Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 667  —  449. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar


um stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna.


Flm.: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar,
Valgerður Bjarnadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna á Íslandi.
    Undirbúningur verði hafinn með því að kanna kosti og þörf á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns flóttamanna. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar með skýrslu fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings.

Greinargerð.

    Fordæmalaus fjölgun hefur að undanförnu orðið á umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi eða 85% aukning miðað við sama tíma í fyrra. Samhliða hafa ítrekað komið upp mál þar sem hörð gagnrýni hefur komið fram vegna málsmeðferðar þeirra flóttamanna sem leita hælis á Íslandi. Sú gagnrýni hefur bæði beinst að löngum afgreiðslutíma, aðstæðum hælisleitenda meðan þeir bíða úrlausnar um hælisumsókn sína og loks endanlegri ákvörðun um synjun eða samþykkt þess að þeir fái hér hæli. Ásakanir hafa komið fram um að brotið sé á mannréttindum hælisleitenda, mannúðarsjónarmið verið sniðgengin o.s.frv.
    Nærtækt er að vitna í lýsingu lögmanns sem hefur haft málefni flóttamanna og hælisleitenda á sinni könnu og lýsir aðstæðum þeirra í nýlegu fjölmiðlaviðtali með þessum orðum: „Það hefur verið skelfileg reynsla að vera lögmaður hælisleitenda síðustu ár. Maður hefur horft á fólk drabbast niður og verða umkomulaust. Það hefur komið hingað með lífsglampa í augum, tilbúið að vinna og láta gott af sér leiða. Svo situr það og starir á vegg í þrjú ár á meðan mál þess er til meðferðar í stjórnsýslunni. Það verður alveg ónýt manneskja. Það er ótrúlegt hvað óvissa og langur biðtími getur gert við fullhrausta einstaklinga þegar þeir hafa ekkert fyrir stafni. Á meðan fólki er ekki tryggður réttur til atvinnu er gífurlega mikilvægt að það sé einhver sem hittir þetta fólk, kennir því hvernig samfélagið virkar og lærir hvernig þeirra virkar. Þetta samtal að þú sért ekki bara aukaeining og afæta. Það skiptir rosalega miklu máli fyrir fólkið“ ( www.ruv.is/frett/eru-haelisleitendur-i-betri-hondum).
    Mikils er um vert að vanda vel til verka við móttöku flóttamanna sem hafa lagt á sig erfitt og oft lífshættulegt ferðalag um langan veg til að forða sér og fjölskyldum sínum frá stríðsógnum á átakasvæðum eða úr óbærilegum aðstæðum af öðrum toga. Móttaka fólks sem gengið hefur í gegnum þær mannraunir sem fréttir votta síðustu mánuði og missiri krefst því ýtrustu fagmennsku. Þetta á jafnt við um hælisleitendur og flóttamenn sem hingað koma í boði íslenskra stjórnvalda eða svokallað kvótaflóttafólk.
    Augljóst virðist að þeir flóttamenn og hælisleitendur sem hingað koma þarfnast í sumum tilvikum betri ráðgjafar og handleiðslu varðandi lagalega stöðu sína og möguleika í íslensku samfélagi.
    Í frumvarpsdrögum, sem þverpólitísk nefnd þingmanna hefur unnið fyrir innanríkisráðuneytið um ný útlendingalög, er ráð fyrir því gert að öll samskipti útlendinga við íslensk stjórnvöld fari fram í gegnum eina stofnun, Útlendingastofnun. Hér er tekið undir það sjónarmið að samþætta þurfi þá þjónustu sem íslensk stjórnvöld geta veitt útlendingum, þar á meðal hælisleitendum, en jafnframt verður að benda á mikilvægi þess að hagsmunagæsla og réttaraðstoð við útlendinga sé á einni hendi, þ.e. að skilið sé á milli úrskurðar- og rannsóknarhlutverks sem Útlendingastofnun hefur með höndum annars vegar og hagsmuna- og réttargæslu flóttamanna hins vegar. Er það í reynd eina breytingin sem þessi þingsályktun hefði í för með sér fyrir frumvarpið, þ.e. að hefja undirbúning að stofnun embættis sem færi með slíka hagsmunagæslu.
    Ýmsar stofnanir og aðilar eiga aðkomu að málefnum flóttamanna og hælisleitenda, Útlendingastofnun, Rauði krossinn á Íslandi, Fjölmenningarsetur, Mannréttindaskrifstofa Íslands, sveitarfélög og einstakir lögmenn meðal annars. Með þingsályktunartillögunni er ætlunin að kannaðir verði kostir þess að samþætta þá ráðgjöf og aðstoð sem flóttamönnum er veitt á Íslandi, þannig að þeir geti leitað á einn stað þar sem hagsmunir þeirra eru bornir fyrir brjósti einvörðungu og þeim leiðbeint og veitt sú aðstoð sem þeir þurfa.
    Rúmt ár er síðan Rauði krossinn samdi við innanríkisráðuneytið um að taka að sér hagsmunagæslu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd. Rauði krossinn þiggur nú fjárframlög frá innanríkisráðuneyti til að sinna þessu verkefni. Bent hefur verið á að þetta fjárveitingasamband kunni að ógna sjálfstæði Rauða krossins sem mannúðarsamtaka. Sem dæmi má taka að fjárvana hælisleitendur geta ekki valið sér talsmann til að veita þeim réttaraðstoð við meðferð máls síns þar sem íslensk stjórnvöld greiða einungis lögfræðingum á vegum Rauða krossins fyrir slíka aðstoð við hælisleitendur. Þetta hefur verið gagnrýnt af lögmönnum, enda þó að starfsmenn Rauða krossins leggi sig alla fram um að sinna hlutverkinu vel. Þá hefur núverandi fyrirkomulag í för með sér þá hættu að eftirlits- og aðvörunarhlutverkið sem Rauði krossinn hefur haft með höndum varðandi réttindi flóttamanna og hælisleitenda fari forgörðum.
    Með því að koma á fót embætti umboðsmanns flóttamanna væri tryggt að hælisleitendum og flóttamönnum yrði ekki einungis veitt hlutlaus aðstoð, heldur virk aðstoð sem fyrst og fremst tæki mið af þeirra hagsmunum og réttarstöðu. Umboðsmanni væri falið að sinna hlutverki talsmanns hælisleitenda eða útvega talsmann eftir atvikum líkt og Rauði krossinn gerir nú. Gera má ráð fyrir að umboðsmaður flóttamanna eigi samstarf við og leiðbeini flóttamanninum í samskiptum við ráðgefandi aðila og/eða stofnanir á borð við Fjölmenningarsetur, Rauða krossinn og Útlendingastofnun sem áfram mundu sinna sínu hlutverki við frekari ráðgjöf, aðstoð og úrlausn eins og áður.
    Með stofnun sérstaks embættis umboðsmanns flóttamanna væri einnig girt fyrir það sem gerst hefur ítrekað að opinber embætti, t.d. Útlendingastofnun, fái yfir sig reiðiöldur almennings þegar teknar eru ákvarðanir eða úrskurðað um réttindi flóttamanna og hælisleitenda og ásakanir um að hagsmuna þeirra sé ekki gætt, haldið sé illa utan um þá o.s.frv. Þá mundi það auka frelsi Rauða krossins sem sjálfstæðra mannúðarsamtaka til þess að beita sér fastar í málefnum flóttamanna að vera ekki í fjárveitingasamskiptum við það ráðuneyti sem fer með málefni útlendinga hér á landi, þar á meðal málefni hælisleitenda. Jafnframt verður að hafa í huga að Útlendingastofnun, sem tekur ákvarðanir í málum hælisleitenda, er undirstofnun ráðuneytisins.
    Ljóst er að gjá hefur myndast milli almenningsálitsins og framkvæmdarvaldsins um lagaframkvæmdina í málefnum flóttamanna. Sú gjá er enn að breikka og hana þarf að brúa til hagsbóta fyrir málaflokkinn í heild.