Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 943  —  581. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skrá um sykursýki og skimun fyrir sykursýki.


Frá velferðarnefnd.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að móta viðbrögð við vaxandi nýgengi sykursýki. Hópurinn skuli sérstaklega meta þörfina á skipulagðri skráningu sykursýki á Íslandi og reglulegri skimun fyrir sykursýki hjá áhættuhópum. Við matið verði miðað við að heilsugæslan veiti ráðgjöf samhliða skimuninni og fylgi henni eftir þegar við á.
    Í starfshópnum verði fulltrúar stærstu heilbrigðisstofnana, svo sem Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri, heilsugæslunnar, embættis landlæknis og samtaka sjúklinga og fagstétta.
    Heilbrigðisráðherra skili Alþingi skýrslu um niðurstöður starfshópsins eigi síðar en 1. janúar 2017.

Greinargerð.

Inngangur.
    Langvinnir sjúkdómar á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, langvinna lungnasjúkdóma og sykursýki eru helsta ógn við heilsufar í heiminum og taldir valda hátt í sjö af hverjum tíu dauðsföllum. Meðal sérstakra áhyggjuefna er ör fjölgun sykursjúkra. Hana er einkum talið mega rekja til hækkandi meðalaldurs, ofþyngdar og kyrrsetu. Áætlað er að um 9% fullorðinna í heiminum séu nú sykursjúk. 1
    Velferðarnefnd fundaði 19. október 2015 með Rafni Benediktssyni, yfirlækni á innkirtladeild Landspítala, embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að ræða forvarnir gegn lífsstílssjúkdómum með sérstakri áherslu á sykursýki. Á fundinum kom fram að sárlega skorti á upplýsingar um og greiningu á sykursýki á Íslandi. Mikilvægt skref í því að sporna gegn nýgengi sjúkdómsins og draga úr afleiðingum hans væri að afla áreiðanlegra upplýsinga um umfang vandans og hvert stefndi. Í því skyni var lagt til að komið yrði á fót miðlægri skrá um sykursýki á Íslandi og skimun fyrir sykursýki hjá áhættuhópum. Jafnframt yrði að tryggja að heilsugæslan gæti veitt ráðgjöf samhliða skimuninni og fylgt henni eftir þegar við ætti.
    Nefndin fundaði á ný með Rafni Benediktssyni ásamt Birgi Jakobssyni landlækni 2. desember 2015 til að ræða nánar um þá hugmynd að koma á fót skrá um sykursýki og skimun fyrir sykursýki. Á fundinum var þeirri skoðun lýst að áður væri æskilegt að kanna þjóðhagslega hagkvæmni ráðstafananna og hvernig tryggja mætti burði heilbrigðiskerfisins til að annast þær. Með tillögu þessari er brugðist við þeim athugasemdum og lagt til að starfshópur móti viðbrögð við vaxandi nýgengi sykursýki og meti sérstaklega þörfina á skrá um sykursýki og skimun fyrir sykursýki.

Um sykursýki.
    Sykursýki felur í sér röskun á sykurstjórn líkamans vegna ónógrar framleiðslu eða virkni hormónsins insúlíns. Helsta orkulind flestra frumna líkamans er sykur sem berst með blóðrásinni. Insúlín á stóran þátt í að viðhalda jöfnum styrk sykurs í blóðinu með því að greiða fyrir upptöku hans í frumur þegar magn hans eykst. Röskun á virkni þess getur leitt til þess að frumur taki ekki upp nægan sykur og að styrkur hans í blóði verði of mikill, sem aftur getur leitt til margvíslegra kvilla, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, nýrnabilunar, útlimamissis og blindu. Sykursýki getur þannig skert verulega bæði lífsgæði og lífslíkur sjúklinga. Sjúkdómurinn er samfélögum einnig dýr. Áætlað hefur verið að 2,5–15% heilbrigðisútgjalda á heimsvísu séu vegna sykursýki. Ýmis óbeinn samfélagslegur kostnaður, svo sem vegna örorku af völdum sykursýki, er líklega enn meiri. 2
    Ekki hafa verið teknar saman áreiðanlegar upplýsingar um algengi sykursýki á Íslandi. Nýjustu tölur eru nú nokkurra ára gamlar og byggjast á úrtaki í rannsókn á vegum Hjartaverndar. Sykursýki virðist hafa verið nær óþekkt á Íslandi fyrir 1950. Ljóst er að síðan hefur sykursjúkum hérlendis fjölgað mjög og margt sem bendir til þess að hlutfall sykursjúkra hérlendis sé nú svipað og annars staðar í Evrópu. Hlutfallið á miðjum aldri var áætlað um 3% árið 1967 en talið hafa tvöfaldast 2007. Rannsókn Hjartaverndar benti til þess að 15–20% karla á aldrinum 65–84 ára hefði þá sykursýki. 3 Ekki er ástæða til að ætla annað en að hlutfallið hafi aukist áfram frá 2007 og að öðru óbreyttu má ætla að það hækki enn á næstu áratugum samfara hækkandi meðalaldri. Hlutfall 65 ára og eldri af heildarmannfjölda á Íslandi var um 12% árið 2010 en fer yfir 20% árið 2037 og yfir 25% árið 2062 samkvæmt spá Hagstofu Íslands. 4

Skrá um sykursýki.
    Víða um heim eru starfræktir gagnagrunnar sem sýna stöðu tiltekinna þátta heilbrigðisþjónustu í rauntíma og árangur þeirra í samanburði við alþjóðleg gæðaviðmið. Slíkar upplýsingar gagnast m.a. við mat á því hvar þjónustan standi vel og hvar hana þurfi að bæta, við mótun áætlana og ákvarðanir um úthlutun fjármuna og við rannsóknir. Upplýsingarnar geta einnig gagnast almenningi við að þrýsta á meiri gæði þjónustunnar.
    Ýmsar forsendur þess að koma á fót miðlægum gagnagrunni um sykursýki eru þegar til staðar á Íslandi. Næg tæknikunnátta er fyrir hendi. Reynsla er af miðlægri skráningu upplýsinga um sykursýki á innkirtladeild Landspítala og unnið er að bættri skráningu upplýsinga um sjúkdóminn hjá heilsugæslunni. Stór hluti þeirra upplýsinga sem þarf í gagnagrunninn er þegar til í rafrænni sjúkraskrá. Þá er þegar til staðar lagaheimild fyrir skrá um sykursýki í 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, sbr. einkum 9. tölul. 2. mgr. greinarinnar.

Skimun fyrir sykursýki, ráðgjöf og eftirfylgni.
    Níu af hverjum tíu einstaklingum með forstig sykursýki vita ekki af því. 5 Einkenni sykursýki eru einnig oft ekki sjúklingum ljós og árið 2007 vissi þriðjungur sykursjúkra á Íslandi ekki af veikindum sínum. 6 Því eru líkur til þess að með reglulegri skimun fyrir sykursýki hjá áhættuhópum mætti í mörgum tilvikum greina sjúkdóminn og forstig hans mun fyrr en ella. Greiningin byggist á einföldu háræðablóðsýni og mælingu á blóðsykri. Mikilvægt er að greina sjúkdóminn og forstig hans sem fyrst þar sem heilsuefling dregur verulega úr nýgengi hans og dýrara og erfiðara er að takast á við afleiðingar hans því síðar sem hann greinist. 7
    Áætlað hefur verið að greining snemma vegna skimunar fyrir sykursýki geti t.d. minnkað líkur á hjarta- og æðasjúkdómum vegna sykursýki um tugi prósenta. 8
    Til að skimun fyrir sykursýki hjá áhættuhópum skili tilætluðum árangri er nauðsynlegt að heilsugæslan geti staðið að lífsstílstengdum forvörnum fyrir sykursýki og veitt ráðgjöf samhliða skimun fyrir sykursýki og fylgt henni eftir þegar við á, svo sem með hreyfiseðlum. Í tillögu þessari er því lagt upp með að við mat starfshópsins verði jafnframt tekið tillit til nauðsynlegrar eflingar heilsugæslunnar til að hún geti sinnt því verkefni.

Neðanmálsgrein: 1
1     Alþjóðaheilbrigðisstofnunin: Global Status Report on Noncommunicable Diseases 2014.
Neðanmálsgrein: 2
2     Alþjóðaheilbrigðisstofnunin: Diabetes: the cost of diabetes. Fact sheet N°236.
Neðanmálsgrein: 3
3     Bolli Þórsson og félagar: Læknablaðið 2009;95(4):259–66.
Neðanmálsgrein: 4
4     Hagstofa Íslands: Mannfjöldaspá 2014–2065.
Neðanmálsgrein: 5
5     Gopalan, A. og félagar: Am J Prev Med. 2015 Oct;49(4):512–9.
Neðanmálsgrein: 6
6     Bolli Þórsson og félagar: Læknablaðið 2009;95(4):259–66.
Neðanmálsgrein: 7
7     Diabetes Prevention Program Research Group: Lancet Diabetes Endocrinol. 2015;3(11):866–875.
Neðanmálsgrein: 8
8     Herman, W.H. og félagar: Diabetes Care 2015;38:1449–55.