sem eftir eru teljast hafa verið talin með í kosningu síðasta sjónarmannsins.
     9.      Úthlutun atkvæða. Sérhver fulltrúi í bankaráði sem tekur ekki þá í atkvæðagreiðslu fyrir kosningu stjórnarmanns, eða ef atkvæði hans verða ekki til þess að sá stjórnarmaður nær kjöri, má úthluta þeim atkvæðum sem hann hefur rétt á til kjörins stjórnarmanns, að því tilskildu að fulltrúinn í bankaráði hafi áður fengið samþykki allra fulltrúa í bankaráði sem kusu þann stjórnarmann, fyrir úthlutuninni.
     10.      Forréttindi stofnaðila. Tilnefning og atkvæðagreiðsla fulltrúa í bankaráði vegna stjórnarmanna og útnefning varastjórnarmanna af hálfu stjórnarmanna skal lúta meginreglunni um að hver stofnaðili skuli hafa forréttindi til að tilnefna stjórnarmanninn eða varastjórnarmann í kjördæmi sínu varanlega eða þannig að þeir skiptist á.


ASIAN INFRASTRUCTURE INVESTMENT BANK
ARTICLES OF AGREEMENT


    The countries on whose behalf the present Agreement is signed agree as follows:
    Considering the importance of regional cooperation to sustain growth and promote economic and social development of the economies in Asia and thereby contribute to regional resilience against potential financial crises and other external shocks in the context of globalization;
    Acknowledging the significance of infrastructure development in expanding regional connectivity and improving regional integration, thereby promoting economic growth and sustaining social development for the people in Asia, and contributing to global economic dynamism;
    Realizing that the considerable long-term need for financing infrastructure development in Asia will be met more adequately by a partnership among existing multilateral development banks and the Asian Infrastructure Investment Bank (hereinafter referred to as the “Bank”);
     Convinced that the establishment of the Bank as a multilateral financial institution focusedon infrastructure development will help to mobilize much needed additional resources from inside and outside Asia and to remove the financing bottlenecks faced by the individual economies in Asia, and will complement the existing multilateral development banks, to promote sustained and stable growth in Asia;
    Have agreed to establish the Bank, which shall operate in accordance with the following:

CHAPTER I
PURPOSE, FUNCTIONS AND MEMBERSHIP
Article 1
Purpose

1.    The purpose of the Bank shall be to: (i) foster sustainable economic development, create wealth and improve infrastructure connectivity in Asia by investing in infrastructure and other productive sectors; and (ii) promote regional cooperation and partnership in addressing development challenges by working in close collaboration with other multilateral and bilateral development institutions.
2.    Wherever used in this Agreement, references to “Asia” and “region” shall include the geographical regions and composition classified as Asia and Oceania by the United Nations, except as otherwise decided by the Board of Governors.

Article 2
Functions

    To implement its purpose, the Bank shall have the following functions:
    (i)    to promote investment in the region of public and private capital for development purposes, in particular for development of infrastructure and other productive sectors;
    (ii)    to utilize the resources at its disposal for financing such development in the region, including those projects and programs which will contribute most effectively to the harmonious economic growth of the region as a whole and having special regard to the needs of less developed members in the region ;
    (iii)    to encourage private investment in projects, enterprises and activities contributing to economic development in the region, in particular in infrastructure and other productive sectors, and to supplement private investment when private capital is not available on reasonable terms and conditions; and
    (iv)    to undertake such other activities and provide such other services as may further these functions.

Article 3
Membership

1.    Membership in the Bank shall be open to members of the International Bank for Reconstruction and Development or the Asian Development Bank.
    (a)    Regional members shall be those members listed in Part A of Schedule A and other members included in the Asia region in accordance with paragraph 2 of Article 1. All other members shall be non-regional members.
    (b)    Founding Members shall be those members listed in Schedule A which, on or before the date specified in Article 57, shall have signed this Agreement and shall have fulfilled all other conditions of membership before the final date specified under paragraph 1 of Article 58.
2.    Members of the International Bank for Reconstruction and Development or the Asian Development Bank which do not become members in accordance with Article 58 may be admitted, under such terms and conditions as the Bank shall determine, to membership in the Bank by a Special Majority vote of the Board of Governors as provided in Article 28.
3.    In the case of an applicant which is not sovereign or not responsible for the conduct of its international relations, application for membership in the Bank shall be presented or agreed by the member of the Bank responsible for its international relations.

CHAPTER II
CAPITAL

Article 4
Authorized Capital

1.    The authorized capital stock of the Bank shall be one hundred billion United States dollars ($100,000,000,000), divided into one million (1,000,000) shares having a par value of 100,000 dollars ($100,000) each, which shall be available for subscription only by members in accordance with the provisions of Article 5.
2.    The original authorized capital stock shall be divided into paid-in shares and callable shares. Shares having an aggregate par value of twenty billion dollars ($20,000,000,000) shall be paid-in shares, and shares having an aggregate par value of eighty billion dollars ($80,000,000,000) shall be callable.
3.    The authorized capital stock of the Bank may be increased by the Board of Governors by a Super Majority vote as provided in Article 28, at such time and under such terms and conditions as it may deem advisable, including the proportion between paid-in and callable shares.
4.    The term “dollar” and the symbol “$” wherever used in this Agreement shall be understood as being the official currency of payment of the United States of America.

Article 5
Subscription of Shares

1.    Each member shall subscribe to shares of the capital stock of the Bank. Each subscription to the original authorized capital stock shall be for paid-in shares and callable shares in the proportion two (2) to eight (8). The initial number of shares available to be subscribed by countries which become members in accordance with Article 58 shall be that set forth in Schedule A.
2.    The initial number of shares to be subscribed by countries which are admitted to membership in accordance with paragraph 2 of Article 3 shall be determined by the Board of Governors; provided, however, that no such subscription shall be authorized which would have the effect of reducing the percentage of capital stock held by regional members below seventy-five (75) per cent of the total subscribed capital stock, unless otherwise agreed by the Board of Governors by a Super Majority vote as provided in Article 28.
3.    The Board of Governors may, at the request of a member, increase the subscription of such member on such terms and conditions as the Board may determine by a Super Majority vote as provided in Article 28; provided, however, that no such increase in the subscription of any member shall be authorized which would have the effect of reducing the percentage of capital stock held by regional members below seventy-five (75) per cent of the total subscribed capital stock, unless otherwise agreed by the Board of Governors by a Super Majority vote as provided in Article 28.
4.    The Board of Governors shall at intervals of not more than five (5) years review the capital stock of the Bank. In case of an increase in the authorized capital stock, each member shall have a reasonable opportunity to subscribe, under such terms and conditions as the Board of Governors shall determine, to a proportion of the increase of stock equivalent to the proportion which its stock theretofore subscribed bears to the total subscribed capital stock immediately prior to such increase. No member shall be obligated to subscribe to any part of an increase of capital stock.

Article 6
Payment of Subscriptions

1.    Payment of the amount initially subscribed by each Signatory to this Agreement which becomes a member in accordance with Article 58 to the paid-in capital stock of the Bank shall be made in five (5) installments, of twenty (20) per cent each of such amount, except as provided in paragraph 5 of this Article. The first installment shall be paid by each member within thirty (30) days after entry into force of this Agreement, or on or before the date of deposit on its behalf of its instrument of ratification, acceptance or approval in accordance with paragraph 1 of Article 58, whichever is later. The second installment shall become due one (1) year from the entry into force of this Agreement. The remaining three (3) installments shall become due successively one (1) year from the date on which the preceding installment becomes due.
2.    Each installment of the payment of initial subscriptions to the original paid-in capital stock shall be paid in dollars or other convertible currency, except as provided in paragraph 5 of this Article. The Bank may at any time convert such payments into dollars. All rights, including voting rights, acquired in respect of paid-in and associated callable shares for which such payments are due but have not been received shall be suspended until full payment is received by the Bank.
3.    Payment of the amount subscribed to the callable capital stock of the Bank shall be subject to call only as and when required by the Bank to meet its liabilities. In the event of such a call, payment may be made at the option of the member in dollars or in the currency required to discharge the obligations of the Bank for the purpose of which the call is made. Calls on unpaid subscriptions shall be uniform in percentage on all callable shares.
4.    The Bank shall determine the place for any payment under this Article, provided that, until the inaugural meeting of the Board of Governors, the payment of the first installment referred to in paragraph 1 of this Article shall be made to the Government of the People's Republic of China, as Trustee for the Bank.
5.    A member considered as a less developed country for purposes of this paragraph may pay its subscription under paragraphs 1 and 2 of this Article, as an alternative, either:
    (a)    entirely in dollars or other convertible currency in up to ten (10) installments, with each such installment equal to ten (10) percent of the total amount, the first and second installments due as provided in paragraph 1, and the third through tenth installments due on the second and subsequent anniversary dates of the entry into force of this Agreement; or
    (b)    with a portion in dollars or other convertible currency and a portion of up to fifty (50) per cent of each installment in the currency of the member, following the schedule of installments provided in paragraph 1 of this Article. The following provisions shall apply to payments under this sub-paragraph (b):
              (i)    The member shall advise the Bank at the time of subscription under paragraph 1 of this Article of the proportion of payments to be made in its own currency.
              (ii)    Each payment of a member in its own currency under this paragraph 5 shall be in such amount as the Bank determines to be equivalent to the full value in terms of dollars of the portion of the subscription being paid. The initial payment shall be in such amount as the member considers appropriate hereunder but shall be subject to such adjustment, to be effected within ninety (90) days of the date on which such payment was due, as the Bank shall determine to be necessary to constitute the full dollar equivalent of such payment.
              (iii)    Whenever in the opinion of the Bank, the foreign exchange value of a member's currency has depreciated to a significant extent, that member shall pay to the Bank within a reasonable time an additional amount of its currency required to maintain the value of all such currency held by the Bank on account of its subscription.
              (iv)    Whenever in the opinion of the Bank, the foreign exchange value of a member's currency has appreciated to a significant extent, the Bank shall pay to that member within a reasonable time an amount of that currency required to adjust the value of all such currency held by the Bank on account of its subscription.
              (v)    The Bank may waive its rights to payment under sub-paragraph (iii) and the member may waive its rights to payment under sub-paragraph (iv).
6.    The Bank shall accept from any member paying its subscription under sub-paragraph 5 (b) of this Article promissory notes or other obligations issued by the Government of the member, or by the depository designated by such member, in lieu of the amount to be paid in the currency of the member, provided such amount is not required by the Bank for the conduct of its operations. Such notes or obligations shall be non-negotiable, non-interest- bearing, and payable to the Bank at par value upon demand.

Article 7
Terms of Shares

1.    Shares of stock initially subscribed by members shall be issued at par. Other shares shall be issued at par unless the Board of Governors by a Special Majority vote as provided in Article 28 decides in special circumstances to issue them on other terms.
2.    Shares of stock shall not be pledged or encumbered in any manner whatsoever, and they shall be transferable only to the Bank.
3.    The liability of the members on shares shall be limited to the unpaid portion of their issue price.
4.    No member shall be liable, by reason of its membership, for obligations of the Bank.

Article 8
Ordinary Resources

    As used in this Agreement, the term “ordinary resources” of the Bank shall include the following:
    (i)    authorized capital stock of the Bank, including both paid-in and callable shares, subscribed pursuant to Article 5;
    (ii)    funds raised by the Bank by virtue of powers conferred by paragraph 1 of Article 16, to which the commitment to calls provided for in paragraph 3 of Article 6 is applicable;
    (iii)    funds received in repayment of loans or guarantees made with the resources indicated in sub-paragraphs (i) and (ii) of this Article or as returns on equity investments and other types of financing approved under sub-paragraph 2 (vi) of Article 11 made with such resources;
    (iv)    income derived from loans made from the aforementioned funds or from guarantees to which the commitment to calls set forth in paragraph 3 of Article 6 is applicable; and
    (v)    any other funds or income received by the Bank which do not form part of its Special Funds resources referred to in Article 17 of this Agreement.

CHAPTER III
OPERATIONS OF THE BANK

Article 9
Use of Resources

    The resources and facilities of the Bank shall be used exclusively to implement the purpose and functions set forth, respectively, in Articles 1 and 2, and in accordance with sound banking principles.

Article 10
Ordinary and Special Operations

1.    The operations of the Bank shall consist of:
    (i)    ordinary operations financed from the ordinary resources of the Bank, referred to in Article 8; and
    (ii)    special operations financed from the Special Funds resources referred to in Article 17.
    The two types of operations may separately finance elements of the same project or program.
2.    The ordinary resources and the Special Funds resources of the Bank shall at all times and in all respects be held, used, committed, invested or otherwise disposed of entirely separately from each other. The financial statements of the Bank shall show the ordinary operations and special operations separately.
3.    The ordinary resources of the Bank shall, under no circumstances, be charged with, or used to discharge, losses or liabilities arising out of special operations or other activities for which Special Funds resources were originally used or committed.
4.    Expenses appertaining directly to ordinary operations shall be charged to the ordinary resources of the Bank. Expenses appertaining directly to special operations shall be charged to the Special Funds resources. Any other expenses shall be charged as the Bank shall determine.

Article 11
Recipients and Methods of Operation

1.     (a)    The Bank may provide or facilitate financing to any member, or any agency, instrumentality or political subdivision thereof, or any entity or enterprise operating in the territory of a member, as well as to international or regional agencies or entities concerned with economic development of the region.
    (b)    The Bank may, in special circumstances, provide assistance to a recipient not listed in sub-paragraph (a) above only if the Board of Governors, by a Super Majority vote as provided in Article 28: (i) shall have determined that such assistance is designed to serve the purpose and come within the functions of the Bank and is in the interest of the Bank's membership; and (ii) shall have specified the types of assistance under paragraph 2 of this Article that may be provided to such recipient.
2.    The Bank may carry out its operations in any of the following ways:
    (i)     by making, co-financing or participating in direct loans;
    (ii)    by investment of funds in the equity capital of an institution or enterprise;
    (iii)    by guaranteeing, whether as primary or secondary obligor, in whole or in part, loans for economic development;
    (iv)    by deploying Special Funds resources in accordance with the agreements determining their use;
    (v)    by providing technical assistance in accordance with Article 15; or
    (vi)    through other types of financing as may be determined by the Board of Governors, by a Special Majority vote as provided in Article 28.

Article 12
Limitations on Ordinary Operations

1.    The total amount outstanding of loans, equity investments, guarantees and other types of financing provided by the Bank in its ordinary operations under sub-paragraphs 2 (i), (ii), (iii) and (vi) of Article 11 shall not at any time be increased, if by such increase the total amount of its unimpaired subscribed capital, reserves and retained earnings included in its ordinary resources would be exceeded. Notwithstanding the provisions of the preceding sentence, the Board of Governors may, by a Super Majority vote as provided in Article 28, determine at any time that, based on the Bank's financial position and financial standing, the limitation under this paragraph may be increased, up to 250% of the Bank's unimpaired subscribed capital, reserves and retained earnings included in its ordinary resources.
2.    The amount of the Bank's disbursed equity investments shall not at any time exceed an amount corresponding to its total unimpaired paid-in subscribed capital and general reserves.

Article 13
Operating Principles

    The operations of the Bank shall be conducted in accordance with the principles set out below.
1.    The Bank shall be guided by sound banking principles in its operations.
2.    The operations of the Bank shall provide principally for the financing of specific projects or specific investment programs, for equity investment, and for technical assistance in accordance with Article 15.
3.    The Bank shall not finance any undertaking in the territory of a member if that member objects to such financing.
4.    The Bank shall ensure that each of its operations complies with the Bank's operational and financial policies, including without limitation, policies addressing environmental and social impacts.
5.    In considering an application for financing, the Bank shall pay due regard to the ability of the recipient to obtain financing or facilities elsewhere on terms and conditions that the Bank considers reasonable for the recipient, taking into account all pertinent factors.
6.    In providing or guaranteeing financing, the Bank shall pay due regard to the prospects that the recipient and guarantor, if any, will be in a position to meet their obligations under the financing contract.
7.    In providing or guaranteeing financing, the financial terms, such as rate of interest and other charges and the schedule for repayment of principal shall be such as are, in the opinion of the Bank, appropriate for the financing concerned and the risk to the Bank.
8.    The Bank shall place no restriction upon the procurement of goods and services from any country from the proceeds of any financing undertaken in the ordinary or special operations of the Bank.
9.    The Bank shall take the necessary measures to ensure that the proceeds of any financing provided, guaranteed or participated in by the Bank are used only for the purposes for which the financing was granted and with due attention to considerations of economy and efficiency.
10.    The Bank shall pay due regard to the desirability of avoiding a disproportionate amount of its resources being used for the benefit of any member.
11.    The Bank shall seek to maintain reasonable diversification in its investments in equity capital. In its equity investments, the Bank shall not assume responsibility for managing any entity or enterprise in which it has an investment and shall not seek a controlling interest in the entity or enterprise concerned, except where necessary to safeguard the investment of the Bank.

Article 14
Terms and Conditions for Financing

1.    In the case of loans made or participated in or loans guaranteed by the Bank, the contract shall establish, in conformity with the operating principles set forth in Article 13 and subject to the other provisions of this Agreement, the terms and conditions for the loan or the guarantee concerned. In setting such terms and conditions, the Bank shall take fully into account the need to safeguard its income and financial position.
2.    Where the recipient of loans or guarantees of loans is not itself a member, the Bank may, when it deems it advisable, require that the member in whose territory the project concerned is to be carried out, or a public agency or any instrumentality of that member acceptable to the Bank, guarantee the repayment of the principal and the payment of interest and other charges on the loan in accordance with the terms thereof.
3.    The amount of any equity investment shall not exceed such percentage of the equity capital of the entity or enterprise concerned as permitted under policies approved by the Board of Directors.
4.    The Bank may provide financing in its operations in the currency of the country concerned, in accordance with policies that minimize currency risk.

Article 15
Technical Assistance

1.    The Bank may provide technical advice and assistance and other similar forms of assistance which serve its purpose and come within its functions.
2.    Where expenditures incurred in furnishing such services are not reimbursable, the Bank shall charge such expenditures to the income of the Bank.

CHAPTER IV
FINANCES OF THE BANK

Article 16
General Powers

    In addition to the powers specified elsewhere in this Agreement, the Bank shall have the powers set out below.
1.    The Bank may raise funds, through borrowing or other means, in member countries or elsewhere, in accordance with the relevant legal provisions.
2.    The Bank may buy and sell securities the Bank has issued or guaranteed or in which it has invested.
3.    The Bank may guarantee securities in which it has invested in order to facilitate their sale.
4.    The Bank may underwrite, or participate in the underwriting of, securities issued by any entity or enterprise for purposes consistent with the purpose of the Bank.
5.    The Bank may invest or deposit funds not needed in its operations.
6.    The Bank shall ensure that every security issued or guaranteed by the Bank shall bear on its face a conspicuous statement to the effect that it is not an obligation of any Government, unless it is in fact the obligation of a particular Government, in which case it shall so state.
7.    The Bank may establish and administer funds held in trust for other parties, provided such trust funds are designed to serve the purpose and come within the functions of the Bank, under a trust fund framework which shall have been approved by the Board of Governors.
8.    The Bank may establish subsidiary entities which are designed to serve the purpose and come within the functions of the Bank, only with the approval of the Board of Governors by a Special Majority vote as provided in Article 28.
9.    The Bank may exercise such other powers and establish such rules and regulations as may be necessary or appropriate in furtherance of its purpose and functions, consistent with the provisions of this Agreement.

Article 17
Special Funds

1.    The Bank may accept Special Funds which are designed to serve the purpose and come within the functions of the Bank; such Special Funds shall be resources of the Bank. The full cost of administering any Special Fund shall be charged to that Special Fund.
2.    Special Funds accepted by the Bank may be used on terms and conditions consistent with the purpose and functions of the Bank and with the agreement relating to such Funds.
3.    The Bank shall adopt such special rules and regulations as may be required for the establishment, administration and use of each Special Fund. Such rules and regulations shall be consistent with the provisions of this Agreement, except for those provisions expressly applicable only to ordinary operations of the Bank.
4.    The term “Special Funds resources” shall refer to the resources of any Special Fund and shall include:
    (i)    funds accepted by the Bank for inclusion in any Special Fund;
    (ii)    funds received in respect of loans or guarantees, and the proceeds of any equity investments, financed from the resources of any Special Fund which, under the rules and regulations of the Bank governing that Special Fund, are received by such Special Fund;
    (iii)    income derived from investment of Special Funds resources; and
    (iv)    any other resources placed at the disposal of any Special Fund.

Article 18
Allocation and Distribution of Net Income

1.    The Board of Governors shall determine at least annually what part of the net income of the Bank shall be allocated, after making provision for reserves, to retained earnings or other purposes and what part, if any, shall be distributed to the members. Any such decision on the allocation of the Bank's net income to other purposes shall be taken by a Super Majority vote as provided in Article 28.
2.    The distribution referred to in the preceding paragraph shall be made in proportion to the number of shares held by each member, and payments shall be made in such manner and in such currency as the Board of Governors shall determine.

Article 19
Currencies

1.    Members shall not impose any restrictions on currencies, including the receipt, holding, use or transfer by the Bank or by any recipient from the Bank, for payments in any country.
2.    Whenever it shall become necessary under this Agreement to value any currency in terms of another or determine whether any currency is convertible, such valuation or determination shall be made by the Bank.

Article 20
Methods of Meeting Liabilities of the Bank

1.    In the Bank's ordinary operations, in cases of arrears or default on loans made, participated in, or guaranteed by the Bank, and in cases of losses on equity investment or other types of financing under sub-paragraph 2 (vi) of Article 11, the Bank shall take such action as it deems appropriate. The Bank shall maintain appropriate provisions against possible losses.
2.    Losses arising in the Bank's ordinary operations shall be charged:
    (i)     first, to the provisions referred to in paragraph 1 above;
    (ii)    second, to net income;
    (iii)    third, against reserves and retained earnings;
    (iv)     fourth, against unimpaired paid-in capital; and
    (v)    last, against an appropriate amount of the uncalled subscribed callable capital which shall be called in accordance with the provisions of paragraph 3 of Article 6.

CHAPTER V
GOVERNANCE

Article 21
Structure

    The Bank shall have a Board of Governors, a Board of Directors, a President, one or more Vice-Presidents, and such other officers and staff as may be considered necessary.

Article 22
Board of Governors: Composition

1.    Each member shall be represented on the Board of Governors and shall appoint one Governor and one Alternate Governor. Each Governor and Alternate Governor shall serve at the pleasure of the appointing member. No Alternate Governor may vote except in the absence of his principal.
2.    At each of its annual meetings, the Board shall elect one of the Governors as Chairman who shall hold office until the election of the next Chairman.
3.    Governors and Alternate Governors shall serve as such without remuneration from the Bank, but the Bank may pay them reasonable expenses incurred in attending meetings.

Article 23
Board of Governors: Powers

1.    All the powers of the Bank shall be vested in the Board of Governors.
2.    The Board of Governors may delegate to the Board of Directors any or all its powers, except the power to:
    (i)    admit new members and determine the conditions of their admission;
    (ii)     increase or decrease the authorized capital stock of the Bank;
    (iii)    suspend a member;
    (iv)    decide appeals from interpretations or applications of this Agreement given by the Board of Directors;
    (v)    elect the Directors of the Bank and determine the expenses to be paid for Directors and Alternate Directors and remuneration, if any, pursuant to paragraph 6 of Article 25;
    (vi)    elect the President, suspend or remove him from office, and determine his remuneration and other conditions of service;
    (vii)    approve, after reviewing the auditors' report, the general balance sheet and the statement of profit and loss of the Bank;
    (viii)    determine the reserves and the allocation and distribution of the net profits of the Bank;
    (ix)    amend this Agreement;
    (x)    decide to terminate the operations of the Bank and to distribute its assets; and
    (xi)    exercise such other powers as are expressly assigned to the Board of Governors in this Agreement.
3.    The Board of Governors shall retain full power to exercise authority over any matter delegated to the Board of Directors under paragraph 2 of this Article.

Article 24
Board of Governors: Procedure

1.    The Board of Governors shall hold an annual meeting and such other meetings as may be provided for by the Board of Governors or called by the Board of Directors. Meetings of the Board of Governors shall be called by the Board of Directors whenever requested by five (5) members of the Bank.
2.    A majority of the Governors shall constitute a quorum for any meeting of the Board of Governors, provided such majority represents not less than two-thirds of the total voting power of the members.
3.    The Board of Governors shall by regulation establish procedures whereby the Board of Directors may obtain a vote of the Governors on a specific question without a meeting and provide for electronic meetings of the Board of Governors in special circumstances.
4.    The Board of Governors, and the Board of Directors to the extent authorized, may establish such subsidiary entities, and adopt such rules and regulations, as may be necessary or appropriate to conduct the business of the Bank.

Article 25
Board of Directors: Composition

1.    The Board of Directors shall be composed of twelve (12) members who shall not be members of the Board of Governors, and of whom:
    (i)    nine (9) shall be elected by the Governors representing regional members; and
    (ii)    three (3) shall be elected by the Governors representing non-regional members.
    Directors shall be persons of high competence in economic and financial matters and shall be elected in accordance with Schedule B. Directors shall represent members whose Governors have elected them as well as members whose Governors assign their votes to them.
2.    The Board of Governors shall, from time to time, review the size and composition of the Board of Directors, and may increase or decrease the size or revise the composition as appropriate, by a Super Majority vote as provided in Article 28.
3.    Each Director shall appoint an Alternate Director with full power to act for him when he is not present. The Board of Governors shall adopt rules enabling a Director elected by more than a specified number of members to appoint an additional Alternate Director.
4 .    Directors and Alternate Directors shall be nationals of member countries. No two or more Directors may be of the same nationality nor may any two or more Alternate Directors be of the same nationality. Alternate Directors may participate in meetings of the Board but may vote only when the Alternate Director is acting in place of the Director.
5.    Directors shall hold office for a term of two (2) years and may be re-elected.
    (a)    Directors shall continue in office until their successors shall have been chosen and assumed office.
    (b)    If the office of a Director becomes vacant more than one hundred and eighty (180) days before the end of his term, a successor shall be chosen in accordance with Schedule B, for the remainder of the term, by the Governors who elected the former Director. A majority of the votes cast by such Governors shall be required for such election. The Governors who elected a Director may similarly choose a successor if the office of a Director becomes vacant one hundred and eighty (180) days or less before the end of his term.
    (c)    While the office of a Director remains vacant, an Alternate Director of the former Director shall exercise the powers of the latter, except that of appointing an Alternate Director.
6.    Directors and Alternate Directors shall serve without remuneration from the Bank, unless the Board of Governors shall decide otherwise, but the Bank may pay them reasonable expenses incurred in attending meetings.

Article 26
Board of Directors: Powers

    The Board of Directors shall be responsible for the direction of the general operations of the Bank and, for this purpose, shall, in addition to the powers assigned to it expressly by this Agreement, exercise all the powers delegated to it by the Board of Governors, and in particular:
    (i)    prepare the work of the Board of Governors;
    (ii)    establish the policies of the Bank, and, by a majority representing not less than three- fourths of the total voting power of the members, take decisions on major operational and financial policies and on delegation of authority to the President under Bank policies;
    (iii)    take decisions concerning operations of the Bank under paragraph 2 of Article 11, and, by a majority representing not less than three-fourths of the total voting power of the members, decide on the delegation of such authority to the President;
    (iv)    supervise the management and the operation of the Bank on a regular basis, and establish an oversight mechanism for that purpose, in line with principles of transparency, openness, independence and accountability;
    (v)    approve the strategy, annual plan and budget of the Bank;
    (vi)    appoint such committees as deemed advisable; and
    (vii)    submit the audited accounts for each financial year for approval of the Board of Governors.

Article 27
Board of Directors: Procedure

1.    The Board of Directors shall meet as often as the business of the Bank may require, periodically throughout the year. The Board of Directors shall function on a non-resident basis except as otherwise decided by the Board of Governors by a Super Majority vote as provided in Article 28. Meetings may be called by the Chairman or whenever requested by three (3) Directors.
2.    A majority of the Directors shall constitute a quorum for any meeting of the Board of Directors, provided such majority represents not less than two-thirds of the total voting power of the members.
3.    The Board of Governors shall adopt regulations under which, if there is no Director of its nationality, a member may send a representative to attend, without right to vote, any meeting of the Board of Directors when a matter particularly affecting that member is under consideration.
4.    The Board of Directors shall establish procedures whereby the Board can hold an electronic meeting or vote on a matter without holding a meeting.

Article 28
Voting

1.    The total voting power of each member shall consist of the sum of its basic votes, share votes and, in the case of a Founding Member, its Founding Member votes.
    (i)    The basic votes of each member shall be the number of votes that results from the equal distribution among all the members of twelve (12) per cent of the aggregate sum of the basic votes, share votes and Founding Member votes of all the members.
    (ii)    The number of the share votes of each member shall be equal to the number of shares of the capital stock of the Bank held by that member.
    (iii)    Each Founding Member shall be allocated six hundred (600) Founding Member votes.
    In the event a member fails to pay any part of the amount due in respect of its obligations in relation to paid-in shares under Article 6, the number of share votes to be exercised by the member shall, as long as such failure continues, be reduced proportionately, by the percentage which the amount due and unpaid represents of the total par value of paid-in shares subscribed to by that member.
2.    In voting in the Board of Governors, each Governor shall be entitled to cast the votes of the member he represents.
    (i)    Except as otherwise expressly provided in this Agreement, all matters before the Board of Governors shall be decided by a majority of the votes cast.
    (ii)    A Super Majority vote of the Board of Governors shall require an affirmative vote of two-thirds of the total number of Governors, representing not less than three-fourths of the total voting power of the members.
    (iii)    A Special Majority vote of the Board of Governors shall require an affirmative vote of a majority of the total number of Governors, representing not less than a majority of the total voting power of the members.
3.    In voting in the Board of Directors, each Director shall be entitled to cast the number of votes to which the Governors who elected him are entitled and those to which any Governors who have assigned their votes to him, pursuant to Schedule B, are entitled.
    (i)    A Director entitled to cast the votes of more than one member may cast the votes for those members separately.
    (ii)    Except as otherwise expressly provided in this Agreement, all matters before the Board of Directors shall be decided by a majority of the votes cast.

Article 29
The President

1.    The Board of Governors, through an open, transparent and merit-based process, shall elect a president of the Bank by a Super Majority vote as provided in Article 28. He shall be a national of a regional member country. The President, while holding office, shall not be a Governor or a Director or an Alternate for either.
2.    The term of office of the President shall be five (5) years. He may be re-elected once. The President may be suspended or removed from office when the Board of Governors so decides by a Super Majority vote as provided in Article 28.
    (a)    If the office of the President for any reason becomes vacant during his term, the Board of Governors shall appoint an Acting President for a temporary period or elect a new President, in accordance with paragraph 1 of this Article.
3.    The President shall be Chairman of the Board of Directors but shall have no vote, except a deciding vote in case of an equal division. He may participate in meetings of the Board of Governors but shall not vote.
4.    The President shall be the legal representative of the Bank. He shall be chief of the staff of the Bank and shall conduct, under the direction of the Board of Directors, the current business of the Bank.

Article 30
Officers and Staff of the Bank

1.    One or more Vice-Presidents shall be appointed by the Board of Directors on the recommendation of the President, on the basis of an open, transparent and merit-based process. A Vice-President shall hold office for such term, exercise such authority and perform such functions in the administration of the Bank, as may be determined by the Board of Directors. In the absence or incapacity of the President, a Vice-President shall exercise the authority and perform the functions of the President.
2.    The President shall be responsible for the organization, appointment and dismissal of the officers and staff in accordance with regulations adopted by the Board of Directors, with the exception of Vice-Presidents to the extent provided in paragraph 1 above.
3.    In appointing officers and staff and recommending Vice-Presidents, the President shall, subject to the paramount importance of securing the highest standards of efficiency and technical competence, pay due regard to the recruitment of personnel on as wide a regional geographical basis as possible.

Article 31
The International Character of the Bank

1.    The Bank shall not accept Special Funds, loans or assistance that may in any way prejudice, limit, deflect or otherwise alter its purpose or functions.
2.    The Bank, its President, officers and staff shall not interfere in the political affairs of any member, nor shall they be influenced in their decisions by the political character of the member concerned. Only economic considerations shall be relevant to their decisions. Such considerations shall be weighed impartially in order to achieve and carry out the purpose and functions of the Bank.
3.    The President, officers and staff of the Bank, in the discharge of their offices, owe their duty entirely to the Bank and to no other authority. Each member of the Bank shall respect the international character of this duty and shall refrain from all attempts to influence any of them in the discharge of their duties.

CHAPTER VI
GENERAL PROVISIONS

Article 32
Offices of the Bank

1.    The principal office of the Bank shall be located in Beijing, People's Republic of China.
2.    The Bank may establish agencies or offices elsewhere.

Article 33
Channel of Communication; Depositories

1.    Each member shall designate an appropriate official entity with which the Bank may communicate in connection with any matter arising under this Agreement.
2.    Each member shall designate its central bank, or such other institution as may be agreed upon with the Bank, as a depository with which the Bank may keep its holdings of currency of that member as well as other assets of the Bank.
3.    The Bank may hold its assets with such depositories as the Board of Directors shall determine.

Article 34
Reports and Information

1.    The working language of the Bank shall be English, and the Bank shall rely on the English text of this Agreement for all decisions and for interpretations under Article 54.
2.    Members shall furnish the Bank with such information it may reasonably request of them in order to facilitate the performance of its functions.
3.    The Bank shall transmit to its members an annual report containing an audited statement of its accounts and shall publish such report. It shall also transmit quarterly to its members a summary statement of its financial position and a profit and loss statement showing the results of its operations.
4.    The Bank shall establish a policy on the disclosure of information in order to promote transparency in its operations. The Bank may publish such reports as it deems desirable in the carrying out of its purpose and functions.

Article 35
Cooperation with Members and International Organizations

1.    The Bank shall work in close cooperation with all its members, and, in such manner as it may deem appropriate within the terms of this Agreement, with other international financial institutions, and international organizations concerned with the economic development of the region or the Bank's operational areas.
2.    The Bank may enter into arrangements with such organizations for purposes consistent with this Agreement, with the approval of the Board of Directors.

Article 36
References

1.    References in this Agreement to Article or Schedule refer to Articles and Schedules of this Agreement, unless otherwise specified.
2.    References in this Agreement to a specific gender shall be equally applicable to any gender.

CHAPTER VII
WITHDRAWAL AND SUSPENSION OF MEMBERS
Article 37
Withdrawal of Membership

1.    Any member may withdraw from the Bank at any time by delivering a notice in writing to the Bank at its principal office.
2.    Withdrawal by a member shall become effective, and its membership shall cease, on the date specified in its notice but in no event less than six (6) months after the date that notice has been received by the Bank. However, at any time before the withdrawal becomes finally effective, the member may notify the Bank in writing of the cancellation of its notice of intention to withdraw.
3.    A withdrawing member shall remain liable for all direct and contingent obligations to the Bank to which it was subject at the date of delivery of the withdrawal notice. If the withdrawal becomes finally effective, the member shall not incur any liability for obligations resulting from operations of the Bank effected after the date on which the withdrawal notice was received by the Bank.

Article 38
Suspension of Membership

1.    If a member fails to fulfill any of its obligations to the Bank, the Board of Governors may suspend such member by a Super Majority vote as provided in Article 28.
2.    The member so suspended shall automatically cease to be a member one (1) year from the date of its suspension, unless the Board of Governors decides by a Super Majority vote as provided in Article 28 to restore the member to good standing.
3.    While under suspension, a member shall not be entitled to exercise any rights under this Agreement, except the right of withdrawal, but shall remain subject to all its obligations.

Article 39
Settlement of Accounts

1.    After the date on which a country ceases to be a member, it shall remain liable for its direct obligations to the Bank and for its contingent liabilities to the Bank so long as any part of the loans, guarantees, equity investments or other forms of financing under paragraph 2 (vi) of Article 11 (hereinafter, other financing) contracted before it ceased to be a member is outstanding, but it shall not incur liabilities with respect to loans, guarantees, equity investments or other financing entered into thereafter by the Bank nor share either in the income or the expenses of the Bank.
2.    At the time a country ceases to be a member, the Bank shall arrange for the repurchase of such country's shares by the Bank as a part of the settlement of accounts with such country in accordance with the provisions of paragraphs 3 and 4 of this Article. For this purpose, the repurchase price of the shares shall be the value shown by the books of the Bank on the date the country ceases to be a member.
3.    The payment for shares repurchased by the Bank under this Article shall be governed by the following conditions:
    (i)    Any amount due to the country concerned for its shares shall be withheld so long as that country, its central bank or any of its agencies, instrumentalities or political subdivisions remains liable, as borrower, guarantor or other contracting party with respect to equity investment or other financing, to the Bank and such amount may, at the option of the Bank, be applied on any such liability as it matures. No amount shall be withheld on account of the contingent liability of the country for future calls on its subscription for shares in accordance with paragraph 3 of Article 6. In any event, no amount due to a member for its shares shall be paid until six (6) months after the date on which the country ceases to be a member.
    (ii)    Payments for shares may be made from time to time, upon surrender of the corresponding stock certificates by the country concerned, to the extent by which the amount due as the repurchase price in accordance with paragraph 2 of this Article exceeds the aggregate amount of liabilities, on loans, guarantees, equity investments and other financing referred to in sub-paragraph (i) of this paragraph, until the former member has received the full repurchase price.
    (iii)    Payments shall be made in such available currencies as the Bank determines, taking into account its financial position.
    (iv)    If losses are sustained by the Bank on any loans, guarantees, equity investments or other financing which were outstanding on the date when a country ceased to be a member and the amount of such losses exceeds the amount of the reserve provided against losses on that date, the country concerned shall repay, upon demand, the amount by which the repurchase price of its shares would have been reduced if the losses had been taken into account when the repurchase price was determined. In addition, the former member shall remain liable on any call for unpaid subscriptions in accordance with paragraph 3 of Article 6, to the same extent that it would have been required to respond if the impairment of capital had occurred and the call had been made at the time the repurchase price of its shares was determined.
    4.    If the Bank terminates its operations pursuant to Article 41 within six (6) months of the date upon which any country ceases to be a member, all rights of the country concerned shall be determined in accordance with the provisions of Articles 41 to 43. Such country shall be considered as still a member for purposes of such Articles but shall have no voting rights.

CHAPTER VIII
SUSPENSION AND TERMINATION OF OPERATIONS OF THE BANK
Article 40
Temporary Suspension of Operations

    In an emergency, the Board of Directors may temporarily suspend operations in respect of new loans, guarantees, equity investment and other forms of financing under sub- paragraph 2 (vi) of Article 11, pending an opportunity for further consideration and action by the Board of Governors.

Article 41
Termination of Operations

1.    The Bank may terminate its operations by a resolution of the Board of Governors approved by a Super Majority vote as provided in Article 28.
2.    After such termination, the Bank shall forthwith cease all activities, except those incident to the orderly realization, conservation and preservation of its assets and settlement of its obligations.

Article 42
Liability of Members and Payments of Claims

1.    In the event of termination of the operation of the Bank, the liability of all members for uncalled subscriptions to the capital stock of the Bank and in respect of the depreciation of their currencies shall continue until all claims of creditors, including all contingent claims, shall have been discharged.
2.    All creditors holding direct claims shall first be paid out of the assets of the Bank and then out of payments to the Bank or unpaid or callable subscriptions. Before making any payments to creditors holding direct claims, the Board of Directors shall make such arrangements as are necessary, in its judgment, to ensure a pro rata distribution among holders of direct and contingent claims.

Article 43
Distribution of Assets

1.    No distribution of assets shall be made to members on account of their subscriptions to the capital stock of the Bank until:
    (i)    all liabilities to creditors have been discharged or provided for; and
    (ii)    the Board of Governors has decided, by a Super Majority vote as provided in Article 28, to make such distribution.
2.    Any distribution of the assets of the Bank to the members shall be in proportion to the capital stock held by each member and shall be effected at such times and under such conditions as the Bank shall deem fair and equitable. The shares of assets distributed need not be uniform as to type of asset. No member shall be entitled to receive its share in such a distribution of assets until it has settled all of its obligations to the Bank.
3.    Any member receiving assets distributed pursuant to this Article shall enjoy the same rights with respect to such assets as the Bank enjoyed prior to their distribution.

CHAPTER IX
STATUS, IMMUNITIES, PRIVILEGES AND EXEMPTIONS
Article 44
Purposes of Chapter

1.    To enable the Bank to fulfill its purpose and carry out the functions entrusted to it, the status, immunities, privileges and exemptions set forth in this Chapter shall be accorded to the Bank in the territory of each member.
2.    Each member shall promptly take such action as is necessary to make effective in its own territory the provisions set forth in this Chapter and shall inform the Bank of the action which it has taken.

Article 45
Status of the Bank

    The Bank shall possess full juridical personality and, in particular, the full legal capacity:
    (i)    to contract;
    (ii)    to acquire, and dispose of, immovable and movable property;
    (iii)    to institute and respond to legal proceedings; and
    (iv)    to take such other action as may be necessary or useful for its purpose and activities.

Article 46
Immunity from Judicial Proceedings

1.    The Bank shall enjoy immunity from every form of legal process, except in cases arising out of or in connection with the exercise of its powers to raise funds, through borrowings or other means, to guarantee obligations, or to buy and sell or underwrite the sale of securities, in which cases actions may be brought against the Bank only in a court of competent jurisdiction in the territory of a country in which the Bank has an office, or has appointed an agent for the purpose of accepting service or notice of process, or has issued or guaranteed securities.
2.    Notwithstanding the provisions of paragraph 1 of this Article, no action shall be brought against the Bank by any member, or by any agency or instrumentality of a member, or by any entity or person directly or indirectly acting for or deriving claims from a member or from any agency or instrumentality of a member. Members shall have recourse to such special procedures for the settlement of controversies between the Bank and its members as may be prescribed in this Agreement, in the by-laws and regulations of the Bank, or in the contracts entered into with the Bank.
3.    Property and assets of the Bank shall, wheresoever located and by whomsoever held, be immune from all forms of seizure, attachment or execution before the delivery of final judgment against the Bank.

Article 47
Immunity of Assets and Archives

1.    Property and assets of the Bank, wheresoever located and by whomsoever held, shall be immune from search, requisition, confiscation, expropriation or any other form of taking or foreclosure by executive or legislative action.
2.    The archives of the Bank, and, in general, all documents belonging to it, or held by it, shall be inviolable, wheresoever located and by whomsoever held.

Article 48
Freedom of Assets from Restrictions

    To the extent necessary to carry out the purpose and functions of the Bank effectively, and subject to the provisions of this Agreement, all property and assets of the Bank shall be free from restrictions, regulations, controls and moratoria of any nature.

Article 49
Privilege for Communications

    Official communications of the Bank shall be accorded by each member the same treatment that it accords to the official communications of any other member.

Article 50
Immunities and Privileges of Officers and Employees

    All Governors, Directors, Alternates, the President, Vice-Presidents and other officers and employees of the Bank, including experts and consultants performing missions or services for the Bank:
    (i)    shall be immune from legal process with respect to acts performed by them in their official capacity, except when the Bank waives the immunity and shall enjoy inviolability of all their official papers, documents and records;
    (ii)    where they are not local citizens or nationals, shall be accorded the same immunities from immigration restrictions, alien registration requirements and national service obligations, and the same facilities as regards exchange regulations, as are accorded by members to the representatives, officials and employees of comparable rank of other members; and
    (iii)    shall be granted the same treatment in respect of travelling facilities as is accorded by members to representatives, officials and employees of comparable rank of other members.

Article 51
Exemption from Taxation

1.    The Bank, its assets, property, income and its operations and transactions pursuant to this Agreement, shall be exempt from all taxation and from all customs duties. The Bank shall also be exempt from any obligation for the payment, withholding or collection of any tax or duty.
2.    No tax of any kind shall be levied on or in respect of salaries, emoluments and expenses, as the case may be, paid by the Bank to Directors, Alternate Directors, the President, Vice-Presidents and other officers or employees of the Bank, including experts and consultants performing missions or services for the Bank, except where a member deposits with its instrument of ratification, acceptance, or approval a declaration that such member retains for itself and its political subdivisions the right to tax salaries, and emoluments, as the case may be, paid by the Bank to citizens or nationals of such member.
3.    No tax of any kind shall be levied on any obligation or security issued by the Bank, including any dividend or interest thereon, by whomsoever held:
    (i)    which discriminates against such obligation or security solely because it is issued by the Bank; or
    (ii)    if the sole jurisdictional basis for such taxation is the place or currency in which it is issued, made payable or paid, or the location of any office or place of business maintained by the Bank.
4.    No tax of any kind shall be levied on any obligation or security guaranteed by the Bank, including any dividend or interest thereon, by whomsoever held:
    (i)    which discriminates against such obligation or security solely because it is guaranteed by the Bank; or
    (ii)    if the sole jurisdictional basis for such taxation is the location of any office or place of business maintained by the Bank.

Article 52
Waivers

1.    The Bank at its discretion may waive any of the privileges, immunities and exemptions conferred under this Chapter in any case or instance, in such manner and upon such conditions as it may determine to be appropriate in the best interests of the Bank.

CHAPTER X
AMENDMENT, INTERPRETATION AND ARBITRATION
Article 53
Amendments

1.    This Agreement may be amended only by a resolution of the Board of Governors approved by a Super Majority vote as provided in Article 28.
2.    Notwithstanding the provisions of paragraph 1 of this Article, the unanimous agreement of the Board of Governors shall be required for the approval of any amendment modifying:
    (i)    the right to withdraw from the Bank;
    (ii)    the limitations on liability provided in paragraphs 3 and 4 of Article 7; and
    (iii)    the rights pertaining to purchase of capital stock provided in paragraph 4 of Article 5.
3.    Any proposal to amend this Agreement, whether emanating from a member or the Board of Directors, shall be communicated to the Chairman of the Board of Governors, who shall bring the proposal before the Board of Governors. When an amendment has been adopted, the Bank shall so certify in an official communication addressed to all members. Amendments shall enter into force for all members three (3) months after the date of the official communication unless the Board of Governors specifies therein a different period.

Article 54
Interpretation

1.    Any question of interpretation or application of the provisions of this Agreement arising between any member and the Bank, or between two or more members of the Bank, shall be submitted to the Board of Directors for decision. If there is no Director of its nationality on that Board, a member particularly affected by the question under consideration shall be entitled to direct representation in the Board of Directors during such consideration; the representative of such member shall, however, have no vote. Such right of representation shall be regulated by the Board of Governors.
2.    In any case where the Board of Directors has given a decision under paragraph 1 of this Article, any member may require that the question be referred to the Board of Governors, whose decision shall be final. Pending the decision of the Board of Governors, the Bank may, so far as it deems necessary, act on the basis of the decision of the Board of Directors.

Article 55
Arbitration

    If a disagreement should arise between the Bank and a country which has ceased to be a member, or between the Bank and any member after adoption of a resolution to terminate the operations of the Bank, such disagreement shall be submitted to arbitration by a tribunal of three arbitrators. One of the arbitrators shall be appointed by the Bank, another by the country concerned, and the third, unless the parties otherwise agree, by the President of the International Court of Justice or such other authority as may have been prescribed by regulations adopted by the Board of Governors. A majority vote of the arbitrators shall be sufficient to reach a decision which shall be final and binding upon the parties. The third arbitrator shall be empowered to settle all questions of procedure in any case where the parties are in disagreement with respect thereto.

Article 56
Approval Deemed Given

    Whenever the approval of any member is required before any act may be done by the Bank except under paragraph 2 of Article 53, approval shall be deemed to have been given unless the member presents an objection within such reasonable period as the Bank may fix in notifying the member of the proposed act.

CHAPTER XI
FINAL PROVISIONS

Article 57
Signature and Deposit

1.    This Agreement, deposited with the Government of the People's Republic of China (hereinafter called the “Depository”), shall remain open until December 31, 2015 for signature by the Governments of countries whose names are set forth in Schedule A.
2.    The Depository shall send certified copies of this Agreement to all the Signatories and other countries which become members of the Bank.

Article 58
Ratification, Acceptance or Approval

1.    This Agreement shall be subject to ratification, acceptance or approval by the Signatories. Instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depository not later than December 31, 2016, or if necessary, until such later date as may be decided by the Board of Governors by a Special Majority vote as provided in Article 28. The Depository shall duly notify the other Signatories of each deposit and the date thereof.
2.    A Signatory whose instrument of ratification, acceptance or approval is deposited before the date on which this Agreement enters into force, shall become a member of the Bank, on that date. Any other Signatory which complies with the provisions of the preceding paragraph, shall become a member of the Bank on the date on which its instrument of ratification, acceptance or approval is deposited.

Article 59
Entry into Force

    This Agreement shall enter into force when instruments of ratification, acceptance or approval have been deposited by at least ten (10) Signatories whose initial subscriptions, as set forth in Schedule A to this Agreement, in the aggregate comprise not less than fifty (50) per cent of total of such subscriptions.

Article 60
Inaugural Meeting and Commencement of Operations

1.    As soon as this Agreement enters into force, each member shall appoint a Governor, and the Depository shall call the inaugural meeting of the Board of Governors.
2.    At its inaugural meeting, the Board of Governors:
    (i)    shall elect the President;
    (ii)    shall elect the Directors of the Bank in accordance with paragraph 1 of Article 25, provided that the Board of Governors may decide to elect fewer Directors for an initial period shorter than two years in consideration of the number of members and Signatories which have not yet become members;
    (iii)    shall make arrangements for the determination of the date on which the Bank shall commence its operations; and
    (iv)    shall make such other arrangements as necessary to prepare for the commencement of the Bank's operations.
3.    The Bank shall notify its members of the date of the commencement of its operations.

    DONE at Beijing, People's Republic of China on June 29, 2015, in a single original deposited in the archives of the Depository, whose English, Chinese and French texts are equally authentic.


SCHEDUlE A

Initial Subscriptions to the Authorized Capital Stock for Countries Which May Become Members in accordance with Article 58


Number of Shares Capital Subscription
(in million $)
PART A.
REGIONAL MEMBERS
Australia 36,912 3,691.2
Azerbaijan 2,541 2541
Bangladesh 6,605 6605
Brunei Darussalam 524 524
Cambodia 623 623
China 297,804 29,780.4
Georgia 539 539
India 83,673 8,367.3
Indonesia 33,607 3,360.7
Iran 15,808 1,580.8
Israel 7,499 7499
Jordan 1,192 1192
Kazakhstan 7,293 7293
Korea 37,388 3,738.8
Kuwait 5,36 5360
Kyrgyz Republic 268 268
Lao People's Democratic Republic 430 430
Malaysia 1,095 1095
Maldives 72 72
Mongolia 411 411
Myanmar 2,645 2645
Nepal 809 809
New Zealand 4,615 4615
Oman 2,592 2592
Pakistan 10,341 1,034.1
Philippines 9,791 9791
Qatar 6,044 6044
Russia 65,362 6,536.2
Saudi Arabia 25,446 2,544.6
Singapore 2,5 2500
Sri Lanka 2,69 2690
Tajikistan 309 309
Thailand 14,275 1,427.5
Turkey 26,099 2,609.9
United Arab Emirates 11,857 1,185.7
Uzbekistan 2,198 2198
Vietnam 6,633 6633
Unallocated 16,15 1,615.0
TOTAL 750 75,000.0

PART B.
NON-REGIONAl MEMBERS
Austria 5,008 5008
Brazil 31,81 3,181.0
Denmark 3,695 3695
Egypt 6,505 6505
Finland 3,103 3103
France 33,756 3,375.6
Germany 44,842 4,484.2
Iceland 176 176
Italy 25,718 2,571.8
Luxembourg 697 697
Malta 136 136
Netherlands 10,313 1,031.3
Norway 5,506 5506
Poland 8,318 8318
Portugal 650 650
South Africa 5,905 5905
Spain 17,615 1,761.5
Sweden 6,3 6300
Switzerland 7,064 7064
United Kingdom 30,547 3,054.7
Unallocated 2,336 2336
TOTAL 250 25,000.0
GRAND TOTAL 1,000,000 100,000.0


SCHEDUlE B

ElECTION OF DIRECTORS
    The Board of Governors shall prescribe rules for the conduct of each election of Directors, in accordance with the following provisions.
     1.      Constituencies. Each Director shall represent one or more members in a constituency. The total aggregate voting power of each constituency shall consist of the votes which the Director is entitled to cast under paragraph 3 of Article 28.
     2.      Constituency Voting Power. For each election, the Board of Governors shall establish a Minimum Percentage for constituency voting power for Directors to be elected by Governors representing regional members (Regional Directors) and a Minimum Percentage for constituency voting power for Directors to be elected by Governors representing non-regional members (Non-Regional Directors).
         (a)    The Minimum Percentage for Regional Directors shall be set as a percentage of the total votes eligible to be cast in the election by the Governors representing regional members (Regional Governors). The initial Minimum Percentage for Regional Directors shall be 6%.
         (b)    The Minimum Percentage for Non-Regional Directors shall be set as a percentage of the total votes eligible to be cast in the election by the Governors representing non-regional members (Non-Regional Governors). The initial Minimum Percentage for Non-Regional Directors shall be 15%.
     3.      Adjustment Percentage. In order to adjust voting power across constituencies when subsequent rounds of balloting are required under paragraph 7 below, the Board of Governors shall establish, for each election, an Adjustment Percentage for Regional Directors and an Adjustment Percentage for Non-Regional Directors. Each Adjustment Percentage shall be higher than the corresponding Minimum Percentage.
         (a)    The Adjustment Percentage for Regional Directors shall be set as a percentage of the total votes eligible to be cast in the election by the Regional Governors. The initial Adjustment Percentage for Regional Directors shall be 15%.
         (b)    The Adjustment Percentage for Non-Regional Directors shall be set as a percentage of the total votes eligible to be cast in the election by the Non-Regional Governors. The initial Adjustment Percentage for Non-Regional Directors shall be 60%.
     4.      Number of Candidates. For each election, the Board of Governors shall establish the number of Regional Directors and Non-Regional Directors to be elected, in light of its decisions on the size and composition of the Board of Directors pursuant to paragraph 2 of Article 25.
         (a)    The initial number of Regional Directors shall be nine.
         (b)    The initial number of Non-Regional Directors shall be three.
     5.      Nominations. Each Governor may only nominate one person. Candidates for the office of Regional Director shall be nominated by Regional Governors. Candidates for the office of Non-Regional Director shall be nominated by Non-Regional Governors.
     6.      Voting. Each Governor may vote for one candidate, casting all of the votes to which the member appointing him is entitled under paragraph 1 of Article 28. The election of Regional Directors shall be by ballot of Regional Governors. The election of Non- Regional Directors shall be by ballot of Non-Regional Governors.
     7.      First Ballot. On the first ballot, candidates receiving the highest number of votes, up to the number of Directors to be elected, shall be elected as Directors, provided that, to be elected, a candidate shall have received a sufficient number of votes to reach the applicable Minimum Percentage.
         (a)    If the required number of Directors is not elected on the first ballot, and the number of candidates was the same as the number of Directors to be elected, the Board of Governors shall determine the subsequent actions to complete the election of Regional Directors or the election of Non-Regional Directors, as the case may be.
     8.      Subsequent Ballots. If the required number of Directors is not elected on the first ballot, and there were more candidates than the number of Directors to be elected on the ballot, there shall be subsequent ballots, as necessary. For subsequent ballots:
         (a)    The candidate receiving the lowest number of votes in the preceding ballot shall not be a candidate in the next ballot.
         (b)    Votes shall be cast only by: (i) Governors who voted in the preceding ballot for a candidate who was not elected; and (ii) Governors whose votes for a candidate who was elected are deemed to have raised the votes for that candidate above the applicable Adjustment Percentage under (c) below.
         (c)    The votes of all the Governors who cast votes for each candidate shall be added in descending order of number, until the number of votes representing the applicable Adjustment Percentage has been exceeded. Governors whose votes were counted in that calculation shall be deemed to have cast all their votes for that Director, including the Governor whose votes brought the total over the Adjustment Percentage. The remaining Governors whose votes were not counted in that calculation shall be deemed to have raised the candidate's total votes above the Adjustment Percentage, and the votes of those Governors shall not count towards the election of that candidate. These remaining Governors may vote in the next ballot.
         (d)    If in any subsequent ballot, only one Director remains to be elected, the Director may be elected by a simple majority of the remaining votes. All such remaining votes shall be deemed to have counted towards the election of the last Director.
     9.      Assignment of Votes. Any Governor who does not participate in voting for the election or whose votes do not contribute to the election of a Director may assign the votes to which he is entitled to an elected Director, provided that such Governor shall first have obtained the agreement of all those Governors who have elected that Director to such assignment.
     10.      Founding Member Privileges. The nomination and voting by Governors for Directors and the appointment of Alternate Directors by Directors shall respect the principle that each Founding Member shall have the privilege to designate the Director or an Alternate Director in its constituency permanently or on a rotating basis.