Ferill 463. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 746  —  463. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2015.


1. Inngangur.
    Á árinu 2015 voru alþjóðamál meira áberandi í starfi Norðurlandaráðs en oft áður. Ísland fór með formennsku í ráðinu og forseti þess var Höskuldur Þórhallsson. Guðbjartur Hannesson var varaforseti Norðurlandaráðs frá janúar til september og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir frá október til desember.
    Í upphafi árs var ástand mála í Úkraínu og samstarf Norðurlandaráðs við rússneska þingmenn til umræðu í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Sú umræða var áframhald umræðu frá árinu áður þegar Norðurlandaráð samþykkti á Akureyri yfirlýsingu um að ólögleg innlimun Krímskaga í Rússland, eftir ólöglega þjóðaratkvæðagreiðslu á Krím um að ganga í Rússneska sambandsríkið, væri óásættanleg og bryti í bága við stjórnarskrá Úkraínu. Forseti Norðurlandaráðs sótti fund evrópskra þingmannasamtaka um öryggismál í Kænugarði í júní og Úkraína var einnig áberandi í umræðum um alþjóðamál á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í október. Þar sagði Kristian Jensen, utanríkisráðherra Danmerkur, fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna að þeir styddu vinnu OECD við að stuðla að stöðugleika í Austur-Úkraínu og að þeir styddu viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússlandi.
    Hryðjuverkaárásir í París og Kaupmannahöfn settu einnig svip sinn á starf Norðurlandaráðs í upphafi ársins. Forseti Norðurlandaráðs fordæmdi árásirnar og fyrirhugað vorþing Norðurlandaráðs sem halda átti í Evrópuþinginu í Brussel í mars var flutt til Kaupmannahafnar þar sem aukinn öryggisviðbúnaðar í Brussel í kjölfar árásanna í París gerði skipulagningu vorþingsins vandasama. Á vorþinginu samþykkti Norðurlandaráð yfirlýsingu þar sem fram kom að tjáningarfrelsi og lýðræði væru grundvallargildi sem væru meðal hornsteina hinna opnu, norrænu velferðarsamfélaga, og að Norðurlandaráð styddi nýlegt samkomulag norrænna ríkisstjórna um norrænt samstarf um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgastefnu.
    Palestína var einnig ofarlega á baugi í starfi Norðurlandaráðs á árinu vegna tillögu um að ráðið beindi tilmælum til norrænna ríkisstjórna um að þær legðu fyrir norrænu þjóðþingin tillögu um að þau viðurkenndu Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki og að Ísraelsmenn og Palestínumenn yrðu hvattir til, með stuðningi Norðurlanda, að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningum. Tillagan var umdeild, bæði innihaldsins vegna sem og hvort hlutverk Norðurlandaráðs væri að álykta um deilu utan Norðurlanda eða nærsvæðis þeirra. Tillagan var samþykkt en í breyttri mynd á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík í október þar sem Norðurlandaráð beindi tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að þær hvettu Ísraelsmenn og Palestínumenn, og veittu þeim stuðning, til að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningi.
    Á haustmánuðum hlutu málefni flóttamanna í Evrópu og á Norðurlöndum æ meiri athygli og á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík voru þau áberandi á leiðtogafundi norrænna forsætisráðherra og stjórnarleiðtoga, sem og í umræðum norrænna utanríkisráðherra, auk þess sem Norðurlandaráð stóð fyrir málþingi um flóttamenn í aðdraganda þingsins. Á leiðtogafundinum var nokkur samhljómur um að hvetja til alþjóðlegrar samvinnu ríkja vegna áskorana flóttamannastraumsins.
    Þá settu loftslagsbreytingar og fyrirhuguð loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París í desember einnig svip á alþjóðamálaumræðuna á þingi Norðurlandaráðs, auk þess sem norrænir umhverfisráðherrar sátu fyrir svörum í óundirbúnum munnlegum fyrirspurnartíma. Þar skýrði Lars Christian Lilleholt, umhverfisráðherra Danmerkur, fyrir hönd norrænu umhverfisráðherranna frá nýrri yfirlýsingu þeirra um að láta til sín taka varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, styrki til framleiðslu jarðefnaeldsneytis og fjármögnun aðgerða í loftslagsmálum, í tengslum við alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum á COP21-ráðstefnunni í París.


2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þeir þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands 18 fulltrúa, Danmerkur 16 fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs um mánaðamótin október/nóvember er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er sérstök áhersla á ákveðið málefni. Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, Norrænt frelsi, og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2015 að mestu fram í fimm fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í byrjun árs 2015 skipuðu Íslandsdeild Höskuldur Þórhallsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Elín Hirst, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðbjartur Hannesson, þingflokki Samfylkingarinnar, Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Róbert Marshall, þingflokki Bjartrar framtíðar, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Brynhildur Pétursdóttir, þingflokki Bjartrar framtíðar, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigrún Magnúsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Breytingar urðu á Íslandsdeild í júní og september. 27. júní varð Sigríður Á. Andersen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, varamaður í stað Péturs H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. 8. september varð Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, varamaður í stað Sigríðar Á. Andersen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, varð varamaður í stað Brynjars Níelssonar, þingflokki Sjálfstæðisflokks. 8. september varð einnig Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, aðalmaður í stað Guðbjarts Hannessonar, þingflokki Samfylkingarinnar. 24. september varð Vigdís Hauksdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, aðalmaður í stað Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingflokki Framsóknarflokks, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks, varð varamaður í stað Sigrúnar Magnúsdóttur, þingflokki Framsóknarflokks.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2015 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2015 á 66. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Stokkhólmi 28.–30. október 2014. Nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs varð með þeim hætti að Höskuldur Þórhallsson og Guðbjartur Hannesson voru í forsætisnefnd, Valgerður Gunnarsdóttir í menningar- og menntamálanefnd og eftirlitsnefnd, Elín Hirst í borgara- og neytendanefnd, Róbert Marshall í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Steingrímur J. Sigfússon í efnahags- og viðskiptanefnd og kjörnefnd og Jóhanna María Sigmundsdóttir í velferðarnefnd. Í september tók Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sæti Guðbjarts Hannessonar í forsætisnefnd, Vigdís Hauksdóttir tók sæti Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur í velferðarnefnd og Steingrímur J. Sigfússon fór úr efnahags- og viðskiptanefnd í forsætisnefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Helgi Hjörvar sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins og Höskuldur Þórhallsson átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans. Róbert Marshall sótti fyrir hönd umhverfis- og náttúruauðlindanefndar ráðstefnu Benelux-þingsins um umhverfismál borga í Deventer í Hollandi 9. október og Steingrímur J. Sigfússon var áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs á fundi þingmannanefndar um norðurskautsmál í Strassborg 16.–17. desember.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði sjö sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingfundum Norðurlandaráðs og fjallað um einstök mál til meðferðar í nefndum og starfshópum ráðsins. Einnig var fjallað um önnur mál á verksviði nefndarinnar.
    Í janúar og febrúar voru blaðamannastyrkir Norðurlandaráðs á dagskrá. Ákveðið var að úthluta styrkjum til Arnars Páls Haukssonar, til verkefnis um norræna módelið, Ágústs Ólafssonar til verkefnis um umfjöllun svæðisstöðva NRK um menningu í dreifðum byggðum Noregs með samanburði við umfjöllun RÚV hér á landi, Birgis Þórs Harðarsonar, til verkefnis um hversu vel búin ríki á Norðurlöndum eru gagnvart árásum tölvuþrjóta og hvaða leiðir hafa verið farnar til að tryggja upplýsingar, Helgu Brekkan, til verkefnis um samtök og stofnanir sem starfa gegn kynþáttafordómum og útlendingahatri, Ingu Rúnar Sigurðardóttur, til verkefnis um tískuvikuna í Kaupmannahöfn, Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur, til verkefnis um árangurinn af norrænni samvinnu, sérstaklega á vettvangi Norðurlandaráðs, og hvaða máli verðlaun Norðurlandaráðs skipta vinningshafa, og Þórunnar Elísabetar Bogadóttur, til verkefnis um starfsemi og samstarf kvenréttindafélaga á Norðurlöndum.
    Í febrúar voru formennskuáætlun Íslands 2015 í Norðurlandaráði og Norræna húsið á dagskrá og fjallað um undirbúning fyrir fyrirhugaðan Fund fólksins í júní. Gestir fundarins voru Mikkel Harder, forstjóri Norræna hússins, Þuríður Helga Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri/verkefnastjóri hjá Norræna húsinu, Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri hjá Norræna húsinu, og Tryggvi Felixson, aðalráðgjafi á skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Samtök norrænna slökkviliðsmanna og norrænir styrkir og grasrótarsamtök voru á dagskrá í maí og gestir voru Ari Hauksson og Jónas Árnason frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og María Jónsdóttir frá Norrænu upplýsingaskrifstofunni á Akureyri.
    Fjallað var um undirbúning fyrirhugaðs þings Norðurlandaráðs í Reykjavík og verðlaunaafhendingar þess á fundum í janúar, mars, maí og október. Gestur í mars var Arta Ghavami, verkefnatengill hjá Nordisk Hymne, og gestir í október voru Rúnar Freyr Gíslason, verkefnastjóri verðlaunaafhendingar, og Hilmar Örn Agnarsson, tónlistarráðgjafi verðlaunaafhendingar.

Formennska í Norðurlandaráði.
    Ísland fór með formennsku í Norðurlandaráði árið 2015. Höskuldur Þórhallsson var forseti Norðurlandaráðs. Guðbjartur Hannesson var varaforseti frá janúar til september og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir varaforseti frá október til desember.
    Hlutverk forseta er að leiða og samhæfa störf forsætisnefndar, stjórna fundum nefndarinnar, stjórna þingfundi ráðsins og koma fram fyrir hönd Norðurlandaráðs gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Þá hefur forseti mikilvægu hlutverki að gegna varðandi stefnumótun í málefnum skrifstofu Norðurlandaráðs og vinnur náið með framkvæmdastjóra skrifstofunnar. Hlutverk varaforseta er að vera staðgengill forseta við stjórn funda ráðsins og staðgengill hans á alþjóðavettvangi.
    Formennskuáætlun Íslands 2015 skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hluti áætlunarinnar fjallaði um alþjóðlegt samfélag, með áherslu á utanríkis-, öryggis- og varnarmál, norðurslóðir, Vestur- Norðurlönd og granna í vestri. Í þeim hluta var áætlað að halda áfram á sömu braut og síðustu ár í starfi ráðsins til að stuðla að stöðugleika og lýðræðisþróun á nærsvæðum Norðurlanda til framtíðar, og stuðla að umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda í Norðurlandaráði og kanna samstarfsmöguleika við granna í vestri.
    Annar hluti formennskuáætlunarinnar fjallaði um velferðarsamfélag, með áherslu á framtíðarsamstarf í heilbrigðismálum og lýðheilsu. Í þeim hluta er áætlað að fylgja Könberg- skýrslunni eftir til að efla norrænt samstarf um heilbrigðismál til framtíðar, og að huga að þróun lýðheilsu á Norðurlöndum til lengri tíma og kanna hvað hægt sé að gera frekar sameiginlega á norrænum vettvangi til að sporna við þeirri þróun að langvinnir ósmitnæmir sjúkdómar á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, krabbamein og sykursýki eru nú orðnir orsök flestra dauðsfalla í heiminum.
    Þriðji hluti áætlunarinnar fjallaði um borgaralegt samfélag, með áherslu á norræn félagasamtök og stjórnsýsluhindranir. Í þeim hluta er áætlað að fjalla um tengsl norrænu félaganna og Norðurlandaráðs og stuðla að áframhaldandi öflugri starfsemi norrænna félagasamtaka, og styðja við starf Stjórnsýsluhindranaráðsins og fylgja eftir því starfi sem unnið hefur verið í Norðurlandaráði varðandi stjórnsýsluhindranir.
    Forseti Norðurlandaráðs var á árinu fulltrúi ráðsins á fjölmörgum fundum og ráðstefnum, en kostnaður við slík störf forseta er greiddur af skrifstofu ráðsins. Forseti lagði í alþjóðastarfi áherslu á öryggismál, og á árinu jókst samstarf við Suðaustur-Evrópu.
    Í febrúar tók forseti þátt í málþingi norðlenskra ungmenna um norrænt samstarf 16. febrúar á Akureyri og hátíðarhöldum í boði Norræna hússins og Norræna félagsins á degi Norðurlanda 23. mars í Norræna húsinu.
    Forseti sótti ráðstefnuna Balkan Forum, um svæðisbundið samstarf á Balkanskaga, dagana 19.–21. mars í Þessólóniku í Grikklandi og þemafund Benelux-þingsins um alþjóðlegar aðgerðir og samstarf í varnarmálum í Benelux-löndunum sem haldin var í Brussel 27. mars.
Guðbjartur Hannesson varaforseti var fulltrúi Norðurlandaráðs á 50 ára afmælisráðstefnu Sambands norrænu félaganna, sem haldin var í Kaupmannahöfn 29. apríl.
    Þá sóttu forseti og varaforseti þingmannafund Norðlægu víddarinnar í Reykjavík 10.–11. maí og varaforseti var fulltrúi Norðurlandaráðs á fundi þingmannanefndar um norðurskautsmál sem var haldinn 12. maí í Reykjavík.
    Í júní tók forseti þátt í þingi þingmannasamstarfs efnahagssamvinnu Svartahafsríkja í Chisinau í Moldóvu 8.–10. júní, þingfundi Benelux-þingsins 12.–13. júní í Brussel, og fundi þingmannasamtaka í Evrópu um öryggismál, sem haldinn var í Kænugarði 25.–27. júní.
    Varaforseti sótti Fund fólksins í Norræna húsinu 11.–13. júní og átti fund 16. júní í Alþingi með Cliona Manahan, sendiherra Írlands gagnvart Íslandi.
    Forseti sótti í ágúst 30 ára afmælisársfund Vestnorræna ráðsins í Runavík og Þórshöfn í Færeyjum 10.–13. ágúst og Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Rostock í Þýskalandi 30. ágúst–1. september.
    Í október tók forseti þátt í þingmannafundi Euronest í Strassborg 7. október og í Arctic Circle-ráðstefnunni í Reykjavík 15.–18. október.
    Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir varaforseti sótti þing Eystrasaltsþingsins í Vilníus 19.–20. nóvember.
    Í desember var forseti fulltrúi Norðurlandaráðs á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og fundi Alþjóðaþingmannasambandsins í París dagana 1.–6. desember og tók þátt í leiðtogafundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins 7. desember í Vilníus.
    Auk þátttöku í fundum og ráðstefnum var forseti Norðurlandaráðs virkur í fjölmiðlaumfjöllun um norræn málefni og málefni tengd alþjóðastarfi ráðsins. Hann brást skjótt við og fordæmdi hryðjuverkaárásir í París 7. janúar, í Kaupmannahöfn 14.–15. febrúar, og 13. nóvember í París, og lagði áherslu á baráttu gegn öfgastefnu.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd var árið 2015 skipuð forseta, varaforseta og allt að ellefu fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.
    Höskuldur Þórhallsson sat í forsætisnefnd allt árið. Guðbjartur Hannesson sat í forsætisnefnd frá janúar til september, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir frá september til desember og Steingrímur J. Sigfússon frá október til desember. Nefndin fundaði sex sinnum á árinu, fjórum sinnum á sama tíma og fagnefndir ráðsins í janúar, mars, september og október, og tvisvar á eigin vegum í júní og nóvember.
    Sumarfundur forsætisnefndar var haldinn á nefndasviði Alþingis 23. júní. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, og Guðbjartur Hannesson, varaforseti Norðurlandaráðs, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2016, Norðurlandaráðsþing 2015 í Reykjavík, áhrif frjálsrar samkeppni á norrænu velferðarríkin og samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um menntun og rannsóknir.
    Tillaga um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2016 var kynnt fyrir forsætisnefnd af Gisle Norheim, fjármálastjóra skrifstofu ráðherranefndarinnar. Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa ákveðið að fjárhagsáætlunin verði skorin niður um 1% árið 2016, sem samsvarar u.þ.b. 9 milljónum DKK. Heildarrammi fjárhagsáætlunar þar eftir er 922.464 milljónir DKK. Niðurskurður á fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar 2016 skiptist þannig að 60% eru skorin niður hjá ráðherranefnd samstarfsráðherra og 40% hjá ráðherranefnd um menntun og rannsóknir. Guðbjartur Hannesson spurði Gisle Norheim um málefni Norræna sumarháskólans, en sumarháskólinn hefur ekki lengur eigin fjárhagslið þar sem hann var færður undir fjárhagslið Norræna rannsóknarráðsins, NordForsk, á síðasta ári. Norðurlandaráð féllst á þá tilhögun fyrir árið 2015 á þeim forsendum að framlag til sumarháskólans yrði óbreytt. Norheim sagði að það væri Norræna rannsóknarráðsins að ákveða framlag til skólans árið 2016 og að skólinn ætti að vera samkeppnishæfur. Breytingartillögum við tillögu um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar ber að skila í ágúst og að því loknu mun forsætisnefnd vinna nefndarálit varðandi tillöguna um fjárhagsáætlun.
    Fjallað var um Norðurlandaráðsþing 2015 í Reykjavík og samþykktur gestalisti þess og ákveðið að standa að þingviðburði, málþingi, daginn fyrir þingsetningu. Höskuldur Þórhallsson greindi frá því að forsætisráðuneyti áformaði að halda fimmta fund Northern Future Forum í Reykjavík 28.–29. október, í framhaldi af þingi Norðurlandaráðs. Northern Future Forum (NFF) er leiðtogafundur Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og Bretlands. Fundinn sækja forsætisráðherrar þessara ríkja ásamt fulltrúum úr atvinnulífi og háskólasamfélagi. Fyrsti fundur NFF árið 2011, sem kallaður var Nordic Baltic Summit, var að frumkvæði forsætisráðherra Bretlands með það að markmiði að efla hagsæld, styrkja frumkvöðlastarfsemi og skapa störf á svæði þessara ríkja. Þar sem NFF hefst síðdegis miðvikudaginn 28. október myndaðist tækifæri til að bjóða forsætisráðherra Bretlands að ávarpa Norðurlandaráðsþingið eftir hádegi á miðvikudeginum. Forsætisnefnd fjallaði um þátttöku breska ráðherrans í þingi Norðurlandaráðs og ákvað að bjóða honum að ávarpa þingið og veitti forseta ráðsins ásamt skrifstofu þess umboð til að vinna áfram að málinu.
    Forsætisnefnd samþykkti einnig tvær tillögur í hlutverki þingfundar. Í fyrsta lagi samþykkti hún tilmæli samkvæmt nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um tillögu A 1615/næring um að ráðast í norrænt rannsóknarverkefni til að sýna fram á áhrif frjálsrar samkeppni á norrænu velferðarríkin. Í nefndarálitinu kemur fram að efnahags- og viðskiptanefnd vill að umfjöllun tillögunnar ljúki með að ritað verði bréf til Norræna rannsóknarráðsins og rannsóknarráða Norðurlanda af þeirri ástæðu að Norræna ráðherranefndin hefur falið Norræna rannsóknarráðinu að hafa áhrif á umfjöllunarefni rannsókna á sama hátt og rannsóknarráðum hefur verið falið það í norrænu löndunum. Því ákvað forsætisnefnd að ljúka málinu formlega með því að skrifa Norræna rannsóknarráðinu og rannsóknarráðum norrænu landanna bréf og hvetja þau til að hefja án fyrirvara norrænt rannsóknarverkefni sem sýni áhrif samkeppni á norræn velferðarsamfélög.
    Í öðru lagi samþykkti forsætisnefnd tilmæli samkvæmt nefndaráliti menningar- og menntamálanefndar um tillögu B 301/kultur um nýja samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um menntun og rannsóknir. Í tilmælunum beinir Norðurlandaráð því til Norrænu ráðherranefndarinnar að hrinda í framkvæmd ráðherranefndartillögu um samstarfsáætlun mennta- og rannsóknargeirans, en með þeirri viðbót að ráðherranefndin leggi fram greinargerð á þingi Norðurlandaráðs 2016 með lýsingu á þeim aðgerðum og verkefnum sem ráðherranefndin hefur gagngert í hyggju að framkvæma í tengslum við samstarfsáætlunina með hliðsjón af þeim tillögum og hugmyndum sem Norðurlandaráð sendi til ráðherranefndarinnar í tengslum við umsagnarferli tillögunnar.
    Desemberfundur forsætisnefndar var í Riksdagen í Stokkhólmi 30. nóvember. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, varaforseti Norðurlandaráðs, og Steingrímur J. Sigfússon, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs fyrir árið 2016, vinna við fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2017, samstarf við Eystrasaltsþingið 2016–2017, samstarf við skrifstofur Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn, nýjar þingmannatillögur og mat á 67. þingi Norðurlandaráðs.
    Gestir fundarins við umfjöllun um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar og samstarf við skrifstofur Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn voru formenn fagnefnda Norðurlandaráðs á nýju ári: Bente Stein Mathisen, formaður velferðarnefndar, Pyry Niemi, formaður hagvaxtar- og þróunarnefndar, Hanna Kosonen, formaður sjálfbærninefndar og Jorodd Asphjell, formaður þekkingar- og menningarnefndar.
    Forsætisnefnd samþykkti fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs fyrir árið 2016. Áætlunin er 36.460.000 danskar krónur, samsvarandi 691.646.200 íslenskum krónum, og fjármagna þingin í norrænu ríkjunum rekstur ráðsins að langstærstu leyti.
    Fjallað var um þátttöku Norðurlandaráðs í vinnu við fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2017 og lagt mat á þátttöku Norðurlandaráðs á árinu í vinnu við fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2016. Fram komu sjónarmið um að samræma mætti betur áherslur flokkahópa Norðurlandaráðs við vinnu við fjárhagsáætlunina 2017.
    Ákveðið var að flokkahóparnir tilnefndu fulltrúa sína í vinnunni fyrir fyrirhugaðan fund forsætisnefndar 26. janúar 2016 þar sem áætlað er að formaður norrænnar ráðherranefndar samstarfsráðherra verði gestur fundarins. Einnig var ákveðið að fagnefndir Norðurlandaráðs mundu leggja fram tillögur um áherslur í fjárhagsáætluninni og að talsmenn flokkahópa mundu funda næsta vor.
    Forsætisnefnd samþykkti samstarfsáætlun við Eystrasaltsþingið fyrir árin 2016–2017. Í samstarfsáætluninni er lögð áhersla á tengslamyndun við lönd innan samstarfs ESB í austurvegi, samstarf við Evrópuþingið, þingmannasamstarf í Evrópu um öryggismál og aukið samstarf fagnefnda Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins.
    Þá ákvað forsætisnefnd að efla samstarf við norrænar skrifstofur Sameinuðu þjóðanna sem hafa aðsetur í húsaþyrpingu í Kaupmannahöfn, svokallaðri SÞ-borg. Áætlun fyrir samstarfið á árinu 2016 gerir ráð fyrir fundi Norðurlandaráðs með skrifstofunum í upphafi árs, sameiginlegum málþingum um vor og sumar, og þingviðburði í SÞ-borginni í aðdraganda Norðurlandaráðsþings í Kaupmannahöfn í lok október. Nefndarmenn ræddu hugsanlegar áherslur í samstarfi Norðurlandaráðs við SÞ-borgina, á borð við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, og bent var á tengsl Sameinuðu þjóðanna við ákveðin mál sem fjallað hefði verið um á vettvangi ráðsins.
    Teknar voru til fyrstu umfjöllunar nýjar þingmannatillögur. Um var að ræða tillögu A 1652/presidiet um öryggismálaráðstefnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, tillögu A 1653/presidiet um að efla starfsemi norrænna skrifstofa í Eystrasaltsríkjum, tillögu A 1654/presidiet um umbótastarf og fjárhagsáætlunarferli, tillögu A 1666/presidiet um bætt samstarf Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar, tillögu A 1667/presidiet um skrifstofu í Brussel fyrir Norðurlandaráð og tillögu A 1669/presidiet um sjónvarpsverðlaun Norðurlandaráðs.
    Forsætisnefnd lagði einnig mat á 67. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík 27.–29. október. Nefndarmenn töldu að þingið í heild og verðlaunafhendingin hefði tekist vel en bentu á að tímaáætlun þingfundar hefði farið úr skorðum á tímabili. Lagt var til að færri mundu sitja á forsetastóli á þingfundi að ári. Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, sagði að það hefði verið gott að hafa þingviðburðinn um flóttamenn á mánudeginum í þingvikunni og verðlaunaafhendinguna á þriðjudeginum og að það hefði skipt máli að forsætisráðherrunum hefði verið kleift að vera viðstaddir verðlaunaafhendinguna.
    Forsætisnefnd afgreiddi árið 2015 úr nefnd fjögur mál sem voru samþykkt sem tilmæli Norðurlandaráðs: um eflt norrænt samstarf um þróunaraðstoð, um frið og sættir með friðarsamkomulagi á milli Ísraels og Palestínu, um endurskoðun á reglum um verðlaun Norðurlandaráðs, og um fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2016. Þá afgreiddi forsætisnefnd þrjú mál sem urðu að ákvörðunum um innri málefni: um viðmiðunarreglur Norðurlandaráðs um samstarf við sambandsþing og héraðsþing í Rússlandi, um stuðning við tveggja ríkja lausn á deilu Ísraels og Palestínu, og um nýja nefndatilhögun í Norðurlandaráði.

Menningar- og menntamálanefnd.
    Menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs fór með málefni menningar, kennslu og menntunar. Nefndin fjallaði um eftirfarandi svið: almenna menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg og fjölþjóðleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, norrænu félögin og frjáls félagasamtök, barna- og unglingamenningu, grunn- og framhaldsskóla, menntunarframboð á Norðurlöndum, almenningsfræðslu og fullorðinsfræðslu, og símenntun.
    Valgerður Gunnarsdóttir sat í menningar- og menntamálanefnd á starfsárinu 2015. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Menningar- og menntamálanefnd afgreiddi árið 2015 úr nefnd sex mál sem urðu tilmæli Norðurlandaráðs: um samstarfsáætlun um menntamál og rannsóknir, um netöryggi á Norðurlöndum, um úttekt á Norrænu blaðamannamiðstöðinni (NJC), um fjármögnun Alþjóðlegu samísku kvikmyndastofnunarinnar (ISF), um styrk til Alþjóðlegu samísku kvikmyndastofnunarinnar (ISF), og um norrænu menningarskólatöskuna.

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs fjallaði um efnahagsumhverfi, framleiðslu og verslun, þar með talið frelsi á markaði og atvinnumarkaði á Norðurlöndum. Hún fjallaði meðal annars um atvinnulíf/iðnað, innri markað, frjálsa för fólks, afnám stjórnsýsluhindrana, viðskipti, svæða og byggðaþróunarstyrki, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuumhverfi, innviði/samgöngur, fjarskipti og upplýsingatækni.
    Steingrímur J. Sigfússon sat í efnahags- og viðskiptanefnd á starfsárinu 2015. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi árið 2015 úr nefnd sex mál sem voru samþykkt sem tilmæli Norðurlandaráðs á árinu: um norrænar þríhliða viðræður, um framkvæmd tilskipana Evrópusambandsins, um verkefni sem ríkisstjórnirnar fela helstu ríkisstofnunum, um járnbrautakerfi yfir landamæri í þágu hagvaxtar og gæða andrúmslofts, um blossamark skipadísilolíu, og um sameiginleg innkaup opinberra stofnana á Norðurlöndum.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs vann að umhverfis- og náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda innan landbúnaðar, fiskveiða og skógræktar og -nýtingar. Enn fremur vann nefndin að orku- og samgöngustefnu í samstarfi við atvinnumálanefndina. Nefndin vann jafnt að norrænum og alþjóðlegum úrlausnarefnum. Enn fremur tók nefndin upp mál við ESB á framangreindum sviðum sem mikilvæg eru fyrir Norðurlönd. Nefndin fjallaði um efni á borð við endurnýjanlega orku og norrænan raforkumarkað, loftslagsbreytingar og aðgerðir til að minnka losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda, kjarnorkuöryggi, fiskveiðistjórnun, landbúnaðarstefnu ESB, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi, stjórnun stórra rándýrastofna á Norðurlöndum, verndun líffræðilegs fjölbreytileika, siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum.
    Róbert Marshall sat í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd á starfsárinu 2015. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd afgreiddi árið 2015 sex mál úr nefnd á árinu sem hlutu samþykkt sem tilmæli ráðsins: um samstarf um vatnatilskipun ESB og sterka stöðu á sviði vatnsauðlinda, um aðgang að góðu vatni og endurskoðun vatnatilskipunar ESB, um samkomulag á milli Danmerkur og Svíþjóðar um skilagjaldskerfi, um samkomulag á milli Svíþjóðar og Noregs um skilagjaldskerfi, um samkomulag á milli Þýskalands og Svíþjóðar um skilagjaldskerfi, og um samkomulag á milli Finnlands, Svíþjóðar og Álandseyja um skilagjaldskerfi.

Velferðarnefnd.
    Velferðarnefnd Norðurlandaráðs vann með norræna velferðarlíkanið, velferð, heilbrigðis- og félagsmálastefnu. Hún fjallaði um velferðar- og tryggingamál, félagsþjónustu og heilbrigðismál, málefni fatlaðra, bygginga- og húsnæðismál, fjölskyldumál, börn og unglinga, fíkniefni, áfengi og annan ofneysluvanda.
    Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vigdís Hauksdóttir sátu í velferðarnefnd á starfsárinu 2015.
    Velferðarnefnd afgreiddi árið 2015 úr nefnd sex mál sem urðu tilmæli Norðurlandaráðs: um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna, um aukið norrænt samstarf um reglur um au pair-vist, um velferðarþjónusta í dreifbýli á Norðurlöndum, um geðheilsu barna og ungmenna á Norðurlöndum, um síðbúnar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku, og um aukna þekkingu á fíknivanda og bætta meðferð við fíkn með samstarfi í norrænu rannsóknaneti.

Borgara- og neytendanefnd.
    Borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs fjallaði um málefni sem snerta réttindi borgara og neytenda auk meginþátta sem snerta lýðræði, mannréttindi, jafnrétti o.fl. og tengjast starfsvettvangi hennar. Nefndin fjallaði um lýðræði, mannréttindi, réttindi borgaranna, jafnrétti, neytendamál, matvælaöryggi, baráttu gegn glæpum, þar á meðal alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi, löggjöf, innflytjendur og flóttafólk, samstarf gegn kynþáttafordómum.
    Elín Hirst sat í borgara- og neytendanefnd á starfsárinu 2015. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgdist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hafði einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.
    Valgerður Gunnarsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd á starfsárinu 2015. Nefndin fundaði fimm sinnum á árinu.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbjó og gerði tillögur að kjöri sem fram fór á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd.
    Steingrímur J. Sigfússon sat í kjörnefnd á starfsárinu 2015. Nefndin fundaði þrisvar á árinu.


5. Fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda fjórum sinnum árið 2015, í janúar og september og í mars og október í tengslum við þingfundi ráðsins. Á fundunum var fjallað um og afgreidd þau mál sem lögð voru til samþykktar fyrir þingfundi Norðurlandaráðs í mars og október eða fyrir forsætisnefnd milli þingfunda.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Mariehamn.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í menningar- og ráðstefnuhúsinu Alandica í Mariehamn á Álandseyjum 26.–27. janúar. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í fundunum Höskuldur Þórhallsson, formaður, Elín Hirst, Guðbjartur Hannesson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Gunnarsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru þróunaraðstoð, Palestína, Þingmannaráð Sama, járnbrautasamgöngur, frjálst flæði einstaklinga og fyrirtækja á Norðurlöndum og þríhliða viðræður.
    Forsætisnefnd samþykkti samkvæmt umboði tilmæli Norðurlandaráðs um að efla norrænt samstarf um þróunaraðstoð. Þar beinir Norðurlandaráð þeim tilmælum til norrænna ríkisstjórna að þær taki virkan þátt í þeirri viðleitni að efla norrænt samstarf um þróunaraðstoð.
    Forsætisnefnd fjallaði einnig um tillögu A 1634/præsidiet um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. Ákveðið var að halda umfjöllun málsins áfram.
    Þá fjallaði forsætisnefnd einnig um umsókn Þingmannaráðs Sama um aðild að Norðurlandaráði. Umsóknin var einnig til umfjöllunar á fundi borgara- og neytendanefndar og var formaður hennar, Annicka Engblom, gestur á fundi forsætisnefndar varðandi umsögn borgara- og neytendanefndar um málið. Ákveðið var að útbúa svarbréf til Þingmannaráðs Sama á þeim nótum að áður en til aðildar gæti komið yrði að breyta Helsingforssamningnum og þar sem norrænu ríkisstjórnirnar ættu aðild að samningnum væri það ekki á valdi Norðurlandaráðs að gera það en um leið lýst yfir vilja til að endurskoða tengsl Þingmannaráðs Sama og Norðurlandaráðs, en samkvæmt 13. grein starfsreglna Norðurlandaráðs hafa Samaþingin í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð stöðu áheyrnarfulltrúa í Norðurlandaráði og rétt til að tjá sig í almennum umræðum á Norðurlandaráðsþingum og að öðru leyti samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar.
    Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi úr nefnd tillögu A 1639/näring um járnbrautarsamgöngur milli norrænna landa. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini tilmælum til ríkisstjórna Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur um að skipa starfshóp til að varpa skýrara ljósi á samfélagslegan ávinning og forsendur fyrir því að koma á háhraðalest milli Óslóar, Gautaborgar og Kaupmannahafnar.
    Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi einnig úr nefnd tvær tillögur varðandi frjálst flæði einstaklinga og fyrirtækja á Norðurlöndum. Í fyrsta lagi tillögu A 1631/näring um verkefni sem ríkisstjórnir Norðurlanda fela helstu ríkisstofnunum til að auðvelda frjálst flæði einstaklinga og fyrirtækja á Norðurlöndum. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini því til norrænna ríkisstjórna að ríkisstofnunum í löndunum verði falið að finna og tilkynna ríkisstjórnunum um stjórnsýsluhindranir sem bitna á einstaklingum og fyrirtækjum sem sækja vinnu yfir landamæri Norðurlanda og koma í ljós við beitingu ríkisstofnananna á lögum eða reglum, með hliðsjón af sambærilegu regluverki annars staðar á Norðurlöndum. Í öðru lagi tillögu A 1630/näring um framkvæmd tilskipana Evrópusambandsins. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini því til Norrænu ráðherranefndarinnar að innleiða þá starfshætti að formennskulandið í Norrænu ráðherranefndinni kanni væntanlegar gerðir ESB og forgangsraði þeim með hliðsjón af því hversu mikil áhrif þær eru taldar hafa á hreyfanleika á Norðurlöndum og bjóði embættismönnum í ráðuneytum, sem fara með framkvæmd þeirra, til norræns samráðs um túlkun, ferli og framkvæmd þessara ESB-gerða.
    Þá afgreiddi efnahags- og viðskiptanefnd einnig úr nefnd tillögu A 1623/näring um endurupptöku þríhliða viðræðna milli Norrænu ráðherranefndarinnar, fulltrúa atvinnulífsins og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Viðræðurnar tíðkuðust um árabil en var hætt að ósk fulltrúa atvinnulífsins. Í tillögunni er lagt til að Norðurlandaráð beini því til Norrænu ráðherranefndarinnar um að efna til árlegrar ráðstefnu þar sem þríhliða viðræður fara fram um tiltekið svið vinnumarkaðarins.
    Borgara- og neytendanefnd stóð ásamt Friðarstofnun Álandseyja að stuttri ráðstefnu í tengslum við janúarfundina með þátttöku fræðimanna og stjórnmálamanna sem nefndist „Sjálfstjórnarsvæðin á Norðurlöndum – reynsla og framtíðarsýn frá sjónarhorni friðar“. Á ráðstefnunni kom meðal annars fram að friður er eitt af gildum eða „vörumerkjum“ Norðurlanda sem þeim beri að leggja áherslu á á alþjóðlegum vettvangi. Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, setti ráðstefnuna.

Vorþing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Vorþing Norðurlandaráðs var haldið í Þjóðþinginu og í skrifstofubyggingu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 25.–26. mars. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í fundunum Höskuldur Þórhallsson, formaður, Elín Hirst, Guðbjartur Hannesson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Gunnarsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helsta mál á dagskrá var fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgastefnu.
    Vorþing Norðurlandaráðs átti upprunalega að halda í Evrópuþinginu í Brussel. Eftir hryðjuverkaárásir á skoptímaritið Charlie Hebdo og verslun gyðinga 7. og 9. janúar í París varð aukinn öryggisviðbúnaður í Brussel til þess að skipulagning þingsins í Brussel varð flókin svo ákveðið var að flytja það til Kaupmannahafnar. Mánuði fyrir þingið, 14.–15. febrúar, voru einnig gerðar hryðjuverkaárásir í Kaupmannahöfn, fyrst á umræðufundi um háð og tjáningarfrelsi og síðan hjá samkomuhúsi gyðinga, en Norðurlandaráð hélt fast við að halda þingið í Kaupmannahöfn.
    Daginn fyrir þingfund Norðurlandaráðs stóð Danmerkurdeild ráðsins fyrir sameiginlegum fundi þingmanna um Rússland og Úkraínudeiluna. Frummælandi á fundinum var rithöfundurinn og blaðamaðurinn Leif Davidsen.
    Þá héldu borgara- og neytendanefnd, velferðarnefnd og viðskipta- og efnahagsnefnd sameiginlegan fund á undan þingfundinum um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgastefnu. Umræðustjóri á fundinum var Åsne Seierstad, blaðakona og rithöfundur, og gestir fundarins voru Aydin Soei, félagsfræðingur, blaðamaður og rithöfundur, Bünyamin Simsek, borgarstjórnarfulltrúi og formaður barna- og æskulýðsráðs Árósaborgar, og Magnus Ranstorp, sérfræðingur í hermdarverkastarfsemi.
    Á þingfundinum gerðu Carsten Hansen, samstarfsráðherra Danmerkur, og Thorkild Fogde, lögreglustjóri í Kaupmannahöfn, grein fyrir hryðjuverkaárásunum í Kaupmannahöfn í febrúar og Manu Sareen, ráðherra barna-, jafnréttis-, innflytjenda- og félagsmála í Danmörku, kynnti nýjan norrænan samstarfssamning um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgastefnu.
    Þingfundurinn samþykkti eftirfarandi yfirlýsingu um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgastefnu: „Árásirnar í París og Kaupmannahöfn minna okkur á að við verðum að vinna gegn öfgastefnu og fordómum í samfélögum Norðurlanda. Tjáningarfrelsi og lýðræði eru grundvallargildi sem eru meðal hornsteina hinna opnu, norrænu velferðarsamfélaga. Í Norðurlandaráði eru eins og víðar margir mismunandi flokkar með ólíkar skoðanir. En við virðum það að veita verður mismunandi skoðunum svigrúm. Við verðum í sameiningu að standa vörð um gagnsæi og tjáningarfrelsi sem eru grundvallarforsendur þess að hægt sé að lifa góðu lífi á Norðurlöndum. Tjáningarfrelsið er friðhelgur réttur. Opin, frjáls og lýðræðisleg samfélög Norðurlanda geta virst viðkvæm, en það er einmitt það svigrúm sem gefist hefur fyrir mismunandi viðhorf sem hefur gert samfélög okkar sterk. Norðurlandaráð styður ríkisstjórnir Norðurlanda sem hafa komist að samkomulagi um norrænt samstarf um fyrirbyggjandi ráðstafanir gegn öfgastefnu. Norðurlandaráð leggur einnig áherslu á það að staðbundin yfirvöld og aðrir aðilar í borgaralegu samfélagi komi að þessu starfi. Samstarfsnetið á að styrkja það starf sem unnið er til að fyrirbyggja útbreiðslu öfgastefnu í einstökum löndum. Í samstarfinu felst meðal annars að löndin geti nýtt sér reynslu hvers annars og starfað saman að tilteknum rannsóknarverkefnum, til dæmis um einstaklinga sem ferðast til átakasvæða á borð við Sýrlands. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að öfgahópum takist að laða til sín ungmenni frá Norðurlöndum. Nánara samstarf Norðurlanda um þetta sameiginlega verkefni getur hjálpað til.“

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Ósló.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Stórþinginu í Ósló 8.–9. september. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í fundunum Höskuldur Þórhallsson, formaður, Elín Hirst, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Gunnarsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru netöryggi, geðheilsa barna og ungmenna og fíknivandi.
    Menningar- og menntamálanefndin afgreiddi úr nefnd tillögu A 1640/kultur um aukið netöryggi á Norðurlöndum. Í nefndaráliti er lagt til að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að þær gefi munnlega skýrslu á Norðurlandaráðsþingi 2016 með yfirliti og samantekt á þeim norrænu aðgerðum sem hafa verið samræmdar og hvaða nýrra aðgerða mætti grípa til á Norðurlöndum í samstarfi CERT-sveitanna en einnig varðandi fjölmiðlafærni barna og ungmenna, með áherslu á árangur af alþjóðlega netöryggisdeginum 9. febrúar 2016. Nefndin óskar eftir því að ríkisstjórnirnar vinni saman að norrænum aðgerðum, ekki síst sem auka færni barna og ungmenna og þekkingu þeirra á tölvu- og netöryggi; að þær hefji norrænt fræðsluátak eða víðtæka upplýsingaherferð þar sem almenningur á Norðurlöndum er markhópurinn, þar á meðal börn og ungmenni. Fræðsluátakið fjallaði um hvernig borgarar á Norðurlöndum geta varið tölvur sínar og bætt öryggi sitt en markmiðið væri að auka þekkingu og meðvitund um betra netöryggi í samfélögum Norðurlanda.
    Velferðarnefndin afgreiddi úr nefnd tillögu A 1643/velferd um geðheilsu barna og ungmenna á Norðurlöndum. Í nefndaráliti leggur nefndin til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að miðla reynslu af fyrirbyggjandi aðgerðum sem hafa jákvæð áhrif á geðheilsu barna og ungmenna; að þróa ný meðferðarúrræði sem byggja á reynslu af fyrirliggjandi meðferðarúrræðum fyrir börn og ungmenni sem þjást af geðrænum kvillum; að auka rannsóknir til að afla gagna sem liggja til grundvallar nýjum og fyrirliggjandi meðferðarúrræðum fyrir geðræna kvilla sem hrjá börn og ungmenni; að miðla reynslu og þekkingu um góðar leiðir til að draga úr notkun þvingunaraðferða í geðheilbrigðisþjónustu, með áherslu á börn og ungmenni; að miðla reynslu af leiðum til að fyrirbyggja og draga úr tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna; að skipuleggja meginþema eða undirþema þar sem geðheilsa barna og ungmenna er í brennidepli á hinum fyrirhuguðu árlegu norrænu leiðtogafundum um geðlækningar/sálfræði.
    Velferðarnefnd afgreiddi einnig úr nefnd tillögu A 1644/velfærd um að auka þekkingu á fíknivanda og bæta meðferð við fíkn með samstarfi í norrænu rannsóknaneti. Í nefndaráliti er lagt til að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að hún beiti sér fyrir aukinni þekkingu og bættri meðferð við fíkn, og að hún taki frumkvæði að sameiginlegu norrænu tengslaneti um klínískar rannsóknir á misnotkun fíkniefna; að Norræna ráðherranefndin/ráðherrann á sviðinu leggi árlega fram skýrslu á viðeigandi vettvangi um norrænt samstarf á sviði fíknivanda.
         
67. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Þing Norðurlandaráðs var haldið í Hörpu í Reykjavík dagana 27.–29. október. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, varaforseti Norðurlandaráðs, Elín Hirst, Róbert Marshall, Steingrímur J. Sigfússon, Valgerður Gunnarsdóttir og Vigdís Hauksdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru flóttamenn, loftslagsbreytingar, öryggismál, Palestína, formennskuáætlun Danmerkur í Norðurlandaráði 2016 og formennskuáætlun Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni 2016. Þá voru verðlaun Norðurlandaráðs afhent í tengslum við þingið.
    Þingvikan hófst með fundum flokkahópa og nefnda Norðurlandaráðs. Daginn fyrir þingsetningu stóð Norðurlandaráð fyrir málþingi um flóttamenn í Evrópu þar sem frummælendur voru Jean-Christophe Dumont, yfirmaður deildar OECD um alþjóðlega fólksflutninga, og Roderick Parkes, ráðgjafi um fólksflutninga og alþjóðamál hjá Utrikespolitiska Institutet í Stokkhólmi.
    Við setningu þingsins var Guðbjarts Hannessonar, fyrrverandi varaforseta Norðurlandaráðs, minnst, en hann lést aðeins fjórum dögum áður en þingið var sett, kvennakórinn Aurora söng undir stjórn Margrétar Pálmadóttur, og Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis og Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, ávörpuðu þingheim.
    Þingfundurinn hófst með leiðtogafundi norrænna forsætisráðherra og stjórnarleiðtoga þar sem umfjöllunarefnið var möguleikar á auknu og nánara samstarfi Norðurlanda. Leiðtogafundurinn snerist að miklu leyti um flóttamenn í Evrópu og á Norðurlöndum.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í ræðu sinni áskorunina varðandi flóttamenn mikla og vandann fordæmalausan. Hann sagðist telja að Norðurlönd gætu eflt samstarf sitt hvað þessa miklu áskorun varðaði og að mikilvægt væri að nálgast flóttamannavandann á heildstæðan hátt og í náinni samvinnu ríkja. Norrænt samstarf væri vel skipulagt og hefði margsinnis komið í ljós að innan þess væri hægt að bregðast hratt og vel við nýjum áskorunum og því taldi hann einboðið að sá vettvangur gæti líka nýst vel í þessu máli. Forsætisráðherra fjallaði einnig um öryggismál og sagði að á undanförnum árum hefðu þeir atburðir gerst, bæði á Norðurlöndum og utan þeirra, sem gerðu að verkum að fjalla þyrfti um öryggismál á annan hátt en áður og að fylgjast þyrfti mun betur með tilhneigingum til öfgahyggju á Norðurlöndum og hinum ýmsu birtingarmyndum hennar. Hvatning til ofbeldis á netinu, svokallaður hryðjuverkatúrismi og endurkoma norrænna borgara sem tekið hefðu þátt í hryðjuverkastarfsemi á erlendri grundu – allt væru þetta atriði sem löndin þyrftu að fylgjast vel með og því eðlilegt að efna til nánara samstarfs í þeim efnum.
    Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði áskoranir vegna flóttamannastraumsins yrði að leysa með sameiginlegum evrópskum aðgerðum og að í því sambandi hefði norrænt samstarf töluvert gildi. Það samstarf snerist ekki aðeins um að leita lausna með næstu nágrönnum sínum heldur einnig að mynda sameiginleg gildi og samstarf til frambúðar, t.d. um að tryggja að einstaklingar án tilskilinna leyfa sem streymdu til Evrópu yrðu ekki beittir órétti á vinnumarkaði. Þá væri samstarf og gagnkvæm upplýsingagjöf Norðurlandanna á sviði utanríkismála varðandi orsök ástandsins í Sýrlandi og nærsvæðum þess einnig mikilvægt. Solberg sagði þessi mál einnig tengjast áskorunum varðandi spennu innan norrænna samfélaga vegna fólksflutninganna. Norðurlönd ættu því að vinna meira saman í baráttu gegn öfgastefnum.
    Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði að nú væri mesti fjöldi fólks á flótta síðan á tímum seinni heimstyrjaldarinnar og að gert væri ráð fyrir að 160–190 þúsund flóttamenn sæktu um hæli í Svíþjóð á árinu 2015. En útlit væri fyrir að kerfið við móttöku flóttafólks í Svíþjóð væri að nálgast þolmörk sín. Svíþjóð væri fylgjandi því að móttöku flóttamanna væri dreift jafnt á ríki Evrópusambandsins og að Svíþjóð væri hluti af þess háttar kerfi þannig að fólki sem sækti um hæli í Svíþjóð væri hægt að koma fyrir í öðrum löndum. Horfast yrði í augu við að viðmið varðandi móttöku flóttamanna yrðu að breytast frá því að líta á það sem innanríkismál til að líta á það sem alþjóðlegt mál. Einnig þyrfti að bregðast við orsökum flóttamannastraumsins, t.d. með að vinna að stöðugleika og öryggi í Miðausturlöndum. Á því sviði gæti framlag Norðurlanda verið bæði umtalsvert og mikilvægt.
    Í framhaldi af norræna leiðtogafundinum kynnti Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, formennskuáætlun Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni 2016, en helstu einkennisorð hennar eru vatn, náttúra og mannfólk. Í ræðu sinni minntist Sipilä þess að árið 2016 verða 60 ár liðin frá því að Finnland varð meðlimur í Norðurlandaráði árið 1956, sem festi Finnland í sessi sem norrænt ríki og styrkti sjálfstæði og sjálfstraust landsins. Hann sagði einnig að helstu markmið Finna á formennskuárinu væru að fjarlæga stjórnsýsluhindranir, efla stafræna þróun og auka áhrif Norðurlanda innan Evrópusambandsins.
    Að kvöldi fyrsta þingfundardags voru verðlaun Norðurlandaráðs afhent í Eldborgarsal Hörpu. Verðlaunaafhendingin hefur orðið viðhafnarmeiri frá því að fyrirkomulagi hennar var breytt fyrir þremur árum á þann veg að tilkynnt er um verðlaunahafa við afhendinguna, afhentur er verðlaunagripur og verðlaunaafhendingin er sýnd í sjónvarpi. Að þessu sinni voru viðstaddir afhendinguna norrænir þingforsetar, norrænir forsætis- og fagráðherrar, forseti og varaforseti Norðurlandaráðs, þeir sem voru tilnefndir til verðlauna, alþjóðlegir gestir, boðsgestir og fleiri.
    Verðlaunin eru fimm talsins: bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Ein verðlaun féllu Íslendingum í skaut, en leikstjórinn og handritshöfundurinn Dagur Kári og framleiðendurnir Baltasar Kormákur og Agnes Johansen hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir kvikmyndina Fúsa. Aðrir verðlaunahafar voru Jon Fosse frá Noregi, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verkið Trilogien: Andvake. Olavs draumar. Kveldsvævd., Svante Henryson frá Svíþjóð, sem hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs sem bassaleikari og tónskáld, færeyska orkufyrirtækið SEV, sem hlaut náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nýsköpun í starfi að metnaðarfullum markmiðum um græna raforku og Jakob Wegelius frá Svíþjóð, sem hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verkið Mördarens apa.
    Við upphaf verðlaunaafhendingarinnar bauð formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og forseti ráðsins, Höskuldur Þórhallsson, gesti velkomna og kynnar kvöldsins voru Charlotte Bøving og Ólafur Egill Egilsson. Dagskráin var fjölbreytt og auk þess að verðlaun ráðsins voru afhent komu fram listamennirnir Eivør Pálsdóttir, Ari Eldjárn, Dj flugvél og geimskip, GusGus og Reykjavík Dance Production, Páll Guðmundsson á Húsafelli, Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnars Agnarssonar, Andri Freyr Hilmarsson, Halldór Eldjárn og Sigtryggur Baldursson.
    Ríkisútvarpið, RÚV, sýndi beint frá verðlaunaafhendingunni á Íslandi og var upptakan síðan sýnd annars staðar á Norðurlöndum dagana og vikurnar á eftir. Verkefnastjóri undirbúnings verðlaunaafhendingarinnar var Rúnar Freyr Gíslason, tónlistarráðgjafi Hilmar Örn Agnarsson og útsendingarstjóri Egill Eðvarðsson.
    Á öðrum degi þingfundar voru umhverfismál og alþjóðastjórnmál í brennidepli. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma sátu norrænir umhverfisráðherrar fyrir svörum þar sem fyrirspurnir snerust að nokkru leyti um loftslagsbreytingar og fyrirhugaða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember. Lars Christian Lilleholt, umhverfisráðherra Danmerkur og formaður ráðherranefndar norrænna umhverfisráðherra, svaraði fyrirspurnum um loftslagsbreytingar. Hann greindi meðal annars frá því að ráðherranefnd norrænna umhverfisráðherra hefði á fundi þá um morguninn undirritað yfirlýsingu um fjögur svið þar sem norrænu umhverfisráðherrarnir vildu láta til sín taka í tengslum við alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum á COP21-ráðstefnunni í París. Sviðin væru: metnaðarfull markmið allra aðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, mikilvægi hnattrænna langtímamarkmiða um minni losun gróðurhúsalofttegunda, fráhvarf í áföngum frá styrkjum til framleiðslu jarðefnaeldsneytis og fjármögnun aðgerða í loftslagsmálum.
    Við umræðu um alþjóðastjórnmál, með þátttöku norrænu utanríkisráðherranna, var einkum fjallað um flóttamenn, öryggismál, Rússland og Úkraínu. Christian Friis Bach, framkvæmdastjóri efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, var gestur þings Norðurlandaráðs og tók til máls við umræðuna. Friis Bach hvatti Norðurlöndin til að taka afstöðu með réttindum flóttafólks, gegn kynþáttahyggju og hatri, og lagði áherslu á mikilvægi öflugs alþjóðlegs samstarfs og samhæfingar varðandi lausnir í málefnum flóttafólks, einkum í svæðisbundnu samhengi. Hann sagði að í sjötíu ára sögu Sameinuðu þjóðanna hefðu Norðurlöndin verið einna öflugust í að tala fyrir mannréttindum og með því áunnið sér virðingu um allan heim og hvatti Norðurlöndin til að kasta ekki hinni sögulegu sérstöðu á glæ vegna vanda sem þau gætu vel ráðið við ef þau ynnu saman.
    Kristian Jensen, utanríkisráðherra Danmerkur, gaf þinginu munnlega skýrslu fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna um helstu mál til umfjöllunar hjá þeim á árinu. Þau málefni sem Jensen nefndi til sögunnar voru aðallega þrjú. Í fyrsta lagi öryggismálalegar áskoranir í og kringum Úkraínu vegna ólöglegrar innlimunar Rússlands á Krím og stuðning þess við aðskilnaðarsinna í Donbas. Afstaða norrænu utanríkisráðherranna væri sú að sjálfstæði og landfræðilega einingu Úkraínu bæri að virða, að þeir styddu vinnu OECD við að stuðla að stöðugleika í Austur-Úkraínu og að þeir styddu viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússlandi. Í öðru lagi flóttamenn, en þeim fylgdu miklar áskoranir fyrir Evrópu. Þörf væri fyrir evrópskar lausnir, þar sem Norðurlöndin störfuðu saman á uppbyggilegan hátt, meðal annars með aðstoð í hinum stríðshrjáðu löndum og nærsvæðum þeirra, sem og að einbeita sér að öryggismálalegri hlið fólksflutninganna með því að halda áfram að vinna að lausn átakanna í Líbíu og Sýrlandi eftir diplómatískum leiðum. Í þriðja lagi alþjóðlegt samkomulag um loftslagsmál. Öll lönd í heiminum hefðu nú kynnst afleiðingum loftslagsbreytinganna, þar á meðal fátæk lönd, sem leiddi í auknum mæli til átaka og fólksflutninga. Í baráttunni gegn loftslagsbreytingum væri aðlögun mikilvæg sem og breyttir rammar sem stuðluðu að sjálfbærum fjárfestingum.
    Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fjallaði í ræðu sinni um öryggismál og flóttamannavandann. Hann sagði að eftir innlimun Rússlands á Krímskaga og stuðning við aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu væri krafa alþjóðasamfélagsins að Minsk II-samkomulagið yrði virt að fullu svo skapa mætti skilyrði til að létta efnahagsþvingunum og horfa til eðlilegra samskipta ný. Gunnar sagði einnig að atburðirnir fyrir botni Miðjarðarhafs í Sýrlandi, Írak og Líbíu bæru vitni um mikla neyð og nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið tæki höndum saman. Hann greindi enn fremur frá því að íslensk stjórnvöld hefðu lagt áherslu á að styðja við aðgerðir alþjóðlegra hjálparstofnana á svæðinu og ákveðið að verja 2 milljörðum íslenskra króna til aðgerða vegna flóttamannavandans.
    Undir lok annars þingfundardags var á dagskrá tillaga um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. Tillagan hljóðaði svo: „Norðurlandaráð beini tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um að ríkisstjórnirnar í öllum norrænu þjóðþingunum leggi fram tillögu um að þing viðkomandi lands viðurkenni Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki; að Ísraelsmenn og Palestínumenn verði hvattir – og að fullur stuðningur verði veittur af Norðurlöndum – til að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningum sem byggjast á alþjóðarétti og samþykktum SÞ, þar á meðal gagnkvæmri viðurkenningu á Ísraelsríki og ríki Palestínumanna.“ Tillagan var umdeild innan ráðsins frá því hún var tekin til fyrstu umræðu á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi haustið 2014. Miklar umræður sköpuðust um málið á þeim þingfundi sem og í kjölfarið í forsætisnefnd og einnig á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík.
    Aðallega var tekist á um tvennt. Í fyrsta lagi, hvort tillagan ætti heima á borði ráðsins þar sem málið fjallaði um eina af mörgum alþjóðlegum deilum sem ekki ætti sér stað á Norðurlöndum eða á nærsvæði þeirra. Í öðru lagi, hvort samþykkt tillögunnar væri til þess fallin að styrkja friðarumleitanir í deilunni. Við meðferð tillögunnar komu fram nokkrar breytingartillögur og svo fór að í stað upphaflegu tillögunnar var samþykkt breytingartillaga sem hljóðaði svo: „Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að þær hvetji Ísraelsmenn og Palestínumenn og veiti þeim stuðning til að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningi sem byggjast á alþjóðarétti og ályktunum SÞ.“ Einnig var samþykkt önnur breytingartillaga við upphaflegu tillöguna sem sneri að ákvörðunum um innri málefni Norðurlandaráðs. Sú breytingartillaga var á þessa leið: „Norðurlandaráð samþykki að biðja þingmenn um að hvetja ríkisstjórnir sínar til að styðja tveggja ríkja lausn Ísraels/Palestínu og sem frjálst og fullvalda ríki þegar það getur orðið friðarferlinu til framdráttar.“
    Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs, mælti með samþykkt þessara tveggja breytingartillagna. Við umræðuna um málið sagði hann að þegar Norðurlandaráð hefði ákveðið að fjalla meira um utanríkismál og ályktað á Akureyri árið 2014 um framferði Rússa í Úkraínu þá hefði það verið stórt skref. Fulltrúar í Norðurlandaráði hefðu hins vegar staðið frammi fyrir grundvallarspurningu um hvar mörk þeirra mála sem ráðið fjallaði um ættu að liggja. Höskuldur taldi það blasa við að með aukinni hnattvæðingu dofnuðu þessi mörk og, miðað við þá umræðu sem hefði verið á þinginu um flóttamannavandann, að málefni Ísraels og Palestínu ættu mjög vel heima á borði Norðurlandaráðs. Aðalatriðið væri að Norðurlandaráð gæti haft áhrif.
    Á lokadegi þingsins voru atkvæðagreiðslur um tillögur, ákvarðanir um innri málefni, og fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2016 auk kosningar í nefndir og embætti fyrir næsta starfsár. Tekin var ákvörðun um innri málefni varðandi nýtt nefndaskipulag í Norðurlandaráði með fjórum fagnefndum í stað fimm áður, auk forsætisnefndar, kjörnefndar og eftirlitsnefndar. Heiti nýju nefndanna eru: Norræna velferðarnefndin, Norræna þekkingar- og menningarnefndin, Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin og Norræna sjálfbærninefndin.
    Eftir kosningu í nefndir verður seta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í nefndum með þeim hætti árið 2016 að Höskuldur Þórhallsson, Steingrímur J. Sigfússon og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir verða í forsætisnefnd, Valgerður Gunnarsdóttir í þekkingar- og menningarnefnd og eftirlitsnefnd, Vigdís Hauksdóttir í velferðarnefnd og kjörnefnd, og Elín Hirst og Róbert Marshall í sjálfbærninefnd.


6. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins.
Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins, Baltic Sea Parliamentary Conference (BSPC), var haldin í Olsztyn í Póllandi 30. ágúst–1. september undir yfirskriftinni „Eystrasaltssvæðið – Líkan að fyrirmynd fyrir nýsköpun í félags- og heilbrigðisþjónustu“. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu ráðstefnuna Höskuldur Þórhallsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Helstu mál til umfjöllunar voru samvinna á Eystrasaltssvæðinu, samstarf yfir landamæri í heilbrigðisþjónustu, heilbrigðishagkerfi – vegvísir fyrir nýsköpun í félags- og heilbrigðisþjónustu, og sjálfbær og aðgengileg félags- og heilbrigðisþjónusta á krossgötum.
    Næsta þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins, hin 25. í röðinni, verður haldin í Ríga í Lettlandi 28.–30. ágúst 2016.

7. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þúsund danskar krónur.
    Verðlaun ráðsins 2015 voru afhent við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu í Reykjavík 27. október í tengslum við þing Norðurlandaráð. Afhending verðlaunanna var með þeim hætti að öllum tilnefndum var boðið til athafnarinnar og tilkynnt um verðlaunahafa og verðlaun afhent samtímis. Vinningshafar verðlauna Norðurlandaráðs árið 2014 afhentu verðlaunin, verðlaunastyttuna Norðurljós.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af málum Norðurlanda. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk og verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og málum nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Jon Fosse frá Noregi hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2015 fyrir verk sitt Trilogien: Andvake. Olavs draumar. Kveldsvævd. Verðlaunahafi 2014, Kjell Westö, afhenti honum verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Verkið sem hlýtur bókmenntaverðlaunin að þessu sinni er óvenju gott dæmi um formræna nýsköpun og umfjöllunarefni sem snertir lesandann þvert á tíma og rúm. Hér er á ferð tímalaus ástarsaga; prósi sem hefur greinilega ljóðræna eiginleika og jafnframt meðvitaða og gáskafulla afstöðu til mannkynssögunnar. Fáum er gefið að móta sitt eigið bókmenntaform á sama hátt og Fosse. Endurómur úr Biblíusögum og kristnum leiðslubókmenntum mætir spennuþrungnum þráðum og ljóðrænu myndmáli í frásögn af tveimur einstaklingum sem elska hvor annan, berskjaldaðir gagnvart umheiminum og gangi sögunnar.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Sænski sellóleikarinn, bassaleikarinn og tónskáldið Svante Henryson hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Verðlaunahafi 2014, Simon Steen-Andersen, afhenti Svante Henryson verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Hinn sænski Svante Henryson, sellóleikari, bassaleikari og tónskáld, hefur sýnt einstaka sköpunargáfu og þróað afburðatækni á sérsviðum sínum á viðburðaríkum tónlistarferli. Hann hefur alla tíð sýnt mikinn metnað – fyrst sem ungur kontrabassaleikari og meðlimur Fílharmóníuhljómsveitar Óslóar og síðar sem rafbassaleikari í rokkhljómsveit Yngwies Malmstens, uns hann hóf að kanna klassískan sellóleik upp á eigin spýtur. Í dag er hann virkur sem bæði tónskáld og tónlistarmaður og verk hans spanna allt frá tónlist í anda Samamenningar Norður-Noregs til einleikssónata fyrir fiðlu. Vegna færni sinnar á þrjú mismunandi hljóðfæri er Svante Henryson eftirsóttur sem spilafélagi af besta tónlistarfólki samtímans, bæði á sviði djasstónlistar og sígildrar tónlistar.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar.
    Færeyska orkufyrirtækið SEV hlaut náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2015. Fulltrúar verðlaunahafa 2014, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ólöf Örvarsdóttir frá Reykjavíkurborg, afhentu Hákun Djurhuus, framkvæmdastjóra SEV, verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Færeyska orkufyrirtækið SEV hlýtur verðlaunin fyrir nýskapandi starf að metnaðarfullum markmiðum um græna raforku í Færeyjum. Starfsemin er þýðingarmikil fyrir innleiðingu endurnýjanlegra orkukerfa í Færeyjum, en einnig fyrir evrópskan orkumarkað. Vegna mikils metnaðar síns og skapandi aðgerða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er SEV verðugur handhafi náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi þess árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda, og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    Leikstjórinn og handritshöfundurinn Dagur Kári og framleiðendurnir Baltasar Kormákur og Agnes Johansen hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2015 fyrir kvikmyndina Fúsa. Verðlaunahafi 2014, Benedikt Erlingsson, afhenti þeim verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Myndin er fáguð, stílhrein og full af myndrænni hugmyndaauðgi og fjallar um mikilvægi þess að varðveita gæsku sína og sakleysi í óárennilegum heimi. Fúsi eftir Dag Kára er grípandi og listilega upp byggð kvikmynd sem bregður upp trúverðugri mynd af blíðum risa og hnitmiðuðum lýsingum á konunum sem standa honum næst.“

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2013. Verðlaunin skulu veitt á hverju ári fyrir bókmenntaverk sem er skrifað fyrir börn og ungmenni á einu af tungumálum norrænu landanna. Bókmenntaverkin geta verið í formi ljóða, prósa, leikrits, samspil texta og mynda, eða annað verk sem uppfyllir miklar bókmenntalegar og listrænar kröfur.
    Jakob Wegelius hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verkið Mördarens apa. Verðlaunahafar 2014, Håkon Øvreås rithöfundur og Øyvind Torseter myndskreytir, afhentu Wegeliusi verðlaunin.
    Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Með Mördarens apa blæs Jakob Wegelius nýju lífi í hið sígilda ævintýraform. Lesandinn slæst í för með górillunni Sallý Jones um sóðalegt hafnarhverfi Lissabon-borgar, í taugatrekkjandi siglingu um heimshöfin og í hið íburðarmikla hof furstans í Bhapur á Indlandi – allt til að freista þess að hreinsa nafn sjómannsins Henry Koskela sem er besti vinur Sallýjar. Með hreinni frásagnargleði og frábærum persónulýsingum bregður höfundur upp ljóslifandi, sögulegri svipmynd frá upphafi 20. aldar – m.a. með heillandi lýsingum á tækninýjungum úr fortíðinni. Listilega gerðar myndskreytingar höfundar og póstkortin, þar sem ævintýrum Sallýjar eru gerð skil, innsigla heildræna upplifun lesandans.“

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2016.
    Danmörk fer með formennsku í Norðurlandaráði 2016. Henrik Dam Kristensen verður forseti ráðsins 2016 og Mikkel Dencker varaforseti.
    Á næsta ári fer vorþing Norðurlandaráðs fram dagana 18.–19. apríl í Ósló og aðalþingfundur ráðsins verður 1.–3. nóvember í Kaupmannahöfn.     Helstu áhersluatriði í formennskuáætlun Danmerkur árið 2016 eru varnar- og öryggismál, heilbrigðismál og ferðaiðnaður.

Alþingi, 22. janúar 2016.

Höskuldur Þórhallsson,
form.
Valgerður Gunnarsdóttir, varaform. Vigdís Hauksdóttir.
Elín Hirst. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Steingrímur J. Sigfússon.
Róbert Marshall.



Fylgiskjal I.


Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2015.


Tilmæli.
          Tilmæli 1/2015: Eflt norrænt samstarf um þróunaraðstoð (A 1635/præsidiet).
          Tilmæli 2/2015: Norrænar þríhliða viðræður (A 1623/næring).
          Tilmæli 3/2015: Framkvæmd tilskipana Evrópusambandsins (A 1630/næring).
          Tilmæli 4/2015: Verkefni sem ríkisstjórnirnar fela helstu ríkisstofnunum (A 1631/næring).
          Tilmæli 5/2015: Járnbrautakerfi yfir landamæri í þágu hagvaxtar og gæða andrúmslofts (A 1639/næring).
          Tilmæli 6/2015: Blossamark skipadísilolíu (A 1641/næring).
          Tilmæli 7/2015: Samstarfsáætlun um menntamál og rannsóknir (B 301/kultur).
          Tilmæli 8/2015: Netöryggi á Norðurlöndum (A 1640/kultur).
          Tilmæli 9/2015: Sameiginlegur norrænn vinnumarkaður fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna (B 304/velfærd).
          Tilmæli 10/2015: Aukið norrænt samstarf um reglur um au pair-vist (A 1619/velfærd).
          Tilmæli 11/2015: Velferðarþjónusta í dreifbýli á Norðurlöndum (A 1622/velferd).
          Tilmæli 12/2015: Geðheilsa barna og ungmenna á Norðurlöndum (A 1643/velferd).
          Tilmæli 13/2015: Síðbúnar afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku (A 1645/velferd).
          Tilmæli 14/2015: Aukin þekking á fíknivanda og bætt meðferð við fíkn með samstarfi í norrænu rannsóknaneti (A 1644/välfärd).
          Tilmæli 15/2015: Samstarf um vatnatilskipun ESB og sterka stöðu á sviði vatnsauðlinda (A1618/miljö).
          Tilmæli 16/2015: Aðgangur að góðu vatni og endurskoðun vatnatilskipunar ESB (A 1618/miljö).
          Tilmæli 17/2015: Samkomulag á milli Danmerkur og Svíþjóðar um skilagjaldskerfi (A 1658/miljø).
          Tilmæli 18/2015: Samkomulag á milli Svíþjóðar og Noregs um skilagjaldskerfi (A 1658/miljø).
          Tilmæli 19/2015: Samkomulag á milli Þýskalands og Svíþjóðar um skilagjaldskerfi (A 1658/miljø).
          Tilmæli 20/2015: Samkomulag á milli Finnlands, Svíþjóðar og Álandseyja um skilagjaldskerfi (A 1658/miljø).
          Tilmæli 21/2015: Friður og sættir með friðarsamkomulagi á milli Ísraels og Palestínu (A 1634/præsidiet).
          Tilmæli 22/2015: Endurskoðun á reglum um verðlaun Norðurlandaráðs (B 303/presidiet).
          Tilmæli 23/2015: Úttekt á Norrænu blaðamannamiðstöðinni (NJC) (A 1636/kultur).
          Tilmæli 24/2015: Fjármögnun Alþjóðlegu samísku kvikmyndastofnunarinnar (ISF) (A 1637/kultur).
          Tilmæli 25/2015; Styrkur til Alþjóðlegu samísku kvikmyndastofnunarinnar (ISF) (A 1637/kultur).
          Tilmæli 26/2015: Sameiginleg innkaup opinberra stofnana á Norðurlöndum (A 1605/næring).
          Tilmæli 27/2015: Norræna menningarskólataskan (A 1646/kultur).
          Tilmæli 28/2015: Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2016 (B 302/præsidiet).

Ákvarðanir um innri málefni.
          IB 1/2015: Viðmiðunarreglur Norðurlandaráðs um samstarf við sambandsþing og héraðsþing í Rússlandi (A 1659/præsidiet).
          IB 2/2015: Stuðningur við tveggja ríkja lausn á deilu Ísraels og Palestínu (A 1634/præsidiet).
          IB 3/2015: Ný nefndatilhögun í Norðurlandaráði (A 1663/præsidiet).



Fylgiskjal II.


Formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði árið 2015.


Framtíð Norðurlanda.
Formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2015.
    Norðurlandaráð hefur kosið sér forseta og varaforseta úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs til að fara með formennsku á starfsárinu 2015.
    Áætlun hinnar íslensku formennsku árið 2015 byggist á formennskuáætlun Noregs árið 2013 og Svíþjóðar árið 2014 og hefur tengingar við formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 og Danmerkur árið 2015.
Íslenska formennskuáætlunin í Norðurlandaráði árið 2015 horfir til framtíðar og vill stuðla að því að búa íbúum og fyrirtækjum Norðurlanda sem best skilyrði. Áætlunin hefur þrjú áherslusvið sem eru og verða mikilvæg fyrir norræn samfélög og stöðu Norðurlanda í samfélagi þjóðanna. Þau eru:
     1.      Alþjóðlegt samfélag.
     2.      Velferðarsamfélag.
     3.      Borgaralegt samfélag.


1. Alþjóðlegt samfélag.
Utanríkis-, öryggis- og varnarmál.
    Umfjöllun Norðurlandaráðs um utanríkismál hefur aukist á síðustu árum og skipar mikilvægan sess á þingfundum ráðsins. Norðurlandaráð undir forustu Svía árið 2014 hefur talað skýru máli um atburði á nærsvæði Norðurlanda, m.a. í yfirlýsingu þingfundar ráðsins á Akureyri vorið 2014. Þá hefur umfjöllun Norðurlandaráðs um öryggismál aukist til muna eftir tilkomu Stoltenberg-skýrslunnar árið 2009 og áherslu Norðurlandaráðs á málaflokkinn undir forustu Norðmanna árið 2013, bæði á vorþingfundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi það ár sem og á hringborðsráðstefnum ráðsins um varnarmál í Helsinki og Ósló árin 2013 og 2014. Markmið íslensku formennskunnar er að halda áfram á sömu braut sem fetuð hefur verið síðustu ár til að stuðla að stöðugleika og lýðræðisþróun á nærsvæðum Norðurlanda til framtíðar.

Norðurslóðir, Vestur-Norðurlönd og grannar í vestri.
    Norðurslóðir hafa skipað æ stærri sess í starfi Norðurlandaráðs á síðustu áratugum. Á níunda áratug síðustu aldar beindist athyglin að siglingum og mengun sjávar, á tíunda áratugnum að umhverfis- og öryggismálum og Norðurlandaráð átti stóran þátt í að koma á fót Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál sem síðan leiddi af sér stofnun Norðurskautsráðsins. Markmið íslensku formennskunnar er að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið á þessari öld varðandi umhverfismál, loftslagsbreytingar, efnahagsmál, samfélagsmál og öryggismál, m.a. í tengslum við formennskuáætlun Dana í Norðurlandaráði árið 2011 og vorþingfund ráðsins í Reykjavík árið 2012. Markmið íslensku formennskunnar er einnig að stuðla að umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda í Norðurlandaráði og kanna samstarfsmöguleika við granna í vestri, m.a. vegna þeirra ríku norrænu hagsmuna sem felast í öryggis- og umhverfismálum þess svæðis sem eru sífellt að aukast.


2. Velferðarsamfélag.
Framtíðarsamstarf í heilbrigðismálum.
    Íslenska formennskan í Norðurlandaráði fagnar áherslu Norrænu ráðherranefndarinnar á sjálfbæra norræna velferð og gerð Könberg-skýrslunnar. Stór hluti af útgjöldum velferðarsamfélagsins fer til heilbrigðismála og er vel að heilbrigðisráðherrarnir hafi nú þegar tekið ákvörðun um að fylgja eftir fimm af fjórtán tillögum Könberg-skýrslunnar. Íslenska formennskan fagnar því einnig að heilbrigðisráðherrarnir hafi falið framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar í tilefni ebólufaraldursins að kanna hvort samhæfa megi aðgerðir Norðurlandanna í því skyni að koma í veg fyrir smithættu, veita aðgang að tækjum og meðferð og samræma norrænar varúðarráðstafanir við sjúkraflutninga. Markmið íslensku formennskunnar er að fylgja Könberg-skýrslunni einnig eftir til að efla norrænt samstarf um heilbrigðismál til framtíðar.

Lýðheilsa.
    Á síðustu áratugum hefur þróunin verið sú að langvinnir ósmitnæmir sjúkdómar á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, krabbamein og sykursýki eru nú orðnir orsök flestra dauðsfalla í heiminum. Helstu áhættuþættir langvinnra sjúkdóma eru tóbaksreykingar, óheilsusamlegt mataræði, hreyfingarleysi og misnotkun áfengis. Ef litið er 25 ár fram í tímann er ljóst að sporna þarf við þessari þróun þar sem langvinnir sjúkdómar eru ekki aðeins ógn við heilbrigði heldur líka fyrir efnahag samfélaga ef dánartíðni heldur áfram að aukast og lægra hlutfall vinnufærra íbúa leiðir til minni framleiðni. Markmið íslensku formennskunnar er að huga að þróun lýðheilsu á Norðurlöndum til lengri tíma og kanna hvað hægt sé að gera frekar sameiginlega á norrænum vettvangi til að sporna við þróuninni.

3. Borgaralegt samfélag.
Norræn félagasamtök.
    Norrænt samstarf nýtur stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta almennings á Norðurlöndum. Norræn samvinna hvílir á grundvelli öflugs borgaralegs samfélags, þar á meðal öflugra norrænna félagasamtaka. Á árinu 2015 er fagnað 50 ára afmæli Sambands norrænu félaganna. Íslenska formennskan í Norðurlandaráði vill af því tilefni fjalla um tengsl norrænu félaganna og Norðurlandaráðs og kanna hvort unnt sé að auka vægi Sambands norrænu félaganna í umsögnum fyrir þingmál Norðurlandaráðs. Markmið íslensku formennskunnar er að stuðla að áframhaldandi öflugri starfsemi norrænu félaganna og annarra norrænna félagasamtaka á næstu áratugum.

Stjórnsýsluhindranir.
    Hagur almennings og fyrirtækja á Norðurlöndum ræðst líka af því hversu mikið umfang stjórnsýsluhindrana er milli Norðurlanda. Vettvangur um afnám stjórnsýsluhindrana og Stjórnsýsluhindranaráðið hafa unnið mikilvægt starf á síðastliðnum árum. Íslenska formennskan í Norðurlandaráði vill styðja við starf Stjórnsýsluhindranaráðsins og fylgja eftir því starfi sem unnið hefur verið í Norðurlandaráði í þessum málaflokki. Ástæða er til að veita stjórnsýsluhindrunum ungs fólks sérstaka athygli þar sem hreyfanleiki þess vegna menntunar, starfsreynslu og vinnu er mikilvægur til að stuðla að áframhaldandi tengslum almennings og fyrirtækja á Norðurlöndum þvert yfir landamæri, sem er grundvöllur norræns samstarfs til framtíðar.