Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 842  —  434. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalheiði I. Þorsteinsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 195/2015, frá 10. júlí 2015, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB frá 4. júlí 2012 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang (endursamin). Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 10. janúar 2016. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2012/19/ESB felur í sér endurútgáfu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB um raf- og rafeindatækjaúrgang sem innleidd hefur verið hér á landi með lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, auk þess sem viss nýmæli felast í tilskipuninni.
    Með tilskipuninni er lögð fram ný flokkun á raf- og rafeindatækjum þar sem þau eru flokkuð í tíu flokka til 15. ágúst 2018 en flokkarnir verða sex eftir það. Þá eru sett fram strangari markmið um söfnun á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Í tilskipuninni eru einnig sett fram ný markmið um hlutfall endurnýtingar og endurvinnslu raf- og rafeindatækja. Tilskipunin gerir kröfur til aðildarríkja um að tryggja að allur safnaður raf- og rafeindatækjaúrgangur fái meðhöndlun við hæfi auk þess að banna förgun á söfnuðum raf- og rafeindatækjaúrgangi, sem hefur ekki fengið þá meðhöndlun. Þá er aðildarríkjum heimilt að hvetja framleiðendur til að fjármagna kostnað vegna söfnunar raf- og rafeindatækjaúrgangs frá heimilum til söfnunarstöðva.
    Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar skulu aðildarríkin hafa sérstakt eftirlit með raf- og rafeindatækjaúrgangi sem fluttur er úr landi og tryggja að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir í samræmi við reglugerð um flutning úrgangs. Kostnaður við eftirlit, sýnatöku og geymslu má leggjast á framleiðanda, þriðja aðila á vegum framleiðanda eða flutningsaðila. Hvað varðar raf- og rafeindatækjaúrgang frá heimilum ber aðildarríkjum að tryggja að dreifingaraðilar smásöluverslana, þar sem sölusvæði tengt raf- og rafeindatækjum er a.m.k. 400 m 2 eða í námunda við það, sjái um söfnun mjög lítilla raf- og rafeindatækja án endurgjalds og án nokkurrar skuldbindingar til að kaupa sams konar raf- eða rafeindatæki í staðinn. Þetta á þó ekki við ef mat sýnir að núverandi söfnunarkerfi séu líklegri til að vera a.m.k. jafn áhrifarík.
    Loks eru í tilskipuninni lagðar auknar kröfur til skráningar í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda þar sem framleiðandi á að leggja fram ákveðnar upplýsingar og geta skráð þessar upplýsingar í skráningarkerfið í gegnum netið.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Kostnaður af framkvæmd tilskipunarinnar leggst á framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja, sbr. framleiðendaábyrgð, og er það kerfi nú þegar komið á. Úrvinnslugjald er lagt á raf- og rafeindatæki samkvæmt lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, sem er ætlað að fjármagna og tryggja meðhöndlun á raf- og rafeindatækjaúrgangi og fjármagna upplýsingagjöf, skráningarkerfi og eftirlit. Þá kallar innleiðing tilskipunarinnar á uppfærslu á tölvubúnaði Umhverfisstofnunar, sem mun halda utan um skráningarkerfið, svo að framleiðendur og innflytjendur geti sett upplýsingar inn í skráningarkerfið í gegnum netið. Áætlað er að stofnkostnaður við þá uppfærslu á tölvukerfi stofnunarinnar verði um 20 millj. kr.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Elín Hirst og Karl Garðarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. febrúar 2016.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir,
frsm.
Frosti Sigurjónsson.
Óttarr Proppé. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason.
Össur Skarphéðinsson.